Mál 23 2021

Mál 23/2021

Ár 2022, fimmtudaginn 13. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2021:

A

gegn

B  lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 28. september 2021 erindi kæranda, A en í því er vísað til ágreinings kæranda við kærða, B, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 29. september 2021, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærða barst þann 18. október 2021 og var hún send kæranda til athugasemda með bréfi þann 20. sama mánaðar. Dagana 19. október og 5. nóvember 2021 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 10. nóvember 2021. Þann 2. desember 2021 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir frá kærða og var tilkynning þess efnis send til kæranda þann 9. sama mánaðar auk þess sem upplýst var um að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Fyrir liggur að kærandi leitaði til kærða og lögmannsstofu hans í marsmánuði 2019 vegna forsjármáls sem höfðað hafði verið gegn kæranda og þingfesta átti fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Ágreiningslaust er að kærði og lögmannsstofa hans tóku að sér hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna málsins. Verður ráðið af fyrirliggjandi tímaskýrslu í málinu að kærði og löglærður fulltrúi hans hafi hafið vinnu við málið þann 4. mars 2019 og að hagsmunagæslan hafi staðið til 24. september sama ár.

Fyrir liggur að tilgreint dómsmál var þingfest í héraðsdómi þann 11. apríl 2019, sbr. málið nr. E-xxx/20xx. Í málinu var kveðinn upp úrskurður þann x. júlí 2019 þar sem skorið var til bráðabirgða úr ágreiningi aðila um forsjá, lögheimili, umgengni og greiðslu meðlags. Var sá úrskurður kærður til Landsréttar og kom þá annar lögmaður að málinu og hagsmunagæslu í þágu kæranda vegna veikinda kærða. Úrskurðaði Landsréttur í málinu þann x. september 20xx, sbr. málið nr. xxx/20xx. Bera málsgögn með sér að lögmannsstofa kærða hafi ekki haft frekari aðkomu að málinu eftir þann mánuð.

Ekki er ágreiningur um að á upphafsstigum málsins var gefinn út reikningur vegna lögmansstarfa kærða og fulltrúa hans í þágu kæranda. Liggur þannig fyrir reikningur sem lögmannsstofa kærðu gaf út á hendur kæranda þann 25. mars 2019 að fjárhæð 132.000 krónur með virðisaukaskatti. Mun sá reikningur hafa verið greiddur af hálfu kæranda.

Jafnframt því liggur fyrir að kærði vann að og lagði fram gjafsóknarbeiðni í þágu kæranda vegna málsins í mars- og aprílmánuði 2019. Á meðal málsgagna er gjafsóknarleyfi sem kæranda var veitt þann 25. júní 2019 vegna málsins. Var þar meðal annars tiltekið að gjafsóknin væri takmörkuð við réttargjöld og þóknun lögmanns við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, sbr. þó 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkmála.

Dómur var kveðinn upp í málinu nr. E-xxx/20xx í héraðsdómi þann x. maí 20xx. Samkvæmt dómsorði skyldi gjafsóknarkostnaður kæranda greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun kærða, sem fyrri lögmanns kæranda, sem ákveðin var 600.000 krónur án virðisaukaskatts. Var eftirfarandi tiltekið um það efni í forsendum dómsins:

Rétt er að málskostnaður aðila falli niður. Báðir aðilar njóta gjafsóknar, stefnandi samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu til handa honum 9. maí 2019 en stefnda samkvæmt gjafsóknarleyfi, dags. 25. júní 2019. Allur málskostnaður þeirrra greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun [....] og fyrri lögmanna stefndu, B [.....]. Lögmenn stefndu hafa samanlagt tilgreint í tímaskýrslum að þau hafi varið rúmlega 172 klukkustundum í vinnu við málið [...]. – Þegar litið er til umfangs málsins, tímaskýrslu hvers lögmanns annarra en [...], og þess hvernig málflutningsþóknun hefur verið ákveðin af hálfu dómstóla í sambærilegum málum telur dómurinn að hæfileg þóknun til [...], en 600.000 kr. til B [...], fyrri lögmanna stefndu. Í öllum tilvikum er fjárhæðin ákveðin án virðisaukaskatts í samræmi við venju. Dómurinn tekur fram að stefnda hefur einungis lagt fram reikning [...] en ekki tímaskýrslu og dómurinn hefur því ekki haft sömu viðmið þar við ákvörðun þóknunar.

Líkt og áður greinir er á meðal málsgagna fyrir nefndinni að finna tímaskýrslu vegna starfa kærða og fulltrúa hans í þágu kæranda á tímabilinu frá 4. mars 2019 til 24. september sama ár. Tók hún til alls 61.55 klst. á tímagjaldinu 24.900 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því mun áskilin þóknun vegna starfa lögmannsstofu kærða í þágu kæranda hafa numið 1.532.595 krónur auk virðisaukaskatts, eða 1.900.418 krónur með virðisaukaskatti. Af forsendum fyrrgreinds dóms í máli nr. E-xxx/20xx verður ráðið að tímaskýrslan hafi legið fyrir við ákvörðun fyrrgreindrar málflutningsþóknunar kærða vegna málsins.

Fyrir liggur að fyrrgreindum dómi héraðsdóms var áfrýjað til Landsréttar jafnframt því sem Hæstiréttur veitti áfrýjunarleyfi vegna málsins. Með dómi Landsréttar x. desember 20xx í máli nr. xxx/20xx var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað staðfest. Þá var tiltekið í dómi Hæstaréttar x. júní 20xx í máli nr. x/20xx að málskostnaður milli aðila á öllum dómstigum félli niður jafnframt því sem ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skyldu vera óröskuð.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að reikningi sem lögmannsstofa kærða gaf út á hendur kæranda þann 31. mars 2021. Nánar tiltekið var þar um að ræða reikning nr. 101545 að fjárhæð 744.000 krónur með virðisaukaskatti. Var því lýst á reikningnum að hann tæki til vinnu samkvæmt tímaskýrslu vegna máls nr. E-xxx/20xx og að um væri að ræða þóknun vegna starfa kærða og löglærðs fulltrúa hans.

Jafnframt liggur fyrir um þetta efni í málsgögnum bréf sem lögmannsstofa kærða sendi til kæranda vegna reikningsins. Var þar vísað til tímaskýrslu vegna vinnu við málið jafnframt því sem tilgreind var ákvörðun þóknunar samkvæmt gjafsóknarleyfi. Þá var eftirfarandi tiltekið:

Afsláttur stofunnar til yðar er kr. 332.595 að viðbættum vsk. kr. 79.823 samtals kr. 412.418. Eftirstöðvar reiknings eru kr. 600.000 að viðbættum vsk. kr. 144.000 samtals kr. 744.000.

Kærandi hafnaði reikningnum með vísan til gjafsóknarleyfis sem hún hefði notið við rekstur málsins í tölvubréfi til kærða þann 18. maí 2021. Ekki verður ráðið að kærði hafi svarað því erindi kæranda með öðrum hætti en með innheimtubréfi sem sent var til kæranda þann 18. júní 2021 vegna hins ógreidda reiknings.

Aðilar munu ekki hafa átt í frekari samskiptum vegna málsins þar til erindi kæranda í máli þessu var beint til nefndarinnar þann 28. september 2021 vegna ágreinings um greiðsluskyldu vegna fyrrgreinds reiknings lögmannsstofu kærða frá 31. mars 2021.

II.

Kærandi krefst þess að reikningur C. nr. 101545 að fjárhæð 744.000 krónur með virðisaukaskatti, sem útgefinn var þann 31. mars 2021, verði felldur niður, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998.

Kærandi vísar til þess að málið lúti að kröfu um niðurfellingu reiknings þar sem málið, sem vinna að baki reikningi taki til, falli undir gjafsókn.

Nánar tiltekið vísar kærandi til þess að C ehf. hafi gefið út reikning vegna héraðsdómsmálsins nr. E-xxx/20xx að fjárhæð 744.000 krónur. Kveðst kærandi hafa átt rétt til gjafsóknar vegna málarekstursins og samkvæmt dómsorði í málinu hafi gjafsóknarkostnaður greiðst úr ríkissjóði, þar með talin þóknun kærða að fjárhæð 600.000 krónur auk virðisaukaskatts, þ.e. samtals 744.000 krónur. Þar að auki hafi kærandi áður greitt til lögmannsstofu kærða 132.000 krónur samkvæmt útgefnum reikningi, dags. 25. mars 2019.

Kærandi byggir á að vegna gjafsóknar sé réttast að reikningur lögmannsstofu kærða frá 31. mars 2021, að fjárhæð 744.000 krónur með virðisaukaskatti, verði felldur niður enda sé þegar búið að greiða hluta af honum úr ríkissjóði. Bendir kærandi á að haft hafi verið samband við kærða vegna reikningsins strax í maímánuði 2021 en engin svör hafi borist.

Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að hún hafi leitað til C ehf. um hagsmunagæslu vegna forsjármáls sem höfðað hafi verið gegn henni. Er því lýst að kærði og fulltrúi hans hafi unnið greinargerð í þágu kæranda vegna málsins, þ.e. vegna kröfu um bráðabirgðaúrskurð um forsjá og umgengni, og lagt hana fram á dómþingi í héraðsdómi, sbr. málið nr. E-1563/2019.

Eftir að úrskurður lá fyrir í málinu í júlímánuði 2019 kveðst kærandi hafa ákveðið að kæra úrskurð héraðsdóms, þar sem skorið var til bráðabirgða úr ágreiningi aðila um forsjá, lögheimili, umgengni og greiðslu meðlags til Landsréttar. Við vinnslu kæru hafi kærði og lögmannsstofa hans skyndilega látið af störfum í málinu og fært það í hendur annars tilgreinds lögmanns. Lýsir kærandi því að það hafi aldrei verið skýrt af hverju lögmannsstofan hafi ekki getað haldið áfram með málið á þessum tímapunkti. Að endingu kveðst kærandi hafa leitað til annars lögmanns sem farið hafi með málið frá þeim tíma.

Kærandi kveðst hafa fengið gjafsóknarleyfi í gegnum öll þau dómsmál sem hún hafi staðið í. Hafi kærandi verið einstæð móðir í námi og hlutastarfi, með lágar tekjur og því aldrei getað staðið undir viðlíka kostnaði.

Kærandi bendir á að tímaskýrsla kærða hafi legið fyrir við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Samkvæmt dómsorði hafi málsksotnaður fallið niður á milli aðila þar sem báðir hafi notið gjafsóknar. Þá hafi þóknun kærða á grundvelli gjafsóknarinnar verið ákveðin 600.000 krónur auk virðisaukaskatts, sem greiðst hafi úr ríkissjóði.

Kærandi byggir á að hvergi komi fram í dómsorði að henni beri að greiða eftirstöðvar samkvæmt þeirri tímaskýrslu sem legið hafi til grundvallar við meðferð málsins í héraði. Byggir kærandi á að eftirstöðvar vegna vinnu kærða, sbr. reikning nr. 101545, séu of háar. Byggir kærandi því á að fella eigi reikninginn niður enda sé búið að verðmeta vinnu kærða í dómsmálinu.

Vísað er til þess að réttlát málsmeðferð og aðgangur að dómstólum sé tryggður í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og mannréttindasáttamála evrópu, sbr. lög nr. 33/1944 og 62/1994. Sé skylda stjórnvalda því sú að tryggja að úrræðið gjafsókn, sem sett hafi verið á laggirnar til þess að verja þennan rétt, sé bæði aðgengilegt og virkt. Hafi forsjármál kæranda farið í gegnum öll dómstig landsins og lokið með þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að kærandi skyldi hafa fulla forsjá. Hafi annar lögmaður en kærði rekið málið að mestu leyti.

Kærandi ítrekar að dómstólar hafi ákvarðað eðlilega þóknun til lögmanna á grundvelli gjafsóknarleyfis. Hafi gjafsókn í málinu falið í sér að réttargjöld og þóknun kærða vegna málsins skyldi greidd úr ríkissjóði. Kveðst kærandi ekki kannast við að hafa fengið tilkynningu frá kærða um að þegar málinu væri lokið kynni hún að vera komin í  mikla skuld við kærða vegna lögmannsskostnaðar. Hafi slíkt enda strítt alfarið gegn tilgangi gjafsóknar. Kærandi vísar til þess að símtal hafi átt sér stað um að ef gjafsókn fengist ekki myndi kostnaðurinn lenda á kæranda. Sé hér um tvo gjörólíka þætti að ræða enda hafi gjafsókn fengist í málinu. Þá sé ákvæði 10. gr. siðareglna lögmanna skýr um að lögmanni beri að gera skjólstæðingi grein fyrir mögulegum kostnaði sem hljótist af störfum.

Kærandi byggir á að veiting gjafsóknarleyfis í málinu hafi falið í sér að um þóknun vegna starfa kærða í þágu kæranda færi samkvæmt ákvörðun dómstóla. Vísar kærandi einnig um það efni til 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Að endingu mótmælir kærandi kröfu kærða um málskostnað fyrir nefndinni.

III.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað og að staðfest verði að reikningur C ehf. nr. 101545 að fjárhæð 744.000 krónur með virðisaukaskatti, sem útgefinn var þann 31. mars 2021, sé réttmætur. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda.

Kærði vísar til þess að kærandi hafi leitað til lögmannsstofu hans vegna forsjármáls sem barnsfaðir hennar og fyrrum sambýlismaður hafi höfðað vegna dóttur þeirra. Hafi kærði tekið að sér gæta hagsmuna kæranda. Kærandi hafi aðallega haft samskipti við löglærðan fulltrúa kærða vegna málsins, þrátt fyrir að kærði hafi komið mjög að rekstri málsins.

Kærði vísar til fyrirliggjandi tímaskýrslu lögmannsstofu hans varðandi vinnu í þágu kæranda á tímabilinu 4. mars – 24. september 2019 vegna málsins. Vísar kærði til þess að þar komi fram að veruleg vinna hafi verið lögð í  hagsmunagæslu fyrir kæranda. Sótt hafi verið um gjafsóknarleyfi fyrir hönd kæranda sem veitt hafi verið. Kæranda hafi þó verið gert ljóst af lögmanni og fulltrúa hans að málskostnaður gæti orðið hærri en tildæmd málflutningsþóknun auk þess að tilgreina tímagjald lögmannsstofunnar.

Kærði byggir á að sá tími sem farið hafi í ráðgjöf til kæranda og rekstur málsins hafi verið hófstilltur og fullkomlega innan eðlilegra marka, miðað við umfang málsins og margítrekuð símtöl við kæranda. Af tillitssemi við kæranda hafi kærði ákveðið að gefa kæranda verulegan afslátt af reikningi lögmannsstofunnar. Sé kvörtun þessi því með öllu tilhæfulaus og óviðeigandi.  Krefst kærði þess því að nefndin ákvarði lögmannsstofu hans þóknun, að mati nefndarinnar, vegna þeirrar vinnu sem farið hafi í að svara erindi kæranda, ásamt því að staðfesta að reikningur lögmannsstofunnar sé réttmætur.

Í viðbótarathugasemdum kærða er vísað til þess að kæranda hafi verið gerð grein fyrir að vegna veikinda kærða þyrfti að færa rekstur málsins til annars lögmanns. Hafi það verið gert bæði með vitund og vilja kæranda. Þá hafi kæranda verið fullkunnugt um að kostnaður vegna málsins kynni að fara fram úr því sem fjárhæð gjafsóknar fæli sér og hann upplýstur um það efni frá öndverðu. Séu fullyrðingar kæranda um annað rangar enda því næst fjarstæðukennt að lögmaður gefi um það loforð fyrirfram að fá ekki greitt fyrir þá vinnu sem innt sé af hendi.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

II.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort kærða hafi verið heimilt að áskilja sér hærra endurgjald úr hendi kæranda en sem nam tildæmdri þóknun samkvæmt dómi héraðsdóms x. maí 20xx í málinu nr. E-xxx/20xx, sbr. einnig dóm Landsréttar x. desember 20xx í máli nr. xxx/20xx, þar sem fyrir lá gjafsóknarleyfi handa kæranda til málarekstursins.

Samkvæmt því lýtur ágreiningur í máli þessu að reikningi sem lögmannsstofa kærða gaf út á hendur kæranda þann 31. mars 2021, sbr. reikning nr. 101545 að fjárhæð 744.000 krónur með virðisaukaskatti. Á reikningnum var því lýst að hann tæki til vinnu samkvæmt tímaskýrslu vegna fyrrgreinds héraðsdómsmáls nr. E-xxxx/20xx en ágreiningslaust er að tilgreind tímaskýrsla kærða lá fyrir við ákvörðun málskostnaðar í dómsmálinu.

Um gjafsókn er fjallað í XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 127. gr. laganna skuldbindur gjafsókn ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laganna skal þóknun umboðsmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls vera ákveðin í dómi ef hún er ekki undanskilin gjafsókn.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan var kæranda veitt gjafsóknarleyfi þann 25. júní 2019 vegna áðurgreinds dómsmáls. Var meðal annars tiltekið í gjafsóknarleyfi að gjafsóknin væri takmörkuð við réttargjöld og þóknun lögmanns við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, sbr. þó 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991.

Sambærilegt sakarefni og hér um ræðir kom til kasta nefndarinnar í máli nr. 33/2001 en úrskurður í málinu var uppkveðinn þann 9. september 2002. Í því máli komst nefndin að þeirri niðurstöðu að 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 fæli í sér takmörkun á heimild lögmanns til að áskilja sér hærra endurgjald fyrir flutning gjafsóknarmáls en sem næmi tildæmdri málflutningsþóknun, nema viðkomandi lögmaður semdi sérstaklega um annað við umbjóðanda sinn, sbr. m.a. eftirfarandi forsendur í úrskurði nefndarinnar:

Með vísun til framangreindra lagaákvæða og dóma er það mat úrskurðarnefndar lögmanna að 2. mgr. 127. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, feli í sér takmörkun á heimild lögmanns til að áskilja sér hærra endurgjald fyrir flutning gjafsóknarmáls en sem nemur tildæmdri málflutningsþóknun, nema viðkomandi lögmaður semji sérstaklega um annað við umbjóðanda sinn. Eins og mál þetta er lagt fyrir nefndina hefur ekki verið sýnt fram á það að varnaraðili hafi samið á þann hátt við sóknaraðila um hærra endurgjald fyrir flutning gjafsóknarmálsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Er það því niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili eigi ekki rétt á hærri málflutningsþóknun en ákveðin var með dómi Hæstaréttar Íslands þann x. maí 2001.

Í samræmi við fyrrgreint fordæmi verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að þegar gjafsóknarleyfið var veitt kæranda þann 25. júní 2019 hafi orðið breyting á samningssambandi aðila. Í stað þess að áskilja sér þóknun úr hendi kæranda fól gjafsóknarleyfið í sér að kærði þægi þóknun samkvæmt ákvörðun sem dómari tæki um málflutningsþóknun honum til handa nema um annað yrði sérstaklega samið, sbr. einnig úrskurð nefndarinnar frá 22. desember 2004 í máli nr. 28/2002-a. Ber tímaskýrsla kærða einnig með sér að frá upphafi verks hafi legið fyrir að leitað yrði gjafsóknarleyfis í þágu kæranda vegna reksturs málsins, sbr. meðal annars færslur í tímaskýrslu frá 4. og 7. mars 2019.

Kærði hefur byggt á því fyrir nefndinni að kæranda hafi verið gert ljóst í réttarsambandi aðila að málskostnaður gæti orðið hærri en tildæmd málflutningsþóknun. Hafi kæranda þannig verið fullkunnugt um að kostnaður vegna málsins kynni að fara fram úr því sem fjárhæð gjafsóknar fæli í sér. Kærandi hefur á hinn bóginn andmælt þeim málatilbúnaði og bent á að slík túlkun hafi bæði strítt gegn tilgangi gjafsóknar og því sem fram hafi farið á milli aðila. Hafi kærandi þannig aðeins fengið upplýsingar um að ef gjafsókn fengist ekki myndi kostnaður vegna lögmannsstarfa lenda á henni en ekkert hafi verið rætt um umfram kostnað ef gjafsókn yrði veitt vegna málarekstursins, svo sem raunin hafi orðið.

Engin gögn hafa verið lögð fyrir nefndina sem bera með sér að samkomulag hafi orðið á milli aðila um að kærandi tæki að sér og væri skuldbundinn til að greiða umfram endurgjald til kærða samkvæmt tímaskýrslu hans ef það reyndist hærra en dæmd málflutningsþóknun á grundvelli gjafsóknarleyfisins yrði. Stendur því hér orð gegn orði. Að mati nefndarinnar verður að leggja til grundvallar að það hafi staðið kærða nær að ganga frá slíkum þáttum með skýrum og skilmerkilegum hætti. Er þá til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum sem og að upplýsa um á hvaða grundvelli þóknun sé reiknuð.

Samkvæmt fyrrgreindu fordæmi í úrskurði nefndarinnar frá 9. september 2002 í máli nr. 33/2001 og þar sem ekki hefur verið leitt í ljós í málinu að kærði hafi samið við kæranda um hærra endurgjald vegna reksturs málsins er það niðurstaða nefndarinnar að kærði eigi ekki rétt á hærra endurgjaldi vegna starfa sinna í þágu kæranda en ákveðin var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur x. maí 20xx í málinu nr. E-xxxx/20xx.

Fyrir liggur að hinn umþrætti reikningur lögmannstofu kærða á hendur kæranda, dags. 31. mars 2021 að fjárhæð 744.000 krónur með virðisaukaskatti, er tilkominn vegna meintrar ógreiddrar þóknunar vegna starfa kærða, þ.e. fjárhæð reikningsins er mismunur á dæmdri málflutningsþóknun á grundvelli gjafsóknarleyfis annars vegar og þeirri þóknun sem kærði áskildi sér á grundvelli tímaskýrslu hins vegar að teknu tilliti til veitts afsláttar. Í samræmi við fyrrgreinda niðurstöðu nefndarinnar verður að telja að ekki hafi verið stoð fyrir hinum umþrætta reikningi. Eru því ekki efni til annars en að fallast á með kæranda að lögmannsstofa kærða eigi ekki rétt til umkrafinnar þóknunar úr hendi kæranda samkvæmt reikningnum, með þeim hætti sem kveðið er á um í úrskurðarorði.

Eftir niðurstöðu málsins verður að hafna kröfu kærða um að kæranda verði gert að greiða honum kostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni en kærandi hefur ekki haft uppi slíka kröfu gagnvart kærða fyrir nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B lögmaður, á ekki rétt til endurgjalds úr hendi kæranda, A, samkvæmt reikningi C ehf. nr. 101545, dagsettum 31. mars 2021 að fjárhæð 744.000 krónur með virðisaukaskatti, og skal hann felldur niður.

Kröfu kærða, B lögmanns, um málskostnað úr hendi kæranda, A, er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson