Mál 36 2022

Mál 36/2022

Ár 2024, mánudaginn 27. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið málið nr. 36/2022:

A ehf. og B

gegn

C lögmanni

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 23. nóvember 2022 kvörtun D, f.h. A ehf., og B, gegn C lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem fyrrum lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 9. desember 2022, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 22. desember 2022. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 16. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2023, var varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær daginn eftir. Þann 13. mars 2023 sendu sóknaraðilar frekari gögn og athugasemdir til nefndarinnar. Með tölvupósti 13. apríl 2023 tjáði varnaraðili nefndinni að hann sæi ekki ástæðu til þess að tjá sig um þau gögn. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar og var málið tekið til úrskurðar.

 

Málsatvik og málsástæður

D er eigandi sóknaraðilans A ehf. og beinir erindi þessu til nefndarinnar fyrir hönd félagsins og móður sinnar, B. Sóknaraðilinn A ehf. hét áður [...] ehf., hér eftir [...] ehf., og var stofnað af [...], afa D og föður sóknaraðilans B. [...] átti félagið til ársins 1999 en það ár eignuðust börn hans fjögur, [...], [...], [...] og sóknaraðilinn B félagið og átti hvert um sig 25% eignarhlut í því. Systkinin sátu jafnframt öll í stjórn félagsins en [...] sá um daglegan rekstur þess.

[...] ehf. var á tímabili eitt stærsta fjárfestingafélag landsins og að sögn sóknaraðila nam eigið fé félagsins vel á annan tug milljarða króna í árslok 2006. Stærstu eignir félagsins voru geymdar í dótturfélögunum […] og […] ehf. þar sem [...] var framkvæmdastjóri og einn prókúruhafi og svo dótturdótturfélögunum […] ehf. og [...] ehf. og var [...] einnig eini prókúruhafi þeirra félaga. Stærsta eign [...] ehf. var 47% hlutur félagsins í [...] hf., hér eftir [...], og var [...] stjórnarformaður félagsins í umboði stjórnar [...] ehf. [...] var einn stærsti hluthafinn í [...] sem á þessum tíma var stærsti einstaki hluthafinn í [...] hf., hér eftir [...], sem og einn stærsti hluthafinn í […].

Þann 8. janúar 2008 tók [...] yfir stjórnun [...] og undirritaði [...] yfirtökusamninginn f.h. [...]. Síðar sama ár var nafni [...] ehf. breytt í A ehf. og þann 13. ágúst 2008 afsöluðu hluthafarnir fjórir allri hlutafjáreign sinni í A ehf. til [...]. Umsamið verð fyrir hlut hvers þeirra var ein króna. D keypti A ehf. af [...] ehf. á haustmánuðum árið 2016.

Varnaraðili veitti [...] ehf. lögmannsþjónustu í einstaka verkefnum frá stofnun félagsins. Hann gætti hagsmuna félagsins og hluthafa þess í tengslum við yfirtöku [...] á félaginu á árinu 2008. Störfum hans fyrir félagið lauk þann 13. ágúst en vinnu fyrir hluthafana í september sama ár. Varnaraðili var lögmaður hluthafanna [...], [...] og sóknar­aðilans B fram í nóvember árið 2014. Eftir það sinnti hann lögmannsþjónustu fyrir [...] fram að andláti hans og frá þeim tíma hefur hann gætt hagsmuna ekkju hans, [...]. 

I.

Frá kaupum D á sóknaraðilanum A ehf. kveðst hann hafa unnið að skoðun og greiningu á rekstri félagsins á árunum 2004-2008 vegna gruns hans og sóknaraðilans B, um misferli fyrrum fyrirsvarsmanns félagsins í rekstri þess. Sóknaraðilar kveða varnaraðila hafa sinnt hagsmunagæslu bæði fyrir [...] ehf. og [...] persónulega, á sama tíma árið 2008, þ.m.t. við samningagerð við [...] vegna persónulegra fjármála [...]. Að sögn sóknaraðila rak [...] ehf. ekki skrifstofu en þeir segja félagið eingöngu hafa verið eignarhaldsfélag utan um hlutabréfaeign fjölskyldunnar.

Í kjölfar fyrirspurna D og foreldra hans, um ýmis atriði í rekstri félagsins, sleit [...] á öll samskipti við D árið 2011 og við foreldra hans árið 2013. Á árunum 2013-2015 fór fram rannsókn á skattskilum [...] og félags hans [...] ehf. og hefur embætti héraðssaksóknara veitt núverandi eiganda A ehf. aðgang að gögnum er varða þá rannsókn. Á sama tíma fór fram rannsókn skattyfirvalda vegna arðgreiðslna úr [...] ehf. á árunum 2006 og 2007 til systkinanna fjögurra og gætti varnaraðili hagsmuna systkinanna í tengslum við þá rannsókn. [...] lést 31. október 2015.

Sóknaraðilinn A ehf. höfðaði mál nr. […], fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur [...], ekkju [...] sem situr í óskiptu búi þeirra, vegna dánarbús [...], og […] fyrrum forstjóra [...]. Héraðsdómur sýknaði stefndu af kröfum sóknaraðilans með dómi 2. júní 2022 og áfrýjaði A ehf. málinu til Landsréttar þar sem málið er nú til meðferðar sem mál nr. […].

Sóknaraðilinn A ehf. rekur einnig mál nr. […] í Landsrétti, áður héraðsdómsmál nr. […], gegn […], fyrrum viðskiptastjóra félagsins innan [...], [...] og [...] ehf., fyrrum endurskoðanda félagsins, [...] vegna db. [...] og [...] ehf. til réttargæslu. Varnaraðili gætir hagsmuna [...] í framangreindum málum.

Sóknaraðilinn B rekur nú mál nr. […] fyrir Landsrétti gegn [...] og dánarbúi [...] og gætir [...] lögmaður hagsmuna [...] í málinu.

Undir rekstri máls nr. […] í Héraðsdómi Reykjavíkur lagði varnaraðili fram skjöl f.h. umbjóðanda síns sem varða rekstur [...] ehf. Þar á meðal eru skjöl sem varða samskipti hans við fulltrúa sóknaraðilans B, þ.m.t. við eiginmann hennar, [...].

Sóknaraðilar kveðast árum saman hafa óskað eftir upplýsingum og gögnum um rekstur [...] ehf. frá varnaraðila, sem þeir telja hann hafa í vörslum sínum vegna fyrri starfa sinna í þágu félagsins. Sóknaraðilar telja sig eiga rétt á að fá gögnin afhent í ljósi þess að þeir séu annars vegar þáverandi og hins vegar núverandi eigendur félagsins. Sóknaraðilar segja varnaraðila alla tíð hafa neitað þeim um afhendingu gagnanna og borið því við að félagið eigi engin gögn hjá honum eða að þau gögn sem hann hafi undir höndum séu vinnugögn sem honum beri ekki skylda til að láta af hendi.

i.

Kvörtun lýtur í fyrsta lagi að þeirri háttsemi varnaraðila að leggja fram, sem lögmaður [...], þann 23. nóvember 2023, í máli A ehf. nr. […] gegn henni, gögn sem varða rekstur [...] ehf., sem hann hafi komist yfir sem þáverandi lögmaður félagsins. Sóknaraðilar telja ljóst að gögnin stafi frá varnaraðila enda hafi umbjóðandi hans, [...], ekki haft aðgang að þessum gögnum.

Þá snýr kvörtun að framlagningu varnaraðila á dómskjölum nr. 56, 57 og 58. Tvö fyrrnefndu skjölin eru tölvupóstar eiginmanns sóknaraðilans B, frá 15. október 2008 og 3. janúar 2011, en það síðastnefnda er tölvupóstur D frá 16. júlí 2011, sem hann sendi varnaraðila sem fyrrum lögmanni [...] ehf., vegna málefna móður sinnar. Sóknaraðilar telja umrædd skjöl geyma persónuleg samskipti lögmanns og skjólstæðings en á tímabilinu sem um ræðir hafi varnaraðili verið persónulegur lögmaður sóknaraðilans B og eiginmaður hennar og sonur í samskiptum við varnaraðila vegna málefna [...] ehf. fyrir hennar hönd.

Sóknaraðilar telja framangreinda háttsemi varnaraðila fela í sér brot gegn 1., 2., 3., 6., 8., 11. og 17. gr. siðareglna lögmanna.

ii.

Í öðru lagi er kvartað yfir þeirri háttsemi varnaraðila að hafa haldið því fram gegn betri vitund, í greinargerð sem hann ritaði, f.h. [...], í umræddu héraðsdómsmáli, að fjártjón sóknaraðilans A ehf. sé ósannað og gefið aðrar skýringar á 46 milljóna króna millifærslu af reikningi [...] ehf., inn á reikning einkahlutafélags [...], [...] ehf., en gefnar voru skattyfirvöldum í tengslum við rannsókn þeirra árið 2013.

Sóknaraðilar telja framangreinda háttsemi varnaraðila fela í sér brot gegn 1., 2., 3., 8., 11. og 20. gr. siðareglna lögmanna.

iii.

Í þriðja lagi lýtur kvörtun að þeirri háttsemi varnaraðila að afhenda trúnaðargögn [...] ehf., sem hann komst yfir sem lögmaður félagsins, í hendur sonar síns, lögmannsins [...], sem sinnti hagsmunagæslu fyrir [...] í dómsmáli sóknaraðilans B gegn henni fyrir Héraðsdómi Reykjaness nr. […]. Málinu var áfrýjað til Landsréttar og er nú rekið þar sem mál nr. […]. Varnaraðili var persónulegur lögmaður sóknaraðilans B á því tímabili sem atvik dómsmálsins áttu sér stað og telja sóknaraðilar að varnaraðili hafi því falið syni sínum að gæta hagsmuna [...] í málinu en hafi jafnframt afhent honum gögn sem hann komst yfir sem þáverandi lögmaður [...] ehf. og sóknaraðilans B.

Sóknaraðilar telja framangreinda háttsemi varnaraðila fela í sér brot gegn 1., 2., 3., 6., 8., 11. og 17. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Varnaraðili kveðst hafa unnið fáein minniháttar verkefni fyrir [...] ehf. fram til ársins 2008, þ.m.t. að annast skjalagerð í tengslum við stofnun félagsins. Þá kveðst hann hafa verið persónulega kunnugur stjórnarmönnunum [...] og sóknaraðilanum B og þekkt [...] og [...] en ekki kynnst þeim náið fyrr en á árinu 2008. Í ársbyrjun 2008 kveður varnaraðili hag [...] ehf. hafa verið orðinn þannig að gjaldþrot hafi blasað við ef ekki tækjust samningar við kröfuhafa félagsins en skuldir umfram eignir hafi numið þremur milljörðum króna. Varnaraðili kveðst hafa tekið að sér að aðstoða félagið og hluthafa þess við að freista þess að afstýra gjaldþroti en það hafi verið þeim öllum mikið hjartans mál að nafn föður þeirra yrði ekki tengt gjaldþrotaskiptum. Þessi vinna hafi verið tímafrek og að mörgu leyti flókin, ekki síst vegna þess að á síðustu misserum fyrir þennan tíma hafi gríðarlega háar greiðslur farið til hluthafanna. Þann 13. ágúst 2008 hafi samningar tekist við [...] um að bankinn tæki yfir allt hlutafé í félaginu og að bankinn myndi undir engum kringumstæðum efna til neinna málaferla gegn fyrrum hluthöfum þess vegna atvika sem átt hefðu sér stað í starfseminni. Frá þeim tíma segir varnaraðili sig ekki hafa komið nálægt neinum verkefnum fyrir félagið.

Eftir fall viðskiptabankanna í október 2008 kveðst varnaraðili hafa unnið ýmis verkefni fyrir systkinin sem áður voru stjórnarmenn í félaginu. Annars vegar verkefni tengd skattrannsókn vegna arðgreiðslna úr félaginu á árunum 2006 og 2007 og hins vegar kröfulýsingar í slitabú [...] vegna viðskipta þessara einstaklinga við bankann. Þessi verkefni hafi verið unnin fyrir hvert og eitt systkinanna. Að auki kveðst varnaraðili hafa veitt [...] aðstoð vegna fjárfestinga hans sem hin systkinin hafi ekki átt aðild að. Síðustu verkefnum fyrir sóknaraðilann B og systur hennar [...] og [...] kveður varnaraðili hafa verið lokið í nóvember 2014. Frá þeim tíma hafi varnaraðili unnið fyrir [...], fram að andláti hans 31. október 2015. Eftir andlát [...] hafi hann lokið ákveðnum verkefnum [...] fyrir ekkju hans, [...], sem situr í óskiptu búi þeirra og hafi þeim verkefnum lokið árið 2016. Síðustu ár kveðst varnaraðili hafa sinnt ýmsum verkefnum fyrir [...], sem hafi að mestu snúið að málflutningi í málum sem sóknaraðilinn A ehf. hafi höfðað gegn henni.

Varnaraðili lítur svo á að kvörtun sóknaraðila lúti að lögmannsstörfum hans fyrir [...]. Varnaraðili mótmælir málavaxtalýsingu sóknaraðila, þ.m.t. tilteknum fullyrðingum í inngangskafla kvörtunar. Í fyrsta lagi segir varnaraðili D aldrei hafa haft samband við sig um eitt eða neitt varðandi fjárhagslega hagsmuni foreldra sinna fyrr en árið 2011 en fram að því hafi hann haft samskipti við eiginmann sóknaraðilans B, [...] og yngri son þeirra, […]. Enn fremur kveður varnaraðili rangt að hann hafi gætt hagsmuna [...] ehf. um fjárhagsleg málefni, það hafi hann aldrei gert sjálfur né aðrir lögmenn [...] lögmannsstofu. Hvorki varnaraðili eða aðrir lögmenn [...] hafi haft neitt með skipti á dánarbúi [...] að gera og þrátt fyrir að varnaraðili hafi staðfest erfðaskrá [...] og eiginkonu hans á sínum tíma hafi hann engin önnur lögfræðistörf unnið fyrir þau hjónin fyrr eða síðar.

Varnaraðili kveður þá staðhæfingu sóknaraðila að [...] ehf. hafi ekki rekið skrifstofu ekki vera alveg nákvæma en félagið hafi á árinu 2004 átt eina hæð á […] í Reykjavík og verið þar með skrifstofu. Um áramótin 2004/2005 hafi félagið selt þessa eign inn í annað félag, [...] fasteign ehf. og eignast við það hlutafé í því félagi, u.þ.b. 17%. Eftir það hafi [...] ehf. áfram verið með skrifstofu á sama stað fram til þess er allt hlutafé félagsins hafi verið framselt [...] árið 2008.

Varnaraðila segist ekki kunnugt um að ítarlegar rannsóknir hafi farið fram á rekstri [...] ehf. eins og sóknaraðilar haldi fram. Það sé hins vegar rétt að fjölda fyrirspurna hafi verið beint að honum og [...] lögmannsstofu og að hann hafi svarað málefnalega þeim fyrirspurnum sem til hans hafi verið beint. Þegar sömu fyrirspurnirnar hafi verið ítrekað endurteknar þar sem spyrjandinn hafi verið óánægður með svörin hafi varnaraðili kosið að loka á frekari samskipti við fyrirsvarsmann sóknaraðilans A ehf. og tilkynnt honum það. Varnaraðili vísar til svars síns við tölvupósti D, frá 12. desember 2017 þar sem fram kemur að sóknaraðilinn A ehf. eigi engin gögn hjá honum. Þetta svar hafi komið eftir endurteknar fyrirspurnir en áður hafi hann svarað þessum atriðum oftar en einu sinni. Varnaraðili telur svör sem veitt voru á þessum tíma ekki geta verið efnivið í kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna nú, tæpum fimm árum síðar.

Þá hafnar varnaraðili því að nokkuð sé athugavert við að hann hafi unnið lögmannsstörf fyrir [...]. Fyrsta mál A ehf. hafi verið höfðað sumarið 2017 og eftir að því máli hafi verið vísað frá hafi annað mál verið höfðað 2018. Varnaraðili telur fráleitt að hann hafi með vinnu sinni fyrir [...] brotið einhvern rétt á sóknaraðila. Þvert á móti telur varnaraðili sig hafa lagt heilmikið af mörkum til að þjóna núverandi eiganda sóknaraðilans A ehf. í skoðun hans á rekstri félagsins þegar litið sé til þeirra gagna sem varnaraðili hefur lagt fram í málum félagsins gegn [...].

Hvað varðar framlagningu dómsskjala í máli […] segir varnaraðili að um sé að ræða útprentanir tölvupósta sem honum hafi borist á árunum 2008, 2009 og 2011. Á þeim árum kveðst varnaraðili hafa unnið að verkefnum fyrir sóknaraðilann B og systkini hennar [...], [...] og [...], en á þessum tíma hafi verkefnum fyrir [...] ehf. verið lokið. Þessi verkefni hafi flest varðað sameiginlega hagsmuni systkinanna allra og tengst afdrifum félagsins og viðskiptum sem þau hafi tekið þátt í til hliðar við félagið. Varnaraðili kveðst hafa haft þá vinnureglu að kynna systkinunum öllum gögn sem tengdust þeim verkefnum þar sem þau hafi átt sams konar hagsmuni, hvort sem gögnin hafi orðið til hjá varnaraðila eða komið frá öðrum. Samskipti varðandi hagsmuni sóknaraðilans B kveður varnaraðili þó að mestu hafa farið fram við eiginmann hennar, […]. Varnaraðili fullyrðir að hafa engin samskipti átt við D, fyrr en á árinu 2011.

Varnaraðili segir tvo fyrstu tölvupóstana ekki innihalda neitt sem gæti flokkast undir trúnaðarupplýsingar, enda hafi hann aldrei verið beðinn að halda trúnað um efni þeirra. Varnaraðili kveðst hafa kynnt efni tölvupóstanna fyrir [...] og eiginkonu hans [...] fyrir mörgum árum og því hafi efni þeirra verið henni kunnugt þegar þeir voru lagðir fram í umræddu dómsmáli. Varnaraðili bendir á að tölvupósturinn frá 15. október 2008 hafi verið lagður fram í fyrri dómsmálum sóknaraðilans A ehf. á hendur umbjóðanda varnaraðila, m.a. í héraðsdómsmálinu […] hinn 15. janúar 2019, án þess að athugasemd hafi verið gerð við þá framlagningu. Varnaraðili telur að sér hafi verið heimilt að kynna efni umræddra tölvupósta fyrir hverjum sem vera skyldi enda innihaldi þeir engar trúnaðarupplýsingar eða annað sem ástæða hafi verið til að fara leynt með.

Þriðja tölvupóstinn sendi D, núverandi eigandi sóknaraðilans A ehf., varnaraðila á árinu 2011. Varnaraðili segir að í póstinum hafi D krafið hann um svör og álit varðandi málefni [...] ehf. án þess að hann sjálfur hafi nokkurn tíma átt hlut í því félagi. Varnaraðili kveðst hafa kynnt [...] og öðrum sem málið varðaði efni póstsins strax og því hafi ekkja hans haft aðgang að honum eins og öðrum tölvupóstum [...] þegar A höfðaði málið gegn henni á árinu 2017. Kveður varnaraðili fullyrðingar sóknaraðila um annað vera rangar. Þessu til stuðnings lagði varnaraðili fram afrit af tölvupósti hans til [...], dags. 16. júlí 2011, þar sem varnaraðili framsendi tölvupóst D, dags. sama dag. Telur varnaraðili framlagningu þessa skjals hafa verið fullkomlega heimila. Þá hafi umræddur tölvupóstur verið lagður fram í héraðsdómsmálinu […] þann 15. janúar 2019 án þess að athugasemd hafi verið gerð við þá framlagningu. Efni skjalsins hafi því verið afar mörgum kunnugt er það var lagt fram í máli […] þann 23. nóvember 2021.

Varnaraðili mótmælir því sem fram kemur í kvörtun um að hann hafi komist yfir umrædd gögn sem fyrrum lögmaður félagsins. Um sé að ræða gögn sem hann hafi fengið send án þess að hann hafi beðið um þau og þá hafi störfum hans fyrir [...] ehf. verið fyrir löngu lokið er þarna var komið við sögu. Hann hafi ekki verið beðinn um neina sérstaka meðferð þessara orðsendinga og líti svo á að hann megi kynna þau þeim sem honum sýnist. Þá hafi sendandi tölvupóstanna ekki átt neina hagsmuni tengda umræddu félagi.

Varnaraðili mótmælir því að eitthvað sé athugavert við það að hann hafi tekið að sér lögmannsstörf fyrir [...] í málum A ehf. gegn henni. Þegar fyrsta málið hafi verið höfðað árið 2017 hafi verið liðin 9 ár frá því að hann hafi síðast gengt lögmannsstörfum fyrir [...] ehf. og þar að auki hafi félagið verið í eigu allt annarra einstaklinga á þeim tíma.

Varnaraðili kveður rangt að hann hafi neitað D um aðgang að gögnum [...] ehf. Félagið eigi engin gögn í hans vörslum eða [...] lögmannsstofu og hafi það verið margendurtekið í svörum til D. Varnaraðili kveðst hafa skilað öllum gögnum sem félagið átti í hans vörslum á sínum tíma og þau gögn sem hann eigi í sínum vinnugögnum tilheyri ekki félaginu. Mótmælir varnaraðili því að hafa brotið gegn nokkru ákvæði siðareglna lögmanna. Þá telur hann að þar sem sömu gögn hafi verið lögð fram í dómsmáli á milli sömu aðila í janúar 2019 sé kvörtun allt of seint fram komin.

Að mati varnaraðila varðar kvörtun vegna efnis greinargerðar sem hann lagði fram fyrir hönd umbjóðanda síns í fyrrgreindu máli, lögmannsstörf sín fyrir umbjóðandann í máli sem hún á mjög mikilla hagsmuna að gæta og varði að auki persónulega hagsmuni fjölskyldu hennar sem henni sé umhugað um að gæta. Á þeim grundvelli að málið hafi verið til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og þar sem álitaefni þetta falli augljóslega utan valdsviðs úrskurðarnefndar krefst varnaraðili þess að þessum kröfulið verði vísað frá. Verði ekki fallist á það mótmælir varnaraðili því að hafa í störfum sínum í umræddu máli brotið gegn einhverjum ákvæðum siðareglna lögmanna.

Varnaraðili krefst frávísunar þess liðar kvörtunar er snýr að afhendingu trúnaðargagna á þeim grundvelli að ekki liggi fyrir umboð sóknaraðilans B til sonar síns D til þess að reka mál fyrir hana fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þessi kröfuliður varði framlagningu sömu skjala og áður voru nefnd og varnaraðili kveður umbjóðanda sínum [...] hafa verið kunnugt um og haft aðgang að um árabil áður en þau hafi verið lögð fram með greinargerð í umræddu dómsmáli. Varnaraðili hafnar því að komið geti til álita að hann hafi brotið gegn siðareglum lögmanna vegna framlagningar umræddra gagna af hálfu […], lögmanns [...] í máli […] þann 1. desember 2021, sem hafi fengið skjölin úr gögnum sem umbjóðanda hans höfðu verið aðgengileg árum saman.

Varnaraðili gerir þá kröfu að kvörtuninni verði vísað frá í heild sinni en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

 

III.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar árétta þeir margt það sem kom fram í kvörtun og svara síðan sérstaklega atriðum úr greinargerð varnaraðila til nefndarinnar.

Fyrirsvarsmaður sóknaraðilans A ehf. áréttar að hann leggi kvörtun fram sem fyrirsvarsmaður og eigandi A ehf. og kvartað sé vegna háttsemi lögmanns félagsins til margra ára. Þá kveðst hann alla tíð hafa verið meðvitaður um samskipti föður síns og bróður við varnaraðila varðandi hagsmuni móður sinnar, sóknaraðilans B. Þar sem hann hafi verið búsettur erlendis hafi faðir hans og bróðir séð um samskipti við varnaraðila.

Sóknaraðilar mótmæla því að [...] ehf. hafi rekið skrifstofu. Félagið hafi verið eignarhaldsfélag sem hélt utan um hlutabréfaeignir en hafi ekki verið með aðra starfsemi og ekki með starfsmenn á launaskrá. Þá hafi [...] ehf. aldrei gert húsaleigusamning við [...] fasteign ehf. Sóknaraðilar kveða allan póst vegna [...] ehf. hafa verið sendan á lögheimili [...], afa síns, fram til júlí 2007. Þá segja sóknaraðilar bókhald [...] ehf. sýna að félagið hafi greitt kostnað við rekstur félagsins [...] ehf. sem var alfarið í eigu [...].

Sóknaraðilar árétta að þær fyrirspurnir sem þeir hafi sent varnaraðila hafi allar varðað lögmæta hagsmuni og verið málefnalegar. Varnaraðili hafi hins vegar ekki svarað neinum fyrirspurnum frá þeim frá árinu 2017. Þá mótmæla sóknaraðilar fullyrðingum varnaraðila um að hann hafi lagt heilmikið af mörkum til að þjóna þeim við skoðun á rekstri félagsins með gagnaframlagningu í málum sóknaraðilans A ehf. gegn [...]. Varnaraðili hafi þvert á móti handvalið gögn til hagsbóta fyrir umbjóðanda sinn, gögn sem hann hafi komist yfir sem trúnaðar­lögmaður [...] ehf., sem sé stefnandi í þeim málum sem um ræði.

Sóknaraðilar andmæla því að kvörtun lúti einungis að framlagningu varnaraðila á þremur tölvupóstum. Kvörtun lúti að framlagningu allra þeirra gagna sem varnaraðili lagði fram enda sé í öllum tilvikum um að ræða gögn sem hann hafi komist yfir sem þáverandi lögmaður þeirra.

Hvað varðar þá afstöðu varnaraðila að tölvupóstar sem eiginmaður sóknaraðilans B sendi honum á árunum 2008 og 2009, falli ekki undir trúnaðarupplýsingar, benda sóknaraðilar á að varnaraðili hafi farið fram á að litið yrði á skýrslu eiginmannsins fyrir dómi sem aðilaskýrslu, vegna þess hve tengdur hann hafi verið [...] ehf. Á það hafi ekki verið fallist af hálfu héraðsdóms.

Hvað varðar þriðja skjalið, tölvupóst D til varnaraðila frá 16. júlí 2011, segja sóknaraðilar um hafa verið að ræða einkapóst D til persónulegs lögmanns foreldra sinna og lögmanns fjölskyldufélags þar sem 80% eigna fjölskyldunnar hafi verið geymdar. Varnaraðili hafi ítrekað lýst því yfir sem lögmaður [...] að hún hafi ekki haft aðgang að neinum gögnum, enda hafi sóknaraðilar ítrekað skorað á hana að framvísa samskiptum eiginmanns hennar, [...], við endurskoðanda eða lögmann [...] ehf. á árinu 2008, án árangurs. Sama hafi [...] lögmaður gert í greinargerð til Landsréttar í máli […].

Sóknaraðilar hafna því sem fram kemur í greinargerð varnaraðila að sú staðreynd að varnaraðili hafi lagt umrædd gögn fram í fyrra dómsmáli, leiði til þess að sú framlagning þeirra sem kvörtun lýtur að, hafi verið heimil. Þá hafna sóknaraðilar þeirri staðhæfingu að margir hafi vitað um efni skjalanna í ljósi fyrri framlagningar þeirra.

Sóknaraðilar árétta að kvartað sé undan gagnaframlagningu lögmannsins í heild sinni, enda sé ljóst að öll gögn sem umbjóðandi hans hafi lagt fram í málinu stafi frá varnaraðila sjálfum, enda hafi bæði hann og [...] lögmaður fullyrt í greinargerðum sínum að umbjóðandi þeirra hafi aldrei haft aðgang að gögnum félagsins.

D hafnar því að hann eigi enga hagsmuni tengda umræddu félagi enda hafi félagið geymt yfir 80% af eignum fjölskyldu hans, þ.m.t. föðurarf móður hans og í ljósi þess að hann hafi ásamt föður sínum séð um allt utanumhald eigna móður sinnar. Að hans mati breytir það engu þó eigendur [...] ehf. séu í dag aðrir en þeir voru áður, varnaraðili hafi engu að síður verið lögmaður félagsins, stefnanda í þeim málum sem um ræðir, til margra ára. Þá mótmæla sóknaraðilar þeirri fullyrðingu varnaraðila að [...] ehf. eigi engin gögn hjá honum eða [...] lögmannsstofu enda hafi varnaraðili lagt fram fjölda trúnaðarskjala er snerti rekstur [...] ehf. sem lögmaður stefndu [...] í málum A ehf. gegn henni. Varnaraðili hafi starfað náið með fyrrum fyrirsvarsmanni félagsins og verið tengiliður við [...] í aðdraganda yfirtöku bankans á félaginu 13. ágúst 2008. Sóknaraðilar telja fráleitt að umrædd gögn séu einkagögn varnaraðila og telja að málarekstur félagsins hefði styrkst umtalsvert hefði það fengið aðgang að samskiptum fyrrum fyrirsvarsmanns félagsins og lögmanns við endurskoð­endur félagsins um málefni þess.

Sóknaraðilar árétta að varnaraðili hafi verið lögmaður [...] í umfangsmikilli rannsókn embættis skattrannsóknarstjóra og sérstaks saksóknara sem hafi fengið málið til ákærumeðferðar. Í því máli hafi varnaraðili sent inn gögn frá endurskoðanda [...] þess efnis að hann hafi fengið 46 milljóna króna lán frá föður sínum sem [...] hafi endurgreitt til systra sinna við skipti á dánarbúi föður þeirra árið 2006. Endurskoðandanum hafi hins vegar verið fullkunnugt um að umrædd fjárhæð hafi komið af reikningi [...] ehf. Nokkrum árum síðar hafi varnaraðili tekið til varna f.h. [...] vegna dánarbús [...] í máli sóknaraðilans A ehf. gegn henni, sem m.a. varðaði umrædda fjárhæð sem sóknaraðilar fullyrða að hafi komið frá [...] ehf., en ekki [...] persónulega, auk þess sem fjárhæðin hafi aldrei verið endurgreidd. Í greinargerð sinni f.h. [...] hafi varnaraðili borið við skeytingarleysi, athafnaleysi og hirðuleysi systra [...], sem áttu 75% hlut í [...] ehf., gagnvart lagaskyldum sínum sem stjórnarmenn félagsins varðandi bókhald þess. Þetta hafi hann gert þrátt fyrir að fyrir hafi legið eiðsvarinn framburður allra systranna sem og fyrrum endurskoðanda félagsins þess efnis að [...] hafi séð um allan daglegan rekstur félagsins og verið eini tengiliður félagsins við endurskoðanda varðandi bókhald félagsins. Í dómsmálinu hafi varnaraðili enn fremur lagt fram gögn sem gefi aðrar skýringar á færslu fyrrgreindra 46 milljóna króna en skattyfirvöldum hafi verið gefnar á sínum tíma.

Hvað varðar framlagningu [...] lögmanns á sömu skjölum og kvörtun þessi tekur til, og fullyrðingu varnaraðila þess efnis að […] hafi fengið skjölin úr gögnum sem umbjóðanda hans, [...], hafi verið aðgengileg í mörg ár, benda sóknaraðilar á að umræddir tölvupóstar séu merktir varnaraðila og því virðist ljóst að þeir komi úr tölvupósthólfi hans. Önnur skjöl sem [...] lögmaður hafi lagt fram f.h. [...] í málinu stafi einnig augljóslega frá varnaraðila, enda hafi [...] aldrei haft aðgang að slíkum gögnum og aldrei tengst rekstri [...] ehf., eins og staðfest sé í greinargerðum varnaraðila og [...] lögmanns f.h. hönd hennar.

Að lokum beindu sóknaraðilar áskorunum til varnaraðila um að veita tilteknar upplýsingar er tengjast störfum hans fyrir [...] ehf. og hluthafa í félaginu á árunum 2007 og 2008.

IV.

Varnaraðili taldi athugasemdir sóknaraðila ekki gefa tilefni til frekari athugasemda af sinni hálfu og vísaði til þeirra skýringa sem hann gaf nefndinni í greinargerð sinni.

V.

Í viðbótarathugasemdum sínum bentu sóknaraðilar á að varnaraðili hefði ekki orðið við fyrri áskorunum þeirra í kvörtun og viðbótarathugasemdum um að veita tilgreindar upplýsingar. Jafnframt reifuðu sóknaraðilar atvik úr málsmeðferð í málum sóknaraðilans A ehf. gegn [...], umbjóðanda varnaraðila, og fleirum, fyrir héraðsdómi.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í þeim tilfellum sem atvik áttu sér stað áður en breyting, sem gerð var á siðareglum lögmanna þann 26. janúar 2023, tók gildi vísast hér eftir til ákvæða eins og þau komu fyrir í þágildandi siðareglum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Þá skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 2. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til þess að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 3. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar. Þá skal lögmaður ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns.

Samkvæmt 6. gr. siðareglna lögmanna skal upplýsingum, sem lögmaður fær í starfi, haldið frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki. Þá reglu skal lögmaður brýna fyrir starfsfólki sínu. Ekki má lögmaður nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila.

  1. gr. siðareglna lögmanna kveður á um að lögmaður skuli gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Þá ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Lögmaður skal ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.

Í 11. gr. þágildandi siðareglna lögmanna var að finna ákvæði um hagsmunaárekstra. Var þar kveðið á um að lögmaður mætti ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra væru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Ákvæðið hindraði þó ekki að lögmaður leitaði sátta með deiluaðilum, með samþykki beggja. Jafnframt var kveðið á um að lögmaður skyldi varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir voru, fengju ekki samrýmst eða hætta gæti verið á slíku. Sama gilti um lögmenn sem hafa samstarf um rekstur (í rekstri) lögmannsstofa eða reka lögmannsstofu í félagi.

Í 17. gr. þágildandi siðareglna lögmanna var kveðið á um trúnaðarskyldu lögmanns gagnvart skjólstæðingi sínum. Samkvæmt greininni skyldi lögmaður aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint er að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem lögmaður hefur fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing. Sama gilti um fulltrúa lögmanns og annað starfslið svo og félaga lögmanns að lögmannsskrifstofu og starfslið hans. Loks var kveðið á um að trúnaðarskyldan héldist þótt verki væri lokið.

Samkvæmt 20. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

II.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðilar telja varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1., 2., 3., 6., 8., 11., 17. og 20. gr. siðareglna lögmanna.

Varnaraðili fór fram á frávísun þess hluta kvörtunar sem lýtur að efni greinargerðar hans f.h. [...] í máli sóknaraðilans A gegn henni nr. […]. Varnaraðili segir þennan hluta kvörtunar varða lögmannsstörf sín fyrir [...] og hann falli augljóslega utan valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna. Í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti hann lagt kvörtun vegna þess fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Af því leiðir að þó sú háttsemi sem kvartað er yfir hafi átt sér stað í tengslum við störf lögmanns fyrir umbjóðanda sinn, kemur það ekki í veg fyrir að annar aðili, sem telur á sér brotið með háttseminni, geti kvartað vegna hennar til nefndarinnar. Er af þeim sökum ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila hvað þennan þátt málsins varðar.

Varnaraðili fór fram á frávísun þess hluta kvörtunar sem stafar frá sóknaraðilanum B á grundvelli þess að umboð frá henni hafi ekki legið fyrir í málinu. Með viðbótarathugasemdum sóknaraðila fylgdi umboð sóknaraðilans B til sonar síns D til rekstrar máls þessa fyrir nefndinni fyrir hennar hönd. Að mati nefndarinnar er umboðið fullnægjandi til reksturs máls D f.h. sóknaraðilans B fyrir nefndinni og verður ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila af þessum sökum.

Þá krefst varnaraðili frávísunar kvörtunarinnar í heild á þeim forsendum að um sé að ræða aðila sem hann hafi ekki unnið lögmannsstörf fyrir í meira en 14 ár, verulegur ágreiningur sé um málavexti og sönnunarfærsla geti ekki átt sér stað við málsmeðferð fyrir nefndinni auk þess sem atvikin sem kvörtun lúti að hafi átt sér stað fyrir mörgum árum. Þau atvik sem kvörtun lýtur að varða framlagningu gagna í héraðsdómi þann 23. nóvember 2021 annars vegar og þann 1. desember sama ár hins vegar. Kvörtun sem barst þann 23. nóvember 2022 er því innan þess frests sem kveðið er á um í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sbr. og 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi skiptir ekki máli þó sömu gögn hafi verið lögð fram áður í öðru dómsmáli. Að öðru leyti vísast til framangreindrar umfjöllunar um frávísunar­kröfu hluta málsins. Kröfu varnaraðila um frávísun málsins í heild er hafnað.

Kvörtunin lýtur í fyrsta lagi að framlagningu varnaraðila á gögnum í máli […] í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 23. nóvember 2021.

Gögnin sem um ræðir eru eftirfarandi dómskjöl í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. […] eins og þeim er lýst í greinargerð varnaraðila f.h. umbjóðanda síns:

Nr. 46  Handveðsyfirlýsing útg. af stefnanda 8. janúar 2008.

Nr. 47  Tölvupóstur frá [...] til [...] o.fl. 18. febrúar 2008.

Nr. 48  Tölvupóstur frá [...] 23. júní 2008 til þáverandi lögmanns stefnanda og [...].

Nr. 49  Bráðabirgða efnahagsreikningur 31. desember 2007, frá [...], dags. 4. júlí 2008.

Nr. 50  Beiðni stjórnar stefnanda um töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta 4. júlí 2008.

Nr. 51  Bréf stefnanda til [...] hf. 15. júlí 2008.

Nr. 52  Umræðupunktar frá [...] 1. ágúst 2008.

Nr. 53  Samantekt þáverandi lögmanns stefnanda um stöðu kröfuhafa ef [...] verður lýst gjaldþrota, dags. 1. ágúst 2008.

Nr. 54  Tölvupóstsamskipti milli [...] og þáverandi lögmanns stefnanda 7. ágúst 2008.

Nr. 55  Samkomulag hluthafa í stefnanda við [...] ehf. 13. ágúst 2008.

Nr. 56  Tölvupóstur [...] til þáverandi lögmanns síns 15. október 2008.

Nr. 57  Tölvupóstur [...] til þáverandi lögmanns síns 3. janúar 2011.

Nr. 58  Tölvupóstsamskipti D við fyrrverandi lögmann stefnanda í júní – júlí 2011.

Nr. 59  Tölvupóstar frá yfirlögfræðingi [...]  ehf. 12. desember 2017.

Að hluta til er um að ræða skjöl sem stafa frá eða eru undirrituð af þáverandi fyrirsvarsmanni sóknaraðilans A ehf. Nánar tiltekið er þar um að ræða dómskjöl nr. 46-48, 50-51 og 55. Að öðrum hluta er um að ræða skjöl sem að mati nefndarinnar telst ljóst að þáverandi fyrirsvarsmaður félagsins hafi haft aðgang að á þeim tíma og á það við um dómskjöl nr. 49 og 52-53. Í tilfelli dómskjals nr. 58 liggur fyrir að varnaraðili hafði áframsent fyrrum fyrirsvarsmanni félagsins umrætt skjal þann 16. júlí 2011. Að mati nefndarinnar verður að ætla að eiginmaður umbjóðanda varnaraðila, sem fyrrum stjórnarmaður og hluthafi í [...] ehf., sem sá um daglegan rekstur félagsins, og sem fyrirsvarsmaður umbjóðanda sóknaraðila á þeim tíma sem póstarnir voru sendir, hafi haft umrædd skjöl í fórum sínum, og þau verið meðal gagna í dánarbúi hans að honum látnum. Málið sem um ræðir var höfðað gegn umbjóðanda varnaraðila vegna dánarbús eiginmanns hennar og hafði hún að mati nefndarinnar sama rétt og hann hefði haft á að leggja umrædd gögn fram í málinu. Dómskjal nr. 58 auk dómskjals nr. 56, var lagt fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli […] hinn 15. janúar 2019, í máli sömu aðila. Liggur fyrir að umbjóðandi varnaraðila hafði í síðasta lagi aðgang að umræddum skjölum frá þeim tíma og var heimilt að leggja þau fram umrætt sinn. Dómskjal nr. 59 barst varnaraðila frá utanaðkomandi aðila, á þeim tíma sem hann hafði tekið að sér hagsmunagæslu fyrir núverandi umbjóðanda sinn og að mati nefndarinnar mátti hann afhenda henni skjalið og hún leggja það fram í málinu. Er ekki fallist á að framlagning dómskjala nr. 46-53, 55-56 og 58-59, umrætt sinn, feli í sér brot á siðareglum lögmanna af hálfu varnaraðila.

Varnaraðili kveðst í greinargerð sinni hafa haft þá vinnureglu að kynna þáverandi hluthöfum [...]. ehf., þ.m.t. sóknaraðilanum B og bróður hennar, eiginmanni umbjóðanda varnaraðila, öll gögn sem tengdust þeim verkefnum þar sem þau áttu samskonar hagsmuni, hvort sem þau hafi orðið til hjá varnaraðila eða komið frá öðrum. Þá kveðst varnaraðili hafa kynnt efni tölvupósta á dómskjölum 56-58 fyrir umbjóðanda sínum og eiginmanni hennar heitnum þegar fyrirsvarsmaður sóknaraðilans A ehf. fór að spyrjast fyrir um málefni félagsins. Því hafi efni tölvupóstanna verið umbjóðanda varnaraðila vel kunnugt þegar skjölin voru lögð fram umrætt sinn.

Hvað varðar dómskjöl nr. 54 og 57, bera gögn málsins ekki með sér að þau hafi verið lögð fram fyrir dómi í öðrum málum sóknaraðila á hendur umbjóðanda varnaraðila, né liggja fyrir gögn í máli þessu sem sýna fram á að eiginmanni umbjóðanda varnaraðila hafi verið afhent umrædd gögn á meðan hann lifði. Umrædd skjöl, eins og þau voru lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 23. nóvember 2021, bera með sér að hafa verið prentuð út úr tölvupósthólfi varnaraðila.

Tölvupóstur á dskj. nr. 54 er svar eiginmanns sóknaraðilans B við tölvupósti varnaraðila til hans og eiginmanns umbjóðanda varnaraðila, um málefni sóknaraðilans A ehf., frá þeim tíma sem varnaraðili gætti enn hagsmuna sóknaraðilans A ehf. Tölvupósturinn ber ekki með sér að hafa verið sendur öðrum viðtakanda en varnaraðila. Dómskjal nr. 57 er tölvupóstur sem eiginmaður sóknaraðilans B sendi varnaraðila og varðar málefni sóknaraðilans A ehf. Á þeim tíma sem pósturinn var sendur gætti varnaraðili hagsmuna sóknaraðilans B og eiginmanns hennar persónulega.

Í greinargerð varnaraðila f.h. umbjóðanda síns til héraðsdóms er dómskjali nr. 54 lýst þannig að um sé að ræða tölvupóst [...] til „þáverandi lögmanns stefnanda“ en [...] var á þeim tíma sem pósturinn var sendur, prókúruhafi [...] ehf. og umboðsmaður eiginkonu sinnar, sóknaraðilans B, þáverandi hluthafa og stjórnarmanns í félaginu um málefni þess og í samskiptum við varnaraðila sem slíkur um árabil. Dómskjali nr. 57 er lýst þannig í greinargerðinni að um sé að ræða tölvupóst [...] til „þáverandi lögmanns síns“.

Í greinargerð varnaraðila f.h. [...] í umræddu máli segir, að því er varðar samning um kaup [...] á öllu hlutafé í sóknaraðilanum A:

„Í grein 7 í stefnu er því haldið fram að ekkert samráð hafi verið haft við stjórn félagsins í aðdraganda gerðar þessa samnings. Þessi fullyrðing er rakalaus ósannindi, enda ber texti samningsins á dskj. 5 með sér að hluthafarnir voru allir með í ráðum um þetta. Til frekari áréttingar vísast til umræðupunkta á dskj. 52 frá prókúruhafanum [...] og til orðsendinga sem gengu milli hans og undirritaðs lögmanns, bæði fyrir og eftir þessa samningsgerð (dskj. 54, 56 og 57).“

Telur nefndin ljóst af framangreindu að dómskjöl nr. 54 og 57 hafi, meðal annarra, verið lögð fram í þeim tilgangi að sýna fram á að hluthafar í [...] ehf., einkum sóknaraðilinn B, hafi verið með í ráðum í aðdraganda samningsgerðar hluthafanna við [...].

Að mati nefndarinnar telst sannað að um sé að ræða skjöl sem varnaraðili móttók sem þáverandi lögmaður sóknaraðila. Skjölin bera með sér að eiga uppruna sinn í tölvupóst­hólfi varnaraðila og gögn máls þessa bera ekki með sér að umrædd skjöl hafi verið aðgengileg umbjóðanda hans, stefndu í umræddu dómsmáli, fyrir framlagningu þeirra þann 23. nóvember 2021. Jafnframt er að mati nefndarinnar ljóst að varnaraðili mat það svo að umrædd skjöl gætu haft þýðingu fyrir málatilbúnað umbjóðanda hans í málinu og þar með áhrif á niðurstöðu málsins. Voru skjölin lögð fram í þeim yfirlýsta tilgangi að styrkja málstað gagnaðila sóknaraðila, fyrrum umbjóðanda varnaraðila, á kostnað þeirra. Að mati nefndarinnar fól framlagning skjalanna í sér brot af hálfu varnaraðila á þagnar- og trúnaðar­skyldu hans við sóknaraðila, sem hann bar gagnvart þeim sem fyrrum lögmaður þeirra, og er sú háttsemi varnaraðila að leggja skjölin fram umrætt sinn, í þeim tilgangi sem að framan greinir, aðfinnsluverð, að mati nefndarinnar.

ii.

Í öðru lagi er kvartað yfir þeirri háttsemi varnaraðila að hafa vísvitandi farið með rangfærslur í greinargerð sem hann lagði fram f.h. umbjóðanda síns í héraðsdómsmáli […] þann 23. nóvember 2021. Hvað þetta varðar vísa sóknaraðilar til þess að varnaraðili hafi byggt á því í málinu að tjón sóknaraðilans A ehf., sem deilt var um, væri ósannað auk þess sem aðrar skýringar hafi verið gefnar á færslu fjármuna í málinu en áður höfðu verið gefnar í tengslum við rannsókn skattyfirvalda á sömu færslu. Að mati nefndarinnar getur það að varnaraðili hafi byggt á þeirri málsástæðu fyrir hönd umbjóðanda síns í umræddu dómsmáli að tjón gagnaðila væri ósannað, ekki talist fela í sér brot á siðareglum lögmanna. Þvert á móti telur nefndin það hluta af eðlilegri hagsmunagæslu lögmanns í þágu umbjóðanda síns í slíku máli. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á það í máli þessu að sú skýring sem varnaraðili gaf f.h. umbjóðanda síns á umræddri færslu fjármuna í umræddu dómsmáli, sé efnislega röng og hafi verið gefin gegn betri vitund varnaraðila, en héraðsdómur sýknaði umbjóðanda varnaraðila af kröfum sóknaraðilans A ehf. í málinu. Er að mati nefndarinnar ósannað að varnaraðili hafi í málinu gefið rangar eða villandi upplýsingar gegn betri vitund. Er ekki fallist á með sóknaraðilum að varnaraðili hafi gerst brotlegur við siðareglur lögmanna eða lög hvað þennan þátt kvörtunar varðar.

iii.

Í þriðja lagi er kvartað vegna þeirrar háttsemi varnaraðila að fela öðrum lögmanni að gæta hagsmuna umbjóðanda síns í máli [...], í máli sóknaraðilans B gegn henni, nr. [...], sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjaness og nú er rekið í Landsrétti sem mál nr. […], og afhenda lögmanninum trúnaðargögn sem varnaraðili komst yfir sem lögmaður [...] ehf. Umrædd gögn voru lögð fram í málinu þann 1. desember 2021 og er lýst með svofelldum hætti í greinargerð lögmannsins:

Nr. 48  Tölvupóstur frá [...] til [...] endurskoðanda o.fl. 18. febrúar 2008.

Nr. 49  Bréf [...] [...] lögmanns til A 7. apríl 2008.

Nr. 50 Bréf C lögmanns til [...] [...] lögmanns 18. apríl 2008.

Nr. 51 Bréf C lögmanns til [...] [...] lögmanns 1. júlí 2008.

Nr. 52 Lánssamningur milli [...] ehf. og [...] hf. 1. júní 2007.

Nr. 53 Tölvupóstur frá [...] 23. júní 2008 til C lögmanns og [...].

Nr. 54 Bráðabirgða efnahagsreikningur fyrir A ehf. pr. 31. desember 2007, frá [...], dags. 4. júlí 2008.

Nr. 55 Beiðni stjórnar A ehf. um töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta 4. júlí 2008.

Nr. 56 Bréf A ehf. til [...] hf. 15. júlí 2008.

Nr. 57  Umræðupunktar varðandi málefni A ehf. frá [...] 1. ágúst 2008.

Nr. 58 Samantekt þáverandi lögmanns A ehf. um stöðu kröfuhafa ef félagið verður lýst gjaldþrota, dags. 1. ágúst 2008.

Nr. 59 Tölvupóstur C lögmanns til 6 viðtakenda 6. ágúst 2008.

Nr. 60 Tölvupóstsamskipti milli [...] og C lögmanns 7. ágúst 2008.

Nr. 61 Tölvupóstar frá [...] til [...] o.fl. 3. og 9. september 2008.

Nr. 62 Tölvupóstur frá [...] til C lögmanns 18. mars 2009.

Nr. 63 Tölvupóstur frá [...] til C lögmanns 15. október 2008.

Nr. 64 Tölvupóstur frá [...] til C lögmanns 3. janúar 2011.

Nr. 65 Tölvupóstsamskipti D við C lögmaður í júní - júlí 2011.

Nr. 66 Tvö bréf […] til stefnanda 28. mars 2012.

Nr. 67 Svarbréf lögmanns til […] 11. apríl 2012.

Dómskjöl 48-59 eru skjöl sem ýmist eru undirrituð af eiginmanni umbjóðanda varnaraðila eða hafa með rekstur sóknaraðilans A ehf. að gera á þeim tíma sem hann var fyrirsvarsmaður félagsins. Í tilfelli dómskjals nr. 65 liggur fyrir að varnaraðili hafði áframsent fyrrum fyrirsvarsmanni félagsins umrætt skjal þann 16. júlí 2011. Dómskjal nr. 67 er bréf varnaraðila sem hann ritaði fyrir hönd systkinanna allra á þeim tíma sem hann gætti hagsmuna þeirra. Af því leiðir að ætla má að eiginmaður umbjóðanda varnaraðila hafi haft umrædd gögn í fórum sínum og dánarbú hans að honum látnum. Málið sem um ræðir var höfðað gegn umbjóðanda varnaraðila vegna dánarbús eiginmanns hennar og hafði hún að mati nefndarinnar sama rétt og hann hefði haft á að leggja umrædd skjöl fram í málinu. Dómskjal nr. 65 auk dómskjals nr. 63, var lagt fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. [...] hinn 15. janúar 2019, í máli sömu aðila og liggur fyrir að umbjóðandi varnaraðila hafði í síðasta lagi aðgang að skjölunum frá þeim tíma og var heimilt að leggja þau fram umrætt sinn. Dómskjöl nr. 60 og 64, eru sömu skjöl og fjallað var um í lið i í kvörtun þessari og voru lögð fram sem dómskjöl nr. 54 og 57 í máli nr. [...] í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 23. nóvember 2021, í máli sóknaraðilans A gegn umbjóðanda varnaraðila. Að mati nefndarinnar liggur fyrir að umbjóðandi varnaraðila hafði í síðasta lagi aðgang að þeim skjölum frá þeim tíma og var þar af leiðandi heimilt að leggja þau fram umrætt sinn. Er ekki fallist á með sóknaraðilum að skjöl á dómskjölum nr. 48-60, 63-65 og 67 séu skjöl sem varnaraðili hafi komist yfir sem fyrrum lögmaður sóknaraðila og stafi frá honum.

Hvað varðar dómskjal nr. 61 er um að ræða tölvupóst frá eiginmanni sóknaraðilans B, til varnaraðila, þann 9. september 2008 þar sem hann áframsendir tölvupóst sem hann hafði sent eiginmanni umbjóðanda varnaraðila og öðrum viðtakanda, þann 3. september sama ár. Á þessum tíma gætti varnaraðili hagsmuna [...] ehf. Ekki eru aðrir viðtakendur en varnaraðili tilgreindir í tölvupóstinum frá 9. september 2008. Dómskjal nr. 62 er tölvupóstur frá eiginmanni sóknaraðilans B til varnaraðila og sonar síns, […], á þeim tíma sem varnaraðili gætti hagsmuna þeirra hjóna, en pósturinn ber ekki með sér að hafa verið sendur öðrum viðtakendum. Gögn máls þessa bera ekki með sér að umrædd skjöl hafi verið lögð fram áður fyrir dómi í málum sóknaraðila á hendur umbjóðanda varnaraðila né liggja fyrir gögn í máli þessu sem sýna fram á að eiginmanni umbjóðanda varnaraðila hafi verið afhent umrædd gögn á meðan hann lifði og að þau hafi því verið í hans fórum og dánarbús hans að honum látnum. Dómskjöl nr. 61 og 62, eins og þau voru lögð fram þann 1. desember 2021, bera með sér að hafa verið prentuð út úr tölvupósthólfi varnaraðila.

Á dómskjali 66 eru tvö bréf […] lögmanns til sóknaraðilans B, dags. 28. mars 2012, en á þeim tíma gætti varnaraðili hagsmuna hennar og eiginmanns hennar. Ekki liggur fyrir í málinu að umbjóðandi varnaraðila hafi haft aðgang að umræddu skjali en fram kemur að samhljóða bréf voru stíluð á og send eiginmanni umbjóðanda varnaraðila og systrum hans og sóknaraðilans B.

Í ljósi framangreinds telur nefndin sannað að skjöl sem lögð voru fram á dómskjölum nr. 61-62 og 66, í máli nr. [...] þann 1. desember 2021, stafi frá varnaraðila og að um sé að ræða skjöl sem hann móttók sem þáverandi lögmaður sóknaraðila. Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að umbjóðandi hans hafi haft umrædd skjöl í fórum sínum eða að þau hafi borist henni annars staðar frá. Þá bera dómskjöl nr. 61 og 62, eins og fram hefur komið, með sér að hafa verið prentuð út úr tölvupósthólfi varnaraðila.

Tölvupóstur á dómskjali nr. 61 er sem fyrr segir tölvupóstur eiginmanns sóknaraðilans B til varnaraðila 9. september 2008 þar sem hann áframsendir honum tölvupóst sem hann hafði 6 dögum áður sent eiginmanni umbjóðanda varnaraðila og öðrum viðtakanda. Liggur því fyrir að eiginmaður umbjóðanda varnaraðila hafði síðarnefnda tölvupóstinn í fórum sínum og dánarbú hans að honum látnum og þar með umbjóðandi varnaraðila. Að mati nefndarinnar bætti síðari tölvupósturinn engu efnislega við þann fyrri og hefði verið heppilegra að varnaraðili hefði tekið út þann hluta tölvupóstkeðjunnar áður en hún fór frá honum. Í ljósi þess að tölvupósturinn inniheldur ekki trúnaðarupplýsingar, enda kemur ekkert þar fram sem aðilum málsins var ekki þegar kunnugt, telur nefndin ekki ástæðu til að finna að afhendingu varnaraðila á tölvu­póstinum, sem lagður var fram á dómskjali nr. 61 umrætt sinn, til þriðja aðila.

Dómskjal nr. 62 er sem fyrr segir tölvupóstur frá eiginmanni sóknaraðilans B til varnaraðila og sonar síns, 18. mars 2009, en á þeim tíma gætti varnaraðili hagsmuna þeirra hjóna. Að mati nefndarinnar telst sannað að um sé að ræða skjal sem varnaraðili móttók sem þáverandi lögmaður sóknaraðilans B og eiginmanns hennar og fyrrum lögmaður sóknaraðilans A ehf., en [...], eiginmaður B, var áður prókúruhafi í félaginu og umboðsmaður eiginkonu sinnar, þáverandi hluthafa og stjórnar­manns félagsins í málefnum þess og í samskiptum við varnaraðila sem slíkur um árabil. Nefndin telur að varnaraðila hafi borið að halda trúnað um efni skjalsins og fól afhending hans á því til þriðja aðila í sér brot á þagnar- og trúnaðarskyldu hans við sóknaraðila, sem hann bar sem fyrrum lögmaður þeirra. Sú háttsemi varnaraðila að afhenda skjalið þriðja aðila, í þeim tilgangi að styrkja málstað gagnaðila sóknaraðila, fyrrum umbjóðanda síns, á kostnað þeirra, er að mati nefndarinnar aðfinnsluverð.

Á dómskjali 66 eru, sem fyrr segir, tvö bréf […] lögmanns til sóknaraðilans B, dags. 28. mars 2012, en á þeim tíma gætti varnaraðili hagsmuna hennar og eiginmanns hennar. Í ljósi þess að samhljóða bréf voru send öllum fyrrum hluthöfum og stjórnarmönnum í [...] ehf. og þess að umbjóðanda varnaraðila var efni bréfsins þar með kunnugt, telur nefndin ekki ástæðu til að finna að afhendingu varnaraðila á bréfunum, sem lögð voru fram á dómskjali nr. 66 umrætt sinn, til þriðja aðila.

Í kvörtun lýstu varnaraðilar þeirri skoðun sinni að þeim þætti undarlegt að fyrrum lögmaður þeirra hafi ákveðið að taka að sér hagsmunagæslu gagnaðila þeirra í dómsmáli, en sú háttsemi er sérstakt umkvörtunarefni í máli nefndarinnar nr. 16a/2023. Nefndin tekur undir með sóknaraðilum að óheppilegt sé að varnaraðili hafi ákveðið að taka að sér mál gagnaðila fyrrum umbjóðanda síns með þeim hætti sem hann hefur gert. Að mati nefndarinnar er mál þetta, líkt og önnur sem nefndinni hafa borist frá sóknaraðilum vegna tengdra atvika, tilkomið vegna þessarar ákvörðunar varnaraðila. Þannig er sú háttsemi varnaraðila, sem nefndin finnur að í máli þessu, afleiðing þess að varnaraðili tók að sér hagsmuna­gæslu fyrir núverandi umbjóðanda sinn, í málum sóknaraðila, fyrrum umbjóðenda sinna, sem varða atvik frá þeim tíma sem hann var lögmaður þeirra, gegn henni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, C lögmanns, um frávísun málsins frá nefndinni, í heild eða að hluta, er hafnað.

Sú háttsemi varnaraðila, C lögmanns, að leggja dómskjöl nr. 54 og 57 fram með greinargerð stefndu í máli nr. [...] í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 23. nóvember 2021, er aðfinnsluverð.

Sú háttsemi varnaraðila, C lögmanns, að afhenda þriðja aðila skjal sem lagt var fram sem dómskjal nr. 62 með greinargerð stefndu í máli nr. [...] í Héraðsdómi Reykjaness þann 1. desember 2021, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

 

Rétt endurrit staðfestir


Eva Hrönn Jónsdóttir