Mál 21 2021

Mál 21/2021

Ár 2022, miðvikudaginn 16. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. september 2021 erindi kæranda, A þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi í störfum sínum gert á hlut kæranda með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 28. september 2021, var upplýst um að í erindi kæranda fælist kvörtun sem reist væri á 27. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærða barst þann 17. desember 2021 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann 20. sama mánaðar. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum eftir þann tíma og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum verður ráðið að C hf. hafi höfðað mál á hendur kæranda með birtingu stefnu sem þingfest var í héraðsdómi þann x. mars 20xx, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xxx/20xx. Laut málið að ætlaðri óheimilli notkun kæranda á kreditkorti annars aðila.

Ágreiningslaust er að kærði tók að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins en á meðal málsgagna er um það efni að finna umboð sem ber með sér að kærandi hafi veitt kærða þann 1. febrúar 2021.

Þingbók málsins nr. E-xxx/20xx er á meðal málsgagna fyrir nefndinni. Af henni verður ráðið að ekki hafi verið sótt þing af hálfu kæranda, eða kærða fyrir hennar hönd, við þingfestingu málsins en að málið hafi verið endurupptekið þann x. mars 20xx. Í kjölfar þess hafi kærði fyrir hönd kæranda fengið fimm sinnum frest til að leggja fram greinargerð í málinu en af því hafi loks orðið á dómþingi þann x. júní 2021.

Afrit tilgreindrar greinargerðar sem kærði vann og lagði fram í þágu kæranda í fyrrgreindu héraðsdómsmáli er á meðal málsgagna fyrir nefndinni. Var þess þar aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, til vara var krafist sýknu af kröfum stefnanda en til þrautavara lækkunar þeirra.

Málsgögn bera með sér að í þinghaldi þann x. júlí 2021 hafi verið ákveðið að munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu kæranda færi fram þann x. sama mánaðar. Í þinghaldi þann síðargreinda dag var bókað í þingbók að kærði hefði hringt í dómara rétt fyrir þinghald og upplýst um veikinda. Hafi dómari lagt fyrir kærða með tölvubréfi að skila inn læknisvottorði fyrir x. júlí 2021 en að öðrum kosti yrði litið á fjarveru hans sem útivist og málið dómtekið að kröfu stefnanda.

Fyrir liggur að dómur var kveðinn upp í málinu nr. E-xxx/20xx í héraðsdómi þann x. júlí 20xx. Var vísað til þess í dóminum að kærði hefði hvorki svarað dóminum né sent umbeðin gögn eftir þinghald í málinu þann x. júlí 20xx og að málið hafi því verið dómtekið að kröfu stefnanda með vísan til 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þann 22. sama mánaðar.

Í dómi héraðsdóms í málinu var fallist á stefnukröfur málsins jafnframt því sem kæranda var gert að greiða stefnanda 400.000 krónur í málskostnað. Í forsendum dómsins var málsástæðum kæranda til grundvallar frávísunarkröfu hafnað sem haldlausum jafnftamt því sem vísað var til þess mats dómsins „að lögmaður stefndu hafi tekið þessar málsástæður úr óskyldu máli þar sem hún er alls óskyld dómkröfum stefnanda.“ Tók dómurinn sérstaklega fram að málatilbúnaður kæranda að þessu leyti væri „ámælisverður“. Þá var eftirfarandi tiltekið um efnisþátt málsins í forsendum héraðsdóms:

Í kafla um málsástæður vegna kröfu stefndu um sýknu í greinargerð er farið yfir skyldur fjármálafyrirtækja og kröfur lánastofnana við gerð samninga. – Ekki verður sagt að um eiginlegar málsástæður sé að ræða sem beinist að dómkröfum stefnanda. Enginn samningur hefur verið gerður við stefndu af hálfu stefnanda og telur dómurinn að þær lýsingar og útlistanir stefndu í greinargerð eigi frekar heima í kennsluriti en sem málsástæður fyrir sýknukröfu stefnu í máli þessu. Þá vísar stefnda ítrekað til „nll“ í greinargerð sinni án nokkurra skýringa á því við hvað sé átt. Auk þess er mörgum orðum farið yfir verðbætur, gengistryggingu, grunnvísitölu vaxta, samning aðila og ólögmæta gengistryggingu. Ekkert er að finna í stefnu þar sem slíkar málsástæður geti átt við. Þá gefur dómkrafa stefnanda ekkert tilefni til að krefjast sýknu á kröfu um verðbætur eða gengistryggingu, innborganir eða leiðréttingu vegna gengistryggingar þar sem slíkar kröfur eru ekki hafðar uppi. – Þá byggir stefnda á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 um að ógilda megi samning aðila vegna aðstöðumunar aðila. Enginn samningur hefur verið gerður af hálfu stefnanda við stefndu sem byggt er á í máli þessu og er þessi málsástæða því að engu hafandi. – Að öllu ofangreindu virtu verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda 329.348 krónur ásamt dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.

Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi þann x. júlí 2021 óskað eftir upplýsingum frá kærða um það hvernig málflutningurinn hefði gengið. Í svari kærða þann sama dag kom fram að málinu hefði verið frestað vegna veikinda hans jafnframt því sem óskað var eftir upplýsingum um hvort kæranda gæti „hent einhv inn?“. Í svari kæranda þann sama dag kom fram að það væri komið inn „20 þs“.

Af málsgögnum verður einnig ráðið að kærandi hafi reynt að ná sambandi við kærða dagana 19. og 20. júlí 2021 en án árangurs. Fylgdi hún því eftir með erindum til kærða dagana 1. og 3. ágúst 2021 þar sem óskað var eftir upplýsingum um stöðu málsins. Í svari kærða þann síðargreinda dag kom fram að málið væri „í meðferð“ og að dómstólar væru í fríi. Óskaði kærði jafnframt á ný eftir innborgun frá kæranda. Ekki verður séð af málsgögnum að aðilar hafi átt í frekari samskiptum eftir þann tíma.

Samkvæmt gögnum sem kærandi hefur lagt fyrir nefndina greiddi hún alls 70.000 krónur til kærða á tímabilinu 13. janúar – 9. júní 2021 vegna hagsmunagæslunnar en reikningar þar að baki hafa ekki verið lagðir fram.

Líkt og áður greinir var kvörtun kæranda í málinu móttekin þann 23. september 2021.

II.

Skilja verður málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum vegna háttsemi sinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í kvörtun er því lýst að kærði hafi tekið að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna máls sem C hf. hafi höfðað, sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xxx/20xx. Hafi kærði ekki lagt fram rökstuðning fyrir kröfu um frávísun. Þvert á móti hafi greinargerð kærða í þágu kæranda verið í heild sinni fljótvirknisleg og ruglingsleg líkt og getið hafi verið í forsendum og niðurstöðu héraðsdóms. Jafnframt því hafi málið verið tekið fyrir án viðveru kærða og án þess að um lögmæt forföll af hans hálfu hefði verið að ræða. Þá hafi kærði ekki upplýst kæranda um niðurstöðu dómsins heldur tjáð það eitt að töf hefði orðið á afgreiðslu málsins.

Um þetta efni vísar kærandi nánar tiltekið til þess að fyrrgreint mál nr. E-xxx/20xx hafi verið þingfest í héraðsdómi þann x. mars 20xx. Eftir ítrekaðar frestbeiðnir hafi kærði loks lagt fram greinargerð vegna málsins á dómþingi þann x. júní 2021. Í fyrirtöku málsins þann x. júlí 2021 hafi verið ákveðið að munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu kæranda, sem stefnda í málinu, skyldi fara fram þann 12. sama mánaðar. Kærði hafi hins vegar ekki mætt til þeirrar fyrirtöku heldur upplýst dómara símleiðis um veikindi. Þar sem kærði hafi ekki skilað inn læknisvottorði  hafi málið verið dómtekið og dómur kveðinn upp í málinu þann x. júlí 2021 þar sem fallist hafi verið á stefnukröfur stefnanda.

Kærandi byggir á að henni hafi ekki verið kunnugt um þessi undanbrögð kærða eða að málið hefði verið dómtekið vegna útivistar hans. Hafi hagsmunagæsla kærða í þágu kæranda verið skýrt brot á lögum nr. 77/1998 um lögmenn sem og ýmsum ákvæðum II. kafla siðareglna lögmanna, sbr. meðal annars 8. gr. þeirra.

Kærandi vísar til þess að kærði hafi sífellt gefið henni rangar upplýsingar um að málinu hefði verið frestað af hálfu dómstólsins. Einnig hafi kærði óskað reglulega eftir greiðslum frá kæranda vegna vinnu sinnar.

Kærandi bendir einnig á að kærði hafi upplýst hana um að hún kynni að eiga rétt til gjafsóknar vegna málsins. Hafi kærði þannig tjáð kæranda að hann hefði sótt um gjafsókn vegna málsins en óljóst sé hvort það sé rétt.

Í öllu falli telur kærandi ljóst að hún hafi ekki fengið þann stuðning frá kærða sem lögmanni sem vænta hafi mátt og greitt hafi verið fyrir. Þá telur kærandi að kærði hafi bakað sér skaðabótaskyldu samkvæmt reglugerð nr. 200/1999 um starfsábyrgðartryggingar lögmanna.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að honum verði ekki gert að sæta agaviðurlögum vegna háttsemi sinnar.

Í málatilbúnaði kærða er beðist afsökunar á vinnubrögðum hans í hagsmunagæslu í þágu kæranda. Kveður kærði það rétt að hann hafi brugðist starfsskyldum sínum gagnvart kæranda og að hann skammist sín fyrir þá háttsemi. Ætli hann sér ekki að reyna að réttlæta gjörðir sínar í málinu, enda hafi þær verið fyrir neðan allar hellur.

Um ástæður afglapa sinna vísar kærði til þess að hann hafi veikst illa í janúarmánuði 2021. Hafi þau veikindi dregið kærða á vondan stað þar sem hann hafi jafnframt verið algerlega vanhæfur til að sinna starfsskyldum sínum sem lögmaður og lífinu öllu. Beri kærði fulla ábyrgð á því. Á endanum hafi kærði haft vit á að leita sér hjálpar sem hann hafi fengið, svo sem framlögð vottorð beri með sér. Vinni kærði nú að því að byggja upp líf sitt. Þá lýsir kærði því að hann vilji af auðmýkt og einlægni fá tækifæri til að starfa við lögmennsku.

Að endingu bendir kærði á að þrátt fyrir léleg vinnubrögð í málinu þá hafi greinargerð hans í þágu kæranda vegna málsins innihaldið efnislegan rökstuðning ásamt kröfum um efnislega úrlausn þess. Komi slíkt einnig fram í dómi héraðsdóms í málinu.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi meginreglu 1. gr. siðareglnanna þar sem kveðið er á um að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti og að hann skuli leggja svo til allra mála sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Þá er tiltekið í 3. mgr. 8. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.

Þá er tiltekið í 2. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

III.

Málatilbúnaður kæranda er reistur á því að kærði hafi gert á hlut hennar við hagsmunagæslu í málinu nr. E-xxx/2021 og að háttsemi kærða hafi strítt gegn lögum nr. 77/1998 um lögmenn sem og ýmsum ákvæðum siðareglna lögmanna. Hefur sá málatilbúnaður ekki sætt andmælum af hálfu kærða sem hefur viðurkennt brot á starfsskyldum sínum gagnvart kæranda og að hagsmunagæsla hans í hennar þágu hafi verið óviðunandi. Þá hefur kærði vísað til þess fyrir nefndinni að hann hafi verið ófær um að sinna hagsmunagæslunni á tilgreindum tíma vegna veikinda.

Á grundvelli málsgagna og málatilbúnaðar aðila er einsýnt að mati nefndarinnar að hagsmunagæsla kærða í þágu kæranda var í engu í samræmi við þær kröfur og skyldur sem á lögmenn eru lagðar í lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna. Voru þannig þær varnir sem kærði hafði uppi fyrir hönd kæranda í héraðsdómsmálinu nr. E-xxx/20xx fjarstæðukenndar að teknu tilliti til sakarefnis málsins, svo sem forsendur dóms í málinu frá x. júlí 20xx bera einnig með sér. Jafnframt liggur fyrir að þingsókn féll niður í málinu af hálfu kæranda vegna atvika er varða kærða og var því farið með málið eftir 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Þá liggur fyrir að kærði upplýsti kæranda ranglega eftir dómtöku málsins að málið væri enn til meðferðar og í fresti vegna sumarleyfa dómsins. Voru öll þessi atvik til þess fallin að valda kæranda, sem hafði leitað til kærða í trausti réttinda hans og þekkingar sem lögmanns, réttarspjöllum.

Samkvæmt því rækti kærði í engu af alúð þau störf í hagsmunagæslunni sem kærandi trúði honum fyrir og lagði sig ekki fram um að gæta hagsmuna kæranda, svo sem áskilið er í 18. gr. laga nr. 77/1998 og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar verður jafnframt að leggja til grundvallar að kærði hafi á tilgreindum tíma ekki verið fær um að sinna hagsmunagæslunni af fagmennsku í samræmi við áskilnað 3. mgr. 8. gr. siðareglnanna. Þá var háttsemi kærða í brýnni andstöðu við 2. gr. siðareglnanna enda hún í engu til þess fallin að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, þar á meðal að teknu tilliti til þess að í hagsmunagæslunni fólst rekstur máls fyrir dómi í þágu kæranda.

Í samræmi við það sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að kærði hafi með háttsemi sinni við hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/20xx brotið gróflega gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 sem og 2. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Með hinum alvarlegu brotum kærða á tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 og siðareglnanna sem hér hefur verið lýst hefur kærði sýnt af sér hegðun sem telja verður lögmannastéttinni ósamboðna jafnframt því sem háttsemin var til þess fallin að valda kæranda réttarspjöllum. Með hliðsjón af því að kærði hefur skýlaust viðurkennt að hafa ekki sinnt starfsskyldum sínum í samræmi við lög og siðareglur lögmanna, sýnt iðrun og leitað sér aðstoðar vegna veikinda sinna verður látið við það sitja að veita kærða áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Það athugast að á grundvelli valdsviðs nefndarinnar,  eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998, fellur það utan valdheimilda nefndarinnar að fjalla um og taka afstöðu til ætlaðrar skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda sem vísað er til í málatilbúnaði hins síðargreinda fyrir nefndinni. Kemur sá málatilbúnaður kæranda því ekki til umfjöllunar og úrlausnar í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson