Mál 16 2022

Mál 16/2022

Ár 2023, miðvikudaginn 26. apríl, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2022:

A lögmaður f.h. B ehf.

gegn

C ehf.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 16. maí 2022 erindi [A] lögmanns, f.h. sóknaraðila, [B] ehf. sem lýtur að endurgjaldi lögmanns fyrir vinnu í þágu varnaraðila, [C] ehf.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 17. maí 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum vegna málsins barst til nefndarinnar þann 20. október 2022 og var hún send sóknaraðila til athugasemda með bréfi þann 21. október 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 25. nóvember 2022 auk nýrra gagna og viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 9. janúar 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Málsatvik eru þau helst að þann 6. október 2021 leitaði varnaraðili til sóknaraðila og fól honum að gæta hagsmuna sinna vegna málaferla við tiltekið sveitarfélag samkvæmt umboði. Í tölvupósti 16. nóvember 2021 sagðist varnaraðili vilja kæra bæjarstjóra sveitarfélagsins fyrir útgáfu falsks reiknings og að málið verði gert opinbert í fjölmiðlum. Lagði sóknaraðili fram kæru fyrir hönd varnaraðila til Lögreglustjórans á Suðurlandi dags. 9. desember 2021 sem var vísað frá með tilkynningu dags. 30. desember 2021 sökum þess að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða sem ekki yrði leyst úr með sakamálarannsókn. Var upplýst um að frávísunina mætti kæra til ríkissaksóknara innan mánaðar frá dagsetningu bréfsins. Þann sama dag kærði starfsmaður sóknaraðila frávísunina til ríkissaksóknara, en fyrir mistök var kærunni fyrst beint til ríkislögreglustjóra en síðan til rétts aðila nokkrum mínútum síðar. Gaf sóknaraðili þá út reikning til handar varnaraðila dags. 30. desember 2021 að fjárhæð 333.684 krónur með virðisaukaskatti sem varnaraðili greiddi mánuði síðar. Þann 31. desember 2021 óskaði sóknaraðili eftir frekari rökstuðningi frá Lögreglunni á Suðurlandi vegna frávísunar málsins og veitti embættið hann með bréfi dags. 4. janúar 2022. Síðar náði varnaraðili sáttum við sveitarfélagið í einkaréttarlegum ágreiningi sem önnur lögmannsstofa rak fyrir hann fyrir dómstólum. Sendi varnaraðili póst á sóknaraðila og bað hann að fella niður kæruna til ríkissaksóknara þar sem það væri liður í sáttum hans við sveitarfélagið og gerði sóknaraðili það. Þann 1.2.2022 gaf síðan varnaraðili út annan reikning að fjárhæð 185.380 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum fyrir fimm klukkustunda vinnu en gaf samdægurs út kreditreikning að fjárhæð 18.538 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Varnaraðili felldi sig ekki við þann síðari reikning og krafðist nánari skýringar og gerði ljóst að hann hygðist ekki greiða hann, jafnvel þótt sóknaraðili gæfi afslátt af verðinu. Leitaði sóknaraðili í framhaldinu með málið til úrskurðarnefndarinnar.

Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila fyrir nefndinni með þeim hætti að þess sé krafist að nefndin staðfesti rétt sóknaraðila til endurgjalds og fjárhæð þess, sbr. 26. gr. 77/1998 um lögmenn. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað vegna vinnu við mál þetta fyrir nefndinni samkvæmt framlagðri tímaskýrslu.

Í kvörtun sóknaraðila til nefndarinnar lýsir sóknaraðili því að varnaraðili hafi leitað til sín vegna deilu hans við sveitarfélag. Að varnaraðili hafi reynt um langa hríð að leysa málið sjálfur en án árangurs og því hafi varnaraðili falið sóknaraðila að vinna tiltekin anga málsins sem spratt upp vegna málaferla varnaraðila við sveitarfélagið. Hins vegar hafi sóknaraðili ekki komið að þeim hluta deilna varnaraðila við sveitarfélagið sem lutu að innheimtuaðgerðum varnaraðila á hendur sveitarfélaginu.

Kveður sóknaraðili að í stuttu máli hafi varnaraðili talið að bæjarstjóri hefði fyrir hönd sveitarfélagsins skrifað og gefið út tilhæfulausa reikninga á hendur varnaraðila í því skyni að nota þessa tilhæfulausu reikninga til að skuldajafna á móti kröfu varnaraðila á hendur sveitarfélaginu og þannig koma sveitarfélaginu undan greiðsluskyldu.

Að sögn sóknaraðila fól varnaraðili honum að skoða málið og kæra háttsemina til lögreglu. Kveður sóknaraðili sig og fulltrúa sinn hafa skoðað málið ofan í kjölinn og ákveðið að rétt væri að kæra til lögreglu þar sem að ofangreind kenning varnaraðila um tilgang hinna tilhæfulausu reikninga væri á rökum reist og fengi stoð í gögnum málsins.

Lýsir sóknaraðili því að í upphafi verks hafi þó orðið misskilningur milli varnaraðila og sóknaraðila/fulltrúa hans um staðreyndir og atvik máls sem rekja megi til tölvupósts sem varnaraðili sendi þar sem hann lýsti málinu í grófum dráttum. Þar hafi varnaraðili notað líkingamál til að lýsa atvikum í stað þess að útskýra hverjar staðreyndir málsins væru í raun. Fulltrúi sóknaraðila hafi þá hringt í varnaraðila til að fá nánari útskýringar á ýmsu er varðaði mál hans en varnaraðili hafi að sögn sóknaraðila, ekki nýtt það tilefni til að greina rétt frá atvikum málsins, heldur haldið áfram að notast við samlíkingu og með því skapað misskilning.

Þetta telur sóknaraðili ekki hafa komið að sök og vinnan haldið áfram, hvert skref hennar í samráði við og með samþykki varnaraðila sem hafi verið með ítarlegar séróskir um ýmislegt tengt vinnunni. Lýsir sóknaraðili samskiptum aðila sem afar góðum og þau hafi farið fram bæði í gegnum tölvupóst og síma. Varnaraðili hringdi að sögn sóknaraðila, í fulltrúa sóknaraðila og hafði greiðan aðgang að honum og ekki hafi verið rukkað sérstaklega fyrir fjölda símtala.  Kveður sóknaraðili varnaraðila hafa verið hæstánægðan með útkomu vinnunnar og greitt fyrsta reikninginn sem gefinn var út án athugasemda. Vegna þess reiknings tjáði fulltrúi sóknaraðila það að sjálfsagt væri að senda honum tímaskýrslu með reikningi eða einhverskonar sundurliðun. Þá hafi sóknaraðili svarað því í tölvupósti til fulltrúa sóknaraðila síðar sama dag að ekki væri þörf á því og því fylgt eftirfarandi orð: „P.S. þú þarft ekki að senda mér neina sundurliðunina sem þú talaðir um, treysti ykkur 100%.“.

Lýsir sóknaraðili því að þegar komið hafi að innheimtu síðari reiknings hafi varnaraðili gert athugasemdir við upphæðina, aðallega vegna tíma sem skráðir voru vegna vinnu sem samkomulag var um að ekki yrði rukkað fyrir, en sú vinna fólst að sögn sóknaraðila í því að senda tölvupóst til opinberrar stofnunar. Var því gefinn út kreditreikningur þar sem tekið var tillit til athugasemda varnaraðila. Kveður sóknaraðili varnaraðila þó ekki hafa sætt sig við þá niðurstöðu og gert athugasemdir við einstaka liði tímaskýrslunnar. Þá hafi varnaraðili ítrekað neitað að greiða útgefinn reikning og því sé sóknaraðili nauðbeygður til að leita atbeina úrskurðarnefndar LMFÍ. 

Með kvörtuninni til nefndarinnar fylgdu þrír reikningar sóknaraðila til handa varnaraðila, þar af einn kreditreikningur, auk tímaskýrslu. Fyrsti reikningurinn nr. 1713 dags. 30.12.2021 hljóðar upp á 333.684 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Annar reikningurinn nr. 1794 dags. 1.2.2022 hljóðar upp á 185.380 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Þriðji reikningurinn er kreditreikningur nr. 1797 dags. 1.2.2022 upp á 18.538 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Í viðbótarathugasemdum sínum til nefndarinnar áréttar sóknaraðili ýmis atriði. Að reikningurinn sem gefinn var út þann 1. febrúar 2022 vegna 5 klst. vinnu í þágu varnaraðila og síðar lagfærður með kreditreikningi útgefnum sama dag, hafi ekki verið bakreikningur eins og haldið sé fram í greinargerð varnaraðila. Um hafi verið að ræða uppgjör vegna vinnu í þágu varnaraðila sem unnin var á tímabilinu 3.1.2022 til og með 21.1.2022 eins og sjáist í framlagðri tímaskýrslu.

Kveður sóknaraðili rétt að varnaraðili hafði áður greitt reikning útgefinn 31.12.2021 en hann hafi verið tilkominn vegna vinnu í þágu varnaraðila sem unnin var í desember 2021. Í því hafi ekki falist fullnaðaruppgjör á milli aðila, heldur hlutauppgjör. Að varnaraðili hafi verið rukkaður fyrir vinnu sem hafði þá þegar verið unnin að hans beiðni og að aðilar hafi aldrei samið um að rukkað yrði fyrir alla þjónustu í þágu varnaraðila eftir að máli hans væri lokið. Vísar sóknaraðili til þess að ekkert í samskiptum aðila hafi gefi það til kynna. Telur sóknaraðili að varnaraðila hafi mátt vera ljóst að greiðsla hans á reikningi útgefnum í lok árs 2021 væri ekki lokagreiðsla, þar sem að á þeim tíma var málið hans ennþá yfirstandandi og ekki var útséð á þeim tímapunkti hvernig og hvenær því lyki. Kveður sóknaraðili það til allrar hamingju fyrir varnaraðila að sættir hafi náðst við sveitarfélagið, sem voru varnaraðila afar hagstæðar, meðal annars vegna vinnu sóknaraðila í hans þágu og hluti af því samkomulagi hafi verið að málið, sem sóknaraðili sá um fyrir hönd varnaraðila var fellt niður hjá ríkissaksóknara.

Vísar sóknaraðili til þess að í greinargerð varnaraðila sé bent á samskipti þeirra frá 4. febrúar 2022 og því haldið fram að beiðni varnaraðila um skýringar á skráðum tímum hafi verið hafnað. Kveður sóknaraðili það alrangt líkt og sjá megi á framlögðum samskiptum aðila. Hið rétta sé að sóknaraðili hafi þegar sent varnaraðila tímaskýrslu þar sem öllum tímaskráningum vegna vinnu í hans þágu var lýst í smáatriðum, varnaraðili hafi hins vegar kallað eftir enn nánari sundurliðun á þessum lýsingum og vildi að því er sóknaraðila virtist, fá að vita hvernig hvert einasta handtak var unnið. Þeirri kröfu hafnaði sóknaraðili, enda var hún að hans mati ósanngjörn. Bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi verið annað hvort aðili að, eða hafður í cc. í öllum tölvupóstsamskiptum sem áttu sér stað vegna máls hans. Í þeim tilvikum sem hann hafi ekki verið aðili að samskiptum með tölvupóstssamskiptum, þá hafi þeir tölvupóstar verið áframsendir á hann svo hann væri meðvitaður um stöðu máls hans á þeim tímapunkti. Þá hafi varnaraðili eðli málsins samkvæmt verið aðili að öllum samskiptum sem áttu sér stað við hann í gegnum síma. Telur sóknaraðili því kröfu varnaraðila hafa snúist aðallega um að fá einhvers konar samantekt á upplýsingum sem hann hafði þá þegar í tölvupósthólfi sínu eða innhólfi smáskilaboða í síma sínum.

Kveður sóknaraðili það ekki rétt að varnaraðili hafi skrifað kæruna til lögreglunnar á Suðurlandi sjálfur, enda ef sú hefði verið raunin, hefði hann varla samþykkt að greiða fyrir þá þjónustu. Staðreyndin er að sögn sóknaraðila sú að varnaraðili gerði engar athugasemdir við vinnu sóknaraðila fyrr en hann var krafinn um greiðslu síðari reiknings, en þá hafi ritun kærunnar verið löngu búin og búið að rukka og greiða fyrir þá vinnu.

Vísar sóknaraðili til þess að þegar niðurstaða lögreglunnar á Suðurlandi, að fella mál varnaraðila niður, var kærð, hafi kæra þess efnis fyrir mistök verið send til ríkislögreglustjóra af fulltrúa varnaraðila, en sá hafi slegið inn rangt netfang. Þessi mistök hafi verið leiðrétt 11 mínútum síðar með því að fulltrúinn sendi kæruna á rétt netfang. Nokkru síðar, 18. janúar, hafi svo borist formlegt svar frá ríkislögreglustjóra, um að kæran hefði verið áframsend á rétt embætti. Það hafi því ekki verið rétt að kærunni hafi verið vísað frá embætti ríkislögreglustjóra og leggur sóknaraðili fram ný skjöl sem hann vísar til í þeim efnum eða að sú staðreynd að kæran hafi fyrst verið send á tölvupóstfang embætti ríkislögreglustjóra hafi haft einhver áhrif á mál varnaraðila.

III.

Skilja verður málatilbúnað varnaraðila sem svo að hann krefjist þess að kvörtun sóknaraðila verði vísað frá nefndinni. Verði ekki fallist á frávísun mótmælir hann kröfu sóknaraðila um frekara endurgjald og að krefst þess jafnframt að sóknaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum eftir 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

Vísar varnaraðili til þess að téður reikningur sem sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn á sé bakreikningur, útgefinn 1.2.2021 fyrir 5 klst. vinnu en að áður hafi sóknaraðili verið búinn að útskulda 9 klst. á umrætt mál og sá reikningur verið greiddur á umsömdum degi þann 31. janúar 2021.

Kveður varnaraðili sig hafa óskað eftir nánari skýringum á bakreikningnum enda talið sig vera búinn að gera upp málið við sóknaraðila. Hann hafi óskað eftir tímaskýrslu frá sóknaraðila og eftir skoðun hennar, hafnað strax útgefnum bakreikningi og ákveðið að fara yfir tímaskýrslu lögmannsins frá upphafi málsins.

Í framhaldinu hafi varnaraðili gert athugasemdir og óskað eftir skýringum sem hann taldi sig eiga fullan rétt á en því hafi verið hafnað af varnaraðila nema gegn tímagjald með þeim orðum: „Ef þú vilt að við verjum endalausum tíma í að rita upp skýrslu um allar okkar hreyfingar í þína þágu, þá vill ég fá það á hreint fyrst hvort það standi til hjá þér að greiða fyrir það? Sé svo ekki, er ljóst að ég mun ekki taka þetta að mér í sjálfboðavinnu.“ og leggur varnaraðili fram tölvupóst þar sem þau orð koma fram.

Byggir varnaraðili á því að hann hafi að mestu leyti sjálfur skrifað textann í þeirri kæru sem málið snýst um. Þar sem að sóknaraðili hafi farið með staðreyndavillur í kærunni hafi varnaraðili að sinni sögn þurft að leiðrétta og endurskrifa textann. Þá hafi sóknaraðili að sögn varnaraðila, sent kæruna á rangt embætti þar sem henni hafi verið vísað frá og honum bent á að hann gæti kært niðurstöðuna til ríkissaksóknara sbr. 6. mgr. 52. gr. sakamálalaga nr. 88/2008.

Er það mat varnaraðila að lögmaður sóknaraðila hafi átt að sýna meiri fagmennsku og vita hvernig kærur væru meðhöndlaðar. Telur varnaraðili að rökstuðningur Lögreglustjórans á Suðurlandi undirstriki enn betur vankunnáttu lögmannsins.

Telur varnaraðili að umræddur bakreikningur hafi verið gefinn út strax í kjölfarið á því að lögmaður sóknaraðila fékk afrit af sátt sem gerð var milli varnaraðila og sveitarfélagsins og hversu háa upphæð sveitarfélagið greiddi varnaraðila, því í kjölfarið birtist krafa frá sóknaraðila í heimabanka varnaraðila.  Áréttar varnaraðili að það hafi verið önnur lögmannsstofa sem vann að umræddri sátt við sveitarfélagið.

Byggir varnaraðili á því að útskuldun á tímafjölda lögmanns sóknaraðila sé mjög frjálsleg og alls ekki í lagi og því hafi hann mótmælt þeim. Vísar hann í dæmaskyni til þess að skráðir hafi verið 0,25 stundir fyrir lestur á tölvupósti þar sem varnaraðili þakkaði sóknaraðila fyrir þegar hann taldi vinnu vera lokið. Að skráðar séu 0,5 stundir fyrir að útbúa nýtt umboð þar sem sóknaraðili hafi sagst hafa glatað fyrra umboðinu. Þá hafi sóknaraðili að sögn varnaraðila, státað sig af mjög öflugu tengslaneti við fjölmiðla landsins og boðist til að koma málinu til vina sinna hjá mbl.is og Fréttablaðinu og á þau samskipti hafi hann skráð 3,25 klst.

Kveður varnaraðili sig vona að Lögmannafélagið sjái í gegnum það sem lögmaðurinn sé að gera í þessu ósætti með bakreikninginn og vísi þessu máli frá og tjái sig um hans vinnubrögð. Kveðst varnaraðili ekki trúa því að hann sé einn á báti með að lenda í umræddum lögmanni því mjög líklega sé um venju að ræða hjá viðkomandi fremur en undantekningu. Kveður varnaraðili að lögmenn líkt og sá sem hér eigi í hlut gefi lögmannsstéttinni slæmt orð.

Að endingu óskar varnaraðili eftir því að Lögmannafélagið ávíti lögmanninum og bendi honum á rétta viðskiptahætti og það siðferði sem eigi að vera í stéttinni en geti hann ekki orðið við því verði honum vísað úr Lögmannafélaginu.

Í viðbótarathugasemdum vísar varnaraðili til greinargerðar sinnar í málinu sem hann hafi rökstutt vel með fylgigögnum. Þó telur hann sig tilknúinn að leiðréttar rangfærslur í viðbótarathugasemdum sóknaraðila.

Í fyrsta lagi vísar varnaraðili til þess að ef gögn málsins séu skoðuð megi sjá að lögmaður sóknaraðila gaf út bakreikning í beinu framhaldi af því að vera upplýstur um niðurstöðu dómsmáls og fengið í hendurnar afrit af sátt í málinu ásamt upplýsingum um fjárhæðir sem sveitarfélagið greiddi varnaraðila. Kveður varnaraðili að sóknaraðili haldi því ranglega fram að hann hafi átt einhvern þátt í þeirri sátt sem náðist í umræddu dómsmáli þegar hið rétta sé að önnur lögmannsstofa vann það mál án nokkurrar aðkomu sóknaraðila.

Í öðru lagi vísar varnaraðili til þess að lögmaður sóknaraðila telji beiðni varnaraðila um að fá skýringar á tímaskýrslu afar ósanngjarna og að það sé varnaraðila að geta í eyðurnar sem reynist þrautin þyngri ef ekkert finnist um þau samskipti. Vísar varnaraðili til gagna málsins sem hann kveður sýna að sóknaraðili hafi ekki lýst útgefnum tímum í smáatriðum líkt og hann haldi fram. Þá fari sóknaraðili með rangt mál þar sem hann fullyrðir að varnaraðili hafi sagt í kærunni til LMFÍ að varnaraðili hafi skrifað kæruna sjálfur, hið rétta sé að varnaraðili hafi sagt sig hafa að mestu leyti skrifað textann sem fram kom í kærunni.

Í þriðja lagi vísar varnaraðili til þeirra orða sóknaraðila að það sé ekki rétt að kærunni hafi verið vísað frá embætti ríkislögreglustjóra, en þar rugli sóknaraðili saman ríkislögreglustjóra og Lögreglustjóranum á Suðurlandi, en það hafi verið sá síðarnefndi sem vísaði kærunni frá þar sem slík kæra ætti ekki að berast til þess embættis og að lögmanni sóknaraðila hafi bent á þau faglegu mistök hans í rökstuðningi frá Lögreglustjóranum á Suðurlandi og þar hafi einnig þótt ástæða til að leiðbeina lögmanninum um rétt ferli slíkrar kæru og hvert ætti að senda hana en nánar um það vísar varnaraðili til gagna málsins. Vegna tilvísunar sóknaraðila í mistök fulltrúa síns og að það hafi verið sá sem hafi sent kæruna á rangt netfang og þá þörf sóknaraðila að taka sérstaklega fram að fulltrúi hans hafi verið sá sem gerði téð mistök sem hafi síðan verið áframsent á rétt netfang, þ.e. á ríkissaksóknara, kveður varnaraðili rétt að taka fram að varnaraðili hafi ekki fyrr heyrt af þeirri skýringu og netfanga ruglingi en telji það ekki koma málinu við þar sem aldrei hafi verið haldið fram af hálfu varnaraðila að málinu hafi verið vísað frá embætti ríkislögreglustjóra né að lögmaðurinn hafi óvart sent kæruna á rangt netfang.

Niðurstaða

Af hálfu varnaraðila var þess krafist að máli þessu yrði vísað frá úrskurðarnefndinni. Af málatilbúnaði varnaraðila þykir helst mega skilja frávísunarkröfuna sem svo að reikningur sóknaraðila dags. 1.2.2022 sé tilhæfulaus og óréttmætur.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 vísar nefndin erindum frá ef þau berast síðar en ári eftir að kostur var að koma því á framfæri við nefndina. Er það áréttað í 6. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna. Ekki var liðið lengra en eitt ár frá því að reikningur var útgefinn þar til erindið var borið undir nefndina og er því ekki skilyrði til frávísunar málsins samkvæmt því.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna vísar nefndin frá máli þegar í upphafi ef nefndarmenn eru einhuga um að ljúka því þá eða að það sé augljóslega ekki á rökum reist. Nefndin taldi ekki þegar í upphafi skilyrði vera fyrir hendi til frávísunar samkvæmt ákvæðinu heldur var aðilum þess í stað gefinn kostur á að skila inn skriflegri umsögn sbr. 2. mgr. 8. gr. reglnanna.

Þá vísar nefndin frá máli ef í því eru sönnunaratriði sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins eða mál er að öðru leyti ekki nægilega upplýst, sbr. 2. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar. Jafnframt vísar nefndin frá máli ef réttarágreiningur fellur ekki undir valdsvið nefndarinnar sbr. 3. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn getur lögmaður, umbjóðandi hans eða þeir báðir lagt mál fyrir úrskurðarnefnd lögmanna ef ágreiningur er uppi um rétt lögmanns til endurgjalds fyrir störf sín í þágu umbjóðandans eða fjárhæð þess.

Eins og málið liggur fyrir nefndinni þykir ekki vera í því sönnunaratriði sem örðugt er að leysa úr undir rekstri málsins eða það ekki nægilega upplýst. Þá er ljóst að ágreiningur um rétt lögmanns til endurgjalds frá umbjóðanda sínum eða fjárhæð þess heyrir undir valdsvið nefndarinnar að leysa úr. Að mati nefndarinnar verða ekki talin skilyrði fyrir hendi samkvæmt ofangreindum frávísunargrundvöllum eða öðrum, til að vísa frá nefndinni erindi sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu er ekki tilefni til að fallast á síðari frávísunarkröfu varnaraðila.

Svo sem fyrr greinir er hægt að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina þarf að fjalla um fjárhagslegt uppgjör vegna lögmannsstarfa sóknaraðila fyrir störf hans í þágu varnaraðila

Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir þeirri hagsmunagæslu sem sóknaraðili sinnti í þágu varnaraðila á tímabili frá október 2021 til janúarloka 2022, en mesta vinnan fór fram í desember 2021. Svo sem þar greinir laut hagsmunagæslan að því að leggja fram kæru til lögreglu á hendur sveitarstjóra þess sveitarfélags sem varnaraðili átti í deilum við fyrir dómstólum og jafnframt óskaði varnaraðili þess að lögreglukærumálinu yrði komið í fjölmiðla. Að beiðni varnaraðila ritaði sóknaraðili kæru til Lögreglustjórans á Suðurlandi og síðar var frávísun embættisins á málinu kærð til ríkissaksóknara auk þess sem óskað var eftir nánari rökstuðningi fyrir frávísuninni frá Lögreglustjóranum á Suðurlandi. Af gögnum málsins að dæma áttu aðilar í miklum tölvupóstsamskiptum vegna málsins meðan á hagsmunagæslu sóknaraðila fyrir varnaraðila stóð og að sögn sóknaraðila einnig símleiðis. Þá beitti sóknaraðili sér fyrir því að koma málinu í fjölmiðla að ósk varnaraðila og síðar felldi hann niður kæru frávísunarinnar til ríkislögreglustjóra þegar varnaraðili óskaði þess.

Á meðan réttarsamband aðila varði hélt sóknaraðili tímaskýrslu og færði þar til bókar þá verkþætti sem unnið var að hverju sinni í þágu varnaraðila. Samkvæmt henni varði lögmaður alls 14 klst. í málið á tímabilinu frá 1.12.2021 til 21.1.2022.  Tímagjald samkvæmt gjaldskrá sóknaraðila, sem vísað var til í umboði sem sóknaraðili undirritaði þann 6. október 2021, var að fjárhæð 29.900 krónur auk virðisaukaskatts. Samkvæmt vinnuskýrslunni var heildarfjárhæð endurgjalds vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila á ofangreindu tímabili að fjárhæð 519.064 krónur með virðisaukaskatti. Greiddi varnaraðili reikning sóknaraðila dags. 30.12.2021 vegna 9 klst. af vinnu að fjárhæð 333.684 krónur með virðisaukaskatti en neitaði síðar að greiða reikning sóknaraðila að fjárhæð 185.380 krónur dags. 1.2.2022 fyrir 5 klst. af vinnu vegna tímabilsins 30.12.2021 til 21.1.2022 en samdægurs gaf sóknaraðili út kreditreikning nr. 1797 dags. 1.2.2022 vegna 0,5 klst. af útseldri vinnu að fjárhæð 18.538 krónur. Í kjölfar síðari reiknings sóknaraðila fór varnaraðili að rýna nánar í heildartímaskráningar málsins, krefjast nánari skýringar á ýmsum verkþáttum og gera athugasemdir.

Samkvæmt tímaskýrslu sóknaraðila frá tímabilinu 1.12.2021 til 28.12.2021 fóru 3 klst. í yfirferð gagna, ritun kæru og samskipti við varnaraðila. Þá var fóru 2,5 klst. í yfirferð kærunnar, lagfæringar eftir athugasemdir varnaraðila, frágang og að senda hana út. Fóru samanlagt 3,5 klst. í samskipti vegna málsins, þar með talið samskipti sóknaraðila við fjölmiðlafólk eins og varnaraðili hafði sérstaklega óskað eftir. Samtals nam sú vinna 9 klst. sem voru undirliggjandi fyrri reikningi málsins.

Á tímabilinu 30.12.2021 til 21.1.2022 fóru 3,5 klst. í samskipti við lögreglu, við varnaraðila, í að kæra frávísun Lögreglunnar á Suðurlandi til ríkissaksóknara, o.fl. Þá fór 0,5 klst. í að útbúa og skjala nýtt umboð auk þess að eiga samskipti við varnaraðila. Fóru 0,25 klst. í samskipti við varnaraðila vegna nánari rökstuðnings Lögreglunnar á Suðurlandi, 0,25 klst. í frekari tölvupóstsamskipti við varnaraðila og 0,5 klst. í afturköllun kærunnar til ríkislögreglustjóra og samskipti.

Ekki var ágreiningur um það milli aðila að varnaraðili hafi greitt reikning sóknaraðila síðan 30.12.2021 án athugasemda og sérstaklega tekið fram á þeim tíma að hann teldi ekki þörf á að fá tímaskýrslu. Það var ekki fyrr en varnaraðila barst síðari reikningur sóknaraðila sem varnaraðili fór að rýna í heildartímaskráningar sóknaraðila og koma með athugasemdir. Samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað. Að mati nefndarinnar er sanngjarnt að gera þá kröfu að skjólstæðingar kynni sér efni tímaskýrslna að baki reikningum hverju sinni og geri við þær athugasemdir ef einhverjar eru. Með því að afþakka sérstaklega boð sóknaraðila um að fá senda sundurliðaða tímaskýrslu vegna vinnunnar að baki fyrri reikningi sínum og greiða reikninginn athugasemdalaust mátti sóknaraðili líta svo á að varnaraðili hefði samþykkt reikninginn og vinnuna þar að baki. Frá þeim tíma lagði sóknaraðili í vinnu við að kæra ákvörðun Lögreglustjórans á Suðurlandi til ríkissaksóknara, í samskipti aðila, að óska nánari rökstuðnings frá Lögreglunni á Suðurlandi fyrir ákvörðun sinni í málinu, í að reyna vekja athygli fjölmiðla á málinu að beiðni varnaraðila og loks að fella málið niður. Af gögnum málsins verður ráðið að sú vinna hafi verið unnin samkvæmt fyrirmælum varnaraðila og með hans vitneskju.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Með vísan til þeirra forsendna sem raktar voru að framan verður ekki talið að skilyrði séu til að lækka áskilda þóknun vegna ætlaðra annmarka á störfum og hagsmunagæslu sóknaraðila í þágu varnaraðila eða að tímafjöldinn sé óhæfilegur.

Að mati nefndarinnar verður ekki séð að tímafjöldi sá sem tilgreindur er í vinnuskýrslu sóknaraðila og lá til grundvallar hinum umþrættu útgefnu reikningum á hendur varnaraðilar hafi verið umfram það sem vænta mátti miðað við þá vinnu og verkþætti sem sóknaraðili sinnti í þágu varnaraðila. Telur nefndin þó ekki hafa verið grundvöll fyrir því að útselja 0,5 klst. sem skráðar eru í tímaskráningu málsins, vegna vinnu við að útbúa og skjala nýtt umboð, sem mun hafa verið þörf á vegna þess að sóknaraðili glataði fyrra umboði málsins. Hins vegar hefur sóknaraðili þegar kreditfært sem nemur 0,5 klst. af vinnu vegna málsins.

Að mati nefndarinnar verður heldur ekki talið á áskilið tímagjald sóknaraðila hafi verið úr hófi, en það var í samræmi við gjaldskrá sem varnaraðili samþykkti með undirritun sinni á umboð þann 6. október 2021 líkt og áður greinir.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og málsgögnum að öðru leyti er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun vegna starfa sóknaraðila í þágu varnaraðila. Felur sú niðurstaða í sér að sú þóknun sem sóknaraðili áskildi sér vegna starfa í þágu varnaraðila hafi verið hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu varnaraðila um að áskilið endurgjald varnaraðila sæti lækkun.

Það athugast að varnaraðili hefur borið því við í málinu að störf sóknaraðila hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Í stað þess að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd á þeim grundvelli, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, kaus varnaraðili að lýsa hinum ætluðu brotum sóknaraðila að þessu leyti í greinargerð með andsvörum og viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild og kemur málatilbúnaður varnaraðila að því leyti því ekki til úrlausnar í málinu.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðilans, [C] ehf., um að málinu verði vísað frá nefndinni er hafnað.

Áskilið endurgjald sóknaraðila, [A] lögmanns f.h. [B] ehf., vegna starfa í þágu varnaraðila, [C] ehf., felur í sér hæfilegt endurgjald.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson