Mál 35 2022
Mál 35/2022
Ár 2023, miðvikudaginn 14. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 35/2022:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. nóvember 2022 kvörtun [C] lögmanns fyrir hönd [A] gegn [B] lögmanni, vegna starfa fulltrúa hans.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 23. nóvember 2022 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Greinargerð varnaraðila barst nefndinni 13. desember 2022 og var samdægurs send sóknaraðila til athugasemda. Viðbótar athugasemdir sóknaraðila bárust 5. janúar 2023 og voru þær samdægurs sendar varnaraðila og honum gefinn frestur til þess að koma á framfæri viðbótar athugasemdum. Viðbótar athugasemdir varnaraðila bárust nefndinni þann 27. janúar 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
Sóknaraðili og umbjóðandi varnaraðila voru áður í hjúskap. Skildu þau að borði og sæng og slitu fjárfélagi sínu með samningi um fjárskipti vegna skilnaðar dags. 23. apríl 2019. Í samningnum var meðal annars samið um að fasteign sem í hjúskapnum var skráð eign beggja aðila, kæmi í hlut sóknaraðila, án þess að umbjóðandi varnaraðila gerði kröfu til hennar, þó að uppfylltum þremur skilgreindum skilyrðum. Árið 2020 var þinglýstum eignarheimildum fasteignarinnar breytt í samræmi við fjárskiptasamninginn og sóknaraðili einn skráður eigandi. Sama ár endurfjármagnaði sóknaraðili áhvílandi lán á eigninni með nýrri lántöku. Í febrúar 2022 seldi sóknaraðili síðan fasteignina og greiddi upp áhvílandi lán við sölu á henni.
Umbjóðandi varnaraðila taldi háttsemi sóknaraðila við og í kjölfar sölu fasteignarinnar brjóta gegn skilyrðum fjárskiptasamningsins og þ.a.l. að forsendur fyrir eftirgjöf hans samkvæmt fjárskiptasamningnum á hlutdeild í fasteigninni brostnar. Sendi varnaraðili kröfubréf fyrir hönd umbjóðanda síns til sóknaraðila dags. 24. maí 2022 þar sem greint var frá þessum sjónarmiðum og gerð krafa um hlutdeild af söluandvirði fasteignarinnar, að frádregnum lánauppgreiðslum og söluþóknun fasteignasölu. Skoraði varnaraðili á sóknaraðila að afhenda án tafar gögn þar að lútandi svo unnt væri að reikna út kröfur umbjóðanda varnaraðila nánar. Því kröfubréfi brást sóknaraðili við með svarbréfi dags. 8. júlí 2022, þar sem kröfu umbjóðanda varnaraðila var hafnað með öllu og því lýst yfir að sóknaraðili myndi ekki standa í þeirri gagnaöflun sem óskað var eftir. Tveimur virkum dögum síðar, þann 12. júlí 2022 sendi fulltrúi varnaraðila tölvupóst á [banka], sem lánveitanda fasteignalánanna sem áður hvíldu á eigninni. Efni tölvupóstsins var svohljóðandi: „Til mín hefur leitað [umbjóðandi varnaraðila] vegna hjónaskilnaðar, sbr. meðfylgjandi lögmannsumboð. Þau hjónin voru eigendur að fasteigninni […]. Áhvílandi á eigninni voru fjögur veðskuldabréf, sbr. hjálagt sem voru gerð upp þegar eignin var seld fyrr á þessu ári. Óskað er eftir upplýsingum og gögnum um uppgreiðsluverðmæti allra lána sem voru gerð upp við söluna.“ Með tölvupóstinum sendi fulltrúinn auk umboðs, afrit lánaskjalanna sem aðilarnir höfðu gert saman árið 2019 fyrir skilnað þeirra. Degi síðar, þann 13. júlí 2022 sendi starfsmaður bankans umbeðnar upplýsingar um uppgreiðslu lánanna sem greidd voru við sölu fasteignarinnar árið 2022.
Með kröfubréfi dags. 20. júlí 2022 fylgdi fulltrúi varnaraðila, fyrir hönd varnaraðila, eftir fyrra kröfubréfi dags. 24. maí 2022. Í síðara kröfubréfinu var tilgreint uppgreiðsluverð lánanna með nákvæmni og lagt fram afrit af uppgreiðslukvittunum lánanna frá bankanum til stuðnings kröfufjárhæðinni. Í kjölfarið sendi lögmaður sóknaraðila fyrirspurn á bankann og fékk staðfestingu á því að bankanum hafi borist erindi frá fulltrúa varnaraðila og hafi fyrir mistök sent téðar uppgreiðslukvittanir til hans. Baðst starfsmaður bankans innilegrar velvirðingar á þeim mistökum og sendi jafnframt tölvupóst á fulltrúa varnaraðila þar sem sagði að: „Í svari við neðangreindri beiðni geri ég þau mistök að senda upplýsingarnar um uppgreiðslu lánanna [útfellt númer láns 1] og [útfellt númer láns 2] sem tekin eru af [sóknaraðila] og uppgreidd voru fyrr á árinu 2022. Það er ljóst að mér hefur verið það óheimilt þar sem [sóknaraðili] er [einn] eigandi eignarinnar þegar uppgreiðslan á sér stað.“
Þann 2. ágúst 2022 sendi síðan lögmaður sóknaraðila tölvupóst til fulltrúa varnaraðila vegna málsins þar sem sagði: „Hef verið í samskiptum við þjónustufulltrúa hjá [banka] vegna eignarinnar og fengið uppl. um þau tölvupóstsamskipti. Áður en lengra er haldið: Hvað gekk þér til með að óska eftir upplýsingum um stöðu lána (uppgreiðsluverðmæti) á eign sem var alfarið í eigu og skráð á umbjóðanda minn [einn] við sölu eignarinnar? Þú gerðir þér væntanlega grein fyrir hvaða gjörning þú varst að framkvæma þarna, eftir að hafa óskað eftir þessum upplýsingum frá umbjóðanda mínum en beiðninni einfaldlega hafnað? Þá á ég við að þú hefur væntanlega áttað þig á að þú hafðir enga heimild til að óska eftir né til aðgangs að þessum upplýsingum sem óskaðir eftir, en framkvæmdir samt sem áður, vísvitandi um mögulegar afleiðingar?“
Þeim tölvupósti svaraði fulltrúi varnaraðila hinn 16. ágúst 2022 með eftirfarandi hætti: „Hvað umrædda gagnaöflun varðar þá áttaði ég mig hreinlega ekki á því að tvö af þeim fjórum veðskuldabréfum sem hvíldu á eigninni tilheyrðu eingöngu umbjóðanda þínum. Hin tvö hvíldu á báðum aðilum sem umbjóðandi minn greiddi af en þau voru gerð upp áður en eignin var seld. Ábyrgðaraðilinn sem tók ákvörðun um vinnsluna og miðlun þessara gagna hefur viðurkennt sín mistök. Hvað mig varðar þá hef ég þegar eytt tölvupóstinum frá bankanum og viðhengjunum og biðst afsökunar á þessum mistökum.“
Í kjölfarið rataði ágreiningsmál sóknaraðila og umbjóðanda varnaraðila fyrir dómstóla. Sóknaraðili telur háttsemi fulltrúa varnaraðila, sem fólst í að óska eftir og afla umræddra upplýsinga um lán sóknaraðila, brjóta gegn ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglna lögmanna og bar því kvörtun þessa undir úrskurðarnefndina.
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Jafnframt að varnaraðila verði gert skylt að greiða sóknaraðila málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni skv. 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Varðandi málsatvik vísar sóknaraðili til þess að hafa þann 24. maí 2022 fengið bréf frá varnaraðila þar sem m.a. hafi verið óskað eftir afhendingu gagna varðandi lán sem hvíldu á fasteign sóknaraðila og gögn sem lutu að uppgreiðslu þeirra lána. Kveðst sóknaraðili ekki hafa talið ástæðu til að verða við þeim óskum, enda hafi verið um að ræða upplýsingar um lán og uppgreiðslu þeirra sem hann einn var skráður fyrir og innihélt persónuupplýsingar sem var öðrum óviðkomandi. Hafnaði sóknaraðili því beiðninni og jafnframt greiðsluáskorun varnaraðila með bréfi, dags. 8. júlí 2022.
Bendir sóknaraðili á að í kjölfar þeirrar höfnunar hafi fulltrúi varnaraðila haft samband við [banka] þann 12. júlí 2022 og óskað eftir aðgangi að gögnum er tengdust lánum sóknaraðila, sem starfsmaður bankans hafi fyrir mistök orðið við þann 13. júlí 2022. Telur sóknaraðili af framangreindu ljóst að varnaraðili hafi haft vitneskju um að lánin væru eingöngu skráð á nafn sóknaraðila, enda hafði varnaraðili áður skorað á sóknaraðila að veita umbjóðanda hans aðgang að umræddum gögnum og sóknaraðili hafnað því. Í framhaldi þeirrar höfnunar hafi fulltrúi varnaraðila beint áðurnefndri beiðni til [banka] um aðgang að umræddum gögnum og að þeim fengnum sent sóknaraðila bréf dags. 20. júlí 2022 þar sem krafist var greiðslu í samræmi við upplýsingarnar sem komu fram á þeim gögnum.
Vísar sóknaraðili til þess að starfsmaður [banka] hafi viðurkennt sín mistök og upplýst varnaraðila og sóknaraðila um þau og áréttað að hafa ekki átt að senda varnaraðila umrædd gögn, enda hafi lánin einvörðungu verið skráð á sóknaraðila. Í tölvupósti starfsmanns bankans til lögmanns sóknaraðila er tilgreint að starfsmanninum hafi orðið ljóst að sér hafi verið óheimilt að verða við beiðni fulltrúa varnaraðila um umbeðnar upplýsingar þar sem sóknaraðili var einn eigandi eignarinnar þegar uppgreiðsla lánanna átti sér stað.
Að mati sóknaraðila má af þessu ráða að varnaraðili hafi, gegn betri vitund, óskað eftir gögnum sem honum var óheimilt að fá aðgang að og hagnýtt sér þær upplýsingar sem fram komu í þeim í dómsmáli milli aðila. Við þessa starfshætti varnaraðila gerir sóknaraðili alvarlegar athugasemdir. Vísar sóknaraðili til gagna málsins til nánari fyllingar málsatvika og áréttar að kvartað sé yfir starfsháttum varnaraðila, en ekki deilt um réttmæti kröfu umbjóðanda hans en síðarnefnt ágreiningsefni er til meðferðar hjá dómstólum.
Kröfum sínum til stuðnings vísar sóknaraðili aðallega til laga um lögmenn nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna sem settar eru á grundvelli 2. mgr. 5. gr. sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Byggir sóknaraðili m.a. á því að varnaraðili hafi gerst brotlegur gegn 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem varnaraðili hafi neytt ólögmætra úrræða til þess að komast yfir gögn sem hann vissi að hann hefði ekki heimild til þess að komast yfir með umboði umbjóðanda hans. Lánin sem um ræðir voru einungis á nafni sóknaraðila, líkt og varnaraðila var ljóst, enda hafði honum þegar verið neitað um aðgang að nákvæmlega sömu gögnum af sóknaraðila skömmu áður. Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi brotið gegn ákvæðum siðaregla lögmanna, einkum 1. mgr. og 2. mgr. 1. gr. og 2. gr. Auk þess telur sóknaraðili að varnaraðili kunni að hafa brotið gegn öðrum og fleiri ákvæðum lögmannalaga og siðareglna lögmanna.
III.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert skylt að greiða varnaraðila málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Varnaraðili mótmælir málavöxtum í kvörtun sem röngum og sem ófullnægjandi um veigamikil atriði vegna samhengis kvörtunarinnar.
Kveður varnaraðili kvörtunarefni málsins tengjast dómsmáli sem umbjóðandi varnaraðila höfðaði á hendur sóknaraðila í október 2022 og lýtur að kröfu umbjóðanda varnaraðila í söluandvirði fasteignar á grundvelli fjárskiptasamnings, skráðra eignarheimilda og meginreglna um helmingaskiptareglu við hjúskaparslit. Forsendur fyrir fráviki þaðan hafi verið bundið skilyrðum um búsetu sóknaraðila og barna þeirra í tilteknu sveitarfélagi sem ekki hafi verið uppfyllt. Sendi fulltrúi varnaraðila af því tilefni kröfubréf til sóknaraðila, dags. 24. maí 2022, þar sem krafa umbjóðanda varnaraðila var sett fram auk þess sem farið var fram á afhendingu gagna sem lutu að sölu fasteignarinnar, þ.m.t. uppgreiðslu lána sem á eigninni hvíldu við sölu.
Kveður varnaraðili fulltrúa sinn hafa haft samband við [banka] með tölvupósti hinn 12. júlí 2022 vegna höfnunar sóknaraðila á að afhenda umbeðin gögn og óskað eftir upplýsingum um uppgreiðslu á fjórum lánum sem fulltrúinn hafi ranglega talið hafa verið gerð upp við sölu fasteignarinnar í febrúar 2022. Að sögn varnaraðila stóð fulltrúi hans á þessum tímapunkti í þeirri trú að fjögur sameiginleg lán hafi hvílt á eigninni, enda hafi umbjóðandi varnaraðila sagst hafa haldið áfram að greiða afborganir af lánum þrátt fyrir skilnað við sóknaraðila í apríl 2019. Hins vegar hafi komið í ljós við frekari eftirgrennslan að upphaflega hafi hvílt tvö lán á fasteigninni sem aðilar hafi tekið saman við kaup á henni árið 2014. Þau lán hafi síðan verið endurfjármögnuð með tveimur veðskuldabréfum sem gefin hafi verið út til [banka]. Þá hafi sóknaraðili endurfjármagnað lánin þann 10. febrúar 2020, þremur mánuðum eftir skilnað aðila. Kveðst umbjóðandi varnaraðila hafa samþykkt veðsetningu nýrra lána sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar enda hafi skiptayfirlýsingu vegna fasteignarinnar þá ekki verið þinglýst.
Vísar varnaraðili til þess að starfsmaður [banka] hafi svarað fyrirspurn fulltrúa hans með tölvupósti þann 13. júlí 2022 og sent honum afrit af öllum fjórum lánum sem hvílt höfðu á fasteigninni sem fulltrúi varnaraðila hefði talið að gerð hafi verið upp við sölu fasteignarinnar. Þau samskipti og uppgreiðslunótur hafi eindregið bent til þess að lánin hafi öll verið sameiginleg og uppgerð við söluna. Þrátt fyrir að tvö lánanna hafi verið sameiginleg hafi umbjóðandi varnaraðila aðeins verið auðkenndur á uppgreiðslum tveggja lánanna, en ekki sóknaraðili. Af misgáningi hafi fulltrúi varnaraðila talið að það sama ætti við um uppgreiðslur hinna lánanna tveggja, þar sem aðeins sóknaraðili er auðkenndur sem skuldari, enda séu gögn af þessum toga oft auðkennd aðalskuldara þótt fleiri aðilar beri í raun ábyrgð á lánunum.
Sendi fulltrúi varnaraðila í framhaldinu bréf til sóknaraðila, dags. 20. júlí 2022, þar sem krafist var greiðslu tilgreindrar fjárhæðar í samræmi við þær upplýsingar sem komu frá bankanum og um sölukostnað fasteignarinnar. Sóknaraðila var gefinn kostur á að ná samkomulagi um kröfurnar fyrir fyrirhugaða málssókn utan réttar og tjáð að umbjóðandi varnaraðila væri jafnvel reiðubúinn til þess að slá verulega af kröfum sínum ef svo yrði, líkt og greini í bréfinu. Þessu bréfi hafi ekki verið svarað af hálfu sóknaraðila þrátt fyrir ítrekanir. Þess í stað hafi fulltrúa varnaraðila borist tölvupóstur frá lögmanni sóknaraðila þann 2. ágúst 2022 þar sem fulltrúanum var gefið að sök að hafa vísvitandi brotið gegn lögum. Að sögn varnaraðila kom bréfið fulltrúa hans í opna skjöldu og telur hann það hafa verið til þess fallið að valda fulltrúanum hugarangri og álitsspjöllum.
Varnaraðili gerir athugasemd við að í kvörtun sé einungis fjallað um samskipti lögmanns sóknaraðila við starfsmann [banka], en því alfarið sleppt að geta samskipta fulltrúa varnaraðila við lögmann sóknaraðila. Bendir varnaraðili á tölvupóst sem fulltrúi varnaraðila sendi lögmanni sóknaraðila í svari við tölvupóstinum síðan 2. ágúst 2022, þar sem fram komu skýringar frá fulltrúanum, upplýst var um að tölvupóstinum og viðhengjum hans hafi verið eytt og beðist afsökunar á mistökum bankans. Að sögn varnaraðili áttu engin samskipti sér stað á milli aðila í kjölfarið. Fulltrúinn hafi því ekki vitað betur en að sú afsökunarbeiðni hefði verið tekin til greina og að málið væri úr sögunni.
Varnaraðili kveður fulltrúa sinn hafa sent tölvupóst á lögmann sóknaraðila þann 18. október 2022 þar sem vísað hafi verið til fyrri samskipta og spurt hvort hann gæti tekið á móti stefnu og til hagræðingar samþykkt varnarþing í Reykjavík. Þessum pósti hafi ekki verið svarað af lögmanni sóknaraðila, frekar en fyrri bréfum. Að mati varnaraðila felur það framferði í sér óvirðingu og er í ósamræmi við góða lögmannshætti og góð samskipti manna á milli. Vísar varnaraðili til þess að lögmönnum beri án ástæðulauss dráttar að svara bréfum og öðrum erindum er þeim berast í lögmannsstörfum, sbr. 41. gr. siðareglna lögmanna.
Varnaraðili telur kvörtun sóknaraðila vera til marks um þungan hug sóknaraðila og lögmanns hans í garð varnaraðila, fulltrúa hans og umbjóðanda, þar sem kvörtunin er lögð fyrir nefndina fáeinum dögum eftir að varnaraðili þingfesti stefnu gegn sóknaraðila vegna deilna aðilanna, en löngu eftir að hin meinta ólögmæta háttsemi fulltrúans átti sér stað.
Frávísunarkröfu sína byggir varnaraðili í fyrsta lagi á að ekki sé fyrir hendi heimild í ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn til að beina kvörtun gegn lögmanni vegna starfshátta fulltrúa hans. Í 26. og 27. gr. laga um lögmenn séu tæmandi talin þau tilvik sem verði borin undir úrskurðarnefnd lögmanna og samkvæmt orðanna hljóðan er heimild til að bera undir nefndina kvörtun bundin við störf lögmanns en ekki fulltrúa hans. Þá sé enga heimild að finna í 27. gr. laganna til þess að kvarta yfir lögmanni eða koma fram viðurlögum gegn honum vegna starfa eða háttsemi fulltrúa lögmannsins. Til þess að svo væri heimilt þyrfti að vera fyrir hendi skýr lagaheimild, en hana sé hvorki að finna í lögum né lögskýringargögnum. Byggir varnaraðili á að einföld vísun til málsmeðferðarreglna eða siðareglna bæti ekki úr því að á skorti lagaheimild fyrir slíkri kvörtun. Vísar varnaraðili máli sínu til stuðnings til dóms Landsréttar frá 5. apríl 2019 í máli nr. 511/2018 þar sem kveðið var á um að stjórn LMFÍ hafi skort lagaheimild til að koma fram viðurlögum gegn félagsmanni með því að leggja fram kvörtun fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og að skírskotun til málsmeðferðarreglna nefndarinnar og siðareglna LMFÍ dugði ekki til að bæta úr skorti á slíkri skýrri heimild til handa LMFÍ til að sækja hið umþrætta mál fyrir úrskurðarnefndinni. Varnaraðili telur ljóst að kæruefni málsins lúti að störfum og háttsemi fulltrúa hans en ekki varnaraðila sjálfum og því beri að vísa málinu frá.
Þá byggir varnaraðili á því að jafnvel ef svo yrði talið að kæruheimild væri fyrir hendi til að leggja kvörtunina fram með þessum hætti, falli kæruefnið utan valdsviðs nefndarinnar. Vísar varnaraðili til þess að kvörtunin lúti að því hvort fulltrúi varnaraðila hafi neitt ólögmætra úrræða til að komast yfir gögn, aflað gagna og upplýsinga gegn betri vitund og hagnýtt með ólögmætum hætti. Þannig slái sóknaraðili því föstu að fulltrúi varnaraðila eða varnaraðili sjálfur hafi vísvitandi gerst sekur um saknæma og ólögmæta háttsemi, en þeim málatilbúnaði mótmælir varnaraðili í heild sinni.
Varnaraðili telur ljóst að með kvörtun til nefndarinnar sé sóknaraðili að leitast eftir mati á álitaefnum sem séu umdeild, sértæk og lögfræðileg. Til þess að geta tekið afstöðu til kæruefnisins, og við mat á því hvort varnaraðili hafi í raun brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna, telur varnaraðili úrskurðarnefndina fyrst þurfa að leggja mat á það hvort umrædd gagnaöflun hafi samrýmst lögum eða ekki, en að það sé ekki hlutverk nefndarinnar heldur Persónuverndar og eftir atvikum dómstóla, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Telur varnaraðili að það hvort fulltrúi hans hafi brotið gegn fyrirmælum þeirra laga eða með þeim hætti sem sóknaraðili byggi á, verði ekki fjallað um á vettvangi nefndarinnar. Þessu til stuðnings vísar varnaraðili til úrskurðar nefndarinnar frá 23. júní 2022 í máli 2/2022.
Þá telur varnaraðili ljóst að efni kvörtunar sóknaraðila varði lagareglur um bankaleynd og þagnarskyldu starfsmanna fjármálafyrirtækja og heyri því undir Fjármálaeftirlitið, sbr. nánar lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Því sé útilokað að fá úr málinu skorið fyrir nefndinni.
Jafnframt byggir varnaraðili á því að í málinu sé deilt um atriði sem útilokað sé að leysa úr fyrir nefndinni með þeirri takmörkuðu sönnunarfærslu sem heimiluð sé skv. 2. mgr. 9. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. sömu reglna. Telur varnaraðili að eins og atvikum er háttað sé ljóst að úrslit málsins geti ráðist af annarri sönnunarfærslu en eingöngu skriflegum sönnunargögnum. Önnur sönnunarfærsla sé hins vegar ekki heimiluð fyrir nefndinni, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar í máli 39/2018.
Sé eigi fallist á frávísun málsins byggir varnaraðili á því að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila. Mótmælir varnaraðili því að hafa brotið gegn lögum nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna vegna starfa fulltrúa hans. Aukinheldur hafnar varnaraðili því að hafa gerst brotlegur í starfi í tengslum við hagsmunagæslu umbjóðanda síns. Varnaraðili hafnar því að fulltrúi hans hafi vitað að uppgjörskvittanir lánanna tengdust lánum sóknaraðila eins á þeim tíma sem gagnabeiðnin var send til bankans. Þvert á móti kveður varnaraðili fulltrúann hafa staðið í góðri trú þegar þeirra var aflað og ekki orðið var við að þau tilheyrðu sóknaraðila að hluta þegar hann aflaði þeirra eða notaði. Vísar varnaraðili til orðalags tölvupósts fulltrúans til [banka] þar sem óskað var eftir upplýsingum um uppgreiðslur á fjórum sameiginlegum lánum en ekki aðeins á lánum sóknaraðila. Ekki hafi verið vikið að því í tölvupósti fulltrúans að óskaði væri eftir lánum sóknaraðila. Að mati varnaraðila getur það í mesta lagi flokkast sem gáleysi fulltrúa hans að hafa ekki rannsakað og skoðað gögn betur áður en ráðist hafi verið í umrædda gagnaöflun vegna málsins sem þá hafi verið á frumstigi. Mótmælir varnaraðili staðhæfingum sóknaraðila um að fulltrúinn hafi vísvitandi og gegn betri vitund brotið lög. Þvert á móti hafi fulltrúinn brugðist hárrétt við um leið og starfsmaður bankans gerði honum ljóst að gögnin hafi verið send honum fyrir mistök.
Þá ítrekar varnaraðili að það hafi verið bankinn sem vörslu- og ábyrgðaraðili sem miðlaði umræddum gögnum, án þess að hafa haft heimild til þess, eins og viðurkennt hafi verið í tölvupósti starfsmanns bankans. Byggir varnaraðili á því að ef staðið hefði verið rétt og eðlilega að málum af hálfu bankans hefði fulltrúinn áttað sig á að tvö af þeim fjórum lánum sem óskað var upplýsinga um tilheyrðu sóknaraðila og hefðu gögnin þá aldrei komist undir hendur hans.
Að mati varnaraðila leiðir vanþekking fulltrúans á þeirri staðreynd að umrædd lán hafi að hluta til verið skráð á nafn sóknaraðila, sem fái stoð í gögnum málsins og umfjöllun að framan, óhjákvæmilega til þess að huglæg afstaða hans samrýmist ekki grundvelli kvörtunar. Villu fulltrúans verði að mati varnaraðila með engu móti hægt að rekja til efri stiga ásetnings líkt og kvörtun málsins sé reist á. Það eitt og sér leiði til þess að hafna skuli kröfum sóknaraðila. Þá kveður varnaraðili að hvergi í ferlinu hafi réttum upplýsingum verið miðlað til fulltrúa varnaraðila áður en gögnin voru notuð, heldur hafi veittar upplýsingar þvert á móti verið til þess fallnar að styðja þann misskilning sem uppi var. Því er að mati varnaraðila uppi verulegur vafi um það hvort fulltrúi varnaraðila hafi aflað gagna gegn betri vitund og útilokað að varnaraðili hafi brotið gegn siðareglum eða öðrum lögum í því sambandi.
Jafnframt byggir varnaraðili á að gagnaöflunin hafi helgast af lögmætum hagsmunum og verið nauðsynleg til að hafa uppi réttarkröfu fyrir dómstólum, sbr. t.d. 6. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Vísar varnaraðili því til stuðnings til stefnu málsins og fjárskiptasamnings sem lögð hafa verið fyrir nefndina, þar sem kveðið sé á um að draga skuli uppgreiðslu skulda frá kröfu umbjóðanda varnaraðila. Byggir varnaraðili á því að gagnaöflunin geti því ekki talist ótilhlýðileg eða ólögmæt og þaðan af síður brot á siðareglum eins og sóknaraðili haldi fram. Þvert á móti hafi hún verið nauðsynleg til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda varnaraðila í samræmi við 8. gr. siðareglna lögmanna og gæta réttar hans að öðru leyti í dómsmáli umbjóðandans gegn sóknaraðila sem hafi ítrekað hundsað beiðnir um upplýsingar er varða málið, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1988 um lögmenn. Þá hafi sóknaraðila verið gefinn kostur á því að ljúka málinu með samkomulagi utan réttar og leggja fram umrædd gögn áður en ráðist var í að stefna málinu fyrir dóm. Áréttar varnaraðili að gögnin hafi ekki verið lögð fram með stefnu málsins enda hafi þeim verið eytt. Þess í stað hafi varnaraðili skorað á sóknaraðila í stefnu að leggja þau fram með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þá byggir varnaraðili á því að ósannað sé að hann hafi gert á hlut sóknaraðila. Að ónægilegt sé að vísa til þess að hátternisreglur eða siðareglur hafi verið brotnar ef ekki hefur verið gert á hlut viðkomandi í þeim skilningi. Telur varnaraðili að skilyrði þess falli um sjálft sig enda hafi sóknaraðili sjálfur lagt fram þau gögn til úrskurðarnefndar sem geymi þessar leyndu upplýsingar. Þá framlagningu telur varnaraðili kollvarpa grundvelli kvörtunarinnar og valda því að allri leynd teljist aflétt af gögnunum og upplýsingum.
Loks mótmælir varnaraðili kröfu sóknaraðila um málskostnað.
Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar áréttar sóknaraðili kröfur sínar til nefndarinnar. Telur sóknaraðili margt í greinargerð varnaraðila út fyrir kvörtunarefni málsins og þjóna engum tilgangi öðrum en að dreifa athygli frá kvörtunarefninu. Aukinheldur mótmælir sóknaraðili greinargerð varnaraðila sem rangri að verulegu leyti.
Áréttar sóknaraðili að kjarni málsins sé að fulltrúi varnaraðila hafi óskað eftir téðum upplýsingum vísvitandi og gegn betri vitund. Bendir sóknaraðili á að séu bréfaskrif og atburðarröð sem birtist í gögnum málsins skoðuð, hafi fulltrúinn gengið í gjörning sem honum var ljóst að væri óheimill, eftir að hafa áður reynt aðrar leiðir til að fá sömu fjárhagslegu upplýsingar um sóknaraðila. Vísar sóknaraðili til þess að þann 24. maí 2022 hafi varnaraðili sent kröfubréf til sóknaraðila þar sem fram kom að umbjóðandi varnaraðila hafi ekki getað aflað upplýsinga um endanlega stöðu áhvílandi veðskulda og þar sem skorað var á sóknaraðila að afhenda gögnin. Þann 8. júlí 2022 hafnaði sóknaraðili að leggja fram upplýsingar um sín persónuleg málefni og fjárhaglegar upplýsingar. Þann 12. júlí sendi fulltrúinn umrætt bréf á [banka] þar sem hann óskaði eftir nákvæmlega sömu upplýsingum um stöðu allra lána og hann hafði nokkrum dögum fyrr skorað á sóknaraðila að afhenda, en umbjóðandi varnaraðila einmitt ekki geta aflað þar sem hann var hvorki lántaki né greiðandi og sóknaraðili einn eigandi eignarinnar þegar uppgreiðslan fór fram. Sóknaraðili hafnar því að um vanþekkingu eða gáleysi geti verið að ræða heldur hafi fulltrúi varnaraðila með blekkjandi orðavali óskað eftir nákvæmlega sömu upplýsingum og skorað hafði verið á sóknaraðila að leggja fram skömmu áður og sóknaraðili hafnað. Telur sóknaraðili tilgang fulltrúans með beiðninni bersýnilegan, einkum með hliðsjón af fyrri áskorun til sóknaraðila um að upplýsa um stöðu þessara lána.
Sóknaraðili hafnar því að dómur Landsréttar nr. 511/2018 hafi fordæmisgildi í málinu, þar sem málsatvik séu ósambærileg. Þá sé ljóst af lögmannalögunum þegar þau séu lesin heildstætt að fulltrúar og starfsmenn lögmanna starfi á ábyrgð og verði að einhverju leyti samsamaðir lögmanninum.
Þá byggir sóknaraðili á að úrskurður nefndarinnar í máli nr. 2/2022 sé í meginatriðum frábrugðinn kvörtun sóknaraðila. Í téðum úrskurði hafi verið um að ræða kvörtun vegna meintrar notkunar lögmanns á upplýsingum úr einkasamtölum og skilaboðum án heimildar og í ólögmætum tilgangi. Í því máli hafi kvörtun m.a. verið byggð á ákvæðum persónuverndarlaga. Því sé ekki til að dreifa í þessu máli, þar sem kvörtun sóknaraðila lúti eingöngu að því að fulltrúi varnaraðila hafi með blekkjandi hætti og gegn betri vitund óskað eftir gögnum sem honum hafi verið fullkunnugt um að væru persónulegar fjárhagslegar upplýsingar um sóknaraðila, sem hann hefði enga heimild haft til að fá aðgang að. Kvörtunin snúi þannig að gagnabeiðninni sjálfri og sé byggð á lögum um lögmenn og siðareglum lögmanna. Þá byggir sóknaraðili á að úrskurðurinn geti ekki orðið grundvöll frávísunar kvörtunar hans frá nefndinni enda hafi efnislegur úrskurður verið kveðinn upp í máli 2/2022.
Þá vísar sóknaraðili með beinum hætti til tiltekinna staðhæfinga í greinargerð varnaraðila sem hann kveður rangfærslur eða hreinlega útúrsnúninga. Kveðst lögmaður sóknaraðila aldrei hafa fengið þann tölvupóst fulltrúa varnaraðila dags. 18. október 2022 sem varnaraðili vísar til í greinargerð sinni. Með sama hætti hafnar sóknaraðili því að tímasetning kvörtunarinnar sé til marks um þungan hug sóknaraðila eða lögmanns hans til varnaraðila, umbjóðanda varnaraðila eða fulltrúa.
- V.
Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar áréttar hann kröfur sínar fyrir nefndinni og mótmælin gegn frásögn sóknaraðila. Áréttar varnaraðili jafnframt fordæmisgildi úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 2/2022, enda hafi þeim hluta málsins, sem laut að notkun þeirra upplýsinga sem kvartað var yfir og heyrði undir Persónuvernd að fjalla um, verið vísað frá nefndinni, þótt í úrskurðinum hafi falist efnisleg afstaða til málsins að öðru leyti. Þá byggir varnaraðili á því að kvörtunarefnið falli undir valdsvið Persónuverndar eða eftir atvikum dómstóla, þótt sóknaraðili vísi ekki til ákvæða laga um persónuvernd.
Byggir varnaraðili á að lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gildi um sérhverja sjálfvirka vinnslu persónuupplýsinga og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á slíkum upplýsingum. Hugtakið vinnsla sé skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, svo sem söfnun upplýsinga, skráning, flokkun, skoðun, notkun o.fl., sbr. nánar 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í athugasemdum um ákvæðið í frumvarpi til laganna komi fram að orðið vinnsla sé eitt af lykilhugtökum regluverksins og beri að túlka rúmt. Með vinnslu sé til dæmis átt við söfnun upplýsinga og þar undir falli meðal annars leit eða hver sú aðferð sem nota megi til að gera upplýsingar tiltækar, sbr. til hliðsjónar söfnun upplýsinga um fjárhagsmálefni samkvæmt reglugerð nr. 246/2001. Byggir varnaraðili á að með vísan til framangreinds verði að leggja til grundvallar að sú vinnsla að afla upplýsinga um skuldbindingar hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum, fyrirtækjum eða öðrum þeim aðilum og stofnunum sem hafa upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga, heyri undir sérstakar reglur samkvæmt persónuverndarlögum.
Kveður varnaraðili kjarna kvörtunar sóknaraðila snúa einmitt að slíkri vinnslu eða gagnabeiðninni sjálfri, líkt og viðurkennt sé í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar. Þar sé byggt á því að fulltrúi varnaraðila hafi, í því samhengi, aflað téðra gagna vísvitandi, gegn betri vitund og í ólögmætum tilgangi. Sé nefndinni þannig ætlað að meta hvort vinnslan eða gagnaöflunin hafi við þær aðstæður sem uppi voru verið í samræmi við lög eða ekki. Telur varnaraðili aðeins að fenginni niðurstöðu um það vera hægt svara því hvort gagnaöflunin hafi í reynd verið ólögmæt eður ei. Telur varnaraðili af því ljóst að sóknaraðili sé að leita eftir mati á vinnslunni sem slíkri sem falli utan valdsviðs nefndarinnar, enda hafi Persónuvernd eftirlitsvald með því.
Þá hafnar varnaraðili málsástæðum sóknaraðila reistum á 3. mgr. 19. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Að mati varnaraðila hljóti sóknaraðila eða lögmanni hans að vera ljóst að umrætt ákvæði fjalli um bótaábyrgð á tjóni sem lögmaður eða starfsmaður hans baki öðrum með störfum sínum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 680/2012. Í ákvæðinu felist ekki heimild til að kvarta yfir störfum fulltrúa, þótt hann starfi hjá lögmanni og beri vissar skyldur m.a. gagnvart skjólstæðingi. Heimildirnar til að bera upp kvörtun gagnvart lögmanni séu tæmandi taldar í 26. og 27. gr. laga nr. 77/1998. Því verði kvörtunin ekki reist á þessu ákvæði eða einhverju óljósu heildarmati á lögum um lögmenn. Áréttar varnaraðili því fyrri málatilbúnað sinn um að engin lagaheimild sé fyrir því að láta lögmann sæta viðurlögum vegna vinnubragða annarra en þeirra eigin. Með hliðsjón af framangreindu ítrekar varnaraðili þá kröfu að málinu verði vísað frá nefndinni.
Þá er að mati varnaraðila með öllu óupplýst af hálfu sóknaraðila í hverju hin meinta blekking fulltrúa varnaraðila eigi að hafa falist. Vísar varnaraðili til þess að á meðal gagna málsins sé tölvupóstur sem fulltrúi varnaraðila sendi á [banka] þann 12. júlí 2022, þ.e. tveimur virkum dögum eftir að sóknaraðili hafnaði að leggja fram gögnin sjálfur. Hvorki fulltrúinn né umbjóðandi varnaraðila hafi áður reynt aðrar leiðir til að afla þessara gagna nema frá sóknaraðila, enda hafi bankanum fyrst verið tilkynnt um hagsmunagæslu varnaraðila í téðum tölvupósti. Kveður sóknaraðili það hafa verið fullkomlega eðlilegt að óska eftir þeim upplýsingum fyrst frá sóknaraðila enda hefði bankinn ekki getað upplýst um sölukostnað. Markmiðið með öflun upplýsinganna hafi ekki einungis verið til að sannreyna upplýsingar um stöðu umræddra lána heldur jafnframt um söluþóknun fasteignasala sem umbjóðandi varnaraðila vildi draga frá kröfu sinni, sóknaraðila til hagsbóta. Kveður varnaraðili fulltrúann hafa með fyrrgreindum tölvupósti óskað eftir upplýsingum um stöðu fjögurra lána sem hann taldi hafa hvílt á báðum aðilum og verið gerð upp við sölu eignarinnar. Verður að mati varnaraðila að hafa í huga að ekki var vikið að því einu orði í umræddri gagnabeiðni að óskað væri upplýsinga um lán sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki verið nefndur á nafn.
Varnaraðili telur ómögulegt að horfa fram hjá orðalagi tölvupóstsins og sakarefni málsins sem þá var á frumstigi við mat á huglægri afstöðu fulltrúans. Þá byggir varnaraðili á því að jafnvel þó að sóknaraðili hafi verið þinglýstur eigandi á þessum tíma breyti það engu um huglæga afstöðu fulltrúans á þessu tímamarki enda haldist eignarhald og skuldaábyrgð ekki alltaf í hendur. Auk þess séu mörg dæmi um það hérlendis að fasteign sé ráðstafað til annars makans í kjölfar skilnaðar, án þess að sameiginleg lán séu endurfjármögnuð, meðal annars í þeim tilgangi að selja hana síðar. Um áskorunina til sóknaraðila um að upplýsa um stöðu lána á fyrri stigum málsins, kveður varnaraðili að einfaldlega hafi verið reynt að afla upplýsinga um sameiginleg fjárhagsmálefni aðila. Strax eftir að fulltrúanum urðu mistökin ljós hafi hann beðist afsökunar og ekki vitað annað en að afsökunarbeiðninni hefði verið tekið. Þá og til öryggis hafi fulltrúinn tekið upp á sitt einsdæmi að eyða gögnunum í samræmi við lög og reglur.
Á grundvelli framangreinds telur varnaraðili að umrædd gagnaöflun hafi farið fram í góðri trú og verið, ekki síst á tímamarki vinnslunnar, reist á áreiðanlegum grunni og lögmætum hagsmunum. Því geti ekki komið til þess að fulltrúinn hafi óskað eftir umræddum upplýsingum vísvitandi og gegn betri vitund, hvað þá með ólögmætum hætti, enda verði engu slegið föstu um það í þessu máli. Á þetta við að mati varnaraðila, hvort sem orðalag póstsins er metið eitt og sér, eða í samhengi við málsatvik, hjúskap og sameiginlegan fjárhag aðila. Því telur varnaraðili allar grundvallarforsendur fyrir málatilbúnaði sóknaraðila á hendur varnaraðila brostnar.
Mótmælir varnaraðili fullyrðingu í viðbótar athugasemdum lögmanns sóknaraðila til nefndarinnar, um að hann hafi aldrei fengið tiltekinn tölvupóst sendan frá fulltrúa varnaraðila, sem rangri og ósannaðri. Fullyrðingin sé að mati varnaraðila í engu samræmi við fyrirliggjandi gögn málsins sem staðfesti að pósturinn hafi verið sendur á lögmanninn.
Niðurstaða
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Krafan byggir í fyrsta lagi á því að ekki sé í lögum að finna heimild til þess að beina kvörtun til nefndarinnar gegn lögmanni vegna starfshátta fulltrúa hans. Í öðru lagi að kvörtunarefnið falli utan valdsviðs nefndarinnar, enda sé í raun verið að kvarta undan því hvort gagnaöflun fulltrúa varnaraðila hafi samrýmst lögum eða ekki, en slíkt heyri undir Persónuvernd og eftir atvikum dómstóla, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, auk lagareglna um bankaleynd og þagnarskyldu starfsmanna fjármálafyrirtækja sem heyri undir Fjármálaeftirlitið sbr. lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í þriðja lagi byggir varnaraðili á því að í málinu sé deilt um atriði sem útilokað sé að leysa úr fyrir nefndinni út frá þeirri takmörkuðu sönnunarfærslu sem heimiluð sé skv. 2. mgr. 9. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. sömu reglna.
Í 1. máls. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er kveðið á um að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. Í 2. mgr. sömu greinar segir síðan að úrskurðarnefndin geti fundið að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veitt honum áminningu. Séu sakir miklar eða hafi lögmaður ítrekað sætt áminningu getur nefndin brugðist við sem um ræðir í 1. mgr. 14. gr. laganna, á þann veg að leggja til tímabundna niðurfellingu eða sviptingu lögmannsréttinda. Eru heimildir nefndarinnar þar að lútandi áréttar í 3. gr. og 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn setur Lögmannafélag Íslands siðareglur fyrir lögmenn. Af framangreindum ákvæðum leiðir að hver sá sem telur lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur lagt fyrir úrskurðarnefndina kvörtun á hendur lögmanninum. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður hafa góða skipan á skrifstofu sinni, vaka yfir störfum starfsliðs síns og líta eftir því að lögmannsfulltrúar fylgi góðum lögmannsháttum. Telur nefndin því lagaheimild vera til þess að beina kvörtun til nefndarinnar gagnvart lögmanni vegna starfa fulltrúa hans sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Kvörtun sóknaraðila lýtur að þeirri háttsemi fulltrúa varnaraðila að óska eftir tilteknum upplýsingum um persónuleg fjárhagsleg málefni sóknaraðila, án heimildar og gegn vilja sóknaraðila. Kvörtunin er reist á skýrum ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna. Þá liggja fyrir greinargerðir og athugasemdir aðila auk fjölda gagna, þ.m.t. áðurnefnds tölvupóst fulltrúa varnaraðila til [banka], bréfskipti aðila í aðdraganda þess tölvupósts og gögn sem sýna þýðingu þeirra gagna og hvernig þeim upplýsingum var beitt. Telur nefndin gögn málsins nægjanleg til að leysa úr kvörtun sóknaraðila eins og hún er lögð fyrir nefndina. Að mati nefndarinnar er því hvorki fallist á að efni kvörtunarinnar sé utan valdsviðs hennar né að í málinu séu sönnunaratriði sem örðugt sé að leysa úr undir rekstri málsins eða sé að öðru leyti ekki nægilega upplýst í skilningi 2. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Að mati nefndarinnar er efni kvörtunarinnar skýrt og málið nægilega upplýst til að unnt sé að leysa úr því.
Að framanvirtu verða því ekki talin skilyrði til að vísa kvörtun sóknaraðila frá nefndinni á þeim grundvelli sem varnaraðili krefst í máli þessu.
Líkt og áður greinir krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá gera báðir aðilar kröfu um málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem er samrýmanleg hagsmunum skjólstæðinganna.
Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Í málsatvikalýsingu að framan er lýst deiluefni sóknaraðila og umbjóðanda varnaraðila. Að mati nefndarinnar verður af gögnum málsins ráðið að fulltrúi varnaraðila hafi með áðurnefndum tölvupósti til [banka] þann 12. júlí 2022 reynt að komast yfir upplýsingar og gögn um fjárhagslegar ráðstafanir sóknaraðila sem sóknaraðili hafði fáeinum dögum fyrr neitað að afhenda honum.
Í umræddum tölvupósti fulltrúans til [banka] var því haldið fram að umbjóðandi varnaraðila hafi leitað til lögmannsstofu varnaraðila vegna hjónaskilnaðar. Af gögnum málsins má hins vegar ráða að aðilar höfðu skilið árum áður auk þess sem sú verklýsing samrýmist ekki framlögðu lögmannsumboði. Þá telur nefndin tölvupóstinn hafa verið orðaðan með slíkum hætti að skilja mátti af honum að umbjóðandi varnaraðila hefði verið eigandi að umræddri fasteign þegar hún var seld fyrr á árinu 2022. Óháð því hvort sóknaraðila hafi borið skylda til að veita umbjóðanda varnaraðila umræddar upplýsingar, þá gat hann ekki snúið sér með framangreindum hætti til [banka] sem starfar samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og ber skyldur í samræmi við þau lög, þ.m.t. að varðveita og miðla upplýsingum um viðskiptamenn sbr. 19. gr. b. laganna. Að mati nefndarinnar var framsetningin á beiðni fulltrúa varnaraðila til bankans í áðurnefndum tölvupósti til þess fallin að villa fyrir starfsmanni bankans í skjóli þess trausts sem lögmenn njóta stöðu sinnar vegna.
Þá greindi fulltrúi varnaraðila ekki frá því í tölvupóstinum að sóknaraðili væri ósamþykkur því að umbjóðandi varnaraðila fengi umbeðnar upplýsingar né var sóknaraðila gerð grein fyrir því að slíkri beiðni um persónuleg fjárhagsmál hans hafi verið beint til bankans. Eins og atvikum var háttað telur nefndin að fulltrúanum hafi borið að tryggja að sóknaraðili sem gagnaðili umbjóðanda varnaraðila samþykkti eða hefði að minnsta kosti vitneskju um beiðnina og gæti gætt hagsmuna sinna vegna hennar. Sú háttsemi fulltrúa varnaraðila að óska eftir upplýsingum með framangreindum hætti samrýmist því að mati nefndarinnar ekki þeirri tillitssemi sem lögmönnum ber að sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna í skilningi 34. gr. siðareglna lögmanna. Þá telur nefndin að framangreind háttsemi hafi ekki samrýmst skyldum lögmanna til að beita lögmætra úrræða við hagsmunagæslu umbjóðanda sinna í skilningi 18. gr. laga nr. 77/1998.
Að framanvirtu telst sú háttsemi fulltrúa varnaraðila sem hér hefur verið lýst, ekki samrýmast góðum lögmannsháttum og á þeirri háttsemi ber varnaraðili ábyrgð sbr. 1. mgr. 40. gr. siðareglna lögmanna sbr. 2. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Það athugast að varnaraðili hefur borið því við í málinu að framkoma og svarleysi lögmanns sóknaraðila hafi verið í andstöðu við lög eða siðareglur lögmanna. Í stað þess að leggja kvörtun fyrir úrskurðarnefnd á þeim grundvelli, sbr. einnig 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, kaus varnaraðili að lýsa hinum ætluðu brotum sóknaraðila að þessu leyti í greinargerð með andsvörum til nefndarinnar. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild og kemur málatilbúnaður varnaraðila þar að lútandi ekki til úrlausnar í málinu.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðila, [B] lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni er hafnað.
Sú háttsemi fulltrúa varnaraðila, [B] lögmanns, sem hann ber ábyrgð á, að óska eftir upplýsingum frá [banka] um persónuleg fjárhagsmál sóknaraðila, [A], án vitundar eða samþykkis sóknaraðila, er aðfinnsluverð.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason, formaður
Einar Gautur Steingrímsson
Valborg Þ. Snævarr
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Arnar Vilhjálmur Arnarsson