Mál 15 2022

Mál 15/2022

Ár 2023, fimmtudaginn 26. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 19. apríl 2022 erindi sóknaraðila, A, vegna starfa varnaraðila, B lögmanns, með starfsstöð að […].

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 25. apríl 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt til endurgjalds fyrir starf lögmanns eða fjárhæð þess, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, sem og kvörtun í skilningi 27. gr. sömu laga.

Greinargerð varnaraðila vegna málsins barst til nefndarinnar þann 17. maí 2022 og var hún send sóknaraðila til athugasemda með bréfi þann sama dag. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 30. maí 2022 en viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 21. júní 2022. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að sóknaraðili hafi leitað til varnaraðila um miðjan febrúarmánuð 2022 með beiðni um hagsmunagæslu. Á þeim tíma mun hafa verið lokið dómsmáli sem lotið hafði að lögræði móður sóknaraðila og kröfum sóknaraðila þar að lútandi hafði verið hafnað. Kveðst sóknaraðili hafa leitað til varnaraðila á grundvelli skráðrar sérþekkingar hans um málefni aldraðra og með þá beiðni að hann tæki að sér að lesa málsgögn með tilliti til þess hvort einhver frekari úrræði stæðu til boða til að aðstoða móður hennar. Varnaraðili hefur hins vegar vísað til þess að markmiðið með lestri gagnanna hafi verið óljóst í upphafi. Ágreiningslaust er hins vegar að beiðni sóknaraðila um athugun varnaraðila á málinu laut ekki að fjárhagslegum þáttum.

Ágreiningslaust er að aðilar áttu með sér fund þann 17. febrúar 2022 þar sem varnaraðili tók að sér að skoða undirliggjandi málsgögn í því skyni að veita ráðleggingar um möguleika á frekari úrræðum vegna móður sóknaraðila. Mun varnaraðili hafa upplýst sóknaraðila um áskilið tímagjald á fundinum en það var að fjárhæð 30.000 krónur auk virðisaukaskatts. Liggur jafnframt fyrir að sóknaraðili afhenti varnaraðila öll nauðsynleg gögn vegna málsins á öðrum fundi sem  haldinn var þann 23. sama mánaðar, en þau voru bæði á rafrænu formi sem og útprentuð á pappír í tímaröð svo sem varnaraðili mun hafa óskað eftir til hagræðingar. Munu tilgreind málsgögn hafa talið alls um 200 blaðsíður.

Fyrir liggur að sóknaraðili áframsendi tölvubréf frá fyrri lögmanni sínum til varnaraðila þann 27. febrúar 2022 þar sem fram kom að varnaraðila væri heimilt að hafa samband við lögmanninn vegna málsins. Í svari varnaraðila kom fram að hann myndi gera það þegar hann væri búinn að lesa gögn og skoða málið betur.

Í tölvubréfi til sóknaraðila, dags. 12. mars 2022, upplýsti varnaraðili að lestur málsgagna hefði gengið hægar en vonast hefði verið eftir en að hann væri þó langt kominn og byrjaður á minnisblaði um „tæka og minna tæka valkosti sem ég hef hugleitt mikið og rætt við kollega.“

Fyrir liggur að aðilar áttu fund vegna málsins þann 23. mars 2022. Var þar meðal annars upplýst að varnaraðili hefði sent reikning, sem gefinn hafði verið út þann 11. sama mánaðar vegna starfa í þágu sóknaraðila, á vitlaust netfang. Var tilgreindur reikningur að fjárhæð 250.000 krónur auk virðisaukaskatts en á honum var tiltekið málsnúmer sem og skýringin „Uppígreiðsla 1“. Þá liggur fyrir að sóknaraðili greiddi reikninginn þann 24. mars 2022, alls að fjárhæð 310.000 krónur með virðisaukaskatti.

Á meðal málsgagna er að finna tölvubréf sem sóknaraðili sendi til varnaraðila þann 31. mars 2022 en í því var að finna uppsögn á réttarsambandi aðila og þar með ósk um að varnaraðili myndi ekki vinna frekar að málinu. Lýsti sóknaraðili í tölvubréfinu jafnframt yfir óánægju með framgang málsins hjá varnaraðila og þá ráðgjöf sem hann hafði veitt. Ágreiningslaust er að aðilar áttu með sér símtal þennan sama dag þar sem meðal annars mun hafa orðið ágreiningur um þá þóknun sem varnaraðili áskildi sér vegna starfans. Þá liggur einnig fyrir um það tölvubréf sem sóknaraðili sendi til varnaraðila þann 4. apríl 2022 þar sem eftirfarandi var tiltekið:

Í framhaldi af símhringingu frá þér þann 31. mars. Ágreiningur okkar í máli þessu er það mikill að ég sé mér ekki annað fært en að óska eftir að þú sendir mér reikning og tímaskrá fyrir þessa 33 tíma sem þú hefur í hyggju að fara fram á að fá greidda frá mér eftir aflestur og ráð varðandi þau gögn sem ég kom með til þín. Úrskurðarnefnd lögmanna mun í framhaldinu fá málið til skoðunar.

Varnaraðili svaraði erindinu samdægurs og sendi umbeðna tímaskýrslu til sóknaraðila. Þá tiltók varnaraðili að hann kysi að gefa ekki út reikning fyrr en að fengnum úrskurði nefndarinnar þar sem slíkt myndi kalla á „lán á vsk. til ríkisins“.

Tilgreind tímaskýrsla varnaraðila er á meðal málsgagna fyrir nefndinni. Samkvæmt henni varði varnaraðili alls 31.75 klukkustundum í vinnu í þágu sóknaraðila á tímabilinu frá 14. febrúar til 31. mars 2022. Lutu þeir vinnuliðir einkum að samskiptum og fundahöldum með sóknaraðila, lestri málsgagna, greiningu á valkostum og ritun draga að minnisblaði sem varnaraðili hefur lagt fyrir nefndina. Þá kom fram á tímaskýrslunni að tímagjald varnaraðila væri að fjárhæð 30.000 krónur auk virðisaukaskatts og að samkvæmt því væri heildarfjárhæð þess endurgjalds sem áskilið væri 1.181.100 krónur með virðisaukaskatti.

Svo sem fyrr greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sóknaraðila sem móttekið var þann 19. apríl 2022.

II.

Af erindum sóknaraðila til nefndarinnar verður ráðið að þau taki annars vegar til ágreinings á milli hennar og varnaraðila um endurgjald eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hvað það varðar krefst sóknaraðili þess aðallega að varnaraðila verði gert að endurgreiða henni greiddan reiknings, dags. 11. mars 2022, og að krafa um viðbótarþóknun varnaraðila verði látin niður falla. Til vara krefst sóknaraðili þess að greiddur reikningur, dags. 11. mars 2022, verði látinn standa og að sú þóknun teljist hæfileg fyrir unnin störf varnaraðila.

Hins vegar verður að mati nefndarinnar að leggja þann skilning í erindi sóknaraðila að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Er þannig tiltekið í erindi sóknaraðila að það lúti að óviðunandi starfsháttum varnaraðila.

Sóknaraðili vísar til þess að hún hafi staðið í lögræðissviptingarmáli til að tryggja velferð og öryggi aldraðrar móður sinnar. Eftir afstaðin dómsmál hafi sóknaraðili leitað til varnaraðila með beiðni um að hann tæki að sér að lesa yfir málsgögn með tilliti til þess hvort hann kæmi auga á eitthvað sem ætti eftir að láta á reyna til að aðstoða móður sóknaraðila með velferð hennar í fyrirrúmi.

Sóknaraðili bendir á að samkvæmt skráningu á vef Lögmannafélags Íslands séu sérsvið varnaraðila meðal annars á sviði erfða-, stjórnsýslu- og samningaréttar. Kveðst sóknaraðili hafa leitað til varnaraðila meðal annars vegna starfa hans og fyrirlestra um málefni aldraðra. Hafi það verið gert símleiðis þann 14. febrúar 2022 og aðilar ákveðið að hittast þann 17. sama mánaðar. Þá vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt fyrirliggjandi tímaskráningu hafi varnaraðili þegar byrjað að skrá tíma á málið við þetta fyrsta símtal, óháð því hvort hann hafi ætlað að taka að sér lestur málsgagna.

Sóknaraðili vísar til þess að hún hafi mætt á tilgreindan fund með varnaraðila ásamt dóttur sinni þar sem farið hafi verið yfir fjölskylduhagi jafnframt því sem skautað hafi verið yfir málsgögn. Hafi varnaraðili á fundinum eytt drjúgum tíma í að skoða hvað lögmenn málsins hefðu fengið í þóknun á fyrri stigum jafnframt því sem upplýst hafi verið um að allir reikningar hefðu verið greiddir. Þrátt fyrir að hafa verið með öll gögn á rafrænu formi hafi varnaraðili óskað eftir að sóknaraðili myndi prenta öll gögnin út og raða þeim í tímaröð til að auðvelda vinnu hans og halda kostnaði í lágmarki. Þá hafi varnaraðili upplýst um tímagjald sitt en aldrei minnst á „magnkaup“ svo sem fram komi í vinnuskýrslu.

Vísað er til þess að aðilar hafi átt með sér annan fund þann 23. febrúar 2022. Hafi sá fundur verið haldinn svo sóknaraðili gæti látið varnaraðila í té útprentuð málsgögn sem raðað hafði verið í tímaröð. Vísar sóknaraðili til þess að varnaraðila hafi farið yfir gögnin en á fundinum hafi hann jafnframt viljað skoða hvort ein stefna í málinu væri á USB lykli. Hafi varnaraðili hins vegar verið ófær um að opna lykilinn og dóttir sóknaraðila því aðstoðað hann við það. Kveðst sóknaraðili jafnframt hafa lagt áherslu á að varnaraðili myndi skoða upptöku frá árinu 2017 á viðkomandi lykli. Þá hafi fundi lokið á þeim nótum að varnaraðili myndi hefjast handa við að lesa gögnin jafnframt því sem samþykkt hafi verið beiðni hans um að hafa samband við annan lögmann sóknaraðila vegna málsins.

Sóknaraðili vísar til þess að vinnuskýrsla varnaraðila sé röng um efni þessa fundar. Þannig komi hvergi fram að varnaraðili hafi þar móttekið öll málsgögn. Þrátt fyrir að hafa móttekið gögnin á fundinum hafi varnaraðili fært í vinnuskýrslu fimm dögum síðar 0.25 klst. í „móttaka og fælun gagna“. Þá hafi aldrei verið talað um reikninga, kostnað eða minniháttar uppígreiðslur á fundinum líkt og ranglega greini í vinnuskýrslu.

Sóknaraðili vísar til þess að hún hafi sent tölvubréf til lögmanns síns þann 24. febrúar 2022 sem gefið hafi vilyrði fyrir því að varnaraðili mætti hafa samband til að fara yfir málið. Hafi sóknaraðili sent svar lögmannsins til varnaraðila í framhaldi af því ásamt stefnu sem varnaraðili hafi óskað eftir. Þá hafi varnaraðili sent tölvubréf til sóknaraðila þann 28. sama mánaðar þar sem upplýst hafi verið um að hann yrði í sambandi síðla þá viku eða vikuna á eftir, þ.e. þegar hann væri búinn að lesa gögnin og skoða málið betur. Bendir sóknaraðili á að engin samskipti hafi hins vegar orðið á milli aðila fyrr en boðað hafi verið til þriðja fundarins.

Vísað er til þess að þriðji fundur aðila hafi verið haldinn tæpum mánuði síðar eða þann 23. mars 2022. Vísar sóknaraðili til þess að á þeim tíma hafi varnaraðili ekki enn lokið við að fara yfir gögn málsins. Jafnframt því hafi varnaraðili hvorki verið búinn að skoða fyrrgreinda upptöku né ræða við hinn lögmann sóknaraðila. Lýsir sóknaraðili því að varnaraðili hafi ekki virst ná samhengi málsgagna.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi lagt til á fundinum að hann myndi senda tölvubréf til sýslumanns og óska eftir svörum sem og reka á eftir viðkomandi máli hjá héraðssaksóknara. Bendir sóknaraðili hins vegar á að varnaraðili, sem lögmaður, ætti að vera ljóst að sýslumaður hefði enga heimild til að veita upplýsingar um mál þriðju aðila. Þá hefði varnaraðila mátt vera ljóst, ef hann hefði sinnt því að ræða við hinn lögmann sóknaraðila, að þegar hefði verið rekið sex sinnum á eftir málinu hjá embætti héraðssaksóknara frá 24. september 2020.

Vísað er til þess að á síðasta fundi aðila hafi varnaraðili spurt hvort sóknaraðila hefði borist reikningur vegna vinnu hans en því hafi verið svarað neitandi. Hafi þá komið í ljós að reikningur hafði verið sendur á vitlaust netfang þann 15. mars 2022 og því ekki borist sóknaraðila fyrr en þann 23. sama mánaðar. Er á það bent að á reikningum komi ekki fram tímakaup, fjöldi vinnustunda eða til hvaða þátta hann taki. Kveðst sóknaraðili hafa greitt reikninginn morguninn eftir en varnaraðili hafi hins vegar aldrei talað um greiðslufyrirkomulag eða hvenær stæði til að gera upp hans vinnu fram að tilgreindum fundi.

Sóknaraðili vísar til þess að á þessum tíma hafi viðvörunarbjöllur verið farnar að hringja. Hafi þannig ráðleggingar varnaraðila, sem áður greinir, borið með sér að hann hefði ekki kynnt sér málavexti að fullu eða ekki náð utan um málsgögnin. Þá hafi sóknaraðili hvorki fengið minnisblað frá varnaraðila né skriflegar ráðleggingar.

Sóknaraðili bendir á að hún hafi sagt varnaraðila upp störfum í tölvubréfi þann 31. mars 2022. Áður hafi hún haft samband við dómsmálaráðuneytið og fengið upplýsingar um að ráðgjöf varnaraðila samræmdist hvorki lögum né meðferð mála hjá sýslumanni. Hafi starfsmaður ráðuneytisins talið að tímabært væri að beina erindi þangað vegna starfshátta stjórnsýslunnar í málum móður sóknaraðila. Þá hafi varnaraðili haft samband símleiðis sama dag og uppsögn var send og upplýst að skuld sóknaraðila vegna lögmannsþjónustu hans væru rúmar 900.000 krónur.

Sóknaraðili kveðst hafa óskað eftir lokareikningi frá varnaraðila vegna málsins í tölvubréfi þann 4. apríl 2022. Er vísað til þess að varnaraðili hafi sama dag sent vinnuskýrslu til sóknaraðila vegna málsins en upplýst jafnframt að hann vildi ekki gefa út reikning þar sem hann vildi ekki lána ríkinu virðisaukaskatt.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili fari fram á þóknun að fjárhæð 1.181.100 krónur fyrir lestur málsgagna sem sé langt frá því að vera ásættanlegt. Réttlæti vinna varnaraðila þannig með engu móti umrædda fjárhæð. Byggir sóknaraðili á að vinna við að lesa 198 blaðsíður af málsgögnum auk ráðlegginga séu 5 – 10 klukkustundir. Er jafnframt á það bent að hluti málsgagna séu stuttar viljayfirlýsingar, skjáskot af skilaboðum eða örfáar línur á blaðsíðu. Samkvæmt vinnuskýrslu hafi varnaraðili hins vegar fært 16 klukkustundir fyrir lestur málsgagna sem enn hafi þó verið ólokið. Er athygli vakin á að 25% lesfimisviðmið 15 ára einstaklinga fyrir 198 blaðsíður sé 7.86 klukkustundir, þ.e. 210 orð á mínútu.

Sóknaraðili ítrekar að varnaraðili hafi verið fenginn til að lesa málsgögn og veita ráðleggingar ef hann kæmi auga á einhver atriði sem hægt væri að reyna á. Beri vinnuskýrsla varnaraðila þess vott að hann hafi ekki haft áhuga á umbeðnu verki sem hafi einnig leitt af sér minni afköst. Þannig hafi varnaraðili hringt í ótilgreinda aðila, án samþykkis sóknaraðila, til að ræða málið án þess að hafa þá haft undir höndum gögn þess. Hafi varnaraðila ekki verið falin slík verk.

Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt vinnuskýrslu komi ekki á óvart að varnaraðili hafi ekki náð samhengi málsins og verið úrræðalítill. Þannig hafi varnaraðili lesið gögnin á 23 daga tímabili. Beri vinnuskýrslan aukinheldur með sér að hafa verið unnin eftir á. Sé þar einnig rangfærslur að finna í nokkrum liðum þar sem fært sé til bókar að rætt hafi verið um reikningagerð og greiðslur án þess að slíkar umræður hefðu átt sér stað. Sömuleiðis hafi varnaraðili reynt að búa sér til fleiri vinnustundir til að innheimta, sbr. símtöl við ótilgreinda þriðju menn vegna málsins. Hafi varnaraðili verið ráðinn fyrir ætlaða sérfræðikunnáttu á málefnum aldraðra til að lesa málsgögn í lögræðissviptingarmáli og athuga hvort einhver leið væri til að binda enda á einangrun og frelsisskerðingu móður sóknaraðila. Verði að gera þær lágmarkskröfur til lögmanna að þeir þekki sín sérsvið og lögin sem falla þar undir. Hafi því ekki verið fyrir að fara hjá varnaraðila og því um vörusvik af hans hálfu að ræða og alvarleg brot á siðareglum lögmanna.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila er ítrekað að leitað hafi verið til varnaraðila þar sem hann hafi gefið sig út fyrir að sinna málum fyrir aldraða. Er vísað til þess að aldrei hafi staðið til að varnaraðili færi að skoða lausnir á fyrri dómsmálum eða erfðamál enda ljóst frá upphafi að málið væri til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Hafi verkefnið þannig aðeins lotið að því að yfirfara gögn með tilliti til þess hvort einhver möguleiki væri á að koma móður sóknaraðila til aðstoðar. Úrræði varnaraðila um það efni hafi verið fá en hann upplýst að hægt væri að aðstoða sóknaraðila að móðurinni látinni. Slíkar aðgerðir hafi hins vegar verið sóknaraðila víðs fjarri og ekki varðað það erindi sem leitað hafi verið til varnaraðila með.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi aldrei áætlað einhverjar vinnustundir fyrir umrædda vinnu. Einnig hafi það verið mjög ófagmannlegt af varnaraðila að svara símtölum í viðurvist sóknaraðila á fundum. Þá hafi vinna varnaraðila verið sundurlaus þar sem honum hafi verið meira í mun að ná sem flestum vinnustundum fyrir vinnu sína frekar en að vinna fyrir þóknun sinni.

III.

Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurðað verði að tímaskýrsla hans verði lögð til grundvallar reikningsgerð auk 10% álags á þóknun samkvæmt lögjöfnun frá 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þ.e. samtals 1.288.980 krónur með virðisaukaskatti að frádreginni innborgun sóknaraðila þann 24. mars 2022 að fjárhæð 310.000 krónur með virðisaukaskatti.

Til vara krefst varnaraðili þess að tímaskýrsla hans verði lögð til grundvallar reikningsgerð, þ.e. samtals 1.181.100 krónur með virðisaukaskatti að frádreginni innborgun sóknaraðila þann 24. mars 2022 að fjárhæð 310.000 krónur með virðisaukaskatti.

Til þrautavara krefst varnaraðili þess að önnur hæfleg fjárhæð með hliðsjón af tímaskýrslu verði úrskurðuð honum úr hendi sóknaraðila til greiðslu innan hæfilegs tíma.

Varnaraðili vísar til þess að auk tuga blaðsíðna sem hann hafi ritað til minnis á fundum aðila eða prentað út til minnis og hugleiðinga um úrlausn, svo sem lagabálka og dómafordæmi, hafi hann þann 23. febrúar 2022 móttekið tvo minniskubba frá sóknaraðila og 213 blaðsíður af málsgögnum. Hafi flækjustig gagna verið misjafnt.

Varðandi útreikning á lestrartíma vísar varnaraðili til þess að ef miðað sé við að meðaltalslestur hverrar síðu sé um fimm mínútur sé tími sem færi í lestur málsgagna einungis 17 klukkustundir og 45 mínútur. Sé litið til rauntímaskráningar varnaraðila sé ljóst að tími varnaraðila hafi verið hóflegur enda hafi hann lesið hratt og fundið til ábyrgðar að leysa hratt úr álitaefninu og halda kostnaði í lágmarki í samræmi við þær skyldur sem hvíla á lögmönnum. Erfitt sé þó að sjá nákvæmlega af tímaskráningu hve mikill tíma af skráningum 1., 2., 8., 12., 22. og 23. mars 2022 hafi farið í hreinan lestur og hve mikill í hugleiðingar, leit, skrif og aðra vinnu. Byggir varnaraðili samkvæmt því á að lestur hafi verið síst ofáætlaður í vinnuskýrslu hans. 

Varnaraðili bendir einnig á að hann hafi hlustað á upptökur í að minnsta kosti 45 mínútur. Geti sóknaraðili ekki bæði amast við því að varnaraðili hafi hlustað of seint á upptökurnar sem og við því að hann hafi eytt of miklum tíma í að yfirfara úrskurði, stefnur, kærur, lagaskjöl, samskipti, minnispunkta, minnisblöð og önnur skjöl sem verið hafi meðal þeirra málsgagna sem sóknaraðili hafi látið honum í té.

Varðandi umfang vinnunnar vísar varnaraðili til þess að 14 klukkustundir hið minnsta hafi farið í lestur málsgagna og að fundir aðila hafi staðið yfir í 5.25 klukkustundir. Með hlustun á upptöku í 45 mínútur og samskipti og utanumhald í 2.5 – 3 klukkustundir hafi tímarnir verið orðnir 22.5 – 23 talsins. Samkvæmt því væru aðeins reiknaðar um eða innan við níu klukkustundir í sjálfa hugmyndavinnuna, réttarheimildaleit og samráð við kollega.

Varnaraðili kveðst hafna vangaveltum sóknaraðila um að vinnan hafi verið of mikil. Vísar varnaraðili til þess að unnið hafi verið hratt og skipulega að málum og að frekari vinna hafi ekki verið afturkölluð fyrr en nálgast hafi álitsgjöf eða lok minnisblaðs. Sé málatilbúnaður sóknaraðila afar óheiðarlegur í því ljósi. Þá séu einu mistök sem varnaraðili hafi gert verið að treysta sóknaraðila of vel og gera ekki skriflegan samning við hana eða senda tölvuskeyti um inntak vinnunnar. Sýni þó umfang þeirra málsgagna sem varnaraðili móttók að kröfugerð sóknaraðila sé fráleit og í ósamræmi við eigin málatilbúnað hennar.

Varnaraðili vísar til þess að kjarni málsins sé að hann hafi lagt áherslu á það frá fyrsta fundi að um mikla vinnu yrði að ræða enda hafi beiðni sóknaraðila lotið að endurmati varnaraðila á fjölda dómsúrlausna á tveimur dómstigum sem og vinnu fyrri lögmanna sóknaraðila. Af þeim sökum hafi varnaraðili gert sóknaraðila ljóst við lok fyrsta fundar að tímagjald hans væri 30.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá hafi sóknaraðila einnig verið gert ljóst að kostnaður yrði verulegur.

Varnaraðili vísar til þess að með hliðsjón af því að sóknaraðili hefði skipt tvívegis um lögmann áður hann hafi talið öruggara að senda „uppígreiðslureikning“. Hafi þó komið fram frá fyrsta fundi að sóknaraðili hefði ávallt greitt sína reikninga. Þá hafi sóknaraðili upplýst að málið snerist ekki um peninga þótt markmiðið hafi verið óskilgreint.

Varnaraðili lýsir því að hann hafni öllum ósamrýmanlegum staðhæfingum sóknaraðila. Mótmælir hann því jafnframt sem röngu sem greinir í málatilbúnaði sóknaraðila um að fyrsti reikningurinn hafi ekki verið boðaður og að hann hafi ekki lokið lestri málsgagna þegar komið hafi að þriðja fundi aðila. Jafnframt því sé það rangt að hann hafi ekki náð samhengi málsins og verið úrræðalítill. Sé staðreyndin sú að búið hafi verið að reyna margt af fyrri lögmönnum og því legið ljóst fyrir að verkefni varnaraðila væri að þrautleita að hinstu úrræðum. Auk þess sé það rangt að ráð varnaraðila hafi ekki verið í samræmi við lög og meðferð mála enda vinnslu málsins ekki lokið þegar réttarsambandi aðila var slitið. Þá sé það rangt að varnaraðili hafi ekki borið undir sóknaraðila áform um samtöl við kollega og að hann hafi búið til fleiri vinnustundir og fært tímaskýrslu með afturvirkum hætti.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila er á það bent að það hafi verið val sóknaraðila að reka nokkur mál gegn móður sinni og systkinum. Jafnframt því hafi það verið val sóknaraðila að leita til varnaraðila og að bera málið undir nefndina.

Varnaraðili bendir á að markmið sóknaraðila hafi verið óljóst og að óskað hafi verið eftir að varnaraðili leitaði að einhverri lausn. Séu óumdeildar staðreyndir um magn gagna grundvöllur þessa máls en ekki meint sundurleysi í vinnu varnaraðila eða endurteknar rangar, ósannaðar og fráleitar hugrenningar sóknaraðila um græðgissvip, græðgishugsanir eða græðgistilgang varnaraðila. Bendir varnaraðili á að málstaður sóknaraðila hafi verið erfiður en réttmætur, svo sem drög að minnisblaði hans beri með sér.

 

 

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá getur sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þarf annars vegar að fjalla um fjárhagslegt uppgjör vegna lögmannsstarfa varnaraðila og hins vegar um hvort varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan tók varnaraðili að sér í þágu sóknaraðila í febrúarmánuði 2022 að yfirfara gögn í dómsmálum sem varðað höfðu meðal annars lögræði móður sóknaraðila. Er ágreiningslaust að beiðni sóknaraðila laut að því að málið yrði skoðað út frá því hvort einhver frekari lagaleg úrræði varðandi aðstoð stæðu móður hennar til boða. Skyldi þannig ekki skoða málið með tilliti til mögulegra fjárhagslegra hagsmuna eða réttinda.

Fyrir liggur að fyrsti fundur aðila fór fram þann 17. febrúar 2022 og að varnaraðili hafði móttekið öll undirliggjandi gögn frá sóknaraðila, bæði á rafrænu formi og útprentað í tímaröð, þann 23. sama mánaðar. Munu tilgreind málsgögn hafa talið alls um 200 blaðsíður. Er einnig ágreiningslaust að varnaraðili upplýsti á fyrsta fundi að áskilið tímagjald hans vegna verksins væri að fjárhæð 30.000 krónur auk virðisaukaskatts.

Ekki var gerður skriflegur samningur á milli aðila um fyrrgreind störf sem varnaraðili tók að sér í þágu sóknaraðila. Verður heldur ekki ráðið af gögnum málsins að varnaraðili hafi gert sóknaraðila grein fyrir áætluðum verkkostnaði í upphafi réttarsambandsins eða eftir að hann hafði móttekið öll undirliggjandi gögn frá sóknaraðila. Þá getur tilvísun í tímaskýrslu varnaraðila frá 17. febrúar 2022 til þess að „stundum sé samið um magnafslátt í stærri málum eins og þetta stefni í“ og að á það hafi verið bent að þetta gæti „orðið töluverður viðbótarkostnaður miðað við magn gagna sem mæðgur sýna“, ekki breytt neinu í því efni enda hefur sóknaraðili andmælt þeirri tilvísun og málatilbúnaði varnaraðila um það efni auk þess sem hann er ekki studdur öðrum gögnum málsins. Verður þannig að mati nefndarinnar að leggja til grundvallar að það hafi staðið varnaraðila nær að tryggja sér sönnun um að hann hefði gert sóknaraðila viðhlítandi grein fyrir áætluðum verkkostnaði, í samræmi við áskilnað siðareglna lögmanna þar að lútandi.

Í fyrri úrskurðum hefur nefndin lagt til grundvallar að skylda lögmanns til að upplýsa skjólstæðing sinn um verkkostnað, sbr. framangreind ákvæði laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna, sé virk á meðan verkinu vindur fram. Af málsgögnum verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi fyrst verið upplýst um áfallnar vinnustundir og áskilda þóknun vegna starfa varnaraðila við lok réttarsambands aðila þann 31. mars 2022 og svo endanlega við móttöku á tímaskýrslu varnaraðila þann 4. apríl sama ár. Er að mati nefndarinnar eðlilegt að þegar sanngjörn þóknun er metin, sé tekið nokkur tillit til þess að varnaraðili hafi ekki gert sóknaraðila grein fyrir áætluðum verkkostnaði vegna þess afmarkaða verkefnis sem hann tók að sér. Er þá einnig til þess að líta að umfang þess lá fyrir frá upphafi starfans enda voru gögn málsins afhent rafrænt á fyrsta fundi aðila og svo útprentuð í tímaröð skömmu síðar.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og í samræmi við málatilbúnað aðila verður að taka til skoðunar þá tímaskýrslu sem sakarefni málsins tekur til og leggja mat á hvort hið áskilda endurgjald samkvæmt henni hafi verið hæfilegt að teknu tilliti til þess verkefnis sem sóknaraðili fól varnaraðila að sinna. Er þá einnig tekið tillit til þess reiknings sem varnaraðili gaf út þann 11. mars 2022 en sóknaraðili móttók fyrst á fundi þann 23. sama mánaðar en hann var að fjárhæð 250.000 krónur auk virðisaukaskatts. Mun sóknaraðili hafa greitt þann reikning þann 24. mars 2022, alls að fjárhæð 310.000 krónur með virðisaukaskatti.

Svo sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan varði varnaraðili samkvæmt tímaskýrslu alls 31.75 klukkustundum í vinnu í þágu sóknaraðila á tímabilinu frá 14. febrúar til 31. mars 2022. Lutu þeir vinnuliðir einkum að samskiptum og fundahöldum með sóknaraðila, lestri málsgagna, greiningu á valkostum og ritun draga að minnisblaði sem varnaraðili hefur lagt fyrir nefndina. Þá kom fram á tímaskýrslunni að tímagjald varnaraðila væri að fjárhæð 30.000 krónur auk virðisaukaskatts og að samkvæmt því væri heildarfjárhæð þess endurgjalds sem áskilið væri 1.181.100 krónur með virðisaukaskatti.

Svo sem fyrr greinir verður að leggja til grundvallar að varnaraðila hafi verið falið það afmarkaða verkefni að yfirfara málsgögn, sem töldu alls um 200 blaðsíður, með tilliti til þess hvort einhver frekari úrræði stæðu til boða í undirliggjandi máli. Verður ekki talið að þýðingu geti haft við mat á hæfilegu endurgjaldi í málinu að markmið með vinnunni hafi verið óskilgreint frá upphafi, svo sem varnaraðili hefur vísað til, enda bar varnaraðila í samræmi við góða lögmannshætti að tryggja að svo væri ekki áður en vinna í þágu sóknaraðila hófst.

Þrátt fyrir málatilbúnað varnaraðila um að hann hafi fundið til ábyrgðar „um að leysa hratt úr álitaefninu og halda kostnaði í lágmarki“ liggur fyrir að hann hafði ekki skilað af sér minniblaði til sóknaraðila þegar réttarsambandi aðila lauk þann 31. mars 2022 og færðar höfðu verið 31.75 klukkustundir í tímaskýrslu vegna málsins. Ber tímaskýrslan með sér að vinna við yfirferð málsgagna og ritun minnisblaðs hafi dreifst á átta daga á tímabilinu frá 1. – 25. mars 2022 án þess þó að sú vinna hafi verið kláruð. Verður jafnframt ráðið af tímaskýrslunni að varnaraðili hafi rætt möguleg álitaefni vegna skoðunarinnar við aðra ótilgreinda lögmenn í nokkur skipti jafnframt því að skoða íslensk og dönsk fræðirit og dóma. Hefur varnaraðili þó vísað til þess í málatilbúnaði sínum að erfitt sé að greina af tímaskráningu hve mikill tími af tilgreindum skráningum hafi farið í hreinan lestur og hve mikill í hugleiðingar, leit, skrif og aðra vinnu. Eins og málið liggur fyrir nefndinni verður varnaraðili að bera ábyrgð á þeim óskýrleika.

Líkt og áður greinir hefur varnaraðili lagt fyrir nefndina drög að því minnisblaði sem hann vann að í þágu sóknaraðila samkvæmt því verkefni sem hann tók að sér. Er minnisblaðið alls ein og hálf blaðsíða þar sem því er lýst hvað áður hafi verið reynt í undirliggjandi máli án árangurs, hvað eftir hafi átt að reyna auk þess sem gerð var grein fyrir valkostum varðandi framhald málsins og þeir taldir upp í þremur liðum. Með hliðsjón af efni þess og umfangi sem og umfangi þeirra málsgagna sem varnaraðila var sannanlega falið að yfirfara, verður að mati nefndarinnar að telja að ekki hafi komið fram fullnægjandi skýringar af hálfu varnaraðila fyrir þörf á þeim 31.75 klukkustundum sem hann varði í verkið á tímabilinu frá 14. febrúar til 31. mars 2022.

Samkvæmt fyrrgreindum sjónarmiðum og að teknu tilliti til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu er það mat nefndarinnar að hæfilegur fjöldi vinnustunda varnaraðila vegna yfirferðar málsgagna, ritunar minnisblaðs og tengdra þátta í þágu sóknaraðila vegna málsins hafi verið 14 klukkustundir. Þá hafi hæfilegur tímafjöldi vegna samskipta við sóknaraðila, þ.e. bæði vegna funda og annarra samskipta, verið 6 klukkustundir.

Svo sem fyrr greinir var tiltekið í tímaskýrslu varnaraðila að tímagjald hans væri 30.000 krónur auk virðisaukaskatts en ágreiningslaust er að það var einnig kynnt á fyrsta fundi aðila þann 17. febrúar 2022. Verður ekki talið að mati nefndarinnar að hið áskilda tímagjald varnaraðila hafi verið úr hófi.

Er það því niðurstaða nefndarinnar að áskilið endurgjald varnaraðila gagnvart sóknaraðila sæti lækkun. Telst hæfilegt endurgjald varnaraðila vegna þess afmarkaða máls sem hagsmunagæslan tók til í þágu sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998, að fjárhæð 744.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Taka þær forsendur mið af því að hæfilegur fjöldi vinnustunda varnaraðila vegna verksins hafi verið 20 klukkustundir á tímagjaldinu 30.000 krónur auk virðisaukaskatts í stað þeirra 31.75 klukkustunda sem varnaraðili hefur áskilið sér úr hendi sóknaraðila samkvæmt fyrirliggjandi tímaskýrslu. Samkvæmt því sætir áskilið endurgjald varnaraðila lækkun úr 1.181.100 krónum með virðisaukaskatti í 744.000 krónur með virðisaukaskatti. Felur sú niðurstaða í sér að ítrustu kröfum beggja aðila fyrir nefndinni er hafnað, að ekki kemur til endurgreiðslu vegna þess reiknings sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út á hendur sóknaraðila þann 11. mars 2022 að fjárhæð 310.000 krónur með virðisaukaskatti og að sú fjárhæð kemur til lækkunar á því hæfilega endurgjaldi sem úrskurður þessi kveður á um við reikningsgerð og endanlegt uppgjör á milli aðila.

Að mati nefndarinnar verður hins vegar ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að varnaraðili hafi í fyrrgreindum störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki skilyrði til beitingar agaviðurlaga í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, A, sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 744.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Endurgreiðslukröfu sóknaraðila er hafnað.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Hulda Katrín Stefánsdóttir

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson