Mál 22 2022

Mál 22/2022

Ár 2023, þriðjudaginn 14. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2022:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. júní 2022 kvörtun sóknaraðila, A, f.h. Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði (RLE) Háskóli Íslands, Hofsvallagötu 53, 107 Reykjavík í garð varnaraðila, [B] lögmanns, með starfsstöð að […] vegna tölvupóstsamskipta fulltrúa hans [C] lögmanns.

Með bréfi dags. 24. júní 2022 var óskað eftir því að sóknaraðili gerði nánari grein fyrir kvörtun sinni. Bárust upplýsingar þar að lútandi með bréfi sóknaraðila til nefndarinnar dags. 5. ágúst 2022. Varnaraðila var í framhaldinu veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 9. september 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist sé á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Greinargerð varnaraðila vegna málsins barst til nefndarinnar þann 10. október 2022 og var hún send sóknaraðila til athugasemda með bréfi þann 11. október 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 2. nóvember 2022 og viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 5. desember 2022. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili er rannsóknarstofa á vegum hins opinbera. Meðal hlutverka rannsóknarstofunnar er að sinna réttarfræðilegum rannsóknum fyrir lögreglu og dómsyfirvöld.

Þann 19. maí 2022 hringdi fulltrúi varnaraðila í sóknaraðila og fékk samband við tiltekinn starfsmann sóknaraðila. Ræddu þeir um fyrirspurn fulltrúa varnaraðila og í framhaldinu sammæltust þeir um að starfsmaður sóknaraðila myndi svara fyrirspurn fulltrúa varnaraðila í tölvupósti. Aðspurður af starfsmanni sóknaraðila gaf fulltrúi varnaraðila upp nemenda netfang sitt við Háskóla Íslands. Í framhaldi þess sendi starfsmaður sóknaraðila tölvupóst á fulltrúa varnaraðila þar sem hann spurði um það í hvaða tilgangi fulltrúi varnaraðila myndi nota svarið, því það hafi áhrif á það hversu ítarlega hann myndi svara. Þeim tölvupósti svaraði fulltrúi varnaraðila með eftirfarandi hætti: „Ég er að vinna rannsóknarverkefni í refsirétti sem varðar tengingu fíkniefnaaksturs og lyfjaaksturs við 50. gr. nýju umferðarlaganna, nr. 77/2019 og hvar skilin liggja á milli fíkniefnaaksturs og lyfjaaksturs, sérstaklega þegar um er að ræða notkun lyfja á borð við Ritalin og Medikinet, svo dæmi sé tekið.“. Í framhaldi þess gaf starfsmaður sóknaraðila ítarlegt svar við fyrirspurn fulltrúans og lýsti jafnframt yfir áhuga sínum á umgjörð og túlkun umferðarlaganna þegar komi að lyfja- og fíkniefnaakstri og áhuga á að lesa rannsóknarverkefnið þegar því væri lokið.

Svarbréf starfsmanns sóknaraðila var síðan lagt fram þann næsta dag af hálfu varnaraðila sem sönnunargagn í dómsmáli nr. […] (Lögreglustjórinn á Vesturlandi gegn X). Óumdeilt er að fulltrúi varnaraðila hafði í aðdraganda samskiptanna við sóknaraðila, unnið ásamt varnaraðila að vörnum í umræddu máli, sem varðaði meintan akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og að sérfræðimat sóknaraðila þar að lútandi lá fyrir í málinu. Telur sóknaraðili að fulltrúi varnaraðila hafi vísvitandi beitt blekkingum gagnvart starfsmanni sínum í því skyni að leggja fyrir héraðsdóm skjal sem myndi kasta rýrð á matsgerð sóknaraðila í málinu og þar með hafa áhrif á niðurstöðu málsins og að varnaraðila hafi mátt vera það ljóst, en hann beri ábyrgð á störfum fulltrúa síns. Fulltrúi varnaraðila kveður aftur á móti að hann sé sannanlega að vinna í téðu rannsóknarverkefni, sem sé þó skammt á veg komið, en að áhugi á rannsóknarefninu hafi kviknað þegar hann aðstoðaði varnaraðila við varnir í umræddu sakamáli. Þegar skrifleg svör starfsmanns sóknaraðila bárust honum hafi honum hins vegar orðið ljóst að þau gætu skipt sköpum fyrir varnir sakbornings í málinu og hafi hann því gert varnaraðila viðvart um hvað hann hefði í höndum. Varnaraðili hafi síðan lagt skjalið fram í málinu í samræmi við skyldur lögmanna til að rækja af alúð störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna og með tilliti til sannleiksreglunnar.

II.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta áminningu, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Sóknaraðili byggir á því að fulltrúi varnaraðila hafi villt á sér heimildir og þannig beitt blekkingum til að afla upplýsinga í tölvupósti frá starfsmanni sínum í því augnamiði að varnaraðili gæti lagt upplýsingarnar fram sem sönnunargagn í dómsmáli nr. […] (Lögreglustjórinn á Vesturlandi gegn X). Kveður sóknaraðili blekkingar fulltrúa varnaraðila hafa falist í því að svara fyrirspurn starfsmanns sóknaraðila um það í hvaða tilgangi fulltrúi varnaraðila myndi nota svarið sitt og tók fram að það hefði áhrif á hversu ítarlegt svarið yrði, á þann veg að það yrði notað við rannsóknarverkefni á sviði refsiréttar. Metur sóknaraðili það sem svo að varnaraðila hafi mátt vera ljóst að fulltrúi hans hafi beitt starfsmann rannsóknarstofu blekkingum við öflun þeirra upplýsinga sem hann lagði síðar fram í ofangreindu dómsmáli.

Að sögn sóknaraðila felst stærsti hluti verkefna sinna í skoðun og mælingum á ávana- og fíkniefnum og lyfjum í líf- og efnissýnum en jafnframt sé stór þáttur túlkun og mat á niðurstöðum mælinga og vitnisburður í dómsmálum, sé þess óskað. Í reglum um sóknaraðila sé kveðið á um að tekjur stofnunarinnar grundvallist meðal annars á greiðslum fyrir þjónustumælingar og mat og túlkanir þeim tengdum. Kveður sóknaraðili að í þeim tilvikum þar sem að starfsmenn séu beðnir um að veita fyrirspyrjendum, svo sem lögmönnum, skrifleg svör sem krefjast tíma starfsmanna sé tekið fyrir það gjald samkvæmt gjaldskrá en að sóknaraðili hafi hvorki mannafla, fjármagn, né tíma til að veita lögmönnum slíka aðstoð án endurgjalds. Þrátt fyrir það kveður sóknaraðili að sú regla hafi verið höfð á að taka ekki gjald af háskólanemum fyrir ráðgjöf í þágu rannsóknarverkefna og var því ekki tekið gjald af fulltrúa varnaraðila, er hann óskaði eftir upplýsingunum í þágu rannsóknarverkefnis á sviði refsiréttar.

Þessari staðhæfingu til stuðnings bendir sóknaraðili einnig á að í upphafi tölvupósts starfsmanns nefndarinnar til fulltrúa varnaraðila þar sem fyrirspurninni er svarað, lýsi starfsmaðurinn áhuga á efninu og á að fá að lesa verkefnið þegar að því væri lokið.

Kveður sóknaraðili að ef fulltrúi varnaraðila hefði komið hreint fram og upplýst starfsmann sóknaraðila um að til stæði að leggja upplýsingarnar fram í dómsmáli þá hefði svarið tekið mið af því og gjald verið tekið fyrir þjónustuna. Metur sóknaraðili framkomu fulltrúa varnaraðila ósiðsamlega þar sem hann hafi misnotað sér það traust sem nemum sé sýnt þegar þeir leiti til sóknaraðila. Þá hafi varnaraðili tekið þátt í atferlinu með fulltrúa sínum með því að leggja skjalið fram fyrir dómi. Álítur sóknaraðili það fela í sér brot gegn siðareglum lögmanna og kveður málið hafa rýrt traust og vilja starfsmanna rannsóknarnefndarinnar til að veita lögmönnum sem til þeirra leita fræðilega aðstoð.

Um ábyrgð varnaraðila á störfum fulltrúans vísar sóknaraðili til þess að á þeim tíma sem kvörtun var send til úrskurðarnefndarinnar hafi fulltrúinn ekki haft réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi og því nái lögsaga nefndarinnar ekki til háttsemi hans, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Hins vegar vísar sóknaraðili til þess að í 40. gr. siðareglna lögmanna komi fram að lögmaður skuli hafa góða skipan á skrifstofu sinni, vaka yfir störfum starfsliðs síns og líta eftir því að lögmannsfulltrúar fylgi góðum lögmannsháttum.

Sóknaraðili byggir á því að sú háttsemi sem fulltrúi varnaraðila hafi viðhaft og varnaraðili sjálfur samrýmist ekki góðum lögmannsháttum og þeim siðareglum sem að lögmenn séu bundnir af í störfum sínum.

Í viðbótarathugasemdum mótmælir sóknaraðili harðlega lýsingum fulltrúa varnaraðila sem þar eru að finna sem og mörgum rangfærslum sem þar komi fram. Kveður sóknaraðili að fulltrúinn hafi ekki kynnt sig sem lögfræðing í símtali við starfsmann rannsóknarnefndarinnar og bendir á því til stuðnings að fulltrúinn hafi ekki gefið upp vinnu netfangið sitt heldur nemenda netfangið sitt frá Háskóla Íslands. Jafnframt er í því samhengi bent á að fulltrúinn segist vera að vinna við rannsóknarverkefni í refsirétti og þar sem pósturinn hafi komið frá nemanda netfangi hjá Háskólanum hafi ekki verið óvarlegt að álíta að um verkefni tengt refsirétti við lagadeild Háskólans hafi verið að ræða. Þá hafi fulltrúi varnaraðila aldrei í samskiptum sínum við starfsmann sóknaraðila minnst á viðkomandi sakamál sem þó hafi verið á dagskrá dómstóla daginn eftir og varnaraðili með aðstoð fulltrúans séð um vörn í.

Þá bendir sóknaraðili á að fulltrúi varnaraðila undirriti tölvupóstinn til starfsmanns sóknaraðila með fullu nafni, en gefi á engan hátt til kynna vinnustað sinn, námsgráðu eða hagsmuni aðra en meinta rannsókn sína á fræðilegum grunni. Þrátt fyrir að starfsmaður sóknaraðila hafi sérstaklega beðið hann um ástæðu fyrirspurnarinnar. Sóknaraðili telur ljóst að svar við erindi fulltrúa varnaraðila vegna sakamáls þar sem matsgerð frá sóknaraðila liggur fyrir, yrði orðað talsvert nákvæmar og ítarlegar heldur en almennri fyrirspurn frá nemanda. Þá hafnar sóknaraðili fullyrðingum fulltrúa varnaraðila um að dómari málsins hafi ekki þótt framlagningu gagnanna óeðlileg en það hafi enga þýðingu fyrir umkvörtunarefnið sem lagt sé fyrir nefndina. Bendir sóknaraðili á að líkt og varnaraðila sé ljóst hafi sakborningar ríkar heimildir til að leggja fram gögn í sakamálum og framlagningu gagnsins fyrir dómi ein og sér geri ekki það að verkum að þess hafi ekki verið aflað með ósiðlegum hætti. Kveðst sóknaraðili ekki geta varist þeirri hugsun að fulltrúi varnaraðila hafi sent umrædda fyrirspurn til sóknaraðila með það að markmiði að villa um fyrir sóknaraðila og draga í efa heilindi rannsóknar sóknaraðila og þar af leiðandi fyrirliggjandi matsgerðar í sakamálinu, en fyrir liggi að svar starfsmannsins var lagt fyrir dómi í umræddu sakamáli næsta dag, en dómsmálinu þá verið frestað.

Þá mótmælir sóknaraðili harðlega ásökunum fulltrúa varnaraðila um að rannsókn sakamálsins hafi verið ábótavant af hálfu sóknaraðila og hvað þá að rannsóknarstofan hafi verið „tekin í bóli bjarnar“ í málinu. Vísar sóknaraðili til þess að í greinargerð varnaraðila setji fulltrúi varnaraðila út á almenna starfshætti sóknaraðila en að fullyrðingar hans verði að teljast alvarlegar aðdróttanir sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Bendir sóknaraðili á að rangt sé að máli farið í greinargerð varnaraðila um handhverfur í því eiturlyfi sem um ræddi. Þá hafi greiningaraðferð sóknaraðila fram til þessa ekki greint þar á milli enda ekki verið þörf eða eftirspurn eftir því. Í ljósi breyttrar lyfjanotkunar á Íslandi, þar sem umrætt lyf sem sakborningur málsins mun að sögn hafa tekið, fór að aukast í notkun, kveður sóknaraðili að farið hafi verið að skoða hvort hægt væri að greina á milli notkunar lyfsins og ólöglega fíkniefnisins. Kveður sóknaraðili að viðkomandi starfsmaður sinn hafi verið nýbyrjaður að kynna sér þau fræði þegar fulltrúi varnaraðila hafði samband í maí 2022. Samkvæmt sóknaraðila hafi haustmánuðir 2022 verið nýttir við þróun þeirrar greinargar á efninu en sú aðferð verði líklega ekki notuð nema sérstaklega verði beðið um þessa greiningu, enda flókin og tímafrek. Vísar sóknaraðili til þess að þegar viðkomandi rannsókn hafi verið unnin í umræddu sakamáli hafi sú greiningaraðferð sem greini á milli handhverfanna ekki verið komin til sögunnar hjá sóknaraðila enda ekki búin að raungerast þörf á henni. Kveður sóknaraðili rannsókn sýnanna í umræddu máli því á engan hátt ábótavant miðað við stöðu rannsókna og beiðni í málinu síðan í janúar 2021. Eigi því ásakanir fulltrúa varnaraðila um meinta vankanta við rannsóknina ekki við rök að styðjast enda sýni tölvupóstsamskipti starfsmanns sóknaraðila og fulltrúans í raun að sóknaraðili sé að fylgja skyldum sínum með þróun nýrra aðferða til handhverfugreiningar á efninu vegna breytinga í samfélaginu.  

Sóknaraðili kveður sér gróflega misboðið í þessu máli. Vísar sóknaraðili til þess að stofnunin hafi ávallt leitast við að veita lögmönnum þjónustu og aðstoð við túlkun á niðurstöðum efnagreininga í sakamálum, bæði skriflega og í síma. Framferði fulltrúa varnaraðila og þá varnaraðila sjálfs sem eiganda lögmannsstofunnar og ábyrgðaraðila á störfum fulltrúa síns, séu að mati sóknaraðila svo óheiðarleg að þau rýri það traust sem sóknaraðili hefur alla tíð borið til lögmanna og starfsmanna þeirra. Vísar sóknaraðili til þess að lögmenn gegni veigamiklu hlutverki í samfélaginu og að traust verði að ríkja á milli stéttarinnar og þeirra sem komi að rannsókn sakamála. Að öllu þessu virtu sé það mat sóknaraðila að fulltrúi varnaraðila hafi vísvitandi blekkt starfsmann sóknaraðila í því skyni að leggja fyrir héraðsdómi skjal sem myndi kasta rýrð á matsgerð sóknaraðila og þar með hafa áhrif á niðurstöðu héraðsdóms í málinu.

 

II.

Af hálfu varnaraðila er staðhæfingum og kvörtunarefni sóknaraðila mótmælt og jafnframt gerð krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila á grundvelli 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í greinargerð varnaraðila, sem fulltrúi varnaraðila ritar fyrir hans hönd, er því hafnað að fulltrúinn hafi beitt blekkingum í því augnamiði að geta lagt upplýsingar frá starfsmanni sóknaraðila fram sem sönnunargagn í téðu dómsmáli. Byggir varnaraðili á því að það eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum og að gögn málsins renni ekki stoðum undir þær fullyrðingar sóknaraðila. Hið rétta sé að fulltrúinn  hafi unnið með varnaraðila að vörn í dómsmáli nr. […] sem varðaði meintan akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en fyrir hafi legið í málinu að sakborningur hafi verið með uppáskrifað lyf af lækni. Í málinu hafi verið lagt fram sem sönnunargagn matsgerð sóknaraðila þar sem mældist tiltekið efni í blóði sakbornings. Vísar varnaraðili til þess að eðlilegar skýringar hafi verið fyrir því hvers vegna efnið mældist í blóði sakbornings en ástæða þess, sem varði efnasamsetningu í hinu læknisávísaða lyfi, vakti mikla athygli og forvitni fulltrúans um hvar mörkin milli fíkniefnaaksturs og lyfjaaksturs liggi og þá hvar saknæm háttsemi byrji. Sérstaklega hafi það verið að sögn fulltrúa varnaraðila í ljósi þess að í umræddu tilfelli hafi sakborningur tekið lyfið að læknisráði og í vottorði læknis kveðið á um að sakborningnum væri óhætt að aka bíl samhliða notkun lyfsins. Þetta hafi legið fyrir á rannsóknarstigi en sakborningur samt sem áður verið ákærður fyrir fíkniefnaaksturs. Kveðst fulltrúi varnaraðila þá hafa farið að vinna að fræðigrein, rannsóknarverkefni, um þetta efni, í tengslum við umrætt sakamál sem hann vonist til að fá birta í Úlfljóti þegar hún sé tilbúin, að því gefnu að greinin uppfylli fræðileg skilyrði til birtingar í ritinu. Sú vinna mun að sögn enn vera á rannsóknarstigi.

Að sögn fulltrúa varnaraðila hringdi hann í sóknaraðila þann 19. maí 2022 og var gefið samband við umræddan starfsmann sóknaraðila. Í því símtali hafi hann kynnt sig með fullu nafni og sem lögfræðing en ekki laganema. Í símtalinu hafi verið rætt um umrætt fíkniefni, handhverfu þess og hvort sóknaraðili hefði möguleika á að greina í blóðsýni um hvora handhverfu væri að ræða. Lýsir fulltrúinn samtalinu sem góðu og fræðandi og kveður að hann og starfsmaður sóknaraðila hafi sammælst um að starfsmaðurinn myndi senda honum tölvupóst með ítarlegri upplýsingum. Bað starfsmaðurinn þá um netfang fulltrúans og gaf hann það upp, en það er háskólanetfang sem fulltrúinn er með hjá Háskóla Íslands.

Bendir fulltrúi varnaraðila á að hann hafi á engum tímapunkti sagst vera að vinna að „meistaraverkefni á sviði refsiréttar“ líkt og fram kom í málatilbúnaði sóknaraðila. Að sögn fulltrúa varnaraðila hafi hann séð strax að svar starfsmanns sóknaraðila gæti nýst í málsvörn téðs sakamáls og gerði því varnaraðila grein fyrir því hvað hann hefði í höndum, en að hans sögn sýndi það fram á að mögulegt væri að greina á milli afbrigða efnisins í blóðsýni sakbornings, þ.e.a.s. afbrigðisins sem finnst í fíkniefnum og þess sem finnst í lyfseðilsskylda lyfinu sem sakborningur á að hafa tekið, sem á reyndi í téðu sakamáli, en ekki hafði verið greint á milli í rannsókn lögreglu í málinu. Vísar varnaraðili jafnframt til sannleiksreglunnar um ástæðu þess að tölvupóstsamskiptin voru lögð fram.

Í greinargerð varnaraðila er því lýst af hálfu fulltrúans að viðbrögð saksóknarfulltrúa og sóknaraðila við framlagningu tölvupóstsins við aðalmeðferð sakamálsins hafi verið í hæsta máti undarleg. Að framlagningunni hafi verið mótmælt af hálfu ákæruvaldsins og hlé gert á þinghaldi svo saksóknarfulltrúinn gæti ráðfært sig við sóknaraðila. Kveður hann sig aldrei hafa áður orðið vitni að jafn mikilli vanvirðingu ákæruvaldsins á hlutlægnisskyldu sinni, né sannleiksreglunni. Þá kveður hann dómara málsins ekki hafa talið framlagninguna óeðlilega enda hafi hann leyft hana.

Í greinargerð varnaraðila er vísað til þess að sóknaraðili sé vísindastofnun sem heyri undir Háskóla Íslands. Það sé því að mati varnaraðila eftirtektarvert að sóknaraðili skuli hefja þetta mál fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, en skýringuna telji hann vera þá að sóknaraðili sé gríðarlega fjárhagslega háður samstarfi sínu við lögregluyfirvöld, enda sjái sóknaraðili um greiningar á öllum blóð- og þvagsýnum í sakamálum fyrir lögregluembætti landsins og þiggi væna þóknun úr hendi lögreglunnar fyrir hvert sýni. Byggir varnaraðili á að sóknaraðili hafi verið tekinn „í bóli bjarnar“, þar sem í ljós hafi komið að ekki fór fram fullnægjandi rannsókn á umræddu blóðsýni og af því leiði að hið sama gildi um önnur sambærileg sýni við rannsókn sakamála.  Sé því að mati varnaraðila skiljanlegt að þetta hafi komið við kaunin á forstöðumanni sóknaraðila og virðist fulltrúa varnaraðila sem forstöðumaðurinn taki þá gremju út á varnaraðila með kvörtun þessa máls. Byggir varnaraðili á því að slíkt teljist varla málefnalegt né smekklegt sé horft til stöðu forstöðumannsins.

Byggir varnaraðili á því að framanvirt sýni að staðhæfingar og ásakanir sóknaraðila séu bæði haldlausar og illa ígrundaðar, auk þess sem þær eigi sér ekki stuðning í gögnum málsins. Vísar varnaraðili til þess að lögmenn skuli í hvívetna rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir  og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Álítur varnaraðili að með framlagningu tölvupóstsins í umræddu sakamáli hafi einmitt þeirri skyldu verið fylgt eftir. Byggir varnaraðili því á að hvorki hann sjálfur né fulltrúi hans hafi gert á hlut sóknaraðila. Að hvorki lög né siðareglur lögmanna hafi verið brotin.

Þá vísar varnaraðili til þess að í ljósi alvarleika þeirra röngu staðhæfinga sem á varnaraðila og fulltrúa hans séu bornar, og í ljósi hlutverks Háskóla Íslands, skyldna hans gagnvart samfélaginu og þess hlutverks sem hann eigi að gegna við rannsóknir sakamála, sé krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila á grundvelli 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Að endingu er í greinargerð varnaraðila vakin athygli á að umræddu sakamáli hafi verið áfrýjað til Landsréttar þar sem væntanlega verði fjallað um fyrrgreinda vankanta við rannsókn málsins og þær afleiðingar sem það geti haft á fyrri dóma í sakamálum þar sem byggt hafi verið á ófullnægjandi rannsóknum sóknaraðila.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila vegna málsins, sem jafnframt eru ritaðar af fulltrúa varnaraðila, er áréttað að hann hafi kynnt sig í símtalinu við starfsmann sóknaraðila sem lögfræðing. Lýsir fulltrúi varnaraðila því sem alröngu og alvarlegu að sóknaraðili staðhæfi um eitthvað sem eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þá bendir fulltrúi varnaraðila á að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi ekki verið í umræddu símtali og viti því ekki með fullri vissu hvað hafi farið fram í því. Það hafi fulltrúi varnaraðila hins vegar verið sem ritar athugasemdabréfið og kveður hann sig vita mætavel hvað hafi verið sagt. Í upphafi kveðst hann hafa kynnt sig með fullu nafni og sem lögfræðing. Þá hafi fyrirsvarsmaður sóknaraðila ekki lagt fram sönnur á þessa röngu staðhæfingu sína, enda sé slíkt ekki hægt þar sem hún sé eðli málsins samkvæmt röng. Þá vísar varnaraðili til þess að fyrirsvarsmaður sóknaraðila starfi innan akademíunnar og að rangar fullyrðingar af þessu tagi geti vart talist falla undir það sem vænta megi frá aðila sem starfi innan hennar og þeirra akademísku krafna sem viðkomandi þurfi að vinna eftir.

Vísar fulltrúi varnaraðila til þess að rangar fullyrðingar fyrirsvarsmanns sóknaraðila feli í sér aðför að æru og virðingu sinni sem ekki verði unað við. Að það eina sem fulltrúi varnaraðila hafi gert væri að upplýsa um netfang sitt, sem hann notar meðal annars í tengslum við fræðavinnu. Fræðavinnu sem sé í vinnslu líkt og fyrr hafi komið fram og hafi verið tilefni símtalsins.

Ítrekar varnaraðili að ekkert sé óeðlilegt við að það kvikni fræðilegur áhugi lögfræðings á málefni sem hafi sterk tengsl við þau starfstengdu verkefni sem hann vinni að hverju sinni. Beri að horfa til þess að ákveðið lagalegt tómarúm sé til staðar og að lögin sem málið snúist um, nýju umferðarlögin svonefndu, séu ný af nálinni og ýmislegt sé í þeim sem ekki hafi reynt fyllilega á. Þá er ítrekað að málshefjandi heyri undir Háskóla Íslands sem sé vísinda- og fræðistofnun, rekin að mestu fyrir skattfé og sé gríðarlega mikilvæg íslensku samfélagi. Jafnframt að sóknaraðili sé mjög fjárhagslega háður samstarfi sínu við lögregluyfirvöld, enda sjái málshefjandi um greiningu á öllum blóð- og þvagsýnum í sakamálum fyrir lögregluembætti landsins og þiggi fyrir það væna þóknun. Að vinnubrögð málshefjanda við þær greiningar séu ekki undanskilin gagnrýni, heldur þvert á móti eðlilegt að vakin sé athygli viðeigandi opinberra aðila, sem í þessu tilfelli hafi verið héraðsdómstóll, ef eitthvað er athugavert eða gagnrýnisvert við þær. Þykir fulltrúa varnaraðila afstaða og framkoma sóknaraðila afar miður og ljóst að hún sé ekki í samræmi við það sem ætlast megi af jafn virðulegri stofnun og Háskóla Íslands.

 

Niðurstaða

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni heimilt að hafa samband við vitni í máli til að kanna hvað það getur borið um atvik og, ef því er að skipta, til að gera því kleift að búa sig undir vitnaleiðslu. Sé um að ræða vitni, sem eru í sérstökum tengslum við gagnaðila, er lögmanninum skylt að tilkynna lögmanni gagnaðila áður en haft er samband ef þess er nokkur kostur en ella jafn skjótt og kostur er. Hafi lögmaður samband við vitni ber honum að gæta viðeigandi tillitssemi og forðast að hafa áhrif á framburð vitnisins.

Þá segir í 1. mgr. 40. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli hafa góða skipan á skrifstofu sinni, vaka yfir störfum starfsliðs síns og líta eftir því, að lögmannsfulltrúar fylgi góðum lögmannsháttum. Ber lögmanni að sjá til þess, að bókhald skrifstofunnar, varsla fjármuna, skjala og annarra gagna sé í samræmi við lög og góða venju í þeim efnum, sbr. 2. mgr. 40. gr. reglnanna.

Í máli þessu er kvartað undan háttsemi fulltrúa varnaraðila sem lýst hefur verið að framan, sem fólst í því að óska eftir skriflegum svörum frá starfsmanni sóknaraðila um atriði á starfssviði sóknaraðila, sem sóknaraðili hafði skilað sérfræðimati um að beiðni ákæruvaldsins sem lagt hafði verið fram í dómsmáli og sem varnaraðili annaðist varnir sakbornings í, án þess þó að gera starfsmanni sóknaraðila kunnugt um störf sín eða tengsl við varnaraðila. Þess þá heldur gaf fulltrúi varnaraðila upp netfang sitt við Háskóla Íslands en ekki vinnunetfang sitt, undirritaði tölvupóstana við starfsmann sóknaraðila með nafni sínu einu og sérstaklega aðspurður af starfsmanni sóknaraðila um það í hvaða tilgangi fulltrúi varnaraðila myndi nota svarið, þar sem það hefði áhrif á hversu ítarlega hann myndi svara, svaraði fulltrúi varnaraðila svo til að það væri í tengslum við rannsóknarverkefni sitt á sviði refsiréttar. Óumdeilt er að þau samskipti fulltrúa varnaraðila og starfsmanns sóknaraðila áttu sér stað deginum áður en umrætt sakamál var á dagskrá dómstólanna og að svarbréf starfsmanns sóknaraðila var lagt fram af hálfu varnaraðila í þágu skjólstæðings síns þann næsta dag, án samþykkis eða vitundar sóknaraðila. Jafnframt er óumdeilt að fulltrúi varnaraðila var að aðstoða varnaraðila við varnir í umræddu sakamáli.

Að mati nefndarinnar bar fulltrúa varnaraðila skylda til að upplýsa starfsmann sóknaraðila um störf sín sem fulltrúi varnaraðila og tengslin við umrætt dómsmál. Ekkert er fram komið í málinu sem styður þann málatilbúnað varnaraðila að fulltrúi varnaraðila hafi raunverulega unnið að rannsóknarverkefni á sviði refsiréttar líkt og hann byggir á, en jafnvel ef svo væri breyti það að mati nefndarinnar engu um þá skyldu fulltrúans að eiga að upplýsa starfsmann sóknaraðila um störf sín og tengsl við málið. Gat fulltrúanum ekki leynst að starfsmaður sóknaraðila átti réttmætar væntingar til þess að vera upplýstur þar um, einkum og sér í ljósi skýrrar fyrirspurnar starfsmannsins um fyrirhuguð not fulltrúa varnaraðila á svarinu og að það hefði áhrif á svör starfsmannsins. Háttsemi þessi samrýmist að mati nefndarinnar ekki þeirri tillitssemi sem lögmönnum ber að sýna vitnum og ennfremur var hún beinlínis til þess fallin að hafa áhrif á hugsanlegan framburð vitnisins. Varnaraðili ber ábyrgð á störfum fulltrúa síns auk þess sem á honum  hvíldi skylda til að líta eftir því að fulltrúinn fylgdi góðum lögmannsháttum í störfum sínum fyrir hann. Sú háttsemi fulltrúa varnaraðila sem hér hefur verið lýst, var ekki í samræmi við góða lögmannshætti og á þeirri háttsemi ber varnaraðili ábyrgð. Að mati nefndarinnar er sinnuleysi varnaraðila við rækslu þeirra mikilvægu skyldna sem á lögmönnum hvíla samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum siðareglna lögmanna í engu til þess fallið að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar. Gengur háttsemi kærðu að þessu leyti því í berhögg við 2. gr. siðareglnanna, sem áður er lýst.

Í samræmi við það sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi brotið gegn skyldum lögmanna samkvæmt 2. gr. og 21. gr. siðareglna lögmanna, sbr. einnig 40. gr. siðareglnanna. Með þeim brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða auk þess sem hún er ósamboðin lögmannsstéttinni. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, [B] lögmaður, sætir áminningu.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

____________________________

Arnar Vilhjálmur Arnarsson, ritari