Mál 13 2022

Mál 13/2022

Ár 2023, 16. febrúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. apríl 2022 erindi sóknaraðila, A, þar sem annars vegar er lýst ágreiningi við varnaraðila, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar ætluðum brotum varnaraðila í störfum gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 8. apríl 2022 þar sem einnig var tekið fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt til endurgjalds fyrir starf lögmanns eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sem og kvörtun í skilningi 27. gr. sömu laga. Greinargerð varnaraðila vegna málsins barst þann 2. maí 2022 og var hún sótt af sóknaraðila daginn eftir þar sem honum var gefinn athugasemdafrestur til 25. maí 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust nefndinni þann 9. maí 2022 en viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 30. sama mánaðar. Með bréfi, dags. 16. janúar 2023, óskaði nefndin eftir nánari upplýsingum frá varnaraðila um tvö atriði sem erindi sóknaraðila lítur að. Varnaraðili svaraði fyrirspurn nefndarinnar með bréfi, dags. 25. janúar 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi allra nefndarmanna til meðferðar málsins og komu varamenn í stað þeirra.

Málsatvik og málsástæður

I.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sem móttekið var 6. apríl 2022.

Af málsgögnum og málatilbúnaði verður ráðið að varnaraðili hafi í nokkur ár unnið bæði fyrir sóknaraðila og sambýliskonu hans, m.a. hafi verið um að ræða sakamál sem hafi farið í gegnum endurupptöku fyrir dómi vegna þess að sóknaraðili var sakaður um glæp sem hann framdi ekki. Sóknaraðili hafi verið sýknaður með fullnaðardómi í héraði árið 2020. Út frá sakamálinu hafi sprottið miskabótamál sem varnaraðili hafi einnig tekið að sér (hér eftir „miskabótamálið“), sem gögn málsins bera með sér að hafi verið á byrjunarstigi þegar sóknaraðili beindi erindi sínu til nefndarinnar. Sótt hafði verið um gjafsókn í miskabótamálinu en var henni hafnað 27. júní 2022.

Í desember árið 2020 leitaði sóknaraðili til varnaraðila vegna forsjármáls og ágreinings um umgengni vegna dóttur sinnar (hér eftir „forsjármálið“). Samþykkti varnaraðili að taka að sér forsjármálið og sótti um gjafsókn vegna þess en óskaði jafnframt eftir því að sóknaraðili millifærði inn á reikning sinn kr. 20.000.-, mánaðarlega sem innborgun inn á málið. Millifærði sóknaraðili átta sinnum inn á reikning varnaraðila á tímabilinu 7. desember 2020 til 1. september 2021, samtals kr. 139.780.-.

Þriðja málið sem varnaraðili rak fyrir sóknaraðila var persónuverndarmál tengt forsjármálinu (hér eftir „persónuverndar­málið“). Af gögnum málsins verður ráðið að málið lúti að kvörtun til Persónuverndar vegna gagnaöflunar fulltrúa sýslumanns við meðferð umgengnismáls sóknaraðila fyrir sýslumanni. Ekki hafði verið sótt um gjafsókn í því máli.

Á meðal málsgagna fyrir nefndinni liggja tölvubréf milli varnaraðila og sambýliskonu sóknaraðila, dags. 16. mars 2022, varðandi uppgjör við varnaraðila vegna miskabótamáls sambýliskonunnar. Tölvubréfin bera mér sér óánægju sambýliskonunnar varðandi uppgjörið og segir þar m.a.:

„...Ég mun bera þetta miskabótamál undir Lögmannafélag Íslands, þar sem ég mun kvarta undan því að þú sért að taka af miskabótunum mínum...“.

Í svari varnaraðila sama dag segir m.a.: 

„….Vegna þessarar óánægju þinnar og framkomu mun ég hins vegar ekki rukka meira en 800.000 kr. Ég hef engan áhuga á því að heyja við þig stríð líkt og þú hótar mér í þessum pósti, eftir alla baráttuna sem við höfum gengið í gegnum og sigrað.

En ég mun aldrei aftur vinna fyrir þig sem lögmaður. Og ég þarf virkilega að hugsa mig vandlega um hvað varðar málið hans [A], hversu mikið ég er tilbúin að vinna frítt fyrir ykkur?...“

Fyrir liggur að sóknaraðili hafi átt í erfiðleikum með að greiða mánaðarlega inn á forsjármálið og höfðu aðilar komist að samkomulagi um vinnuskipti, sem fólu í sér að sóknaraðili myndi sinna ýmis konar viðhaldi á fasteign varnaraðila. Ekkert varð hins vegar af fyrirhuguðum vinnuskiptum og liggja fyrir nefndinni neðangreind samskipti á milli málsaðila á tímabilinu 30. mars til 7. apríl 2022:

Varnaraðili:

„Sæll – fórstu í gær í húsið eða ertu kominn þangað núna?“

Sóknaraðili:

„Treysti mér ekkert í þetta. Þú ert [betra set] með að fá einhvern sem er þarna í nágrenni. Þú þarft að borga um 9000 kr. í dísel olíu fram og til baka í hvert skipti sem [sem] ég myndi hreyfa jeppann [S]em eyðir of miklu“.

Í tölvusamskiptum ræðir sóknaraðili einnig um að hann vilji skipta um lögmann:

„Er ekki líka best að rifta öllu okkar lögmanna bulli. Ég held að ég sé betur settur með lögmann sem hefur tíma til að vinna í öllu þessu rugli sem fylgir mínu máli þetta er orðið alltof mikið sem er alltaf að bætast við. Þetta veldur mér áhyggjum og hvar endar þetta? Ég hef ekki efni á þessu rugli fjárhagslega...“.

Varnaraðili svarar skilaboðunum með eftirfarandi:

„Sæll. Eins og við ræddum þarftu að gera upp við mig áður en þú skiptir um lögmann. Við höfum ítrekað reynt að gera samkomulag og þú virðist ekki geta staðið við það. Ég sendi þér tímaskýrslur í tölvupósti og þú getur komið með tillögur að uppgjöri.

Búin að senda póst. Heyri frá þér þegar þú hefur farið yfir þetta. Þegar greiðsla berst þá geturðu sótt öll gögn.“

Þrjá tímaskýrslur varnaraðila liggja fyrir í málinu. Sú fyrsta er vegna forsjármálsins, sem telur 121,31 klst. og er kostnaður vegna þess máls samtals kr. 3.941.195.- að meðtöldum virðisaukaskatti. Innifalið í þeim kostnaði er útlagður kostnaður vegna málsins að fjárhæð kr. 22.900.- en þrír reikningar liggja fyrir í málinu vegna útlagðs kostnaðar, samtals að fjárhæð kr. 19.780.-. Tímaskýrsla vegna miskabótamálsins telur 10,08 klst. og er kostnaður vegna þess máls kr. 313.038.- með virðisaukaskatti. Þriðja skýrslan er vegna persónuverndarmálsins og telur hún 6,76 klst. en kostnaður vegna þess máls nemur kr. 221.812.- með virðisaukaskatti.

II.

Að mati úrskurðarnefndar lögmanna verður að skilja málatilbúnað sóknaraðila í kvörtun til nefndarinnar með þeim hætti að hann lúti annars vegar að ágreiningi um endurgjald varnaraðila eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, en hins vegar að broti á lögum eða siðareglum á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í erindi sóknaraðila er vísað til þess að varnaraðili hafi unnið fyrir hann sakamál og fengið hann sýknaðan. Í kjölfarið hafi varnaraðili hvatt hann til að höfða miskabótamál vegna sakamálsins sem sóknaraðili hafi samþykkt. Í kjölfarið fól sóknaraðili varnaraðila hagsmunagæslu í forsjármáli sem rekið var fyrir sýslumanni og héraðsdómi en aðalmeðferð hafði ekki farið fram. Þá vann varnaraðili í máli fyrir sóknaraðila sem varðaði m.a. kvörtun til Persónuverndar.

Sóknaraðili vísar til þess að í lok árs 2020 hafi verið ljóst að hann fengi ekki umgengni við dóttur sína í gegnum sýslumann og hafi sóknaraðili því leitað til varnaraðila, en bæði hafi hún þekkt fjárhagsstöðu hans og hagi. Varnaraðili hafi samþykkt að taka að sér forsjármálið og sótt um gjafsókn vegna þess en jafnframt óskað eftir því að sóknaraðili millifærði inn á sig fyrir viðbótarkostnaði, kr. 20.000.- mánaðarlega. Taldi sóknaraðili að það væri einungis á meðan beðið væri eftir samþykki fyrir gjafsókn. Að sögn sóknaraðila hafi gjafsóknin verið samþykkt 4. mars 2021 en varnaraðili áfram óskað eftir því að sóknaraðili millifærði kr. 20.000.- mánaðarlega og hafi hann gert það í tvígang eftir að gjafsókn var samþykkt. Sóknaraðili hafi því greitt kr. 139.780.- vegna máls þar sem fallist hafði verið á gjafsókn, þar af kr. 19.780.- vegna kostnaðar við stefnuvott og mætingalögmann.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi þann 16. mars 2022 tjáð honum símleiðis að vinna vegna málsins væri komin upp í þrjár milljónir króna og að gjafsóknin myndi aldrei ná yfir nema eina til tvær milljónir króna. Sóknaraðili yrði því að leita leiða til að greiða varnaraðila mismuninn. Lýsir sóknaraðili því að varnaraðili hafi upplýst að móðir hennar ætti húsnæði sem þarfnaðist ýmis konar viðhalds og hafi sóknaraðili samþykkt að skoða húsnæðið. Að sögn sóknaraðila hafi hins vegar aldrei komið til þess að hann ynni í húsnæðinu, m.a. vegna veikinda.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila kemur fram að sóknar- og varnaraðili hafi þann 30. mars 2022 rætt um kostnaðinn vegna miskabótamálsins og persónuverndarmálsins. Þar hafi varnaraðili tjáð honum að hún myndi einungis taka þá lögmannsþóknun sem yrði ákveðin í málunum ef sóknaraðili myndi greiða allt sem félli utan gjafsóknar í forsjármálinu. Sóknaraðili lýsir því að hann hafi þá spurt hvort ekki væri betra ef nýr lögmaður tæki við forsjármálinu sem sætti sig einungis við gjafsóknina en varnaraðili hafi ekki tekið vel í það.

Sóknaraðili lýsir því að hann hafi þann 6. apríl 2022 lagt inn kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna vegna varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili jafnframt tilkynnt varnaraðila daginn eftir að hann treysti sér ekki í að standa við samkomulagið varðandi lagfæringar á fasteigninni og að hann vildi slíta öllu samstarfi við varnaraðila. Varnaraðili hafi þá sent sóknaraðila tímaskýrslur vegna forsjármálsins, persónuverndarmálsins og miskabótamálsins og tjáð sóknaraðila að hann þyrfti að gera upp við hana áður en hann skipti um lögmann og fengi gögn málanna afhent. Heildarkostnaður samkvæmt tímaskýrslum nemur kr. 4.476.045.- að meðtöldum virðisauka­skatti.

Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi aldrei verið skýr varðandi það að hann ætti að greiða lögmannskostnað umfram dæmdan gjafsóknarkostnað vegna forsjármálsins og að hann hafi talið sig vera að greiða útlagðan kostnað með mánaðarlegum innlögnum þar til gjafsóknin fengist samþykkt. Einnig kemur fram hjá sóknaraðila að varnaraðili hafi skráð marga tíma á tímaskýrslu vegna forsjármálsins sem í raun tilheyrðu persónuverndarmálinu eða miskabóta­málinu. Þá gerir sóknaraðili athugasemd við vinnu fulltrúa varnaraðila í málunum.

Í viðbótargreinargerð sinni lýsir sóknaraðili því að hann þurfi málsgögn sem varnaraðili hafi undir höndum varðandi forsjármál dóttur sinnar, svo hægt sé að ljúka við forsjárhæfnimat fyrir aðalmeðferð og koma nýjum lögmanni inn í málið. Sóknaraðili vilji losna undan varnaraðila og semja um hæfilegt hlutfall af gjafsóknarfjárhæðinni til hennar.

III.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Varnaraðili lýsir því að hún hafi í mörg ár unnið fyrir sóknaraðila og hafi hann aldrei þurft að greiða henni fyrir vinnu hennar. Sóknaraðili hafi síðan leitað til hennar vegna forsjármáls og ágreinings um umgengni vegna dóttur sinnar. Þegar sóknaraðili hafi leitað til hennar hafi einungis verið tíu dagar í að sáttavottorð sýslumanns rynni út og því nauðsynlegt að hafa hraðar hendur við vinnslu stefnu og stefna málinu fyrir dóm.

Varnaraðili vísar til þess að við upphaf máls hafi verið samið um við sóknaraðila að sótt yrði um gjafsókn enda hafi hann átt rétt á því. Gjafsókn hafi verið veitt í málinu hinn 19. apríl 2021. Það hafi hins vegar alltaf verið á hreinu að gjafsóknin myndi aldrei dekka allan málskostnað sem myndi falla til og því þyrfti sóknaraðili að greiða mismuninn sjálfur. Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi verið efnalítill og því hafi verið samið um greiðslur mánaðarlega að upphæð kr. 20.000.-, auk þess að hann myndi greiða útlagðan kostnað, s.s. vegna mætingalögmanns o.fl. Greiðslur hafi hins vegar borist seint eða alls ekki, þrátt fyrir ítrekanir.

Þá lýsir varnaraðili því að mikill árangur hafi náðst með málsókninni og hafi sóknaraðili m.a. fengið umgengni við dóttur sína síðasta sumar en hann hafði þá ekki hitt hana í þrjú og hálft ár. Illa hafi hins vegar gengið að fá greitt frá sóknaraðila og hafi hann borið fyrir sig peningaleysi en krafist þess á sama tíma að varnaraðili ynni fyrir hann lögreglukæru vegna ólögmæts brottnáms barns auk beiðni til ráðuneytisins um að barninu yrði skilað heim. Varnaraðili hafi útskýrt að slíkt félli ekki undir hefðbundna vinnu í forsjármáli og að sóknaraðili yrði að greiða sérstaklega fyrir það. Sóknaraðili hafi þá boðist til þess að fyrra bragði að vinna í staðinn við lagfæringar í fasteign fyrir varnaraðila. Samkomulag hafi komist á milli sóknaraðila og varnaraðila um vinnu hins fyrrnefnda í fasteigninni og hafi varnaraðili því ritað umrædda lögreglukæru auk beiðni til ráðuneytisins. Ekkert hafi hins vegar orðið af samkomulaginu um vinnuskiptin og sóknaraðili ekki greitt fyrir þjónustuna.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi kvartað undan því að hún gerði ekkert fyrir hann og að hann hafi í framhaldinu tjáð henni að hann vildi skipta um lögmann. Varnaraðili hafi sagt það sjálfsagt mál en sóknaraðili þyrfti að greiða henni fyrir þá vinnu sem hún hafði þegar innt af hendi, bæði í forsjármálinu og einnig í hinum málunum tveimur sem hún hafi sinnt fyrir sóknaraðila á þessu tíma. Að sögn varnaraðila hafi engin greiðsla borist frá sóknaraðila þrátt fyrir loforð hans þar um.

Varnaraðili vísar til þess að það sé skýrt af gögnum málsins að sóknaraðili hafi í nokkur skipti greitt inn á forsjármálið eða í heildina kr. 139.780.-, en hann hafi hins vegar ekki staðið við að greiða kr. 20.000.- mánaðarlega eins og samið hafði verið um. Vinna við forsjármálið hafi verið óvenju mikil, þar sem m.a. hafi þrisvar farið fram munnlegur málflutningur án þess að farið hefði fram aðalmeðferð í málinu og inni í þessu hafi einnig verið vinna við kæru til lögreglu og beiðni um að barni yrði skilað til landsins.

Varnaraðili vísar til þess að frá upphafi hafi sóknaraðila verið ljóst að gjafsóknin myndi aldrei dekka allan kostnað af málarekstrinum eins og gögn málsins beri með sér. Þá sé varnaraðili í fullum rétti að halda eftir gögnum þar til greiðsla hafi borist.

Varðandi miskabótamálið og persónuverndarmálið þá lýsir varnaraðili því að þau séu ennþá á frumstigi og stefnur hafi ekki verið gefnar út. Varnaraðili kveðst hafa sótt um gjafsókn til handa sóknaraðila vegna miskabótamálsins en þeirri beiðni hafi verið hafnað 27. júní 2022 og hafi varnaraðili tilkynnt sóknaraðila um höfnunina í tölvupósti samdægurs. Ekki hafi verið sótt um gjafsókn í persónuverndarmálinu.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi sinnt þremur málum fyrir sóknaraðila á þeim tíma sem um ræðir, forsjármáli, miskabótamáli og persónuverndarmáli. Fyrir liggur að gjafsókn vegna forsjármálsins var samþykkt 19. apríl 2021, en gögn málsins bera ekki með sér að gjafsókn hafi legið fyrir í hinum málunum. Þá liggur fyrir að aðilar gerðu með sér samkomulag um að sóknaraðili greiddi varnaraðila kr. 20.000.- mánaðarlega vegna forsjármálsins. Alls millifærði sóknaraðili átta sinnum inn á reikning varnaraðila á tímabilinu 7. desember 2020 til 1. september 2021, samtals kr. 139.780.-. Þrír reikningar liggja fyrir í málinu vegna útlagðs kostnaðar í forsjármálinu, tveir vegna mætingalögmanns og einn vegna stefnuvotts, samtals að fjárhæð kr. 19.780.-.

Fyrir liggur að sóknaraðili hafi lent í erfiðleikum með að greiða mánaðarlega umsamda fjárhæð til sóknaraðila og hafi málsaðilar í kjölfarið samið sín á milli um vinnuskipti sem ekkert varð þó af. Jafnframt liggur fyrir að sóknaraðili tjáði varnaraðila að hann vildi skipta um lögmann og fá málsgögn málsins en varnaraðili hafi upplýst að hann þyrfti að gera upp við sig fyrst. Í málinu liggja fyrir tímaskýrslur varnaraðila í málunum þremur auk þriggja reikninga vegna útlagðs kostnaðar í forsjármálinu eins og að framan greinir.

Gögn málsins benda ekki til þess að varnaraðili hafi skráð margra tíma vinnu á forsjármál sem tilheyrðu hinum málunum tveimur. Þó er að finna í vinnuskýrslu varnaraðila vegna forsjármálsins þrjár færslur sem nefndin lítur svo á að tilheyri öðrum málum en forsjármálinu. Um er að ræða þrjár færslur í vinnuskýrslu á tímabilinu 11. til 23. febrúar 2021 sem bera heitin „Kvörtun til Persónuverndar“, „Lagfærði atriði í kæru til PV“ og „Vann í miskabótakröfu“. Samtals er um að ræða 1,84 klst. vinnu og er kostnaður vegna þeirra kr. 48.020.- með virðisaukaskatti. Að teknu tilliti til þessa nemur vinna í forsjármáli samkvæmt tímaskýrslu 119,47 klst. og kostnaður vegna þess kr. 3.893.175.- með virðisaukaskatti og að meðtöldum útlögðum kostnaði kr. 25.780.-. Þá nemur vinna í miskabótamáli 10,58 klst. og kostnaður vegna þess kr. 328.228.- með virðisaukaskatti. Vinna í persónuverndarmáli nemur þá 8,1 klst. og kostnaður vegna þess kr. 254.642.- að meðtöldum virðisaukaskatti. Niðurstaða nefndarinnar miðast við þessar leiðréttingar á tímaskráningu varnaraðila.

II.

Varðandi ágreining um endurgjald þá er á grundvelli 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 hægt að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna. Úrskurðarnefndin lítur svo á að með því að senda sóknaraðila tímaskýrslur sem að framan greinir ásamt upplýsingum um tímagjald hafi varnaraðili með því áskilið sér endurgjald í skilningi ákvæðisins.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greidda í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum og vekja athygli hans ef ætla má að kostnaður verði hár að tiltölu miðað við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknuð.

Samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Sóknaraðili hefur borið því við fyrir nefndinni að hann sé ósáttur við að þurfa að greiða kostnað vegna forsjármálsins þar sem gjafsókn hafi verið samþykkt í málinu og að hann krefjist endurgreiðslu þeirra kr. 139.780.- sem hann hefur þegar greitt varnaraðila vegna þess máls.

Um gjafsókn er fjallað í XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 127. gr. laganna skuldbindur gjafsókn ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan var kæranda veitt gjafsóknarleyfi þann 19. apríl 2021 vegna forsjármálsins. Sambærilegt sakarefni og hér um ræðir kom til kasta nefndarinnar í máli nr. 33/2001 en úrskurður í málinu var upp kveðinn þann 9. september 2002. Í því máli komst nefndin að þeirri niðurstöðu að 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 fæli í sér takmörkun á heimild lögmanns til að áskilja sér hærra endurgjald fyrir flutning gjafsóknarmáls en sem næmi tildæmdri málflutningsþóknun, nema viðkomandi lögmaður semdi sérstaklega um annað við umbjóðanda sinn, sbr. m.a. eftirfarandi forsendur í úrskurði nefndarinnar:

Með vísun til framangreindra lagaákvæða og dóma er það mat úrskurðarnefndar lögmanna að 2. mgr. 127. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, feli í sér takmörkun á heimild lögmanns til að áskilja sér hærra endurgjald fyrir flutning gjafsóknarmáls en sem nemur tildæmdri málflutningsþóknun, nema viðkomandi lögmaður semji sérstaklega um annað við umbjóðanda sinn. Eins og mál þetta er lagt fyrir nefndina hefur ekki verið sýnt fram á það að varnaraðili hafi samið á þann hátt við sóknaraðila um hærra endurgjald fyrir flutning gjafsóknarmálsins í héraði og fyrir Hæstarétti. Er það því niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili eigi ekki rétt á hærri málflutningsþóknun en ákveðin var með dómi Hæstaréttar Íslands...“.

Í samræmi við fyrrgreint fordæmi verður að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að þegar gjafsóknarleyfi er veitt verði breyting á samningssambandi aðila og gjafsóknarleyfi feli það í sér að lögmaður taki þóknun samkvæmt ákvörðun dómara nema um annað sé sérstaklega samið, sbr. einnig úrskurð nefndarinnar frá 22. desember 2004 í máli nr. 28/2002-a. Að mati nefndarinnar verður að leggja til grundvallar að það sé á ábyrgð viðkomandi lögmanns að ganga frá slíkum þáttum með skýrum og afgerandi hætti og tryggja sér þannig sönnun fyrir því að samningur um umframgreiðslur hafi komist á. Er þá til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum sem og að upplýsa um á hvaða grundvelli þóknun sé reiknuð.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og málsgögnum að öðru leyti telur nefndin ekki liggja fyrir að varnaraðili hafi samið sérstaklega við sóknaraðila um hærra endurgjald en héraðsdómur kæmi til með að dæma henni úr gjafsókn sóknaraðila í forsjármálinu. Fyrir liggur að sóknaraðili hefur greitt varnaraðila kr. 139.780.- vegna forsjármálsins, þar af kr. 19.780.- vegna útlagðs kostnaðar og að aðilar eru sammála um að umræddar greiðslur hafi verið vegna forsjármálsins. Á grundvelli gagna málsins er hins vegar útilokað að leiða í ljós hvers efnis samkomulag aðila um þessar greiðslur kann að hafa verið. Gera verður kröfu til þess að slíkt samkomulag sé skýrt og ber varnaraðili hallan af því að svo hafi ekki verið. Af þessu leiðir að varnaraðili þarf að una því endurgjaldi sem héraðsdómur ákvarðar í forsjármálinu og er ekki heimilt að krefja sóknaraðila um hærra endurgjald. Er varnaraðila þannig óheimilt að ráðstafa innborgunum sóknaraðila inn á forsjármálið.

Þar sem endurgjald varnaraðila vegna forsjármálsins á undir héraðsdóm tekur nefndin ekki afstöðu til þess hvort endurgjald sem varnaraðili hefur áskilið sér í því máli sé hæfilegt.

Að teknu tilliti til gagna málsins verður ekki séð að mati nefndarinnar að tímafjöldi samkvæmt tímaskýrslu varnaraðila í miskabótamálinu annars vegar og persónuverndarmálinu hins vegar, hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þau verkefni sem varnaraðila var falið að sinna. Hefur þá verið tekið tillit til leiðréttinga á tímaskýrslu svo sem að framan greinir þannig að vinna í miskabótamáli nemi 10,58 klst. og kostnaður kr. 328.228.- með virðisaukaskatti og vinna í persónuverndarmáli nemi 8,1 klst. og kostnaður vegna þess kr. 254.642.- með virðisaukaskatti. Þá var tímagjald varnaraðila, að fjárhæð kr. 27.500.- fyrir vinnu hennar annars vegar og kr. 24.500.- vegna vinnu fulltrúa hins vegar, auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi.

Að mati nefndarinnar leiðir það af almennum reglum kröfuréttar um skuldajöfnuð að varnaraðila sé heimilt að ráðstafa innborgunum frá sóknaraðila inn á skuld hans við hana vegna hinna málanna tveggja. Leiðir það til þess kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu á kr. 139.780.- úr hendi varnaraðila er hafnað.

Það er mat nefndarinnar að varnaraðila hafi verið heimilt að fela fulltrúa sínum að sinna hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila. Sóknaraðila var frá upphafi ljóst að nafngreindur fulltrúi væri að vinna í málinu ásamt varnaraðila og er ósannað að það hafi sætt sérstökum andmælum af hálfu sóknaraðila. Varnaraðili hafði yfirumsjón með vinnunni og bar á henni ábyrgð gagnvart sóknaraðila. Sú tilhögun fól ekki í sér framsal á því málflutningsumboði sem sóknaraðili hafði veitt varnaraðila. Varnaraðili fór eftir sem áður með fyrirsvar málsins og verður ekkert annað ráðið af málsgögnum en að til hafi staðið að hún annaðist jafnframt flutning þess fyrir dómi, sbr. ákvæði 4. mgr. 21. gr. laga um lögmenn. Verður því ekki fallist á athugasemdir sóknaraðila við vinnu fulltrúa varnaraðila, sbr. til hliðsjónar niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 172/2015.

III.

Í upphaflegu erindi sóknaraðila til nefndarinnar sem móttekið var þann 6. apríl 2022, var annars vegar kvartað undan trúnaðarbresti varnaraðila en sóknaraðili vísar um það til samskipta í tölvubréfum, dags. 16. mars 2022, milli varnaraðila og sambýliskonu sóknaraðila þar sem varnaraðili hafi reiðst vegna ósættis um uppgjör við sambýliskonuna. Varnaraðili hafi m.a. annars sagt að hún ætlaði aldrei að vinna fyrir sambýliskonuna aftur og að hún þyrfti að hugsa sig vandlega um í sambandi við mál sóknaraðila. Honum hafi þótt þetta orðaval óþægilegt og óviðeigandi að blanda hans málum við mál sambýliskonunnar og sóknaraðili því farið að efast um traust sitt í garð varnaraðila. Varnaraðili hefur hins vegar vísað til þess fyrir nefndinni að hún hafi einnig unnið mikið fyrir sambýliskonu sóknaraðila og efni tölvubréfanna hafi varðað miskabótamál sem varnaraðili hafi unnið fullan sigur í, en þegar komið hafi að uppgjöri hafi sambýliskonan ekki verið tilbúin til að greiða fyrir vinnu varnaraðila umfram dæmd gjafsóknarlaun.

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Var slíkt enn fremur áréttað í þágildandi 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið var að lögmaður skyldi leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. sömu reglna að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Að mati nefndarinnar bera þau málsgögn sem liggja fyrir nefndinni með sér að varnaraðili hafi annast hagsmunagæslu í þágu sóknaraðila í samræmi við góða lögmannshætti. Þá bendir ekkert í gögnum málsins til trúnaðarbrests af hálfu varnaraðila, heldur virðist hún þvert á móti hafa lagt sig alla fram um að gæta hagsmuna sóknaraðila til hins ítrasta. Samkvæmt því verður ekki talið að varnaraðili hafi með efni tölvubréfsins gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, eins og áskilið er í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Kvörtunarefni sóknaraðila lýtur hins vegar að því að sóknaraðili vilji losna frá varnaraðila og fá afhent öll gögn málsins sem hún hefur í vörslum sínum. Þá hefur sóknaraðili einnig gert athugasemdir við að varnaraðili hafi reynt að semja um að hann sinnti fasteignaviðhaldi í vinnuskiptum fyrir lögmannsþjónustu sína og að hún hafi reynt að fá hann í svarta vinnu.

Samkvæmt 16. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni rétt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum, er hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert honum full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi. Haldsrétturinn gildir þó ekki ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt. Sama gildir ef umboð lögmanns hefur verið afturkallað af réttmætri ástæðu, svo sem vegna óeðlilegs dráttar á rekstri máls eða af sambærilegum ástæðum.

Þar sem endurgjald varnaraðila vegna forsjármálsins verður ákvarðað af héraðsdómi og varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að hún hafi samið sérstaklega við sóknaraðila um viðbótarendurgjald umfram gjafsókn í málinu er það mat nefndarinnar að varnaraðila sé óheimilt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum í því máli. Vísast þá enn fremur til 2. mgr. 16. gr. siðareglna lögmanna, enda gæti beiting haldsréttar af hálfu varnaraðila valdið sóknaraðila réttarspjöllum.

Í 1. mgr. 20. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 er kveðið á um að við sérhverja sölu eða afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu skuli seljandi gefa út reikning. Á reikningi skal koma fram útgáfudagur, nafn og kennitala kaupanda og seljanda, skráningarnúmer seljanda, tegund sölu, magn, einingarverð og heildarverð. Reikningseyðublöð skulu vera fyrir fram tölusett í samfelldri töluröð. Reikningur skal bera greinilega með sér hvort virðisaukaskattur er innifalinn í heildarfjárhæð hans eða ekki.

Samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Orðalag 1. mgr. 16. gr. siðareglna lögmanna er afdráttarlaust og kveður á um haldsréttur stofnist þegar skjólstæðingur gerir lögmanni ekki skil á þóknun og útlögðum kostnaði samkvæmt útgefnum reikningi. Orðunum „samkvæmt útgefnum reikningi“ var bætt við 1. mgr. 16. gr. siðareglna lögmanna við heildarendurskoðun þeirra árið 2000. Ætla má að tilgangur þessa hafi verið sá að taka af allan vafa um að lögmaður þurfi að hafa gefið út reikning vegna vinnu sinnar og útlagðs kostnaðar, sem skjólstæðingur lætur hjá líða að greiða, til þess að haldsréttur stofnist til handa lögmanni í skjölum og öðrum gögnum í máli skjólstæðings.

Í ljósi framangreinds verður að draga þá ályktun að haldsréttur lögmanns skv. 1. mgr. 16. gr. siðareglna lögmanna sé alfarið háður því að lögmaður hafi uppfyllt skyldu sína til þess að gefa út reikning til skjólstæðings vegna þóknunar og útlagðs kostnaðar, í samræmi við ákvæði 1. mgr. 20. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 15. gr. siðareglna lögmanna og að skjólstæðingur hafi látið hjá líða að greiða útgefinn reikning.

Um þetta vísast enn fremur til úrskurðar úrskurðarnefnda lögmanna í máli nr. 10/2005 þar sem segir í niðurstöðum úrskurðarnefndar:

„…Í tölvupóstinum var farið fram á greiðslu eftirstöðva þeirra reikninga, sem kærða hafði gefið út 1. apríl 2004 vegna vinnu sinnar í þágu kæranda mánuðina ágúst til desember 2003. Kvaðst kærða ekki ætla að afhenda málsgögn í skaðabótamálinu, sem höfðað hafði verið vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi, fyrr en reikningarnir hefðu verið greiddir.

Samkvæmt 16. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni rétt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum, er hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert honum full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi. Haldsrétturinn gildir þó ekki ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt. Sama gildir ef umboð lögmanns hefur verið afturkallað af réttmætri ástæðu, svo sem vegna óeðlilegs dráttar á rekstri máls eða af sambærilegum ástæðum.“

Reikningarnir fimm, sem höfðu verið gefnir út, voru einkum vegna vinnu kærðu að málinu gagnvart fyrrverandi sambýlismanni kæranda, en ekki nema að mjög óverulegu leyti vegna vinnu kærðu að skaðabótamálinu gegn A- og B-hreppi, og þá einungis tveir [þessara] reikninga. Samkvæmt framangreindu ákvæði siðareglna lögmanna gat kærða af þeim sökum ekki beitt haldsrétti og neitað að afhenda kæranda eða viðtakandi lögmanni gögn dómsmálsins.

Varnaraðili hefur hvorki gefið út reikninga vegna vinnu sinnar í þágu sóknaraðila í miskabóta­málinu né persónuverndarmálinu. Af framangreindu leiðir að varnaraðili getur ekki beitt haldsrétti í skjölum og öðrum gögnum sóknaraðila í þeim málum.

Varðandi vinnuskipti þá eru allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, skattskyld skv. A. lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé eða vinnuskiptum. Samkvæmt framangreindu er ekki óheimilt að semja um vinnuskipti fyrir greiðslu á þjónustu og þá hafa engin gögn verið lögð fyrir nefndina sem benda til þess að ekki hafi staðið til að gefa vinnuna upp til skatts.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðila, B lögmanni, er óheimilt að krefja sóknaraðila, A, um þóknun umfram tildæmda málflutningsþóknun í máli er varðar forsjá og umgengni.

Þóknun varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa hennar í þágu sóknaraðila, A, í miskabótamáli, telst hæfilega ákveðin kr. 328.228.- að meðtöldum virðisaukaskatti.

Þóknun varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa hennar í þágu sóknaraðila, A, í persónuverndarmáli, telst hæfilega ákveðin kr. 254.642.- að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kröfu sóknaraðila, A, um að varnaraðili, B lögmaður, endurgreiði honum kr. 139.780.- er hafnað.

Varnaraðila, B, er óheimilt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum í þeim málum sem hún sinnti í þágu varnaraðila, A.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í starfi sínu ekki gert á hlut sóknaraðila A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Grímur Sigurðsson

Helgi Birgisson

Hulda Katrín Stefánsdóttir

 

Rétt endurrit staðfestir

__________________

Eva Hrönn Jónsdóttir