Mál 12 2022

Mál 12/2022

Ár 2022, þriðjudaginn 6. september, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2022:

A ehf.

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. apríl 2022 erindi C lögmanns fyrir hönd sóknaraðila, A ehf., vegna starfa varnaraðila, B lögmanns.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 8. apríl 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt til endurgjalds fyrir starf lögmanns eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sem og kvörtun í skilningi 27. gr. sömu laga.

Greinargerð varnaraðila vegna málsins barst til nefndarinnar þann 25. apríl 2022 og var hún send lögmanni sóknaraðila til athugasemda með bréfi þann sama dag. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 17. maí 2022 en viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 21. næsta mánaðar. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt málsgögnum gaf lögmannsstofa varnaraðila út fjóra reikninga á sóknaraðila á tímabilinu frá 1. október til 13. desember 2021 vegna vinnu sem varnaraðili kveðst hafa unnið í þágu sóknaraðila samkvæmt beiðni og samkomulagi við þáverandi framkvæmdastjóra félagsins.

Í fyrsta lagi var þannig gefinn út reikningur nr. 626 þann 1. október 2021 að fjárhæð 1.102.050 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til lögfræðiráðgjafar í 39.50 klukkustundir á tímagjaldinu 22.500 krónur auk virðisaukaskatts. Ágreiningslaust er að sóknaraðili greiddi reikninginn tvívegis, þ.e. annars vegar þann 8. október 2021 og hins vegar þann 26. nóvember sama ár.

Í öðru lagi var gefinn út reikningur nr. 631 þann 4. nóvember 2021 að fjárhæð 1.618.200 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til lögfræðiráðgjafar í 58 klukkustundir á tímagjaldinu 22.500 krónur auk virðisaukaskatts. Ágreiningslaust er að sá reikningur var ekki greiddur af hálfu sóknaraðila

Í þriðja lagi var gefinn út reikningur nr. 632 þann 30. nóvember 2021 að fjárhæð 2.134.350 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til lögfræðiráðgjafar í 76.50 klukkustundir á tímagjaldinu 22.500 krónur auk virðisaukaskatts. Mun reikningurinn hafa verið greiddur af hálfu sóknaraðila þann 10. desember 2021.

Þá var í fjórða og síðasta lagi gefinn út reikningur nr. 636 þann 13. desember 2021 að fjárhæð 2.790.000 krónur með virðisaukaskatti. Var tiltekið á reikningnum á hann tæki til lögfræðiráðgjafar í 100 klukkustundir á tímagjaldinu 22.500 krónur auk virðisaukaskatts. Mun reikningurinn hafa verið greiddur af hálfu sóknaraðila þann 20. desember 2021.

Fyrir liggur að nýr framkvæmdastjóri og stjórnarmaður sóknaraðila sendi tölvubréf til varnaraðila þann 21. janúar 2022 vegna fyrrgreindra greiðslna til lögmannsstofu hans. Var í tölvubréfinu óskað eftir að reikningar og vinnuskýrslur að baki greiðslunum yrðu sendar innan fimm daga til sóknaraðila.

Fyrrgreindu erindi mun ekki hafa verið svarað af hálfu varnaraðila og ítrekaði lögmaður sóknaraðila því beiðnina með tölvubréfi til varnaraðila þann 31. janúar 2022 jafnframt því sem minnt var á efni 15. gr. siðareglna lögmanna. Þar sem svör munu ekki hafa borist frá varnaraðila var beiðnin ítrekuð með tölvubréfum lögmanns sóknaraðila dagana 8. og 17. febrúar 2022.

Varnaraðili sendi afrit af þeim fjórum reikningum sem málið varðaði til lögmanns sóknaraðila í tölvubréfi þann 28. febrúar 2022. Kvaðst varnaraðili í tölvubréfinu hafa sent reikningana áður til sóknaraðila en varðandi tímaskráningu vísað hann til þess að hún væri tengd þeim verkefnum sem unnin hefðu verið hverju sinni.

Lögmaður sóknaraðila óskaði eftir tímaskýrslum að baki viðkomandi reikningum í tölvubréfum til varnaraðila dagana 28. febrúar, 2., 14., 23., 28. og 29. mars 2022. Var því meðal annars lýst í tölvubréfinu hinn 23. mars 2022 að málinu yrði beint til úrskurðarnefndar lögmanna auk þess sem farið var fram á að sóknaraðila yrði endurgreiddur sá reikningur sem hann hefði tvígreitt til lögmannsstofu varnaraðila.

Varnaraðili svaraði fyrrgreindum erindum með tölvubréfi til lögmanns sóknaraðila þann 29. mars 2022. Var þar tiltekið að tímaskýrslur hefðu farið út með útgefnum reikningum í samræmi við venju. Vísaði varnaraðili til fyrrverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila um tímaskýrslurnar. Þá kvaðst varnaraðili ekki geta afhent hinar umbeðnar tímaskýrslur enda hefði hann þær ekki lengur undir höndum. Í svari lögmanns sóknaraðila sama dag kom fram að engar tímaskýrslur hefðu verið afhentar og að varnaraðila bæri skyldi tli að vera með verkbókhald. Ítrekaði lögmaðurinn jafnframt kröfu sóknaraðila um afhendingu tímaskýrslna og endurgreiðslu fjármuna.

Gögn málsins bera með sér að lögmaður sóknaraðila hafi sent innheimtubréf til varnaraðila þann 7. apríl 2022. Í svari varnaraðila þann 12. sama mánaðar kom fram að reikningur nr. 626 að fjárhæð 1.102.050 krónur hefði verið greiddur tvisvar. Hins vegar væri ógreiddur reikningur nr. 631 að fjárhæð 1.618.200 krónur. Samkvæmt því væri mismunar og dráttarvextir ógreiddir. Þá óskaði varnaraðili eftir upplýsingum um hvort lögmaðurinn myndi hafa milligöngu um greiðslu eftirstöðvanna.

Í svari lögmanns sóknaraðila þann 19. apríl 2022 kom fram að rétt væri að reikningur nr. 626 væri tvígreiddur en reikningur nr. 631 ógreiddur að hluta. Var jafnframt vísað til þess að útgefnir reikningar næmu 274 klukkustunda vinnu sem væri verulegur tímafjöldi. Bæri varnaraðila skylda til að geta gert grein fyrir þeirri vinnu. Þá væri skýring varnaraðila, eftir ítrekaða pósta, um að tímaskýrslur hefðu verið afhentar fyrrverandi framkvæmdastjóra ótrúverðug og ekki í samræmi við samskipti aðila. Yrðu frekari greiðslur því ekki inntar af hendi.

II.

Af upphaflegu erindi sóknaraðila til nefndarinnar verður ráðið að þess sé annars vegar krafist að varnaraðila verði gert að endurgreiða sóknaraðila ætlaða ofgreiðslu að fjárhæð 1.102.050 krónur, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði áminntur, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í málatilbúnaði sóknaraðila er vísað til þess að varnaraðili hafi ítrekað verið beðinn um vinnuskýrslur að baki reikningum sínum en að hann hafi ekki orðið við þeirri ósk umbjóðanda síns. Að auki hafi sóknaraðili tvígreitt einn reikning og hann ekki fengist endurgreiddur.

Sóknaraðili vísar til þess að um sé að ræða brot á 15. gr. siðareglna lögmanna þar sem varnaraðili hafi ekki afhent vinnuskýrslur að baki reikningum sínum þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar um. Þá beri varnaraðila enn fremur að skila fjármunum, ofgreiðslu, til sóknaraðila, sbr. 13. gr. siðareglnanna, þar sem líta megi á greiðsluna sem innáborgun fyrir frekari þjónustu.

Varðandi kröfugerð lýsti sóknaraðili því í upphaflegu erindi að krafist væri endurgreiðslu fjármuna og tímaskýrslna að baki nánar tilgreindum reikningum sem varnaraðili hafði gefið út. Jafnframt því lýtur kröfugerð sóknaraðila að því að varnaraðili verði áminntur og að nafn hans verði birt í úrskurði nefndarinnar enda sé um alvarlegt brot á góðum lögmannsháttum að ræða.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila er vísað til þess að rétt sé að reikningur nr. 631 sé ógreiddur að hluta en reikningur nr. 626 sé tvígreiddur. Samkvæmt því hafi því ranglega verið haldið fram í kvörtun að ofgreitt hefði verið til varnaraðila og beðist forláts á því. Hins vegar hafi sóknaraðili hafnað að greiða það sem útistandandi sé nema gerð sé grein fyrir þeirri vinnu sem liggi að baki hinum útgefna reikningi.

Sóknaraðili vísar til þess að um sé að ræða fjóra reikninga sem lögmannsstofa varnaraðila hafi gefið út og óskað sé skýringa á. Hafi þeir verið gefnir út á tæplega 2,5 mánaða tímabili, þ.e. frá 1. október til 13. desember 2021. Taki tilgreindir reikningar til alls 274 klukkustunda vinnu, sem jafngildi vinnu í 45 daga sé miðað við sex útselda tíma á dag. Sé síðasti reikningurinn fyrir 100 klukkustunda vinnu, sem eigi að hafa verið unnin á 13 daga tímabili sé tekið mið af útgáfudegi reikningsins á undan. Þar sem almennt sé miðað við 22 vinnudaga í mánuði sé hér um að ræða sleitulausa vinnu fyrir hönd sóknaraðila í hálfan annan þriðja mánuð, miðað við tímafjölda samkvæmt útgefnum reikningum.

Vísað er til þess að sóknaraðili krefjist skýringa á þessari vinnu enda kannist hann ekki við að hafa þurft á neinni lögfræðiaðstoð að halda á viðkomandi tímabili. Þá beri reikningar ekki með sér neinar skýringar á skráðum tímum.

Sóknaraðili vísar til þess að skýringu á reikningum kunni að felast í því að umbjóðandi varnaraðila á umræddum tíma hafi verið D en hann hafi verið einn hluthafa sóknaraðila sem og þáverandi stjórnarmaður og framkvæmdastjóri. Hafi varnaraðili komið fram fyrir hönd D og veitt honum ráðgjöf í tengslum við það sem kalla mætti leikrit, sem sett hafi verið á fót til þess eins að reyna að þvinga syni D til að kaupa hann út úr félaginu.

Á það er bent að tilgreindur D hafi verið skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri hjá sóknaraðila frá stofnun. Hafi D einnig verið meðeigandi að sóknaraðila ásamt tveimur sonum sínum. Er vísað til þess að þótt D hafi verið skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins þá hafi hann ekki sinnt þeim hlutverkum sem skyldi og hafi því aðrir hluthafar leitað leiða til að kjósa nýja stjórn til þess jafnframt að skipa nýjan framkvæmdastjóra.

Vísað er til þess að í september 2021 hafi annar hluthafi boðað til hluthafafundar í félaginu með því markmiði að skipta um stjórn hjá sóknaraðila. Hafi umbjóðandi varnaraðila brugðist illa við því, sagt fjármálastjóra félagsins upp störfum og tekið sjálfur við fjármálum félagsins. Á meðan hafi viðkomandi haldið félaginu í heljargreipum með því að greiða ekki reikninga þess, gefa út ranga reikninga til viðskiptavina, innheimta ekki efniskostnað, greiða ekki laun í samræmi við vinnuseðla og fleira. Með þeirri háttsemi hafi hann leitast við að þvinga aðra hluthafa til að kaupa sig út úr félaginu fyrir verulegar fjárhæðir, sem verið hafi langt umfram markaðsverð þess hlutar sem hann hafi átt.

Sóknaraðili vísar til þess að þegar búið hafi verið að skipta um stjórn félagsins og framkvæmdastjóra hafi orðið ljóst að háar fjárhæðir hefðu verið greiddar til varnaraðila af hálfu félagsins, án þess að reikningar eða skýringar lægju að baki þeim greiðslum. Hafi skýringa verið leitað hjá varnaraðila í tölvubréfi þann 22. janúar 2022. Þar sem svör hafi ekki borist hafi lögmaður sóknaraðila óskað eftir afriti reikninga og vinnuskýrslum að baki þeim þann 31. sama mánaðar. Hafi sú beiðni verið ítrekuð í tölvubréfum dagana 8. og 17. febrúar 2022 og varnaraðila veittur lokafrestur til næstu mánaðamóta.

Sóknaraðili bendir á að svar varnaraðila hafi borist þann 28. febrúar en með því hafi fylgt afrit reikninga. Hafi varnaraðili um tímaskráningu vísað til þess að hún hefði verið tengd þeim verkefnum sem unnin hefðu verið hverju sinni en hvorki hafi verið minnst á að tímaskýrslur hefðu verið afhentar né veittar frekari skýringar á vinnunni.

Sóknaraðili vísar til þess að beiðnir um afhendingu vinnuskýrslna hafi verið sendar til varnaraðila dagana 28. febrúar, 2., 14. og 23. mars 2022. Þar sem engin svör hafi borist frá varnaraðila hafi honum verið tilkynnt þann 28. mars 2022 að kvörtun yrði send til úrskurðarnefndar lögmanna ef ekki yrði brugðist við án tafar og hafi það verið gert degi síðar.

Vísað er til þess að svar hafi loks borist frá varnaraðila þann 29. mars 2022 en þar hafi eftirfarandi verið tiltekið: „Ég ítreka, ég er ekki með tímaskráningarnar, þær eru hjá fyrrum framkvæmdastjóra sem ég afhenti með reikningunum á sínum tíma.“ Bendir sóknaraðili á að þessi skýring varnaraðila hafi komið fyrst fram eftir að gengið hafi verið á hann og upplýst hafi verið um kvörtun til nefndarinnar. Áður hafi varnaraðili fengið að minnsta kosti 10 tölvubréf þar sem óskað hafi verið eftir skýringum á vinnu hans, án þess að svör bærust. Byggir sóknaraðili á að svar varnaraðila sé afar ótrúverðugt enda megi ljóst vera að skráning lögmanna á unnum tímum sé almennt ekki í óafturkræfum einritum á pappírsformi. Ætti því að vera lítið mál að kalla fram þessar upplýsingar.

Sóknaraðili bendir á að í málatilbúnaði varnaraðila komi fram að hann hafi unnið fyrir framkvæmdastjóra sóknaraðila á því tímabili sem um ræði. Styðji það svar málatilbúnað sóknaraðila um að varnaraðili hafi unnið fyrir framkvæmdastjórann persónulega en ekki sóknaraðila. Liggi enda fyrir að sóknaraðili hafi ekki þurft á nokkurri lögfræðiaðstoð að halda á haustmánuðum 2021. Þá sé persónulegur kostnaður framkvæmdastjórans fyrrverandi ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður sóknaraðila og hafi reikningar því ranglega verið gefnir út á sóknaraðila.

Er vísað til þess að samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna beri varnaraðila að afhenda vinnuskýrslur. Geti varnaraðili ekki fært sönnur á vinnu sína beri hann hallann þar af og þar með að bakfæra reikninga og endurgreiða til sóknaraðila umræddar greiðslur, sbr. 13. gr. siðareglnanna.

Sóknarðili byggir á að nefndinni sé skylt að gera athugasemdir við störf varnaraðila og veita honum áminningu, enda líti út fyrir að varnaraðili hafi gefið út tilhæfulausa reikninga á sóknaraðila. Þá beri varnaraðila að bakfæra þá reikninga án tafar og endurgreiða sóknaraðila þá að öllu leyti nema sönnur verði færðar á að hann hafi sannanlega sinnt verkefnum að beiðni sóknaraðila og í þágu aðilans sem vinnuskýrslur gætu þá sannað.

III.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verið hafnað.

Varðandi ætluð brot gegn 13. gr. siðareglna lögmanna vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili haldi því fram að hann hafi fengið ofgreitt og beri því að greiða til baka reikning nr. 626, 1.102.050 krónur, sem hafi verið tvígreiddur. Kveðst varnaraðili hafna þeirri kröfu.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi starfað fyrir sóknaraðila á tímabilinu september til og með desember 2021 samkvæmt beiðni þáverandi framkvæmdastjóra sem jafnframt hafi verið stofnandi og einn af eigendum sóknaraðila. Á því tímabili hafi verið gefnir út fjórir reikningar. Í fyrsta lagi hafi verið um að ræða reikning nr. 626 sem gefinn hafi verið út þann 1. október 2021 að fjárhæð 1.102.050 krónur. Hafi sá reikningur verið greiddur tvisvar, þ.e. fyrst þann 8. október 2021 og svo aftur þann 26. nóvember sama ár. Í öðru lagi hafi verið gefinn út reikningur nr. 631 þann 4. nóvember 2021 að fjárhæð 1.608.200 krónur en hann sé ógreiddur. Í þriðja lagi hafi verið um að ræða reikning nr. 632 sem gefinn hafi verið út þann 30. nóvember 2021 að fjárhæð 2.134.350 krónur og greiddur þann 10. næsta mánaðar. Þá hafi loks verið gefinn út reikningur nr. 636 þann 13. desember 2021 að fjárhæð 2.790.000 krónur sem hafi verið greiddur þann 20. sama mánaðar.

Varnaraðili vísar til þess að reikningur nr. 626 hafi verið greiddur tvívegis af hálfu sóknaraðila. Jafnframt því liggi fyrir að reikningur nr. 631 sé ógreiddur. Er vísað til þess að upplýsingar um þessi mistök hafi ekki komið í ljós fyrr en eftir að sóknaraðili hafi haldið því fram að ofgreitt hefði verið til lögmannsstofu varnaraðila. Í kjölfar þess hafi bókara lögmannsstofunnar verið falið að kanna málið nánar en við fyrstu sýn hafi mátt sjá að gefnir höfðu verið út fjórir reikningar á sóknaraðila og að fjórar greiðslur hefðu borist inn á reikning lögmannsstofunnar frá sóknaraðila. Hafi því virst sem allir reikningar væru greiddir og ekkert umfram það.

Varnaraðili kveðst hafa komið þessum upplýsingum til lögmanns sóknaraðila. Sé einfaldlega rangt að lögmannsstofu hans hafi verið ofgreitt vegna starfa í þágu sóknaraðila. Sé þannig rétt staða á viðskiptum á milli aðila sá mismunur sem sé á seinni greiðslu á reikningi nr. 626 og því sem útaf standi til skuldajafnaðar við reikning nr. 631 sem sé ógreiddur. Nemi skuld sóknaraðila við lögmannsstofu varnaraðila því 516.150 krónum auk dráttarvaxta.

Samkvæmt því hafnar varnaraðili því að hann hafi brotið 13. gr. siðareglna lögmanna.

Varnaraðili kveðst ennfremur hafna því að hann hafi brotið 15. gr. siðareglna lögmanna í störfum sínum. Vísar varnaraðili til þess að hann hafi unnið fyrir framkvæmdastjóra sóknaraðila í nokkrum verkefnum á viðkomandi tímabili. Vegna þeirrar vinnu hafi verið gefnir út fjórir reikningar. Með reikningunum hafi fylgt yfirlit um þau verkefni sem unnin voru og yfirlit yfir kostnað vegna þeirrar vinnu. Hafi sum verkefnin verið fyrirfram ákveðin í kostnaði samkvæmt samkomulagi en önnur samkvæmt tímaskráningu sem gerð hafi verið upp í lokin á vinnunni eða samkvæmt síðasta reikningi nr. 636.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi afhent framkvæmdastjóra sóknaraðila upplýsingar um vinnuna samhliða útgáfu reikninganna. Hafi sundurliðunin sannanlega verið gerð og samþykkt samhliða útgáfu reikninga sem hafi verið samþykktir. Að sama skapi hafi sundurliðun með reikningunum verið afhent framkvæmdastjóra sóknaraðila. Kveðst varnaraðili hafa beint því á fyrri stigum til lögmanns sóknaraðila að snúa sér til fyrrum framkvæmdastjóra félagsins til að afla gagnanna. Hafi fyrirkomulag á sundurliðun vinnu, sem verið hafi grundvöllur fyrir útgáfu reikninga, verið með vilja og samþykki þáverandi framkvæmdastjórans.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila er á það bent að sóknaraðili hafi dregið til baka ásakanir um brot gegn 13. gr. siðareglnanna enda hafi enginn fótur verið fyrir þeim.

Varnaraðili ítrekar að hann hafi haldið utan um alla vinnu í þágu sóknaraðila og gert reikninga á grundvelli vinnu, ýmist fyrir vinnu sem hafi verið fyrirfram ákveðin og umsamin sem og aðra vinnu sem grundvölluð hafi verið á sérstakri tímaskráningu. Hafi reikningar ásamt tímaskráningum verið afhentar þáverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila sem engar athugasemdir hafi gert enda þeir greiddir á grundvelli samkomulags aðila.

Varnaraðili vísar til þess að þegar sóknaraðili hafi óskað eftir upplýsingum að baki reikningum hafi hann ekki verið með afrit af tímaskráningum undir höndum. Hafi hann því sett sig í samband við umbjóðanda sinn og gert honum grein fyrir erindinu. Með því hafi varnaraðili talið að málið væri komið í ferli og að gögn og upplýsingar vegna vinnunnar myndu rata á réttan stað. Hafi hann ítrekað það gagnvart sínum umbjóðanda þegar sóknaraðili hafi ítrekað erindin.

Varnaraðili kveðst svo hafa sent afrit af reikningum úr bókhaldskerfi sínu til sóknaraðila til útskýringar. Vísar varnaraðili til þess að hann hafi komið öllum upplýsingum sem hann hafi undir höndum til sóknaraðila og að engu sé við það að bæta. Sé varnaraðili þannig ekki með afrit af tímaskráningum eða samkomulagi um vinnu. Verði sóknaraðili að leita til fyrrum framkvæmdastjóra félagsins með beiðni sína um gögn og upplýsingar.

Varnaraðili byggir á að hann hafi í öllu farið að gildandi lögum og reglum er varða lögmenn og að hann hafi í engu brotið af sér. Þannig hafi varnaraðili gengið frá umboði og verksamkomulagi við þáverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila um þau verkefni sem unnin hafi verið og gert grein fyrri vinnunni með gögnum og upplýsingum sem afhent hafi verið sem fylgiskjöl með reikningum. Samkvæmt því hafnar varnaraðili því að hann hafi í störfum sínum brotið gegn 15. gr. siðareglna lögmanna.

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þarf annars vegar að fjalla um fjárhagslegt uppgjör vegna lögmannsstarfa varnaraðila og hins vegar um hvort varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum.

II.

Í upphaflegu erindi sóknaraðila til nefndarinnar, sem móttekið var þann 6. apríl 2022, var sakarefni á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 afmarkað með þeim hætti að krafist var endurgreiðslu úr hendi varnaraðila vegna ætlaðrar ofgreiðslu þar sem reikningur nr. 626 hefði verið tvígreiddur af hálfu sóknaraðila, þ.e. með greiðslum til lögmannsstofu varnaraðila að fjárhæð 1.102.050 krónur í hvort skipti dagana 8. október og 26. nóvember 2021. Var málatilbúnaður sóknaraðila grundvallaður á 13. gr. siðareglna lögmanna og hann reistur á því sjónarmiði að varnaraðila bæri að skila hinni ætluðu ofgreiðslu til sóknaraðila þar sem líta mætti á hana sem innáborgun fyrir frekari þjónustu varnaraðila. Þá samræmdist sá málatilbúnaður þeim kröfum sem sóknaraðili hafði beint að varnaraðila í aðdraganda máls þessa fyrir nefndinni, sbr. einnig kröfubréf frá 7. apríl 2022.

Í 1. mgr. 13. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður skuli halda fjármunum skjólstæðings aðgreindum frá eigin fé í samræmi við ákvæði reglna um fjárvörslureikninga lögmanna. Þá skal lögmaður ávallt vera fær um að standa skil á þeim fjármunum, er hann varðveitir fyrir skjólstæðing sinn, sbr. 2. mgr. 13. gr. siðareglnanna.

Varnaraðili hefur upplýst fyrir nefndinni að reikningur nr. 626 hafi réttilega verið greiddur tvisvar en að á móti hafi reikningur nr. 631 sem útgefinn var þann 4. nóvember 2021 að fjárhæð 1.618.200 krónur með virðisaukaskatti verið ógreiddur er honum barst síðari greiðsla frá sóknaraðila vegna reiknings nr. 626 þann 26. sama mánaðar. Hafi þeirri greiðslu verið ráðstafað inn á skuld sóknaraðila samkvæmt reikningi nr. 631 en samkvæmt því séu eftirstöðvar þess reiknings að fjárhæð 516.150 krónur auk dráttarvaxta.

Fyrir liggur jafnframt að varnaraðili upplýsti lögmann sóknaraðila um þetta efni í tölvubréfi þann 12. apríl 2022 en í svari lögmannsins frá 19. sama mánaðar kom fram að frekari greiðslur yrðu ekki inntar af hendi vegna reiknings nr. 631 þar sem tímaskýrslur hefðu ekki verið afhentar. Í samræmi við þetta efni var því jafnframt lýst í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar að því hefði verið „ranglega haldið fram í kvörtun til úrskurðarnefndarinnar að ofgreitt hafi verið til B og beðist forláts á því.“

Með hliðsjón af efni viðbótarathugasemda sóknaraðila í málinu og þeirri afmörkun á sakarefni málsins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 sem upphaflegt erindi sóknaraðila til nefndarinnar kvað á um og áður er lýst, verður ekki talið að lengur sé fyrir hendi slíkur ágreiningur um ofgreiðslu sem upphafleg kröfugerð sóknaraðila tók til. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að vísa kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu fjármuna úr hendi varnaraðila frá nefndinni með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

III.

Líkt og í málsatvikalýsingu greinir gaf lögmannsstofa varnaraðila út fjóra reikninga á hendur sóknaraðila á tímabilinu frá 1. október til 13. desember 2021 vegna vinnu sem varnaraðili kveðst hafa unnið í þágu sóknaraðila samkvæmt beiðni og samkomulagi við þáverandi framkvæmdastjóra félagsins. Voru reikningarnir að heildarfjárhæð 7.644.600 krónur með virðisaukaskatti og tóku þeir til alls 274 klukkustunda vinnu á tímagjaldinu 22.500 krónur auk virðisaukaskatts. Þá var því lýst á öllum reikningum að þeir tækju til lögfræðiráðgjafar.

Fyrir liggur að fyrirsvarsmaður sóknaraðila óskaði eftir viðkomandi reikningum og vinnuskýrslum að baki þeim með tölvubréfi til varnaraðila þann 21. janúar 2022. Eftir nokkrar ítrekanir sendi varnaraðili afrit reikninganna í tölvubréfi til lögmanns sóknaraðila þann 28. febrúar 2022 þar sem jafnframt var vísað til þess varðandi tímaskráningu að hún hefði verið tengd þeim verkefnum sem unnin hefðu verið hverju sinni. Eftir fjölmargar frekari ítrekanir um afhendingu tímaskýrslna lýsti varnaraðili því loks gagnvart sóknaraðila í tölvubréfi þann 29. mars 2022 að þær hefðu verið afhentar með útgefnum reikningum til fyrrverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila, að hann hefði þær ekki lengur undir höndum og gæti því ekki afhent þær. Hefur varnaraðili ítrekað það efni í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni.

Kvörtunarefni sóknaraðila á hendur varnaraðila, á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, lýtur að því að varnaraðili hafi í stöfum sínum gert á hlut sóknaraðila þar sem ekki hafi komið til afhendingar á tímaskýrslum að baki útgefnum reikningum. Hafi í þeirri háttsemi varnaraðila falist brot gegn 15. gr. siðareglna lögmanna þar sem mælt er fyrir um að lögmanni beri að láta skólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli og sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skuli upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Þeir reikningar sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila bera með sér að þóknun vegna starfa varnaraðila hafi verið áskilin á grundvelli tímagjalds. Hefur varnaraðili einnig staðfest í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að svo hafi verið, í öllu falli að hluta til. Jafnframt því liggur fyrir að sóknaraðili hefur ítrekað leitað eftir að fá afhentar þær tímaskýrslur sem reikningarnar voru grundvallaðir á. Samkvæmt því hvíldi ótvírætt sú skylda á herðum varnaraðila að láta sóknaraðila í té þau gögn sem eftir var leitað, sbr. 15. gr. siðareglnanna.

Ekki verður ráðið af málsgögnum að varnaraðili hafi afhent þáverandi framkvæmdastjóra sóknaraðila tímaskýrslur með reikningum við útgáfu þeirra, svo sem málatilbúnaður varnaraðila er reistur á. Gegn andmælum sóknaraðila um þetta efni hefur því ekki verið leitt í ljós í málinu af  hálfu varnaraðila að til afhendingar á viðkomandi tímaskýrslum hafi komið á fyrri stigum.

Hverju sem því líður er þess jafnframt að gæta að sú skylda hvílir á lögmönnum að hafa góða skipan á skrifstofu sinni jafnframt því sem þeim ber að sjá til þess að bókhald skrifstofunnar, varsla fjármuna, skjala og annarra gagna sé í samræmi við lög og góða venju, sbr. 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna. Að áliti nefndarinnar samræmist það góðum venjum í fyrrgreindum skilningi að lögmenn geti ávallt látið skjólstæðingum sínum í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað sem og upplýsingar úr tímaskýrslum ef eftir þeim er leitað, sbr. 15. gr. siðareglnanna, og það jafnvel þótt slíkar upplýsingar kunni að hafa verið veittar á fyrri stigum. Sé þannig í samræmi við góðar venjur og lögmannshætti að lögmenn varðveiti afrit þeirra tíma- og vinnuskýrslna sem störf þeirra í þágu umbjóðenda taka til og geti framvísað þeim gagnvart viðkomandi ef eftir þeim er leitað.

Svo sem áður greinir verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi ekki leitt í ljós að hann hafi afhent sóknaraðila á fyrri stigum tímaskýrslur að baki hinum útgefnu reikningum. Jafnframt því liggur fyrir að varnaraðili kveðst ekki geta afhent tímaskýrslurnar nú þar sem hann hafi þær ekki undir höndum. Er sú háttsemi varnaraðila í brýnni andstöðu við 15. gr. og 1. og 2. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna. Er einnig til þess að líta að viðkomandi tímaskýrslur sem lágu til grundvallar þeim fjórum reikningum sem varnaraðili gaf út á hendur sóknaraðila tóku til verulegrar vinnu um skamma hríð, þ.e. alls 274 klukkustunda vinnu í þrjá og hálfan mánuð. Var fjárhæð hins áskilda endurgjalds eftir því verulegt, eða alls 7.644.600 krónur með virðisaukaskatti. Er háttsemi varnaraðila verulega ámælisverð í því ljósi og ósamboðin lögmannastéttinni. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu sóknaraðila, A ehf., um endurgreiðslu ofgreiddra fjármuna úr hendi varnaraðila, B lögmanns, er vísað frá nefndinni.

Varnaraðili, B lögmaður, sætir áminningu.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson