Mál 17 2021

Mál 17/2021

Ár 2022, fimmtudaginn 13. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2021:

A og B

gegn

C og D lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 3. september 2021 erindi E lögmanns fyrir hönd kærenda, A og B, en í því er vísað til ágreinings kærenda við kærðu, C lögmann og D lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærðu, dags. 7. september 2021, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kærenda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærðu veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærðu barst þann 24. september 2021 og var hún send til lögmanns kærenda til athugasemda með bréfi þann 28. sama mánaðar. Hinn 21. október 2021 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kærenda og voru þær sendar til kærðu þann 26. sama mánaðar. Þann 11. nóvember 2021 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir og frekari gögn frá kærðu og var tilkynning þess efnis, ásamt tilgreindum gögnum, send til lögmanns kærenda samdægurs auk þess sem upplýst var um að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að endurgjaldi sem kærðu áskildu sér vegna starfa í þágu kærenda á tímabilinu frá nóvembermánuði 2019 til aprílmánaðar 2021. Laut hagsmunagæsla kærðu í þágu kærenda að undanfara og vörnum vegna málshöfðunar í gallamáli vegna fasteignakaupa og höfðun gagnsakar og matsmáls vegna sama sakarefnis, sbr. málið nr. E-xxx/20xx sem rekið mun vera fyrir héraðsdómi. Mun tilgreint mál hafa verið þingfest í héraðsdómi þann 6. maí 2020. Þá munu kærðu hafa annast hagsmunagæslu í þágu kærenda vegna málsins allt þar til gagnaöflun var lýst lokið á dómþingi þann 19. maí 2021 og bókað var um í þingbók málsins að boðað yrði til aðalmeðferðar þess.

Samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði aðila mun lögmannsstofa kærðu hafa gefið út níu reikninga á hendur kærendum vegna lögmannsstarfa á fyrrgreindu tímabili, þar á meðal vegna vinnu við rekstur þess dómsmáls sem áður er lýst.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur nr. 24502 þann 31. desember 2019 fjárhæð 86.211 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðiþjónustu kærða C og nánar tilgreinds fulltrúa í þágu kærenda.

Í öðru lagi var gefinn út reikningur nr. 24547 þann 24. janúar 2020 að fjárhæð 50.995 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðiþjónustu kærða C í þágu kærenda.

Í þriðja lagi var gefinn út reikningur nr. 24581 þann 28. febrúar 2020 að fjárhæð 91.791 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðiþjónustu kærða C í þágu kærenda.

Í fjórða lagi var gefinn út reikningur nr. 24620 þann 21. apríl 2020 að fjárhæð 112.189 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðiþjónustu kærða C í þágu kærenda, þ.e. nánar tiltekið vegna vinnu í 2.75 klst. á tímagjaldinu 32.900 krónur auk virðisaukaskatts.

Í fimmta lagi var gefinn út reikningur nr. 24669 þann 22. maí 2020 að fjárhæð 601.681 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðiþjónustu kærðu í þágu kærenda, þ.e. nánar tiltekið vegna vinnu kærða D í 22.83 klst. á tímagjaldinu 23.900 krónur auk virðisaukaskatts og 3.08 klst. vinnu kærða C á tímagjaldinu 32.900 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var tiltekið á reikningnum að veittur afsláttur næmi 25%.

Í sjötta lagi var gefinn út reikningur nr. 24699 þann 2. júlí 2020 að fjárhæð 439.318 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðiþjónustu kærðu í þágu kærenda, þ.e. nánar tiltekið vegna vinnu kærða D í 13.5 klst. á tímagjaldinu 26.900 krónur auk virðisaukaskatts og 1 klst. vinnu kærða C á tímagjaldinu 32.900 krónur auk virðisaukaskatts. Tiltekið var á reikningnum að veittur afsláttur næmi 20%. Þá tók reikningur jafnframt til útlagðs kostnaðar að fjárhæð 44.997 krónur án virðisaukaskatts.

Í sjöunda lagi var gefinn út reikningur nr. 24777 þann 13. október 2020 að fjárhæð 186.794 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðiþjónustu kærða D í þágu kærenda, þ.e. nánar tiltekið vegna vinnu í 7 klst. á tímagjaldinu 26.900 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var tiltekið á reikningnum að veittur afsláttur næmi 20%.

Í áttunda lagi var gefinn út reikningur nr. 24823 þann 30. nóvember 2020 að fjárhæð 286.409 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðiþjónustu kærðu í þágu kærenda, þ.e. nánar tiltekið vegna vinnu kærða D í 4 klst. á tímagjaldinu 26.900 krónur auk virðisaukaskatts og 3.75 klst. vinnu kærða C á tímagjaldinu 32.900 krónur auk virðisaukaskatts.

Loks var í níunda lagi gefinn út reikningur nr. 24941 þann 25. maí 2021 að fjárhæð 252.271 króna með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðiþjónustu kærðu í þágu kærenda, þ.e. nánar tiltekið vegna vinnu kærða D í 5.84 klst. á tímagjaldinu 26.900 krónur auk virðisaukaskatts og 2.5 klst. vinnu kærða C á tímagjaldinu 32.900 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var tiltekið á reikningnum að veittur afsláttur næmi 15%.

Fyrir liggur að allir fyrrgreindir reikningar voru greiddir athugasemdalaust af hálfu kærenda.

Á meðal málsgagna er að finna tímaskýrslur vegna starfa kærðu í þágu kærenda á tímabilinu frá 25. nóvember 2019 til 14. apríl 2021. Ágreiningslaust er að tímaskýrslur voru ekki afhentar við útgáfu reikninga og að ekki var eftir því leitað af hálfu kærenda. Í lok aprílmánaðar 2021 óskuðu kærendur eftir tímaskýrslu að baki vinnu kærðu og var þeirri beiðni sinnt þá þegar og hún send til kærenda í tölvubréfi þann 27. apríl 2021.

Í framhaldi þessa mun réttarsambandi aðila hafa lokið og kærendur leitað til annars lögmanns um hagsmunagæslu vegna héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/20xx.

Svo sem fyrr greinir var erindi kærenda í máli þessu, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, beint til nefndarinnar þann 3. september 2021.

II.

Kærendur krefjast álits nefndarinnar á því hvort um eðlilega gjaldtöku kærðu hafi verið að ræða og ef svo er ekki óska kærendur úrskurðar um hæfilega þóknun. Að mati nefndarinnar verður að leggja þann skilning í málatilbúnað kærenda fyrir nefndinni að þess sé krafist að áskilið endurgjald kærðu sæti lækkun, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Kærendur vísa til þess að erindi þeirra lúti að gjaldtöku kærðu samkvæmt sundurliðaðri tímaskýrslu sem ekki hafi legið fyrir þegar reikningar voru gerðir og sendir. Við afhendingu tímaskýrslu hafi komið fram að tímagjald hafi verið tekið fyrir akstur til og frá Selfossi og að margir tímar hafi farið í ritun greinargerðar og gagnstefnu þrátt fyrir að skjölin séu nánast samhljóða. Þá hafi einnig farið óeðlilega margir tímar í gerð matsbeiðni sem einnig hafi verið að miklu leyti samhljóða greinargerð og gagnstefnu.

Kærendur benda á að skráður tímafjöldi vegna komu á fund á Selfossi, til að skoða viðkomandi hús og til að sækja þinghald í héraðsdómi sé það mikill að svo virðist sem krafist hafi verið tímagjalds á útseldum taxta lögmanns fyrir akstur til og frá Selfossi, sbr. eftirfarandi sundurgreining í tímaskýrslu kærðu:

            Þingfesting 6.5.2020 og skoðun á eign – kærðu fara báðir         3 klst.              kr. 89.700

            Fyrirtaka 3.6.2020 – kærði D sækir þinghald                     2 klst.              kr. 53.800

            Fyrirtaka 21.9.2020                                                              2.5 klst.           kr. 67.250

            Fyrirtaka 28.9.2020                                                              3 klst.              kr. 80.700

            Matsfundur á Selfossi – kærðu sækja báðir fund                7.5 klst.           kr. 222.650

Kærendur benda á að framangreindar fjárhæðir séu án virðisaukaskatts. Samtals hafi þóknun kærðu vegna fyrrgreindra liða því verið að fjárhæð 514.100 krónur án virðisaukaskatts og því samtals 637.484 krónur með virðisaukaskatti. Hafi það verið kostnaður kærenda fyrir það vinnuframlag kærðu að mæta í fimm skipti í héraðsdóm, þ.e. í fyrirtökur sem taki aðeins skamma stund, auk skoðunar á húsi og mætingu á einn matsfund þar sem aðeins annar lögmaðurinn hafi verið boðaður.

