Mál 15 2023

Mál 15/2023

Ár 2024, föstudaginn 28. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 24. mars 2023 kvörtun sóknaraðila, A, gegn B lögmanni, vegna ágreinings um endurgjald og háttsemi varnaraðila í tengslum við skipti á dánarbúi.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 14. apríl 2023, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 28. apríl 2023. Sóknar­aðila var gefinn kostur á að koma á framfæri viðbótargreinargerð og barst hún 16. maí 2023. Viðbótar­­greinargerð varnaraðila barst þann 6. júní 2023. Á fundi nefndarinnar þann 7. mars 2024 var ákveðið að óska eftir upplýsingum frá varnaraðila og bárust þær þann 12. mars s.á. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns. Í kjölfarið upplýsti vara­nefndarmaður einnig um vanhæfi sitt í málinu. Hæstiréttur Íslands skipaði í kjölfarið nefndar­mann ad hoc og tók hann sæti í málinu.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Þann 16. mars 2022 lést […]. Með erfðaskrá tilnefndi hún varnaraðila til þess að annast skipti á dánarbúi sínu. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa tjáð erfingjum að skiptin ættu að taka fljótt af. Varnaraðili hafi sagst vera með fasteignasölu og lagt til að […] fasteignasölu yrði falið að selja fasteign sem var í búinu, þrátt fyrir óskir sóknaraðila um að leitað yrði til fleiri fasteignasala um verðmat á eigninni. Aðrar fasteignasölur hafi verið tilbúnar að gefa frítt verðmat á eigninni en […] hafi tekið fyrir það þóknun.

Sóknaraðili segir síðar hafa komið í ljós að varnaraðili væri starfsmaður […] fasteignasölu og telur sóknaraðili í þessu felast brot af hálfu varnaraðila á 8. gr. siðareglna lögmanna. Sóknaraðili kveðst telja að mótmæli sín við vali á fasteignasölu hafi orðið til þess að varnaraðili hafi byrjað að draga taum annarra lögerfingja á kostnað sóknaraðila.

Þá hafi varnaraðili sagst hafa mann, […], á sínum snærum sem gæti tekið að sér að meta aðrar eignir dánarbúsins. Sóknaraðili gerir athugasemdir við vinnubrögð […] sem hafi tekið greiðslu fyrir að fara með tvo skápa í eigu dánarbúsins í […] en komið hafi í ljós að hann hafi selt annan skápinn til antíkverslunnar fyrir 25.000 krónur. Þegar athygli varnaraðila hafi verið vakin á þessu hafi hann harmað það mjög og sagt traust sitt gagnvart […] hafa beðið hnekki. Enn fremur segir sóknaraðili að varnaraðili hafi neitað dætrum sóknar­aðila um aðgang að skartgripum sem […] hafi verið falið að verðmeta en þær hafi viljað fara með og láta verðmeta annars staðar. Sóknaraðili telur háttsemi […] hafa varðað við lög og fór fram á að varnaraðili kærði hann til lögreglu. Varnaraðili hafi tjáð öllum erfingjum að ef allir væru sammála um að kæra hann til lögreglu myndi hann auðvitað gera það en hafi við sama tæki­færi tjáð þeim að hann teldi lögreglu hafa þarfari málum að sinna. Að mati sóknaraðila hefði varnar­aðili átt að athuga betur vinnu […] fyrir dánarbúið í kjölfarið en þess í stað hafi hann haldið áfram að vinna með honum.

Sóknaraðili gerir athugasemdir við endurgjald varnaraðila sem hann telur of hátt. Fyrir liggur reikningur að fjárhæð 4.410.375 krónur án virðisaukaskatts. Varnaraðili hafi tjáð erfingjum að skiptin tækju stuttan tíma en þau hafi á endanum tekið um eitt ár. Þá gerir sóknaraðili athugasemd við þann tíma sem leið frá því að fasteign búsins var seld og þar til lokauppgjör fór fram við erfingja og segist ekki hafa séð sér annan kost en að ráða sér lögmann vegna þessa með tilheyrandi kostnaði. Þá gerir sóknaraðili athugasemd við að varnaraðili geri erfingjum reikning vegna 22 klst. vinnu vegna samskipti við fasteignasölu sem hann sjálfur vinni á sem sóknaraðili telur óhóflegt í ljósi þess að varnaraðili sitji þar beggja vegna borðsins. Þá geri varnaraðili reikning fyrir 20,75 klst. vegna samskipta við […] sem sóknaraðili telur óeðlilegt í ljósi háttsemi […] gagnvart erfingjum. Sóknaraðili segir tímaskýrslu varnaraðila ekki standast miðað við tölvupósta og nefnir dæmi um skráningu í tímaskýrslu 21. júní 2022 þar sem skráð er vinna vegna tölvupósts til sóknaraðila en hann hafi engan póst fengið frá varnaraðila þann dag. Þá gerir sóknaraðili athuga­semdir við að varnaraðili neiti að afhenda honum afrit af tölvupóstsamskiptum sínum við aðra erfingja. Sóknaraðili telur að varnaraðili skuli bera hallann af því að geta ekki gert betri grein fyrir tímaskýrslum og tölvupóstsamskiptum sem hann rukki erfingja um.

Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brotið gegn siðareglum lögmanna í störfum sínum, einkum 8. og 12. gr. reglnanna. Hann krefst þess að reikningur varnaraðila verði lækkaður og úrskurðarnefnd ákvarði hæfilegt endurgjald fyrir vinnu hans. Einnig er þess krafist að varnaraðili verði ávíttur fyrir að hafa látið eigin hagsmuni ganga framar hagsmunum dánarbúsins við val á fasteignasölu. Þá hafi samstarf varnaraðila við […] verið óábyrgt og telur að með hagsmuni dánar­búsins í huga hefði verið ástæða til þess að kæra […] til lögreglu auk þess sem fleiri tilfelli hefði mátt skoða betur hvað varðar vinnu […] fyrir dánarbúið

II.

Í greinargerð varnaraðila segir hann rangt að hann hafi tjáð erfingjum að hann væri með fasteigna­sölu. Hann hefði hins vegar tjáð erfingjum að hann hefði, í öllum bússkiptum sem honum hefðu verið falin, mælt með fasteignasölunni […] ehf., sem starfi undir sama þaki og hann. Þá segir varnaraðili rangt að hann sé starfsmaður fasteignasölunnar en lögmannsstofa hans leigi skrifstofu­rými af fasteignasölunni og hafi átt gott samstarf við fasteignasöluna um árabil. Hagsmuna­tengsl sín í sambandi við rekstur fasteignasölunnar séu engin.

Varnaraðili segir […] þegar hafa verið veitt söluumboð um sölu á fasteign dánarbúsins í einkasölu þegar sóknaraðili hafi lagt til að eignin yrði verðmetin af fleiri fasteignasölum. Eigandi fasteignasölunnar hafi þegar skoðað eignina, tekið myndir og gert drög að söluumboði og því hafi tillaga sóknaraðila einfaldlega komið fram of seint. Áður hafi sóknaraðili staðfest að hann hafi verið sáttur við að fela […] sölu fasteignarinnar. Enn fremur segir varnaraðili rangt að […] hafi rukkað fyrir verðmat á eigninni eins og sóknaraðili haldi fram og vísar varnaraðili til reiknings fasteignasölunnar því til sönnunar.

Varnaraðili hafnar því að hann hafi dregið taum annarra lögerfingja enda megi ekki greina annað af tölvupóstsamskiptum en allir erfingjar, sóknaraðili þar með talinn, hafi verið sáttir við fram­göngu fasteignasölunnar og að hámarksverð hafi fengist fyrir eignina.

Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila um hagsmunatengsl og brot á siðareglum lögmanna.

Varnaraðili segir rangt að hann hafi tjáð erfingjum að hann hefði mann á sínum snærum til að meta eignir dánarbúsins. Hann hafi tjáð erfingjum á fundi að venjulega hefði hann leitað til […] sem hefði mikla reynslu við mat á eignum og sölu eigna úr dánarbúum og að varnaraðili mælti með honum til að leysa hann þátt. Hafi ákvörðun verið tekin á fundinum um að varnaraðili skyldi biðja […] að taka verkefnið að sér.

Varnaraðili segir hina látnu hafa mælt fyrir um ráðstöfun skartgripa, fatnaðar o.fl. með bréfi sem hún skildi eftir sig. Bréfið fullnægi ekki lagaskilyrðum um að vera erfðaskrá, en allir erfingjar hafi lýst yfir vilja sínum til að virða þennan vilja hennar og eftir því hafi verið farið við útdeilingu skartgripa, reyndar að frátöldum skartgripum tveimur armböndum og hálsmeni, sem taldir hafi verið mjög verðmætir og ósanngjarnt ef myndu falla til eins erfingja í útdrætti. Hafi sú ákvörðun verið tekin af þeim sem hlut áttu að máli að þessir skartgripir yrðu verðmetnir og eftir atvikum seldir, en útdeiling annara gripa færi fram, og hafi það gengið eftir án vandkvæða.

Eins og fram komi í kvörtun hafi komið fram í umræddu bréfi að kvenkyns barnabörn auk eins karlkyns lögerfingja skyldu erfa skartgripi. Sóknaraðili sé ekki í þeim hópi og því ekki aðili að ráðstöfun þeirra. Dætrum sóknaraðila hafi hann svarað á þann veg að til þess að afhenda þeim skartgripina þyrfti hann leyfi annarra erfingja gripanna.

Hvað varðar skáp sem […] hafi selt án þess að gera grein fyrir því hafi verið um að ræða skáp sem hafi komið í hlut annars erfingja en sóknaraðila við útdrátt og sá erfingi hafi því verið réttur eigandi skápsins þegar hann var seldur. Varnaraðili hafi spurt umræddan erfingja hvort hann óskaði eftir því að kæra […] til lögreglu en hann neitað. Lögmaður sóknaraðila hafi ekki borið fram slíka ósk. Stuldur […] hafi því ekki verið stuldur úr dánar­búinu heldur frá þeim erfingja sem hafði fengið honum úthlutað. Það þyki varnaraðila mjög miður og segir ekkert samstarf hafa verið við […] framhaldi af þessu enda hafi þá þegar verið búið að ráðstafa öllu nema framangreindum skartgripum, pels og málverki sem hafði komið í hlut eins erfingjans, og […] hafi afhent umrædda muni til varnaraðila eftir að hafa sannreynt að skartgripirnir væru óekta.

Varnaraðili segir fjárhæð þóknunar vera háa og talsvert umfram það sem almennt gerist við skipti dánarbúa. Vinna við dánarbúið hafi verið sérstaklega tímafrek vegna innbyrðis ósættis erfingja. Ekki hafi þótt heppilegt að halda skiptafundi þar sem hluti erfingja hafi verið búsettir erlendis og aðrir staðið í illdeilum í áratugi sem hafi verið ástæða þess að hin látna hafi mælt fyrir um að varnaraðili skyldi annast skiptin. Þess vegna hafi öll samskipti þurft að fara fram með símtölum og tölvupóstum. Einn erfingja hafi haft þann háttinn á að svara ekki tölvupóstum heldur hringja í varnaraðila eftir móttöku tölvupósta frá honum. Varnaraðili kveðst í bjartsýni hafa lagt til einka­skipti á búinu enda telji hann opinber skipti hefðu verið snúnari og erfiðari í ljósi aðstæðna.

Varnaraðili telur seinagang ekki hafa valdið því að sóknaraðili hafi leitað til lögmanns heldur tortryggni í sinn garð. Þegar lögmaðurinn hafi komið að málinu hafi enn verið uppi ágreiningur um nokkur smávægileg atriði sem reyndar hafi tekið tíma að ná niðurstöðu um. Varnaraðili segir lögmanninn hafa fengið öll þau gögn, þ. á m. afrit af tölvupóstum, sem hann kallaði eftir og segist varnaraðili ekki kannast við að hafa neitað sóknaraðila eða lögmanni hans nokkru sinni um afhendingu gagna. Lögmaður sóknaraðila hafi ekki gert neinar athugasemdir við skiptin eða tímaskráningu eða reikning sem varnaraðili hafi sent honum f.h. sóknaraðila. Þá hafi sóknaraðili ekki afturkallað umboð sitt til varnaraðila til búskipta þrátt fyrir óánægju hans með hans störf.

Varnaraðili fullyrðir að allir tímar sem skráðir séu á mál dánarbúsins hafi verið unnir með þeim hætti sem tímaskýrslan greini og vísar varnaraðili fullyrðingum sóknaraðila um annað á bug. Ekki sé að hans mati tilefni til þess að lækka reikninginn. Varnaraðili segir að í einu tilfelli hafi röng dagsetning verið skráð í tímaskýrslu og segir skráningu 21. júní 2022 eiga að vera 29. júní 2022 og vísar til framlagða gagna. Varnaraðili harmar ónákvæmni í skráningu í tímaskýrslu að þessu leyti.

Varnaraðili segir hraða á skiptameðferðinni hafa verið eðlilegan miðað við samskipti við erfingja, sífelldar fyrirspurnir um ýmis mál, ágreining um ráðstöfun skarts, pels, o.fl. Þá hafi söluhraði fasteignar búsins og greiðsla úr þeirri sölu haft áhrif. Þegar söluferli hafi verið lokið, afsal gefið út og allt kaupverð komið inn á bankareikning búsins hafi hann litið svo á að tímabært væri að ljúka skiptum, en þá hafi hafist rimma milli erfingja um reikning dóttur sóknaraðila fyrir óumbeðna þjónustu í þágu búsins, þref um skartgripi og pels sem varnaraðili kveðst hafa fundið kaupanda að. Með aðkomu lögmanns sóknaraðila hafi verið kallað eftir nýjum upplýsingum um fjármál búsins, hótað að fara fram á opinber skipti auk þess sem ágreiningur hafi verið um fyrrgreinda muni, reikning varnaraðila o.fl. Á sama tíma hafi aðrir erfingjar kvartað yfir því að umfang búskipt­anna væri orðið allt of mikið og til of mikils kostnaðar stofnað vegna framgöngu sóknaraðila.

Við lok búskipta kveðst varnaraðili hafa lagt til að reikningur sinn yrði greiddur af innistæðu búsins á vörslufjárreikningi eftir greiðslu erfðafjárskatts, eins og hefðbundið sé, en þar sem sóknaraðili hafi talið reikninginn of háan hafi verið farin sú óvenjulega leið, til þess að draga búskiptin ekki frekar, að gefa út fjóra aðskilda reikninga vegna vinnu varnaraðila, einn á hvern erfingja. Aðrir erfingjar en sóknaraðili hafi óskað þess að þeirra reikningar yrðu greiddir af sínum arfshlutum fyrir úthlutun arfs og hafi það verið gert en arfur sóknaraðila greiddur út óskertur. Reikningur sóknaraðila hafi verið á gjalddaga 1. apríl 2023 og þann 14. apríl sama ár hafi varnaraðili falið lögmanni hann til innheimtu. Þann 17. apríl hafi kvörtun þessi legið á borði varnaraðila og hafi hann beðið lögmann sinn að fresta málshöfðun vegna reikningsins þar til niðurstaða fengist í máli þessu fyrir nefndinni.

Að mati varnaraðila var skiptameðferð á dánarbúinu farsæl og tókst mjög vel þegar á heildina er litið, einkum í ljósi ósætta sóknaraðila við aðra fjölskyldumeðlimi til fjölmargra ára. Varnaraðili ítrekar mótmæli við ásökunum sóknaraðila um að í störfum sínum við skipti dánarbúsins hafi hann gerst brotlegur við lögmannalög eða siðareglur lögmanna.

III.

Í viðbótargreinargerð sinni áréttar sóknaraðili að varnaraðili væri starfsmaður […] ehf. og vísaði til vefsíðu fasteignasölunnar.

Sóknaraðili hafnar því að tillaga hans um að leita til annarrar fasteignasölu hafi verið of seint fram komin og segir varnaraðila hafa borið að hámarka eign dánarbúsins og lágmarka kostnað þess. Þá hafnar sóknaraðili því að hann hafi sagst sáttur með tilnefningu […] ehf. í tölvupósti, þar hafi hann verið að svara öðru. Enn fremur mótmælir sóknaraðili því að allir erfingjar og þ. á m. hann sjálfur hafi verið sáttir við framgöngu fasteignasölunnar og vísar sóknaraðili til tölvupóst­samskipta hvað þetta varðar. Varnaraðili segist telja ljóst að um hafi verið að ræða verulega hagsmunaárekstra við val á fasteignasölu og varnaraðili hafi ekki hugað að því að hámarka virði búsins.

Sóknaraðili segir hafa orðið ljóst að […] hafi selt skáp sem honum var falið að gefa í maí 2022 en síðasta skráning í tímaskýrslu varnaraðila vegna samskipa við […] séu í október 2022. Það sé því rangt að varnaraðili hafi ekki verið í áframhaldandi samskiptum við […] vegna málefna búsins eftir að hann hafði selt skápinn án þess að skila ágóðanum til búsins. Þá kveðst sóknaraðili telja undarlegt að lögmaður sem skuli vinna af heilindum geri lítið úr lögreglunni með þeim hætti sem varnaraðili hafi gert í tölvupósti til erfingja.

Sóknaraðili hafnar því að skipti dánarbúsins hafi verið tímafrek vegna illdeilna milli erfingja. Hann bendir á að samskipti sín við varnaraðila sýni að nánast allar hans athugasemdir snúi að vinnubrögðum varnaraðila en ekki deilum vegna skiptum á dánarbúinu sjálfu. Sóknaraðili segir engin ósætti hafa verið um skiptin á dánarbúinu en hann hafi verið ósáttur með þátt varnaraðila í skiptunum. Sóknaraðili segir varnaraðila ekki hafa orðið við ósk sinni um afhendingu afrita af samskiptum að öllu leyti.

Sóknaraðili segist hafa leitað til lögmanns þar sem hann hafi ekki talið varnaraðila vinna að heilindum fyrir búið og segist ekki hafa gert sér grein fyrir að hann hefði getað afturkallað umboð til varnaraðila til skipta á búinu. Sífelldar fyrirspurnir sem varnaraðili vísi til segir sóknaraðili hafa snúist um óánægju hans við val á fasteignasölu við sölu á fasteign búsins og tengsl varnaraðila við fasteignasöluna. Þá hafi aðkoma […] að verðmati á eignum búsins haft áhrif. Þrátt fyrir það og vantraust erfingja til […] hafi varnaraðili haldið áfram samskiptum við hann.

Sóknaraðili áréttar þá afstöðu sína að varnaraðili hafi ekki unnið að heilindum fyrir dánarbúið og tengsl hans við fasteignasöluna […] og […] hafi orðið til þess að hvorki hafi eignir búsins verið hámarkaðar né kostnaði haldið í lágmarki. Auk þess sé þóknun varnaraðila verulega úr hófi.

IV.

Varnaraðili ítrekar mótmæli sín um að hann hafi haft hagsmuni af því að mæla með fasteigna­sölunni […] og að hann hafi dregið taum annarra erfingja á kostnað sóknaraðila. Þá áréttar varnaraðili að hann sé ekki starfsmaður fasteignasölunnar og vísar til gagna því til stuðnings. Hann hafi enga hagsmuni af rekstri fasteignasölunnar og telur það hafa verið til verulegra hagsbóta fyrir skiptaferlið að […] hafi orðið fyrir valinu. Varnaraðili ítrekar að kvartanir sóknar­aðila vegna söluumboðs til […] hafi komið fram eftir að umboðið hafði verið undirritað og vinna fasteignasala hafin. Samskipti við fasteignasöluna hafi verið tímafrek m.a. vegna afstöðu erfingja til lágmarksverðs í eignina og tilboða sem í eignina bárust. Varnaraðili segist mega ætla að aðrir erfingjar hefðu ólíklega fallist á tillögu sóknaraðila að fasteignasölu og ætla megi að þref um það hefði tekið talsvert langan tíma líkt og annað sem erfingjar hafi verið ósammála um.

Varnaraðili hafnar því að hafa réttlætt brot […] og ítrekar það sem fram kom í greinargerð sinni um eignarhald skáps sem um ræðir. Þá vísar varnaraðili til framlagðra tölvupósta varðandi þann tímafjölda sem skráður er í tímaskýrslu vegna samskipta við […].

Varnaraðili kveðst hafa gert sér far um að gæta hlutleysis og draga ekki taum eins erfingja frekar en annars og vísar til fyrirliggjandi gagna því til stuðnings. Varnaraðili ítrekar að hann hafi sent sóknaraðila og lögmanni hans afrit allra samskipta auk þess sem þau liggi fyrir í máli þessu.

Að mati varnaraðila gerir sóknaraðili lítið úr þeim ágreiningi sem uppi var á milli erfingja. Hið rétta sé að ágreiningur hafi verið talsverður um ýmis atriði og vísar til gagna málsins.

Hvað varðar fjölda vinnustunda samkvæmt tímaskýrslu vísar varnaraðili til framlagðra tölvupósta sem eru 197 talsins en einungis hafi verið skráð vinna vegna 109 tölvupósta í tímaskýrslu. Því sé ljóst að vinnan við búskiptin hafi verið meiri en tímaskráning beri með sér. Þá telur varnaraðili málatilbúnað sóknaraðila um reikningsgerð hans óljósa og virðast einkum snúast að því að samskipti hans við […] og fasteignasala hafi tekið of langan tíma án þess að það sé greint frekar. Sé krafa sóknaraðila vanreifuð að þessu leyti.

Að öðru leyti ítrekaði varnaraðili það sem fram kom í greinargerð sinni og mótmælir öllum ásökunum sóknaraðila um óheilindi sín og óheiðarleika og brot á siðareglum lögmanna.

 

Niðurstaða

I.

Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðar­nefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.

Samkvæmt 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Í 8. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður skuli lögmaður gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónu­legra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilega þóknun fyrir störf sín. Við mat á því hvað telst hæfileg þóknun er m.a. heimilt að líta til umfangs og eðlis máls, undirliggjandi hagsmuna, þýðingar fyrir skjólstæðing, árangurs, þess tíma sem krafist er að varið sé í mál af hálfu lögmannsins, sérhæfingar hans og þeirrar ábyrgðar sem starfanum fylgir. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal lögmaður skal upplýsa skjólstæðing sinn um á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.

Í 12. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til þess að reka verkefni sem hann tekur að sér, áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist.

Samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

II.

Erindi sóknaraðila er reist annars vegar á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og gerir sóknaraðili kröfu um að reikningur varnaraðila verði lækkaður og að nefndin ákvarði hæfilegt endurgjald fyrir vinnu hans við skipti á dánarbúinu.

Tímaskýrsla varnaraðila telur 154,75 klst. Tímaskýrslan er ítarleg og tekur til vinnu varnaraðila vegna dánarbússkiptanna á tímabilinu 23. mars 2022 til 9. mars 2023. Tímagjald varnaraðila á þeim tíma sem vinnan var unnin nam 25.800 kr. auk virðisaukaskatts. Samkvæmt því taldi heildar­krafa samkvæmt reikningi sem byggði á tímaskýrslunni 4.410.375 kr. auk virðisaukaskatts. Vegna ágreinings við sóknaraðila um fjárhæð endurgjaldsins gerði varnaraðili erfingjunum þremur hvern sinn reikning að fjárhæð 1.822.955 kr. að meðtöldum virðisauka­skatti. Hinir erfingjarnir tveir óskuðu þess að reikningar sínir yrðu greiddir af sínum arfhlutum áður en arfur yrði greiddur út en arfhluti sóknar­aðila var greiddur út óskertur og er reikningur vegna hans hluta í skipta­kostnaðinum ógreiddur. Samkvæmt reikningi sem varnaraðili gerði sóknaraðila vegna hans hluta af vinnu varnaraðila við skipti dánarbúsins fól vinna varnaraðila í sér samskipti við erfingja, sýslu­mann, bankastofnanir, fasteignasölu, skjalagerð, vörslu muna o.fl. Eins og fram hefur komið fylgdi ítarleg tímaskýrsla reikningnum.

Sóknaraðili gerði athugasemd við eina færslu í tímaskýrslu varnaraðila sem hann taldi ekki eiga rétt á sér. Í greinargerð sinni til nefndarinnar leiðrétti varnaraðili þá skráningu og gerði að mati nefndarinnar fullnægjandi grein fyrir þeirri vinnu sem færslan tekur til með vísan til viðeigandi gagna málsins. Sóknaraðili gerði einnig athugasemd við fjölda tíma í tímaskýrslu varnaraðila vegna samskipta við fasteignasöluna […] annars vegar og […] hins vegar.

Eins og áður segir telur tímaskýrsla varnaraðila vegna málsins 154,75 vinnustundir á 12 mánaða tímabili. Skiptist vinna varnaraðila í stórum dráttum í þrennt þar sem u.þ.b. helmingur skráðra vinnu­stunda var vegna samskipta við erfingja vegna alls sem varðaði skiptin. Um fjórðungur vinnu­­stunda var vegna skjalagerðar og annarrar umsýslu vegna skiptanna og um fjórðungur vegna verð­mats og sölu á eignum búsins, þ.m.t. fasteignar. Að mati nefndarinnar er tímaskráning varnar­aðila síst úr hófi í ljósi aðstæðna. Er þá höfð hliðsjón af því að um helmingur skráðra vinnustunda varnar­aðila var vegna samskipta við erfingja, sem gögn málsins bera með sér að hafi verið mjög mikil og tímafrek og ágreiningur verið um ýmsa þætti. Þannig bera tölvupóstsamskipti varnaraðila við erfingja, sem telja 197 tölvupósta, með sér að oft hafi verið erfitt að ná samkomulagi um einstök atriði og mikill tími varnaraðila farið í samskipti vegna þess. Er fjöldi vinnustunda að þessu leyti því til kominn af ástæðum sem varnaraðila verður ekki kennt um. Að mati nefndarinnar var fjöldi skráðra vinnustunda varnaraðila vegna samskipta við fasteignasölu og matsmann, auk vinnu vegna skjalagerðar og annarrar umsýslu vegna skiptanna, í samræmi við það sem við má búast að lögmaður leggi í mál af þessu tagi.

Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili gert fullnægjandi grein fyrir þeirri vinnu sem hann innti af hendi í þágu erfingja dánarbúsins og telur nefndin, í ljósi umfangs málsins og atvika allra, fjölda skráðra vinnustunda varnaraðila vegna skiptanna ekki úr hófi. Að mati nefndarinnar er tímagjald varnaraðila að fjárhæð 28.500 kr. auk virðisaukaskatts ekki úr hófi.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og málsgögnum að öðru leyti er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilið endurgjald vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila. Felur niður­staðan í sér að þóknun sem varnaraðili áskildi sér vegna starfa sinna við skipti dánar­bús­ins, samtals að fjárhæð 5.468.865 kr., felur í sér hæfilegt endurgjald. Með réttu ber sóknaraðili ábyrgð á greiðslu eins þriðja hluta þóknunar varnaraðila og nemur hlutur sóknaraðila 1.822.955 kr.

III.

Kvörtun lýtur hins vegar að háttsemi varnaraðila við dánarbússkiptin. Sóknaraðili telur hagsmuna­árekstur hafa verið fyrir hendi á milli hagsmuna sinna annars vegar og varnaraðila sjálfs hins vegar, þar sem hann sé starfsmaður fasteignasölu þeirrar sem falið var að sjá um sölu á fasteign dánar­búsins. Varnaraðili telur varnaraðila hafa dregið taum annarra lögerfingja á sinn kostnað og ekki unnið störf sín með hagsmuni dánarbúsins í huga í kjölfar þjófnaðar eignar sem úthlutað hafði verið úr búinu. Þá hafi varnaraðili neitað að afhenda sóknaraðila öll gögn í málinu. Loks telur varnaraðili að skipti dánarbúsins hafi dregist úr hófi í meðförum varnaraðila.

Nefndin telur ljóst að varnaraðila hafi verið heimilt að semja við undirverktaka um einstaka þætti sem viðkomu skiptum dánarbúsins, s.s. um sölu fasteignar og verðmat og sölu einstakra eigna úr dánarbúinu. Ljóst er, með hliðsjón af gögnum málsins, að varnaraðili hafði fullt samráð við erfingja um allar þær ráðstafanir. Að mati nefndarinnar voru þær ráðstafanir varnaraðila að fela fasteigna­sölu að selja fasteign dánarbúsins og að fela öðrum að verðmeta aðrar eignir búsins, eðlilegar. Málsgögn bera með sér að varnaraðili hafi sinnt skjalagerð fyrir umrædda fasteignasölu í verktöku. Að mati nefndarinnar liggur fyrir að varnaraðili hafi engra hagsmuna að gæta hvað varðar rekstur umræddrar fasteignasölu, hann sé ekki starfsmaður fasteignasölunnar og hafi ekki þegið þóknun frá fasteignasölunni vegna sölu fasteignar í eigu dánarbúsins. Er ekki fallist á með sóknaraðila að hagsmunaárekstur hafi verið fyrir hendi vegna starfa varnaraðila fyrir hann.

Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi haft ítarlegt samráð við erfingja um þær ákvarðanir sem teknar voru um málefni dánarbúsins í tengslum við skipti þess. Þá hafi hann haldið þeim upplýstum um stöðu og framgang skiptanna á meðan á þeim stóð. Með hliðsjón af gögnum málsins telur nefndin ekki hafa verið sýnt fram á að varnaraðili hafi með nokkrum hætti dregið taum annarra lögerfingja á kostnað sóknaraðila.

Gögn málsins sýna að varnaraðili hafði samráð við þann erfingja sem í hlut átti, um viðbrögð við þjófnaði eignar sem hafði verið úthlutað úr búinu og brást við honum í samræmi við óskir erfingjans. Ekki er fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi ekki haft hagsmuni dánarbúsins að leiðarljósi hvað þetta varðar, eða annað í störfum sínum við skipti búsins.

Með vísan til fyrri umfjöllunar vegna ágreinings um endurgjald varnaraðila, er ekki fallist á með sóknaraðila að skipti dánarbúsins hafi tekið óeðlilega langan tíma eða tafist af ástæðum sem varnaraðila verði kennt um. Verður ekki annað séð að mati nefndarinnar en að varnaraðili hafi, í ljósi atvika allra, rekið málið áfram með eðlilegum hraða í samræmi við skyldu sína þar að lútandi.

Sóknaraðili segir varnaraðila hafa neitað að afhenda sér tölvupóstsamskipti hans við aðra lög­erfingja. Varnaraðili kveðst hafa afhent lögmanni sóknaraðila öll gögn sem vörðuðu skiptin og hafnar því að hafa neitað varnaraðila um afhendingu gagna. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að varnaraðili hafi neitað að afhenda sóknaraðila gögn sem hann hafi óskað eftir og átt kröfu um að fá afhent.

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem feli í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila A, við skipti á dánarbúi […], að fjárhæð kr. 1.822.955, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Berglind Svavarsdóttir

Helgi Birgisson

 

Rétt endurrit staðfestir


Eva Hrönn Jónsdóttir