Mál 24 2021

Mál 24/2021

Ár 2021, miðvikudaginn 24. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2021:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 29. september 2021 erindi C lögmanns fyrir hönd kæranda, A, þar sem kvartað er yfir því að kærði, B lögmaður, hafi brotið gegn lögum og nánar tilgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna í störfum sínum, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 12. október 2021 og barst hún þann 21. sama mánaðar. Var lögmanni kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 26. október 2021. Viðbótarathugasemdir kæranda vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 9. nóvember 2021. Með bréfi nefndarinnar til málsaðila, dags. 15. nóvember 2021, var tilkynnt að nefndin liti svo á að gagnaöflun í málinu væri lokið. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Í kvörtun er málsatvikum lýst með þeim hætti að kærði hafi þann x. 20xx birt færslu á svonefndri ....... síðu sinni um mál er varðað hafi kæranda. Með færslunni hafi kærði jafnframt birt x myndir, en þrjár þeirra hafi verið af viðkvæmum rannsóknargögnum úr tveimur tilgreindum sakamálum þar sem kærandi hafi annars vegar verið brotaþoli og hins vegar vitni. Er vísað til þess að kærandi hafi lagt fram kæru vegna ofbeldisbrots. Því máli hafi lyktað með því að ofbeldismaðurinn hafi gengist við broti sínu og greitt bætur. Fyrsta myndin sem kærði hafi birt hafi verið hluti af ...... kæranda, sem brotaþola, fyrir lögreglu. Önnur myndin hafi verið ....... kæranda og brotaþola í hinu málinu til lögreglu um afturköllun kæru og ósk um niðurfellingu rannsóknar. Síðasta myndin hafi svo verið hluti af ....... kæranda hjá lögreglu í hinu síðara máli.

Um þessi atvik vísar kærandi til þess að ekki sé óvanalegt að lögmaður hafi slík rannsóknargögn undir höndum starfs síns vegna en í þessu tilviki hafi kærði enga aðkomu haft að sakamálunum. Ekki sé vitað með vissu hvernig kæði hafi komist yfir gögnin en samkvæmt viðtölum sem hann hafi veitt um málið, bæði í prentmiðlum og útvarpsmiðlum dagana eftir birtinguna, hafi kærði aðeins tekið fram að gögnin hafi hann ekki fengið beint frá lögreglu. Jafnframt því hafi kærði þar staðfest að hann hefði ekki tekið þátt í málsvörn hins kærða í viðkomandi sakamálum.

Kærandi lýsir því að kærði hafi haldið því fram að hann hafi ekki birt myndirnar í starfi sínu sem lögmaður heldur sem einkapersóna. Hafi myndbirtingin þannig verið óviðkomandi starfi hans sem lögmaður. Kærandi vísar til þess að um fyrirslátt sé að ræða enda hafi kærði starfað fyrir ....... hins kærða í sakamálunum og eigi þar sæti í stjórn. Auk þess sé kærði ........ D.

Kærandi vísar til þess að hún telji að kærði hafi verið að ganga erinda viðkomandi sakbornings og eftir atvikum vinnuveitanda síns, D, með því að birta þau rannsóknargögn sem um ræði. Með birtingunni hafi verið reynt að kasta rýrð á kæranda og draga úr trúverðugleika hennar. Kærði hafi hins vegar freistað þess að koma sér undan trúnaðar- og þagnarskyldum og ábyrgð sem á honum hvílir lögum samkvæmt. Þar sem kærði hafi fullyrt að gögnin hafi ekki komið frá lögreglu og að hann hafi ekki komið að málsvörn í sakamálinu megi leiða líkur að því að kærði hafi annað hvort fengið gögnin frá viðkomandi sakborningi eða lögmanni/verjanda hans í málunum.

II.

Kærandi krefst þess að nefndin veiti kærða áminningu eða beiti hann strangari viðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Kærandi byggir í fyrsta lagi á að kærði hafi brotið gegn trúnaðar- og þagnarskyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998, sem kveði á um að lögmenn séu bundnir trúnaðar- og þagnarskyldum um bæði það sem þeim er trúað fyrir vegna starfa sinna og því sem þeir kunna að komast að vegna starfa sinna. Vísar kærandi til þess að málatilbúnaður kærða um einkapersónuna B sé fyrirsláttur, enda þótt hann hafi ekki haft sérstakt umboð frá hinum hinum kærða í sakamálinu. Hafi kærði þannig í reynd gengið erinda hans og þar með brotið gegn trúnaðar- og þagnarskyldu sinni. Komist lögmenn ekki undan þeim skyldum með því að setja á sig annan hatt.

Kærandi bendir á að kærði sé til að mynda stjórnarmaður í félaginu E ehf. sem sé í eigu ...... geranda í sakamálinu. Jafnframt því hafi kærði verið viðriðinn D í fleiri ár. Samkvæmt því séu augljós tengsl á milli viðkomandi geranda og kærða og skipti því engu hvort kærði hafi verið með stöðu sem verjandi eða lögmaður í sakamálinu eða starfi fyrir viðkomandi á annan hátt. Megi kærða ljóst vera að honum sé óheimilt að opinbera slík rannsóknargögn til almennings, enda slík gögn ekki afhent öðrum en þeim sem koma að rekstri sakamála, jafnvel þótt mál fari fyrir dóm og þinghöld séu þar opin. Er vísað til þess að birtingin hafi ekki þjónað öðrum tilgangi en að veitast að kæranda.

Kærandi byggir á að þagnarskylda um slík gögn sem um ræði og orðið hafi til við rekstur sakamála hvíli á lögmönnum og dugi ekki að bera fyrir sig að viðkomandi lögmaður hafi ekki haft með rekstur málsins að gera. Er vísað til þess að viðkvæm gögn í sakamálum séu afhent lögmönnum vegna sérstakrar stöðu þeirra við meðferð slíkra mála samkvæmt lögum nr. 88/2008. Hafi kærða mátt vera ljóst að um væri að ræða gögn sem ekki skyldu birt opinberlega og breyti þar engu þótt kærði hafi ekki komið að rekstri sakamálsins.

Kærandi byggir í öðru lagi á að kærði hafi brotið gegn 1. gr. siðareglna lögmanna en skilja verði ákvæðið svo að það taki til allra mála óháð því hvort lögmaðurinn fari með það eða ekki. Er vísað til þess að með færslu sinni hafi kærði farið með rangindi og villt um fyrir almenningi um staðreyndir málsins. Hafi þannig verið fullyrt í ummælum kærða að kærandi hefði gert atlögu að þeim einstaklingi sem hún hafi kært fyrir alvarlegt ofbeldisbrot.

Kærandi hafnar því að hún hafi gert atlögu að F. Er vísað til þess að hið rétta sé að ofbeldisbrotið hafi jafnframt verið tilkynnt til D á sínum tíma og formaður fengið upplýsingar um það. Aðspurður síðar hafi formaðurinn hins vegar ekki kannast við slíkt mál innan ....... Hafi kærandi því séð sig knúna til að koma á framfæri upplýsingum um að sú fullyrðing formannsins væri röng, án þess þó að F hefði verið nafngreindur. Í framhaldi þess hafi formaðurinn séð sig knúinn til að víkja úr formannsstóli vegna ósanninda jafnframt því sem ákvörðun hafi verið tekin innan D um að taka F úr ...... fyrir næsta ..... Hafi sú ákvörðun hvorki verið að frumkvæði né kröfu kæranda. Samkvæmt því byggir kærandi á að fullyrðing kærða um ætlaða atlögu sé röng.

Vísað er til þess að kærði hafi einnig gefið í skyn að kærandi hefði hlotið væga eða jafnvel enga áverka eftir árás F. Samkvæmt því hafi kærði gert lítið úr alvarlegu atviki og farið rangt með staðreyndir. Hafi færsla kærða orðið þess valdandi að margir hefðu talið að kærandi hefði jafnvel ekki orðið fyrir neinum áverkum eða að pottur væri brotinn í málinu. Ekkert af því hafi átt við rök að styðjast. Þannig hafi árásin verið alvarleg og kæranda veittir áverkar sem staðreyndir hafi verið með áverkavottorði. Jafnframt því hafi F viðurkennt brot sitt og greitt kæranda bætur. Sé því ljóst að færsla kærða um málið hafi ekki verið í samræmi við 1. gr. siðareglnanna.

Kærandi byggir á að það sé brot á siðareglum lögmanna þegar lögmaður, sem meðal annars er þekktur fyrir að hafa tekið þátt í meðferð sakamála, setur vísvitandi fram fullyrðingar sem ekki eru í samræmi við fyrirliggjandi staðreyndir, í því skyni að láta almenning halda að ekki hafi verið um að ræða afbrot. Eigi slíkt ekki hvað síst við þegar viðurkenning liggi fyrir á brotinu. Kærði hafi hins vegar bætt um betur í fjölmiðlum þar sem fram hafi komið hjá honum að stundum væri „..................“. Með því hafi kærði gefið í skyn að fullyrðingar hans um málið, sem voru rangar, væru sannleikurinn í málinu.

Kærandi byggir í þriðja lagi á að kærði hafi brotið gegn 2. gr. siðareglna lögmanna, enda hafi heiðurs lögmannastéttarinnar ekki verið gætt þegar hann birti viðkvæm persónugreinanleg rannsóknargögn úr sakamáli kæranda. Er vísað til þess að sú háttsemi sé til þess fallin að rýra traust almennings á lögmannsstéttinni í heild enda ljóst að ef lögmenn fara að birta slík gögn á opinberum vettvangi verði traust almennings til lögmanna að engu. Verði þá að líta til þess að lögmannsstarfið sé trúnaðarstarf og upplýsingar og gögn sem þeim sé trúað fyrir og þeir fá aðgang að lögum samkvæmt varði oft viðkvæmustu málefni einstaklinga. Vegna stöðu lögmanna að lögum sé þeim trúað fyrir ýmsum viðkvæmum upplýsingum sem ekki eigi að koma fyrir almennings sjónir. Sé því ótækt að mati kæranda að lögmenn birti slík gögn og upplýsingar opinberlega undir því yfirskini að þeir hafi ekki fengið gögnin afhent í starfi sínu sem lögmenn. Jafnframt verði að líta til þess að birtingin hafi ekkert haft með rekstur sakamálsins að gera, heldur hafi aðeins verið gerð tilraun til að varpa rýrð á kæranda. Með háttsemi sinni hafi kærði hins vegar fyrst og fremst varpað rýrð á sjálfan sig og lögmannsstéttina í leiðinni.

Kærandi byggir í fjórða lagi á að kærði hafi einnig brotið gegn 6. gr. siðareglnanna enda verði að telja að kærði hafi í reynd gætt hagsmuna þess sem kærandi hafi kært er hin umþrætta birting fór fram. Samkvæmt því hafi kærði átt að halda gögnunum frá óviðkomandi.

Kærandi bendir á að við ritun kvörtunar hafi yfir 400 manns sýnt viðbrögð við færslu kærða, 90 manns hafi deilt henni jafnframt því sem 800 ummæli megi finna undir henni. Þar að auki hafi verið skrifaður fjöldinn allur af fréttum af færslu kærða. Sú færsla og birting gagnanna hafi haft þann eina tilgang að vera tilraun til að niðurlægja kæranda, draga úr trúverðugleika hennar og villa um fyrir almenningi. Þá hafi færsla kærða um leið drusluskammað kæranda.

Í tengslum við málsvörn kærða um að hann hafi látið ummælin falla sem borgari á G en ekki sem lögmaður, bendir kærandi á að slík málsvörn hafi ekki þótt merkileg í öðrum löndum. Vísar kærandi um það efni til nýlegs máls, frá júlí 2021, þar sem breskur lögmaður var sviptur réttindum fyrir að viðhafa niðrandi ummæli um fólk, ummæli sem meðal annars voru talin fela í sér kvenfyrirlitningu. Er ítrekað að lögmaður sem sýnir kvenfyrirlitningu, eins og kærði gerði gegn kæranda, geti ekki skýlt sér á bak við það að hafa látið ummæli falla sem almennur borgari enda væru siðareglur lögmanna þá til lítils.

Í viðbótargreinargerð kæranda til nefndarinnar eru gerðar athugasemdir við efni og framsetningu í málatilbúnaði kærða varðandi aðkomu lögmanns kæranda að málinu. Er í því samhengi vísað til 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna um að lögmaður hafi rétt á því að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætir fyrir sinn skjólstæðing. Þrátt fyrir þetta sjálfsagða ákvæði siðareglnanna hafi kærða tekist að gefa því mjög langt nef.

Kærandi mótmælir því að hún sé þátttakandi í meintri atlögu H að D. Er vísað til þess að þekkt sé að óþægileg og vandræðaleg umfjöllun um málefni líðandi stundar sé af þeim sem hagsmuna eiga að gæta kölluð atlaga. Er því lýst að kærandi hafi sjálf ekki verið fyrirferðarmikil í umræðunni, þótt um mál hennar hafi verið fjallað. Hafi enda verið full ástæða til að fjalla um það hvernig stór ......... bregst við og tekur á tilkynningum um ofbeldisbrot þeirra sem koma fram undir merkjum hennar, ekki síst þegar ........ vill ekki kannast við mál sem hafa komið inn á borð hennar.

Kærandi ítrekar að kærði hafi komið fram sem lögmaður í málinu og haft augljóst tengsl við málsaðila, þ.e.a.s. þann einstakling sem kærður hafi verið í málinu sem og D. Megi líta á afskipti kærða af málinu sem lögmannsstörf. Þá hafi í umfjöllun um málið verið vitnað í kærða sem lögmann.

Kærandi áréttar jafnframt að lögmanni beri ávallt að gæta að heiðri lögmannsstéttarinnar, sbr. 2. gr. siðareglna lögmanna. Er vísað til þess að lögmaður sem veitist með slíkum hætti að brotaþola í viðkvæmu sakamáli og leggi rangt til málanna rýri traust almennings á lögmannsstéttinni í heild sinni. Er bent á að þegar framganga lögmanna, sem eru hluti réttarvörslukerfisins, sé með þeim hætti að lögmenn telji sér bæði rétt og skylt að birta gögn úr málum þeirra sem þangað leita með sín mál, jafnvel úr málum þar sem viðurkenning á broti liggur fyrir, og afbaka staðreyndur úr slíkum málum undir þeim formmerkjum að það sé sannleikurinn, þá séu lögmenn að rýra tiltrú almennings á lögmönnum og réttarvörslukerfinu. Samkvæmt því telji kærandi að háttsemi kærða geti ekki talist siðferðislega verjandi.

III.

Skilja verður málatilbúnað kærða með þeim hætti að þess sé krafist að málinu verði vísað frá nefndinni.

Kærði kveðst hafa heyrt fyrst af málatilbúnaði kvörtunar þegar lögmaður kæranda kom fram í fréttatíma J og upplýsti um fyrirhugaða kæru. Vísar kærði til þess að eftir að lögmaðurinn hafi legið undir feldi, eins og Þorgeir um þúsund, og samið einar þrjár kærur hafi þeim verið komið til H til birtingar. Lögmaðurinn sé þó ólíkur Þorgeiri, þar sem hann virðist ekki vilja einn sið í landinu og að sú regla sé virt að hver maður sé saklaus uns sekt hans sé sönnuð fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómi.

Kærði vísar til þess að skrif hans á ........ eigi ekki undir úrskurðarnefnd lögmanna þó þau varði umbjóðanda annars lögmanns. Bendir kærði á að K sé skylduaðildarfélag og að það hafi ekkert boð- eða refsivald yfir kærða nema vegna þeirra mála sem hann sinni sem lögmaður. Verði að túlka allar heimildir félagsins og úrskurðarnefndar gagnvart félagsmönnum þröngt þar sem um félag með skylduaðild sé að ræða. Skipti jafnframt engu við úrlausn málsins hvaða sið menn hafa á Englandi.

Á því er byggt að hvorki K né úrskurðarnefnd þess geti heft tjáningarfresli kærða um málefni líðandi stundar, eins og atlögu H að D sem byggi á staðhæfingum um eitthvað sem heiti nauðgunarmenning. Á vettvangi þeirrar umræðu hafi kærandi verið fyrirferðarmikil.

Kærði vísar til þess að D sé ekki vinnuveitandi hans líkt og ranglega sé haldið fram í kvörtun. Þvert á móti sitji kærði sem ólaunaður sjálfboðaliði í ......... D sem hafi sama hlutverk og aðrir ...... innan frjálsra félagasamtaka. Byggir kærði á að úrskurðarnefnd lögmanna sé sett undir sama hatt, þ.e. henni sé ætlað að tryggja að lögmenn fari að lögum nr. 77/1998 og siðareglum lögmanna við rækslu lögmannsstarfa. Annað og meira hlutverk hafi nefndin ekki. Þá breyti engu fyrir málið þó kærði sitji í stjórn E ehf. enda skapi sú stjórnarseta nefndinni ekkert vald til að fjalla um skrif kærða.

Kærði bendir á að nefndin geti hins vegar velt fyrir sér hvort framganga lögmanns kæranda í garð kærða hafi samrýmst góðum lögmannsháttum. Ver megi þó að hann hafi gerst sérstök málpípa skjólstæðings síns á grundvelli 5. gr. siðareglna lögmanna.

Að öðru leyti kveðst kærði ekki láta málið til sín taka.

Niðurstaða

Líkt og áður er rakið hefur kærandi krafist þess fyrir nefndinni að kærða verði veitt áminning eða hann beittur strangari agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, vegna umfjöllunar og gagnabirtingar á ..... síðu hans þann x. 20xx. Kærði hefur hins vegar vísað til þess að málið eigi ekki undir nefndina og verður því að skilja málatilbúnað hans með þeim hætti að þess sé krafist að málinu verði vísað frá nefndinni.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er mælt fyrir um að lögmenn skuli hafa með sér félag sem nefnist Lögmannafélag Íslands og að öllum lögmönnum sé skylt að vera þar félagsmenn. Er jafnframt kveðið á um í 1. málsl. 3. mgr. 3. gr. laganna að í tengslum við félagið skuli starfa sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna sem leysi úr málum eftir ákvæðum laganna. Er tiltekið að úrskurðarnefndin hafi lögsögu yfir lögmönnum sem starfa hér á landi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 1. gr. laganna.

Í V. kafla laga nr. 77/1998 er mælt fyrir um ágreining vegna starfa lögmanna. Vegna sakarefnis máls þessa þá er valdsvið nefndarinnar afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laganna þar sem fram kemur að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þá er tiltekið í 2. mgr. 27. gr. laganna að í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni geti hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu geti nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í samræmi við framangreindar heimildir þarf í fyrstu vegna sakarefnis málsins að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi viðhaft hina umþrættu háttsemi í starfi sínu sem lögmaður, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Er þá til þess að líta að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa máli frá ef réttarágreiningur í því fellur ekki undir valdsvið hennar.

Um þetta efni er til þess að líta að hin umþrætta umfjöllun og gagnabirting var viðhöfð á persónulegri vefsíðu kærða þann x. 20xx. Að mati nefndarinnar verður ekki ráðið af framsetningu þeirrar umfjöllunar og gagnabirtingar kærða einni og sér að hann hafi þar gengið erinda þriðja aðila í hagsmunagæslu sem lögmaður. Hefur kærði einnig mótmælt því að svo hafi verið og vísað til þess að um persónuleg skrif hans og gagnabirtingu hafi verið að ræða sem varði tjáningarfrelsi hans sem almenns borgara, sbr. til hliðsjónar 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Varðandi ætlaða tengingu hinnar umþrættu háttsemi við lögmannsstörf kærða hefur kærandi vísað til þess fyrir nefndinni að kærði sé stjórnarmaður í félaginu E ehf. sem sé í eigu ...... þess sem kærður hafi verið í þeim sakamálum sem gagnabirting hafi tekið til. Jafnframt því hafi kærði verið viðriðinn málefni D í fleiri ár þar sem hann sitji nú sem ........

Á grundvelli þeirra málsgagna sem liggja fyrir nefndinni verður ekki slegið föstu að kærði hafi verið í hagsmunagæslu fyrir hinn ætlaða geranda, ........ hans eða D er hann birti skrif sín og gögn á eigin síðu þann x. september 20xx. Jafnframt er til þess að líta að ágreiningslaust er að kærði naut engrar stöðu samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála við rannsókn málanna nr. x og y. Samkvæmt því og gegn andmælum kærða um þetta efni verður ekki talið að mati nefndarinnar að leitt hafi verið í ljós í málinu að kærði hafi viðhaft hina umþrættu háttsemi í starfi sínu sem lögmaður.

Með vísan til efnis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sem afmarkar valdsvið nefndarinnar að þessu leyti, hefur ekki þýðingu í málinu þótt kveðið sé á um í 2. gr. siðareglna lögmanna að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum. Er þá til þess að líta að nefndin er bundin af lögum í störfum sínum og þurfa úrskurðir hennar því að vera í samræmi við lög og eiga sér viðhlítandi stoð í þeim, sbr. lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins.

Í samræmi við allt framangreint hefur ekki verið leitt í ljós að kærði hafi viðhaft hina umþrættu háttsemi sem mál þetta varðar í störfum sínum sem lögmaður. Samkvæmt því og með hliðsjón af valdheimildum nefndarinnar, eins og þær eru afmarkaðar í V. kafla laga nr. 77/1998, fellur ágreiningsefnið því utan valdsviðs hennar. Verður því að vísa málinu frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

 

___________________________________

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

 

 

___________________________________

Kristinn Bjarnason

 

 

___________________________________

Valborg Þ. Snævarr