Mál 16a 2023

Mál 16a/2023

Ár 2024, mánudaginn 27. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið málið

16a/2023:

A ehf. og B

gegn

C lögmanni

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. mars 2023 kvörtun D, f.h. A ehf. og B, gegn C lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem fyrrum lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. samdægurs, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst þann 11. apríl 2023 og var send sóknaraðilum samdægurs og frestur veittur til 8. maí 2023 til þess að skila viðbótargreinargerð. Fresturinn var framlengdur í þrígang, fyrst til 15. maí 2023, næst til 20. maí 2023 og að síðustu til 29. maí 2023 án þess að gögn bærust innan frestsins. Með bréfi dags., 7. nóvember 2023, var sóknaraðilum veittur lokafrestur til gagnaframlagningar í málunum sex til og með 22. nóvember 2023. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst 24. nóvember 2023. Viðbótargreinargerð varnaraðila barst þann 28. nóvember 2023. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

D er eigandi sóknaraðilans A ehf. og beinir erindi þessu til nefndarinnar fyrir hönd félagsins og móður sinnar, B. Sóknaraðilinn A ehf. hét áður [...] ehf., hér eftir [...] ehf., og var stofnað af [...], afa D og föður sóknaraðilans B. [...] átti félagið til ársins 1999 en það ár eignuðust börn hans fjögur, [...], [...], [...] og sóknaraðilinn B félagið og átti hvert um sig 25% eignarhlut í því. Systkinin sátu jafnframt öll í stjórn félagsins en [...] sá um daglegan rekstur þess.

[...] ehf. var á tímabili eitt stærsta fjárfestingafélag landsins og að sögn sóknaraðila nam eigið fé félagsins vel á annan tug milljarða króna í árslok 2006. Stærstu eignir félagsins voru geymdar í dótturfélögunum [...] og [...] ehf. þar sem [...] var framkvæmdastjóri og einn prókúruhafi og svo dótturdótturfélögunum [...] ehf. og [...] ehf. og var [...] einnig eini prókúruhafi þeirra félaga. Stærsta eign [...] ehf. var 47% hlutur félagsins í [...] hf., hér eftir [...], og var [...] stjórnarformaður félagsins í umboði stjórnar [...] ehf. [...] var einn stærsti hluthafi í [...] sem á þessum tíma var stærsti einstaki hluthafi í [...] hf., hér eftir [...], sem og einn stærsti hluthafi í [...].

Þann 8. janúar 2008 tók [...] yfir stjórnun [...] og undirritaði [...] yfirtökusamninginn f.h. [...]. Síðar sama ár var nafni [...] ehf. breytt í A ehf. og þann 13. ágúst 2008 afsöluðu hluthafarnir fjórir allri hlutafjáreign sinni í A ehf. til [...]. Umsamið verð fyrir hlut hvers þeirra var ein króna. D keypti sóknaraðilann A ehf. af [...]  ehf. á haustmánuðum árið 2016.

Varnaraðili veitti [...] ehf. lögmannsþjónustu í einstaka verkefnum frá stofnun félagsins. Hann gætti hagsmuna félagsins og hluthafa þess í tengslum við yfirtöku [...] á félaginu á árinu 2008. Störfum hans fyrir félagið lauk þann 13. ágúst en vinnu fyrir hluthafana í september sama ár. Varnaraðili var lögmaður hluthafanna [...], [...] og sóknar­aðilans B fram í nóvember árið 2014. Eftir það sinnti hann lögmanns­þjónustu fyrir [...] fram að andláti hans og frá þeim tíma hefur hann gætt hagsmuna ekkju hans, [...]. 

I.

Frá kaupum D á sóknaraðilanum A ehf. kveðst hann hafa unnið að skoðun og greiningu á rekstri félagsins á árunum 2004-2008 vegna gruns hans og sóknaraðilans B, um misferli [...] í rekstri félagsins.

Sóknaraðilinn A ehf. rekur nú mál nr. [...] í Landsrétti gegn [...], fyrrum viðskiptastjóra félagsins innan [...], [...] og [...] ehf., fyrrum endurskoðanda félagsins, [...] vegna db. [...] og [...]  ehf. til réttargæslu, vegna millifærslu 46 milljóna króna af reikningi sóknaraðila á reikning einkahlutafélags [...], [...] ehf., þann 20. janúar 2005. Varnaraðili gætir hagsmuna [...] í umræddu máli auk Landsréttarmáls nr. [...] sem sóknaraðilinn A höfðaði gegn henni o.fl.

Sóknaraðilinn B rekur nú mál nr. [...] fyrir Landsrétti gegn [...] vegna dánarbús [...] vegna rúmlega 13 milljóna króna greiðslu sem hún telur sig hafa verið blekkta til þess að greiða á árinu 2008 í tengslum við yfirtöku [...] á [...], enda hafi komið í ljós að [...] hafi verið persónulega ábyrgur fyrir þessum greiðslum sem þáverandi stjórnarformaður [...]. Vegna slæmrar fjárhagsstöðu sinnar hafi hann hins vegar krafið systur sínar um stærstan hluta þessa kostnaðar. [...] lögmaður gætir hagsmuna [...] í málinu.

Kvörtun lýtur að framlagningu á þremur fundargerðum hluthafafunda [...] ehf., dags. 7. febrúar, 3. júlí og 5. júlí 2007, í Héraðsdómi Reykjaness þann 6. apríl 2022 í máli [...] annars vegar og á síðastnefndu fundargerðinni í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli [...] þann 4. apríl 2022, hins vegar.

Sóknaraðilar segja umrædda hluthafafundi sem fundargerðirnar beri með sér að fjalla um, aldrei hafa verið haldna. Um þetta vísa þeir m.a. til skýrslu varnaraðila í héraðsdómi 8. september 2021 í vitnamáli [...]. Þar hafi hann staðfest að hafa samið texta fundargerðanna, sem séu dagsettar í júlí 2007, að beiðni [...] þáverandi fyrirsvarsmanns félagsins og [...] þáverandi endurskoðanda þess. Þær hafi hann samið á árinu 2008 en dagsett árið 2007. Umræddar fundargerðir beri með sér að vera ritaðar á hluthafafundum í [...] ehf. sem fram hafi farið með tveggja daga millibili í júlí 2007. Í fundargerðunum er [...] sagður fundarritari og gera sóknaraðilar athugasemdir við það í ljósi þess að fyrir liggi nú að varnaraðili hafi ritað þær sjálfur. Sóknaraðilar kveðast telja að varnaraðili hafi einnig ritað fundargerð, dags. 7. febrúar 2007, en ekki liggi fyrir staðfesting þess efnis.

Að mati sóknaraðila réði framlagning fundargerðarinnar í máli [...] úrslitum í málinu sem sóknaraðilinn A ehf. hefur síðar áfrýjað til Landsréttar. Sóknaraðilar telja ljóst að þeir hafi ríka lögvarða hagsmuni af því að fá aðgang að öllum gögnum, þ.m.t. öllum samskiptum varnaraðila varðandi aðdraganda og tilurð umræddrar fundargerðar, einkum við [...] þáverandi fyrirsvarsmann félagsins og [...] endurskoðanda þess, auk upplýsinga um við hvaða þáverandi stjórnarmenn [...] ehf. varnaraðili hafði samskipti varðandi ritun fundargerðarinnar á árinu 2008.

i.

Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa undir höndum lykilgögn fyrir sönnunarfærslu sóknaraðila í málum þeirra sem nú eru rekin í Landsrétti, sem tengist umræddum fundargerðum, sem hann neiti að afhenda þeim. Í stað þess að afhenda gögnin og gefa aðilum dómsmálanna kost á að leiða fram sannleikann í sönnunarfærslu fyrir dómstólum, neiti varnaraðili öllum samskiptum við sóknaraðila og hindri aðgang að umræddum gögnum. Þá sé ljóst að um sé að ræða skjöl sem samin séu af varnaraðila á árinu 2008 en dagsett á árinu 2007. Þá sé varnaraðila vel kunnugt um að verulegur vafi leiki á um sannleiksgildi fundargerðanna. Hann hafi engu að síður lagt þær fram og sú framlagning hafi ráðið úrslitum í málum sóknaraðila gegn umbjóðanda varnaraðila.

ii.

Þá segja sóknaraðilar augljóst að um sé að ræða skjöl sem varnaraðili hafi komist yfir sem lögmaður [...] ehf., sem hann hafi notað til hagsbóta fyrir núverandi umbjóðanda sinn, í málarekstri fyrrum umbjóðanda síns, gegn henni. Þá hafi hann veitt [...] lögmanni, aðgang að öllum gögnum sem hann hafi komist yfir sem lögmaður [...] ehf., sem sá síðarnefndi hafi notað gegn sóknaraðilanum B í dómsmáli sem hún höfðaði gegn sameiginlegum umbjóðanda lögmannanna, en varnaraðili hafi einnig verið persónulegur lögmaður B á þeim tíma sem hann samdi fundargerðirnar.

iii.

Að mati sóknaraðila blasir við að varnaraðili, sem fyrrum lögmaður [...] ehf., geti ekki verið lögmaður dánarbús fyrrum fyrirsvarsmanns félagsins í máli þess gegn honum. Þá geti hann ekki lokað á allan aðgang núverandi og fyrrverandi eigenda félagsins að gögnum þess en notað handvalin trúnaðargögn, sem hann hafi komist yfir sem lögmaður félagsins, gegn félaginu í dómsmálum félagsins gegn dánarbúinu. Varnaraðili sé nú lögmaður [...] sem sitji í óskiptu búi [...], og fyrrum umbjóðendur hans hafi stefnt vegna starfa [...] sem fyrirsvarsmanns [...] ehf., á þeim tíma sem félagið var umbjóðandi varnaraðila. Bæði málin séu nú til meðferðar í Landsrétti.

iv.

Í fjórða lagi segja sóknaraðilar að varnaraðili hafi lagt fram tugi skjala gegn fyrrum umbjóðanda sínum í dómsmálum félagsins gegn núverandi umbjóðanda hans. Í ljósi þess að varnaraðili hafi staðfest fyrir dómi að hafa útbúið fundargerðir dags. 3. og 5. júlí 2007, telja sóknaraðilar að framlagning hans á þeim fyrir dómi feli í sér brot á trúnaðarskyldu hans gagnvart fyrrum umbjóðanda sínum.

v.

Sóknaraðilar benda á að varnaraðili hafi lagt fram fundargerð dagsetta 5. júlí 2007 sem eigi að lýsa hluthafafundi stjórnar [...] ehf., sem hann hafi sjálfur samið á árinu 2008 en fyrir liggi að varnaraðili hafi einnig samið aðra fundargerð sem beri með sér að vera af hluthafafundi [...] ehf. og sé dagsett tveimur dögum áður eða þann 3. júlí 2007. Þá vekja sóknaraðilar athygli á 200 milljóna króna mismun á þeim fjárhæðum sem fundargerðirnar tvær fjalli um. Þessar fundargerðir hafi varnaraðili jafnframt afhent [...] lögmanni.

Sóknaraðilar telja framangreinda háttsemi varnaraðila fela í sér brot á 1., 6., 11., 17. og 20. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Varnaraðili bendir í greinargerð sinni á að nafn hans komi ekki fram í umræddum fundargerðum hluthafafunda [...] ehf. enda hafi hann ekki verið viðstaddur þær athafnir sem þar er lýst né heldur staðfestingu þeirra. Þá hafi því heldur ekki verið haldið fram að efni fundargerðanna sé ekki í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar hafi verið í félaginu á umræddum tíma. Síðarnefnda atriðið hafi verið til skoðunar í héraðsdómsmáli nr. [...] sem nú sé til meðferðar í Landsrétti sem mál nr. [...], en í dómi héraðsdóms komi fram að óumdeilt sé að fundargerð, dags. 5. júlí 2007, hafi ekki verið rituð þann dag, en allir stjórnarmenn og hluthafar í [...] ehf. hafi undirritað hana. Það sama segir varnaraðili að eigi við um aðrar fundargerðir sem nefndar eru í kvörtun, þær hafi verið undirritaðar af öllum þáverandi hluthöfum og stjórnarmönnum í [...] ehf., sem sé sönnun þess að þær endurspegli raunverulegar ákvarðanir sem teknar voru í félaginu, óháð því hver samdi texta þeirra, enda hafi verið sýnt fram á að í texta fundargerðanna hafi ekki falist nein rangfærsla um staðreyndir.

Varnaraðili bendir á að aðild [...] að Landsréttarmáli nr. [...] byggist á því að hún sitji í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, [...]. [...] lögmaður fari með umrætt mál fyrir [...], ekki varnaraðili. Umræddar fundargerðir sem hafi verið lagðar fram í héraðsdómi í málinu séu allar undirritaðar af [...] á sínum tíma og hafi verið í vörslu eiginkonu hans allt frá andláti hans. Varnaraðili mótmælir því að nokkuð hafi verið athugavert við framlagningu skjalanna fyrir dómi.

Að sama skapi mótmælir varnaraðili því að hann hafi aðhafst nokkuð sem andstætt sé ákvæðum siðareglna lögmanna í tengslum við framlagningu skjalanna, enda hafi [...] átt gögnin í sínum vörslum, enda þau varðað persónulega hagsmuni hans rétt eins og annarra hluthafa í félaginu.

Hvað varðar meint brot varnaraðila gegn 11. gr. siðareglna lögmanna telur varnaraðili að kvörtun sé of seint fram komin en fyrra mál sóknaraðila gegn umbjóðanda hans hafi verið höfðað á árinu 2017 og síðara málið árið 2021. Hann hafi gegnt lögmannsstörfum fyrir umbjóðanda sinn frá þingfestingardegi málanna og aldrei verið gerðar athugasemdir við það af hálfu sóknaraðila eða annarra. Telur varnaraðili að vísa beri þessum þætti kvörtunar frá af þessari ástæðu. Jafnframt telur varnaraðili ekkert við það að athuga að hann tæki að sér verkefni fyrir umbjóðanda sinn, sem ekki hafi verið hluthafi í [...] ehf. auk þess sem níu ár hafi verið liðin frá því hann hafi eitthvað með málefni [...] ehf. að gera. Þá hafi núverandi eigandi félagsins ekki eignast það fyrr en átta árum eftir að afskiptum varnaraðila af málefnum félagsins lauk.

Varnaraðili segir því ranglega haldið fram í kvörtun að hann hafi lagt fundargerðirnar fram í Héraðsdómi Reykjaness þann 4. apríl 2022 í máli [...]. Það hafi hann ekki gert heldur [...] lögmaður. Varnaraðili fer fram á að þessum kvörtunarlið verði vísað frá nefndinni en til vara er því mótmælt að brot gegn 17. gr. siðareglna lögmanna hafi átt sér stað. Það sama á við um meint brot gegn 20. gr. siðareglna enda hafi varnaraðili ekki lagt umrædd gögn fram heldur [...] lögmaður. Þá fullyrðingu sóknaraðila að varnaraðili hljóti að hafa afhent [...] lögmanni gögnin enda hafi umbjóðandi hans ekki haft aðgang að þeim, segir varnaraðili fráleita.

Varnaraðili vísar til fyrri umfjöllunar varðandi þann lið kvörtunar sem snýr að framlagningu hans á fundargerð, dags. 5. júlí 2007, í máli sóknaraðila gegn umbjóðanda hans. Varnaraðili kveður alla sem málið varðaði hafa haft umræddar fundargerðir undir höndum og notað þær til skýringar á málstað sínum þegar á árinu 2008, meðan þau voru hluthafar í sóknaraðilanum A ehf. Þessu til stuðnings vísar varnaraðili til bréfs sem varnaraðili ritaði þáverandi lögmanni [...] 18. apríl 2008 þar sem upplýst var um hluthafafund sem haldinn hafi verið í [...] ehf., 5. júlí 2007, og þá ákvörðun sem þar var tekin. Enn fremur leggur varnaraðili fram tölvupóst [...] frá 17. apríl 2008 til systra sinna og eiginmanna tveggja þeirra, þar sem drög að fyrrnefndu bréfi varnaraðila til lögmanns [...] var í viðhengi. Í tölvupóstinum segir jafnframt að varnaraðili geti hitt þau kl. 13 daginn eftir. Varnaraðili segir að fyrrnefnt bréf hafi verið sent í kjölfar þess fundar sem boðað var til með tölvupósti [...]. Af þessu leiðir að mati varnaraðila að öllum sem málið varðaði hafi verið nákvæmlega kunnugt um efni fundargerðarinnar og bréfsins og fengið eintak af þessum gögnum. Til skýringar á því hvers vegna þær ákvarðanir sem teknar voru um málefni sóknaraðilans A ehf., sem teknar voru á sama tíma og hluthafafundur í [...] hf., leggur varnaraðili fram fundargerð hluthafafundar í [...] 5. júlí 2007. Að mati varnaraðila er samhengið augljóst, hvort sem fundargerðir sóknaraðilans A ehf. hafi verið skrifaðar á sama tíma eða ekki.

Varnaraðili mótmælir að lokum því að hann hafi á nokkurn hátt brotið gegn siðareglum lögmanna í þeim tilvikum sem kvörtun tekur til. Þá bendir varnaraðili á að efni kvörtunarinnar varði álitaefni sem nú sé til meðferðar í Landsrétti og kveðst ekki sjá ástæðu til þess að tjá sig á vettvangi úrskurðarnefndar um áskoranir sem sóknaraðili beindi að honum í kvörtuninni.

III.

Í viðbótargreinargerð sinni fóru sóknaraðilar yfir tilurð og efni fundargerðanna sem kvörtun lýtur að. Sóknaraðilar áréttuðu að fundargerðirnar hafi verið samdar á árinu 2008 en ekki 2007 eins og dagsetningar þeirra beri með sér. Enn fremur lögðu sóknaraðilar áherslu á að þeir stjórnarfundir í [...] ehf. sem lýst er í fundargerðunum, hafi aldrei verið haldnir. Þá kannist [...] endurskoðandi ekki við að hafa verið viðstaddur þá fundi sem þar er lýst, þrátt fyrir að hann sé titlaður fundarritari. Sóknaraðilar ítrekuðu að þeir telji ljóst að fundargerðirnar endurspegli ekki raunverulega atburði á þeim tíma sem þær taka til.

IV.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila áréttaði hann að ekkert af þeim gögnum sem sóknaraðili hefði lagt fram til nefndarinnar gætu talist ný gögn og vísaði að öðru leyti til greinargerðar sinnar til nefndarinnar.

 

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Nefndin vísar kvörtun frá sér ef lengri tími en eitt ár er liðið frá því að kostur var á að koma henni á framfæri. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í þeim tilfellum sem atvik áttu sér stað áður en breyting sem gerð var á siðareglum lögmanna þann 26. janúar 2023 tók gildi, vísast hér eftir til ákvæða eins og þau komu fyrir í þágildandi siðareglum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Þá skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 6. gr. siðareglna lögmanna skal upplýsingum, sem lögmaður fær í starfi, haldið frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki. Þá reglu skal lögmaður brýna fyrir starfsfólki sínu. Ekki má lögmaður nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila.

Í 11. gr. þágildandi siðareglna lögmanna var að finna ákvæði um hagsmunaárekstra. Var þar kveðið á um að lögmaður mætti ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra væru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Ákvæðið hindraði þó ekki að lögmaður leitaði sátta með deiluaðilum, með samþykki beggja. Jafnframt var kveðið á um að lögmaður skyldi varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir voru, fengju ekki samrýmst eða hætta gæti verið á slíku. Sama gilti um lögmenn sem hafa samstarf um rekstur (í rekstri) lögmannsstofa eða reka lögmannsstofu í félagi.

Í 17. gr. þágildandi siðareglna lögmanna var kveðið á um trúnaðarskyldu lögmanns gagnvart skjólstæðingi sínum. Samkvæmt greininni skyldi lögmaður aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint er að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem lögmaður hefur fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing. Sama gilti um fulltrúa lögmanns og annað starfslið svo og félaga lögmanns að lögmannsskrifstofu og starfslið hans. Loks var kveðið á um að trúnaðarskyldan héldist þótt verki væri lokið.

Samkvæmt 20. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

II.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1., 6., 11., 17. og 20. gr. siðareglna lögmanna.

Kvörtun lýtur að framlagningu á þremur fundargerðum hluthafafunda [...] ehf., dags. 7. febrúar, 3. júlí og 5. júlí 2007, í Héraðsdómi Reykjaness þann 6. apríl 2022 í máli [...] annars vegar og á síðastnefndu fundargerðinni í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli [...] þann 4. apríl 2022, hins vegar.

Fyrir liggur að varnaraðili var ekki lögmaður gagnaðila sóknaraðila og lagði umrædd skjöl ekki fram í Héraðsdómi Reykjaness þann 6. apríl 2022 heldur annar lögmaður sem gætir hagsmuna sama umbjóðanda í því máli. Ekki er fallist á með varnaraðila að vísa beri þessum hluta kvörtunar frá af þeim sökum. Af framangreindu leiðir þó að varnaraðili braut ekki gegn siðareglum lögmanna eða lögum með framlagningu annars lögmanns á skjölunum umrætt sinn. Sú framlagning er sérstakt umkvörtunarefni sóknaraðila í máli 16b/2023.

Hins vegar er kvartað vegna framlagningar fundargerðar hluthafafundar [...] ehf., dags. 5. júlí 2007, í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli [...] þann 4. apríl 2022.

Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa gerst brotlegan við ákvæði siðareglna lögmanna um hagsmunaárekstra með því að hafa tekið að sér hagsmunagæslu fyrir [...] í dómsmáli fyrrum umbjóðanda síns gegn henni. Nefndin tekur undir með sóknaraðilum að óheppilegt sé að varnaraðili hafi ákveðið að taka að sér mál gagnaðila fyrrum umbjóðanda síns með þeim hætti sem hann hefur gert. Að mati nefndarinnar er mál þetta, líkt og önnur sem nefndinni hafa borist frá sóknaraðilum vegna tengdra atvika, tilkomið vegna þessarar ákvörðunar varnaraðila. Fyrir liggur að hagsmuna­gæsla varnaraðila fyrir núverandi umbjóðanda sinn, í málum sóknaraðila gegn henni, hefur staðið yfir frá árinu 2017. Fellur kvörtun hvað þann þátt varðar því utan þess frests sem kveðið er á um í 1. mgr. 27. gr. og verður ekki hjá því komist að vísa þeim hluta kvörtunarinnar frá nefndinni.

Neitun varnaraðila um upplýsingar og afhendingu gagna til sóknaraðila er sérstakt umkvörtunarefni í málum 33/2023 og 40/2023 og vísast til úrskurða nefndarinnar í þeim málum hvað það varðar. Framlagning varnaraðila á skjölum fyrir dómi og afhending á þeim til þriðja aðila er umkvörtunarefni í máli 36/2022 og vísast til úrskurðar nefndarinnar í því máli hvað það varðar.

Umrædd fundargerð hluthafafundar [...] ehf., dags. 5. júlí 2007 er, líkt og hinar tvær fundargerðirnar sem fjallað er um í máli þessu, undirrituð af [...], eiginmanni umbjóðanda varnaraðila, sem og öðrum þáverandi hluthöfum og stjórnarmönnum í félaginu. Af því leiðir að mati nefndarinnar að ætla megi að hann hafi haft umrætt skjal í fórum sínum og dánarbú hans að honum látnum. Málið sem um ræðir var höfðað gegn umbjóðanda varnaraðila vegna dánarbús eiginmanns hennar og hafði hún að mati nefndarinnar sama rétt og eiginmaður hennar hefði haft til þess að afhenda það hverjum þeim lögmanni sem hefði tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hana og leggja það fram í málinu. Telst að mati nefndarinnar ósannað að um sé að ræða skjal sem varnaraðili hafi komist yfir sem þáverandi lögmaður félagsins og að hann hafi afhent það öðrum lögmanni eða nokkrum öðrum. Að mati nefndarinnar er ósannað að umrætt skjal geymi annað en réttar upplýsingar um þær ákvarðanir sem teknar voru af stjórn [...] ehf. á þeim tíma sem það tekur til, enda var skjalið undirritað af öllum þáverandi stjórnarmönnum og hluthöfum félagsins. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að framlagning skjalsins umrætt sinn feli ekki í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum af hálfu varnaraðila.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Þeim hluta málsins sem lýtur að því að varnaraðili, C lögmaður, hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir gagnaðila sóknaraðila, A ehf. og B, er vísað frá nefndinni.

Kröfu varnaraðila, C lögmanns, um frávísun þess hluta málsins er lýtur að framlagningu dómskjala í Héraðsdómi Reykjaness þann 6. apríl 2022 í máli [...], er hafnað.

Varnaraðili, C lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A ehf. og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

Rétt endurrit staðfestir


Eva Hrönn Jónsdóttir