Mál 30 2022

Mál 30/2022

Ár 2023, þriðjudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2022:

A lögmaður f.h. B ehf.

gegn

C

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 28. september 2022 erindi A lögmanns fyrir hönd sóknaraðila, B ehf., vegna ágreinings milli sóknaraðila og D ehf., og varnaraðila C, um rétt lögmanns til endurgjalds eða fjárhæð þess sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með úrskurði nefndarinnar þann 26. janúar 2023 var upphaflegu erindi sóknaraðila vísað frá nefndinni þar sem ekki þótti sannað af gögnum málsins að til staðar væri ágreiningur milli aðilanna um rétt lögmanns til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þann 2. febrúar 2023 óskaði sóknaraðili eftir endurupptöku málsins á grundvelli 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem hann taldi úrskurðinn hafa byggt á ófullnægjandi gögnum og upplýsingum. Endurupptökubeiðnin var tekin fyrir á fundi nefndarinnar þann 8. mars 2023 þar sem fallist var á að málið skyldi endurupptekið gagnvart varnaraðila, C en endurupptöku hafnað gagnvart félaginu D ehf. Var varnaraðila gefinn kostur á að skila inn greinargerð til nefndarinnar vegna endurupptöku málsins sem barst nefndinni þann 15. maí 2023. Sóknaraðili skilaði nefndinni viðbótarathugasemdum þann 22. maí 2023. Þann 26. júní 2023 bárust nefndinni síðan viðbótarathugasemdir varnaraðila. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili hefur lagt málið fyrir nefndina á grundvelli ógreidds reiknings fyrir lögmannsstörf í þágu varnaraðila. Er málatilbúnaðurinn reistur á því að varnaraðili, sem mun vera fyrirsvarsmaður D ehf., hafi stofnað til reikningsviðskipta við sóknaraðila og að á grundvelli þess réttarsambands hafi lögmenn sóknaraðila gætt hagsmuna félagsins í nánar tilgreindu dómsmáli. Er á meðal málsgagna að finna umboð sóknaraðila til hagsmunagæslu vegna málsins en varnaraðili undirritaði þau fyrir hönd D ehf. dagana 31. ágúst og 14. september 2021. Lýsir sóknaraðili því einnig að við lok réttarsambands aðila og uppgjör hafi varnaraðili neitað að greiða fyrir störf sóknaraðila.

Á meðal málsgagna er að finna greinargerðardrög og drög að yfirmatsbeiðni, dags. 1. og 4. nóvember 2021, sem lögmenn sóknaraðila unnu í þágu D ehf. vegna málsins nr. […] sem rekið var fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. Auk þess liggur fyrir hlutlægt mat sóknaraðila vegna málsins, sem mun hafa verið sent til varnaraðila þann 4. nóvember 2021, þar sem forsögu málsins og atvikum var meðal annars lýst. Jafnframt var tiltekið í erindinu það hlutlæga mat sóknaraðila að ekki væri grundvöllur til þess að fara lengra með málið án verulegs tilkostnaðar fyrir D ehf. Ef vilji væri hins vegar til að halda málarekstrinum áfram þyrfti að millifæra 500.000 krónur inn á fjárvörslureikning sóknaraðila.

Á meðal málsgagna eru einnig innheimtuviðvörun til D ehf. dags. 4. janúar 2022 að fjárhæð 308.001 kr. og innheimtubréf sem beint var til varnaraðila dags. 3. ágúst 2022 að fjárhæð 596.193 kr. vegna ógreiddra krafna samkvæmt útgefnum reikningum sóknaraðila. Bera málsgögn ekki með sér að varnaraðili hafi brugðist sérstaklega við áskorunum sóknaraðila um greiðslu undirliggjandi krafna.

Í kjölfar þess að máli þessu var vísað frá nefndinni lagði sóknaraðili sem áður greinir fram endurupptöku beiðni og samhliða henni nýtt gagn sem var tölvupóstsamskipti fyrirsvarsmanns sóknaraðila og varnaraðila síðan 21. október 2022 þar sem aðilar deildu um hvort til reikningsviðskipta hafi stofnast milli sóknaraðila og varnaraðila og hvort hinn síðarnefndi ætti að bera greiðsluskyldu vegna starfa sóknaraðila í þágu D ehf. á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar.

II.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða útistandandi kröfu um lögmannsþóknun hans, in solidum, með D ehf. Er vísað til þess að umbjóðandi sóknaraðila hafi verið varnaraðili, vegna hagsmuna sinna og tengsla við félagið D ehf. Þar sem félagið hafi verið stefndi í dómsmálinu sé rétt að báðir aðilar beri in solidum ábyrgð á skuld varnaraðila.

Sóknaraðili vísar til þess að reikningur vegna lögmannsstarfa í þágu verksins og samkvæmt þeirra beiðni hafi ekki verið greiddur þrátt fyrir áskoranir og innheimtuaðgerðir. Nemi fjárhæð reikningsins 596.193 krónum með vöxtum til 3. ágúst 2022 og innheimtukostnaði.

Um forsögu málsins er vísað til þess að varnaraðili hafi stofnað til reikningsviðskipta við sóknaraðila vegna lögmannsþjónustu. Samkvæmt því réttarsambandi hafi lögmenn hjá sóknaraðila annast hagsmunagæslu í þágu varnaraðila og D ehf. af kostgæfni og heilindum. Við lok réttarsambands aðila og uppgjör hafi varnaraðili neitað að greiða viðkomandi reikning.

Sóknaraðili byggir á að samninga beri að halda. Sé varnaraðili í skuld við sóknaraðila sem honum beri að greiða. Hafi innheimtuaðgerðir ekki borið árangur og greiðsluáskorunum sem beint hafi verið til varnaraðila ekki verið svarað. Sé sóknaraðili því nauðbeygður til að leita atbeina nefndarinnar.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi leitað til hans með beiðni um aðstoð við endurupptöku dóms sem þá hafi nýlega fallið gegn félagi í hans eigu, þ.e. D ehf. Hafi varnaraðili verið persónulega í ábyrgð fyrir þeim fjármunum sem D ehf. hafi verið dæmt til þess að greiða. Um útivistardóm hafi verið að ræða en varnaraðili upplýst að dómurinn væri kolrangur enda hefði hann ekki náð að grípa til varna og sýna og sanna mál sitt. Lýsir sóknaraðili því að varnaraðili hafi einnig upplýst að hann hefði fjölda sönnunargagna undir höndum, sem ekki hafi legið til grundvallar dómi héraðsdóms. Af þeim væri ljóst að varnaraðili og félagið hefðu verið hafðir fyrir rangri sök. Væri þar einkum um að ræða hljóðupptökur af símtölum við stefnendur í viðkomandi máli.

Sóknaraðili vísar til þess að dómsmálið hafi verið endurupptekið og að í kjölfar þess hafi lögmenn stofunnar tekið að sér hagsmunagæslu í málinu samkvæmt beiðni varnaraðila. Þegar komið hafi að greinargerðarskrifum hafi alltaf staðið á varnaraðila að skila af sér upptökunum svo hægt yrði að dikta þær upp og leggja fram í dómi. Af þeim sökum hafi þurft að óska eftir viðbótarfresti til framlagningar greinargerðar. Lýsir sóknaraðili því að slíkt hafi endurtekið sig uns ekki hafi verið hægt að fá frekari fresti hjá dómstólnum. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir, áminningar og viðvaranir frá sóknaraðila um afleiðingar þess að skila upptökunum ekki af sér, hafi ekki orðið úr þeim áætlunum varnaraðila.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi verið upplýstur um að ekki væri grundvöllur til að halda málarekstrinum áfram. Hafi varnaraðili neitað að undirrita minnisblað sóknaraðila þar sem þær upplýsingar hafi komið fram. Varnaraðilinn hafi þó svarað tölvubréfi sóknaraðila þar sem minnisblaðið hafi verið sett sem viðhengi og sanni það að varnaraðilinn hafi verið meðvitaður um afstöðu lögmanna hjá sóknaraðila.

Varðandi sameiginlega ábyrgð varnaraðila á greiðslu útgefins reiknings sóknaraðila vísar sóknaraðili til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7771/2020 og dóms Hæstaréttar í máli nr. 191/1974.

Í beiðni sinni um endurupptöku vísar sóknaraðili til samskiptagagna milli fyrirsvarsmanns sóknaraðila og varnaraðila síðan 21. október 2022 þar sem aðilarnir deila um skyldu hins síðarnefnda til að greiða sóknaraðila fyrir störf lögmanns.

III.

Varnaraðili krefst þess að máli þessu verði vísað frá nefndinni.

Vísar varnaraðili til þess að máli þessu hafi áður verið vísað frá nefndinni með úrskurði þann 26. janúar 2023 og að úrskurðir nefndarinnar séu endanlegir á stjórnsýslustigi. Þá byggir varnaraðili á því að engin heimild sé til að endurupptaka málið heldur geri 17. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þvert á móti ráð fyrir því að aðilar skuli leita til dómstóla til að hnekkja niðurstöðu nefndarinnar. Telur varnaraðili óheimilt að byggja á reglum stjórnsýsluréttar til grundvallar endurupptöku í málinu.

Þá byggir varnaraðili á því að telji nefndin á annað borð heimilt að endurupptaka málið á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þá hafi nefndin brotið gegn andmælarétti hans samkvæmt IV. kafla sömu laga við þá ákvörðun, enda hafi varnaraðila ekki verið veitt færi á að andmæla endurupptökubeiðninni. Hann hafi ekki heldur fengið tilkynningu um meðferð málsins samkvæmt þeim sömu lögum áður en ákvörðun um endurupptöku var tekin. Þar af leiðandi telur varnaraðili ákvörðun nefndarinnar um endurupptöku málsins ólögmæta.

Þá byggir varnaraðili á því að óháð öðru geti endurupptaka málsins ekki byggt á gögnum sem lágu fyrir þegar málið var upphaflega til meðferðar fyrir nefndinni og sóknaraðila var í lófa lagið að leggja fram til nefndarinnar. Telur varnaraðili að sóknaraðili verði að bera hallan af því ef að málið hafi þótt ónægilega upplýst þegar það var fyrst tekið til meðferðar hjá nefndinni sökum þess að sóknaraðili hafi ekki lagt fram öll gögn sem hann hafði og skipt gætu máli.

Sé málinu eigi vísað frá nefndinni byggir varnaraðili á að hafna beri kröfum sóknaraðila. Vísar varnaraðili til þess að hann hafi aldrei stofnað til reikningsviðskipta við sóknaraðila heldur hafi hann þurft að greiða talsverðar fjárhæðir í fyrirframgreiðslu fyrir hvern verklið sem sóknaraðili vann, eða vann ekki. Telur varnaraðili sig raunar hafa ofgreitt sóknaraðila um tvær milljónir króna fyrir vinnu sem aldrei var unnin.

IV.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar er mótmælt málsatvikalýsingu varnaraðila sem rangri, ósannaðri og villandi að því leyti sem hún samrýmist ekki hans málatilbúnaði. Varðandi umboð sem liggja fyrir í málinu bendir sóknaraðili á að um hafi verið að ræða samhljóða umboð en vegna handvammar fyrrum fulltrúa sóknaraðila hafi varnaraðila verið gert að undirrita síðara umboðið. Mótmælir sóknaraðili öllum málatilbúnaði varnaraðila og ítrekar kröfur sínar.

V.

 Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar áréttar varnaraðili margt það sem fram kom í greinargerð hans til nefndarinnar. Telur varnaraðili endurupptöku málsins sem slíka ólögmæta og skilyrði fyrir henni allt að einu ekki uppfyllt. Telur varnaraðili að sóknaraðili sem sérfræðingur á þessu sviði, geti ekki borið fyrir sig eigin vanreifun sem grundvöll endurupptöku málsins, því hann lagði ekki fram gagn sem hann sannarlega hafði undir höndum við fyrri afgreiðslu úrskurðar í málinu. 

Niðurstaða

                                                                           I.

Í 1. málsl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 er kveðið á um að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Er slíkt hið sama áréttað í 1. tölul. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna þar sem tiltekið er að hlutverk nefndarinnar sé að fjalla um ágreining á milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmanns, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum.

Líkt og rakið er í málsatvikalýsingu að framan lagði sóknaraðila málið fyrir nefndina á grundvelli ógreidds reiknings vegna lögmannsstarfa hans í þágu D ehf. sem sóknaraðili telur varnaraðila bera ábyrgð á að greiða in solidum með félaginu.

Svo sem fyrrgreindar heimildir bera með sér er skilyrði þess að unnt sé að leggja mál fyrir nefndina sem lýtur að endurgjaldi eða fjárhæð þess vegna starfa lögmanna í þágu umbjóðanda að ágreiningur sé á milli aðila um slíkt efni. Hvað það skilyrði varðar er ekki fullnægjandi að mati nefndarinnar að vísa til þess að útgefinn reikningur vegna lögmannsstarfa sé ógreiddur enda getur svo verið án þess að sérstakur ágreiningur sé í reynd á milli lögmanns og umbjóðanda um endurgjaldið eða fjárhæð þess.

Varnaraðili hefur mótmælt því að skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi. Hefur hann byggt á því að óheimilt sé að byggja ákvörðun um endurupptöku á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt að hafi slíkt á annað borð verið heimilt hafi nefndinni borið að veita honum andmælarétt áður en áður en fallist var á endurupptökubeiðni sóknaraðila.

Í 4. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna fari eftir stjórnsýslulögum nema annað leiði af ákvæðum V. kafla lögmannalaga. Nefndin setur sér innan þess ramma nánari reglur um meðferð einstakra málaflokka. Samkvæmt 22. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um erindisrekstur fyrir nefndinni að öðru leyti en greinir í fyrri ákvæðum reglnanna. Aukinheldur fela ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í sér lágmarkskröfur til málsmeðferðar sem gilda um það þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir líkt og úrskurðarnefnd lögmanna, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Því er ljóst að ákvæði stjórnsýslulaga gilda um störf nefndarinnar svo framarlega sem önnur sértækari ákvæði lögmannalaga eða annarra sérlaga ganga ekki framar. Með vísan til þess getur aðili beiðst endurupptöku á máli sínu fyrir nefndinni samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu skilyrði fyrir því á annað borð uppfyllt. Stjórnvöld hafa rúmar heimildir til að endurupptaka stjórnvaldsákvarðanir telji þau á annað boð forsendur slíks fyrir hendi. Með ákvörðun um endurupptöku stjórnsýslumáls er ekki tekin ný stjórnvaldsákvörðun heldur fyrri ákvörðun endurupptekin svo sem vegna þess að ákvörðun hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun nefndarinnar byggði á nýjum upplýsingum sem virtust kunna sýna að til staðar væri ágreiningur um rétt lögmanns til endurgjalds eða fjárhæð þess ólíkt fyrri niðurstöðu nefndarinnar í málinu. Í kjölfar ákvörðunar nefndarinnar um endurupptöku var varnaraðila gefin kostur á að skila inn greinargerð og síðar viðbótarathugasemdum vegna málsins líkt og lög og reglur nefndarinnar gera ráð fyrir.

Samkvæmt málsgögnum sendi sóknaraðili innheimtuviðvörun til D ehf. þann 4. janúar 2022 vegna skuldar samkvæmt reikningum sem gjaldféllu 1. nóvember og 1. desember 2021. Var í innheimtuviðvöruninni jafnframt gerð grein fyrir tveimur innborgunum félagsins inn á kröfurnar, þ.e. dagana 31. ágúst og 10. nóvember 2021. Bera málsgögn einnig með sér að sóknaraðili hafi sent innheimtubréf til varnaraðila þann 3. ágúst 2022 en í því var lýst að um væri að ræða kröfu vegna lögfræðiráðgjafar sem hefði verið á gjalddaga þann 2. desember 2021.

Af málsgögnum má ráða að varnaraðili hafi mótmælt innheimtum sem beindust að honum vegna starfa sóknaraðila í þágu D ehf. á þeim grundvelli að hann bæri enga ábyrgð á að greiða þá persónulega. Í málinu liggja fyrir tvo umboð sem virðast stafa frá sóknaraðila vegna félagsins D ehf. Í hvorugu umboði er að sjá að varnaraðili óski persónulega eftir lögmannsþjónustu frá sóknaraðila né má þar finna því stað að varnaraðili hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna skulda félagsins D ehf. gagnvart sóknaraðila. Eins og mál þetta liggur fyrir nefndinni er því með öllu ósannað að varnaraðili beri nokkra greiðsluskyldu gagnvart sóknaraðila vegna starfa lögmanna hans í þágu áðurnefnds félags og telur nefndin því engar forsendur til að fallast á rétt sóknaraðila til endurgjalds frá varnaraðila fyrir störf sóknaraðila í þágu D ehf., sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Með skírskotun til þess verður er kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, C, um frávísun málsins, er hafnað.

Sóknaraðili, A lögmaður, f.h. B ehf., á ekki rétt til endurgjalds úr hendi varnaraðila, C, vegna starfa hans í þágu félagsins D ehf.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, formaður

Einar Gautur Steingrímsson

Valborg Þ. Snævarr

 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

 

________________________

Arnar V. Arnarsson