Mál 25 2021
Mál 25/2021
Ár 2022, miðvikudaginn 16. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 25/2021:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. október 2021 erindi kæranda, A þar sem kvartað er yfir því að kærði, B, hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn í störfum sínum.
Kærða var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 11. október 2021 og barst hún 25. nóvember sama ár. Var kæranda send greinargerð kærða til athugasemda með bréfi þann sama dag. Hinn 17. desember 2021 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærða samdægurs. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Samkvæmt málsgögnum og málatilbúnaði aðila leitaði kærandi til kærða um miðjan októbermánuð 2020 með beiðni um ráðgjöf varðandi samskipti við C vegna nánar tilgreindrar umsóknar sem kærandi hafði beint til stofnunarinnar. Bera málsgögn með sér að kærandi og kærði hafi átt í nokkuð tíðum samskiptum frá þeim tíma og til byrjun desembermánaðar það ár og að kærði hafi komið að ráðgjöf varðandi efni erinda sem kærandi beindi sjálf til C vegna viðkomandi máls. Þá er ekki ágreiningur um að kærði hafi sinnt þeim störfum í þágu kæranda í samræmi við góða lögmannshætti, svo sem málsgögn bera einnig með sér.
Kvörtun kæranda í máli þessu er hins vegar á því reist að frá þeim tíma hafi reynst ómögulegt að ná í kærða vegna málsins sem hafi gert sig óaðgengilegan. Hefur kærandi um það efni meðal annars lagt fram tölvubréf sem hún sendi til kærða þann 25. janúar 2021 þar sem eftirfarandi var tiltekið:
„ég er að verða nokkuð örvæntingarfull. Mér tekst engan veginn að ná sambandi við þig. – Þú lofaðir að hafa samband við mig á mánudaginn fyrir viku síðan og ákveða tíma fyrir fund. Enn hef ég ekki heyrt neitt frá þér þrátt fyrir að ég hafi ítrekað reynt að ná sambandi. þreyttur á þessu máli ?“
Ekki verður séð af málsgögnum að kærði hafi svarað fyrrgreindu erindi kæranda. Mun kærandi í framhaldi af því hafa leitað til annars lögmanns um hagsmunagæslu vegna málsins. Upplýsti sá lögmaður um hagsmunagæsluna í þágu kæranda í tölvubréfi til kærða þann 9. febrúar 2021 þar sem jafnframt var óskað eftir málsgögnum. Var sú beiðni ítrekuð í tölvubréfum lögmannsins til kærða dagana 17. og 18. febrúar 2021 án þess að svör bærust frá kærða.
Kærði hefur hins vegar vísað til þess fyrir nefndinni að aðilum hafi gengið illa að ná saman upp úr áramótum 2020/2021 en þar hafi sökin legið hjá þeim báðum. Hafi kærði til að mynda talað inn á símsvara kæranda sem ekki hafi hringt til baka. Þá hafi kærði ekki verið með neitt skilgreint verkefni fyrir kæranda á þeim tímapunkti jafnframt því sem hann hafi fengið upplýsingar um að komin væri niðurstaða í málið á milli kæranda og C. Hafi hann því staðið í þeirri trú að málinu sem og hlutverki hans væri lokið.
Á meðal málsgagna fyrir nefndinni er tímaskýrsla kærða vegna vinnu í þágu kæranda sem tekur til tímabilsins frá 12. október 2020 til 14. janúar 2021. Á grundvelli þeirrar tímaskýrslu gerði lögmannsstofa kærða reikning nr. 2246 á hendur kæranda þann 7. september 2021 en hann tók til vinnu kærða í tæplega 6.5 klst. á tímagjaldinu 20.950 krónur auk virðisaukaskatts. Var reikningurinn að fjárhæð 167.991 króna með virðisaukaskatti.
Fyrir liggur að í bréfi kæranda til kærða, dags. 26. október 2021, var tiltekið að fyrrgreindur reikningur væri skráður á ranga kennitölu og óskað eftir að hann yrði gefinn út að nýju á D ehf.
Kærði varð við þeirri beiðni og gerði kreditreikning þann 29. október 2021 vegna fyrrgreinds reiknings sem gefinn hafði verið út á kæranda. Jafnframt því gerði lögmannsstofa kærða þann sama dag reikning nr. 2261 á fyrrgreint einkahlutafélag kæranda sem var að sömu fjárhæð og fyrri reikningur, þ.e. 167.991 króna með virðisaukaskatti. Var hinn nýi reikningur sem og fyrrgreindur kreditreikningur sendur í tölvubréfi til kæranda þennan sama dag.
Undir rekstri málsins var upplýst að reikningur lögmannsstofu kærða nr. 2261 hafi verið greiddur athugasemdalaust af hálfu D ehf. Samkvæmt því er ekki ágreiningur um það endurgjald sem kærði áskildi sér vegna lögmannsstarfa í þágu kæranda sem greiddur var af hálfu einkahlutafélags hennar.
Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sem móttekið var þann 8. október 2021.
II.
Skilja verður málatilbúnað kæranda fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Jafnframt því krefst kærandi leiðréttingar á útgefnum reikningi af hálfu lögmannsstofu kærða og að kærða verði gert að afhenda kæranda þau málsgögn sem hann hafi undir höndum.
Í kvörtun er því lýst að trúnaðarbrestur hafi orðið vegna undarlegrar hegðunar og vanrækslu kærða í störfum og hagsmunagæslu í þágu kæranda.
Kærandi vísar til þess að kærði hafi tekið að sér hagsmunagæslu í hennar þágu í októbermánuði 2020. Hafi málið varðað kæru kæranda vegna niðurstöðu C við veitingu og skiptingu verktakasamnings sjálfstætt starfandi dýralækna á haustmánuðum 2020. Hafi niðurstaðan haft afar neikvæð áhrif á fjárhag og rekstur fyrirtækis kæranda á E.
Kærandi vísar til þess að vinna kærða í upphafi hafi gengið vel en smám saman hafi orðið erfitt og nær ómögulegt fyrir kæranda að ná sambandi við hann. Þannig hafi kærandi ítrekað reynt að hringja í kærða og sent honum tölvubréf en án árangurs. Hafi kærði þannig gert sig óaðgengilegan gagnvart kæranda. Eftir síðustu tilraun kveðst kærandi hafa leitað til annars lögmanns með málið, þ.e. í febrúar 2021, en þeim lögmanni hafi heldur ekkert gengið að ná sambandi við kærða. Hafi kæranda og nýjum lögmanni hennar þá sárvantað skjöl sem verið hafi í vörslum kærða. Hafi töfin á þessu haft neikvæð áhrif á málið og sé ætlað fjárhagslegt tjón kæranda af þeim sökum að fjárhæð 3.498.399 krónur.
Um kvörtunarefni vísar kærandi sérstaklega til þess að kærði hafi gefið ítrekuð loforð um tíma og fundi sem ekki hafi verið haldnir. Jafnframt því hafi kærði viðhaft annarlega framkomu sem í hafi falist óásættanlegt hátterni gagnvart kæranda sem skjólstæðingi. Einnig hafi kærði gert sig óaðgengilegan, þ.e. bæði gagnvart kæranda sem og nýjum lögmanni hennar. Hafi tafir af þeim sökum bakað kæranda tjóni sem muni aukast með tímanum enda hafi kærði ekki afhent frumskjöl málsins. Þá hafi krafa frá lögmannsstofu kærða, að fjárhæð 168.236 krónur, birst í heimabanka kæranda án skilgreininga og með rangri kennitölu.
Samkvæmt því krefst kærandi þess að kærði verði áminntur fyrir brot á trúnaði, ósæmandi hegðun gagnvart viðskiptavini og þess fjárhagslega tjóns sem leitt hafi af vanrækslu hans.
Í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar er vísað til þess að kærði hafi sjálfur komið og afhent umbeðin gögn til kæranda undir rekstri málsins fyrir nefndinni. Kveðst kærandi jafnframt hafna því að skilyrði séu til að vísa málinu frá nefndinni. Er á það bent að fullyrðingar kærða til nefndarinnar um að hann hafi margsinnis reynt að ná sambandi við kæranda séu rangar. Ef svo hefði verið hefði engin ástæða verið til að kvarta yfir starfsháttum kærða. Tekur kærandi einnig fram að reikningur vegna vinnu kærða, sem lögmannsstofa hans hafi gefið út á hendur félagi kæranda þann 29. október 2021, sé að fullu greiddur. Þá lýsir kærandi því að kærði hafi brugðist trausti hennar í málinu.
III.
Kærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni. Til vara krefst kærði þess að kröfum kæranda verði hafnað.
Um málsatvik vísar kærði til þess að hann hafi unnið fyrir og átt í góðum samskiptum við eiginmann kæranda. Hafi þeir átt með sér fund í októbermánuði 2020 þar sem óskað hafi verið eftir ráðleggingum kærða vegna umsóknar sem kærandi hafði sent til C og sótt hafi verið um starf við dýralækningar á H. Í framhaldi af því hafi kærði gefið þeim ráð, lesið gögn og aðstoðað við ritun bréfa sem kærandi hafi sjálf sent til C. Bendir kærði á að ekki hafi verið um það að ræða að hann væri í fyrirsvari fyrir kæranda gagnvart stofnuninni. Þá hafi framhaldið alltaf verið óljóst þar sem ekki hafi legið fyrir hvort frekari bréfaskipta þyrfti við og þá hvort kærði kæmi að þeim. Hafi kærði þannig ekki verið með neitt skilgreint verkefni í gangi, heldur lesið yfir hvert og eitt bréf og gefið álit gagnvart kæranda.
Kærði vísar til þess að upp úr áramótum hafi aðilum gengið illa að ná saman. Viti kærði til þess að kærandi hafi reynt að ná til sín án árangurs en eins hafi kærði reynt að ná sambandi við kæranda og talað meðal annars inn á símsvara dýralæknastofu hennar. Hafi alls ekki verið um það að ræða að kærði væri að forðast kæranda. Kærandi hafi hins vegar ekki haft samband á ný og kærði loks fregnað annars staðar frá að málalyktir væru komnar milli kæranda og C. Hafi kærði þá litið svo á að hlutverki hans væri lokið.
Varðandi gögn þá kveðst kærði hafa það verklag að skanna öll skjöl og vista þau í tölvu en ekki á pappír. Þau gögn sem kærði hafi haft undir höndum frá kæranda séu ekki önnur en afrit af starfsumsókn hennar og fylgiskjölum, nokkur útprentuð tölvubréf og útprentanir af netinu. Sé engin skráning til hjá kærða um frumrit skjala af nokkru tagi. Hins vegar hafi kærði fundið í geymslu plastmöppu með þessum sömu skjölum og hann hafi átt skönnuð. Í henni séu hins vegar engin frumrit af neinu tagi. Kveðst kærði ekki þora að fullyrða hvort kæranda hafi skilið þessi gögn eftir eða hvort kærði hafi prentað þau út. Sjálfsagt sé hins vegar að kærandi fái þessi skjöl og muni kærði koma þeim til hennar á næstu dögum.
Varðandi umfang vinnunnar vísar kærði til fyrirliggjandi tímaskýrslu í málinu. Vísar kærði til þess að hann hafi sent kæranda reikning nr. 2246 þann 7. september 2021. Þann 28. október 2021 hafi kærði móttekið ábyrgðarbréf frá félagi kæranda, dags. 26. sama mánaðar, þar sem fram hafi komið að reikningur hafi verið skráður á ranga kennitölu og óskað leiðréttingar á því. Í kölfar þess, eða þann 29. október 2021, hafi verið gefinn út kreditreikningur nr. 2260 á nafn kæranda og nýr reikningur nr. 2261 á nafn félags kæranda. Jafnframt því hafi kærði sent tölvubréf með afritum til kæranda.
Kærði byggir aðalkröfu sína um frávísun á aðildarskorti. Bendir kærði um það efni á að kvörtun sé gerð í nafni kæranda en með bréfi, dags. 26. október 2021, hafi verið upplýst að viðskiptavinur kærða væri D.
Um varakröfu vísar kærði til þess að það sé rangt að hann hafi haldið einhverjum frumgögnum frá kæranda, en hann muni koma fyrrgreindum ljósritum til kæranda við fyrsta tækifæri. Byggir kærði jafnframt á því að hann hafi ekki haft neitt það verkefni með höndum sem hann hafi brugðist kæranda í. Þá sé það sök beggja að slitnað hafi upp úr samskiptum aðila.
Varðandi þóknunarþáttinn vísar kærði til tímaskýrslu og byggir á að tímafjöldi og taxti séu hvoru tveggja innan eðlilegra marka. Trúi kærði því ekki að kærandi og félag hennar séu því ósammála, enda verði bréfið frá 26. október 2021 ekki skilið með öðrum hætti en að reikningurinn sé samþykktur að öðru leyti en að hann skyldi stílaður á D.
Niðurstaða
I.
Kröfugerð í upphaflegu erindi kæranda til nefndarinnar, sem móttekið var þann 8. október 2021, laut meðal annars að því að reikningur nr. 2246 sem lögmannsstofa kærða gaf út á hendur kæranda yrði dreginn til baka og hann gefinn út að nýju gagnvart D. Þá krafðist kærandi þess jafnframt að kærða yrði gert að afhenda kæranda þau gögn málsins sem hann hefði í vörslum sínum.
Varðandi hið fyrrgreinda efni þá liggur fyrir að kærði varð við skriflegri beiðni kæranda, dags. 26. október 2021, og gerði kreditreikning vegna þess reiknings sem gefinn hafði verið út á kæranda, sbr. reikning nr. 2246. Liggur jafnframt fyrir að lögmannsstofa kærði gerði þann sama dag reikning nr. 2261 á fyrrgreint einkahlutafélag kæranda í samræmi við þá beiðni sem komið hafði fram í fyrrgreindu erindi kæranda til hans. Hefur jafnframt verið upplýst fyrir nefndinni að sá reikningur hafi verið greiddur athugasemdalaust. Samkvæmt því er ekki fyrir hendi ágreiningur á milli aðila um það efni sem upphafleg kröfugerð kæranda að þessu leyti tók til.
Hið sama verður sagt um kröfugerð kæranda er lýtur að afhendingu gagna af hálfu kærða. Var þannig upplýst í viðbótarathugasemdum kæranda til nefndarinnar, sem mótteknar voru þann 17. desember 2021, að kærði hefði afhent hin umbeðnu gögn sem kröfugerð kæranda tók til undir rekstri málsins.
Með hliðsjón af því sem og valdsviði nefndarinnar, eins og það er afmarkað í V. kafla laga nr. 77/1998, verður tilgreindum kröfum kæranda vísað frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir. Á grundvelli valdsviðs nefndarinnar fellur það einnig utan valdheimilda hennar að fjalla um og taka afstöðu til málsástæðna kæranda sem lúta að ætluðu fjártjóni hennar vegna háttsemi kærða.
Ekki verður talið að skilyrði séu til að vísa málinu frá að öðru leyti, líkt og kærði hefur gert kröfu til fyrir nefndinni. Er þá til þess að líta að ráðgjöf og hagsmunagæsla kærða á tímabilinu frá október 2020 til janúar 2021 fór fram í þágu kæranda, svo sem upphafleg reikningsgerð kærða frá 7. september 2021 ber með sér. Breytir engu þar um þótt kærði hafi síðar orðið við beiðni kæranda og gefið út reikning vegna vinnunnar á einkahlutafélag hennar. Samkvæmt því kemur til efnislegrar úrlausnar í málinu krafa kæranda sem lýtur að því að kærða verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
II.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Kvörtunarefni kæranda lýtur að því að erfitt og nær ómögulegt hafi reynst að ná í kærða þegar liðið hafi á það mál sem kærði hafi tekið að sér í hennar þágu. Hafi kærði þannig hvorki svarað símtölum né tölvubréfum frá kæranda heldur þvert á móti gert sig óaðgengilegan. Hafi nýjum lögmanni kæranda ekki heldur gengið að ná sambandi við kærða sem hafi ekki svarað ítrekuðum beiðnum um afhendingu málsgagna. Þá hafi kærði ekki staðið við ítrekuð loforð um tíma og fundi sem hafi því ekki verið haldnir. Hafi í þessu falist annarleg framkoma og óásættanlegt hátterni gagnvart kæranda.
Kærði hefur hins vegar vísað til þess fyrir nefndinni að aðilum hafi gengið illa að ná saman upp úr áramótum 2020/2021 en þar hafi sökin legið hjá þeim báðum. Hafi kærði til að mynda talað inn á símsvara kæranda sem ekki hafi hringt til baka. Þá hafi kærði ekki verið með neitt skilgreint verkefni fyrir kæranda á þeim tímapunkti jafnframt því sem hann hafi fengið upplýsingar um að komin væri niðurstaða í málið á milli kæranda og C. Hafi hann því staðið í þeirri trú að málinu sem og hlutverki hans væri lokið.
Að mati nefndarinnar bera málsgögn með sér að kærði hafi annast ráðgjöf og hagsmunagæslu í þágu kæranda frá október- til desembermánaðar 2020 í samræmi við góða lögmannshætti. Verður ekki annað ráðið af málatilbúnaði kæranda en að það sé einnig ágreiningslaust. Ágreiningur er hins vegar um hvort kærði hafi hætt að svara símtölum og erindum frá kæranda vegna þess máls sem hann hafði veitt kæranda ráðgjöf í eða hvort aðilar hafi einfaldlega farið á mis hvað það varðar þannig að sökin liggi hjá þeim báðum.
Hvað sem líður ætluðum símtölum sem aðilar vísa til að ekki hafi verið svarað af hálfu hins þá liggja fyrir í málsgögnum hvað þetta kvörtunarefni varðar annars vegar tölvubréf sem kærandi sendi til kærða þann 25. janúar 2021 og hins vegar tölvubréf sem nýr lögmaður kæranda í málinu sendi til kærða dagana 9., 17. og 18. febrúar 2021. Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan lýsti kærandi því í tölvubréfinu til kærða þann 25. janúar 2021 að hún væri orðin „nokkuð örvæntingarfull“ og að kærði hefði lofað að hafa samband vegna málsins og boða til fundar en að ekkert hefði heyrst frá honum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í fyrrgreindum tölvubréfum lögmannsins til kærða vegna málsins var jafnframt ítrekað óskað eftir málsgögnum frá kærða vegna hagsmunagæslunnar.
Af kvörtun kæranda verður ráðið að á því sé byggt að kærði hafi í engu svarað framangreindum erindum kæranda og nýs lögmanns hennar eða sinnt þeim beiðnum sem þar hafi verið settar fram, þar á meðal um afhendingu málsgagna. Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærði hvorki mótmælt þeim staðhæfingum kæranda né lagt fram gögn um hið gagnstæða. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að kærði hafi ekki sinnt þeim ítrekuðu erindum sem til hans var beint vegna lögmansstarfa hans.
Í 18. gr. laga nr. 77/1998 er tiltekið að lögmönnum beri í hvívetna af rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berst í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.
Af hinum ítrekuðu erindum og fyrirspurnum sem kærandi og nýr lögmaður hennar beindu til kærða og áður er lýst mátti kærða vera ljóst að það gat varðaði kæranda miklu að fá svör vegna þeirrar ráðgjafar og hagsmunagæslu sem hann hafði sinnt í hennar þágu. Þrátt fyrir það verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærði hafi látið undir höfuð leggjast með að svara erindunum. Þá verður og að leggja til grundvallar að hafi kærða talið sér óskylt að svara erindum og beiðnum kæranda og nýs lögmanns á þeim grundvelli að málarekstrinum væri lokið og að hann hefði engin málsgögn undir höndum hafi sú skylda hvílt á honum eftir sem áður, í ljósi hagsmunagæslu kærða í þágu kæranda og réttarsambands aðila að öðru leyti, að upplýsa um það efni með svari við þeim erindum, sbr. einnig 18. gr. laga nr. 77/1998 og 41. gr. siðareglna lögmanna.
Með vísan til alls framangreinds er það mat nefndarinnar að sú háttsemi kærða, að svara ekki tölvubréfum sem bárust til hans frá kæranda og lögmanni hennar dagana 25. janúar, 9., 17. og 18. febrúar 2021, hafi verið aðfinnsluverð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfum kæranda, A, um að kærða, B lögmanni, verði gert að leiðrétta útgefinn reikning og afhenda kæranda málsgögn, er vísað frá nefndinni. Að öðru leyti er kröfu kærða um að málinu verði vísað frá nefndinni hafnað.
Sú háttsemi kærða, B lögmanns, að svara ekki tölvubréfum kæranda, A, og lögmanns hennar, dags. 25. janúar, 9., 17. og 18. febrúar 2021, er aðfinnsluverð.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr, formaður
Einar Gautur Steingrímsson
Kristinn Bjarnason
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Sölvi Davíðsson