Vísað er til þess að kærendur hafi ekki átt von á slíkri gjaldtöku vegna ferða á Selfoss og því sé leitað álits og úrskurðar nefndarinnar um það hvort ekki sé eðlilegra að miða við greiðslu samkvæmt kílómetragjaldi við slíkan akstur frekar en tímagjald lögmanns.

Kærendur benda aukinheldur á að vinnuframlag kærðu við gerð greinargerðar og gagnstefnu, sem hafi verið nánast samhljóða skjöl, hafi verið 22.83 klst., sem sé 552.420 krónur án virðisaukaskatts en 685.000 krónur með virðisaukaskatti. Þar utan hafi verið um að ræða yfirlestur kærða C á skjölunum.

Kærendur vísa einnig til þess að vinnuframlag kærðu við gerð á matsbeiðni, sem hafi verið að mestu samhljóða greinargerð og gagnstefnu, hafi verið 6.75 klst., sem sé 181.575 krónur án virðisaukaskatts en 225.153 krónur með virðisaukaskatti.

Kærendur byggja á því að þeir hafi ekki átt von á svo miklum kostnaði vegna málsins og að hvorki hafi hvarflað að þeim að þau væru að greiða tímagjald fyrir ferðir til og frá Selfossi né að svo langan tíma tæki að vinna viðkomandi skjöl. Þá hafi kærendum ekki verð grein grein fyrir áætluðum kostnaði auk þess sem tímaskýrsla hafi ekki fylgt með þeim reikningum sem sendir hafi verið. Hafi kærendum þannig ekki verið ljóst hvernig legið hafi í málinu fyrr en tímaskýrsla var loks afhent þann 27. apríl 2021.

Kærendur benda á að auk þeirrar heildarupphæðar sem tilgreind sé með virðisaukaskatti á sundurliðaðri tímaskýrslu, 1.855.386 krónur, hafi þeir greitt reikning nr. 24941 að fjárhæð 252.271 krónur. Samtals hafi kærendur því greitt 2.107.659 krónur með virðisaukaskatti fyrir þjónustu kærðu vegna málsins. Þótt veittur hafi verið afsláttur sé kostnaðurinn mun meiri en kærendur hafi átt von á, auk þess sem þeim hafi ekki verið gerð grein fyrir þessu fyrirkomulagi og líklegum kostnaði.

Í viðbótarathugasemdum kærenda er því mótmælt að skilyrði séu til að vísa málinu frá í heild eða að hluta. Vísa kærendur til þess að þeim hafi ekki borist sundurliðuð tímaskýrsla fyrr en þann 27. apríl 2021. Hafi þannig engin tímaskýrsla fylgt þeim reikningum sem greiddir hafi verið. Séu því engin rök til að vísa málinu frá enda eðlilegt að miða andmælarétt kærenda við það tímamark þegar sundurliðuð tímaskýrsla var afhent.

Ítreka kærendur að þeir hafi ekki verið upplýstir um hvernig gjaldtöku yrði háttað fyrir ferðir á Selfoss. Vísa kærendur einnig til þess að skoðun kærðu á fasteigninni hafi tekið mjög skamman tíma auk þess sem matsfundur á heimili kærenda hafi einungis tekið tvær klukkustundir. Mótmæla kærendur því að tveir lögmenn á sömu lögfræðistofu hafi þurft að koma á þann funda enda aðeins annar þeirra boðaður á fundinn. Mótmæla kærendur samkvæmt því að um hóflega gjaldtöku hafi verið að ræða.

Varðandi athugasemdir við tímafjölda að baki skjalagerð ítreka kærendur að skjölin séu að mestu leyti samhljóða og að texti sé að mestu „copy og paste“ á milli skjala. Sé það ekki tímafrek vinna. Benda kærendur einnig á varðandi umfang og eðli málsins að um hafi verið að ræða venjulegt gallamál þar sem álitamál hafi verið um ólokin verk, frágang framkvæmda og vitund seljanda. Fléttist slík atriði venjulega saman í slíkum málum og hafi því ekkert verið afbrigðilegt í máli kærenda.

Að endingu mótmæla kærendur kröfu kærðu um málskostnað.

III.

Kærðu krefjast þesss aðallega að kröfum kærenda verði vísað frá nefndinni en til vara að þeim verði hafnað. Þá krefjast kærðu málskostnaðar úr hendi kærenda.

Varðandi kröfu um frávísun vísa kærðu til þess að meira en ár sé liðið frá því að kærendur áttu þess kost að koma kvörtuninni á framfæri, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Lúti erindi kærenda þannig að endurgjaldi samkvæmt reikningum sem útgefnir voru á tímabilinu frá 31. desember 2019 til 25. maí 2021. Samkvæmt því hafi verið liðið meira en ár frá útgáfu og greiðslu allra reikninganna nema þriggja er erindi kærenda var móttekið hjá nefndinni. Sé þar um að ræða reikninga sem útgefnir voru 13. október 2020, 30. nóvember 2020 og 25. maí 2021, samtals að fjárhæð 725.474 krónur með virðisaukaskatti, vegna vinnu á tímabilinu 31. júlí 2020 til 14. apríl 2021. Verði málinu ekki vísað frá í heild sinni krefjast kærðu þess að því verði vísað frá að hluta og að nefndin fjalli aðeins um endurgjald samkvæmt þessum þremur reikningum.

Varðandi heildarkostnað við rekstur málsins er vísað til þess að kærendur hafi greitt samtals 1.662.227 krónur auk virðisaukaskatts vegna 72 klst. vinnu kærðu. Þar af hafi 8.5 klst. verið unnar við sáttatilraunir áður en dómsmál hafi verið höfðað gegn kærendum. Í rekstur dómsmálsins hafi því verið varið 63.5 klst. Vegna þeirrar vinnu hafi kærendur greitt 1.387.077 krónur auk virðisaukaskatts. Telja kærðu að þar hafi verið um að ræða mjög hóflegt endurgjald, miðað við umfang dómsmálsins.

Kærðu benda á að þegar kærendur hafi skipt um lögmann hafi gagnaöflun verið lokið og aðeins aðalmeðferð málsins eftir. Hafi mikil vinna farið í varnir kærenda. Í upphafi hafi þurft að greina málstað þeirra, sem meðal annars hafi falið í sér skoðun á fasteigninni og samskipti við iðnaðarmenn og sérfræðinga. Jafnframt því hafi þurft að taka til varna með samningu greinargerðar. Að athuguðu máli hafi einnig verið nauðsynlegt að höfða gagnsök, með samningu og birtingu gagnstefnu, og taka afstöðu til varna og gagna aðalstefndu í gagnsökinni. Í kjölfarið hafi þurft að láta dómkveðja matsmenn til að staðreyna gallana, mæta á matsfund og leggja mat á áhrif matsgerðar á málsstað kærenda. Nauðsynlegt hafi verið að eiga samskipti við matsmann vegna atriða sem gleymst hafi að taka tillit til í matsgerðinni og matsmaður hafi loks fallist á að leiðrétta. Einnig hafi þurft að leita upplýsinga hjá ýmsum aðilum undir rekstri málsins, t.d. fasteignasala, byggingaryfirvöldum, hönnuði hússins o.fl. Þá hafi samskipti við kærendur verið sérstaklega mikil en aðeins lítill hluti þeirra hafi verið skráður og reikningsfærður.

Kærðu vísa til þess að lögfræðilega hafi ágreiningurinn verið margþættur og ekki aðeins snúið að vansmíði fasteignarinnar, heldur einnig að því hvort seljandi fasteignarinnar hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína, bæði varðandi eiginleika fasteignarinnar, svo sem þakleka og ókláraðar raflagnir o.fl., og varðandi athugasemdir byggingaryfirvalda við lokaúttekt hússins. Þá hafi verið tekist á um þýðingu skjals sem hafi verið hluti af sölugögnum fasteignarinnar, en kærendur byggi á að seljandi hafi þar veitt rangar upplýsingar.

Kærðu benda á að kærendum hafi verið veittur umtalsverður afsláttur af venjulegu tímagjaldi. Að teknu tilliti til afsláttarins hafi tímagjald kærða C verið 30.486 krónur auk virðisaukaskatts og tímagjald kærða D 20.529 krónur auk virðisaukaskatts. Byggja kærðu á að hvoru tveggja hafi verið hóflegt.

Kærðu benda aukinheldur á að kærðu hafi aldrei lýst nokkurri óánægju með vinnu þeirra eða áskilið tímagjald. Allir reikningarnir í málinu hafi verið greiddir án fyrirvara eða athugasemda. Þá hafi kærendur aldrei óskað eftir því að reikningar yrðu endurskoðaðir eða lækkaðir. Samkvæmt því hafi kærðu haft engan grun um óánægju kærenda fyrr en þeim barst erindi nefndarinnar í máli þessu.

Varðandi ferðir á Selfoss vísa kærðu í fyrsta lagi til til þess að ferð þann 6. maí 2020 hafi verið vegna fundar með kærendum og hafi hann verið bókaður strax í kjölfar þingfestingar málsins til að spara kostnað við mætingu. Á fundinum hafi kærðu skoðað viðkomandi fasteign, rætt við kærendur um rekstur og varnir vegna málsins, nauðsyn þess að láta dómkveðja matsmann og fleira það sem eðlilegt hafi verið að ræða við þann sem nýlega hafi verið stefnt í dómsmáli. Á þetta hafi verið skráðar 2 klst. á kærða C og 1 klst. á kærða D. Hafna kærðu því að um óþarflega marga tíma hafi verið að ræða og benda einnig á að raunverulega hafi mestur hluti vinnudagsins farið í ferðina og fundinn. Þá hafi reikningur vegna þessarar vinnu verið útgefinn 22. maí 2020 og greiddur skömmu síðar. Samkvæmt því sé kvörtun vegna þessa of seint fram komin.

Í öðru lagi vísa kærðu til þess að 2 klst. hafi verið skráðar í mætingu í fyrirtöku þann 3. júní 2020 þar sem lögð hafi verið fram greinargerð og þingfest gagnstefna kærenda. Hafna kærðu því að þar sé um of marga tíma að ræða. Þá hafi reikningur vegna þessarar vinnu verið gefinn út þann 2. júlí 2020 og greiddur skömmu síðar. Séu athugasemdir kærenda því of seint fram komnar.

Í þriðja og fjórða lagi vísa kærðu til þess að um hóflega tímaskráningu hafi verið að ræða vegna ferðar og mætingar í þinghald til framlagningar matsbeiðni þann 21. september 2020, 2.5 klst., og ferðar og mætingar í þinghald þann 28. sama mánaðar, 3 klst., þar sem matsmaður hafi verið dómkvaddur og gögn tekin saman fyrir hann. Vísa kærðu til þess að þeir hafi talið líklegt að dómkvaðningu yrði mótmælt og að því hafi verið nauðsynlegt að mæta sjálfir í þinghöldin enda gæti mætingamaður ekki gætt hagsmuna kærenda nægilega vel. Mótmæla kærðu því að tilgreindar vinnustundir séu of mikill tími í ferð fram og til baka á Selfoss, mætingu í fyrirtöku og samantekt gagna fyrir matsmann.

Varðandi vinnustundir vegna matsfundar þann 4. nóvember 2020, alls 7.5 klst., vísa kærðu í fimmta lagi til þess að um hafi verið að ræða eina fundinn sem matsmaður hafi haldið vegna málsins og því hafi hann verið langur. Á fundinum hafi verið tekin fyrir öll þau atriði sem hefðbundið sé að taka fyrir á matsfundi, þ.e. dómkvaðninguna, boðun til fundarins, matsspurningar o.s.frv. Auk þess hafi matsmaður skoðað allt það sem óskað hafi verið álits hans á, en þar hafi verið um mörg atriði að ræða. Mótmæla kærðu því að tímaskráning hafi verið óhófleg.

Kærðu vísa til þess að þeir hafi báðir sótt fundinn og hafi kærði C skráð 3.5 klst. vegna fundarins og kærði D 4 klst., en hluti vinnu hins síðargreinda hafi verið við undirbúning fyrir fundinn. Hafi ferðin austur og fundurinn tekið raunverulega mun lengri tíma. Jafnframt því hafi kærendum mátt vera ljóst að báðir kærðu hefðu sótt fundinn enda kærendur viðstaddir. Einnig hafi kærendum mátt vera ljóst að vinna lögmannanna hefði verið reikningsfærð, enda reikningur vegna hennar útgefinn 30. nóvember 2020 og greiddur skömmu síðar án athugasemda. Vísa kærðu til þess að nauðsynlegt hafi verið að hafa þá báða viðstadda enda hafi kærandi A hringt jöfnum höndum í báða kærðu, jafnvel samdægurs og til að ræða sömu atriði við báða. Hafi kærðu því talið nauðsynlegt að vera upplýstir um framgang málsins og þekkja af eigin raun til þess sem fram fór á matsfundinum.

Varðandi ferðirnar almennt vísa kærðu til þess að kærendur hafi vitað að kærðu hefðu starfsstöð í Reykjavík og að málið væri rekið fyrir héraðsdómi. Allir reikningar í málinu væru vegna tímagjalds, svo sem skýrt hafi komið fram í reikningunum. Aldrei hafi verið innheimt kílómetragjald eða með öðrum hætti rukkað fyrir vinnu í málinu. Ítreka kærðu einnig að allir reikningar vegna málsins hafi verið greiddir athugasemdalaust. Sé því ótrúverðugur málatilbúnaður kærenda um að ekki hafi hvarflað að þeim að greitt væri tímagjald vegna ferðanna. Þá vísa kærðu loks til þess að jafnvel þótt tímafjöldi vegna ferðanna yrði af einhverjum ástæðum talinn mikill, þá verði að líta til þess að ferðirnar voru aðeins mjög lítill hluti vinnunnar við málið og heildarkostnaður vegna reksturs þess var hóflegur.

Kærðu vísa að endingu til þess að kærendum hafi verið send tímaskýrsla vegna málsins um leið og eftir henni hafi verið leitað, þ.e. þann 27. apríl 2021. Benda kærðu einnig á að hinn 4. júní 2021 hafi kærðu greitt án athugasemda reikning sem gefinn hafi verið út þann 25. maí sama ár. Auk þess hafi kærendur óskað eftir vinnu kærðu í maí 2021, í tengslum við útgáfu veðleyfis á hina umþrættu fasteign. Verði því vart séð að tímaskýrslan hafi vakið þá undrun kærenda sem lögmaður þeirra haldi fram í erindi til nefndarinnar.

Í viðbótarathugasemdum kærðu er því mótmælt að kærendum hafi ekki verið mögulegt að bera ágreining sinn undir nefndina fyrr en 27. apríl 2021, enda hafi kærendur fyrir það tímamark móttekið og greitt flesta reikninga málsins án athugasemda. Hafi þeir reikningar borið með sér fjölda vinnustunda að baki hverjum reikningi. Samkvæmt því hafi kærendum mátt vera ljóst að ekki væri innheimt kílómetragjald eða með öðrum hætti rukkað fyrir vinnu vegna málsins.

Kærðu lýsa því að þeir séu ósammála því að fyrsti fundurinn á Selfossi hafi tekið „mjög skamman tíma.“ Vísa kærðu til þess að hið rétta séð að þeir hafi eytt verulegum tíma í skoðun fasteignarinnar, t.d. skriðið um háaloft hennar o.fl., enda hafi athugasemdir kærenda við ástand eignarinnar verið fjölmargar. Vegna fundarins og mætingar á reglulegt dómþing hafi verið skráðar samtals 3 klst. af vinnu. Sé það ekki óeðlilegt.

Kærðu eru ósammála málatilbúnaði kærenda um vinnu við greinargerð, gagnstefnu og matsbeiðni. Rétt sé að kröfur kærenda í gagnsök hafi byggt að mestu leyti á sömu málsástæðum og sýknukrafa þeirra í aðalsök og því hafi málsástæðukaflar þessara skjala óhjákvæmilega verið að nokkru leyti samhljóða. Það sama eigi við um málsatvikalýsingu. Hins vegar hafi sannanlega verið vinna fólgin í ritun þessara skjala, t.d. við ákvörðun um höfðun gagnsakar, samningu og birtingu gagnstefnu, samningu margra matsspurninga o.s.frv. Benda kærðu á mikilvægi þess að vandað sé til við samningu matsspurninga svo gagn sé af matsgerð. Telja kærðu síður en svo að innheimt hafi verið of hátt gjald fyrir þessa vinnu.

Að endingu benda kærðu á að gallar fasteignarinnar hafi verið ýmiss konar, t.d. varðandi vansmíði, opinbera skráningu, vanrækta upplýsingagjöf, áskilda kosti o.fl. Ítreka kærðu að þurft hafi að höfða gagnsök til að freista þess að fá dóm um kröfur kærenda og láta dómkveða matsmann til að meta gallana. Fyrir vinnu kærðu við málið hafi kærendur greitt samtals 1.387.077 krónur auk virðisaukaskatts en þá hafi aðeins verið eftir aðalmeðferð málsins. Byggja kærðu á að það sé hóflegt endurgjald, hvernig sem litið sé á málið.

Niðurstaða

                                                                          I.

Kærðu hafa krafist þess í málinu að því verði í heild sinni vísað frá nefndinni. Hafa kærðu um þá kröfugerð vísað til þess að erindi kærenda varðandi ágreining um endurgjald vegna starfa kærðu sé of seint fram komið. Samkvæmt þeirri kröfugerð þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins.

Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sína eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er jafnframt tiltekið að nefndin vísi frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri. Er slíkt jafnframt áréttað í 6. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem kveðið er á um að erindi til nefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 verði að berast henni eigi síðar en einu ári eftir að kostur var á að koma því á framfæri við nefndina en að öðrum kosti beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Fyrir liggur að kærðu önnuðust lögmannsstörf í þágu kærenda óslitið allt frá nóvembermánuði 2019 til aprílmánaðar 2021. Á grundvelli þeirrar hagsmunagæslu gaf lögmannsstofa kærðu út reikninga á hendur kærendum með reglulegu millibili, þ.e. alls níu reikninga, svo sem nánar er rakið í málsatvikalýsingu að framan. Var hinn síðasti reikningur sem tók til lögmannsstarfa kærðu í þágu kærenda þannig gefinn út þann 25. maí 2021, eða rúmum þremur mánuðum áður en kærendur beindu ágreiningsmáli um endurgjaldið til nefndarinnar eftir ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Með hliðsjón af hinu viðvarandi samningssambandi aðila frá nóvember 2019 allt til aprílmánaðar 2021 og því að tímaskýrsla vegna heildarstarfa kærðu í þágu kærenda var afhent kærendum þann 27. apríl 2021 verður ekki talið að skilyrði séu til að vísa málinu frá nefndinni á grundvelli þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Samkvæmt því er kröfu kærðu um frávísun málsins hafnað og verður það því tekið til efnisúrlausnar.

II.

Áður er rakið efni 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 þar sem fram kemur að hægt sé að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

III.

Ágreiningslaust er að kærendur leituðu til kærðu í nóvembermánuði 2019 vegna ætlaðra galla á fasteign sem þeir höfðu fest kaup á með samningi, dags. 27. september 2019. Fyrir liggur að kærðu tóku að sér hagsmunagæslu í þágu kærenda vegna málsins. Fólst meðal annars í þeirri hagsmunagæslu sáttaumleitanir á frumstigum máls, gagnaöflun, ritun greinargerðar vegna varna fyrir héraðsdómi í málinu nr. E-xxx/20xx sem þingfest var þann x. maí 20xx, höfðun gagnsakar vegna málsins, ritun matsbeiðni og rekstur matsmáls undir rekstri héraðsdómsmálsins, mætingar á dómþing málsins, samskipti og fundir með kærendum og fleira.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er að finna stefnu viðkomandi máls, greinargerð og gagnstefnu sem kærðu unnu í þágu kærenda en skjölin voru lögð var fram á dómþingi þann x. júní 2020, matsbeiðni sem kærðu unnu í þágu kærenda og lögð var fram á dómþingi þann x. september 2020 og matsgerð dómkvadds matsmanns frá marsmánuði 2021. Af fyrirliggjandi þingbók málsins nr. E-xxx/20xx verður ráðið að málið hafi verið tekið fyrir alls sjö sinnum í héraðsdómi á tímabilinu frá x. maí 20xx til x. maí 20xx er gagnaöflun var lýst lokið og bókað var um í þingbók málsins að boðað yrði til aðalmeðferðar þess. Ágreiningslaust er að kærðu önnuðust hagsmunagæslu í þágu kærenda vegna málsins allt til þess tíma.

Á meðan réttarsamband aðila varði gaf lögmannsstofa kærðu út alls níu reikninga vegna lögmannsstarfa í þágu kærenda. Er gerð grein fyrir fjárhæð og efni allra þeirra reikninga í málsatvikalýsingu að framan. Líkt og þar greinir einnig verður ráðið af málatilbúnaði aðila og málsgögnum að kærendur hafi greitt alla hina útgefnu reikninga athugasemdalaust en þeir byggðu í öllum tilvikum á að endurgjald kærðu væri grundvallað á reiknuðu tímagjaldi. Ágreiningslaust er að tímaskýrslur vegna starfa kærðu í þágu kærenda voru ekki afhentar við útgáfu einstakra reikninga og að ekki var sérstaklega eftir því leitað af hálfu kærenda, sbr. 15. gr. siðareglna lögmanna. Fyrir liggur hins vegar að tímaskýrsla vegna vinnu kærðu á öllu tímabilinu var afhent kærendum þá þegar og beiðni um það efni kom fram, þ.e. nánar tiltekið þann 27. apríl 2021 eða stuttu áður en réttarsambandi aðila lauk.

Af þeim reikningum sem lögmannsstofa kærðu gaf út vegna starfa í þágu kærenda á tímabilinu frá 31. desember 2019 til 25. maí 2021 verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að kærendum hafi mátt vera ljóst að þóknun kærðu væri reiknuð á grundvelli tímaskráningar, enda gerð grein fyrir fjölda tíma og tímagjaldi á þeim reikningum sem sakarefni málsins tekur til og kærendur greiddu athugasemdalaust. Samkvæmt því verður ekki talin stoð fyrir málatilbúnaði kærenda um að þeir hafi talið að greiða ætti samkvæmt kílómetragjaldi vegna ferða kærðu á Selfoss við skoðun á fasteign, mætingu á fundi, matsfund og í þinghöld viðkomandi héraðsdómsmáls.

Í málatilbúnaði kærenda er einkum gerðar athugasemdir við þann tímafjölda sem kærðu færðu í tímaskýrslu og reikningsfærðu gagnvart kærendum vegna fyrrgreindra ferða sem og vegna ritunar greinargerðar, gagnstefnu og matsbeiðni vegna héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/20xx. Að teknu tilliti til málsgagna, þar á meðal tilgreindum skjölum sem kærðu unnu í þágu kærenda vegna héraðsdómsmálsins, sem og með hliðsjón af umfangi málsins verður ekki séð að mati nefndarinnar að sá tímafjöldi sem færður var í tímaskýrslu vegna tilgreindra verkþátta og lagður var til grundvallar við reikningsgerð hafi verið úr hófi.

Við mat á hæfilegu endurgjaldi kærðu í málinu vegna lögmannsstarfa þeirra í þágu og á kostnað kærenda verður að mati nefndarinnar að líta til framangreindra þátta, þ.e. greiðslu þeirra níu reikninga sem gefnir voru út og þeirra upplýsinga sem þar voru veittar um vinnustundir, tímagjald og þar með grundvöll þóknunar sem og umfangs þess máls sem hagsmunagæslan tók til. Þá verður jafnframt að líta til þess að við útgáfu hinna umþrættu reikninga var í nokkrum tilvikum veittur umtalsverður afsláttur vegna vinnu kærðu.

Að mati nefndarinnar var tímagjald kærðu ekki úr hófi auk þess sem á því virðist ekki sérstaklega byggt af hálfu kærenda enda þeir upplýstir um það efni við útgáfu þeirra reikninga sem greiddir voru athugasemdalaust á meðan réttarsamband aðila varði. Jafnframt verður að leggja til grundvallar að tímafjöldi samkvæmt útgefnum reikningum, sem grundvallaðir voru á tímaskýrslum kærðu, hafi ekki verið umfram það sem kærendur máttu vænta miðað við þá vinnu sem kærðu var sannanlega falið að annast og engar athugasemdir voru gerðar við af hálfu kærenda. Að áliti nefndarinnar er því ekki unnt að líta svo á að uppgjör þeirra reikninga sem lögmannsstofa kærðu gaf út vegna vinnu í þágu kærenda hafi verið ósanngjarnt í skilningi 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 og eru kærendur því við það bundnir.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, gögnum málsins, undirliggjandi hagsmunum, tímaskýrslu, athugasemdalausri greiðslu kærenda á útgefnum reikningum og að teknu tilliti til þess að kærðu veittu kærendum umtalsverðan afslátt af hluta hinna umþrættu reikninga er það mat nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun kærðu vegna starfa þeirra í þágu kærenda. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að áskilið endurgjald kærðu samkvæmt þeim níu reikningum sem útgefnir voru á hendur kærendum á tímabilinu frá 31. desember 2019 til 25. maí 2021 vegna lögmannsstarfa feli í sér hæfilegt endurgjald í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um að áskilið endurgjald kærðu sæti lækkun þannig að til endurgreiðslu komi.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu kærðu, C lögmanns og D lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni, er hafnað.

Áskilin þóknun kærðu, C lögmanns og D lögmanns, vegna starfa þeirra í þágu kærenda A og B, felur í sér hæfilegt endurgjald.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson