Mál 19 2021

Mál 19/2021

Ár 2021, þriðjudaginn 21. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2021:

A,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 9. september 2021 erindi kæranda, A þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna í störfum sínum, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 13. september 2021 og barst hún 13. október sama ár. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann 19. október 2021. Hinn 2. nóvember 2021 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða þann 3. sama mánaðar. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði aðila gætir kærði hagsmuna gagnaðila kæranda í forsjármáli. Fyrir liggur að kærandi beindi erindi til kærða um það efni þann 18. janúar 2021 sem kærði svaraði samdægurs. Kom fram í svari kærða að hann hefði tekið að sér hagsmunagæslu í þágu gagnaðila kæranda sem hefði falið honum að höfða forsjármál. Var þar einnig tiltekið að kærandi mætti eiga von á að fá kvaðningu vegna þeirrar málshöfðunar innan skamms tíma.

Á meðal málsgagna er að finna stefnu, dags. 18. janúar 2021, sem kærði undirritaði fyrir hönd umbjóðanda síns en kærandi er tilgreindur sem stefndi í málinu. Mun stefnan hafa verið birt kæranda þar sem jafnframt var tilgreint að málið yrði þingfest í Héraðsdómi Reykjaness þann x. janúar 20xx.

Áður en að þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi kom mun lögmaður kæranda hafa upplýst kærða um að ekki væri fullnægt áskilnaði 1. mgr. 33. a. barnalaga nr. 76/2003 fyrir málshöfðun þar sem sáttameðferð hefði ekki farið fram. Þakkaði kærði lögmanninum fyrir ábendinguna í tölvubréfi þann 26. janúar 2021 og upplýsti jafnframt um að ekki kæmi til þingfestingar málsins næsta dag.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréf sem kærandi sendi til kærða dagana 18. maí og 7. júlí 2021. Efni tölvubréfanna laut að fyrirspurnum um málefni barns kæranda og umbjóðanda kærða en í báðum tilvikum var tiltekið af hálfu kæranda að hann hefði leitað til umbjóðanda kærða áður en fengið þau svör að rétt væri að beina erindinu til kærða sem færi með hagsmunagæslu í málinu. Ágreiningslaust er að kærði svaraði ekki tilgreindum erindum kæranda.

Kærandi hefur jafnframt lagt fyrir nefndina skjáskot af skilaboðum sem umbjóðandi kærða sendi til hans þann 1. júní 2017, útprent af upplýsingum um kærða sem birtar eru á vefsíðu Lögmannafélags Íslands og yfirlit yfir mál sem kærði hefur annast hagsmunagæslu í fyrir héraðsdómstólum. Með hliðsjón af sakarefni málsins þykir ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir þessum gögnum en lýst er í umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni, sbr. kafla II. og III hér á eftir.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sem móttekið var þann 9. september 2021.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Í kvörtun er því lýst að henni sé beint að málshöfðun kærða fyrir hönd umbjóðanda gegn kæranda sem aldrei hafi átt að eiga sér stað vegna lagaskilyrða sem ekki hafi verið mætt fyrir málshöfðun. Jafnframt því eigi kærði í nánu sambandi við umbjóðanda sem gæti gefið til kynna hagsmunaárekstra. Þá hafi kærði neitað að svara tölvubréfum frá kæranda og það jafnvel þótt umbjóðandi kærða hafi vísað á kærða hvað samskipti varðar.

Nánar um hið fyrsta kvörtunarefni vísar kærandi til þess að kærði hafði höfðað málið fyrir hönd umbjóðanda síns með birtingu stefnu gagnvart kæranda þrátt fyrir að sáttameðferð hefði ekki verið reynd áður í samræmi við áskilnað 33. a. barnalaga nr. 76/2003. Bendir kærandi á að lagaskilyrðið sé ekki nýtt í lögum og að mál hafi sætt frávísun frá dómstólum þar sem sáttameðferð hafi ekki verið reynd í samræmi við lög fyrir málshöfðun. Byggir kærandi á að kærði hafi mátt vita um þetta atriði. Þannig hafi kærði annað hvort verið að ögra kæranda með háttseminni eða þá verið að taka að sér mál á sviði sem hann hafði ekki þekkingu á sem sé í andstöðu við 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 22. gr. siðareglnanna. Bendir kærandi á að kærði sem lögmaður eigi í öllu falli ekki að vita minna um íslenskan rétt en aðili sem búið hefur á landinu í fimm ár og hefur engan bakgrunn í lögfræði. Þá sé hér um að ræða grundvallaratriði í meðferð forsjármála.

Varðandi tengsl kærða við umbjóðanda bendir kærandi á að móðir umbjóðandans og systir kærða séu bestu vinkonur. Jafnframt því hafi umbjóðandi sent kæranda skilboð þann 1. júní 2017 þar sem fram hafi komið að frændi hennar, þ.e. kærði, væri „stjörnulögmaður“ á Íslandi. Sýni það fram á að tengsl kærða við umbjóðanda séu meiri en kærði láti uppi. Þá verði það einnig ráðið af málaskrá dómstóla og skráningu á vefsíðu Lögmannafélags Íslands um sérþekkingu kærða, þ.e. að hann hafi tekið að sér forsjármál í þágu tengds aðila án þess að hafa sérþekkingu á því sviði. Hafi háttsemi kærða að þessu leyti farið í bága við 3. gr. og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna

Um þriðja kvörtunarefnið vísar kærandi til þess að gagnaðili hans hafi vísað honum á kærða varðandi spurningar sem kærandi hafi haft um málefni barns þeirra. Kærði hafi hins vegar kosið að svara ekki tölvubréfum kæranda. Vísar kærandi til þess að kærða hafi borið að fylgja vilja umbjóðanda síns um að veita svör við fyrirspurnum kæranda. Byggir kærandi jafnframt á að í þessari háttsemi kærða hafi falist brot gegn 41. gr. siðareglna lögmanna. Hafi kærða í öllu falli borið að svara tölvubréfunum og benda þar á að samskipti ættu fara í gegnum lögmenn aðila, þ.e. hafi svarleysi kærða skýrst af því sjónarmiði.

Kærandi byggir á að slík ögrun eða ógn gagnvart gagnaðila umbjóðanda eigi ekki að líðast frekar en skortur á þekkingu á málefnaflokki sem lögmaður tekur að sér. Eigi það ekki hvað síst við þegar slík háttsemi veldur vanlíðan og kvíða hjá gagnaðilanum og leiðir af sér ófyrirséðan lögfræðikostnað.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða með þeim hætti að hann krefjist þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að hann hafni alfarið að hafa gerst brotlegur á nokkurn hátt í samskiptum við kæranda.

Varðandi það kvörtunarefni að gefin hafi verið út stefna á hendur kæranda í forsjármáli án þess að lagaskilyrði væru til þess vísar kærði til þess að umbjóðandi hans hafi falið honum að höfða mál á hendur kæranda vegna barns þeirra. Vegna misskilnings á milli kærða og umbjóðandans um að undanfarandi nauðsynlegt sáttaferli hefði farið fram, hafi stefna í forsjármálinu ekki verið tímabær. Hafi orðið úr í samskiptum við lögmann kæranda að þingfesta ekki málið. Vísar kærði til þess að stefnan verði væntanlega gefin út að nýju og þingfest að loknu sáttaferli, nema nýjar vendingar komi til. Bendir kærði á að stefna í forsjármáli hafi engan annan tilgang en að tryggja umbjóðanda hans fulla forsjá.

Um það kvötunarefni kæranda að til staðar séu hagsmunaárekstrar vegna skyldleika kærða við umbjóðanda bendir kærði á að ekki sé um það að ræða að kærði hafi sérstaklega „close connections“ við gagnaðila kæranda. Hið rétta sé að kærði og móðir umbjóðanda hans eigi sömu langömmu.

Hvað það kvörtunarefni varðar að kærði hafi ekki svarað tölvubréfum kæranda vísar kærði til þess að hann hafi áttað sig fljótlega á því að samskipti við kæranda væru ekki einföld. Hafi það því verið fagnaðarefni að hann skyldi vera kominn með lögmann í málið. Hafi það verið mat kærða að samskipti málsaðila ættu að fara í gegnum lögmenn, þannig að kærði væri ekki í beinum samskiptum við kæranda. Breyti engu í því samhengi þótt umbjóðandi kærða hafi vísað á kærða í samskiptum við kæranda. Vísar kærði til þess að hann hafi talið að kærandi hefði áttað sig á þessu.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Kvörtunarefni kæranda í málinu lýtur í fyrsta lagi að því að kærði hafi höfðað forsjármál fyrir hönd umbjóðanda síns gegn kæranda þrátt fyrir að lagaskilyrði um að sáttameðferð hefði áður verið reynd hafi ekki verið fullnægt, sbr. 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003. Hafi kærði með háttseminni annað hvort verið að ögra eða ógna kæranda eða þá tekið að sér mál án þess að hafa fullnægjandi þekkingu á réttarsviðinu. Hafi háttsemi kærða að þessu leyti farið í bága við 3. mgr. 8. gr. og 22. gr. siðareglna lögmanna. Kærði hefur á hinn bóginn vísað til þess að um misskilning hafi verið að ræða á milli hans og umbjóðanda um að undanfarandi sáttaferli hefði farið fram. Þegar í ljós hafi komið að svo væri ekki hafi verið tekin ákvörðun um að þingfesta ekki málið og það tilkynnt lögmanni kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði. Tilgreint ákvæði siðareglnanna er að finna II. kafla þeirra þar sem kveðið er á um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum. Fyrir liggur að kærði hefur gætt hagsmuna gagnaðila kæranda í viðkomandi forsjármáli. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að kærði geti hafa gert á hlut kæranda með háttsemi strítt hafi gegn tilgreindu ákvæði siðareglnanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Sömu rök eiga við um ætluð brot kærða gegn 22. gr. siðareglnanna sem mælir fyrir um að lögmaður skuli kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu. Er þá til þess að líta að ákvæðið er að finna í III. kafla siðareglnanna sem tekur til samskipta lögmanna og dómstóla. Þá er þess einnig að gæta að á grundvelli ábendingar lögmanns kæranda var fallið frá þingfestingu málsins sem fyrirhuguð hafði verið þann 27. janúar 2021.

Í samræmi við framangreint verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 með þeirri málshöfðun sem hann stóð að með stefnu, dags. x. janúar 20xx, sem birt var kæranda.

Í öðru lagi hefur kærandi byggt á því að tengsl kærða við umbjóðanda sinn og gagnaðila kæranda hafi verið í andstöðu við 3. gr. og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Kærði hefur á hinn bóginn hafnað þeim málatilbúnaði og bent á að einu tengslin við umbjóðanda séu þau að hann og móðir umbjóðandans eigi sömu langömmu.

Að mati nefndarinnar er ekkert komið fram um það að kærði hafi látið óviðkomandi hagsmuni hafa áhrif á ráðgjöf sína í málinu í þágu skjólstæðings síns, sbr. 2. mgr. 3. gr. siðareglnanna. Þá verður ekki talið að 1. mgr. 8. gr. siðareglnanna geti tekið til atvika máls og kvörtunarefnis enda kærandi ekki umbjóðandi kærða í skilningi II. kafla siðareglnanna. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að kærði hafi gert á hlut kæranda vegna þessa kvörtunarefnis.

Þriðja og síðasta kvörtunarefni kæranda lýtur að því að kærði hafi ekki svarað tölvubréfum hans frá 18. maí og 7. júlí 2021 sem varðað hafi málið þrátt fyrir að umbjóðandi kærða hafi vísað á hann um svör vegna fyrirspurna kæranda. Hafi sú háttsemi kærða verið í andstöðu við 41. gr. siðareglna lögmanna. Kærði hefur á hinn bóginn vísað til þess að hann hafi talið að samskipti málsaðila ættu að fara í gegnum lögmenn þeirra. Hafi kærða þannig ekki borið nein skylda til að svara kæranda og breyti engu þar um þótt umbjóðandinn hafi vísað á kærða í samskiptum við kæranda.

Samkvæmt 41. gr. siðareglnanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

Ágreiningslaust er að lögmaður annaðist hagsmunagæslu vegna viðkomandi máls í þágu kæranda er hann beindi fyrrgreindum tölvubréfum til kærða dagana 18. maí og 7. júlí 2021. Jafnframt liggur fyrir að kærði var upplýstur um þá hagsmunagæslu, sbr. tölvubréfasamskipti lögmanna frá 26. janúar 2021 sem eru á meðal málsgagna fyrir nefndinni. Ekki verður annað ráðið en að sú hagsmunagæsla hafi staðið enn er tölvubréfin voru send kærða enda fékk lögmaður kæranda blint afrit („BCC“) af því tölvubréfi sem kærandi sendi til kærða þann 7. júlí 2021.

Þrátt fyrir efni 41. gr. siðareglnanna er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 26. gr. þeirra má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ef aðili, sem falið hefur mál sitt lögmanni, snýr sér sjálfur til lögmanns gagnaðila um það mál, skal lögmaður gagnaðila vísa aðila frá sér, nema brýnar ástæður bjóði annað, sbr. 2. mgr. 26. gr. siðareglnanna.

Í samræmi við 2. mgr. 26. gr. siðareglnanna bar kærða að vísa kæranda, sem gagnaðila, frá sér vegna þeirra tölvubréfa sem hann fékk send í maí- og júlímánuði 2021. Með hliðsjón af efni 41. gr. siðareglnanna hefði kærða verið réttara að gera það með svari við fyrrgreindum tölvubréfum og tilvísun til 2. mgr. 26. gr. siðareglnanna í stað þess að láta þau óhreyfð gagnvart kæranda. Að mati nefndarinnar verður hins vegar ekki fram hjá því litið að lögmaður kæranda sjálfs hefði getað upplýst kæranda um þetta efni enda fékk hann blint afrit af tölvubréfinu frá 7. júlí 2021, svo sem fyrr greinir. Samkvæmt því og með vísan til atvika að öðru leyti verður ekki talið að kærði hafi að þessu leyti gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Í samræmi við allt framangreint hefur ekki verið leitt í ljós í málinu að kærði hafi gert á hlut kæranda í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Er kröfu kæranda, um að kærða verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Kristinn Bjarnason

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson