Mál 25 2023

Mál 25/2023

Ár 2024, miðvikudaginn 10. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið mál nr. 25/2023:

A og B

gegn

C lögmanni og D lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. júní 2023 erindi sóknaraðila [A] og [B] gegn varnaraðilum, [C] lögmanni og [D] lögmanni, vegna háttsemi þeirra í tengslum við störf þeirra fyrir móður sóknar­aðila á árunum 2019 til 2020.

Varnaraðilum var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 6. júní 2023, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 5. júlí 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni þann 27. júlí 2023 og viðbótar­greinargerð varnaraðila þann 28. ágúst 2023. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnafram­lagn­ingar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Í upphafi málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns og tók varamaður sæti hans í málinu.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Ágreiningur málsins lýtur að störfum varnaraðila á árunum 2019 til 2020 í þágu móður sóknaraðila sem lést þann 23. maí 2022. Auk sóknaraðila átti hin látna tvö önnur börn.

Sóknaraðilar segja heilsu móður sinnar hafa hrakað árin fyrir andlát hennar og hafi þær því haft áhyggjur af því að hún hefði ekki getu til þess að ráða fjárhag sínum. Þann 10. apríl 2018 hafi þær farið fram á að móðir þeirra yrði svipt lögræði í fimm ár. Krafan hafi byggt á læknisvottorðum lækna sem meðhöndlað höfðu móður þeirra á árunum 2011-2017 og vottað um geðræn vandamál og að hún þyrfti aðstoð við umsjón fjármála sinna.

Þann 31. ágúst 2018 veitti móðir sóknaraðila endurskoðanda allsherjar­umboð til að sjá um allar sínar eignir og öll sín fjármál, þ.m.t. sölu eigna, umráð banka­reikninga og undirritun erfðafjár­skýrslna, frá og með þeim degi og þar til umboðið væri afturkallað eða hún félli frá. Þann 19. október sama ár undirritaði móðir þeirra yfirlýsingu þess efnis að vilji hennar stæði til þess að eiga áfram allar þær fasteignir sem þá voru í eigu hennar og þær ætti ekki að selja nema ráðsmaður mæti brýna nauðsyn til. Með beiðni, dags. 19. desember 2018, óskaði móðir sóknaraðila eftir því að endurskoð­andinn yrði skipaður ráðsmaður hennar.

Tveimur dögum síðar, eða þann 21. desember 2018, ritaði móðir sóknaraðila undir erfðaskrá sem samin var af varnaraðilum. Með erfðaskránni arfleiddi hún systkini sóknaraðila af þriðjungshluta eigna sinna. Í erfðaskránni kom fram að móðir sóknaraðila lýsti því yfir, þrátt fyrir að vera greind með heilabilun á vægu stigi, að hún gerði sér fullkomlega grein fyrir því að með erfðaskránni væri hlutur systkina sóknaraðila aukinn umfram hlut þeirra tveggja barna sinna sem ekki tækju arf eftir hana með erfðaskránni. Erfðaskráin var vottuð af varnar­aðilum báðum um undir­ritun móður sóknar­aðila, að erfðaskráin geymdi hennar hinsta vilja og að hún hafi verið heil heilsu andlega og líkamlega að öðru leyti en því sem fyrr geti í erfða­skránni, allsgáð og hafi undirritað skjalið af fúsum og frjálsum vilja. Jafnframt að varnaraðilar hafi gengið sérstaklega úr skugga um móðir sóknaraðila gerði sér fulla grein fyrir þýðingu erfða­skrárinnar.

Dómkvaddur matsmaður í lögræðissviptingarmáli gegn móður sóknaraðila mat ástand hennar þannig að hún væri haldin heilabilunarsjúkdómi á vægu stigi, líklegast Alzheimer sjúkdómi, með hegðunar- og geð­rænum truflunum en ekki væri um geðrof að ræða. Taldi mats­maðurinn ekki þörf á að sjálfræðis­sviptingu þar sem hún teldist hvorki hættuleg sjálfum sér né öðrum. Þörf væri á að hún fengi aðstoð með fjármál sín, en í ljósi þess að hún nyti þá þegar aðstoðar umboðsmanns í þeim efnum, taldi matsmaður ekki skilyrði til fjárræðissviptingar.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] var kröfu sóknaraðila um lögræðis­sviptingu móður þeirra hafnað. Ekki var talið að skilyrðum til sjálfræðissviptingar væri fullnægt auk þess sem ekki var talið að sýnt hefði verið fram á brýna nauðsyn til þess að svipta hana fjárræði til að verja fjárhagslega hagsmuni hennar, enda hefðu önnur úrræði ekki verið fullreynd. Þó hefðu vitni verið sammála um að varnaraðili þyrfti aðstoð með fjármál sín. Sóknaraðilar kærðu niðurstöðu héraðs­dóms til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðuna.

Þann 28. mars 2019 gaf móðir sóknaraðila út yfirlýsingu vegna fyrirframgreidds arfs þar sem systk­in­um sóknaraðila var greiddur fyrirfram arfur í formi tveggja skuldlausra fasteigna móður þeirra. Þann 2. apríl 2019 var erfða­fjár­skattur vegna hins fyrirfram greidda arfs, að fjárhæð 7.210.000 kr., greiddur inn á reikning lög­manns­stofu varnaraðila. Yfirlýsingu um fyrirfram­greiddan arf og erfðafjár­skýrslu var þinglýst 18. júlí 2019. Hinn 14. júní 2019 afturkallaði móðir sóknaraðila beiðni sína til sýslumanns­ um skipun ráðsmanns og hinn 18. júlí 2019 staðfesti sýslumaður erfðafjárskýrslu móðurinnar.

Hinn 7. ágúst 2019 lögðu sóknaraðilar fram nýja kröfu fyrir héraðsdóm um að móðir þeirra yrði svipt lögræði tímabundið til fimm ára en undir rekstri málsins féllu þær frá kröfu um sjálfræðis­sviptingu. Aflað var matsgerðar dómkvadds matsmanns sem mat ástand móður sóknaraðila þannig að hvorki ellisljóleiki né vitræn skerðing væri á því stigi að nauðsyn bæri til fjárræðis­sviptingar. Matsmaðurinn taldi að móðir sóknaraðila gæti ekki á sjálfstæðan hátt séð um fjármál sín en taldi þó skilyrðum til fjárræðissviptingar ekki fullnægt. Með úrskurði héraðsdóms Reykja­víkur þann […] var kröfu sóknaraðila hafnað og staðfesti Landsréttur úrskurðinn þann […] sama ár. Undir rekstri málsins skipti móðir sóknaraðila um verjanda og fól varnaraðilanum [D] að taka við sem verjandi hennar með umboði, dags. 5. desember 2019.

Móðir sóknaraðila lést þann 23. maí 2022 og var dánarbú hennar tekið til opinberra skipta. Fyrsti skiptafundur var haldinn í búinu í október 2022. Eina krafan sem lýst var í búið var frá lögmanns­stofu varnaraðila vegna vinnu þeirra í þágu móður sóknaraðila á árunum 2019-2020, aðra en þá er varðaði áðurnefnda gjörninga.

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing skiptastjóra dánarbúsins þess efnis að hann muni ekki halda uppi hags­munum sem dánarbúið kunni að eiga vegna ráðstafana hinnar látnu á eignum til systkina sóknar­aðila. Væri þeim því heimilt að fylgja þessum hagsmunum eftir í eigin nafni til hags­bóta fyrir dánar­búið, á eigin kostnað og áhættu skv. 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Sóknaraðilar segja varnaraðila hafa starfað fyrir bróður sinn að minnsta kosti síðan árið 2012 þegar varnaraðilinn [C] rak mál fyrir bróðurinn fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Þá hafi varnaraðilum verið kunnugt um að rekið væri mál vegna kröfu sóknaraðila um fjárræðissviptingu móður sinnar, þegar þau vottuðu erfðaskrá hennar.

Sóknaraðilar segja móður sína hafa verið ófæra um að gefa upp eigin kennitölu tveimur vikum áður en erfðaskráin var gerð sem þær telja sýna fram á að hún hafi ekki verið fær til þess að ráðstafa eignum sínum með sem hætti sem þar var gert. Þá hafi ráðstöfunin verið langt umfram heimildir skv. erfðalögum. Enn fremur hafi erfðafjárskattur verið greiddur af reikningi móður þeirra inn á reikning lögmannsstofu varnaraðila og hafi verið geymdur þar í tæpa fjóra mánuði þar til hann hafi verið greiddur þaðan til sýslumanns.

Sóknaraðilar telja ljóst að allsherjarumboð sem móðir þeirra hafði veitt, hafi vegið þungt við mat dómstóla á því hvort skilyrðum til fjárræðissviptingar væri fullnægt. Verjandi móður þeirra hafi aftur­kallað umsókn um skipun ráðsmanns þann 14. júní 2019 þar sem hún hafði í millitíðinni ráðstafað eignum sínum með framangreindum hætti, án vitundar endurskoðandans sem átti að vera skipaður ráðs­maður á þessum tíma. Vísa sóknaraðilar til þess að sú ráðstöfun hafi verið gerð með liðsinni systkina sóknaraðila og varnaraðilans [C].

Sóknaraðilar segjast í fyrsta sinn hafa fengið aðgang að gögnum varðandi dánarbúið á fundi skiptastjóra þann 21. október 2022, meðal annars umræddri erfðaskrá. Upplýsingar um að móðir þeirra hafi sjálf greitt erfðafjárskatt af eignum sem ráðstafað var með erfðaskránni hafi borist skiptastjóra þann 8. desember 2022.

Sóknaraðilar draga í efa að móðir þeirra hafi sjálf óskað eftir þjónustu varnaraðila og telja áður­nefnda gjörninga hafa verið umbeðna af systkinum þeirra og þau greitt fyrir þjónustu varnaraðila. Sé enda engan reikning vegna þessa að finna í skjölum dánarbúsins. Eini krafan í dánarbúið hafi verið reikningur frá lögmannsstofu varnaraðila, vegna annarrar vinnu fyrir móður sóknaraðila. Krafist hafi verið dráttarvaxta á kröfuna en sóknaraðilum sé ókunnugt um að varnaraðilar hafi rekið á eftir því að reikningurinn yrði greiddur, þrátt fyrir að 21 mánuður hafi liðið frá því hann hafi verið gefinn út og þar til móðir þeirra lést.

Sóknaraðilar telja ljóst að móðir þeirra hafi ekki fengið hlutlausa ráðgjöf frá varnaraðilum vegna tengsla varnaraðilans [C] við bróður þeirra. Byggja þær á því að uppi hafi verið hagsmuna­árekstur sem hafi valdið því að varnaraðilar hafi ekki tryggt hagsmuni móður þeirra. Einnig er á því byggt að varnaraðilar hafi vitað af heilsubresti móður þeirra, dómsmáli vegna kröfu um lögræðis­sviptingu og beiðni um að henni yrði skipaður ráðsmaður, og því hafi þeir ekki sýnt nauðsynlega aðgát við gerð erfðaskrár og ráðstöfun á fyrirframgreiddum arfi. Sóknaraðilar vísa til yfir­lýsingar, dags. 26. maí 2020, í þessu sambandi. Sóknaraðilar byggja á því að varnaraðilar hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt siðareglum lögmanna og jafnvel lögum og krefjast þess að þeim verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

III.

Varnaraðilar krefjast þess að máli þessu verði vísað frá nefndinni en til vara að úrskurðað verði að varnaraðilar hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Varnaraðilar krefjast hæfilegs málskostnaðar úr hendi sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni. Að mati varnaraðila er erindi sóknaraðila óskýrt og málsástæður vanreifaðar. Því sé erfitt að verjast erindinu. Telja þeir að vísa beri málinu sjálfkrafa frá nefndinni. Að auki sé óljóst hvort meint brot þeirra eigi að hafa beinst gegn sóknaraðilum eða móður þeirra.

Að sögn varnaraðilans [C] mættu sóknaraðilar á skrifstofu hans þann 9. ágúst 2019 og óskuðu eftir því að fá að ræða við varnaraðilann vegna málefna móður sinnar og hafi hann rætt stuttlega við sóknaraðila af því tilefni. Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðilar hafi að minnsta kosti átt þess kost frá ágústmánuði 2019 að koma erindi sem snýr að aðkomu og vinnu varnar­aðilans [C] varðandi fyrirframgreiðslu arfs móður þeirra árið 2019, á framfæri við nefndina. Því hafi lögbundinn tímafrestur verið löngu liðinn þegar sóknaraðilar lögðu erindið fram þann 6. júní 2023.

Að sögn varnaraðila var ein meginástæða þess að sóknaraðilar kröfðust þess í annað sinn að móðir þeirra yrði svipt sjálfræði og fjárræði tímabundið, eftir að Landsréttur hafði áður hafnað þeirri kröfu, sú að þeim hafi borist vitneskja um að móðir þeirra hefði fyrirframgreitt arf til systkina þeirra. Með kröfunni hafi fylgt yfirlýsingar vegna fyrirframgreidds arfs á tveimur fast­eignum að Bólstaðarhlíð 54 og Bólstaðarhlíð 45. Móðir sóknaraðila hafi staðfest fyrir dómi að varnar­­aðilinn [C] hefði aðstoðað hana við umræddan gjörning. Kröfu sóknaraðila hafi verið hafnað öðru sinni með úrskurði héraðsdóms þann […] sem síðar hafi verið staðfestur í Landsrétti.

Þá benda varnaraðilar á að sóknaraðilar hafi höfðað mál þann 2. apríl 2020 þar sem meðal annars var krafist ógildingar á erfðafjárskýrslu, dags. 28. mars 2019, sem varðaði fyrirframgreiðslu arfs til systkina sóknaraðila og tveimur skiptayfirlýsingum, dags. 28. mars 2019, vegna Bólstaðarhlíðar nr. 45 og 54. Málunum hafi verið vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðn­um þann […].

Varnaraðilar telja erindi sóknaraðila ekki lúta að ágreiningi um endurgjald samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Reikningar vegna starfa varnaraðila í þágu móður sóknaraðila séu máli þessu óvið­komandi. Þá benda varnaraðilar á að þeir hafi sannanlega gengið á eftir að fá greiðslu fyrir vinnu sína í þágu móður sóknaraðila og vísa til fyrirliggjandi gagna þess efnis.

Varnaraðilar segjast tilneyddir til að leiðrétta nokkrar rangfærslur sem fram koma í erindi sóknar­aðila til nefndarinnar þó þeir telji það ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins. Varnaraðilar segjast ekki hafa vitað af tilvist viljayfirlýsingar frá 19. október 2018 sem sóknaraðilar leggja fram og halda fram að varnaraðilar hafi átt að þekkja til. Vísa varnaraðilar til þess að téð viljayfirlýsing hafi ekki verið á meðal gagna síðara lögræðismálsins meðan varnaraðilinn, [D], hafi verið skipuð verjandi móður sóknaraðila frá 5. desember 2019 til 9. mars 2020. Samkvæmt upplýsingum sem varnaraðilar hafi aflað sér hafi umrædd viljayfirlýsing fyrst verið lögð fram með kröfu sóknaraðila, dags. 3. apríl 2020, um sviptingu fjárræðis móður sóknaraðila til bráðabirgða. Því hafi viljayfirlýsingin fyrst verið lögð fram fyrir dómi eftir að varnar­aðilar höfðu látið af störfum fyrir móður sóknaraðila og ítreka þau að þeim hafi ekki verið kunnugt um tilvist hennar.

Varðandi beiðni móður sóknaraðila um skipun ráðsmanns þá liggi fyrir að ráðsmaður hafi aldrei verið skipaður þar sem beiðnin hafi verið afturkölluð.

Varnaraðilar hafna því að varnaraðilinn [C] hafi gætt hagsmuna bróður sóknaraðila í tengslum við gerð erfðaskrár 21. desember 2018, eða í öðrum málum á þeim tíma. Varnaraðilinn hafi mörgum árum áður gætt hagsmuna bróðurins vegna máls sem hafi tengst afleiðingum efnahags­hrunsins árið 2008. Á þeim tíma hafi hvorugur varnaraðili verið að vinna fyrir móður sóknaraðila. Telja varnar­aðilar að engir hagsmunaárekstrar hafi verið í máli þessu í skilningi 11. gr. siðareglna lögmanna, enda hafi varnaraðilar ekki gætt hagsmuna sóknaraðila í öðrum málum á sama tíma. Varnaraðilar telja misskilnings gæta hjá sóknaraðilum að þessu leyti, en þar sem sóknaraðilar hafi ekki verið umbjóð­endur varnaraðila, hafi sömu skyldur ekki hvílt á varnaraðilum gagnvart þeim eins og gagnvart móður þeirra.

Erfðaskrá var að sögn varnaraðila gerð að beiðni móður sóknaraðila og af því tilefni hafi hún í tvígang mætt á skrifstofu varnaraðila. Varnaraðilinn [C] hafi útbúið erfðaskránna og báðir varnar­aðilar vottað hana. Segjast varnaraðilar hafa gengið sérstaklega á eftir því að móðirin gerði sér grein fyrir því hvert efni erfðaskrárinnar væri og þýðingu hennar. Lýsa varnaraðilar því sem svo að móðirin hafi verið skýr í sinni afstöðu og um sinn vilja og vísa til úrskurðar í máli frá […], sem síðar var staðfestur í Landsrétti, því til stuðnings.

Þá benda varnaraðilar á að þeir hafi ekki talið neitt liggja fyrir sem drægi úr arfleiðsluhæfi móðurinnar. Staðhæfingar sóknaraðila um að móðir þeirra þyrfti aðstoð með fjármál sín, lúti að allt öðru en því að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá eftir sinn dag. Auk þess hafi komið fram í áðurnefndum dómsmálum að móðir þeirra hafi hvorki verið haldin ellisljóleika né vitrænni skerð­ingu á því stigi að nauðsyn bæri til að svipta hana fjárræði. Varnaraðilar benda á að sóknar­aðilar hafi að því er virðist, ekki enn látið reyna á gildi erfðaskrárinnar og ekki sé að sjá að slíkt standi til, sbr. yfirlýsingu skiptastjóra frá 31. janúar 2023.

Varnaraðilar segja engin gögn hafa verið lögð fram sem bendi til þess að efni erfðaskrárinnar hafi verið í ósamræmi við vilja móður sóknaraðila eða að þeir hafi haft óeðlileg áhrif á hana varðandi tengsl hennar við börn sín. Varnaraðilar byggja á því að öll skilyrði erfðalaga hafi verið uppfyllt við gerð og frágang erfðaskrárinnar og því hafnað að varnaraðilar hafi í störfum sínum fyrir móður sóknaraðila, gert á hlut þeirra með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Varnaraðilar krefjast þess að sóknaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn en kvörtunin sé með öllu tilefnislaus.

IV.

Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar ítreka þeir efni kvörtunarinnar og reifa nánar málsatvik og sjónarmið sín.

Sóknaraðilar árétta að í kvörtun sé byggt á því að varnaraðilar hafi brotið gegn 11. gr. siðareglna lög­manna vegna hagsmunaáreksturs. Þá telja sóknaraðilar að varnaraðilar hafi brotið gegn ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962 og laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 og fara fram á að nefndin skeri úr um hvort slík brot hafi verið framin.

Sóknaraðilar vísa til þess að umræddir gjörningar hafi verið gerðir á sama tíma og annar lögmaður hafi gætt hagsmuna móður þeirra. Þá hafi fasteignir sem ráðstafað var með fyrirframgreiðslu arfs numið samtals 98,4% af eignum móðurinnar samkvæmt skattframtali.

Kveðast sóknaraðilar hafa tjáð varnaraðilanum [C] á fundi þeirra 9. ágúst 2019 að móðir þeirra væri greind með byrjandi heilahrörnunarsjúkdóm og því líklega óhæf til að skilja eðli þeirra gjörninga sem hún væri að undirrita. Þá hefði matsmaður talið heilsufar móður þeirra þess eðlis að ástæða væri til að svipta hana lögræði. Auk þess hafi varnaraðilar haft upplýsingar um að mál vegna kröfu um lögræðissviptingu móður þeirra væri rekið fyrir héraðsdómi, að móðir þeirra væri með lögmann og að læknisvottorð og matsgerð dómkvadds matsmanns hafi legið fyrir áður en erfðaskrá var gerð þann 21. desember 2018. Hafi varnaraðilar því borið ríkari ábyrgð og hefðu þau átt að ganga úr skugga um heilsufar móður þeirra áður en þau vottuðu erfðaskrá hennar. Hefðu varnaraðilar sýnt nauðsynlega aðgát hefði þeim orðið ljóst að móðir þeirra væri ekki við góða heilsu. Mikið ósamræmi hafi verið á milli þeirrar vinnu sem skipaður verjandi móður þeirra hafi unnið til þess að tryggja eignir hennar annars vegar og vinnu varnaraðila hins vegar.

Sóknaraðilar segja að grunur þeirra um vafasama starfshætti varnaraðila hafi vaknað í kjölfar fyrsta fundar með skiptastjóra dánarbúsins þann 21. október 2022 og því hafi lögbundinn frestur til þess að beina erindi til nefndarinnar ekki verið liðinn er kvörtunin barst nefndinni.

Sóknaraðilar mótmæla tilraunum varnaraðila til þess að gera lítið úr ábyrgð sinni varðandi greiðslu erfðafjárskatts og vitneskju um uppgjör hans. Í ljósi þess hve mikla aðkomu varnaraðilar hafi haft að fyrirframgreiðslu arfs telja sóknaraðila enga leið fyrir þá að bera fyrir sig vitneskjuleysi eða ábyrgðarleysi. Þeir hafi, sem lögmenn móður sóknaraðila, tekið á móti erfðafjárskatti frá henni og greitt hann til sýslumanns. Leggja sóknaraðilar fram millifærslukvittun, dags. 22. júlí 2019, því til stuðnings. Sóknaraðilar byggja á því að varnaraðilar hafi ekki upplýst móður þeirra um að henni bæri ekki að greiða erfðafjárskattinn sjálf, né upplýst sýslumann um að skatturinn væri greiddur af móður þeirra. Fram hafi komið hjá lögmanni systkinanna á skiptafundi 21. október 2022 að hvorugt þeirra hafi greitt erfðafjárskattinn eða gefið upphæð hans upp til skatts sem fyrir­fram­greiddan arf. Sóknaraðilar telja að varnaraðilum hafi borið að ganga úr skugga um að rétt væri gengið frá greiðslu erfðafjárskatts og vísa m.a. til 15. og 16. gr. laga um erfðafjárskatt í því sambandi.

Sóknaraðilar ítreka að þær hafi fyrst fengið upplýsingar um að engar greiðslur hafi farið frá móður þeirra til varnaraðila vegna vinnu þeirra við erfðaskrá og fyrirframgreiddan arf á skiptafundi 21. október 2022. Ítreka þær óskir um að varnaraðilum verði gert að veita nánar upplýsingar um störf sín fyrir móður þeirra, hver hafi óskað eftir þeirri þjónustu og greitt fyrir hana. Sóknaraðilar telja óeðlilegt að varnaraðilar hafi rukkað móður þeirra aukalega fyrir störf, sem varða gildi vottorðs í lögræðissviptingarmálinu, og unnin voru á meðan á skipun varnaraðilans [D] stóð, þar sem móðir þeirra hafi haft lögbundna gjafsókn.

Sóknaraðilar upplýsa að umrædd erfðaskrá hafi verið véfengd á fyrsta fundi hjá skiptastjóra dánar­búsins og það mál sé nú í viðeigandi ferli. Sóknaraðilar hafna kröfu varnaraðila um málskostnað.

V.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar eru ítrekuð mótmæli við málatilbúnaði sóknaraðila og þeim nýju kröfum sem settar voru fram í viðbótarathugasemdum þeirra mótmælt. Ítreka varnaraðilar að liðinn hafi verið frestur til að bera kvörtunina undir nefndina þegar svo var gert.

Byggja varnaraðilar á því að 11. gr. siðareglna lögmanna taki ekki til tilvika líkt og þeirra sem hér eru uppi. Þá sé ranghermt að varnaraðilinn [C] hafi verið í einhverjum langvarandi viðskipta­tengslum við bróður sóknaraðila. Hið rétta sé að hann hafi gætt hagsmuna bróðurins fjölmörgum árum áður og aldrei verið í einhverskonar viðskiptum við hann eða sambærilegum tengslum.

Varnaraðilar benda aukinheldur á að það falli utan valdsviðs nefndarinnar að kveða á um meint brot á erfðalögum og hafna því að slík brot hafi verið framin. Varnaraðilar benda á að sóknaraðilar standi nú í málaferlum við systkini sín, þar sem m.a. sé krafist ógildingar á erfðafjárskýrslu dags. 28. mars 2019 ásamt því sem hafðar séu uppi endur­greiðslu­kröfur.

Þá hafna varnaraðilar því að móðir sóknaraðila hafi ráðstafað 98,4% hluta eigna sinna til tveggja barna sinna með fyrirframgreiðslu arfs og það viti sóknaraðilar sjálfir. Bendir varnaraðili á eignir móðurinnar í bankahólfum sem hafi verið utan skattframtala og verðmæta eignarhluta í tveimur jörðum því til stuðnings.

Varnaraðilar hafna því að þeir hafi reynt að villa um það fyrir nefndinni varðandi greiðslu erfðafjár­skattsins, en varnaraðilar hafi enga aðkomu að því hvort og þá hvernig arfláti og erfingjar hafi gert upp skattgreiðsluna sín á milli, enda hafi það ekki verið hluti af uppgjöri erfðafjárskattsins gagnvart sýslumanni. Segja varnaraðilar það hafa legið fyrir á hverjum erfðafjárskattskyldan hvíldi og móðirin verið meðvituð um það. Þá benda varnaraðilar á að í áðurnefndu einkamáli sóknaraðila og systkina sinna sé m.a. gerð krafa um endurgreiðslu vegna greiðslu erfðafjárskattsins.

Varnaraðilar benda á að mál þetta varði kvörtun yfir háttsemi varnaraðila í garð sóknaraðila, en ekki ágreining um endurgjald, sbr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Þá geti sóknaraðilar ekki átt aðild að slíku máli þar sem skiptastjóri fari með forræði dánarbúsins og sé einn bær um að ráðstafa hagsmunum þess og svar fyrir skyldur þess.

Að mati varnaraðila á margt af því sem sóknaraðilar fara fram á falla utan valdsviðs nefndarinnar. Auk þess sé ómögulegt fyrir þá að verjast ásökunum sóknaraðila um lögbrot þegar ekki sé vísað til ákveðinna lagaákvæða eða útskýrt hvernig háttsemi þeirra feli í sér brot gegn ákvæðum nefndra laga. Sé því óhjákvæmilegt að vísa þeim þætti málsins frá nefndinni.

Telja varnaraðilar þau vottorð sem sóknaraðilar vísa til úr fyrra fjárræðissviptingarmáli enga ástæðu hafa gefið til að ætla að móðir sóknaraðila hafi ekki verið arfleiðsluhæf, eða að arfleiðsluhæfi hennar hafi verið skert. Hún hafi verið mjög skýr í sinni afstöðu og vilji hennar skýr líkt og staðfest hafi verið í úrskurði héraðsdóms frá […] sem staðfestur hafi verið af Landsrétti. Dómkvaddur matsmaður hafi komist að sömu niðurstöðu auk þess sem hann hafi ekki talið unnt að staðfesta heilabilun móður sóknaraðila heldur væri hún með væga vitræna skerðingu. Varnaraðilar vísa til þess að í málum vegna kröfu sóknaraðila um fjárræðis­sviptingu móður sinnar hafi komið fram að hún hafi hvorki verið haldin ellisljóleika né að vitræn skerðing hafi verið á því stigi að nauðsyn bæri til að svipta hana fjárræði. Telja varnaraðilar engin gögn fram komin í málinu sem bendi til þess að efni erfðaskrárinnar hafi verið í ósamræmi við vilja móðurinnar. Varnaraðilar byggja á því að öll skilyrði erfðalaga hafi verið uppfyllt við gerð og frágang erfðaskrárinnar og því hafnað að varnaraðilar hafi í störfum sínum fyrir móður gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Varnaraðilar benda á að skipun ráðsmanns hafi engin áhrif á arfleiðsluhæfi sbr. 1. tl. 41. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Þá liggi fyrir að ráðsmaður hafi aldrei verið skipaður þar sem móðir sóknaraðila hafi afturkallaði beiðnina en það hafi hún gert án aðkomu varnaraðila.

Varnaraðilar hafna alfarið þeim alvarlegum ávirðingum sem þeim eru bornar í málinu þar sem m.a. sé haldið því fram að vegna aðgerða sinna hafi móðir sóknaraðila verið blekkt og ekki fengið notið stuðnings nánustu ættingja sinna. Varnaraðilar árétta að þeir hafi unnið að fullum heilindum að þeim verkefnum sem þeim var falið og hafi engra persónulegra eða fjárhagslegra hagsmuna haft að gæta.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt þágildandi 11. gr. siðareglna lögmanna mátti lögmaður ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra voru andstæðir eða veruleg hætta var á slíku. Ákvæðið hindraði þó ekki að lögmaður leitaði sátta með deiluaðilum, með sam­þykki beggja. Þá skyldi lögmaður jafnframt varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir voru, fengju ekki samrýmst eða hætta gat verið á slíku. Sama gilti um lögmenn sem höfðu samstarf um rekstur lögmannsstofa eða ráku lögmanns­stofu í félagi.

II.

Varnaraðilar telja að vísa beri málinu frá af sjálfsdáðum þar sem ársfrestur til þess að beina kvörtun til nefndarinnar hafi verið liðinn er kvörtun barst nefndinni. Einnig telja þeir efni kvörtunar svo óskýrt að varði frávísun málsins frá nefndinni.

Kvörtun lýtur að því að uppi hafi verið hagsmunaárekstur í tengslum við störf varnaraðila fyrir móður þeirra, vegna fyrri starfa annars varnaraðila fyrir bróður þeirra. Þá hafi varnaraðilar vottað erfðaskrá móður þeirra þrátt fyrir að vita að vafi léki á að móðir þeirra væri fær um slíkan gjörning vegna heilsubrests. Enn fremur er kvartað vegna háttsemi varnaraðila í tengslum við fyrirframgreiðslu arfs og greiðslu erfðafjárskatts vegna þeirrar ráðstöfunar.

Umkvörtunarefni sem fram koma í viðbótargreinargerð sóknaraðila falla utan sakarefnis þessa máls, þ.m.t. hvað varðar endurgjald varnaraðila vegna starfa þeirra í þágu móður sóknar­aðila, sem ekki var komið á framfæri í kvörtun í málinu. Kröfur sóknaraðila um að fá afhent gögn og upplýsingar frá varnaraðilum falla utan valdsviðs nefndar­innar.

Gögn málsins bera með sér að varnaraðilar hafi veitt móður sóknaraðila þjónustu frá því í október árið 2018 til 9. mars 2020. Á því tímabili útbjuggu þeir fyrir hana erfðaskrá, gengu frá yfirlýsingu vegna fyrirframgreidds arfs og frágangi í kjölfar þess, gættu hagsmuna móður sóknaraðila vegna kvörtunar til Landlæknis auk þess sem annar varnaraðili var skipaður verjandi móður sóknaraðila í lögræðis­sviptingar­máli frá 5. desember 2019 til 9. mars 2020. Gögn málsins sýna að sóknaraðilum var kunnugt um ráðstöfun móður þeirra á fyrirframgreiddum arfi, fljótlega eftir að hún fór fram á árinu 2019, enda lágu gögn þess efnis fyrir í máli er varðaði kröfu sóknaraðila um fjárræðissviptingu móður þeirra, sem höfðað var þann 7. ágúst það ár. Að mati nefndarinnar byrjaði frestur til þess að beina erindi til nefndarinnar vegna háttsemi varnaraðila í tengslum við störf þeirra fyrir móður sóknaraðila varðandi ráðstöfun fyrirframgreidds arfs, í síðasta lagi að líða 7. ágúst 2019 og var því liðinn þegar kvörtun í máli þessu barst nefndinni þann 6. júní 2023. Í þessu sambandi skiptir ekki máli þó varnaraðilar segist hafa fengið þær upplýsingar þann 21. október árið 2022, að móðir þeirra hafi ekki greitt varnaraðilum fyrir þjónustu þeirra í tengslum við umræddan gjörning.

Sama máli gegnir að mati nefndarinnar um kvörtun er lýtur að erfðafjárskýrslu vegna ráðstöfunar fyrirframgreidds arfs en fyrir liggur að sóknaraðilar höfðuðu mál til ógildingar skýrslunnar þann 2. apríl 2020. Byrjaði frestur til þess að beina kvörtun er varðar erfðafjárskýrsluna til nefndarinnar að líða þann dag og var því liðinn þegar kvörtun þessi barst nefndinni þann 6. júní 2023.

Að mati nefndarinnar geta sóknaraðilar ekki átt aðild að kvörtun til nefndarinnar að því er varðar hagsmunaárekstur á milli hagsmuna annarra en sinna eigin. Er þeim hluta kvörtunarinnar vísað frá nefndinni af þeim sökum.

Önnur umkvörtunaratriði í máli þessu varða háttsemi varnaraðila í tengslum við gerð erfðaskrár og greiðslu erfðafjár­skatts af fyrirframgreiddum arfi, sem sóknaraðilar segjast fyrst hafa verið upplýstar um á fyrsta skiptafundi í dánarbúinu þann 21. október 2022. Í viðbótargreinargerð sinni til nefnd­ar­innar upplýstu sóknaraðilar að lögmaður þeirra hefði véfengt erfðaskrána á fyrrnefndum fundi og að ágreiningur um gildi hennar væri í viðeigandi ferli. Þegar af þeim sökum á ágrein­ingur um erfða­skrá móður sóknaraðila ekki undir nefndina og mun hún ekki láta þann hluta málsins til sín taka.

Hvað varðar greiðslu móður sóknaraðila á erfðafjárskatti vegna ráðstöfunar fyrirframgreidds arfs snýr ágreiningur eða álitaefni um slíkt að systkinum sóknaraðila annars vegar og dánarbúinu og/eða skattyfirvöldum hins vegar. Þ.e. hvort ráðstöfunin skuli hljóta skattalega meðferð eða skoðast sem lánveiting. Fellur kvörtun hvað það varðar því utan valdsviðs nefndarinnar.

Í samræmi við framangreint er niðurstaða nefndarinnar sú að varnaraðilar hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Rétt er að aðilar beri sjálfir sinn kostnað af rekstri málsins fyrir nefndinni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er varðar störf varnaraðila í tengslum við ráðstöfun fyrirframgreidds arfs og erfðafjár­skýrslu vegna þeirrar ráðstöfunar er vísað frá nefndinni.

Máli þessu er varðar brot varnaraðila á ákvæðum siðareglna lögmanna um hagsmunaárekstur er vísað frá nefndinni.

Varnaraðilar, [C] lögmaður, og [D] lögmaður, hafa í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, [A] og [B], með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Hulda Katrín Stefánsdóttir

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir