Mál 12 2023
Mál 12/2023
Ár 2023, föstudaginn 15. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 12/2023:
A lögmaður
gegn
B
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 15. mars 2023 erindi A lögmanns, vegna uppkomins ágreinings við skjólstæðing sinn, B, um rétt lögmannsins til endurgjald eða fjárhæð þess.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna málsins og tiltekið að litið væri svo á að um væri að ræða ágreining um rétt lögmanns til endurgjalds eða fjárhæð þess í skilningi 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Varnaraðili skilaði síðan inn erindi til nefndarinnar vegna sama ágreinings sem barst nefndinni 24. mars 2023 ásamt fylgiskjölum. Með tölvupósti frá sóknaraðila þann 29. mars 2023 og varnaraðila þann 5. apríl 2023 óskuðu þeir þess að málin yrðu sameinuð. Sóknaraðili skilaði viðbótarathugasemdum og gögnum vegna málsins þann 27. apríl 2023. Viðbótarathugasemdir varnaraðila bárust nefndinni þann 6. júní 2023. Málið var tekið til umræðu á fundi nefndarinnar þann 31. ágúst 2023 og í kjölfarið var fyrirspurn beint til sóknaraðila um að skýra nánar frá kröfugerð sinni í málinu. Breytt kröfugerð sóknaraðila ásamt skýringum barst nefndinni þann 11. september 2023 og var varnaraðila gefinn kostur á að skila inn frekari athugasemdum varðandi hina breyttu kröfugerð. Bárust athugasemdir varnaraðila þann 15. september 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Með umboði dags. 19. júlí 2022 fól varnaraðili sóknaraðila að gæta hagsmuna sinna í tengslum við hjónaskilnað sem stóð til milli varnaraðila og maka hans, bæði í tengslum við fjárskipti og ákvörðun um forsjá og lögheimili barna þeirra. Óumdeilt er að sóknaraðili kynnti fyrir varnaraðila að hann ynni verkið á tímagjaldi á grundvelli tímaskráningar.
Ekki voru sammæli milli hjóna á þeim tíma um hvaða eignir og skuldir heyrðu undir skiptin og hvað væri undanskilið. Átti sóknaraðili í miklum samskiptum við varnaraðila auk þess að eiga í samskiptum við maka varnaraðila og lögmann hans, sýslumann o.fl. Af tímaskýrslu og greinargerðum aðila virðist sem unnin hafi verið drög að fjárskiptasamningi, vinna farið í að reyna afla upplýsinga og gagna frá maka varnaraðila, í yfirferð gagna og annað. Í desemberlok 2022 lauk störfum sóknaraðila í þágu varnaraðila og hafði á þeim tíma ekki náðst samkomulag um fjárslit. Ágreiningur er um það hversu árangursríkar samningaviðræður sóknaraðila í þágu varnaraðila hafi verið og hve umfangsmikil vinna hans hafi verið.
Sóknaraðili gaf út fjóra reikninga til varnaraðila vegna málsins. Fyrsti reikningurinn var gefinn út þann 6. október 2022 að fjárhæð 332.320 kr. og skráður sem innborgun inn á málið. Annar reikningurinn þann 1. desember 2022 að fjárhæð 402.380 kr., þriðji þann 27. desember 2022 að fjárhæð 292.640 kr. og fjórði þann 1. mars 2023 að fjárhæð 484.189 kr. Allt saman að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Samtals nam því útseld þjónusta samkvæmt reikningum sóknaraðila fjárhæð 1.511.529 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts fyrir 44,25 klst. af útseldri lögfræðiþjónustu sem sóknaraðili skráði á verkið fyrir vinnu á tímabilinu 17. júlí 2022 til 11. nóvember 2022.
Í júlímánuði 2022 eru skráðar 6,5 klst. vegna vinnu við að mæta í fyrirtöku hjá sýslumanni, fundi, gerð umboðs og gagnaöflun, samskipti við lögmann maka hans, skoðun skattframtala og samskipti við varnaraðila og maka hans. Í ágúst 2022 eru skráðar 11,75 klst., að stærstum hluta vegna tölvupóstsamskipta og annars konar samskipta við sömu aðila, auk vinnu við drög að fjárskiptasamningi og gagnaöflun og miðlun. Meðal annars eru skráðar fjórar klukkustundir í tölvupósta og samskipti þ.m.t. við varnaraðila dagana 25. og 26. ágúst. 2022. Í september 2022 eru skráðar 13,75 klst. sem aftur eru að stærstum hluta samskipti í tengslum við málið við sömu aðila, skoðun á bílasölum og vinnu í tengslum við drög að samningi. Í október 2022 eru síðan skráðar 12 klst. í samskipti við sömu aðila, auk bréfs til sýslumanns og persónuverndar um aðgang að erfðafjárskýrslum maka varnaraðila. Loka skráning í tímaskýrslu er tölvupóstur 11. nóvember 2022 sem er skráður 0,25 klst. Þá má sjá af tímaskýrslu verksins að á tímabilinu júlí til september 2022 nam tímagjald sóknaraðila vegna verksins 26.800 kr. auk virðisaukaskatts og frá október sama ár, 29.500 kr. auk virðisaukaskatts.
Þann 14. september 2022 sendi sóknaraðili tölvupóst á varnaraðila þar sem fram kemur m.a. að: „Þegar fjárskiptasamningur liggur fyrir og skilnaður að borði og sæng mun ég senda þér reikning og tímaskýrslu í málinu. Nú eru komnir 30,5 tímar í málinu sem gera 817.400 plús virðisaukaskatt. Ég reikna með að þetta endi í ca. 35 tímum sem gera þá 1.163.120,- með virðisaukaskatti. Þú athugar að ég er að áætla þá vinnu sem eftir er fram að skilnaði að borði og sæng til að gefa þér hugmynd að kostnaði.“
Ekki varð úr skilnaði varnaraðila og maka hans á þeim tíma og fór varnaraðili í kjölfarið að skoða lögmannskostnað maka síns vegna málsins. Kom þá í ljós að lögmaður makans hafði einungis skráð 8,25 klst. vegna vinnu sinnar í málinu og gert reikningi fyrir þeim kostnaði. Leitaði þá varnaraðili til sömu lögmannsstofu og gætt hafði hagsmuna maka hans fram til þess og sendi sú lögmannsstofa bréf á sóknaraðila fyrir hönd varnaraðila vegna málsins þar sem gerð var grein fyrir sjónarmiðum varnaraðila og m.a. spurt hvort mistök hafi orðið við kostnað vegna málsins sem þætti stillt úr hófi. Neitaði varnaraðili að greiða fyrir frekari lögmannsþóknun sóknaraðila. Ríkir ágreiningur milli aðila um umfang málsins og réttmæti tímaskráninga sóknaraðila og báru því báðir aðilar ágreining um endurgjald sóknaraðila undir nefndina.
Skilja verður málatilbúnað sóknaraðila sem svo að hann krefjist þess að nefndin leggi mat á rétt hans til endurgjalds fyrir störf sem hann vann í þágu varnaraðila og fjárhæð þess sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Sóknaraðili lýsir málsatvikum í greinargerð sinni til nefndarinnar og aðdraganda þess að varnaraðili leitaði til hans. Kveðst sóknaraðili hafa bent varnaraðila á annan lögmann til að aðstoða sig við verkið og varnaraðili fengið ráðgjöf frá þeim lögmanni auk annars, en að endingu viljað að sóknaraðili tæki við málinu. Kveðst sóknaraðili hafa útskýrt að hann starfaði á grundvelli tímagjalds og ef samningar næðust strax eða fljótlega greiddi varnaraðili þóknun við útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng. Ef hins vegar málið yrði flókið í samningaviðræðum eða að efni til, myndi sóknaraðili senda varnaraðila tímaskýrslu ásamt reikningi reglulega. Að sögn sóknaraðila féllst varnaraðili á þessa tilhögun.
Að sögn sóknaraðila var varnaraðili í miklu uppnámi og átti erfitt með að ná utan um málið. Þá hafi varnaraðili haft takmarkaða innsýn í fjármál heimilisins. Kveður sóknaraðili við gagnaöflun hafa komið í ljós að meira og minna allar eignir í búi þeirra hjóna væru til komnar með arfi frá föður maka varnaraðila sem hafði fallið frá á meðan aðilar voru í hjúskap. Kveðst sóknaraðili hafa kallað ítrekað eftir gögnum varðandi arfgreiðslur frá maka varnaraðila en ekki fengið þær. Vísar sóknaraðili til þess að í erfðaskrá sem tengdafaðir varnaraðila hafði gert skömmu fyrir andlátið væri kveðið á um að arfur skyldi vera séreign erfingja en ekki hafi legið ljóst fyrir hver uppruni þeirra eigna væri sem til staðar voru í búinu við upphaf hjúskapar aðila. Að sama skapi kveðst sóknaraðili hafa ítrekað óskað eftir erfðaskrá og erfðafjárskýrslum frá lögmanni maka varnaraðila sem ekki hafi fengist afhentar, en að lokum hafi erfðaskrá verið send.
Lýsir sóknaraðili því að ráðgjöf hans til varnaraðila hafi verið að fara með málið í opinber skipti ef ekki tækist að afla upplýsinga um uppruna fjármagns og kvaðir þeim tengdum eða að semja við makann. Að sögn sóknaraðila hafi varnaraðili ekki viljað það en lagt ríka áherslu á að fá úr því skorið hver réttur hans væri í búinu og viljað semja um fjárslit. Því hafi tekið við samskipti við varnaraðila og lögmann maka varnaraðila og drög að samningum verið send á milli, gögn um skuldir aflað, verðmat á eignum og frekari vinna. Vísar sóknaraðili til þess að auk lögfræðilegra erinda hafi varnaraðili sent honum langa pósta, jafnvel marga á dag, um aðstæður varnaraðila og hvernig varnaraðili óskaði þess að ljúka málinu. Í þeim póstum hafi margoft komið fram sömu spurningar um lagaleg atriði.
Kveðst sóknaraðili hafa óskað eftir aðgangi að erfðafjárskýrslum frá sýslumanni 11. október 2022 vegna beiðnar varnaraðila um nákvæmar upplýsingar um rétt sinn. Því hafi verið hafnað með ákvörðun sýslumanns dags. 19. október 2022. Þá hafi sóknaraðili leitað til Persónuverndar þann 17. október í þeim tilgangi að fá skorið úr um rétt varnaraðila til aðgangs að umræddum upplýsingum. Svo hafi hins vegar farið að þann 21. október 2022 sendi maki varnaraðila loks gögn í málinu sem sýndu fram á að allar eignir búsins væru arfur eftir tengdaföður varnaraðila og lytu því að ákvæðum erfðaskrár um séreign. Skömmu síðar, í byrjun nóvember hafi aðilar ákveðið að fresta frekari viðræðum fram yfir jól og áramót. Þegar hefja hafi átt samningaviðræður að nýju hafi maki varnaraðila ákveðið að slíta þeim fyrr og greiða varnaraðila einungis út réttmætan helming af eignum þeirra að frádregnum skuldum. Hafi staða varnaraðila því verið um 30 m. kr. verri en ef hann hefði tekið þeim samningi sem stóð til boða um haustið. Það hafi varnaraðili ekki vilja fella sig við ef hann ætti ríkari rétt í búið og brást illa við fregnunum m.a. gagnvart sóknaraðila.
Kveðst sóknaraðili hafa bent varnaraðila ítrekað á að stilla samskiptum við sig í hóf en að erfiðlega hafi reynst að setja varnaraðila mörk. Lýsir sóknaraðili því að fjöldi samskipta hafi átt sér stað þar sem varnaraðili hafi í löngu máli rakið raunir sínar og átt erfitt með að ná utan um réttindi sín, þrátt fyrir að þau væru útskýrð oft og vandlega. Þá hafi varnaraðili krafist viðbragða við erindum hans ítrekað og jafnvel fylgt póstum eftir með símhringingum innan sama dags.
Varðandi bréf lögmanns sem sóknaraðila barst vegna tímaskráningar í máli varnaraðila og greint er frá framar, kveður sóknaraðili tímaskýrslu lögmanns maka varnaraðila vekja furðu, enda hafi þeir átt að vera mun fleiri ef mið sé tekið af umfangi erinda varnaraðila, ýtni hans eftir viðbrögðum og þeirri aðferðarfræði sem maki varnaraðila hafi beitt í málinu.
Kveðst sóknaraðili sannarlega hafa átt símtal við varnaraðila síðla kvölds líkt og rakið er í áðurnefndu lögmannsbréfi sem sóknaraðila barst vegna varnaraðila. Bendir sóknaraðili á að honum hafi borist póstur frá varnaraðila þremur mínútum fyrr sem hann hafi verið að svara með símtalinu. Þá kveðst sóknaraðili jafnframt hafa nefnt óuppgerðan kostnað við varnaraðila þegar aðilar hittust við (leik)skóla sem börn beggja aðila ganga í og boðist til að ræða við hann, en varnaraðili brugðist við með því að aka í burtu.
Óskar sóknaraðili þess að nefndin taki afstöðu til tímaskýrslu í málinu. Þá vísar sóknaraðili til tölvupósta málsins sem séu 321 talsins, þar af 158 tölvupóstar frá varnaraðila til sóknaraðila og 95 tölvupóstar frá sóknaraðila til varnaraðila.
Krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða fyrir vinnu samkvæmt tímaskýrslu í málinu og útgefnum reikningum.
III.
Skilja verður málatilbúnað varnaraðila sem svo að hann telji endurgjald sóknaraðila fyrir störf sóknaraðila í sína þágu vera óhóflegt skv. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Í erindi varnaraðila til nefndarinnar er málsatvikum lýst og vísað til þess að varnaraðili hafi leitað til sóknaraðila vegna hjónaskilnaðar sem þá var til skoðunar milli varnaraðila og maka hans. Maki hans hafi af sama tilefni leitað til […] lögmanns.
Kveðst varnaraðili hafa leitað til fleiri lögmanna en ákveðið að fá sóknaraðila í verkið, m.a. vegna þess að hann hafi sagt sig fullhæfan til verksins og tekið sérstaklega fram að þjónusta hans væri hóflega verðlögð í samanburði við aðra.
Að sögn varnaraðila gerði sóknaraðili ítrekaðar kröfur um greiðslur meðan á verkinu stóð með símhringingum seint að kvöldi og köllum milli bifreiða þegar varnaraðili var að keyra börn sín á leikskóla.
Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi gefið út fjóra reikninga fyrir 44,25 klst. af vinnu að fjárhæð 1.511.529 kr. með virðisaukaskatti. Kveðst varnaraðila þá hafa orðið ljóst að loforð um hóflega verðlagningu hafi að engu orðið.
Vísar varnaraðili til þess að hann og maki hans hafi ekki látið úr lögskilnaðinum verða og í kjölfarið hafi þau borið lögmannskostnað sinn saman og í ljós komið að lögmaður maka varnaraðila ásamt fulltrúa hans höfðu skráð samtals 8,25 unnar klst. á verkið meðan sóknaraðili hafði skráð ríflega fimmfalt fleiri tíma vegna sömu vinnu. Vísar varnaraðili til tímaskýrslu lögmanns maka hans þar sem skráðar séu vinnustundir í yfirferð erfðaskrár, drög unnin og kláruð vegna skilnaðarsamnings, samningur uppfærður, samskipti milli lögmanna o.fl. sem sé sú vinna sem málið hafi að mati varnaraðila raunverulega snúist um. Til samanburðar vísar varnaraðili síðan í tímaskýrslu sóknaraðila í málinu sem hann telur til marks um ofskráningu tíma í samskipti vegna málsins, bæði við sig og lögmann maka síns. Í dæmaskyni bendir varnaraðili á að sóknaraðili skrái tvisvar sinnum lengri tíma en lögmaður maka varnaraðila skráði í það sem virðast vera sömu samskipti skráð 18. og 19. ágúst. Aftur séu skráðar 0,25 klst. af hálfu lögmanns maka varnaraðila á tilteknum degi sem sóknaraðili skrái næsta dag sem 2 klst. merkt samskipti við lögmann gagnaðila og varnaraðila. Þá séu skráðar 2,5 klst. þann 27. júlí í samskipti við lögmann maka varnaraðila, móttöku erfðaskrár og skoðun skattframtala. Virðist varnaraðila af því ljóst að sá tími sé úr hófi og óljóst um tilefni og gagnsemi vinnunnar. Hið sama telur varnaraðili eiga við um skráningu þann 9. september þar sem skráðar eru 2 klst. m.a. í skoðun bilasolur.is. Þann 17. október séu skráðar 2 klst. á samskipti við sýslumann og persónuvernd sem varnaraðili telur hafa verið óþarfa í málinu enda hafi maki hans byggt á séreignarrétti samkvæmt erfðagjörningum og gögnum sem hann hafi sjálfur útvegað.
Til viðbótar við slík einstök dæmi telur varnaraðili ljóst af tímaskýrslu sóknaraðila að verulegur tími sé skráður sem almennt sé skráður í korterum en ekki klukkutímum.
Bendir varnaraðili á að af samanburði tímaskýrslna lögmanna virðist sem sóknaraðili skrái 36 klukkustundir, eða heila vinnuviku, í það að ræða við varnaraðila eða eiga við hann tölvupóstssamskipti. Telur varnaraðili það ekki standast og telur að tímaskráningar séu úr öllu hófi miðað við tilefni, umfang máls og skýringar sóknaraðila.
Áréttar varnaraðili að hann geri ekki ágreining um að lögmaður eigi rétt á sanngjarnri þóknun fyrir störf hans. Það liggi hins vegar fyrir í málinu að lögmaður gagnaðila hafi unnið í nákvæmlega sama máli og skráð vegna þess 8,25 klst. vegna eigin vinnu og vinnu fulltrúa. Sóknaraðili skrái vegna sama máls 36 klst. betur en að hvorki vinnuskýrsla sóknaraðila né skýringar sem fram hafi komið varpi neinu ljósi á þá miklu vinnu.
Telur varnaraðili tímaskýrslu lögmanns maka síns varpa skýru ljósi á það hve langan tíma vinna við málið hafi réttilega tekið. Þó það kunni að hafa átt sér stað meiri samskipti milli varnaraðila og sóknaraðila, telur varnaraðili það fjarri lagi að þau samskipti hafi tekið heila vinnuviku.
Krefst varnaraðili þess að þóknun sóknaraðila verði lækkuð og hún miðuð við það sem hæfilegt teljist. Að því er varði hvað teljist hæfilegt telur varnaraðili réttast að miða við sambærilega vinnu lögmanns maka varnaraðila og að úrskurðað verði um að sóknaraðili eigi rétt til þóknunar fyrir sem nemi 8,25 klst. af vinnu. Til vara krefst varnaraðili þess að úrskurðarnefnd taki ákvörðun að álitum um þóknun sóknaraðila og taki þá tillit til hlutfallslegs munar á nefndum tímaskýrslum auk þess sem mikill fjöldi tíma sé skráður á samskipti. Þannig telur varnaraðili rétt að þóknun sóknaraðila verði lækkuð að álitum en verulega, þannig að þóknunin endurspegli það sem er sanngjarnt.
IV.
Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar vegna málsins áréttar sóknaraðili að hafa ekki skráð tíma vegna hvers einasta erindis sem honum barst frá varnaraðila heldur hafi hann gjarnan í einu lagi skráð 2-3 klst. fyrir heila viku með skýringum á því sem viðfangsefnið var þá vikuna. Að sögn sóknaraðila voru tilvik í tímaskýrslu hans sem lutu að samskiptum við varnaraðila að miklu leyti að frumkvæði varnaraðila. Varðandi skýringar varnaraðila þess efnis að maki hans hafi sjálfur útvegað gögn til staðfestingar á séreignarrétti hans til eigna, bendir sóknaraðili á að hann hafi ítrekað óskað eftir aðgangi að þeim gögnum símleiðis og í tölvupóstum sem maki varnaraðila og lögmaður hans hafi ekki brugðist við fyrr en seint og um síðir.
Þá leggur sóknaraðili fram til hliðsjónar tölvupósta málsins til sönnunar um umfang þeirra, þ.m.t. við stofnanir sem sóknaraðili hafði samband við í tengslum málið. Jafnframt bendir sóknaraðili á að samningaviðræður hafi farið fram milli sóknaraðila og […] lögmanns og að lögmennirnir hafi sent samningsdrög sín á milli í tölvupósti allnokkrum sinnum. Samningur var að sögn sóknaraðila nánast í höfn og lítið sem bar á milli aðila þegar aðilar ákváðu að fresta frekari viðræðum vegna jólahalds.
V.
Í viðbótarathugasemdum varnaraðila víkur hann nánar að málsatvikum. Lýsir hann því að hafa leitað til sóknaraðila sem kunningja og beðið hann um að aðstoða sig með fjárskiptasamning vegna skilnaðar að borði og sæng. Kveðst varnaraðili hafa verið í tilfinningalegu ójafnvægi á þeim tíma og verið illa staddur fjárhagslega sem hann hafi tjáð sóknaraðila. Jafnframt kveðst varnaraðili hafa gert sóknaraðila grein fyrir því að hann hefði ekki mikið á milli handanna og að maki hans hafi verið hans fjárhagslega stoð í gegnum tíðina. Kveðst varnaraðili hafa verið á örorku um árabil en vegna fjármagnstekna maka hans hafi bætur frá Tryggingastofnun verið skertar síðan árið 2017 og varnaraðili því staðið í vítahring skulda og ekki haft fjárhagslegt sjálfstæði frá því hann giftist maka sínum árið 2016.
Kveðst varnaraðili hafa þarfnast lögfræðilegrar aðstoðar til að gera fjárskiptasamning en gert sóknaraðila ljóst að hann gæti ekki greitt stórar upphæðir í einu.
Lýsir varnaraðili því að maki hans hafi verið erfiður í samningaviðræðum. Mótmælir varnaraðili því sem ósönnu að nokkrir samningar hafi verið nálægt því í höfn líkt og lýst var af hálfu sóknaraðila. Hið rétta kveður varnaraðili vera að maki hans hafi hafnað öllu sem varnaraðili hafi reynt að setja fram eða látið ósvarað.
Kveðst varnaraðili hafa átt samskiptin við sóknaraðila í formi tölvupósta í miklum kvíða, reiði og sársauka vegna áhyggna hans yfir skilnaðinum og samskiptum við maka sinn á þeim tíma. Því til viðbótar hafi óstöðugt efnahagslíf þjóðfélagsins sýnt sig á fasteignamarkaði og kveðst varnaraðili hafa orðið óöruggur um aðstæður sínar. Kveðst hann því hafa leitað mikið til sóknaraðila til hughreystingar enda talið hann vera hálfgerðan vin sem bæri hagsmuni hans fyrir brjósti. Kveðst varnaraðila ekki hafa órað fyrir því að þau samskipti og tilgangslausu tölvupósta myndi sóknaraðili rukka svo mikið. Bendir varnaraðili á að af fyrirliggjandi tölvupóstum hans til sóknaraðila megi sjá að þrátt fyrir fjölda séu flestir tilgangslausir og lýsi aðallega hvernig andlegt ástand hans hafi verið á þessum tíma.
Að sögn varnaraðila var sóknaraðili ákveðinn að drífa af einhverja samninga sem gengu ekki upp og hafi hann reynt að fá varnaraðila til að setja hús fjölskyldunnar á sölu án þess að nokkur samningur lægi fyrir. Það kveðst varnaraðili ekki hafa verið reiðubúinn til að gera á þeim tíma.
Ítrekar varnaraðili að hann telji sóknaraðila eiga skilið sanngjörn laun fyrir vinnu sína en að honum hafi þótt síðustu tveimur reikningum sóknaraðila vera ofaukið og neitað að greiða þá. Vísar varnaraðili til þess að sé horft framhjá þeim tölvupóstum sem varnaraðili hafi í tilfinningalegu ójafnvægi sent á sóknaraðila, sé lögfræðileg vinna sem sóknaraðili innti af hendi í tengslum við málið lítil og vísar til samanburðar í þá tímaskýrslu sem lögmaður maka varnaraðila skilaði vegna málsins og telur þóknun sóknaraðila í málinu óhóflega. Telur varnaraðili tímaskýrslu sóknaraðila furðulega og líta út eins og uppspuna.
V.
Í tilefni af beiðni nefndarinnar um skýringar á kröfugerð málsins sendi sóknaraðili þann 11. september 2023 leiðréttingu á kröfugerð sinni í málinu. Tiltók hann við það tilefni að hinir ógreiddu reikningar væru nr. 866 og 881 og óskaði því eftir að koma að lagfærðri kröfugerð fyrir nefndinni svohljóðandi: „Þess er krafist að [B], til heimilis að […] verði gert að greiða […] kr. 292.640,- með dráttarvöxtum skv. lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31.12.2022 til greiðsludags og kr. 484.189,- með dráttarvöxtum skv. sömu lögum frá 2.3.2023 til greiðsludags. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar að mati nefndarinnar fyrir innheimtustörf.“
Varnaraðili skilaði athugasemdum við hina breyttu kröfugerð og segir hana í engu skýrari en fyrri kröfugerð sóknaraðila. Telur varnaraðili kröfurnar vanreifaðar. Áréttar varnaraðili í athugasemdum að öðru leyti andmæli sín og sjónarmið sem áður hafa komið fram og krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila í málinu og endurgjald sóknaraðila endurskoðað til lækkunar.
Niðurstaða
Báðir aðilar hafa lagt það fyrir nefndina að leysa úr ágreiningi þeirra um rétt sóknaraðila til endurgjalds fyrir störf hans í þágu varnaraðila eða fjárhæð þess sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 1. tölul. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans eftir því sem unnt er gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar bindur loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns ekki umbjóðanda hans.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.
Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.
Sóknaraðili sem leggur mál þetta fyrir nefndina hefur krafist þess að kveðinn sé upp aðfararhæfur úrskurður vegna krafna sinna líkt og heimild stendur til skv. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Kröfur sóknaraðila byggja á útgefnum reikningum vegna starfa hans í þágu varnaraðila. Kröfur sóknaraðila til nefndarinnar í upphaflegu erindi samrýmdust ekki fyllilega gögnum málsins. Veitti nefndin því sóknaraðila færi á að skýra kröfugerðina nánar en í kjölfar þess barst leiðrétt kröfugerð og frekari skýringar sem fyrr greinir. Að teknu tilliti til þeirrar leiðréttingar og skýringa telur nefndin þó kröfur sóknaraðila í málinu enn óljósar og óúrskurðarhæfar. Er því óhjákvæmilegt að vísa kröfum sóknaraðila frá nefndinni.
Varnaraðili hefur hins vegar gert þá kröfu fyrir nefndinni að metið sé hæfilegt endurgjald fyrir störf sóknaraðila í hans þágu sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Eins og fram kemur í málsatvikalýsingu að framan hefur ekki verið deilt um það í málinu hvort sóknaraðili hafi kynnt það fyrir varnaraðila að hann ynni á tímagjaldi eða um tímagjald sóknaraðila. Þá er ekki ágreiningur um það milli aðila að sóknaraðili eigi rétt á endurgjaldi fyrir störf hans í þágu varnaraðila. Ágreiningurinn lýtur þannig fyrst og fremst að réttmæti tímaskráninga sóknaraðila og hvort sú vinna sem þar sé krafist endurgjalds fyrir sé réttmæt og hæfileg. Með hliðsjón af öllu framangreindu og með tilliti til umfangs verksins, tímaskráninga varnaraðila og atvika málsins allra þykir endurgjald sóknaraðila vegna starfa í þágu varnaraðila hæfilega ákvarðað 1.063.920 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti og miðast það við 30 klst. af vinnu sóknaraðila á tímagjaldi hans á síðari hluta verktímans.
Fyrir liggur að varnaraðili greiddi fyrir 10 klst. af vinnu sóknaraðila á tímagjaldinu 26.800 kr. auk virðisaukaskatts þann 6. október 2022 og fyrir 11 klst. vinnu tímagjaldinu 29.500 kr. auk virðisaukaskatts þann 1. desember 2022. Hækkun þessi sætti ekki sérstökum andmælum eða athugasemdum af hálfu varnaraðila.
Samkvæmt framangreindu hefur varnaraðili greitt sóknaraðila 734.700 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti og er því ógreitt af hæfilegri þóknun samkvæmt framangreindri niðurstöðu nefndarinnar 9 klst. á tímagjaldinu 29.500 kr. auk 24% virðisaukaskatts þ.e. 329.220 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfum sóknaraðila, A lögmanns, er vísað frá nefndinni.
Áskilið endurgjald sóknaraðila, A lögmanns, vegna starfa í þágu varnaraðila, B, sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 1.063.920 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason, formaður
Hulda K. Stefánsdóttir
Valborg Þ. Snævarr
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Arnar Vilhjálmur Arnarsson