Mál 16b 2023

Mál 16b/2023

Ár 2024, mánudaginn 27. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið málið:

16b/2023

A ehf. og B

gegn

C lögmanni

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. mars 2023 kvörtun D, f.h. A ehf. og B, kt. gegn C lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns gagnaðila sóknaraðila í máli héraðsdómsmáli nr. […].

Varnaraðila var veitt færi á að skila greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. samdægurs, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst þann 17. apríl 2023. Greinargerðin var send sóknaraðila samdægurs og frestur veittur til 8. maí 2023 til þess að skila viðbótargreinargerð. Fresturinn var framlengdur í þrígang, fyrst til 15. maí 2023, næst til 20. maí 2023 og að síðustu til 29. maí 2023 án þess að gögn bærust innan frestsins. Með bréfi dags., 7. nóvember 2023, var sóknaraðilum veittur lokafrestur til gagnafram­lagningar til og með 22. nóvember 2023. Viðbótargreinargerð þeirra barst þann 24. nóvember 2023 og var send varnaraðila samdægurs. Viðbótar­greinargerð varnaraðila barst þann 24. nóvember 2023. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar og var málið tekið til úrskurðar.  

 

Málsatvik og málsástæður

I.

D er eigandi sóknaraðilans A ehf. og beinir erindi þessu til nefndarinnar fyrir hönd félagsins og móður sinnar, B. Sóknaraðilinn A ehf. hét áður […] ehf., hér eftir [...] ehf., og var stofnað af […], afa D og föður sóknaraðilans B. […] átti félagið til ársins 1999 en það ár eignuðust börn hans fjögur, […], […], […] og sóknaraðilinn B félagið og átti hvert um sig 25% eignarhlut í því. Systkinin sátu jafnframt öll í stjórn félagsins en […] sá um daglegan rekstur þess.

[...] ehf. var á tímabili eitt stærsta fjárfestingafélag landsins og að sögn sóknaraðila nam eigið fé félagsins vel á annan tug milljarða króna í árslok 2006. Stærstu eignir félagsins voru geymdar í dótturfélögunum SK og SKE ehf. þar sem […] var framkvæmdastjóri og einn prókúruhafi og svo dótturdótturfélögunum […] ehf. og […] ehf. og var […] einnig eini prókúruhafi þeirra félaga. Stærsta eign [...] ehf. var 47% hlutur félagsins í […] hf., hér eftir […], og var [...] stjórnarformaður félagsins í umboði stjórnar [...] ehf. […] var einn stærsti hluthafi í […]sem á þessum tíma var stærsti einstaki hluthafi í […] hf., hér eftir […], sem og einn stærsti hluthafi í […].

Þann 8. janúar 2008 tók […] yfir stjórnun […] og undirritaði [...] yfirtökusamninginn f.h. […]. Síðar sama ár var nafni [...] ehf. breytt í A ehf. og þann 13. ágúst 2008 afsöluðu hluthafarnir fjórir allri hlutafjáreign sinni í A ehf. til […]. Umsamið verð fyrir hlut hvers þeirra var ein króna. D keypti sóknaraðilann A ehf. af […] ehf. á haustmánuðum árið 2016.

[...] lögmaður, faðir varnaraðila og fyrrum meðeigandi á lögmannsstofu hans, veitti [...] ehf. lögmannsþjónustu í einstaka verkefnum frá stofnun félagsins. Hann gætti hagsmuna félagsins og hluthafa þess í tengslum við yfirtöku […] á félaginu á árinu 2008. Störfum hans fyrir félagið lauk þann 13. ágúst en vinnu fyrir hluthafana í september sama ár. [...] var lögmaður hluthafanna […], […] og sóknaraðilans B fram í nóvember árið 2014. Eftir það sinnti hann lögmannsþjónustu fyrir [...] fram að andláti hans og frá þeim tíma hefur hann, auk varnaraðila, gætt hagsmuna ekkju hans, [...]. 

I.

Frá kaupum D á sóknaraðilanum A ehf. kveðst hann hafa unnið að skoðun og greiningu á rekstri félagsins á árunum 2004-2008 vegna gruns hans og sóknaraðilans B, um misferli [...] í rekstri félagsins.

Sóknaraðilinn A ehf. rekur nú mál nr. […] í Landsrétti gegn […], fyrrum viðskiptastjóra félagsins innan […], […] og […] ehf., fyrrum endurskoðanda félagsins, [...] vegna db. [...] og […]  ehf. til réttargæslu, vegna millifærslu 46 milljóna króna af reikningi sóknaraðila á reikning einkahlutafélags [...], […] ehf., þann 20. janúar 2005. [...] lögmaður gætir hagsmuna [...] í umræddu máli auk Landsréttarmáls nr. […] sem sóknaraðilinn A höfðaði gegn henni o.fl.

Sóknaraðilinn B rekur nú mál nr. […] fyrir Landsrétti gegn [...] og dánarbúi [...] vegna rúmlega 13 milljóna króna greiðslu sem hún telur sig hafa verið blekkta til þess að greiða á árinu 2008 í tengslum við yfirtöku […] á […], enda hafi komið í ljós að […] hafi verið persónulega ábyrgur fyrir þessum greiðslum sem þáverandi stjórnarformaður […]. Vegna slæmrar fjárhagsstöðu sinnar hafi hann hins vegar krafið systur sínar um stærstan hluta þessa kostnaðar. Varnaraðili gætir hagsmuna [...] í málinu.

Undir rekstri málsins í héraðsdómi, þann 6. apríl 2022, lagði varnaraðili fram f.h. umbjóðanda síns þrjár fundargerðir af hluthafafundum [...] ehf., dags. 7. febrúar, 3. júlí og 5. júlí 2007.

Annars vegar lýtur kvörtun að framlagningu varnaraðila á umræddum skjölum en sóknaraðilar segja umrædda hluthafafundi sem fundargerðirnar beri með sér að fjalla um, aldrei hafa verið haldna. Um þetta vísa þeir m.a. til skýrslu [...] lögmanns, fyrrum lögmanns [...] ehf. og fyrrum hluthafa félagsins, og föður varnaraðila, í héraðsdómi 8. september 2021 í vitnamáli […]. Þar hafi hann staðfest að hafa samið texta fundargerðanna, sem eru dagsettar í júlí 2007, að beiðni [...] þáverandi fyrirsvarsmanns félagsins og […] þáverandi endurskoðanda félagsins. Þær hafi hann samið á árinu 2008 en dagsett árið 2007. Umræddar fundargerðir bera með sér að vera ritaðar á hluthafafundum í [...] ehf. sem fram hafi farið með tveggja daga millibili í júlí 2007. Í fundargerðunum er […] sagður fundarritari og gera sóknaraðilar athugasemdir við það í ljósi þess að fyrir liggi nú að [...] lögmaður hafi ritað þær sjálfur. Sóknaraðilar kveðast telja að hann hafi einnig ritað fundargerð, dags. 7. febrúar 2007, en ekki liggi fyrir staðfesting þess efnis.

Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa í fórum sínum gögn tengdum umræddum fundargerðum sem gætu verið lykilgögn í málarekstri sóknaraðila sem nú fer fram í Landsrétti. Í stað þess að afhenda gögnin og gefa aðilum dómsmálanna kost á að leiða fram sannleikann í sönnunarfærslu fyrir dómstólum neiti varnaraðili öllum samskiptum við sóknaraðila og hindri aðgang að umræddum gögnum. Þá sé ljóst að um sé að ræða skjöl sem samin séu af [...] lögmanni á árinu 2008 en dagsett á árinu 2007.

Í ljósi þess að [...] lögmaður hafi staðfest fyrir dómi að hafa útbúið fundargerðir dags. 3. og 5. júlí 2007, telja sóknaraðilar að framlagning varnaraðila á þeim fyrir dómi feli í sér brot á þagnarskyldu gagnvart fyrrum umbjóðanda [...] lögmanns, sem einnig nái yfir aðra lögmenn á sömu lögmannsstofu, þ.m.t. varnaraðila.

Hins vegar lýtur kvörtun að þeirri háttsemi varnaraðila að neita sóknaraðilum um aðgang að gögnum [...] ehf. sem sóknaraðilar telja að hann hafi fengið aðgang að frá [...] lögmanni. Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa lagt fram á annan tug trúnaðarskjala [...] ehf. með greinargerð umbjóðanda síns, [...] þann 1. desember 2021, í máli nr. […], sem sóknaraðili B, höfðaði gegn henni fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa handvalið gögn úr trúnaðargögnum [...] ehf. til þess að leggja fram gegn félaginu í umræddu dómsmáli. Fyrirsvarsmaður sóknaraðilans A ehf. hafi þess vegna óskað eftir því með tölvupósti 25. ágúst 2022 að varnaraðili tæki saman þau trúnaðargögn sem fyrrum lögmannsstofa [...] ehf., […] ehf., hefði undir höndum um málefni [...] ehf. Um væri að ræða lykilgögn fyrir sóknaraðila í sönnunarfærslu í málum sem þeir reka fyrir héraðsdómi og Landsrétti, sem geti haft veruleg áhrif á framvindu umræddra dómsmála. Í svari varnaraðila sama dag hafi hann neitað að afhenda umbeðin gögn og kveðist hafa ákveðið að taka ekki við frekari tölvupóstum frá fyrirsvarsmanni sóknaraðila. Í kjölfarið óskaði lögmaður sóknaraðila, […], eftir því að nálgast gögnin frá varnaraðila og hafnaði varnaraðili að verða við beiðninni.

Sóknaraðilar telja að varnaraðila sé ekki stætt á því að neita þeim um aðgang að gögnum er varða málefni [...] ehf. á þeim tíma sem [...] var lögmaður félagsins. Um sé að ræða trúnaðarsamskipti varnaraðila við viðskiptabanka [...] ehf. í aðdraganda yfirtöku bankans á félaginu sem sóknaraðilar segja varnaraðila hafa handvalið gögn úr eftir hentisemi og lagt fram f.h. gagnaðila í dómsmálum sóknaraðila gegn henni. Að sama skapi geti ekki talist eðlilegt að [...] afhendi slík gögn til varnaraðila, svo hann geti notað þau í sama tilgangi.

Sóknaraðilar telja framangreinda háttsemi varnaraðila fela í sér brot á 1., og 21. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Í greinargerð varnaraðila til nefndarinnar segir hann kvörtun tilkomna vegna lögmanns­starfa sinna fyrir [...]. Sóknaraðilinn B hafi höfðað skaðabótamál á hendur [...] fyrir Héraðsdómi Reykjaness sem hafi verið þingfest 3. nóvember 2021 á grundvelli þess að hún sæti í óskiptu dánarbúi eiginmanns síns, [...]. Dómur héraðsdóms um sýknu hafi verið afdráttarlaus. Varnaraðili kveðst hvorugum sóknaraðila hafa nokkru sinni veitt lögmannsþjónustu af einhverju tagi.

Varnaraðili segir alla þáverandi hluthafa sóknaraðilans A ehf., hafa átt sæti í stjórn félagsins á þeim árum sem hér skipti máli. Allar fundargerðir, og þar með þær ákvarðanir sem teknar hafi verið á fundum sem þær taka til, hafi verið staðfestar með undirritun hluthafanna, þ.m.t. [...] og sóknaraðilans B. [...] hafi að sjálfsögðu aðgang að gögnum eiginmanns síns heitins, þ.m.t. umræddum fundargerðum og geti lagt fram í dómsmáli rétt eins og […] hefði getað.

Varnaraðili kveður fráleitt að einhverjar sérstakar trúnaðarskyldur sínar eða annarra lögmanna á sömu lögmannsstofu, við A ehf., valdi því að [...] megi ekki leggja umræddar fundargerðir, sem eiginmaður hennar undirritaði, meðal annarra, fram í dómsmálum sem félagið höfðar á hendur henni.

Varnaraðili mótmælir því að hafa brotið gegn siðareglum lögmanna með framlagningu umræddra fundargerða. Þá mótmælir varnaraðili útleggingum sóknaraðila af gögnum sem fylgdu kvörtun, og varða dagsetningar fundargerðanna, sem röngum og þýðingarlausum. Gögnin hafi verið lögð fram sem sönnunargögn og það sé hlutverk dómenda að fjalla um sönnunargildi og þýðingu slíkra gagna. Ekkert við framlagninguna geti leitt til réttmætrar kvörtunar á hendur sér sem lögmanni.

Hvað seinni hluta kvörtunarinnar varðar, hafnar varnaraðili því að hann hafi undir höndum nokkur gögn í eigu sóknaraðilans A ehf. né aðgang að slíkum gögnum í gegnum [...] lögmann eða aðra. Af því leiði að hann gæti ekki veitt slíkan aðgang. Sóknaraðilar telji sig vita hver hafi gögn undir höndum og hljóti þá að beina athuga­semdum sínum að viðkomandi, en ekki að varnaraðila fyrir að hlutast ekki til um gagna­öflun fyrir sig sem einhvers konar milligöngumaður. Varnaraðili bendir einnig á úrræði X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hvað varðar skjöl og önnur sýnileg sönnunar­gögn. Varnaraðili telur kvörtunarefni að þessu leyti gagnvart sér sem lögmanni gagnaðila út í hött.

Varnaraðili mótmælir tilvísunum sóknaraðila til fyrri kvörtunar sem varnaraðili á ekki aðild að. Enn fremur er því mótmælt að varnaraðili hafi lagt fram nokkur skjöl í umræddu dómsmáli fyrir Héraðsdómi Reykjaness sem geti flokkast sem trúnaðarskjöl. Þá mótmælir varnaraðili því sem röngu og ósönnuðu að hann hafi gerst sekur um brot gegn 21. gr. siðareglna lögmanna með því að hafa spillt eða leynt sönnunargögnum. Varnaraðili fer fram á málskostnað úr hendi sóknaraðila þar sem kvörtun sé án eðlilegs tilefnis.

III.

Sóknaraðilar árétta að fundir þeir sem umræddar fundargerðir beri með sér að fjalla um hafi ekki verið haldnir, fundargerðirnar hafi verið skrifaðar eftir á og lýsi ekki raunverulegum atburðum. Að mati sóknaraðila er um að ræða fölsuð skjöl sem lögð séu fram í þeim tilgangi að hafa áhrif á úrslit umrædds dómsmáls. Sóknaraðilar segja varnaraðila hafi fullan aðgang að póstþjóni lögmannsstofu sinnar og að mati sóknaraðila blasir við að tölvupóstar og skjöl sem hann hefur lagt fram komi þaðan. Gögnin komi þannig frá fyrrum lögmanni sóknaraðila en ekki umbjóðanda varnaraðila.

IV.

Varnaraðili vísar til greinargerðar sinnar og hafnar því að hafa brotið gegn siðareglum lögmanna með framlagningu umræddra skjala. Þá kveðst varnaraðili ekki eiga óheftan aðgang að gögnum sem faðir hans eigi eða kunni að hafa átt í gegnum tíðina. Vanhagi sóknaraðila um gögn frá föður hans ættu þeir að snúa sér til hans en ekki til varnaraðila.

 

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Þá skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 21. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmaður megi ekki stuðla að því, að sönnunargögnum sé spillt eða leynt, en óskylt er honum og óheimilt, gegn banni skjólstæðings, að láta dómstólum í té gögn og upplýsingar, sem skjólstæðingi eru til sakfellis. Lögmanni er jafnframt óheimilt að leggja fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans.

 

II.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðilar telja varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1. og 21. gr. siðareglna lögmanna.

Varnaraðili telur að vísa eigi kvörtuninni frá nefndinni í ljósi þess að hann hafi aldrei unnið nein lögmannsverkefni eða haft trúnaðarskyldur við sóknaraðila. Í ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 er heimild til þess að kvarta til nefndarinnar ekki einskorðuð við umbjóðanda lögmanns. Af því leiðir að þó sú háttsemi sem kvartað er yfir hafi átt sér stað í tengslum við störf lögmanns fyrir umbjóðanda sinn, kemur það ekki í veg fyrir að annar aðili, sem telur á sér brotið með háttseminni, geti kvartað vegna hennar til nefndarinnar. Er af þeim sökum ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila.

Kvörtun þessi lýtur í fyrsta lagi að framlagningu varnaraðila á þremur fundargerðum af stjórnarfundum í [...] ehf. á árinu 2007 í héraðsdómsmáli […] þann 6. apríl 2022. Í kvörtun er á því byggt að varnaraðili hafi fengið umræddar fundargerðir frá fyrrum lögmanni sóknaraðila auk þess sem þær séu efnislega rangar og endurspegli ekki athafnir stjórnar [...] ehf. og tímasetningar ákvarðana sem þar er lýst.

Umrædd skjöl eru undirrituð af eiginmanni umbjóðanda varnaraðila, þáverandi stjórnarmanni og fyrirsvarsmanni sóknaraðilans A ehf. Má því að mati nefndarinnar ætla að hann hafi haft umrædd skjöl í fórum sínum og þau hafi verið meðal gagna í dánarbúi hans að honum látnum. Málið sem um ræðir var höfðað gegn umbjóðanda varnaraðila og dánarbúi eiginmanns hennar og hafði hún að mati nefndarinnar sama rétt og eiginmaður hennar hefði haft til þess að afhenda þau hverjum þeim lögmanni sem hefði tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hana og leggja þau fram í málinu. Að mati nefndarinnar er ósannað að umrædd skjöl geymi annað en réttar upplýsingar um þær ákvarðanir sem teknar voru af stjórn [...] ehf. á þeim tíma sem þau taka til enda voru skjölin undirrituð af öllum þáverandi stjórnarmönnum og hluthöfum félagsins. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að framlagning skjalanna umrætt sinn feli ekki í sér brot á siðareglum lögmanna af hálfu varnaraðila.

Í öðru lagi er kvartað yfir þeirri háttsemi varnaraðila að neita sóknaraðilum um aðgang að trúnaðargögnum [...] ehf. sem sóknaraðilar vilja meina að hann hafi fengið afhent frá [...] lögmanni. Gögn málsins bera ekki með sér að varnaraðili hafi nokkurn tímann sinnt hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila og borið trúnaðarskyldu gagnvart þeim. Eins og fram hefur komið var faðir varnaraðila og fyrrum meðeigandi á lögmannsstofu hans, lögmaður sóknaraðila um árabil. Varnaraðili verður ekki krafinn um gögn umbjóðenda annars lögmanns sem starfar á sömu lögmannsstofu. Skylda til þess að afhenda sóknaraðilum gögn, séu slík gögn á annað borð til og eigi sóknaraðilar rétt til þeirra, hvílir þannig ekki á varnaraðila heldur fyrrum lögmanni sóknaraðila. Af því leiðir að varnaraðili hefur ekki gerst brotlegur við siðareglur lögmanna eða lög hvað þennan þátt málsins varðar.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, C lögmanns, um frávísun málsins frá nefndinni, er hafnað.

Varnaraðili, C lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A ehf. og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

 

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir