Mál 2 2022

Mál 2/2022

Ár 2022, fimmtudaginn 23. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. janúar 2022 erindi sóknaraðila, A, sem lýtur að kvörtun í garð varnaraðila, B lögmanns, vegna ætlaðrar háttsemi í störfum sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 17. janúar 2022 og barst hún þann 11. febrúar sama ár. Var sóknaraðila send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 21. febrúar 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins  bárust til nefndarinnar þann 14. mars 2022 og var varnaraðili upplýstur um það efni með bréfi næsta dag. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu málsaðila eftir þann tíma og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort háttsemi varnaraðila í störfum fyrir C vegna málefna sóknaraðila hafi brotið í bága við lög eða siðareglur lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að sóknaraðili hafi starfað hjá C. en látið þar af störfum í lok nóvembermánaðar 2020. Á meðal málsgagna er að finna samkomulag sem gert var um þau starfslok, dags. 30. nóvember 2020. Var samkomulagið undirritað á fundi þennan sama dag en sóknaraðili mun hafa verið upplýst þar um ætluð brot hennar í starfi og að af þeim sökum væri til skoðunar að hefja formlegt áminningarferli í skilningi kjarasamnings en að einnig væri hægt að ljúka málinu með gerð starfslokasamnings, svo sem gert var.

Í framhaldi af því mun hafa risið ágreiningur á milli sóknaraðila og C um lögmæti starfslokanna, þ.e. hvort um ólögmæta uppsögn hefði verið að ræða. Beindi lögmaður sóknaraðila erindi þar að lútandi til C þann 13. janúar 2021 en því erindi var svarað af hálfu félagsins þann 22. sama mánaðar þar sem sjónarmiðum sóknaraðila var hafnað.

Fyrir liggur að sóknaraðili beindi stjórnsýslukæru til D þann 9. febrúar 2021 þar sem kærð var ákvörðun um starfslok hennar hjá C Ágreiningslaust er að varnaraðili annaðist hagsmunagæslu í þágu C vegna meðferðar þess máls hjá ráðuneytinu, en um það efni liggur meðal annars fyrir erindi varnaraðila vegna málsins frá 6. apríl 2021.

Jafnframt því liggur fyrir að sóknaraðili beindi ágreiningi vegna sömu starfsloka til kærunefndar jafnréttismála, sbr. málið nr. x/20xx. Mun varnaraðili einnig hafa farið með það mál fyrir hönd C vegna málatilbúnaðar og krafna sóknaraðila. Er á meðal málsgagna um það efni að finna bréf sem kærunefndin sendi til varnaraðila vegna málsins þann 28. júní 2021 þar sem meðal annars var óskað eftir að gerð yrði nánari grein fyrir ástæðum þess að ákveðið hefði verið að boða til fundarins þann 30. nóvember 2020 þar sem starfslokasamningur var gerður.

Fyrir liggur einnig að sóknaraðili beindi kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna ætlaðra annmarka á stjórnsýslu C. Svaraði varnaraðili þeirri kvörtun með erindi, dags. 6. apríl 2021, en í samræmi við beiðni umboðsmanns var þar meðal annars gerð grein fyrir upplýsingum um það hvort og þá með hvaða hætti talið var að sóknaraðili hefði brotið af sér í starfi hjá C. Voru jafnframt veittar viðbótarupplýsingar og skýringar um þetta efni í erindi varnaraðila fyrir hönd C til umboðsmanns, dags. 17. maí 2021.

Ágreiningslaust er að í fyrrgreindum málum lagði varnaraðili fram fyrir hönd umbjóðanda síns afrit af samskiptum sem sóknaraðili hafði átt við samstarfsmann sinn fyrir starfslok og umbjóðandi varnaraðila hafði talið að í gætu falist brot sóknaraðila á starfsskyldum hennar.

Af málsgögnum verður ráðið að sóknaraðili hafi einnig beint kvörtun til Persónuverndar, dags. 14. febrúar 2021, yfir því að starfsmenn C. hafi miðlað, unnið með og notað upplýsingar úr einkasamtölum og skilaboðum milli hennar og annars nánar tilgreinds starfsmanns í ólögmætum tilgangi, þ.e. til þess að rökstyðja uppsögn á ráðningarsambandi sóknaraðila við fyrirtækið. Liggur fyrir að Persónuvernd sendi erindi til C vegna þeirrar kvörtunar þann 5. júlí 2021. Ekkert í málsgögnum bendir hins vegar til þess að varnaraðili hafi komið að hagsmunagæslu í þágu C vegna þeirrar kvörtunar. Hefur varnaraðili jafnframt upplýst fyrir nefndinni að hann hafi ekki haft aðkomu að því máli.

Samkvæmt málatilbúnaði aðila mun sóknaraðili hafa höfðað mál á hendur C vegna hinnar ætluðu ólögmætu uppsagnar og fer varnaraðili með það mál fyrir dómi fyrir hönd stefnda. Þar sem kvörtun í máli þessu tekur ekki til atvika vegna þess málareksturs þykir ekki ástæða til að gera nánari grein fyrir því efni.

Líkt og áður greinir var máli þessu beint til nefndarinnar með erindi sóknaraðila sem móttekið var þann 12. janúar 2022.

II.

Að mati nefndarinnar verður að leggja þann skilning í málatilbúnað sóknaraðila að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Sóknaraðili vísar til þess að kvörtun sé beint að varnaraðila vegna háttsemi hans sem kann að hafa strítt gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Um háttsemina vísar sóknaraðili nánar tiltekið til þess að varnaraðili hafi í skrifum sínum fyrir C, sem sé opinbert fyrirtæki, brotið gegn stjórnsýslulögum og persónuverndarlögum. Jafnframt því byggir sóknaraðili á að varnaraðili hafi niðurlægt sig, beitt sig óréttlæti sem manneskju og konu auk þess að fara fram með meiðandi rangfærslur án gildrar ástæðu eða vitnisburðar. Hafi varnaraðili þannig tekið allt úr samhengi og sakað sóknaraðila um hluti sem ekki hafi verið sannaðir eða rannsakaðir af stjórnendum umbjóðanda hans. Í stað þess að leiðbeina stjórnendunum og vera hrokalaus hafi varnaraðili stutt þá og tekið þátt í þessum röngu forsendum. Hafi sú háttsemi ekki samræmst lögum nr. 77/1998. Þá hafi varnaraðili tapað öllum málum sem um hafi verið að ræða, svo sem fyrir kærunefnd jafnréttismála, sbr. mál nr. x/20xx, umboðsmanni Alþingis og D, sbr. mál nr. x. Bendir sóknaraðili jafnframt á að undirliggjandi mál sé nú til meðferðar hjá héraðsdómi.

Sóknaraðili byggir á að varnaraðili hafi ekki viðhaft fagleg vinnubrögð. Hafi yfirlýsingar varnaraðili þannig hvorki sýnt varkárni né virðingu. Þvert á móti hafi sóknaraðila verið mismunað eftir kyni, aldri og uppruna. Sé um alvarleg mál að ræða sem varði mannréttindabrot sem og viðurlög, einkum í ljósi þess að sóknaraðili hafi haft vitni/trúnaðarmann sem staðfest hafi geðþótta stjórnenda umbjóðanda varnaraðila í garð sóknaraðila og að hún hefði ekki gerst brotleg í starfi.

Sóknaraðili vísar ennfremur til þess að allar yfirlýsingar varnaraðila til yfirvalda séu óskiljanlegar. Hafi varnaraðili þannig endurtekið allt mörgum sinnum án þess þó að svara spurningum stjórnvalda. Alvarlegt sé að varnaraðili hafi notað persónulegar og viðkvæmar persónuupplýsingar um sóknaraðila úr kerfi viðkomandi umbjóðanda löngu eftir að sóknaraðili hafi verið látin hætta störfum á ólögmætan hátt. Byggir sóknaraðili á að varnaraðili hafi gert það í því skyni að setja sóknaraðila í slæmt ljós án þess að hugsa um afleiðingarnar. Sé slíkt ekki leyfilegt samkvæmt persónuverndarstefnu.

Sóknaraðili bendir á að hún hafi hvorki veitt leyfi né samþykki fyrir þessari háttsemi og að varnaraðili hafi átt að vita betur og þekkja lögin í landinu. Hafi varnaraðili þannig ekki farið fram með neinn lagalegan rökstuðning heldur aðeins ósannindi eða höfnun á gögnum og staðreyndum án þess að rannsókn hefði átt sér stað. Vísar sóknaraðili til þess að þessi háttsemi varnaraðila hafi haft mikil áhrif á heilsu sína, fjárhag og feril. Ítrekar sóknaraðili að varnaraðili hafi svarað öllum yfirvöldum með ómálefnalegum hætti og notað samskipti sóknaraðila úr samhengi til að láta hana líta illa út.

Sóknaraðili vísar ennfremur til þess að varnaraðili hafi ekki svarað erindum sem lögmaður E hafi beint til umbjóðanda hans vegna málsins. Sé það óásættanlegt að varnaraðili svari ekki erindum. Hafi svarleysi varnaraðila leitt til þess að málið sé nú rekið fyrir dómi.

Í samræmi við framangreint krefst sóknaraðili þess að varnaraðili verði látinn sæta ábyrgð í formi skriflegrar áminningar. Bendir sóknaraðili á að lögmaður sem starfi hjá opinberu fyrirtæki þurfi að þekkja lögin og fara eftir þeim þótt stjórnendur þess skorti þessa þekkingu. Samkvæmt því eigi varnaraðili ekki að setja undirskrift sína á svo ómerkileg erindi sem borist hafa frá C til eftirlitsaðila.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar er vísað til þess að kvörtun varði háttsemi varnaraðila en ekki umbjóðanda hans. Bendir sóknaraðili á að ekki hafi þýðingu í málinu að ræða um starfslokasamning sem varnaraðili hafi ekki komið að eða tala um atriði sem hafi verið rannsökuð og úrskurðuð af hálfu eftirlitsyfirvalda sóknaraðila í hag. Þá haldi varnaraðili áfram að vanvirða og gera lítið úr sóknaraðila og með því brjóta gegn siðareglum lögmanna enda ósannindin endurtekin og staðreyndir hunsaðar.

Ítrekar sóknaraðili að varnaraðili hafi hafnað kröfum hennar án þess að rannsaka málið auk þess sem hann hafi farið fram með ósannindi og sniðgengið lög. Sé því hvorki um vönduð vinnubrögð né góða lögmannshætti að ræða af hálfu varnaraðila. Þvert á móti hafi varnaraðili lagt sig fram við að koma ósannindum á framfæri aftur og aftur, vera niðurlægjandi í skrifum sínum þrátt fyrir að hafa öll gögn undir höndum, setja efni fram á ómálefnalegan hátt og vera í endalausum viðsnúningum í öllum svörum til eftirlitsaðila.

Byggir sóknaraðili á að viðhorf varnaraðila sé siðlaust og að hann hafi ekki borið nokkra virðingu fyrir hagsmunum, sjónarmiðum eða staðreyndum málsins.

III.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Um forsögu málsins vísar varnaraðili til þess að hann hafi ekki haft formleg afskipti af málinu fyrr en eftir að sóknaraðili hafi kært samkomulag um starfslok til kærunefndar jafnréttismála þann x. febrúar 20xx. Hafi varnaraðili sinnt hagsmunagæslu fyrir C fyrir kærunefnd jafnréttismála, D og umboðsmanni Alþingis. Varnaraðili fari hins vegar ekki með mál C fyrir Persónuvernd. Hins vegar hafi sóknaraðili höfðað dómsmál á hendur C þar sem höfð sé uppi krafa um miskabætur vegna ólömætrar uppsagnar úr starfi. Reki varnaraðili það mál fyrir dómi fyrir hönd gagnaðila sóknaraðila.

Varnaraðili vísar til þess að hann eigi erfitt með að átta sig á kvörtunarefnum. Fyrir liggi að C hafi leitað til varnaraðila þegar bréf hafi borist frá þáverandi lögmanni sóknaraðila þann 30. nóvember 2020 vegna ætlaðrar ólögmætrar uppsagnar. Er vísað til þess að varnaraðili hafi veitt umbjóðanda sínum lögfræðilega ráðgjöf sem komi fram í svarbréfi, dags. 22. janúar 2021. Hafi meginröksemdafærslan í bréfinu verið sú að með samkomulagi um starfslok hafi aðilar þess, þ.e. sóknaraðili og C, orðið ásáttir um að ljúka ráðningarsambandinu með nánar tilgreindum hætti. Þannig hafi sóknaraðili samþykkt starfslokin af fúsum og frjálsum vilja þar sem hún hafi verið upplýst um einstök efnisatriði og réttarstöðu að öðru leyti enda notið aðstoðar trúnaðarmanns.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi beint erindi til kærunefndar jafnréttismála, dags. 1. febrúar 2021, þar sem kært hafi verið samkomulag um starfslok. Hafi verið á því byggt að um þvingaðan starfslokasamning væri að ræða vegna persónulegra skoðana, geðþótta og óvildar nánar tilgreinds stjórnanda. Þá hafi sóknaraðila verið mismunað út af aldri, kyni, kynþjáningu og lífsskoðunum.

Varnaraðili bendir á að stjórnendur umbjóðanda hans hafi talið, með hliðsjón af efni kærunnar, að nauðsynlegt væri að upplýsa nefndina um eðli þeirra skilaboða sem sóknaraðili hafi sent samstarfsmanni sínum. Hafi varnaraðili komið þeim á framfæri í greinargerð til kærunefndar jafnréttismála þann x. mars 20xx. Er vísað til þess að þar hafi verið um að ræða sömu skilaboð og kynnt hafi verið fyrir sóknaraðila á fundi þann 30. nóvember 2020 og hún hafi gengist við að hafa sent. Þar sem gengið hafi verið frá samkomulagi um starfslok á fundinum hafi ekki verið farið í formlegt áminningarferli gagnvart sóknaraðila.

Á það er bent að sóknaraðili hafi jafnframt leitað til umboðsmanns Alþingis og kvartað yfir stjórnsýslu C vegna starfslokanna. Í erindi umboðsmanns til C hafi meðal annars verið óskað eftir upplýsingum frá félaginu um hvort og þá með hvaða hætti sóknaraðili hefði brotið af sér í starfi sem og upplýsingum um hvort komið hafi til áminningar vegna þess. Ennfremur hafi sóknaraðili lagt fram stjórnsýslukæru til D þann x. febrúar 20xx vegna sama máls. Hafi ráðuneytið farið þess á leit við varnaraðila að hann sendi ráðuneytinu öll gögn málsins og gerði grein fyrir athugasemdum vegna kærunnar ef einhverjar væru.

Varnaraðili vísar til þess að einu gögnin sem lögð hafi verið fram fyrir stjórnvöld af hálfu C séu afrit af samskiptum sem sóknaraðili hafi átt við samstarfsmann sinn þann 24. nóvember 2020. Hafi tilgangurinn með framlagningunni fyrst og fremst verið sá að bregðast við ásökunum sem sóknaraðili hafi sett fram í kæru til kærunefndar jafnréttismála um ætlaða mismunun. Hafi stjórnendur umbjóðanda varnaraðila þannig talið nauðsynlegt að upplýsa um eðli og alvarleika meintra brota sóknaraðila á starfsskyldum. Í þeirri umfjöllun hafi varnaraðili á engan hátt tekið persónulega afstöðu til efnis skilaboðanna né tjáð skoðanir sínar á þeim. Sé það enda lögfræðileg skoðun varnaraðila að sá réttarágreiningur sem sóknaraðili hafi stofnað til varði ekki nema að óverulegu leyti hin ætluðu brot sóknaraðila á starfsskyldum heldur um það hvort sóknaraðila hafi tekist að sýna fram á að henni hafi verið sagt upp störfum og/eða að samkomulagi um starfslok verði jafnað til þess að um uppsögn hafi verið að ræða í skilningi vinnuréttar.

Varnaraðili byggir á að umfjöllun hans um skilaboð sóknaraðila til samstarfsmannsins hafi verið samrýmanleg hagsmunum umbjóðanda hans enda um að ræða viðbrögð við alvarlegum ásökunum sóknaraðila. Þá hafi umfjöllunin jafnframt verið liður í málsmeðferð umbjóðanda hans fyrir stjórnvöldum og sett fram í þeirri viðleitni að fá sem gleggsta mynd af málsatvikum eins og þau horfðu við umbjóðandanum.

Varnaraðili vísar jafnframt til þess að umbjóðandi hans hafi talið bæði nauðsynlegt og skylt að upplýsa um tilefni fundarins 30. nóvember 2020 og hvað hafi farið fram á honum. Að mati umbjóðanda hans hafi ekki verið unnt að gera það með öðrum hætti en að leggja fram þau skilaboð sem sóknaraðili hafi sent samstarfsmanni sínum. Hafi varnaraðili komið þeim upplýsingum á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld ásamt þeim sjónarmiðum sem umbjóðandi hans hafi teflt fram í tengslum við mat sitt á efni þeirra. Um frekari efnisumfjöllun hafi ekki verið að ræða og engin lögfræðileg afstaða tekin til skilaboðanna ná þeirra sjónarmiða sem komið hafi fram á fundinum varðandi alvarleika þeirra. Hafi enda hagsmunagæsla varnaraðila í málinu alfarið og eingöngu falist í því að sýna fram á að starfslok sóknaraðila hjá C hafi verið lögmæt, jafnt að formi sem efni til. Um persónu sóknaraðila eða persónulega hagi hennar hafi varnaraðili ekki gert að umfjöllunarefni enda hafi hann engar forsendur til þess. Skipti öllu máli í því sambandi að umbjóðandi hans hafi enga tilraun gert til þess í röksemdarfærslu sinni að sýna fram á að sóknaraðili hafi gerst brotleg á starfsskyldum með skilaboðunum sem hún sendi. Sé framferði sóknaraðila því málinu með öllu óviðkomandi.

Samkvæmt því byggir varnaraðili á að hagsmunagæsla hans í málinu hafi verið vönduð og í samræmi við góða lögmannshætti. Hafi hann lagt sig fram um að sýna sóknaraðila og hennar hagsmunum fulla virðingu og tillitssemi að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða og röksemda sem málatilbúnaður umbjóðanda hans hafi byggt á í málinu. Þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að varnaraðili hafi í starfi sínu gert á hlut sóknaraðila sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna beri að hafna kröfum sóknaraðila.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í V. kafla siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldur lögmanns við gagnaðila. Er því þar lýst í 34. gr. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

II.

Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan þá annaðist varnaraðili hagsmunagæslu í þágu C vegna kvartana og kæra sem sóknaraðili beindi á árinu 20xx til D, kærunefndar jafnréttismála og umboðsmanns Alþingis vegna ætlaðra ólögmætra starfsloka hennar hjá fyrirtækinu þann 30. nóvember 2020.

Kvörtun sóknararaðila í máli þessu lýtur að því að framganga varnaraðila í þeirri hagsmunagæslu hafi verið í andstöðu við lög og siðareglur lögmanna. Hafi varnaraðili þannig í erindum sínum til stjórnvalda brotið gegn stjórnsýslu- og persónuverndarlögum, viðhaft niðurlægjandi og meiðandi rangfærslur og viðhaft ófagleg vinnubrögð. Þá hafi yfirlýsingar sem varnaraðili hafi sett fram í erindum hvorki sýnt varkárni né virðingu heldur hafi hann þvert á móti mismunað sóknaraðila eftir kyni, aldri og uppruna.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan þá liggja fyrir í málsgögnum erindi sem varnaraðili beindi fyrir hönd síns umbjóðanda, C, til D og umboðsmanns Alþingis vegna kæru og kvartana sóknaraðila í garð fyrirtækisins. Að mati nefndarinnar verður ekki annað ráðið af þeim erindum en að varnaraðili hafi þar annast hagsmunagæslu í samræmi við þær málsástæður og þau sjónarmið sem umbjóðandi hans hafi teflt fram gegn kröfum og málatilbúnaði sóknaraðila. Að áliti nefndarinnar bera þau erindi sem varnaraðili sendi stjórnvöldum fyrir hönd umbjóðanda síns og lögð hafa verið fram í málinu ekki með sér að hann hafi þar viðhaft slíka háttsemi gagnvart sóknaraðila sem kvörtun er reist á. Verði þannig ekki annað leitt af hinum umþrættu erindum en að varnaraðili hafi þar sýnt sóknaraðila, sem gagnaðila umbjóðanda síns, fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg var hagsmunum umbjóðandans, svo sem áskilið er í 34. gr. siðareglna lögmanna.

Vegna málatilbúnaðar sóknaraðila um að varnaraðili hafi brotið gegn lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga með nánar tilgreindri gagnaframlagningu við meðferð mála fyrir stjórnvöldum þá liggur fyrir að sóknaraðili hefur beint kvörtun gegn umbjóðanda varnaraðila, C, til Persónuverndar vegna sama efnis þar sem málið er nú til meðferðar. Að mati nefndarinnar er um þetta efni til þess að líta að varnaraðili lagði fram hin umþrættu gögn fyrir hönd síns umbjóðanda og samkvæmt þeim málatilbúnaði sem umbjóðandinn hafði uppi í málunum. Liggur einnig fyrir að bæði umboðsmaður Alþingis og kærunefnd jafnréttismála óskuðu sérstaklega eftir við meðferð viðkomandi mála að C gerði yrði grein fyrir aðdraganda hinna umdeildu starfsloka sóknaraðila, þar á meðal um hvort talið væri að sóknaraðili hefði brotið af sér í starfi. Með hliðsjón af því verður ekki talið að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með framlagningu gagna í málunum, en úr því efni hvort C kunni að hafa miðlað, unnið með og notað upplýsingar úr einkasamtölum og skilaboðum sóknaraðila án heimildar og í ólögmætum tilgangi verður leyst á öðrum vettvangi, þ.e. við meðferð kvörtunarmáls sóknaraðila gegn fyrirtækinu hjá Persónuvernd.

Sóknaraðili hefur jafnframt borið því við í málinu að varnaraðili hafi ekki svarað erindum sem til hans hafi verið beint frá lögmanni E vegna undirliggjandi máls.

Um það kvörtunarefni liggja einungis fyrir í málinu bréf sem lögmaður E sendi til C þann 5. október 2021 vegna málefna sóknaraðila sem og svarbréf sem varnaraðili sendi fyrir hönd fyrirtækisins þann 20. sama mánaðar. Samkvæmt því liggur fyrir að varnaraðili svaraði því eina erindi E fyrir hönd umbjóðanda síns sem er á meðal málsgagna fyrir nefndinni. Með hliðsjón af því og þar sem engra annarra gagna nýtur við um þetta kvörtunarefni sóknaraðila verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila vegna ætlaðs athafnaleysis.

Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki talið að leitt hafi verið í ljós í málinu að varnaraðili hafi í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Kristinn Bjarnason

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson