Mál 27 2022

Mál 27/2022 

Ár 2023, miðvikudaginn 14. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna. 

Fyrir var tekið mál nr. 27/2022: 

A og B 

gegn 

C lögmanni 

og kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R : 

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 16. ágúst 2022 kvörtun [A] og [B], gegn [C] lögmanni, vegna starfa hans við skipti á dánarbúi [D]. 

Með bréfi dagsettu 21. október 2022 var óskað eftir nánari skýringum á kvörtun til sóknaraðila og bárust þær samdægurs. Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 6. desember 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum vegna málsins barst til nefndarinnar þann 17. febrúar 2023 og var hún send sóknaraðila til athugasemda með bréfi dagsettu 20. febrúar 2023. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust nefndinni 21. mars 2023 og var varnaraðila þá veitt færi á að skila inn frekari athugasemdum með bréfi þann 11. apríl 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður 

Þann […] lést D. Erfingjar voru þrír, sóknaraðilar þessa máls, sem eru synir hinnar látnu auk hálfbróður þeirra samfeðra sem tók arf eftir föður sinn úr óskiptu búi hinnar látnu. Leituðu erfingjar til varnaraðila til að fá aðstoð við dánarbússkiptin. Með tölvupósti þann 26. febrúar 2020 kvaðst varnaraðili geta tekið að sér einkaskipti dánarbúsins en fyrir það tæki hann um 10-15 klst. af útseldri vinnu og ákváðu erfingjarnir að fela honum verkið. Leyfi til einkaskipta var gefið út þann 18. mars 2020. Meðal eigna dánarbúsins voru bankainnstæður, fasteign og tvö ökutæki. Skuldir dánarbúsins voru fasteignalán hjá Landsbanka og skuld vegna ökutækjatryggingar auk innheimtugjalda Lögheimtunnar.  

Fyrir nefndinni liggur mikill fjöldi samskipta milli erfingja dánarbúsins, einkum sóknaraðilans [B], til varnaraðila á tímabili frá upphafi einkaskipta dánarbúsins og fram til maí 2022. Í þeim samskiptum er oftast verið að ganga á eftir svörum og upplýsingum frá varnaraðila um framvindu skiptanna auk þess sem oftlega er óskað úthlutunar úr búinu. 

Af gögnum málsins má ráða að sala fasteignar dánarbúsins hafi dregist verulega og að upphaflega hafi samkvæmt kaupsamningi staðið til að lokagreiðsla og útgáfa afsals færu fram um mitt ár 2020. Áttu lokagreiðslan og útgáfa afsalsins sér stað í mars 2021 en í framlögðum samskiptum rekur varnaraðili þann drátt til kaupenda. Gekk sóknaraðilinn, [B], á þeim tíma endurtekið eftir því við varnaraðila að hann lyki sölunni. Þann 22. mars 2021 spurði sóknaraðilinn, [B], varnaraðila um stöðu mála dánarbúsins með vísan til fyrri samskipta. Í svari varnaraðila sem barst samdægurs kvaðst hann ætla að klára að setja uppgjörið saman í vikunni og senda erfingjunum. Þann 6. apríl 2021 inntu erfingjar varnaraðila eftir skýringum og vísuðu til fyrri svara varnaraðila og loforða.  

Þann 15. júní 2021 sendi sóknaraðilinn, [B], tölvupóst á varnaraðila og óskaði þess að varnaraðili endurgreiddi honum 1.000.000 kr. sem hann kvaðst hafa lánað varnaraðila persónulega. Árétti sóknaraðilinn það síðar í athugasemdum til nefndarinnar að hafa lánað varnaraðila af sínum arfshluta 1.000.000 kr. þann 24. júní 2020 og vísaði til framlagðra millifærslukvittana frá téðum degi þar sem sjá má að lögmannsstofa varnaraðila lagði framangreinda fjárhæð inn á reikning sóknaraðilans þann dag með skýringunni „[B]arfu“ og sama dag lagði erfinginn sömu fjárhæð inn á persónulegan reikning varnaraðila. Í kjölfar bréfs sóknaraðilans frá 15. júní 2021 lagði varnaraðili af reikningi lögmannsstofu hans inn á sóknaraðilann, aftur með skýringunni „[B]arfu“ líkt og aðrar millifærslur arfs úr dánarbúinu. Líkt og neðar greinir kom upp ágreiningur við skiptalok m.a. um arfshluta erfingja og telur sóknaraðilinn það skýrast að hluta af því að varnaraðili hafi endurgreitt persónulega lánið sem sóknaraðilinn veitti honum, af arfshluta dánarbúsins, með framangreindum hætti. 

Þann 24. júní 2021 ítrekaði sóknaraðilinn, [B], við varnaraðila að hann yrði að fara klára búskiptin. Varnaraðili svaraði samdægurs og kvaðst muna vera með peningana í næstu viku, en að beðið væri eftir ákveðnum upplýsingum auk þess sem að greiða þyrfti erfðafjárskattinn áður en að rétt tala lægi fyrir á mánudag. Tók varnaraðili jafnframt fram í svarbréfinu að sóknaraðilinn ætti ekki milljón eftir úr dánarbúinu heldur hafi fyrri bréf hans þess efnis verið misskilningur. Þann 5. júlí 2021 kvaðst sóknaraðilinn, [B], vera kominn með nóg af framgöngu varnaraðila við búskiptin og lýsti sig reiðubúnum til að ljúka sjálfur búskiptunum. Þeim pósti svaraði varnaraðili samdægurs á þann veg að hann myndi hringja síðar þann dag og að tíminn hjá sýslumanni væri síðar í sömu viku. Þann 11. ágúst  2021 spurði sóknaraðilinn [B] aftur hvað væri að frétta með dánarbússkiptin. Þann 17. ágúst 2021, 30. ágúst 2021 og 1. september 2021 ítrekaði sóknaraðilinn þá fyrirspurn, auk þess sem hann gekk á eftir því að skiptunum yrði lokið og að varnaraðili afhenti fjárhagslega sundurliðun vegna dánarbúskiptanna.  

Þann 23. febrúar 2021 rann út upphaflegur frestur til að ljúka skiptum samkvæmt einkaskiptaleyfi en sá frestur var framlengdur. Einkaskiptum var lokið þann 28. september 2021. Sama dag var erfðafjárskattur lagður á erfingja að fjárhæð 2.877.637 kr. Þann 10. nóvember 2021 gekk sóknaraðilinn, [B], á eftir uppgjörinu úr dánarbúinu. Sú beiðni var ítrekuð 5. desember 2021 auk beiðni um afrit af öllum kvittunum og kostnaði vegna sölu fasteignarinnar og upplýsinga um búskiptin. Veitti sóknaraðili varnaraðila frest til að verða við beiðninni til 9. desember 2021 enda væri um upplýsingar og gögn að ræða sem varnaraðili hefði lofað að afhenda þann 7. júní 2021 og bað hann varnaraðila að senda upplýsingarnar einnig á aðra erfingja dánarbúsins. Þann 6. janúar 2022 ítrekaði sóknaraðili beiðnina og bað varnaraðila um að leggja inn á tilgreindan reikning. Þann 14. janúar 2022 fylgdi hann þeim tölvupósti eftir. 

Í febrúar 2022 sendi erfinginn, [E], fyrirspurn á varnaraðila um stöðu mála og krafðist skýringar á því hvers vegna greiðsla hafði ekki borist honum þegar allt ætti að vera frágengið. Vísaði hann til þess hve langt væri liðið frá því honum var gert að greiða erfðafjárskattinn af arfshlutanum, eða um fimm mánuðir og að varnaraðili hefði allar upplýsingar sem þyrfti til að greiða. Svaraði varnaraðili að hann væri að stíga upp úr veikindum en að hann myndi ganga í verkið og að augsjáanlega hafi orðið mistök sem hann myndi ganga í að leiðrétta. Baðst varnaraðili velvirðingar og kvaðst hafa staðið í þeirri trú að millifærsla til erfingjans hafi þegar verið framkvæmd.  

Þann 17. maí 2022 sendi varnaraðili upplýsingar um uppgjör dánarbúsins í tölvupósti til erfingjans, [E], en ekki til annarra erfingja dánarbúsins, þ.e. sóknaraðila. Það uppgjör könnuðust sóknaraðilar ekki við að hafa fengið upplýsingar um er þeir báru kvörtun þessa undir nefndina. Mótmæla sóknaraðilar uppgjörinu sem röngu og gera verulegar athugasemdir við það og við þá háttsemi varnaraðilans að afhenda þeim aldrei afrit uppgjörsins eða skjala dánarbúsins svo sem yfirlit fjárvörslureikningshreyfinga vegna dánarbúsins, tímaskýrslu varnaraðila, kvittanir og reikninga, gögn varðandi fasteignaviðskiptin o.fl. 

Þann 30. maí 2022 barst erfingjum síðan innheimtuáminning vegna kreditkortaskuldar hinnar látnu sem var í vanskilum frá 4. maí 2020. Að sögn sóknaraðila var kortið í skilum við upphaf dánarbússkiptanna en varnaraðili hafi vanrækt að láta loka kortinu og bankareikningum dánarbúsins sem sóknaraðilar telja ástæðu vanskilanna.  

Sóknaraðilar kváðust enn ekki hafa fengið í hendur gögn dánarbúsins og sáu sig tilknúna til að bera kvörtun þessa undir nefndina vegna starfshátta varnaraðila við skipti dánarbúsins.  

Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila á þann veg að um sé að ræða kvörtun sem reist er á 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna starfa varnaraðila við einkaskipti á dánarbúi [D], móður sóknaraðila sem lést þann […].  

Vísa sóknaraðilar til þess að erfingjar hafi ítrekað reynt að ná í varnaraðila meðan á einkaskiptum dánarbús móður þeirra stóð en það hafi ekki gengið eftir. Þá byggja sóknaraðilar á að varnaraðili hafi blandað störfum sem hann vann í þágu sóknaraðilans, [B], saman við störf hans við skipti dánarbúsins án nokkurrar heimildar.  

Að sögn sóknaraðila upplýsti varnaraðili þá um að ekkert væri eftir í búinu og að ofgreitt hafi verið til þeirra. Slíkt telja sóknaraðilar ekki geta staðist þar sem í búinu eigi að standa eftir um 3,5 milljón krónur og jafnvel meira. Þá hafi dánarbúið að sögn sóknaraðila, verið látið borga vanskilakostnað upp á 500.000 kr. þrátt fyrir að hafa hvergi staðið í vanskilum þegar varnaraðili tók við búskiptunum.  

Að sögn sóknaraðila var dánarbúið afhent sýslumanni eftir marga viðbótarfresti og ábyrgð þess færð til sóknaraðilans, [A] að honum forspurðum og án þess að erfingjum væri veittur andmælaréttur.  

Kveðast sóknaraðilar hafa ítrekað óskað eftir því að fá upplýsingar um uppgjör dánarbúsins frá varnaraðila en þær upplýsingar aldrei fengist. Einu svörin sem þeim hafi borist frá varnaraðila væru að peningar dánarbúsins væru búnir. Telja sóknaraðilar að ranglega hafi verið staðið að uppgjöri dánarbúsins og við útreikning erfðafjárskatts. Því til stuðnings vísa sóknaraðilar meðal annars til þess að hálfbróðir þeirra hafi ekki fengið greidda rétta fjárhæð úr búinu og til textaskilaboða frá varnaraðila þar sem hann kvað sóknaraðilann [B] hafa fengið ofgreitt úr búinu. Það telja sóknaraðilar vera rangt.  

Byggja sóknaraðilar á því að þeir geti ekki sannað mistök varnaraðila þar sem hann hafi aldrei skilað til þeirra uppgjöri dánarbúsins. Að sögn sóknaraðila viðurkenndi varnaraðili mistök sín við uppgjör búsins við annan lögmann, en sá lögmaður hafi ekki verið reiðubúinn til að eiga frekari aðkomu að málinu.  

Kveðast sóknaraðilar vilja fá uppgjör dánarbúsins í hendur frá varnaraðila til að geta lagt mat á það hvort mistök hafi orðið við búskiptin og reynist svo vera, hyggjast þeir halda uppi kröfum um að varnaraðili leiðrétti mistökin á eigin kostnað.  

Í erindi til nefndarinnar gera sóknaraðilar fimm kröfur auk þess að kvarta undan starfsháttum varnaraðila. Í fyrsta lagi að dánarbúskiptum verði lokið sem fyrst, í öðru lagi að öll gögn sem skiptin varði verði afhent, í þriðja lagi að reikningsskekkjur og önnur mistök varnaraðila verði leiðrétt svo sem við útreikning arfs úr dánarbúinu. Í fjórða lagi að varnaraðili bæti það sem fallið hafi á búið vegna handvammar hans án þess að það komi niður á dánarbúinu og loks í fimmta lagi kvarta sóknaraðilar yfir því að innlagðir pappírar til Sýslumanns stemmi ekki við bankainnstæður hjá Íslandsbanka, Landsbanka og Arion banka.  

III. 

Krefst varnaraðila þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni, annars vegar samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og hins vegar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga, en til vara að hafnað verði sjónarmiðum sóknaraðila.  

Vísar varnaraðili einnig til 1. mgr. 8. gr. og 10. gr. reglna um málsmeðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðilunum verði gert að greiða honum málskostnað með álagi skv. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn með vísan til hliðsjónar af 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  

Mótmælir varnaraðili málsatvikalýsingu sóknaraðila í öllum atriðum og þá sérstaklega ávirðingum á hendur persónu og heiðri hans. Málavöxtum lýsir varnaraðili að því marki sem hann telur þörf á vegna atriða sem heyri undir úrskurðarnefndina en mótmælir öðrum málavaxtalýsingum sóknaraðila sem röngu og ósönnuðu. Þá áréttar varnaraðili að þó svo hann leitist við að svara og eftir atvikum leiðrétta málavaxtalýsingar sóknaraðila, felist ekki í því viðurkenning af hans hálfu um að efnið heyri undir úrskurðarnefndina.  

Kveðst varnaraðili hafa tekið að sér að skipta dánarbúi móður sóknaraðila þann 17. mars 2020. Upphaflega hafi verið gengið út frá því að um einföld skipti á dánarbúi væri að ræða þar sem upplýsingar um allar eignir lægju fyrir og erfingjarnir fáir. Fljótlega hafi þó komið upp vandkvæði og stóraukin vinna vegna íþyngjandi krafna og afskipta erfingja af störfum hans. Helst rekur varnaraðili það til sífelldra krafna erfingja um hlutagreiðslur af fjármunum búsins hverju sinni, auk krafna erfingjanna um að komast hjá greiðslu lögbundinna gjalda og skatta. Lýsir varnaraðili samskiptum við erfingja sem verulega krefjandi og erfiðum og að þau hafi einkennst af mismikilli vanstillingu. Þá hafi reynst erfitt að ná sambandi við þá sem ýmist bjuggu erlendis eða voru erlendis langdvölum eða óstaðsettir í húsi.   

Kveðst varnaraðili hafa gert tilraunir til að kynna uppgjör búsins, m.a. á fundi á skrifstofu hans, en þeim fundi hafi lokið með miklu uppistandi aðila sem gengu svo á dyr. Uppgjör hafi því verið sent með tölvupósti þann 17. maí 2022, til erfingjans [E], hálfbróður sóknaraðila. Auk þess hafi erfingjum síðan ítrekað verið boðið að koma og fara yfir uppgjörið án þess að því hafi verið svarað. Þá kveðst varnaraðili hafa gert tilraunir til að fá til baka ofgreiðslu til eins erfingjans.  

Frávísunarkröfu sína byggir varnaraðili á að kvörtun sóknaraðila sé vanreifuð og óskýr. Telur varnaraðili málatilbúnað sóknaraðila með öllu óskiljanlegan og ómögulegt að henda reiður á umkvörtunarefnin, á hverju sé byggt og eftir atvikum að skilja samhengi kvörtunar. Byggir varnaraðili á því að jafnvel þótt sóknaraðilar séu ólöglærðir verði að gera lágmarkskröfu um að skilja megi kröfur og að þær séu settar fram með þeim hætti að unnt sé að verjast þeim.  

Vísar varnaraðili til þess að kvörtun sóknaraðila hefjist á lista yfir það sem kvörtunin beinist að, en sá listi sé allur óljós. Virðist varnaraðila sem kvörtunin snúi að atriðum sem lúta að uppgjöri dánarbúsins, þar sem gengið sé út frá einhverskonar handvömm varnaraðila sem hvorki eigi við rök að styðjast né sé skilgreind með fullnægjandi hætti. Jafnframt byggi hún á því að uppgjör liggi ekki fyrir eða hafi tekið óeðlilega langan tíma, en hvorugt kveður varnaraðili vera rétt. Að sögn varnaraðila liggur uppgjörið fyrir en sóknaraðilar hafi ekki komið á hans fund. 

Virðist varnaraðila kvörtun sóknaraðila vera samhengislaus og einkennast af persónulegri heift í hans garð. Þá sé vegið að starfsheiðri hans með grófum hætti án þess að þær ávirðingar séu studdar rökum eða eigi erindi til úrskurðarnefndarinnar. 

Aukinheldur byggir varnaraðili frávísunarkröfu sína á því að umkvartanir sóknaraðila geti ekki átt undir nefndina. Bendir varnaraðili á að ágreiningur um endurgjald samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn geti ekki komið til skoðunar þar sem ekki sé gerð krafa um það í kvörtun. Jafnframt sé ljóst að enginn kröfuliður geti fallið undir 27. gr. sömu laga, þ.e. að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila þannig að stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.  

Um framsetta kröfuliði vísar varnaraðili aukinheldur til eftirfarandi. Varðandi fyrsta kröfulið um að búskiptum verði lokið án tafar bendir varnaraðili á að uppgjör liggi fyrir og hafi gert í talsverðan tíma. Auk þess rúmist krafan ekki innan 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, og fellur því utan valdsviðs nefndarinnar. Annar kröfuliður um afhendingu gagna vegna búskiptanna falli heldur ekki undir valdsvið nefndarinnar. Þriðji kröfuliður um að reikningsgerð verði löguð, falli heldur ekki undir valdsvið nefndarinnar auk þess sem reikningsskekkja sé að sögn varnaraðila ekki til staðar. Fjórði kröfuliður um að varnaraðili bæti og greiði fyrir ótilgreinda handvömm hans, falli utan valdsviðs nefndarinnar auk þess sem augljóst sé að mati varnaraðila að faglega hafi verið staðið að kynningu gagna og uppgjörs með því að senda það til eins erfingja, auk þess að boða aðra erfingja til fundar til að yfirfara þau. Þá telur varnaraðili fimmta kröfulið ekki heldur heyra undir valdsvið nefndarinnar.  

Þá vísar varnaraðili til þess að auk framangreindra kröfuliða í kvörtun komi fram í ódagsettu bréfi sóknaraðila með kvörtun, frekari ávirðingar í hans garð þar sem því sé haldið fram að uppgjör liggi ekki fyrir auk þess sem að ótilgreind mistök hafi verið gerð. Ítrekar varnaraðili að uppgjör liggi fyrir og mótmælir hann því að mistök hafi verið gerð. Byggir varnaraðili á að hverju sem því kann að líða heyri ekkert þeirra atriða sem upp eru talin undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar eins og sakir standi og sóknaraðilar setji þær fram.  

Komi til þess að efnisatriðum verði ekki vísað frá nefndinni krefst varnaraðili þess að sjónarmiðum sóknaraðila verði hafnað. Þá hafnar varnaraðili öllum ávirðingum sóknaraðila í hans garð sem röngum og ósönnuðum. Byggir varnaraðili á að vinna hans og hagsmunagæsla fyrir sóknaraðila hafi verið til fyrirmyndar og staðist lagakröfur sem og ákvæði siðareglna.  

Byggir varnaraðili á að hann hafi tekið að sér mál sem hann hafi bæði haft reynslu og þekkingu til að sinna og lagt allt sitt til málsins sem eðlilegt gæti talist. Þá hafi hann gætt hagsmuna umbjóðenda sinna í hvívetna. Að allar aðgerðir hafi verið unnar eins hratt og kostur var á miðað við umfang og þrátt fyrir vanstillingu sóknaraðila. Bendir varnaraðili á að erfingjar hafi fengið greitt umfram rétt sinn af fjármunum þeim sem til skipta voru.  

Vísar varnaraðili til þess, málskostnaðarkröfu sinni til stuðnings, að hvort heldur sem máli þessu verði vísað frá eða sjónarmiðum sóknaraðila hafnað, beri að bæta honum þá vinnu sem óhjákvæmilega hafi farið í vörn gegn ávirðingum sem eru ærumeiðandi og vegi að starfsheiðri hans. Telur varnaraðili málatilbúnað sóknaraðila allt í senn ósmekklegan, rangan og ástæðulausan með öllu. Þá beri að sögn varnaraðila að líta til þess að ranglega hafi verið farið með staðreyndir s.s. með fullyrðingum um að uppgjör hafi ekki verið afhent eða klárað. Kveður varnaraðili að vísvitandi hafi verið villt um fyrir nefndinni með röngum upplýsingum.  

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar eru framsettir kröfuliðir í kvörtun útskýrðir nánar og frekari gögn lögð fram málatilbúnaði sóknaraðila til stuðnings.  

Varðandi fyrsta kröfulið um að ljúka skiptum svo fljótt sem unnt er vísa sóknaraðilar til þess að varnaraðili hafi fengið búið í hendur í mars 2020. Þann 16. febrúar 2022 hafi [E], hálfbróðir sóknaraðila, ekki enn fengið greiðslu úr búinu þrátt fyrir ítrekaðar póstsendingar á varnaraðila, en hafði þá þegar greitt um 500.000 kr. í erfðafjárskatt. Benda sóknaraðilar á að uppgjör sem varnaraðili sendi með greinargerð til nefndarinnar er dagsett 17. maí 2022, rúmum tveimur árum eftir andlát móður þeirra, og að [E], hálfbróðir þeirra, hafi fengið það sent í tölvupósti þann sama dag. Mótmæla sóknaraðilar því að uppgjörið hafi legið fyrir í langan tíma með vísan til dagsetningar þess. Þá gera sóknaraðilar verulega athugasemd við að uppgjörið hafi ekki verið sent á þá samtímis hálfbróður þeirra. Benda sóknaraðilar á að varnaraðili hafi haft tölvupóstföng og símanúmer allra erfingja og auðvelt hefði verið fyrir hann að koma uppgjöri til þeirra allra með tölvupósti, eins og margoft hafði verið óskað af þeirra hálfu. Sérstaklega hefði það verið mikilvægt að mati sóknaraðila þar sem erfingjar voru lítið sem ekkert á Íslandi, líkt og fram kom í greinargerð varnaraðila. Auk framangreinds telja sóknaraðilar hið svonefnda uppgjör varnaraðila algjörlega óviðunandi og illa unnið, en engar skýringar fylgi greiðslum úr búinu fyrir utan greiðslu á legsteini.  

Varðandi annan kröfulið um afhendingu gagna árétta sóknaraðilar að þeir hafi ekki fengið upplýsingar um ráðstöfun fjármuna dánarbúsins sem fagmannlega unnið uppgjör ætti að sýna. Varðandi þriðja kröfulið um reikningsgerð vísa sóknaraðilar til fullyrðingar varnaraðila um að engin reikningsskekkja hafi átt sér stað og benda á að hún stangist á við það sem komi fram í greinargerð hans þess efnis að erfingjarnir hafi fengið greitt umfram rétt sinn af fjármunum þeim sem til skipta voru. Að mati sóknaraðila bendir það til þess að varnaraðili hafi greinilega gert mistök við útreikning búsins.  

Varðandi fjórða kröfulið um þá handvömm varnaraðila sem sóknaraðilar byggja á að hafi átt sér stað, vísa sóknaraðilar til þess sem fram komi í greinargerð varnaraðila þess efnis að hann telji faglegt að senda uppgjör til eins erfingja dánarbúsins en boða hina tvo til fundar, vitandi að þeir bjuggu eða dvöldu langdvölum erlendis. Þá hafna sóknaraðilar því að nokkur ofgreiðsla hafi átt sér stað til erfingja líkt og varnaraðili haldi fram. Umræddur erfingi sem meint ofgreiðsla á að hafa borist til, sem er jafnframt annar sóknaraðila málsins, hafi að sögn sóknaraðila, lánað varnaraðila persónulega 1.000.000 kr. af sínum arfshluta þann 24. júní 2020 líkt og fyrr greinir í lýsingu málsatvika. Kveða sóknaraðilar að þegar varnaraðili endurgreiddi lánið um ári síðar, hafi hann hins vegar greitt það með millifærslu í formi arfgreiðslu til þess erfingja, sem sóknaraðilum þykir óskiljanlegt með öllu. Vísa sóknaraðilar til framlagðrar kvittunar því til stuðnings. Að mati sóknaraðila fól þessi ráðstöfun í sér stórfelld mistök af hálfu varnaraðila.  

Þá vísa sóknaraðilar til þess að varnaraðili hafi samið við erfingja um 10-15 klst. vinnu og tímakaup upp á 28.000 kr. auk virðisaukaskatt. Síðar hafi hann reiknað sér 24 klst. og rukkað fyrir það 1.121.952 kr. sem samrýmist ekki því sem um var samið. Vísa sóknaraðilar til þess sem varnaraðili fullyrðir í greinargerð til nefndarinnar um að hafa bæði reynslu og þekkingu til að sinna svona málum, sem sóknaraðilar treystu. Að mati sóknaraðila kom þó annað á daginn og telja þeir að búskiptunum hafi verið lokið bæði seint og illa. Vísa sóknaraðilar jafnframt til þess að bankareikningum hafi ekki verið lokað né greiðslukortum og að upp hafi komið vanskil vegna handvammar varnaraðila.  

Telja sóknaraðilar það uppgjör sem varnaraðili sendi á erfingjann [E] og fylgdi með greinargerð varnaraðila til nefndarinnar, vera til háborinnar skammar fyrir lögmann með reynslu af erfðamálum. Byggja sóknaraðilar á að mistök hafi verið gerð við skiptingu dánarbúsins og kveðast verða að fá gögnin frá varnaraðila, sem þeir telja að muni sanna þeirra mál. Því árétta sóknaraðilar kröfuna um að fá uppgjör búsins ásamt kvittunum fyrir greiðslum úr búinu, fá yfirlit af vörslureikningi varnaraðila vegna dánarbúsins, fá yfirlit af reikningum í Íslandsbanka og að fá tímaskýrslu varnaraðila.  

Frestur varnaraðila til þess að koma að viðbótarathugasemdum í málinu rann út án þess að frekari gögn eða upplýsingar bærust frá honum. 

 

 

Niðurstaða 

Af hálfu varnaraðila var þess krafist að máli þessu yrði vísað frá úrskurðarnefndinni. Krafan er reist á því annars vegar að málatilbúnaður sóknaraðila sé svo óskýr og vanreifaður að ekki sé mögulegt að skilja umkvörtunarefnið eða að verjast kvörtuninni fyllilega. Hins vegar er á því byggt að þær kröfur sem fram koma í kvörtun sóknaraðila falli utan valdsviðs nefndarinnar til að leysa úr skv. 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. Vísast jafnframt um þetta til 2. tölul. 3. gr. og 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna. 

Í kvörtun sóknaraðila til nefndarinnar eru meðal annars upptaldar kröfur sem lúta að því að varnaraðila verði gert skylt að framfylgja tilteknum athöfnum sem rúmast ekki innan valdheimilda nefndarinnar. Þrátt fyrir það er að mati nefndarinnar nægilega ljóst af kvörtun og málatilbúnaði sóknaraðila að þeir telji varnaraðila hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem sóknaraðilar álíta stríða gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þannig er í kvörtun og málatilbúnaði sóknaraðila gerð grein fyrir forsögu málsins, hvaða háttsemi varnaraðila kvörtunin beinist gegn og að hvaða leyti sóknaraðilar telja varnaraðila hafa gert á sinn hlut með umræddri háttsemi. Að mati nefndarinnar verður sá málatilbúnaður skilinn með þeim hætti að þess sé krafist að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Telur nefndin málatilbúnað sóknaraðila ekki haldinn slíkum annmörkum eða svo óskýran og vanreifaðan að varðað geti við frávísun. Er því að mati nefndarinnar ekkert því til fyrirstöðu að leyst verði úr efni kvörtunarinnar út frá þeim valdheimildum sem nefndin hefur lögum samkvæmt.  

Að framanvirtu eru ekki talin skilyrði til að vísa kvörtun sóknaraðila frá nefndinni á þeim grundvelli sem varnaraðili krefst.  

Ágreiningur málsins lýtur að starfsháttum varnaraðila við skipti á dánarbúi móður sóknaraðila, [D], sem lést þann […]. Heimild til að bera slíkan ágreining undir nefndina er lögfest í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn líkt og ofar greinir.  

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.  

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð.  

Samkvæmt 12. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að reka það verkefni sem hann tekur að sér með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.  

Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna skulu uppgjör og skil lögmanns vera greinargóð.  

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu og umfjöllun um málatilbúnað aðila fyrir nefndinni lýtur ágreiningur málsins að störfum varnaraðila við ofangreind dánarbússkipti. Af málsgögnum verður ráðið að á meðan skiptum stóð hafi erfingjar, einkum sóknaraðilar, gengið ítrekað á eftir því við varnaraðila að skiptunum yrði lokið svo fljótt sem unnt væri, að veittar yrðu skýringar á framvindu skipta, afhentar yrðu upplýsingar um dánarbúið og skjöl auk þess sem uppgjörsgögn yrðu afhent. Þeim fyrirspurnum svaraði varnaraðili oft seint og illa.  Þá kvörtuðu sóknaraðilar undan vanskilakostnaði sem mun hafa fallið á dánarbúið á meðan skiptum dánarbúsins stóð og undan fjárhagslegu uppgjöri dánarbúsins. Þar sem varnaraðili hefur ekki afhent sóknaraðilum þau gögn og upplýsingar sem þeir hafa óskað eftir, né hafa þau verið lögð fyrir nefndina, getur nefndin að svo stöddu ekki lagt mat á það hvort mistök hafi átt sér stað við uppgjör dánarbúsins líkt og sóknaraðilar vísa til. Hið sama gildir um meint lán sóknaraðilans [B] til varnaraðila og meinta endurgreiðslu þess frá lögmannsstofu varnaraðila af eignum dánarbúsins. Hins vegar felur vanræksla varnaraðila á að svara fyrirspurnum sóknaraðila og veita ekki umbeðnar upplýsingar og gögn að mati nefndarinnar ein og sér í sér brot af hálfu varnaraðila gegn skyldum hans samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, um að lögmönnum beri að rækja störf sín af alúð og samkvæmt 3. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna um að uppgjör og skil lögmanna skuli vera greinargóð.  

Ekki liggur fyrir hvað orsakaði þann drátt á frágangi sölu fasteignar dánarbúsins sem fyrr er lýst, en af gögnum málsins má ráða að því hafi loks verið frágengið í mars 2021. Það var síðan ekki fyrr en 28. september sama árs sem varnaraðili lauk einkaskiptum dánarbúsins hjá sýslumanni. Varnaraðila bar skylda til að reka dánarbúskiptin með hæfilegum hraða ellegar að tilkynna sóknaraðilum um það ef verkið drægist. Þrátt fyrir fyrirspurnir og ítrekanir sóknaraðila á þeim tíma, var það fyrst þann 22. maí 2022 sem varnaraðili sendi einum erfingja dánarbúsins tölvupóst með reikningslegum forsendum uppgjörsins. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á því hvers vegna öðrum erfingjum var ekki kynnt sú niðurstaða, hvers vegna erfingjum voru ekki afhent gögn og upplýsingar varðandi uppgjör dánarbúsins þrátt fyrir fjölda beiðna þar að lútandi, né hvers vegna upplýsingar um uppgjör dánarbúsins hafi fyrst verið sendar og þá einungis einum erfingja, nærri níu mánuðum eftir að erfðafjárskýrsla var lögð fram hjá sýslumanni og skiptum lokið. Þá útreikninga kváðust sóknaraðilar í kvörtun til nefndarinnar ekki hafa fengið afhenta þrátt fyrir að hafa skýrlega óskað þeirra í tölvupóstum til varnaraðila auk þess að óska eftir því að uppgjörsgögn yrðu send öllum erfingjum. Að öllu framanvirtu þykir varnaraðili ekki hafa sinnt þeirri skyldu sinni samkvæmt 12. gr. siðareglna lögmanna við skipti dánarbúsins. 

Þá er hvergi í gögnum málsins að finna sönnun þess að varnaraðili hafi boðið sóknaraðilum að mæta á fund til að kynna sér uppgjör dánarbúsins líkt og byggt er á af hálfu varnaraðila, né verður að mati nefndarinnar talið að slíkt afsaki vanrækslu varnaraðila á að svara fyrirspurnum sóknaraðila og afhenda umbeðnar upplýsingar og gögn. Telja verður að varnaraðila hafi verið í lófa lagið að senda sömu uppgjörsupplýsingar og hann sendi einum erfingja þann 22. maí 2022 á alla erfingja dánarbúsins samtímis. Gengur framangreind háttsemi varnaraðila í berhögg við skyldur hans samkvæmt 1. mgr. 8. gr., 12. gr. og 3. mgr. 14. gr. siðareglna lögmanna auk 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  

Í samræmi við það sem að framan greinir er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi í störfum sínum gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Að teknu tilliti til alls framangreinds telur nefndin að um ítrekuð brot hafi verið að ræða af hálfu varnaraðila gegn þeim skyldum sem á varnaraðila hvíldu samkvæmt siðareglum lögmanna og lögmannalögum. Með þeim brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.  

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð : 

Kröfu varnaraðila, C lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni er hafnað. 

Varnaraðili,C lögmaður, sætir áminningu. 

Málskostnaður fellur niður.  

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA 

Kristinn Bjarnason, formaður  

Einar Gautur Steingrímsson 

Valborg Þ. Snævarr 

 

 

Rétt endurrit staðfestir 

 

 

________________________ 

Arnar Vilhjálmur Arnarsson