Mál 28 2022

Mál 28/2022

Ár 2023, fimmtudaginn 26. janúar, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2022:

A lögmannsstofa

gegn

B og C ehf.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 30. ágúst 2022 erindi D lögmanns fyrir hönd sóknaraðila, A ehf., en það lýtur að kröfum á hendur varnaraðilum, B, og C ehf., á grundvelli veittrar lögmannsþjónustu.

Við móttöku erindis sóknaraðila var litið svo á af hálfu nefndarinnar að ágreiningur kynni að vera á milli aðila um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess vegna starfa lögmanna hjá sóknaraðila í þágu varnaraðila, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfum nefndarinnar, dags. 7. september og 14. nóvember 2022, var varnaraðilum því veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindis sóknaraðila. Varnaraðilar létu málið ekki til sín taka fyrir nefndinni og var það því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili hefur lagt málið fyrir nefndina á grundvelli ógreiddra reikninga fyrir lögmannsstörf í þágu varnaraðila. Er málatilbúnaðurinn reistur á því að varnaraðili B, sem mun vera fyrirsvarsmaður C ehf. samkvæmt framlögðum gögnum, hafi stofnað til reikningsviðskipta við sóknaraðila og að á grundvelli þess réttarsambands hafi lögmenn sóknaraðila gætt hagsmuna varnaraðila í nokkrum málum. Samkvæmt ósk varnaraðila hafi reikningar verið gefnir út á varnaraðila C ehf. Í kjölfar þess að vinnu hafi verið lokið og komið hafi verið að uppgjöri hafi varnaraðilar neitað að greiða fyrir störf sóknaraðila.

Á meðal málsgagna er að finna hreyfingaryfirlit úr bókhaldi sóknaraðila, dags. 29. ágúst 2022. Samkvæmt því sem þar kemur fram gaf sóknaraðili út tólf reikninga á hendur varnaraðila C ehf. á tímabilinu frá 5. október 2021 til 29. ágúst 2022 að heildarfjárhæð 4.247.909 krónur. Ber yfirlitið jafnframt með sér að varnaraðilinn hafi greitt í fjögur skipti inn á kröfur samkvæmt útgefnum reikningum, alls að fjárhæð 1.989.356 krónur, síðast hinn 28. apríl 2022. Er skuld varnaraðilans við sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð 2.258.553 krónur samkvæmt yfirlitinu.

Á meðal málsgagna eru innheimtuviðvaranir og innheimtubréf sem beint var til varnaraðila C ehf. dagana 4. mars og 8. ágúst 2022 vegna ógreiddra krafna samkvæmt útgefnum reikningum sóknaraðila. Bera málsgögn ekki með sér að varnaraðilinn hafi brugðist sérstaklega við þeim áskorunum sóknaraðila um greiðslu krafnanna og munu þær enn vera ógreiddar.

II.

Sóknaraðili krefst þess að nefndin úrskurði að varnaraðila C ehf. beri að greiða útistandandi kröfur sóknaraðila vegna lögmannsstarfa. Er þess jafnframt krafist að varnaraðila B verði gert að greiða allar kröfurnar, in solidum, með varnaraðila C ehf., enda hafi hann stofnað persónulega til samningssambands við sóknaraðila þrátt fyrir að hluti vinnunnar hafi verið í þágu einkahlutafélags hans. Beri varnaraðili B þannig persónulega ábyrgð á greiðslum til sóknaraðila með varnaraðila C ehf. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

Sóknaraðili vísar til þess að reikningar vegna lögmannsstarfa í þágu varnaraðila og samkvæmt þeirra beiðni hafi ekki verið greiddir þrátt fyrir áskoranir og innheimtuaðgerðir. Nemi höfuðstóll ógreiddra krafna 2.258.553 krónum, sbr. fyrirliggjandi hreyfingaryfirlit.

Um forsögu málsins er vísað til þess að varnaraðilar hafi stofnað til reikningsviðskipta við sóknaraðila vegna lögmannsþjónustu. Samkvæmt því réttarsambandi hafi lögmenn hjá sóknaraðila annast hagsmunagæslu í þágu varnaraðila af kostgæfni og heilindum í nokkrum málum. Er því lýst að óskað hafi verið eftir að reikningar yrðu gefnir út á varnaraðila C ehf. og hafi það verið gert. Við lok réttarsambands aðila og uppgjör hafi varnaraðilar neitað að greiða reikninga vegna vinnunnar og það þrátt fyrir að hafa greitt í fjögur skipti inn á skuld við sóknaraðila.

Sóknaraðili byggir á að samninga beri að halda. Séu varnaraðilar í skuld við sóknaraðila sem þeim beri að greiða. Hafi innheimtuaðgerðir ekki borið árangur og greiðsluáskorunum sem beint hafi verið til varnaraðila ekki verið svarað. Sé sóknaraðili því nauðbeygður til að leita atbeina nefndarinnar.

Sóknaraðili vísar til þess að hagsmunagæsla í þágu varnaraðila hafi verið af ýmsum toga og að um talsvert mikla vinnu hafi verið að ræða. Megi upphaf samningssambands aðila rekja til samskipta við varnaraðila B sem óskað hafi eftir að lögmenn sóknaraðila myndu annast stefnugerð í meiðyrðamáli. Jafnframt því hafi varnaraðilinn óskað eftir að lögmenn sóknaraðila skoðuðu skattamál sem þá hafi verið til meðferðar gegn honum og möguleika á áfrýjun.

Því er lýst að lögmenn hjá sóknaraðila hafi rekið meiðyrðamál fyrir hönd varnaraðilans vegna ummæla um hann sem birt höfðu verið á samfélagsmiðlum. Hafi málið tapast fyrir héraðsdómi og varnaraðilinn ákveðið að málinu skyldi áfrýjað til Landsréttar. Málinu hafi loks verið vísað frá Landsrétti þar sem varnaraðilinn hafi ekki greitt þá málskostnaðartryggingu sem honum hafi verið gert að leggja fram.

Sóknaraðili vísar til þess að hagsmuna varnaraðila hafi jafnframt verið gætt í innheimtumáli vegna ætlaðra ógreiddra leigugreiðslna. Lýsir sóknaraðili því að í þágu varnaraðila hafi þess verið krafist að stefnandinn setti fram tryggingu til greiðslu málskostnaðar og að á þá kröfu hafi verið fallist með úrskurði eftir málflutning. Í framhaldi af því hafi verið krafist frávísunar vegna formgalla á málatilbúnaði stefnanda en þeirri kröfu verið hafnað með úrskurði héraðsdóms. Hafi því þurft að taka til efnisvarna í málinu. Er á því byggt að mikill tími og undirbúningur hafi farið í vinnu við málið en að sóknaraðili hafi neyðst til að segja sig frá málinu þann 16. ágúst 2022 þar sem útgefnir reikningar hafi ekki verið greiddir af hálfu varnaraðila.

Sóknaraðili vísar ennfremur til þess að ritaður hafi verið kaupréttarsamningur fyrir varnaraðila auk þess sem fundur hafi verið sóttur hjá nánar tilgreindu félagi vegna annars máls. Jafnframt því hafi lögmenn sóknaraðila séð um umtalsverð samskipti og vinnu í tengslum við umfjallanir fjölmiðla af málum varnaraðila B.

Sóknaraðili byggir á að bæði mikill tíma og mikil orka hafi farið í að veita varnaraðilum þá þjónustu sem óskað hafi verið eftir. Hafi reikningar verið gefnir út vegna þeirrar vinnu og beri varnaraðilum að greiða þá. Ljóst sé að varnaraðili B hafi óskað eftir að reikningar yrðu gefnir út á varnaraðilann C ehf. Hafi verið fallist á þá beiðni enda hafi sóknaraðila verið ókunnugt um innbyrðis viðskipti varnaraðila og hvaða réttlætingarástæður kynnu að vera fyrir því að félagið stæði straum af kostnaði vegna þjónustunnar. Þar sem varnaraðili B hafi kosið að klæða viðskipti sín í þann búning að varnaraðili C ehf. stæði fyrir greiðslu til sóknaraðila, sé gerð krafa um að varnaraðilar greiði útistandandi reikninga óskipt.

III.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir nefndinni.

Niðurstaða

                                                                          I.

Í 1. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er slíkt hið sama áréttað í 1. tölul. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem tiltekið er að hlutverk nefndarinnar sé að fjalla um ágreining á milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmanns, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan lagði sóknaraðila málið fyrir nefndina á grundvelli ógreiddra reikninga vegna lögmannsstarfa í þágu varnaraðila. Við móttöku erindis sóknaraðila var litið svo á af hálfu nefndarinnar að ágreiningur kynni að vera á milli aðila um umkrafið endurgjald vegna lögmannsstarfa og var varnaraðilum því veitt færi á að láta málið til sín taka og skila greinargerð vegna þess. Kom ekki til slíks af hálfu varnaraðila. Skal í því samhengi tekið fram að varnaraðilum bar engin slík skylda til að svara erindum nefndarinnar og láta þannig málið til sín taka ólíkt því sem á við um lögmenn, sbr. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna.

Svo sem fyrrgreindar heimildir bera með sér er skilyrði þess að unnt sé að leggja mál fyrir nefndina sem lýtur að endurgjaldi vegna starfa lögmanna í þágu umbjóðanda eða fjárhæð þess að ágreiningur sé á milli aðila um slíkt efni. Hvað það skilyrði varðar er ekki fullnægjandi að mati nefndarinnar að vísa til þess að útgefnir reikningar vegna lögmannsstarfa séu ógreiddir enda getur svo verið án þess að sérstakur ágreiningur sé í reynd á milli lögmanns og umbjóðanda um endurgjaldið eða fjárhæð þess. Getur greiðsludráttur umbjóðanda vegna útgefinna reikninga lögmanna þannig t.d. stafað af peningaleysi eða greiðsluþroti án þess að ágreiningur sé til staðar um réttmæti hins áskilda endurgjalds.

Í máli þessu liggur fyrir að gefnir voru út 12 reikningar af hálfu sóknaraðila á hendur varnaraðila C ehf. vegna lögmannsstarfa, þ.e. á tímabilinu frá 5. október 2021 til 29. ágúst 2022. Jafnframt því liggur fyrir að varnaraðilinn greiddi í fjögur skipti inn á kröfur samkvæmt útgefnum reikningnum, síðast hinn 28. apríl 2022.

Samkvæmt málsgögnum beindi sóknaraðila innheimtuviðvörunum og innheimtubréfum til varnaraðila C ehf. dagana 4. mars og 8. ágúst 2022 vegna hinna ógreiddu krafna. Liggur fyrir að eftir að innheimtubréf hinn fyrrgreinda dag var sent innti varnaraðilinn af hendi greiðslu til sóknaraðila að fjárhæð 800.000 krónur, sbr. hreyfingaryfirlit sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.

Af málsgögnum verður ekki séð að varnaraðilar hafi hreyft nokkrum athugasemdum gagnvart sóknaraðila vegna útgefinna reikninga og þess áskilda endurgjalds vegna lögmannsstarfa sem þeir taka til. Er einnig til þess að líta að ekki verður ráðið af málsgögnum að sóknaraðili hafi í undanfara máls þessa haft uppi slíkar kröfur á hendur varnaraðila B, þ.e. hvorki samkvæmt útgefnum reikningum né innheimtubréfum, sem hann gerir í máli þessu. Hafa reikningar þannig verið gefnir út á hendur varnaraðila C ehf. og öllum innheimtubréfum verið beint að þeim aðila. Þá staðfestir sóknaraðili í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni að varnaraðilinn hafi ekki svarað þeim greiðsluáskorunum sem til hans hafi verið beint.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður hvorki leitt af málsgögnum né málatilbúnaði sóknaraðila að ágreiningur sé á milli hans og varnaraðila um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess samkvæmt útgefnum reikningum vegna lögmannsstarfa, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Þegar af þeirri ástæðu brestur nefndina vald til að þess að taka til greina kröfur sóknaraðila í málinu. Með skírskotan til þess verður að vísa málinu í heild sinni frá nefndinni. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

Rétt endurrit staðfestir

 

________________________

Sölvi Davíðsson