Mál 2 2021
Mál 2/2021
Ár 2021, miðvikudaginn 24. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 2/2021:
A, B og C
gegn
D lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. janúar 2021 erindi E lögmanns fyrir könd kærenda A, B og C, en það lýtur annars vegar að ágreiningi um endurgjald í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna starfa kærðu, D lögmanns og hins vegar að því að kærða hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna í störfum sínum. F lögmaður fer með mál kærðu fyrir nefndinni.
Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 13. janúar 2021 og barst hún þann 9. febrúar sama ár. Var lögmanni kærenda send greinargerð kærðu til athugasemda með bréfi þann 11. febrúar 2021. Hinn 8. mars 2021 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir kærenda og voru þær sendar kærðu þann 9. sama mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Um málsatvik er í málatilbúnaði kærenda vísað til þess að faðir þeirra, G, hafi látist þann x. apríl 20xx en hann hafi verið búsettur í Bandaríkjunum. Þann x. júní 20xx hafi kærendur, sem erfingjar hins látna, fengið leyfi frá sýslumanni til einkaskipta. Á sama tíma hafi kærða fengið umboð frá kærendum til að koma fram af þeirra hálfu og í nafni dánarbúsins í samskiptum við aðra.
Kærendur vísa til þess að eignir dánarbúsins á Íslandi hafi í fyrsta lagi verið 100% eignarhlutur í H ehf., en tilgreint félag haft átt eina fasteign að J í Reykjanesbæ sem verið hafi í útleigu. Í öðru lagi hafi fasteignin að K í Hveragerði og innbú hennar verið eign dánarbúsins og í þriðja lagi fasteignin að L í Reykjavík auk innbús.
Kærendur benda á að hinn látni hafi einnig átt eignir í Bandaríkjunum sem ekki hafi komið dánarbúinu á Íslandi við, svo sem fasteign og innbú, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um erfðafjárskatt nr. 14/2004. Vísað er til þess að í erfðaskrá sem hinn látni hafði gert samkvæmt lögum New York fylkis hafi kærða, þ.e. bróðurdóttur hins látna, verið tilnefnd sem „Executor“, en slíkur aðili hafi það hlutverk að koma eignum í verð o.fl. Hafi það verið hinsti vilji hins látna en ekki kærenda. Benda kærendur á að vegna þess hlutverks sé greidd þóknun í samræmi við löggjöf New York fylkis. Miðað við að verðmæti viðkomandi fasteignar í Bandaríkjunum væri 750.000 dollarar yrði þóknun kærðu 2.846.790 krónur, þ.e. miðað við gengi 121,14 á dánardegi, úr erlenda dánarbúinu vegna hennar hlutverks. Er vísað til þess að í upphafi hafi hins vegar verið gerðar vonir um að það fengist allt að 1.000.000 dollara fyrir fasteignina, sem veitt hefði kærðu 4.118.760 krónur í þóknun, en að það mat hafi verið endurskoðað á síðari stigum.
Kærendur vísa til þess að fljótlega eftir andlátið hafi komið í ljós að gerðar höfðu verið breytingar á erfðaskránni þess efnis að hinn látni arfleiddi viðkomandi fasteign og innbú í Bandaríkjunum til umsjónarkonu/aðstoðarkonu sinnar sem hann hafði ráðið einhverjum vikum eða mánuðum fyrir andlátið. Lýsa kærendur því að þeir hafi óskað eftir að kærða myndi sem „Executor“ ráða lögmann ytra til að véfengja breytinguna á erfðaskránni. Hafi kærða fallist á það.
Í samræmi við framangreint vísa kærendur til þess að kærða hafi á þessum tíma verið með þrenns konar verkefni, þ.e. tvö fyrir kærendur og eitt fyrir dánarbúið í Bandaríkjunum. Fyrir kærendur hafi kærða þannig annars vegar annast umboðmennsku vegna einkaskipta á Íslandi og hins vegar véfengingu á breyttri erfðaskrá í Bandaríkjunum. Fyrir dánarbúið í Bandaríkjunum hafi kærða svo gegnt fyrrgreindri stöðu sem „Executor“. Lýsa kærendur því að kærðu hafi borið að halda þessum verkefnum aðskildum hvað varðar þóknun og útlagðan kostnað.
Kærendur vísa til þess að þann x. júlí 20xx hafi verið haldinn hluthafafundur í H ehf. þar sem M hafi verið skipaður í stjórn félagsins og kærða í varastjórn. Þá hafi kærða einnig verið skráð sem framkvæmdastjóri og fengið prókúruumboð. Vísa kærendur til þess að hin breytta skráning hafi verið gerð án samráðs við þá.
Kærendur benda á að þann x. ágúst 20xx hafi K í Hveragerði verið seld. Þann sama dag hafi kærða millifært 2.000.000 króna af reikningi dánarbúsins inn á reikning lögmannsstofu hennar án útgáfu reiknings og án staðfestingar eða samþykkis kærenda. Er vísað til þess að þann sama dag hafi kærendur, hver og einn, fengið greiddar 10.000.000 króna úr dánarbúinu, eða samtals 30.000.000 króna.
Í atvikalýsingu kærenda er vísað til þess að þann x. september 20xx hafi kærða gert þrjá leigusamninga fyrir hönd fyrrgreinds einkahlutafélags vegna iðnaðarhúsnæðisins að J, án samráðs við kærendur.
Ennfremur vísa kærendur til þess að gert hafi verið tilboð í fyrrgreinda fasteign að J þann 11. september 2019 að fjárhæð 25.000.000 króna, en það hafi verið háð fyrirvara um fjármögnun. Í kjölfar þess að fjármgögnun hafi ekki tekist hafi komið annað tilboð að fjárhæð 21.000.000 króna, nánar tiltekið þann x. október 20xx, og hafi því verið tekið. Varðandi samþykki tilboðsins hafi kærða vísað til þess að ásigkomulag húsnæðisins væri ekki gott. Hafi verið gengið frá kaupsamningi næsta dag, þann x. október 20xx, og kærða séð alfarið um söluna. Þá hafi verið gengið frá afsali vegna viðskiptanna þann x. nóvember 20xx.
Kærendur vísa til þess að þann 11. október 2019 hafi kærða millifært 500.000 krónur af reikningi dánarbúsins inn á eigin lögmannsstofu án útgáfu reiknings, staðfestingar eða samþykkis af hálfu kærenda. Hafi kærða gert slíkt hið sama þann 11. nóvember 2019 er 450.000 krónur voru millifærðar af reikningi dánarbúsins inn á reikning lögmannsstofu hennar.
Bent er á að þann x. desember 20xx hafi verið gerður kaupsamningur vegna L í Reykjavík og að kaupverð eignarinnar hafi verið 63.700.000 krónur. Vísa kærendur til þess að með því hafi verið búið að selja allar eignir dánarbúsins á Íslandi, einnig innbú. Hafi afsal vegna viðskiptanna verið undirritað þann x. janúar 20xx, en eftir þann tíma hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að gera upp dánarbúið á Íslandi og greiða erfðafjárskatt. Það hafi þó ekki verið gert þrátt fyrir margar fyrirspurnir frá kærendum.
Kærendur vísa til þess að þann 3. janúar 2020 hafi kærða millifært 500.000 krónur af reikningi dánarbúsins inn á eigin lögmannsstofu án útgáfu reiknings, staðfestingar eða samþykkis af hálfu kærenda.
Kærendur vísa til þess að málið hafi haldið áfram í Bandaríkjunum og að það sé enn í gangi. Þann 23. september 2020 hafi kærendur fengið N til að kalla eftir gögnum frá kærðu vegna dánarbúsins til yfirferðar.
Kærendur benda á að þann 8. október 2020 hafi verið gefnir út tveir reikningar af hálfu lögmannsstofu kærðu, þ.e. annars vegar að fjárhæð 3.000.000 króna með virðisaukaskatti til dánarbúsins á Íslandi og hins vegar 450.000 krónur með virðisaukaskatti til H ehf. Er vísað til þess að tilgreindir reikningar hafi verið sendir til fyrrgreinds N þennan sama dag, auk annarra gagna.
Kærendur lýsa því að þeir hafi leitað til annars lögmanns þann 9. október 2020. Sama dag hafi umboð kærðu verið afturkallað og sýslumaður verið látinn vita af nýjum umboðsmanni kærenda vegna einkaskiptanna. Þá hafi kærða staðfest móttöku afturköllunarinnar með tölvupósti þann 12. sama mánaðar.
Vísað er til þess að þann 14. október 2020 hafi kærða millifært 4.716.532 krónur af reikningi dánarbúsins inn á reikning eigin lögmannsstofu án staðfestingar eða samþykkis kærenda. Hafi sú ráðstöfun verið framkvæmd eftir afturköllun umboðs. Þennan sama dag hafi verið gefinn út reikningur af hálfu lögmannsstofu kærðu að sömu fjárhæð, þ.e. 4.716.532 krónur með virðisaukaskatti, til dánarbúsins á Íslandi. Vísa kærendur til þess að sá reikningur hafi þó ekki borist fyrr en þann 2. desember 2020. Þann 14. október 2020 hafi kærða einnig sent bréf til nýs lögmanns kærenda þar sem upplýst hafi verið um umboðmennsku hennar í þágu kærenda.
Kærendur lýsa því að lögmaður þeirra hafi sent bréf til kærðu þann 4. nóvember 2020 þar sem óskað hafi verið eftir svörum og upplýsingum jafnframt því sem krafist hafi verið endurgreiðslu á síðustu millifærslunni sem framkvæmd hafði verið þann 14. október 2020. Í svari kærðu, dags. 25. nóvember 2020, hafi öllum kröfum kærenda verið hafnað fyrir utan að einhverjar upplýsingar voru veittar.
Kærða hefur á hinn bóginn andmælt sjónarmiðum kærenda og bent á að ekkert tilefni hafi verið til að gera athugasemdir við störf hennar. Bendir kærða á að verkefni hennar við skipti dánarbúsins í þágu kærenda hafi einkum lotið að þremur atriðum, þ.e. í fyrsta lagi að sölu og skiptingu eigna hins látna á Íslandi, í öðru lagi að skiptingu á eignum hins látna í Bandaríkjunum og þar með ágreiningsmáli um erfðaskrá þar og í þriðja lagi að umsýslu og fyrirsvari fyrir félag hins látna. Kveðst kærða hafa annast þessi verkefni fyrir kærendur, en þau hafi öll lotið að skiptum á dánarbúinu þar sem kærða hafi í reynd haft stöðu skiptastjóra í umboði kærenda.
Kærða kveðst mótmæla því að kostnaður við vinnu hennar hafi verið of mikill enda hafi verkefnin verið umfangsmikil og þóknunin eðlileg og sanngjörn miðað við það. Hafi vinna kærðu enda staðið yfir í um eitt og hálft ár, eða frá vori 2019 til nóvember 2020. Mótmælir kærða því jafnframt að upplýsingagjöf hennar hafi verið „léleg“ enda hafi hún allan þennan tíma verið í miklum samskiptum við kærendur, bæði í síma, tölvubréfasamskiptum og öðrum rafrænum samskiptum. Auk þess hafi kærendur sjálfir verið með kærðu í Bandaríkjunum á vor- og haustmánuðum 2019 vegna vinnu í þágu hinna fyrrgreindu. Þar fyrir utan hafi aðilar stöðugt verið í samskiptum, enda kærendur og kærða systkinabörn.
Kærða mótmælir því að hún hafi tekið sér þóknun af eignum dánarbúsins án heimildar. Vísar kærða til þess að hún hafi verið í umfangsmikilli vinnu sem kærendur hafi aldrei getað ætlast til að hún sinnti sem lögmaður og sjálfboðaliði um leið. Bendir kærða í því samhengi á að hún hafi á sama tíma ítrekað lagt út fyrir kostnaði fyrir dánarbúið og vegna reksturs eignanna úti, svo sem kærendum hafi einnig verið vel kunnugt um. Mótmælir kærða einnig að einhver óreiða hafi verið varðandi útlagðan kostnað eða annað, enda bókhald dánarbúsins haldið af bókara lögmannsstofu kærðu með fullnægjandi hætti. Þótt örfáar villur hafi komið þar fram þá hafi verið auðvelt að lagfæra þær í afstemmingum og ekkert óeðlilegt við þær með tilliti til þess fjölda sem um var að ræða.
Kærða mótmælir því aukinheldur að skort hafi á samráð af hennar hálfu við kærendur sem erfingja dánarbúsins. Hafi kærendur þannig fengið allar upplýsingar jafnóðum og eftir þeim var leitað eða fyrr. Bendir kærða í því samhengi á fyrirliggjandi rafræn samskipti aðila sem lögð hafa verið fram í málinu. Sé þar þó aðeins um hluta samskipta að ræða en iðulega hafi samskipti einnig átt sér stað í gegnum síma auk þess sem kærendur hafi komið með ýmsum hætti beint og milliliðalaust að málum.
Um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni að öðru leyti vísast til þess sem greinir í köflum II. og III. hér á eftir.
II.
Kærendur krefjast þess að endurgjald kærðu samkvæmt fyrirliggjandi reikningum verði lækkað verulega, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Kærendur krefjast þess jafnframt að nefndin staðfesti brot kærðu á tilteknum ákvæðum siðareglna lögmanna og að fundið verði að störfum kærðu, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þá krefjast kærendur málskostnaðar úr hendi kærðu vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Kærendur lýsa því að kvörtun sé beint að of háum reikningum og lélegri upplýsingagjöf til þeirra í tengslum við endurgjald kærðu. Auk þess sé kvartað yfir því að fjármunir dánarbúsins hafi með einhliða hætti, án samþykkis og án útgáfu reikninga/vinnuskýrslna, verið teknir og ráðstafað til lögmannsstofu kærðu til greiðslu á þóknun vegna starfa kærðu. Þá hafi verið talsverð óreiða varðandi útlagðan kostnað lögmannsstofu kærðu fyrir dánarbúið og endurgreiðslu þess.
Kærendur vísa til þess að þeir hafi ráðið kærðu í tvenns konar verkefni, þ.e. annars vegar að vera umboðsmaður þeirra vegna einkaskipta á dánarbúi G á Íslandi og hins vegar til að gæta hagsmuna þeirra vegna véfengingar á breytingu á erfðaskrá í Bandaríkjunum. Er vísað til þess að skiptastjórn kærðu samkvæmt erfðaskránni hafi ekki komið kærendum við heldur hafi það verið vilji hins látna að kærða tæki það að sér sem hún hafi gert.
Vísað er til þess að kærendur hafi falið kærðu umboðmennsku í tengslum við dánarbúið á Íslandi á grundvelli heimildar í 2. mgr. 85. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt því hafi kærða ekki verið skipuð skiptastjóri í dánarbúinu heldur hafi hún komið fram sem umboðsmaður erfingja við einkaskipti. Samkvæmt því hafi ákvæði laga um einkaskipti á dánarbúum, ákvæði II. kafla laga nr. 7/1936 og almennar reglur um umboð átt við um umboðsmennsku kærðu vegna dánarbúsins á Íslandi. Hafi umboðsmenn ekki heimild til þess að taka ákvarðanir fyrir hönd umbjóðenda sinna nema það komi skýrlega fram í lögum eða umboðinu sjálfu. Um slíkt sé ekki að ræða í þessu tilviki og hafi því kærðu borið að bera allt undir erfingjana sem taka hafi þurft ákvörðun um. Það hafi hins vegar ekki verið gert í öllum tilvikum.
Kærendur vísa til þess að kvörtun lúti meðal annars að því að það hafi verið andstætt lögum, siðareglum lögmanna og umboði því sem hún hafi fengið að taka sér einhliða þóknun af fé dánarbúsins án útgáfu reiknings og án samþykkis eða staðfestingar kærenda. Hafi kærendur ekki heldur verið upplýstir um töku þóknunar fyrr en í október 2020. Þá byggja kærendur á að þóknun kærðu sé í heild sinni alltof há.
Um þetta efni byggja kærendur í fyrsta lagi á að kærða hafi hvorki sem umboðsmaður né sem lögmaður haft rétt eða heimild til að greiða sjálfri sér þóknun af því vörslufé sem hún hafi haft fyrir dánarbúið án þess að upplýsa kærendur um það, án þess að gefa út reikning og án þess að fá staðfestingu eða samþykki þeirra fyrir því. Vísa kærendur til þess að þeir hafi ekki haft hugmynd um þetta efni þar til í október 2020 þegar þeir hafi óskað eftir upplýsingum um stöðu dánarbúsins og fólu endurskoðanda að fara yfir gögn málsins. Hafi slíka heimild hvorki leitt af lögum né umboði.
Kærendur vísa til þess að þótt lögmanni kunni mögulega að vera heimilt að ráðstafa vörslufé skjólstæðings síns upp í ógreidda lögmannsþóknun sína verði að telja að slík ráðstöfun sé ávallt gerð á grundvelli útgefins reiknings, sbr. 20. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt, og á grundvelli tímaskýrslu, sbr. 2. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna. Byggja kærendur á að meðferð kærðu á fjármunum dánarbúsins hafi verið andstæð 14. gr. siðareglnanna, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998 og 20. gr. laga nr. 50/1998 og úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 16/2002.
Kærendur byggja á að enn alvarlegra sé að kærða hafi greitt sér þóknun af fjármunum dánarbúsins eftir afturköllun umboðs og án þess að kærendur hefðu móttekið reikning eða tímaskýrslur.
Í öðru lagi byggja kærendur á að þóknun kærðu sé alltof há miðað við umfang verksins vegna dánarbúsins á Íslandi. Benda kærendur á að enginn verksamningur hafi verið gerður um vinnu kærðu og að engin gjaldskrá liggi fyrir hjá lögmannsstofu kærðu. Þá hafi kærendur aldrei verið upplýstir við framvindu málsins um áfallnar vinnustundir eða kostnað vegna málsins, þrátt fyrir fjölmargar fyrirspurnir þar um.
Vísa kærendur til þess að þegar uppi hafi verið staðið, hafi lögmannsþóknun kærðu í heild sinni verið 7.014.633 krónur án virðisaukaskatts en 8.698.145 krónur með virðisaukaskatti. Hafi kærða tekið 8.166.532 krónur með virðisaukaskatti af fjármunum dánarbúsins til að greiða sér þóknun. Aftur á móti virðist þóknun kærðu í heild vera 8.985.152 krónur með virðisaukaskatti samkvæmt vinnuskýrslum. Er á það bent að ekki hafi verið gefinn út reikningur fyrir mismuninum, sem nemi 818.620 krónum með virðisaukaskatti. Leggja kærendur áherslu á að þeir hafi aldrei verið upplýstir um áfallna þóknun kærðu.
Varðandi framlagðar vinnuskýrslur kærðu þá vísa kærendur til þess að gerðar séu athugasemdir við tímafjöldann í heild sinni, þ.e. samtals 295.75 vinnustundir vegna allra verkefna. Er á það bent að tilgreindar vinnustundir hafi verið unnar án upplýsingagjafar til kærenda um það efni. Auk þess hafi verkefnum í sífellu verið blandað saman í vinnuskýrslunum sem leiði til þess að kærendur hafi átt erfitt um vik að átta sig á hvaða vinnustundir tilheyrðu hvaða verkefni.
Kærendur vísa aukinheldur til þess að kærða hafi ekki upplýst um þegar í ljós hafi komið, skömmu eftir andlát G, að þóknun kærðu yrði ansi lítil fyrir vinnu hennar ef ekki gengi að véfengja breytingu á erfðaskránni í Bandaríkjunum, sbr. tölvubréf frá lögmanni ytra til kærðu þann 21. maí 2019. Lýsa kærendur því að þeir hafi ekki fengið þetta tölvubréf í hendur fyrr en við afhendingu málsgagna í októbermánuði 2020. Sé ljóst að ef upplýsingar hefðu borist til kærenda um þetta efni hefðu þeir staldrað við og tekið meðvitaða afstöðu um hvað skyldi gera, t.d. hvort halda skyldi málinu áfram í Bandaríkjunum. Hafi kærendur þannig alls ekki gert ráð fyrir að þeir, eða dánarbúið á Íslandi, væru alfarið að greiða fyrir þjónustu kærðu í Bandaríkjunum. Hafi tilgreint tölvubréf átt að gera það að verkum að kærða settist niður með kærendum og upplýsti um þá óvissu sem ríkti um greiðslu þóknunar til hennar, þannig að hægt væri að taka meðvitaða ákvörðun um framhald málsins og greiðslu þóknunar til kærðu. Það hafi kærða hins vegar látið ógert.
Varðandi einstaka liði í vinnskýrslum kærðu benda kærendur í fyrsta lagi á að 35 – 40 klst. vinna af 67.5 klst. vegna dánarbúsins á Íslandi hafi verið vinna sem kærendur gátu sjálfir gert. Vísa kærendur til þess að þeir hafi margsinnis spurt kærðu út í hvort þeir gætu ekki sinnt þeim verkum, en því verið hafnað af hálfu kærðu. Byggja kærendur á að alltof margir tímar hafi farið í óskilgreinda umsýslu, ferðir í íbúðirnar, ljósmyndun og flokkun gagna. Auk þess hafi farið mikill tími í að halda opið hús sem sé í raun í verkahring ráðinnar fasteignasölu að annast.
Í öðru lagi gera kærendur athugasemdir við einstaka liði vegna vinnu við H ehf. Vísa kærendur til þess að kærða hafi ákveðið að setja húsnæðið ekki á sölu hjá fasteignasölu til að spara greiðslu söluþóknunar. Það hafi þó orðið dýrara ef miðað sé við 1,5% söluþóknun og að húsnæðið seldist á 21.000.000 króna, en þá hefði þóknun orðið 315.000 krónur. Viðkomandi eign hafi auk þess ekki verið auglýst heldur hafi kærða fundið kaupanda að eigninni. Þá hafi mikill tími farið í gerð einfaldra leigusamninga.
Í þriðja lagi gera kærendur miklar athugasemdir við vinnuskýrslu vegna vinnu kærðu í tengslum við dánarbúið í Bandaríkjunum. Byggja kærendur á að þar hafi kærða blandað saman verkefnum sínum sem skiptastjóri á grundvelli erfðaskrár annars vegar og hins vegar sem tengiliður milli kærenda, sem erfingja á Íslandi, og lögmannsins í New York vegna véfengingar á breytingu á erfðaskránni. Vísa kærendur til þess að það hafi verið hlutverk kærðu að sjá til þess í upphafi að greinarmunur yrðu gerður á þessum verkefnum hvað varðar töku þóknunar og að fá staðfestingu frá kærendum hvernig skyldi greitt fyrir þessa vinnu. Lýsa kærendur því að þeir hafi staðið í góðri trú um að dánarbúið ytra myndi greiða fyrir vinnu kærðu sem skiptastjóra samkvæmt erfðaskránni og þarlendum lögum. Aldrei hafi kærða fengið samþykki fyrir því frá kærendum að dánarbúið á Íslandi myndi greiða fyrir vinnuna.
Í fjórða lagi vísa kærendur til þess að þeir geri athugasemdir við óljósar tímaskráningar, svo sem þar sem fram kemur „ýmis vinna við búið“ og „umsýsla vegna dánarbús“. Sömuleiðis megi velta fyrir sér hvort þörf hafi verið á viðveru kærðu vegna skýrslutöku erlendis þar sem erlendur lögmaður hafi verið til að fara með málið.
Að öðru leyti vísa kærendur til þess að gerðar séu athugasemdir við eftirfarandi störf kærðu:
- Að ekki hafi verið gerður verksamningur við þá varðandi þóknun kærðu.
- Að kærendur hafi ekki verið upplýstir við framvindu málsins um áfallnar vinnustundir eða kostnað vegna þessa.
- Að kærða hafi ekki upplýst sérstaklega um þá óvissu sem ríkt hafi um þóknun hennar vegna starfa sem skiptastjóri dánarbúsins í Bandaríkjunum, sbr. tölvubréf dags. 21. maí 2019.
- Að kærða hafi ekki upplýst um að allt sem hún framkvæmdi vegna erfðamálsins úti, hvort sem það væri vegna starfa hennar sem skiptastjóri eða sem tengiliður kærenda, væri skráð sem vinna fyrir dánarbúið á Íslandi.
- Að kærða hafi ekki fengið fyrirfram samþykki kærenda um að halda hluthafafund í H ehf., þann 15. júlí 2019, að kjósa föður sinn í stjórn og að vera sjálf framkvæmdastjóri og með prókúruumboð. Hafi þær ráðstafanir verið framkvæmdar án vitundar kærenda og vitneskja ekki legið fyrr en seinni part árs 2020.
- Að hafa ekki auglýst J í Reykjanesbæ til sölu með almennum hætti, heldur þess í stað nálgast kunningja til að kaupa húsnæðið á 21.000.000 króna í október 20xx. Er á það bent að fasteignin hafi verið seld að nýju í nóvember 20xx á 30.000.000 króna, án þess að nokkrar viðgerðir eða framkvæmdir hefðu farið fram. Byggja kærendur á að meira hefði fengist ef húsnæðið hefði verið sett á almenna sölu, líkt og vilji þeirra hafi staðið til.
- Að kærða hafi ekki klárað að greiða erfðafjárskattinn í byrjun árs 2020 þegar dánarbúið átti fyrir honum, í samræmi við óskir kærenda þar að lútandi. Er á það bent að eftir að kærða tók út fjármuni úr dánarbúinu með ólögmætum hætti sé ekki nægilegt fjármagn til staðar til að greiða erfðafjárskatt vegna dánarbúsins.
- Að kærða hafi ekki greitt jafnt út úr dánarbúinu til kærenda sem skapi flækjustig.
- Að kærða hafi ekki upplýst kærendur um framvindu mála varðandi útlagðan kostnað dánarbúsins. Þá hafi kostnaði verið blandað saman vegna starfa kærðu sem „Executor“ og sem umboðsmaður erfingja við að véfengja breytingu á erfðaskránni. Hafi þannig fyrst komið fram í yfirliti þann 16. október 2020 að útlagður kostnaður hafi verið tæplega 5.000.000 króna. Með þóknun kærðu hafi heildarkostnaður því verið kominn í rétt tæplega 14.000.000 króna, og það án þess að kærendur hefðu vitneskju þar um.
- Að kærða hafi blandað saman persónulegum útgjöldum og útgjöldum dánarbúsins, án skýringa. Benda kærendur í dæmaskyni á mögulegt flugfargjald fyrir fullorðna dóttur kærðu að fjárhæð 46.100 krónur þann 7. maí 2019, óútskýrðar úttektir úr hraðbönkum án viðveru kærðu í Bandaríkjunum og óútskýrðan kostnað að fjárhæð 44.414 krónur vegna „Nutrapure“.
Í samræmi við allt framangreint byggja kærendur á að kærða hafi að minnsta kosti brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 og ákvæðum 2. mgr. 10. gr., 14. gr. og 15. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 2. mgr. 5. gr. fyrrgreindra laga. Auk þess sé ljóst að kærða hafi brotið gegn 20. gr. laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt með því að gefa ekki út reikninga samhliða töku þóknunar af fjármunum dánarbúsins.
Í viðbótarathugasemdum kærenda til nefndarinnar er varðandi aðildarmál vísað til þess að það sé ekki félagið H ehf. eða fyrirsvarsmenn þess sem geri athugasemdir við störf og þóknun kærðu, heldur kærendur sem erfingjar hlutafjárins í félaginu. Hafi kærða þannig ekki verið með samning við félagið sjálft um störf sín heldur hafi kærendur falið kærðu ákveðin verkefni, meðal annars að sjá um sölu á fasteign. Ekki hafi því verið um að ræða störf í þágu félagsins heldur kærenda. Benda kærendur aukinheldur á að það umboð sem kærða hafi lagt fram í málinu hafi fallið úr gildi við andlát G, sbr. 2. gr. laga nr. 20/1991. Þótt einn reikningur hafi verið gefinn út á H ehf. þá hafi hann verið greiddur með einhliða hætti og án samráðs af fjármunum fyrirtækisins inn á reikning lögmannsstofu kærðu og sé kvartað yfir þeirri háttsemi, þ.e. að fjármunir dánarbúsins á Íslandi, þar á meðal fjármunir H ehf., hafi verið nýttir með óheimilum hætti. Samkvæmt því sé því alfarið hafnað að verkefni og taka þóknunar kærðu í tengslum við félagið fyrir hönd dánarbúsins verði ekki tekin til umfjöllunar í málinu.
Kærendur ítreka að kvartað sé yfir því að kærða hafi viðhaft enga upplýsingagjöf varðandi þóknun og útlagðan kostnað í tengslum við dánarbúin tvö, á Íslandi og í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir það hafi kærða greitt sér af fjármunum dánarbúsins á Íslandi. Er á því byggt að rík skylda hvíli á lögmönnum að gera umbjóðendum sínum grein fyrir kostnaði, hvort heldur sem um ræði þóknun eða útlagðan kostnað. Hafi það staðið kærðu næst að gera samkomulag um sína þóknun, til dæmis varðandi fjárhæðir og reikningsgerð. Sama eigi við um útlagðan kostnað. Er vísað til þess að kærendur hafi enga hugmynd haft um hvað tíðkast í tengslum við ráðgjöf lögmanna og þóknun þeirra í slíkum málum. Hljóti það að vera hlutverk lögmanns að hafa frumkvæði að því að gera ráðningarbréf eða verksamning þar sem fyrrgreind atriði séu skýrð. Þá hafi það verið sérstaklega mikilvægt að upplýst væri hvernig fyrirkomulag yrði vegna verkefna í Bandaríkjunum, enda hafi kærendur staðið í þeirri trú að einungis þyrfti að greiða þóknun lögfræðingsins í Bandaríkjunum. Það hafi verið gert en kærendum hafi á hinn bóginn hvorki verið kunnugt né þeir verið upplýstir um að þeir væru með tvo aðila á fullum lögfræðitaxta að vinna í dánarbúinu ytra, þar sem einungis annar hafði þekkingu á hlutaðeigandi löggjöf. Lýsa kærendur því að þeir hefðu aldrei samþykkt slíkt fyrirkomulag, þ.e. hefðu upplýsingarnar legið fyrir.
Ítreka kærendur jafnframt efni tölvubréfasamskipta kærðu við bandaríska lögfræðinginn frá 20. og 21. maí 2019. Er á það bent að á þeim fundum sem kærendur hafi verið viðstaddir með hinum erlenda lögfræðingi hafi aðeins verið rætt almennt um málið, farið yfir gögn, málavexti og slíkt efni. Það eina sem hafi komið fram um þóknun var að „Executor“ fengi ákveðnar prósentur af búinu, ekkert annað.
Kærendur ítreka jafnframt að þóknun kærðu hafi verið alltof há miðað við umfang verks og það sem eðlilegt geti talist. Varðandi dæmi um samráðsleysi kærðu sem leitt hafi til alltof mikils kostnaðar kærenda vísa þeir jafnframt til ýmissa færslna í tímaskýrslur kærðu vegna vinnu við dánarbúið á Íslandi annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar á árunum 2019 og 2020.
Kærendur benda aukinheldur á að vinnuskýrslu vegna Bandaríkjanna hafi verið breytt án vitundar kærenda. Þannig hafi kærða sent tölvubréf til endurskoðanda kærenda þann 8. október 2020 en með því fylgdi tímaskýrsla vegna vinnu kærðu í Bandaríkjunum sem tók til alls 165,25 klst. Er bent á að kærða hafi gert upp við sjálfa sig án samráðs og samþykkis þann 14. sama mánaðar og sent viðkomandi endurskoðanda kærenda uppgjörið. Vísa kærendur til þess að ljóst sé að það uppgjör hafi farið fram á grundvelli breyttrar tímaskráningar kærðu sem ekki hafi ratað til kærenda fyrr en þann 2. desember 2020. Í hinni breyttu tímaskýrslu hafi verið bætt við 37,5 klst. og hinir auknu tímar settir inn í skýrsluna hér og þar, til að mynda í maí, júní, júlí og ágúst 2019. Vísa kærendur til þess að ef slík háttsemi teljist til góðra lögmannshátta sé þörf á endurskoðun á því hugtaki.
Kærendur mótmæla því að þeir hafi ekki verið tilbúnir að leggja út fyrir kostnaði vegna reksturs eignarinnar í Bandaríkjunum. Vísa kærendur til þess að kærða hafi verið með vörslureikning með fjármunum kærenda og hafi það sérstaklega verið gert til að greiða útgjöld vegna dánarbúsins og lögfræðikostnað ytra. Jafnframt liggi fyrir að kærða hafi notað greiðslukort lögmannsstofu sinnar að eigin frumkvæði og með samþykki kærenda til að greiða reikninga dánarbúsins. Ýmsar færslur þar séu hins vegar óútskýrðar og kærða ekki lagt fram fylgiskjöl að baki þeim.
Vegna málatilbúnaðar kærðu benda kærendur á að þeir hafi margoft beðið kærðu um upplýsingar varðandi þóknun og hvað hún væri komin upp í vegna dánarbúsins á Íslandi. Kærða hafi hins vegar aldrei gefið nein svör. Þá sé ljóst að ekki séu talsverðar upphæðir á bankareikningum í Bandaríkjunum og alls ekki öruggt að hægt verði að greiða erfðafjárskatt og laga mismun í greiðslum til erfingja með fjármunum sem þar kunni að vera.
Í viðbótarathugasemdum kærenda er jafnframt vísað til ýmissa atvika í störfum kærðu sem ekki var vikið sérstaklega að í kvörtun málsins. Með hliðsjón af afmörkun sakarefnis í upphaflegu erindi kærenda þykir ekki þörf á að reifa þau atriði sérstaklega í máli þessu.
III.
Kærða krefst þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Þá krefst kærða þess að kærendum verði sameiginlega gert að greiða henni málskostnað samkvæmt mati nefndarinnar.
Kærða byggir á að verkefni hennar fyrir félagið H ehf. kæmi aðeins til skoðunar og endurmats varðandi fjárhæð þóknunar, ef kærendur færu með fyrirsvar fyrir það félag, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 13/2020, eða ef félagið ætti aðild að málinu en svo sé ekki, sbr. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Bendir kærða einnig á að hún hafi þegar farið með fyrirsvar fyrir félagið við andlát, sbr. umboð dags. 10. febrúar 2019.
Varðandi þóknun kærðu vegna vinnu við skipti á dánarbúi á Íslandi bendir kærða í fyrsta lagi á að það leiði af 14. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998, að lögmanni sé heimilt að ráðstafa vörslufé skjólstæðings síns upp í ógreidda lögmannsþóknun, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Teljist slíkt hluti af samningssambandi lögmanns og skjólstæðings hans. Um efni greinarinnar bendir kærða aukinheldur á að hvorki í lögum né í siðareglunum sé getið til um að lögmanni beri að gera grein fyrir áföllnum kostnaði innan ákveðins tímaramma. Með hliðsjón af því að vinna kærða í þágu kærenda hafi hafist vorið 2019 verði að telja að allt sem gerst hafi frá þeim tíma hafi gerst fyrir skömmu.
Í öðru lagi byggir kærða á að vinna hennar í þágu kærenda hafi verið umfangsmikil og náð til verkefna beggja vegna atlantsála um 16 mánaða skeið. Á þeim tíma hafi kærða farið í fjórar ferðir til Bandaríkjanna vegna vinnu við ágreiningsmálið þar og lokið mestum hluta búskipta á Íslandi. Það hafi hins vegar óneitanlega flækt allt uppgjör og þar með upplýsingagjöf um stöðu mála að kostnaður vegna vinnu við ágreiningsmálið hafi hlaðist upp. Hafi af þeim sökum verið erfitt að gera fullnaðaruppgjör á hinu íslenska dánarbúi.
Kærða vísar til þess að þar sem umfang verkefna hennar í þágu kærenda hafi verið mikið hafi hún talið rétt að uppgjör til bráðabrigða færi fram þegar búið væri að losa um fjármuni sem kærendur ættu tilkall til í Bandaríkjunum. Kveðst kærða hafa millifært í þrígang af vörslufé íslenska dánarbúsins vegna vinnu sinnar við bæði íslenska dánarbúið sem og vegna vinnu hennar í þágu kærenda í Bandaríkjunum. Þá hafi einnig verið millifært upp í áfallna þóknun af reikningi H ehf. vegna vinnu við uppgjör og sölu á félaginu sem hafi verið inni í hinu íslenska dánarbúi. Í öllum tilvikum hafi verið farið að gildandi reglum um meðferð vörslufjár, sbr. 13. gr. siðareglna lögmanna.
Kærða byggir í þriðja lagi á að hún hafi haft heimild til þess að taka sér greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun sína þar sem að mikil vinna hafi verið unnin varðandi búskiptin hérlendis sem og erlendis í þágu kærenda. Bendir kærða í því samhengi á að hún hafi verið um mánaðarskeið vorið 2019 í New York með kærendum vegna vinnu í þeirra þágu. Sé því fráleitt að halda því fram að kærendur hafi ekki gert ráð fyrir að greiða þyrfti jafnóðum fyrir þá vinnu af fyrirliggjandi eignum búsins. Þá hafi kærða tekið að sér málið fyrir kærendur heildstætt, enda um sama dánarbúið að ræða, þótt tímaskráning hafi verið aðskilin í því skyni að vera meira lýsandi og aðgengileg fyrir kærendur.
Í fjórða lagi bendir kærða á að þótt ekki hafi verið leitað eftir sérstakri heimild kærenda fyrir greiðslu upp í áfallna þóknun sé ljóst að greiðsluskylda sé fyrir hendi vegna vinnunnar og eftir standi þá mat á því hvort tilefni sé til að lækka þóknun kærðu í samræmi við kröfugerð kærenda. Þar sem kærða hafi ekki verið skipuð skiptastjóri á Íslandi standi eftir sú meginregla að lögmönnum sé heimilt að verja vörslufé sem þeir hafa vegna vinnu sinnar til greiðslu þóknunar fyrir viðkomandi vinnu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 447/2016.
Kærða hafnar því í fimmta lagi að hún hafi með ólögmætum hætti tekið sér þóknun af fé dánarbúsins án samþykkis eða útgáfu reiknings. Bendir kærða á að hún hafi gefið út reikninga fyrir áfallinni þóknun innan hæfilegra tímamarka, en í því samhengi ítrekar kærða hvað skammur tími hafi liðið frá upphafi vinnunnar og þar til kærða fór frá málinu.
Varðandi vinnu í Bandaríkjunum bendir kærða á að hún hafi farið út þann 30. apríl 2019 að beiðni kærenda þar sem kærða hafði verið tilnefnd sem skiptastjóri í erfðaskrá föður þeirra. Hafi kærendur ekki viljað una breytingu á erfðaskrá sem gerð hafði verið og því óskað eftir aðkomu kærðu að málinu við að véfengja viðkomandi breytingu. Kveðst kærða hafa aðstoðað kærendur við að finna bandarískan lögmann til að taka að sér vinnu við véfengingarmálið. Jafnframt því hafi kærða haft milligöngu um fundahöld á milli erlenda lögmannsins og kærenda. Hafi sá fundur verið haldinn þann 7. maí 2019. Hafi erlendi lögmaðurinn þá útskýrt að aðkoma kærenda og ráðning þeirra á kærðu til að fara með ágreiningsmálið væri alfarið á kostnað kærenda og tilheyrði því ekki hinni eiginlegu skiptastjórn.
Kærða vísar einnig til þess að hinn erlendi lögmaður hafi útskýrt á fundinum að þegar dómstóll hefði gefið út bráðabirgðaskipun til skiptastjóra væri kærðu heimilt að vinna við skiptingu á búinu að öllu leyti nema hvað varðaði viðkomandi fasteign og innbú, sem véfengingarmálið myndi lúta að. Væri véfengingarmálið á kostnað kærenda, þ.e. að halda úti dómsmálinu og viðhalda eignunum sem ágreiningur væri um þar til niðurstaða lægi fyrir. Bendir kærða á að hún hafi engra hagsmuna að gæta í því máli og komi eingöngu að því vegna beiðni kærenda þar um.
Kærða lýsir því að hinn erlendi lögmaður hafi upplýst á fundinum að kostnaður vegna vinnu við að skipta búinu greiddist af dánarbúinu í Bandaríkjunum, en að öll önnur vinna sem færi fram að þeim tíma væri á kostnað kærenda, þar með talið vegna eigna og við að ráða kærðu til hagsmunagæslu vegna ágreiningsmálsins. Jafnframt því hafi verið upplýst að greiðsla fyrir skiptastjórn ytra miðaðist við prósentuhlutfall af öllum eignum dánarbúsins vegna vinnu við skiptin. Kveðst kærða ekki geta borið ábyrgð á því hafi kærendur ekki skilið eða misskilið það sem fram fór á fundinum.
Vísað er til þess að kærða hafi sent lögmanninum ytra tölvubréf þann 20. maí 2019 þar sem spurst hafi verið fyrir um þær reglur sem giltu um greiðslu vegna skiptastjórnar. Í svari lögmannsins hafi komið fram árétting á því sem fram hafði farið á fyrrgreindum fundi og útskýring um að þóknun skiptastjóra ytra réðist af því hvaða eignir tilheyrðu dánarbúinu við lok ágreiningsmálsins. Hafnar kærða því að hún hafi leynt kærendum einhverjum upplýsingum um þetta efni. Hafi kærða þannig hvorki þá né síðar verið skiptastjóri þess bús og segi tilgreint atriði því ekkert til um hver þóknun kærðu eigi að vera fyrir hagsmunagæslu í þágu kærenda vegna eigna dánarbúsins í New York.
Kærða bendir á að hún hafi dvalið í um þrjár vikur í Bandaríkjunum vegna málsins á þessum tíma, þ.e. frá 30. apríl til 25. maí 2019. Með henni hafi meðal annars verið kærendurnir B og C. Lýsir kærða því að rætt hafi verið um þá stöðu að hlutverk kærðu á þeim tímapunkti væri að vinna fyrir kærendur vegna véfengingarmálsins en ekki sem skiptastjóri. Þá hafi legið fyrir að allur kostnaður sem félli til yrði að greiðast af kærendum, enda hafi kærða ekki haft aðgang að fjármunum búsins ytra þar sem slíkt hafi verið háð útgáfu á leyfi frá dómara.
Kærða byggir á að kærendur hafi verið samþykkir ráðstöfun fjármuna íslenska dánarbúsins. Kveðst kærða þannig í ljósi stöðu mála hafa lagt til við kærendur að greitt væri af eignum dánarbúsins hér á landi öll útgjöld í Bandaríkjunum þar til hægt yrði að losa um fjármuni þar ytra sem sannanlega tilheyrðu þeim og kæmu ágreiningsmálinu ekkert við. Jafnframt því hafi kærða boðið erfingjum að kreditkort lögmannsstofu hennar yrði nýtt til þess að greiða fyrir allan útlagðan kostnað ytra, þar sem kærendur hafi enga fjármuni átt til þess að viðhalda málarekstrinum. Hafi svo átt að endurgreiða þann kostnað til lögmannsstofunnar eftir því sem greiðslur bærust inn í íslenska dánarbúið. Er vísað til þess að kærendur hafi samþykkt þetta fyrirkomulag og engar athugasemdir gert við það. Hafi málið þannig alfarið verið lagt í hendur kærðu. Skriflegur samningur hafi hins vegar ekki verið gerður en ljóst sé af fyrirliggjandi samskiptum að kærendur hafi engar athugasemdir gert við framkvæmdina og verið fullmeðvitaðir um hana.
Kærða lýsir því að hún hafi stofnað reikning á nafni dánarbús G á Íslandi þann 4. júní 2019. Hafi öllum fjármunum sem greiddir voru inn og út úr dánarbúinu verið haldið aðgreindum frá fjármunum lögmannsstofnunnar og bókhald haldið um útlagðan kostnað dánarbúsins. Þá hafi tímaskýrslur verið skráðar sérstaklega eftir verkefnum, þ.e. vegna dánarbúsins á Íslandi, dánarbúsins í Bandaríkjunum og vegna H ehf. Hafi kærendur ætíð getað nálgast afrit tímaskýrslna hjá kærðu.
Kærða vísar til þess að það skjóti skökku við að kærendur hafi samþykkt að allur kostnaður vegna ágreiningsmálsins í Bandaríkjunum ætti að greiðast af fjármunum íslenska dánarbúsins en að kvartað sé yfir því að kostnaður vegna vinnu kærðu hafi ekki átt að greiðast af dánarbúinu þótt fullyrt sé að kærða hafi verið ráðin til starfa fyrir kærendur óháð starfi sem skiptastjóri ytra.
Bent er á að skipunarbréf til bráðabirgða hafi ekki verið gefið út í Bandaríkjunum fyrr en 13. febrúar 2020 og að kærða hafi fyrst haft tök á að vinna samkvæmt því þann 16. mars sama ár. Samkvæmt því sé illskiljanlegt í kvörtuninni hvað kærendur telji að hafi fallið innan vinnu í þeirra þágu eða vinnu kærðu sem skiptastjóra. Liggi fyrir í framlögðum tímaskýrslum kærðu að hvaða þáttum var unnið hverju sinni.
Kærða byggir á að það hafi alltaf legið fyrir og kærendur verið meðvitaðir um, að þegar kærða hefði fengið aðgang að fjármunum dánarbúsins ytra myndi kostnaðurinn sem íslenska dánarbúið hafði lagt út fyrir verða endurgreiddur með fjármunum í Bandaríkjunum sem tilheyrðu kærendum að fullu og stóðu utan ágreiningsmálsins. Hafi þar enda verið um talsverðar bankainnstæður að ræða sem og hlutabréf sem til hafi staðið að selja.
Kærða kveðst hafa farið út til Bandaríkjanna í marsmánuði 2020 en að hún hafi aðeins getað dvalið þar í þrjá virka daga til að sinna verkefnum vegna heimsfaraldursins. Á þeim tíma hafi kærða eingöngu getað lokað einum bankareikningi en þeir fjármunir hafi verið nýttir til að greiða fyrir reikning frá lögmanninum ytra vegna skýrslna sem teknar hefðu verið í janúar sama ár. Ekki hafi tekist að losa um aðra bankareikninga. Þá hafi ekkert verið hægt að losa um frekari fjármuni vegna ferðabanns.
Kærða lýsir því að hún hafi upplýst kærendur nokkrum sinnum um það munnlega að skynsamlegt væri að fresta frágangi og lokun íslenska dánarbúsins vegna þeirra tafa sem orðið höfðu á því að fá aðgang að fjármunum í Bandaríkjunum. Hafi engar athugasemdir verið gerðar við það af hálfu kærenda. Að auki hafi þurft að fá endanlega niðurstöðu í skiptin úti til að staðfesta endanlega skuldir og kröfur sem greiða hafi þurft af eignum. Vísar kærða til þess að í samskiptum þann 12. janúar 2020 hafi hún upplýst kærendur um áætlaða skuld dánarbúsins í Bandaríkjunum við íslenska hluta dánarbúsins á þeim tíma og að einhver tími myndi líða þar til að endanlegt uppgjör á íslenska búinu lægi fyrir. Komi jafnframt fram í samskiptunum að áætlað hafi verið að halda eftir fjármunum til þess að greiða erfðafjárskatt og til að halda úti vinnu og kostnaði við málareksturinn í Bandaríkjunum.
Því er lýst að vegna heimsfaraldursins hafi gengið á þá fjármuni sem eftir hafi verið í íslenska dánarbúinu, þ.e. vegna kostnaðar af vinnu við málareksturinn ytra og viðkomandi fasteignar. Að auki hafi fyrirætlanir um að haldið yrði eftir nægum fjármunum til að greiða erfðafjárskatt runnið út í sandinn þar sem ekki hafi verið unnt að nálgast fjármuni kærenda í Bandaríkjunum. Kærða vísar til þess að áætlað hafi verið að ljúka bráðabirgðauppgjöri og upplýsingum um stöðu mála til kærenda um sumarið 2020, þ.e. þegar búið hafi verið að klára öll mál varðandi félagið. Hafi það ekki gengið eftir vegna heimsfaraldursins.
Kærða vísar til þess að hún hafi móttekið beiðni um stöðu mála frá kæranda B þann 23. september 2020. Sama dag hafi borist tölvupóstur frá endurskoðandanum N um sama efni. Kærða kveðst hafa tekið saman möppu í kjölfarið með þeim gögnum sem óskað hafi verið eftir og afhent viðkomandi endurskoðanda þann 5. október 2020 en samhliða því hafi hún upplýst um að ekki lægi fyrir endanleg samantekt vegna útlagðs kostnaðar íslenska dánarbúsins vegna málarekstursins í Bandaríkjunum eða vegna vinnu kærðu fyrir kærendur þar. Að sama skapi hafi kærða upplýst um að ráðstafað hefði verið af reikningi íslenska dánarbúsins vegna vinnu fyrir kærendur og að ekki væri búið að gera upp endanlega fyrir vinnu á grundvelli fyrirliggjandi tímaskýrslna. Um þetta efni hafi kærða jafnframt upplýst endurskoðandann um í samtali þann 8. október 2020.
Kærða kveðst hafa móttekið tölvubréf þann 12. október 2020 þar sem tilkynnt hafi verið um afturköllun umboðs hennar en að óskað væri eftir að hún sinnti áfram hagsmunagæslu í þágu erfingjanna vegna málefna í Bandaríkjunum. Lýsir kærða því að þetta hafi komið henni verulega á óvart þar sem vinna hafi verið í gangi við bráðabirgðauppgjör og skýringar á því. Sama dag hafi einn kærenda hringt í fjölskyldu kærðu og upplýst að kærðu væri ekki treystandi og að íhugað væri að leggja fram kæru.
Kærða vísar til þess að hún hafi sent uppgjör þann 16. október 2020 til nýs lögmanns kærenda og viðkomandi endurskoðanda, sbr. nánar tiltekið eftirfarandi:
„Útlagður kostnaður 4.958.375
Mf. af db. á D v/útl.kostn. -5.734.420
Mf. af db. á D v/vinnu -8.166.532
Útbúinn reikningur vegna vinnu 8.166.532
Mism. v/gr. útl. kostn. -776.045
Þaraf, síðasti reikn. lækkaður 531.613
Eftirstöðvar v/ofgreitt til D 244.432“
Í samræmi við framangreint byggir kærða á að mjög skammur tími hafi liðið frá því að ósk um upplýsingar og gögn kom fram og þangað til þau voru afhent af hennar hálfu. Bendir kærða einnig á að kærendur hafi enga tilraun gert til að óska eftir skýringum frá kærðu eða ræða við hana um viðkomandi þætti. Samkvæmt því hafi kærða í öllu fylgt siðareglum lögmanna um meðferð vörslufjár svo og reglum um skil og upplýsingagjöf, sbr. 14. gr. þeirra.
Kærða kveðst hafna því að óreiða hafi einkennt bókhald búsins. Miðað við umfang búsins hafi öll vinna, framkvæmd og samskipti verið með hátt flækjustig. Auk þess hafi fjárþörf kærenda verið mikil og þrýstingur á útgreiðslu enn meiri líkt og fyrirliggjandi samskipti beri með sér. Hafi það einnig verið ástæða fyrir því að ekki hafi verið nægilegt reiðufé í búinu til greiðslu erfðafjárskatts í október 2020.
Hvað varðar uppgjör á útlögðum kostnaði vísar kærða til þess að rétt sé að einstaka villur hafi orðið en að þær séu óverulegar miðað við færslufjölda í heild. Þá hafi útskýringar vegna þessa atriðis verið sendar.
Um skýringu varðandi einstaka liði í vinnuskýrslum vísar kærða annars vegar til þess varðandi tæmingu íbúða í eigu dánarbúsins að kærendur hafi óskað sérstaklega eftir að kærða sinnti því. Hafi verið um tvær íbúðar að ræða sem hafi verið fullar af húsgögnum. Tilmæli kærenda hafi verið að best væri að kærða tæki þetta að sér svo að allrar sanngirni yrði gætt varðandi þá muni sem þar hafi verið. Jafnframt því hafi kærða hitt kærendur í nokkur skipti í íbúðunum. Liggi fyrir að kærendur hafi hvorki gert athugasemdir við þessi störf kærðu né óskað eftir að þeir myndu sjálfir annast þau. Þá hafi kærða haldið opið hús þar sem freistað hafi verið að selja þau húsgögn sem kærendur hafi ekki viljað úr búinu. Hafi lítið komið útúr því svo sem kærendur hafi verið upplýstur um. Hins vegar hafi fasteignasali alfarið séð um kynningu vegna sölu fasteignanna.
Hins vegar bendir kærða á að hún hafi boðið kærendum að velja hvort þeir vildu setja fasteign í eigu H ehf. á sölu eða taka því tilboði sem komið hafi í eignina. Líkt og fyrirliggjandi samskipti bera með sér hafi kærendur allir samþykkt einróma að taka tilboðinu. Auk þess hafi kærða útbúið leigusamninga en leigutakar hafi allir verið búsettir á Suðurnesjum. Hafi tími farið í að hafa uppi á leigutökum, ferðir til að fá undirritanir o.fl. Kveðst kærða ekki geta borið ábyrgð á því að fasteignin hafi verið seld á hærra verði síðar, en rangt sé að kaupandi eignarinnar hafi verið kunningi kærðu.
Varðandi athugasemdir kærenda við störf kærðu að öðru leyti er í fyrsta lagi vísað til þess að kærendur hafi óskað eftir að kærða sæi um allt og þar með talið sölu á fasteign í eigu H ehf. Hafi kærða ekki getað skilið umboðið öðruvísi en að það væri í hennar verkahring að gera allar þær ráðstafanir sem til hafi þurft svo hægt væri að ganga frá öllu sem tengdist félaginu. Sýni jafnframt fyrirliggjandi samskipti að kærendur hafi verið upplýstir um það efni.
Í öðru lagi bendir kærða á að greiðslur til kærenda hafi verið inntar af hendi samkvæmt þeirra beiðni. Hafi verið mikill þrýstingur af hálfu kærenda að greiða út fjármuni um leið og peningar hafi komið fyrir sölu á eignum. Til hafi staðið að rétta af mismun á greiðslum til erfingja þegar dánarbúið á Íslandi fengi greitt frá Bandaríkjunum. Auk þessi liggi mismunur á greiðslum til kærenda í því að kærandi B fékk málverk, félag og bíl úr dánarbúinu að fjárhæð 1.700.000 krónur og kærandi C óskaði eftir umframgreiðslu að fjárhæð 3.500.000 króna vegna viðgerða á húsi hennar. Bendir kærða á að þegar umboð hafi verið afturkallað hafi legið fyrir drög að erfðafjárskýrslu en þar hafi eðli máls samkvæmt ekki verið um endanlegar fjárhæðir að ræða. Aldrei hafi staðið til að greiða kærendum mismunandi fjárhæðir úr búinu líkt og þeir hafi verið upplýstir um.
Í þriðja lagi hafnar kærða því að hún hafi ekki upplýst kærendur um stöðu mála varðandi útlagðan kostnað. Bendir kærða í því samhengi á að upplýsingar hafi verið veittar um stöðuna þann 12. janúar 2020, þ.e. vegna útlagðs kostnaðar í Bandaríkjunum. Jafnframt því hafi kærða fundað með kærendum þann 24. febrúar 2020 þar sem farið var yfir stöðu mála. Þá vísar kærða til þess að hún hafi sent kærendum skilaboð um fjárhagsstöðu íslenska dánarbúsins þann 22. maí 2020.
Varðandi kröfugerð kærenda um að endurgjald vegna vinnu kærðu í Bandaríkjunum sæti lækkun vísar kærða til þess að ágreiningslaust sé að hún hafi verið ráðin af hálfu kærenda í tvenns konar verkefni, þ.e. annars vegar til að sinna einkaskiptum á dánarbúi á Íslandi og hins vegar til að gæta hagsmuna kærenda vegna véfengingar á breytingu á erfðaskrá G í Bandaríkjunum. Er bent á að kærendur haldi því réttilega fram í kvörtun að kærða hafi unnið fyrir þá sérstaklega varðandi ágreiningsmálið í Bandaríkjunum en að vinna við dánarbússkiptin ytra hins vegar kæmi þeim ekkert við. Á sama tíma sé gerð krafa um að öll vinna kærðu, hvort sem hún sé á grundvelli ráðningar kærenda eða á grundvelli skipunar sem skiptastjóra ytra, verði dregin af þóknun vegna dánarbússkiptanna. Byggir kærða á að sú röksemdafærsla kærenda gangi ekki upp og feli í sér mótsögn. Hafnar kærða því alfarið að einhver óvissa hafi ríkt um greiðslu þóknunar fyrir þjónustu hennar í þágu kærenda.
Kærða vísar til þess að samskipti hennar við kærendur hafi verið mjög tíð. Sé vinna kærðu í þágu kærenda sundurliðuð í tímaskýrslum miðað við hvaða verkefni hafi verið unnin. Auk þess hafi kærendum mátt vera ljóst að kærða hafi verið í vinnu við afgreiðslu þessara erinda, sbr. fyrirliggjandi samskipti. Samkvæmt því styðji ekkert fullyrðingar kærenda um að þær hafi ekki vitað um einstaka ráðstafanir kærðu eða ekki verið kunnugt um þær.
Ítrekar kærða að henni hafi verið heimilt að láta hluta vörslufjár vegna dánarbúsins ganga til greiðslu þóknunar og útlagðs kostnaðar til lögmannsstofnunnar. Séu röksemdir kærenda um hið gagnstæða haldlausar. Þá skipti engu þó síðasta greiðsla vegna kostnaðar hafi verið framkvæmd við það að kærða fór frá málinu, enda hafi hún þá átt rétt á að halda gögnum málsins þar til greiðsla bærist. Samkvæmt því hafi uppgjörið átt að eiga sér stað um leið eða áður en gögnin voru afhent, í samræmi við kröfu kærenda. Vísar kærða einnig um þetta efni til 16. gr. siðareglna lögmanna.
Að endingu vísar kærða til þess að það hafi verið hennar að ákveða tímagjald svo lengi sem það teldist ekki bersýnilega ósanngjarnt. Fyrir liggi að um umfangsmikil verk hafi verið að ræða líkt og einnig megi ráða af tímaskýrslum. Þannig hafi kærða varið alls 298,5 klst. í verkefnin en af þeim hafi kærða fengið greitt vegna 269 klst. Geti sú tímaskrift ekki talist vera annað en í algjöru lágmarki miðað við eðli og umfang verksins svo og að teknu tilliti til tíma við samskipti við þrjá erfingja, staðsetningu eigna hérlendis og erlendis og annarra þátta.
Kærða kveðst hafa farið yfir öll verkefnin og tímaskrift að nýju vegna kvörtunarinnar og leiðrétt hana frá því að tímaskýrslur voru fyrst sendar kærendum. Megi ráða af tímaskýrslum að kærða hafi ávallt haldið tímaskrift sinni fyrir kærendur í lágmarki. Auk þess hafi símtöl og önnur samskipti aðeins verið skráð með óverulegum hætti. Er vísað til þess að kærða hafni hverjum þeim órökstuddu og tilhæfulausu ásökunum um mögulega ágalla á störfum hennar sem kvörtun taki til.
Niðurstaða
I.
Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þarf annars vegar að fjalla um fjárhagslegt uppgjör vegna lögmannsstarfa kærðu og hins vegar um hvort kærða hafi gert á hlut kærenda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum.
II.
Að mati nefndarinnar þarf í fyrstu að taka til skoðunar formhlið málsins eins og það hefur verið lagt fyrir nefndina.
Fyrir liggur að erindi kærenda til nefndarinnar er meðal annars reist á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem lýst er ágreiningi um rétt kærðu til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess. Er nánar tiltekið kveðið á um í 1. málslið greinarinnar að ef lögmann greinir á við umbjóðandi sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er slíkt hið sama áréttað í 1. tölul. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir nefndinni.
Af málatilbúnaði kærenda og framlögðum gögnum í málinu verður ráðið að ágreiningur um þetta efni lúti meðal annars að endurgjaldi sem kærða áskildi sér vegna starfa í þágu H ehf. Af málsgögnum verður ráðið að kærða hafi millifært 450.000 krónur af fjármunum sem hún hafði í vörslu fyrir tilgreint félag og lagt inn á reikning lögmannsstofu sinnar þann 11. nóvember 2019. Reikningur vegna þessa á hendur félaginu mun hins vegar ekki hafa verið gefinn út af lögmannsstofu kærðu fyrr en þann 8. október 2020, sbr. reikning nr. 603 að fjárhæð 450.000 krónur með virðisaukaskatti.
Í samræmi við framangreint liggur fyrir að hinn umþrætti reikningur að þessu leyti var gefinn út af hálfu lögmannsstofu kærðu á hendur H ehf. Að sama skapi liggur fyrir að reikningurinn var greiddur með fjármunum sem tilheyrðu því félagi en voru í vörslu kærðu.
Varðandi formhlið málsins verður að mati nefndarinnar að líta til þess að H ehf. var sjálfstæður lögaðili. Af málsgögnum verður ráðið að á þeim tíma sem hagsmunagæslan varði hafi M, faðir kærðu, verið stjórnarmaður félagsins en kærða sjálf framkvæmdstjóri þess og prókúruhafi. Með hliðsjón af því að tilgreindur reikningur lögmannsstofu kærðu var gerður á félagið og hann greiddur af fjármunum þess verður ekki talið að mati nefndarinnar að leitt hafi verið í ljós með hvaða hætti kærendur í máli þessu geti átt sjálfstæða og persónulega aðild að ágreiningi um það endurgjald. Getur engu breytt í því efni að mati nefndarinnar þótt dánarbú G, sem lýtur einkaskiptum þar sem kærendur eru erfingjar, hafi verið eigandi alls hlutafjár í félaginu. Er þannig ekki unnt í lagalegu tilliti að áliti nefndarinnar að samsama dánarbúið og félagið með þeim hætti sem málatilbúnaður kærenda er reistur á þrátt fyrir þá hlutafjáreign. Samkvæmt því og þar sem H ehf. á ekki aðild að málinu verður ekki hjá því komist að vísa tilgreindu ágreiningsefni frá nefndinni.
III.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.
Í 1. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna er tiltekið að lögmanni ber án ástæðulauss dráttar að gera skjólstæðingi skil á innheimtufé og öðrum fjármunum, er lögmaður hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns. Ávallt er þó lögmanni rétt að halda eftir nægu fé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar þeirra mála, sem lögmaður hefur til meðferðar fyrir skjólstæðing sinn á hverjum tíma, enda geri lögmaður skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði, sbr. 2. mgr. 14. gr. Þá skulu uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings vera greinargóð, sbr. 3. mgr. sömu greinar.
Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.
Samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði aðila liggur fyrir að kærða tók að sér að vera umboðsmaður kærenda, sem erfingja, við einkaskipti á dánarbúi föður þeirra sem lést þann x. apríl 20xx. Var einkaskiptaleyfi þar að lútandi veitt þann x. júní 20xx af hálfu sýslumanns þar sem tekið var fram að umboðsmaður erfingja kæmi fram af þeirra hálfu og í nafni dánarbúsins í samskiptum við aðra, þar á meðal við ráðstöfun eigna og viðtöku andvirðis þeirra, opinbera skýrslugerð og veitingu og viðtöku tilkynninga í þágu erfingja vegna dánarbúsins, sbr. 2. mgr. 85. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Samkvæmt því fór um skiptin eftir 3. þætti laga nr. 20/1991 þar sem mælt er fyrir um einkaskipti dánarbúa. Með hliðsjón af því verður ekki talin stoð fyrir þeim sjónarmiðum kærðu fyrir nefndinni að hún hafi í reynd farið með skiptastjórn hér á landi vegna búsins enda hún ekki skipuð til slíkra starfa af héraðsdómi, sbr. V. kafla sömu laga. Getur engu breytt í því samhengi þótt kærða hafi verið tilnefnd í erfðaskrá hins látna til að annast skipti á eignum hans í Bandaríkjunum sem svonefndur „Executor“, enda um þau skipti farið eftir þarlendum lögum.
Ágreiningslaust er hins vegar að kærendur fólu kærðu einnig, auk hinnar lögbundnu umboðsmennsku vegna einkaskiptanna hér á landi, að koma fram fyrir þeirra hönd vegna véfengingar á breytingu erfðaskrár hins látna í Bandaríkjunum. Kærendur hafa á því byggt að hlutverk kærðu hafi verið að halda verkefnunum aðskildum hvað varðar þóknun og útlagðan kostnað, þ.e. vegna starfa kærðu við einkaskiptin hér á landi og vegna véfengingarmálsins hins vegar. Á hinn bóginn hafi kostnaður vegna starfa kærðu sem „Excecutor“ í Bandaríkjunum verið kærendum óviðkomandi enda hann greiddur af eignum búsins ytra samkvæmt löggjöf New York fylkis. Hafi kærðu samkvæmt því borið að halda verkefnum þeim sem hún sinnti ytra fyrir hönd kærenda annars vegar og sem „Excecutor“ hins vegar aðgreindum. Kærða hefur á hinn bóginn borið því við að hún hafi aðeins að takmörkuðu leyti getað sinnt störfum sem „Excecutor“ í Bandaríkjunum og að meginhluti vinnu hennar ytra hafi varðað véfengingu á hinni breyttu erfðaskrá í þágu kærenda og á þeirra kostnað. Hafi útlagður kostnaður vegna þess, þar á meðal varðandi ráðningu lögfræðings í Bandaríkjunum, sem og kostnaður vegna hennar starfa verið fjármagnaður af eignum dánarbúsins á Íslandi en til hafi staðið að gera þann kostnað upp þegar unnt væri að losa um eignir búsins í Bandaríkjunum.
Af málsgögnum verður ráðið að störf kærðu í þágu kærenda hafi hafist í lok aprílmánaðar 2019 og að þau hafi staðið allt þar til umboð hennar var afturkallað þann 9. október 2020. Á þeim tíma mun kærða hafa haft í vörslum sínum fjármuni dánarbúsins á Íslandi, þ.e. á reikningi sem stofnaður var á nafni búsins.
Sá ágreiningur um endurgjald, í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, sem eftir stendur lýtur annars vegar að reikningi lögmannsstofu kærðu nr. 602 sem gefinn var út á hendur dánarbúi G þann 8. október 2020. Var sá reikningur að fjárhæð 3.000.000 króna með virðisaukaskatti. Af reikningnum og málsgögnum að öðru leyti verður ráðið að kærða hafi áður millifært af reikningi dánarbúsins inn á reikning lögmannsstofu sinnar fjárhæðir sem svöruðu til reikningsfjárhæðar hins umþrætta reiknings. Nánar tiltekið var þar í fyrsta lagi um að ræða millifærslu þann 14. ágúst 2019 að fjárhæð 2.000.000 króna, í öðru lagi millifærslu þann 11. október 2019 að fjárhæð 500.000 krónur og í þriðja lagi millifærslu sömu fjárhæðar sem framkvæmd var þann 3. janúar 2020. Var á reikningnum gerð grein fyrir tilgreindum innborgunum með lýsingunni „Innborgun v. vinnu við d.b. á ísl og í usa“.
Hins vegar lýtur ágreiningur að þessu leyti að reikningi sem lögmannsstofa kærðu gaf út gagnvart dánarbúinu þann 14. október 2020 eða fimm dögum eftir að umboð hennar vegna starfa í þágu kærenda hafði verið afturkallað. Nánar tiltekið var þar um að ræða reikning nr. 605 að fjárhæð 4.716.532 krónur með virðisaukaskatti. Var því lýst á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna vinnu í þágu dánarbúsins að fjárhæð 4.232.375 krónur án virðisaukaskatts að frádreginni innborgun vegna útlagðs kostnaðar dánarbúsins að fjárhæð 531.613 krónur. Kærða mun hafa annast greiðslu reikningsins með millifærslu af fjármunum dánarbúsins, sem voru í hennar vörslu, inn á reikning lögmannsstofu hennar áður en til afhendingar gagna og upplýsingagjafar til nýs lögmanns kærenda kom varðandi málefni búsins.
Fyrir liggur að ekki var gerður sérstakur samningur vegna þeirra verka sem kærða tók að sér að sinna í þágu kærenda vegna dánarbúsins. Ekkert í málsgögnum bendir til þess að kærða hafi gert kærendum grein fyrir áætluðum verkkostnaði við upphaf starfans, á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð eða hvert endurgjald hennar gæti orðið í heild sinni, sbr. 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998.
Í fyrri úrskurðum nefndarinnar hefur verið lagt til grundvallar að skylda lögmanns til að upplýsa skjólstæðing sinn um verkkostnað, sbr. framangreind ákvæði laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna, sé virk á meðan verkinu vindur fram. Ítarleg samskipti aðila á verktíma, sem kærða hefur lagt fyrir nefndina, bera raunar með sér að ekkert hafi verið rætt um atriði tengd þóknun kærðu vegna starfa í þágu kærenda í tengslum við dánarbúin. Virðast kærendur þannig ekki hafa verið upplýstir um áfallnar vinnustundir og áskilda þóknun kærðu fyrr en með útgáfu fyrrgreindra reikninga í októbermánuði 2020, þ.e. þegar liðið var undir lok samningssambandsins.
Með hliðsjón af fjölda skráðra vinnustunda kærðu á tímabilinu, fjárhæð áskilin endurgjalds úr hendi kærenda og/eða dánarbúsins af þeim sökum og því að kærða hafði millifært umtalsverða fjármuni af eignum búsins inn á reikning lögmannsstofu sinnar bæði á árinu 2019 sem og í ársbyrjun 2020 sem innborgun inn á endurgjaldið verður ótvírætt að telja að mati nefndarinnar að kærðu hafi á grundvelli fyrrgreindra heimilda borið að gera kærendum með reglubundnum hætti grein fyrir þeim verkkostnaði sem stofnað var til vegna starfa hennar á verktíma. Verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að verulegur misbrestur hafi orðið á því af hálfu kærðu. Þar sem hagsmunagæslan stóð yfir í um eitt og hálft ár er jafnframt haldlaus með öllu sá málatilbúnaður kærðu að hagsmunagæslan hafi staðið það skamman tíma að slík skylda hafi ekki stofnast vegna starfa hennar í þágu kærenda. Fær það einnig að mati nefndarinnar stoð í skilaboðum sem kærða sendi til kærenda þann 3. október 2020, en þar var eftirfarandi tiltekið:
„Kæru systur, varðandi fund um stöðu dánarbúsins þá er það auðvitað alfarið á mér að hafa ekki haldið hann fyrr – þið voruð búnar að biðja um það og ég frestaði því, sem var auðvitað ekki rétt gagnvart ykkur og ég bið ykkur afsökunar á því, eins og ég sagði við B í samtali um daginn. Það er besta mál að fá endurskoðandann með til að fara yfir þetta með ykkur og ég er búin að taka saman gögnin en N getur ekki farið yfir þau fyrr en á mánudaginn og þess vegna ákváðum við að fresta þessu fram á miðv.dag svo hann geti farið yfir þetta. Fundurinn verður á miðvikudaginn kl 15 hjá honum. Enn og aftur, ég biðst forláts á að hafa ekki haldið upplýsingafund með ykkur fyrr, það hefði ég átt að gera en vonandi verður allt skýrt og skiljanlegt eftir þennan fund og næsta verkefni er dánarbúið úti og hvaða skref verða tekin þar. Sjáumst á miðvikudaginn..“
Ekki er ágreiningur um það í málinu að kærða hafi átt rétt á hæfilegu endurgjaldi vegna starfa sinna í þágu kærenda. Ágreiningur er hins vegar um það endurgjald sem kærði áskildi sér og greitt var af eignum dánarbúsins með þeim hætti sem áður greinir.
Að mati nefndarinnar er eðlilegt að þegar sanngjörn þóknun er metin, sé tekið nokkur tillit til þess sem áður greinir um að ekkert liggur fyrir um að kærða hafi gert kærendum grein fyrir áætluðum verkkostnaði við upphaf starfans, áföllnu endurgjaldi á verktíma né á hvaða grundvelli þóknun yrði reiknuð. Hér þarf hins vegar einnig að líta til fleiri þátta.
Á meðal málsgagna er að finna tímaskýrslu vegna starfa kærðu í þágu kærenda vegna málefna dánarbús G á Íslandi. Hefur tímaskýrslan verið lögð fram í tveimur útgáfum, þ.e. annars vegar skýrsla sem ber með sér að hafa verið prentuð þann 25. nóvember 2020 og hins vegar skýrsla sem ber með sér að hafa verið prentuð þann 8. febrúar 2021. Í hinu fyrrgreinda eintaki, dags. 25. nóvember 2020, kemur fram að kærða hafi varið alls 67.50 vinnustundum í málefni dánarbúsins á Íslandi á tímabilinu frá 31. maí 2019 til og með 2. október 2020. Í hinu síðargreinda eintaki, dags. 8. febrúar 2021, eru skráðar vinnustundir hins vegar 70.25 talsins vegna sama tímabils en við fyrra eintak hefur bæst við tímaskráning frá 12. og 25. júní 2019 í alls 2.75 klukkustundir. Fyrir liggur að bæði eintökin voru prentuð út eftir að samningssambandi aðila var lokið. Þá liggur fyrir að í báðum tilvikum var tiltekið að tímagjald kærðu væri að fjárhæð 24.500 krónur auk virðisaukaskatts.
Á meðal málsgagna er jafnframt að finna tímaskýrslu vegna starfa kærðu vegna eigna og málefna dánarbús G í Bandaríkjunum. Hefur sú tímaskýrsla einnig verið lögð fram í tveimur útgáfum fyrir nefndina, þ.e. annars vegar skýrsla sem ber með sér að hafa verið prentuð þann 8. október 2020 og hins vegar skýrsla sem ber með sér að hafa verið prentuð þann 25. nóvember 2020. Í hinu fyrrgreinda eintaki, dags. 8. október 2020, kemur fram að kærða hafi varið alls 165.25 vinnustundum í störf vegna dánarbúsins í Bandaríkjunum á tímabilinu frá 28. apríl 2019 til og með 6. október 2020. Í hinu síðargreinda eintaki, dags. 25. nóvember 2020, eru skráðar vinnustundir kærðu hins vegar 202.75 talsins vegna tímabilsins frá 28. apríl 2019 til og með 14. október 2020. Hafa þar bæst við alls 7.50 vinnustundir við fyrri tímaskýrslu vegna tímabilsins frá 12. – 14. október 2020. Þá hefur 30 vinnustundum verið bætt við tímaskýrslu kærðu vegna sama tímabils og fyrri útprentun frá 8. október 2020 tók til.
Líkt og áður er rakið er tiltekið í 3. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna að uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skuli vera greinargóð. Liður í slíku greinargóðu uppgjöri er að veita upplýsingar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað, sbr. 15. gr. siðareglnanna. Í samræmi við tilgreindar heimildir verður að gera þær kröfur til lögmanna að upplýsingar sem skjólstæðingum eru veittar úr tímaskýrslu séu greinargóðar og réttar um það efni sem þær taka til, enda sé ekki um bersýnilegar villur að ræða.
Í samræmi við það sem áður greinir tóku tímaskýrslur kærðu vegna málsins umtalsverðum breytingum, þ.e. til hækkunar á fjölda skráðra vinnustunda vegna sama tímabils, eftir að samningssamband aðila var liðið undir lok. Að mati nefndarinnar hefur kærða ekki veitt haldbærar skýringar á þeim breytingum, þar á meðal að teknu tilliti til þeirra greinargóðu skila sem lögmönnum ber að viðhafa gagnvart skjólstæðingum sínum, þar á meðal í tengslum við uppgjör mála. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að unnt sé að leggja mat á hæfilegt endurgjald vegna starfa kærðu í þágu kærenda á grundvelli tímaskýrslnanna einna og sér. Eins og atvikum er háttað verður því að mati nefndarinnar að ákvarða mat á hæfilegu endurgjaldi vegna málsins að álitum með hliðsjón af umfangi þeirra starfa sem um ræddi, þar á meðal að teknu tilliti til málsgagna.
Auk framangreindra þátta verður ekki framhjá því litið að kærða millifærði af reikningi dánarbúsins á Íslandi inn á reikning lögmannsstofu sinnar alls 3.000.000 króna á tímabilinu frá 14. ágúst 2019 til 3. janúar 2020. Mun kærða hafa litið svo á við framkvæmd millifærslnanna að þar væri um innborganir að ræða inn á þóknun hennar vegna starfa í þágu kærenda. Þrátt fyrir tíð samskipti kærðu á þeim tíma við kærendur verður ekki ráðið að kærða hafi borið þær greiðslur, sem teknar voru af eignum dánarbúsins, undir kærendur eða að hún hafi upplýst kærendur um þær með öðrum hætti. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið leitt í ljós af hálfu kærðu í málinu að samningsbundin stoð hafi legið til grundvallar þeirri háttsemi, þ.e. millifærslu fjármuna af eignum dánarbúsins inn á reikning lögmannsstofu hennar. Er í því samhengi jafnframt til þess að líta að kærða hefur engar skýringar á því veitt hvers vegna reikningur vegna tilgreindra innborgana var ekki gerður fyrr en löngu síðar eða þann 8. október 2020. Á hið sama við um þær ráðstafanir sem kærða framkvæmdi í tengslum við greiðslu þess reiknings sem gerður var eftir lok samningssambands aðila, þ.e. þann 14. október 2020.
Um háttsemi sína að þessu leyti hefur kærða á hinn bóginn vísað til 2. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna um að lögmanni sé ávallt rétt að halda eftir nægu fé er hann hefur móttekið fyrir hönd skjólstæðings síns til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar. Um þann málatilbúnað kærðu er þess í fyrsta lagi að gæta að þeir fjármunir sem kærða ráðstafaði til greiðslu endurgjalds síns voru fjármunir í eigu dánarbúsins en ekki kærenda sem veittu kærðu umboð til starfans. Í öðru lagi verður að líta til þess að 2. mgr. 14. gr. er takmörkuð við heimild lögmanna til að halda eftir nægu vörslufé til tryggingar greiðslu áfallins verkkostnaðar. Samkvæmt því tekur heimildin ekki til slíkrar einhliða ráðstöfunar á vörslufé upp í áfallna þóknun svo sem hér um ræðir. Í þriðja lagi verður ekki framhjá því litið að áskilið er í tilgreindu ákvæði siðareglnanna að lögmaður geri skjólstæðingi viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði sem um ræðir í tengslum við slíka háttsemi, sbr. einnig fyrrgreind 3. mgr. sem mælir fyrir um greinargóð uppgjör og skil lögmanna. Líkt og áður er rakið er það mat nefndarinnar að kærða hafi ekki gert kærendum viðhlítandi grein fyrir þeim kostnaði sem um var að tefla fyrr en við lok samningssambands aðila en þá þegar hafði hún ráðstafað af eignum dánarbúsins alls 3.000.000 króna upp í áskilið endurgjald vegna starfans. Með hliðsjón af því verður ekki talið að fundin verði stoð fyrir þessari háttsemi kærðu í 14. gr. siðareglnanna. Þá hefur kærða ekki leitt í ljós að önnur lögbundin stoð hafi verið fyrir háttseminni, hvort heldur litið sé til laga nr. 77/1998 eða laga nr. 20/1991.
Í samræmi við það sem að framan er rakið er það mat nefndarinnar að upplýsingagjöf kærðu varðandi endurgjald og áfallnar vinnustundir, þ.e. hvort tveggja við upphaf samningssambands aðila sem og á verktíma, hafi verið ófullnægjandi og ósamrýmanleg þeim greinum siðareglna lögmanna sem áður eru rakin. Að sama skapi hafi uppgjör það sem kærða framkvæmdi einhliða á endurgjaldinu hvorki átt sér stoð í samningsbundnum heimildum, lögum né siðareglum lögmanna. Þá var uppgjör kærðu gagnvart kærendum síður en svo greinargott líkt og áskilið er í 3. mgr. 14. gr. siðareglnanna.
Fyrir liggur einnig í málinu að á meðan samningssambandi aðila stóð var kreditkort lögmannsstofu kærðu nýtt til að greiða útlagðan kostnað vegna málefna dánarbúsins í Bandaríkjunum en kostnaðurinn mun svo hafa verið endurgreiddur til lögmannsstofunnar eftir því sem greiðslur bárust inn í hið íslenska bú. Kærendur hafa bent á að við þá framkvæmd hafi kærða blandað saman persónulegum útgjöldum og útgjöldum dánarbúsins án þess að fullnægjandi skýringar á þeirri háttsemi hafi komið fram.
Ekki virðist ágreiningur um að svo hafi verið enda vísað til þess í málatilbúnaði kærðu að rétt sé að einstaka villur hafi komið fram við uppgjör á útlögðum kostnaði. Þær villur hafi hins vegar verið óverulegar að teknu tilliti til færslufjöldans í heild auk þess sem útskýringar hafi verið sendar. Vísar kærða þannig til þess að um mistök hafi verið að ræða og hafnar því að hún hafi ætlað að láta dánarbúið greiða annað en útlagðan kostnað þess, þar með talið persónulegan kostnað hennar. Þá bendir kærða á að slík yfirsjón hefði auðveldlega fundist við lokayfirferð ef tækifæri hefði gefist til slíks.
Þótt um slík mistök hafi verið að ræða sem kærða vísar til og að fjöldi þeirra færslna sem um ræðir sé takmarkaður að teknu tilliti til heildarfjölda færslna vegna útlagðs kostnaðar, verður ekki framhjá því litið sem áður greinir um að kærðu bar að viðhafa greinargott uppgjör og skil gagnvart kærendum vegna málefna búsins, þar á meðal vegna útlagðs kostnaðar, sbr. 3. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna. Búa sömu sjónarmið að baki reglu 1. mgr. 13. gr. siðareglnanna um að lögmaður skuli halda fjármunum skjólstæðings aðgreindum frá eigin fé. Er vægi þessa atriðis enn fremur áréttað í 2. mgr. 40. gr. siðareglnanna þar sem tiltekið er að lögmanni beri að sjá til þess að bókhald skrifstofunnar, varsla fjármuna, skjala og annarra gagna sé í samræmi við lög og góða venju í þeim efnum. Að mati nefndarinnar fór sú háttsemi kærðu sem hér um ræðir í bága við tilgreindar greinar siðareglnanna.
Í samræmi við allt framangreint var háttsemi kærðu í verulegum atriðum í andstöðu við siðareglur lögmanna. Á það meðal annars við um vanræsklu hennar á upplýsingagjöf gagnvart kærendum um endurgjald og áfallnar vinnustundir, framkvæmd einhliða uppgjörs af hennar hálfu vegna áskilins endurgjalds án lögbundinnar eða samningsbundinnar heimildar sem og þeirri framkvæmd á endurgreiðslu vegna útlagðs kostnaðar sem hér hefur verið lýst. Voru brot kærðu að þessu leyti verulega ámælisverð og ósamboðin lögmannastéttinni að mati nefndarinnar. Samkvæmt því og með hliðsjón af atvikum öllum verður ekki hjá því komist að veita kærðu áminningu, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
IV.
Áður er rakið það mat nefndarinnar að ákvarða verði mat á hæfilegu endurgjaldi í málinu að álitum með hliðsjón af umfangi þeirra starfa sem kærða sinnti í þágu kærenda. Fyrir liggur að dánarbúið átti umtalsverðar eignir, þar á meðal í formi fasteigna, bæði hérlendis sem og í Bandaríkjunum. Af málsgögnum verður ráðið að kærða hafi haft umsjón með sölumeðferð viðkomandi eigna hér á landi og að koma þeim í verð. Jafnframt því liggur fyrir að kærða annaðist samskipti við kærendur á meðan hagsmunagæslunni stóð, þ.e. í um eitt og hálft ár, en af framlögðum gögnum verður ráðið að samskiptin hafi verið tíð. Þá skapaði það óneitanlega flækjustig með tilheyrandi vinnuframlagi kærðu að hluti eigna dánarbúsins var í Bandaríkjunum, þar sem hinn látni hafði búið, en ágreiningslaust er að kærðu var falið fyrir hönd kærenda að annast véfengingarmál vegna breytingar sem gerð hafði verið á erfðaskrá. Kallaði sú vinna bæði á viðveru kærðu í Bandaríkjunum sem og ítrekuð samskipti við lögfræðing þann sem ráðinn var til starfans ytra til að annast hagsmunagæslu í þágu kærenda vegna málsins. Á hinn bóginn verður að líta til þess að óhjákvæmilega varð einhver skörun á þeim verkefnum sem kærða sinnti ytra í þágu kærenda annars vegnar og þeirra starfa hins vegar sem hún hafði verið tilnefnd til að sinna sem „Executor“ í erfðaskrá hins látna en kostnaður vegna hinna síðargreindu verkefna áttu að vera kærendum óviðkomandi.
Að mati nefndarinnar var það tímagjald sem kærða áskildi sér vegna starfa í þágu kærenda, að fjárhæð 24.500 krónur auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Með hliðsjón af umfangi þess máls sem kærði sinnti sannanlega í þágu kærenda, málsgögnum og atvikum öllum að öðru leyti, þar á meðal skorti á upplýsingagjöf kærðu gagnvart kærendum varðandi áfallnar vinnustundir og þar með umfangi starfans, er það mat nefndarinnar að hæfilegt sé að leggja til grundvallar að fjöldi vinnustunda kærðu í þágu kærenda í tengslum við málefni dánarbúsins hafi verið 160 talsins. Samkvæmt því er það niðurstaða nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir störf kærðu í þágu kærenda, í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998, hafi verið 3.920.000 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 4.860.800 krónur með virðisaukaskatti.
Þeir reikningar sem lögmannsstofa kærðu gaf út á dánarbú G dagana 8. og 14. október 2020 voru að fjárhæð 7.716.532 krónur með virðisaukaskatti. Fengust þeir reikningar greiddir af eignum búsins á grundvelli framkvæmdar sem áður er lýst. Felur fyrrgreind niðurstaða nefndarinnar um mat á hæfilegu endurgjaldi í málinu í sér að áskilið endurgjald kærðu samkvæmt útgefnum reikningum sætir lækkun um 2.855.732 krónur. Felur niðurstaðan jafnframt í sér að kærðu verður gert að endurgreiða dánarbúi G hina ofgreiddu fjárhæð, þ.e. 2.855.732 krónur.
Eftir niðurstöðu málsins verður kærðu gert að greiða kærendum 150.000 krónur í málskostnað, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kvörtunarefnum kærenda, A, B og C, er varða áskilið endurgjald og störf kærðu, D lögmanns, í þágu H ehf., er vísað frá nefndinni.
Áskilið endurgjald kærðu, D lögmanns, vegna starfa hennar í þágu kærenda, A, B og C, vegna dánarbús G sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 4.860.800 krónur með virðisaukaskatti. Kærða, D lögmaður, endurgreiði dánarbúi G 2.855.732 krónur.
Kærða, D lögmaður, sætir áminningu.
Kærða, D lögmaður, greiði óskipt kærendum, A, B og C, 150.000 krónur í málskostnað.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
___________________________________
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
___________________________________
Kristinn Bjarnason
___________________________________
Valborg Þ. Snævarr