Mál 21 2023
Mál 21/2023
Ár 2024, miðvikudaginn 10. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 21/2023:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 9. maí 2023 kvörtun sóknaraðila, A, gegn B lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi samdægurs þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 25. maí 2023. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 12. júní 2023 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 3. júlí 2023. Sóknaraðili sendi viðbótarathugasemdir og gögn þann 23. nóvember 2023 sem varnaraðili svaraði með bréfi 27. nóvember 2023. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar og var málið tekið til úrskurðar.
Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns til meðferðar málsins og tók varamaður sæti hans í málinu.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðili kveðst hafa leitað til varnaraðila vorið 2022 og beðið um aðstoð við að fá lögheimili dóttur sinnar flutt til sín. Hún segir varnaraðila hafa leiðbeint sér um að fara fyrst til sýslumanns en leita svo til hennar aftur þegar reynt hefði á sáttameðferð þar. Sóknaraðili hafi aftur haft samband við varnaraðila í júní sama ár og varnaraðili þá tekið að sér að gæta hagsmuna hennar í dómsmáli ef til þess kæmi. Sóknaraðili hafi í framhaldinu sent varnaraðila gögn sem varða málið eftir að varnaraðili hafi staðfest að hún vildi fá þau gögn.
Þann 20. júní 2022 kveður varnaraðili sóknaraðila hafa haft samband við sig og sagst vilja koma á sáttum milli hennar og barnsföður hennar enda þekkti faðir varnaraðila barnsföður hennar. Sóknaraðila hafi ekkert litist á að leita sátta með milligöngu lögmanns sem barnsfaðir hennar hefði tengsl við og hafi því leitað til annars lögmanns og höfðað dómsmál gegn barnsföður sínum. Varnaraðili hafi í kjölfarið tekið að sér hagsmunagæslu fyrir barnsföður sóknaraðila í málinu. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa nýtt upplýsingar, sem að hluta til stafi frá sér, í greinargerð sem hún ritaði f.h. barnsföður. Vísar sóknaraðili til bréfs sem hún sendi varnaraðila í tölvupósti í þessu sambandi.
Sóknaraðili telur það ekki samræmast góðum lögmannsháttum og fara í bága við 1.-3. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna, að taka að sér hagsmunagæslu í máli sem líklegt er að endi fyrir dómi, taka í því skyni við upplýsingum og gögnum sem málið varða, auk þess að eiga trúnaðarsamtöl við umbjóðanda sinn, og nota svo þær upplýsingar til hagsbóta fyrir gagnaðila. Afleiðingarnar af slíkri háttsemi geta að mati sóknaraðila auðveldlega orðið þær að aðilar njóti ekki jafnræðis fyrir dómi. Auk þess er að mati sóknaraðila ekki hægt að ætlast til þess að hún treysti því að varnaraðili virði trúnaðarskyldu gagnvart sér þegar varnaraðili er farinn að gæta hagsmuna gagnaðila hennar fyrir dómi. Sóknaraðili telur það engu máli skipta þótt undirritað umboð og verksamningur liggi ekki fyrir. Gögn málsins sýni að varnaraðili hafði samþykkt að taka að sér rekstur dómsmáls og svarað spurningu sóknaraðila um það hvort hún ætti að senda henni gögn með einu orði „endilega“.
Sóknaraðili segir varnaraðila hafa gefið rangar og villandi upplýsingar um sína hagi, gegn betri vitund, í greinargerð f.h. barnsföður. Telur hún þetta fela í sér brot gegn 2. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna. Sóknaraðili telur háttsemi varnaraðila auk þess til þess fallna að koma óorði á lögmannastéttina og veikja traust almennings til lögmanna, sbr. 2. gr. siðareglnanna.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi gerst brotleg við 2. mgr. 1. gr., 2. gr. og 1.-3. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna og krefst þess að hún verði látin sæta viðurlögum. Einnig krefst sóknaraðili endurgreiðslu málagjalds.
II.
Varnaraðili segist ekki vera og aldrei hafa verið lögmaður sóknaraðila og þegar af þeirri ástæðu eigi erindi hennar ekki undir úrskurðarnefndina.
Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa hringt í sig þegar hún var í fríi erlendis 2.-14. júní 2022, í tvígang að því er hana minnir. Varnaraðili hafði ekki gefið sóknaraðila símanúmer sitt eða veitt samþykki fyrir því að hún hefði samband við hana. Sóknaraðili hafi spurt varnaraðila hvort hún tæki að sér forsjármál og hvort hún gæti tekið slíkt mál að sér fyrir hana ef til þess kæmi, sem varnaraðili hafi sagt sjálfsagt. Kveðst varnaraðili hafa leiðbeint sóknaraðila um að áður en til dómsmáls kæmi þyrftu foreldrar að fara í sáttameðferð hjá sýslumanni. Þegar varnaraðili hafi snúið til baka úr fríinu hafi komið í ljós að barnsfaðir sóknaraðila þekkti vel til föður varnaraðila, sem hún deili skrifstofu með, og ljóst orðið að til hagsmunaáreksturs kæmi ef ágreiningurinn yrði að dómsmáli. Því hafi varnaraðili haft samband við sóknaraðila og skýrt henni frá því að hún gæti ekki tekið að sér að gæta hagsmuna hennar í slíku máli.
Varnaraðili kveðst ekki hafa tekið að sér að leita sátta milli sóknaraðila og barnsföður hennar en hafi spurt sóknaraðila hvort tiltekin ráðstöfun gæti verið lausn á áhyggjum sóknaraðila í tengslum við dvöl dóttur hennar á heimili barnsföður. Sóknaraðili hafi ekki svarað spurningunni.
Að sögn varnaraðila heyrði hún ekki frekar af málinu fyrr en faðir hennar vísaði barnsföður sóknaraðila til hennar, fyrri part árs 2023, en þá hafði sóknaraðili höfðað forsjármál á hendur honum. Hafi varnaraðili tekið að sér að gæta hagsmuna barnsföðurins sem hafi enda verið umbjóðandi á lögmannsstofunni lengi og enginn hagsmunaárekstur við sóknaraðila þó hún hafi hringt í varnaraðila þegar hún var í fríi. Telur varnaraðili fráleitt að hægt sé ”klukka” lögmenn með þeim hætti að hringja í þá og telja þar með að þeir geti ekki tekið hagsmunagæslu fyrir gagnaðila síðar. Þá hefði sóknaraðila mátt vera ljóst að barnsfaðir hennar væri skjólstæðingur föður varnaraðila og hefði verið eðlilegt að hún hefði skýrt frá því, sem hún hafi ekki gert.
Varnaraðili segist aldrei hafa lesið bréf sóknaraðila til sín enda hafi hún ekki verið við tölvu eins og hún hafi útskýrt fyrir sóknaraðila og sagt henni að hún myndi ekki skoða bréfið fyrr en heim væri komið. Þegar varnaraðili hafi komið aftur úr fríi hafi hagsmunaárekstur komið í ljós sem hafi gert það að verkum að hún hafi þurft að vísa sóknaraðila frá sér. Bréfið hafi varnaraðili fyrst opnað eftir að henni hafi orðið kunnugt um kvörtun sóknaraðila til úrskurðarnefndar og fái ekki betur séð en að bréfið sé meðal þeirra gagna sem sóknaraðili hafi lagt fram við þingfestingu málsins.
Að mati varnaraðila er fráleitt að hún hafi ýtt sér upplýsingar frá sóknaraðila við ritun greinargerðar f.h. barnsföður, enda riti hún greinargerðir og stefnur aðeins í samræmi við upplýsingar og gögn frá umbjóðendum sínum. Varnaraðili fullyrðir að ekkert í málavaxtalýsingu umbjóðanda hennar í greinargerð málsins stafi frá henni sjálfri og segir þær lýsingar byggja á lýsingu umbjóðanda síns en einnig á skjáskotum og gögnum sem hann hafi lagt fram samhliða greinargerð í málinu.
Varnaraðili kveðst engar trúnaðarupplýsingar hafa fengið frá sóknaraðila og hefði hún fengið slíkar upplýsingar hefðu þær ekki ratað í greinargerð málsins eða til umbjóðanda varnaraðila. Að mati varnaraðila hefur sóknaraðili ekki tilgreint hvaða trúnaðarupplýsingar þetta kynnu að vera sem hún hafi gefið varnaraðila og þaðan af síður hvar þær birtast í greinargerð umbjóðanda varnaraðila.
Varnaraðili telur augljóst að hún hafi ekki gerst sek um nokkuð brot. Mál sóknaraðila hafi aldrei komist á það stig að varnaraðili tæki að sér hagsmunagæslu fyrir hana. Hafi hún enda ekki veitt sér umboð til þess eða greitt sér þóknun. Varnaraðili hafi látið sóknaraðila vita um leið og hún kom úr fríi að hún gæti ekki tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hana ef svo færi vegna tengsla við barnsföður. Sóknaraðili hafi ekki gefið henni neinar sérstakar trúnaðarupplýsingar eða upplýst um eitthvað sem ekki komi fram í stefnu hennar í forsjármáli aðila, sem hafi verið höfðað um 10 mánuðum eftir þeirra síðustu samskipti.
III.
Sóknaraðili mótmælir því að varnaraðili hafi aldrei verið hennar lögmaður og vísar til fyrirliggjandi samskipta aðila í textaskilaboðum og tölvupóstum, þar sem varnaraðili hafi samþykkt að taka málið að sér. Sóknaraðili bendir á að áður en varnaraðili fór í sumarfrí hafi sóknaraðili sent henni textaskilaboð þann 2. maí 2022 og sagst þurfa lögfræðiaðstoð og beðið varnaraðila að hafa samband ef hún hefði tíma. Í kjölfarið hafi varnaraðili hringt í hana til þess að fá nánari upplýsingar um erindið. Varnaraðili hafi ekki gefið á nokkurn hátt til kynna að hún væri ósátt við að sóknaraðili hefði haft samband í farsímanúmer hennar enda sé það númer auk netfangs varnaraðila í símaskrá á ja.is, undir merki lögmannsstofu varnaraðila.
Sóknaraðili bendir á að í textaskilaboðum frá varnaraðila 8. júní 2022 komi ekkert fram um að hún hafi verið í fríi. Jafnframt bendir hún bent á orðalag varnaraðila í textaskilaboðum til varnaraðila þann dag þar sem segir „Við þurfum að fá þetta vottorð. Til að geta höfðað mál.“ Telur sóknaraðili þetta benda til þess að samstarf hafi verið komið á. Að sögn sóknaraðila hringdi hún í varnaraðila eftir að hafa sent henni gögn í tölvupósti og fékk fyrst þá þær upplýsingar að varnaraðili væri í fríi.
Sóknaraðili hafnar því alfarið að varnaraðili hafi sagt að hún gæti ekki tekið að sér að gæta hagsmuna hennar ef kæmi til dómsmáls. Hins vegar hafi varnaraðili boðist til að leita sátta með sóknaraðila og barnsföður hennar sem sóknaraðili hafi afþakkað en varnaraðili engu að síður sent henni tölvupóst í með tillögu að sátt. Sóknaraðili hafi ekki svarað tölvupósti varnaraðila þessa efnis enda hafi hún áður verið búin að afþakka sáttamiðlun af hendi varnaraðila.
Sóknaraðili fellst á að ekki gangi að einstaklingur geti komið í veg fyrir að lögmaður taki að sér hagsmunagæslu fyrir gagnaðila með því einu að hringja í lögmanninn. Þetta eigi ekki við í þessu máli enda hafi varnaraðili vissulega tekið að sér hagsmunagæslu fyrir sig. Sóknaraðili kveðst ekki hafa haft upplýsingar um að barnsfaðir hennar hafi verið umbjóðandi föður varnaraðila. Sóknaraðili telur ekki skipta máli hvenær varnaraðili kynnti sér gögn sem sóknaraðili sendi henni, hún hafi tekið við gögnunum og hvatt sóknaraðila til þess að senda sér þau og það hafi gerst í beinum tengslum við það að hún hafi tekið málið að sér.
Sóknaraðili mótmælir því ekki að barnsfaðir hennar hafi dregið upp þá mynd sem birtist í greinargerð þeirri sem lögð var fram í dómsmálinu, undirritaðri af varnaraðila. Það breyti því ekki að mati sóknaraðila að varnaraðili hafi haft upplýsingar beint frá sér sem hún hafi lagt út á versta veg. Sóknaraðili kveðst líta svo á að upplýsingar sem umbjóðandi gefur lögmanni, um málsatvik, forsögu máls og sterkar og veikar hliðar á málstað sínum, vera trúnaðarupplýsingar. Það eigi m.a. við upplýsingar sem sóknaraðili gaf varnaraðila. Sóknaraðili telur ekki nóg að lögmaður virði þagnarskyldu, honum beri einnig að forðast hagsmunaárekstra. Í þessu tilviki hafi varnaraðili beinlínis tekið að sér að vinna gegn hagsmunum sóknaraðila, í máli sem hún hafði samþykkt að taka að sér og hafði meðvitað móttekið upplýsingar um.
Að mati sóknaraðili fríar það ekki lögmann af þeirri skyldu sem á honum hvílir skv. 1. gr. siðareglna lögmanna, þó hann byggi á málavaxtalýsingu umbjóðanda síns. Varnaraðili hafi ekki lagt það til málsins í greinargerð f.h. barnsföður, sem hún best vissi samkvæmt sinni samvisku, enda hafi hún þá verið farin að gæta hagsmuna hans. Sóknaraðili segir ekki þurfa mikið hugmyndaflug til að sjá fyrir sér að lögmaður sem þekkir veikleika málstaðar gagnaðila geti nýtt sér það á ótilhlýðilegan hátt. Hvort sem hann gerir það eða ekki sé þessi augljósi möguleiki til þess fallinn að vekja tortryggni þess sem í hlut á. Það greiði augljóslega ekki fyrir sáttum og sé auk þess til þess fallið að veikja tiltrú almennings á lögmannastéttinni. Að mati sóknaraðila hefði varnaraðili aldrei átt að taka að sér að gæta hagsmuna barnsföðurins í máli gegn sér.
Sóknaraðili segir rétt að hún hafi ekki undirritað umboð til handa varnaraðila en telur það enga þýðingu hafa í þessu sambandi enda ráði formlegt umboð engum úrslitum um það hvort samningur hafi komist á eða ekki þegar liggi fyrir önnur gögn sem sýni fram á það. Enn fremur segir sóknaraðili rétt að hún hafi ekki greitt lögmanninum þóknun enda hafi hún ekki fengið neinn reikning. Það tíðkist ekki að umbjóðendur lögmanna greiði þóknun án þess að gerð sé nokkur krafa þar um.
IV.
Í viðbótargreinargerð sinni ítrekaði varnaraðili að hafa aldrei tekið að sér hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila. Hún muni ekki eftir símtali sem eigi að hafa átt sér stað í maí árið 2022 eftir að sóknaraðili hafi sent henni skilaboð en segir þó vel mega vera að sóknaraðili hafi hringt í hana til þess að kanna sína réttarstöðu. Varnaraðili hafi þó enga hagsmunagæslu tekið að sér fyrir hana. Þegar sóknaraðili hafi hringt í hana í júní s.á. hafi hún tjáð henni að hún gæti ekki aðstoðað hana þar sem hún væri í fríi en sjálfsagt væri að hitta hana að því loknu. Ekki hafi komið til þess þar sem í ljós hafi komið að barnsfaðir sóknaraðila hafði leitað til föður varnaraðila sem starfi á sömu lögmannsstofu. Þeir þekkist vel og sóknaraðila hafi verið það kunnugt. Varnaraðili hafi engin deili þekkt á sóknaraðila, hafi ekki hitt hana og aldrei tekið að sér að gæta hagsmuna hennar.
Varnaraðili kveður rangt sem haldið er fram í viðbótargreinargerð sóknaraðila að varnaraðili þekki sóknaraðila og hennar sögu. Hún þekki ekkert til sóknaraðila og allt sem komi fram í greinargerð hennar f.h. umbjóðanda síns komi fram í gögnum málsins. Sóknaraðili hafi ekki gefið henni neinar slíkar upplýsingar og ekki bent á neitt sem varnaraðili eigi að hafa getað notað gegn henni, enda sé ekkert til í slíku. Varnaraðili áréttar að hún hafi aldrei gætt hagsmuna sóknaraðila, aldrei átt trúnaðarsamtöl við hana og hafnar því að hún geti talist hafa brotið gegn henni með nokkrum hætti.
V.
Sóknaraðili sendi viðbótarathugasemdir og gögn til nefndarinnar þann 23. nóvember 2023. Kveðst sóknaraðili hafa fleiri gögn sem sýni að varnaraðili hafi sagt ósatt fyrir dómi þann 12. maí sama ár um að hún hafi aldrei gætt hagsmuna sóknaraðila eða nýtt sér trúnaðarsamtöl við hana. Dómari hafi ekki heimilað lögmanni sóknaraðila að leggja fram bókun í málinu gegn mótmælum varnaraðila. Sóknaraðili telur það fela í sér sjálfstætt brot af hálfu varnaraðila að segja ósatt fyrir dómi og óskar eftir að koma gögnum um þetta að í málinu.
VI.
Í svari varnaraðila við viðbótarathugasemdum varnaraðila ítrekar hún að hún hafi aldrei tekið að sér að gæta hagsmuna sóknaraðila. Að öðru leyti ítrekar varnaraðili það sem fram hafði komið í greinargerðum hennar til nefndarinnar.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Í 1. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmanni beri að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku. Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.
Í 11. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður skuli ekki aðstoða eða fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli ef hagsmunir þeirra rekast á, eða fara með hagsmuni skjólstæðings ef hagsmunir skjólstæðingsins rekast á við hagsmuni lögmannsins, nema ákvæði 5. mgr. eigi við. Hið sama gildir ef veruleg hætta er á hagsmunaárekstrum. Lögmaður skal jafnframt varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku. Þá skal lögmaður ekki fara með hagsmuni skjólstæðings þannig að fari í bága við trúnaðarskyldu hans gagnvart fyrrverandi skjólstæðingi.
II.
Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1., 2. og 11. gr. siðareglna lögmanna.
Samkvæmt gögnum málsins fóru öll samskipti aðila fram á tímabilinu 2. maí - 20. júní 2022. Með textaskilaboðum 2. maí 2022 bað sóknaraðili varnaraðila um að heyra í sér varðandi lögfræðiaðstoð tengt barni sínu. Gögn málsins varpa ekki ljósi á hvort eða hvenær aðilar voru í sambandi aftur fyrr en 8. júní 2022 en þeir virðast hafa talað saman í síma í millitíðinni. Í textaskilaboðum þann 8. júní spurði sóknaraðili varnaraðila hvort hún hefði tíma til þess að taka að sér mál varðandi lögheimili barns. Varnaraðili svaraði að það væri ekkert mál og spurði hvort sóknaraðili væri komin með vottorð um árangurslausa sáttameðferð frá sýslumanni. Sóknaraðili sagði svo ekki vera og benti varnaraðili henni á að hún þyrfti að útvega slíkt vottorð. Sóknaraðili spurði varnaraðila hvort hún vildi að hún sendi henni bréf sem hún hefði skrifað ásamt annarri barnsmóður barnsföður hennar og svaraði varnaraðili ”Já endilega”. Fram kom hjá sóknaraðila að umrætt bréf hafi einnig verið sent til Barnaverndar.
Varnaraðili hefur sagst hafa verið í fríi erlendis frá 2.-14. júní 2022. Henni hafi orðið ljóst þegar hún kom heim úr fríinu að hún gæti ekki tekið að sér hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila, þar sem barnsfaðir hennar væri skjólstæðingur á lögmannsstofu varnaraðila. Gögn málsins bera með sér að síðustu samskipti aðila hafi verið að kvöldi 20. júní 2022 þegar varnaraðili hafi gert tilraun til þess að hringja í sóknaraðila sem hafi svarað henni með textaskilaboðum þess efnis að hún væri á fundi. Í kjölfarið sendi varnaraðili sóknaraðila tölvupóst með tillögu að lausn á ágreiningi sóknaraðila við barnsföður sinn. Óumdeilt er að þessum pósti var ekki svarað og bera gögn málsins með sér að hann hafi markað endalok samskipta á milli aðila.
Varnaraðili hefur haldið því fram að hún hafi ekki, fyrr en eftir að sóknaraðili beindi erindi þessu til nefndarinnar, lesið bréf sem sóknaraðili ásamt annarri barnsmóður barnsföður hennar höfðu ritað, og sóknaraðili sendi varnaraðila í tölvupósti þann 9. júní 2022. Tölvupóstur varnaraðila til sóknaraðila þann 20. júní 2022 var svar við umræddum tölvupósti sóknaraðila og virðist því ljóst að umræddur tölvupóstur hafi borist varnaraðila hvort sem bréfið var lesið á þeim tíma eða síðar.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi notað upplýsingar sem hún hafi fengið frá sóknaraðila gegn henni sem lögmaður barnsföður hennar í forsjármáli þeirra. Fyrir liggur af gögnum málsins að umrætt bréf var lagt fram með stefnu sóknaraðila í forsjármáli hennar gegn barnsföður sínum sem þingfest var þann 21. mars 2023. Lá bréfið því fyrir meðal málsgagna þegar varnaraðili ritaði greinargerð af hálfu barnsföður sóknaraðila í málinu. Gögn málsins bera ekki með sér að sóknaraðili hafi gefið varnaraðila trúnaðarupplýsingar umfram þær sem komu fram í stefnu og málsgögnum í forsjármálinu, og varnaraðili hafði aðgang að sem lögmaður gagnaðila. Þá telur nefndin ekki hafa verið sýnt fram á að varnaraðili hafi með einhverjum hætti nýtt upplýsingar sem stöfuðu frá sóknaraðila, gegn henni í greinargerð varnaraðila f.h. barnsföður í forsjármálinu.
Að mati nefndarinnar kom aldrei til þess að varnaraðili tæki að sér hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila. Samskipti aðila voru takmörkuð bæði í tíma og að efni og telur nefndin ljóst af gögnum málsins að varnaraðili hafi í síðasta lagi tjáð sóknaraðila þann 20. júní 2022 að hún gæti ekki tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hana. Fyrir liggur að sóknaraðili hafði ekki veitt varnaraðila umboð til hagsmunagæslu í málinu né samið við hana um þóknun. Varnaraðili kom ekki fram f.h. sóknaraðila á neinum vettvangi, né hafði hún aðgang að gögnum málsins, ef frá er talið bréf sem inniheldur lýsingu sóknaraðila sjálfrar á atvikum, sem liggur fyrir í gögnum málsins að eru umdeild. Það að málavaxtalýsing og málsástæður sem varnaraðili setti fram af hálfu barnsföður sóknaraðila í greinargerð til héraðsdóms, samrýmist ekki upplýsingum sem sóknaraðila kann að hafa gefið varnaraðila, er viðbúið í ljósi þess að efni greinargerðar byggir á frásögn barnsföðurins og atvik eru umdeild.
Nefndin telur sannað að varnaraðili hafi tilkynnt sóknaraðila að hún gæti ekki tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hana um leið og henni varð ljóst að hagsmunaárekstur væri fyrir hendi. Að mati nefndarinnar verður meira að koma til, til þess að unnt sé að líta svo á að samningssamband hafi komist á á milli aðila um að varnaraðili tæki að sér hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila. Jafnvel þó hagsmunagæsla varnaraðila fyrir sóknaraðila teldist hafa hafist í textaskilaboðum 8. júní 2022, var varnaraðila heimilt, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna, að segja sig frá málinu á öllum stigum, og skylt, í samræmi við ákvæði 11. gr. siðareglnanna, að segja sig frá máli sóknaraðila um leið og henni varð ljóst um að hagsmunaárekstur væri kominn upp. Að mati nefndarinnar er óheppilegt, í ljósi aðstæðna, að varnaraðili hafi tekið að sér að gæta hagsmuna gagnaðila sóknaraðila með þeim hætti sem hún gerði. Í ljósi þess hve málið var skammt á veg komið þegar samskipti aðila máls þessa fóru fram, telur nefndin ekki tilefni til að finna að störfum varnaraðila vegna þessa.
Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Hulda Katrín Stefánsdóttir, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir