Mál 26 2023

Mál 26/2023

Ár 2024, mánudaginn 27. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið málið:

26/2023

A ehf. og B

gegn

C lögmanni

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. júní 2023 kvörtun D, f.h. B, og A ehf., gegn C lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem fyrrum lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 8. júní 2023, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðilans barst þann 16. júní 2023 og var hún send sóknaraðila 19. júní 2023 með fresti til 10. júlí 2023 til þess að skila viðbótargreinargerð. Viðbótargreinargerð sóknaraðila var móttekin 11. ágúst 2023 og sendar varnaraðila samdægurs með fresti til athugasemda til 1. september 2023. Athugasemdir varnaraðila bárust 29. ágúst 2023. Sóknaraðilar sendu frekari athugasemdir og gögn 11. september 2023 og voru þau send varnaraðila til athugasemda 13. september 2023. Athugasemdir varnaraðila bárust 17. október 2023. Ekki kom til frekari gagnaöflunar í málinu og var málið tekið til úrskurðar.

 

Málsatvik og málsástæður

D beinir erindi þessu til nefndarinnar, f.h. eiginkonu sinnar B og A ehf., sem er í eigu […] sonar þeirra. Sóknaraðilinn A ehf. hét áður […] ehf., hér eftir […] ehf., og var stofnað af […], afa […] og föður sóknaraðilans B. […] átti félagið til ársins 1999 en það ár eignuðust börn hans fjögur, […], […], […] og sóknaraðilinn B félagið og átti hvert um sig 25% eignarhlut í því. Systkinin sátu jafnframt öll í stjórn félagsins en […] sá um daglegan rekstur þess.

[…] ehf. var á tímabili eitt stærsta fjárfestingafélag landsins og að sögn sóknaraðila nam eigið fé félagsins vel á annan tug milljarða króna í árslok 2006. Stærstu eignir félagsins voru geymdar í dótturfélögunum […] og […] ehf. þar sem […] var framkvæmdastjóri og einn prókúruhafi og svo dótturdótturfélögunum […] ehf. og […] ehf. og var […] einnig eini prókúruhafi þeirra félaga. Stærsta eign […] ehf. var 47% hlutur félagsins í […] hf., hér eftir […], og var […] stjórnarformaður félagsins í umboði stjórnar […] ehf. […] var einn stærsti hluthafi í […] sem á þessum tíma var stærsti einstaki hluthafi í […] hf., hér eftir […], sem og einn stærsti hluthafi í […].

Þann 8. janúar 2008 tók […] yfir stjórnun […] og undirritaði […] yfirtökusamninginn f.h. […]. Síðar sama ár var nafni […] ehf. breytt í A ehf. og þann 13. ágúst 2008 afsöluðu hluthafarnir fjórir allri hlutafjáreign sinni í A ehf. til […]. Umsamið verð fyrir hlut hvers þeirra var ein króna. […] keypti sóknaraðilann A ehf. af […]  ehf. á haustmánuðum árið 2016.

[…] lögmaður, fyrrum meðeigandi á lögmannsstofu varnaraðila, veitti […] ehf. lögmannsþjónustu í einstaka verkefnum frá stofnun félagsins. Hann gætti hagsmuna félagsins og hluthafa þess í tengslum við yfirtöku […] á félaginu á árinu 2008. Störfum hans fyrir félagið lauk þann 13. ágúst en vinnu fyrir hluthafana í september sama ár. […] var lögmaður hluthafanna […], […] og sóknaraðilans B fram í nóvember árið 2014. Eftir það sinnti hann lögmannsþjónustu fyrir […] fram að andláti hans og frá þeim tíma hefur hann gætt hagsmuna ekkju hans, […]. 

I.

Í samningi um yfirtöku […] á stjórn […] er ákvæði um að […] ábyrgist, ásamt öðrum, in solidum að til staðar í félaginu séu eignir að verðmæti a.m.k. 1.600 milljónir. Þá er kveðið á um að hann ábyrgist, ásamt öðrum, hlutfallslega miðað við hlutafjáreign sína í […], greiðslu á öllum skuldbindingum […], hverju nafni sem þær nefnast, sem stafa af reglulegum rekstri félagsins, hvort sem þær eru áfallnar við undirritun eða falla til síðar.

Þann 31. janúar 2008 sendi […] tölvupóst á systur sínar þess efnis að þeim væri, sem hluthöfum í […] ehf., á grundvelli fyrrnefnds samnings, skylt að greiða tiltekna fjárhæð vegna áfallins kostnaðar. Samtals greiddi sóknaraðilinn B ríflega 13 milljónir króna vegna áfallins kostnaðar næstu mánuði á eftir.

Sóknaraðilinn B rekur nú mál nr. […] fyrir Landsrétti gegn […] og dánarbúi […] vegna greiðslunnar sem hún telur sig hafa verið blekkta til þess að greiða á árinu 2008 í tengslum við yfirtökuna, enda hafi komið í ljós að […] hafi verið persónulega ábyrgur fyrir þessum greiðslum sem þáverandi stjórnar­formaður […]. Vegna slæmrar fjárhagsstöðu sinnar hafi hann hins vegar krafið systur sínar um stærstan hluta þessa kostnaðar.

Sóknaraðilar halda því fram að varnaraðili hafi verið […] til aðstoðar í aðdraganda yfirtöku […] á stjórn […] dagana 8-9. janúar 2008. Vísa sóknaraðilar til tölvupósts sem […] sendi systrum sínum kl. 22:26 að kvöldi 8. janúar 2008 þess efnis að hann þyrfti að mæta seinna um kvöldið og skrifa undir samning um yfirtökuna samkvæmt umboði frá systrunum. Í póstinum segir […] varnaraðila hafa verið þeim til styrks og trausts. Þennan póst kveðst sóknaraðilinn B ekki hafa séð fyrr en daginn eftir og að efni yfirtöku­samningsins hafi ekki verið borið undir sig.

Morguninn eftir áframsendi […] systrunum tölvupóst frá varnaraðila, sem var sendur kl. 1:02 eftir miðnætti, aðfaranótt 9. janúar 2008, með umboðsskjali í viðhengi þar sem fram kom að þær þyrftu að mæta á skrifstofu varnaraðila þann dag til þess að skrifa undir umboðið sem þær og gerðu seinna sama dag. Sóknaraðilinn B kveður texta umboðsins hafa verið í litlu samræmi við efni yfirtökusamningsins, sumt hafi verið rangt en öðrum veigamiklum ákvæðum hafi hreinlega verið sleppt. Þannig hafi ekki verið upplýsingar um þær ábyrgðir sem […] gekkst undir með samningnum hvað varðar eignir […] og greiðslur skuldbindinga félagsins, sbr. framangreint. Telja sóknaraðilar að um hafi verið að ræða markvissa og einbeitta blekkingu af hálfu höfundar umboðsskjalsins sem sóknaraðilinn segir öll gögn benda til þess að sé varnaraðili. Enn fremur telja sóknaraðilar einnig ljóst að […] hafi mætt í fylgd lögmanns í höfuðstöðvar […] kl. 3-4 að morgni 9. janúar til undirritunar yfirtökusamningsins og telja að sá lögmaður hafi verið varnaraðili.

i.

Varnaraðili gaf skýrslu í vitnamáli nr. […] í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 8. september 2021. Þar sagðist varnaraðili ekki minnast þess að hafa unnið neitt fyrir […] ehf. né hafi hann komið að yfirtöku […] á […] eða gætt þar hagsmuna […] ehf. Við aðalmeðferð í máli […] í Héraðsdómi Reykjaness þann 7. júní 2022 var varnaraðili aftur spurður um hvort hann hefði átt þátt í aðdraganda eða undirritun samnings um yfirtöku […] á […]. Varnaraðili kvaðst engan þátt hafa tekið í samningagerðinni og ekki verið […] til aðstoðar vegna hennar. Sóknaraðilinn B telur að framangreindur framburður varnaraðila sé ósannur og lýtur kvörtun í fyrsta lagi að þeirri háttsemi varnaraðila að gefa rangan framburð í skýrslutöku þann 7. júní 2022. Sóknaraðilinn telur að með framburði sínum hafi varnaraðili brotið gegn ákvæðum 1., 2., 20. og 21. gr. siðareglna lögmanna.

Sóknaraðilar skoruðu á varnaraðila að upplýsa um eitt og annað varðandi hvort og þá að hvaða marki hann hafi liðsinnt […] í tengslum við yfirtökusamning […] á […] í janúar 2008 og varðandi undirritun samnings um ábyrgð hans á greiðslu skuldbindinga […] í kjölfarið.

ii.

Í öðru lagi er kvartað yfir þeirri háttsemi varnaraðila að svara tölvupóstum lögmanns sóknaraðila ranglega og neita að svara frekari spurningum um lögfræðiráðgjöf hans til […] varðandi samning við […] um yfirtöku á […]. Í málinu liggur fyrir tölvupóstur eiginmanns sóknaraðilans B frá 24. ágúst 2022 þar sem hann beinir spurningu til varnaraðila um þátt hans í samningaviðræðum um yfirtöku […] á […]. Í kjölfarið sendi lögmaður sóknaraðila varnaraðila tölvupóst þann 29. ágúst 2022 þar sem fyrirspurnin var ítrekuð. Sama fyrirspurn var ítrekuð með tölvupóstum lögmanns sóknaraðila 3. janúar 2023 og 14. mars 2023. Sóknaraðili segir varnaraðila ekki hafa svarað fyrsta bréfi eiginmanns hennar og neitað að svara lögmanni hennar efnislega fyrir utan að ítreka að hann hafi aldrei komið nálægt málinu og frábiðja sér frekari spurninga um málið. Telja sóknaraðilar að framangreind háttsemi varnaraðila feli í sér brot á 1., 2., 21. og 25. gr. siðareglna lögmanna.

iii.

Í þriðja lagi er kvartað vegna þeirrar háttsemi varnaraðila að hafa neitað að afhenda gögn varðandi málefni […] ehf., sem lögmaður sóknaraðila óskaði eftir með tölvupósti 14. mars 2023. Sóknaraðilar telja ljóst að varnaraðili hafi gögnin undir höndum sem einn af eigendum og stjórnarmönnum […] lögmannsstofu og kveða gögnin mikilvæg vegna málareksturs félagsins fyrir dómstólum. Varnaraðili svaraði tölvupóstinum sama dag og ítrekaði fyrri afstöðu sína um að svara ekki frekari spurningum varðandi málefni sóknaraðilans A ehf. auk þess sem hann sagðist líta svo á að engir lögvarðir hagsmunir gætu búið að baki beiðninni. Sóknaraðilar telja þessa háttsemi varnaraðila fela í sér brot á 1., 21. og 25. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Í greinargerð sinni kvaðst varnaraðili hafa svarað öllum spurningum sem upp voru bornar í vitnamáli nr. […] þann 8. september 2021 og upplýst m.a. að sig ræki ekki minni til þess að hafa unnið nokkuð fyrir […] ehf., þó hann hafi unnið fyrir tengd félög, s.s. […] hf. Það svar sé enn það sama. Eina verkið sem varnaraðili muni eftir að hafi tengst […] ehf. hafi verið að taka á móti systrunum þremur sem áttu félagið með […] bróður sínum, á skrifstofu sinni til að undirrita umboð til […] þann 9. janúar 2008. Þessu hafi hann gert grein fyrir í vitnamálinu.

Hvað varðar umboðsskjal sem varnaraðili hafi sent í tölvupósti aðfaranótt 9. janúar 2008 segir varnaraðili svo virðast sem hann hafi sent ritara sínum beiðni um að fylla í eyður í umboðinu, með kennitölum og heimilisföngum systranna. […] hafi hann sent afrit tölvupóstsins og beðið hann að láta systur sínar koma á skrifstofu sína til að undirrita umboðið. Þó varnaraðili segist ekki muna þau atvik dregur hann ekki í efa að hann hafi dregið upp umboðið. Það hafi hann þá gert að beiðni […] og í samræmi við upplýsingar sem hann hafi gefið honum. Varnaraðili kveðst muna að systurnar hafi komið við á skrifstofu hans og undirritað umboðið. Varnaraðili segir þátttöku sína í málinu öllu vera takmarkaða við þetta eina verk. Varnaraðili kveður rangt sem komi fram í tölvupósti […] til systra sinna að varnaraðili hafi verið þeim til styrks og trausts. Það hafi einnig komið fram í skýrslu hans í vitnamálinu. Varnaraðili hafnar því jafnframt að hafa verið sá lögmaður sem sóknaraðilar segi að hafi komið með […] til undirritunar samninga við […] að morgni 9. janúar 2023.

Þá bendir varnaraðili á að hafi meinsæri það sem sóknaraðilar saka hann um verið framið hafi það verið í vitnamálinu sem rekið var 8. september 2021. Engin ný gögn hafi komið fram eftir það og því sé kvörtun of seint fram komin.

Varnaraðili áréttar að störf hans fyrir […] ehf. hafi takmarkast við það eitt að taka á móti systrum […] til undirritunar umboðs, sem svo virðist sem hann hafi samið þótt hann muni það ekki. Hann hafi engan þátt tekið í samningnum við […] vegna málefna […], hvorki fyrir […] ehf., […] eða nokkurn annan. Þá hafi hann ekki mætt til fundar í […] með […] að morgni 9. janúar 2008 og heldur ekki fyrr eða síðar. Hefði varnaraðili átt hlut að máli varðandi nefnda samninga hefði að hans mati verið rökrétt að álykta að […] hefði boðað sig til fundar með […] 9. janúar. Það hafi hann ekki gert heldur lagt til að mágar sínir mættu til fundarins með sér.

Varnaraðili hafnar því að hafa nokkur gögn undir höndum sem varða […] ehf., […] eða önnur gögn sem á nokkurn hátt geti varðað málarekstur sóknaraðila á hendur dánarbúi […] og ekkju hans.

Varnaraðili krefst þess að kvörtuninni verði vísað frá en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

III.

Í viðbótargreinargerð mótmæltu sóknaraðilar því sem fram kemur í greinargerð varnaraðila í öllum meginatriðum sem röngu, villandi og útúrsnúningum. Sóknaraðilar ítrekuðu fyrri áskoranir til varnaraðila um upplýsingar vegna vinnu hans í tengslum við yfirtöku […] á […] í janúar 2008 og sögðu hann ekki hafa svarað öllum spurningum með afdráttarlausum hætti í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjaness 7. júní 2022 í máli […].

Sóknaraðilar hafna því að kvörtun sé of seint fram komin enda hafi varnaraðili í skýrslutöku 7. júní 2022 ítrekað vísað til skýrslu sinnar frá 8. september 2021. Hafi hann sagt ósatt í fyrri skýrslunni hafi hann einnig gert það í þeirri seinni.

Sóknaraðilar telja að varnaraðili hafi, sem eigandi og stjórnarmaður […] lögmannsstofu, aðgang að rafrænu reikningakerfi stofunnar og sé því í lófa lagið að afhenda umbeðna reikninga sem gefnir voru út á […] ehf. á árunum 2006-2008. Þá beindu sóknaraðilar því til varnaraðila að upplýsa um hvort hægt sé að kalla fram reikninga frá þessu tímabili úr rafrænu reikningakerfi stofunnar.

IV.

Í viðbótargreinargerð sinni áréttaði varnaraðili að það sé rangt sem komi fram í tölvupósti […] til systra sinna að varnaraðili hefði verið þeim til aðstoðar varðandi samning um yfirtöku […] á […]. Orð […] í tölvupósti gegn neitun varnaraðila geti illa talist sönnun á þátttöku hans samningnum. Jafnframt ítrekaði varnaraðili að hans eina aðkoma að málinu hafi verið að taka á móti systrum […] á skrifstofu sinni við undirritun umboðs til hans vegna yfirtökunnar auk þess sem svo virðist sem hann hafi samið umrætt umboð.

Varnaraðili ítrekar að hann hafi engan þátt átt í samningagerð […] ehf. við […] vegna […] eða nokkurra annarra mála. Hann hafi heldur ekki verið […] til ráðuneytis eða veitt honum eða félaginu ráð um nokkuð slíkt og engan þátt tekið í málunum. Hann hafi ekki farið einn eða með […] eða öðrum til fundar við […] 8. eða 9. janúar 2008, né fyrr eða síðar, vegna málefna sem vörðuðu […] ehf., […], félög eða einstaklinga þeim tengd. Hann hafi ekki átt neinn þátt í samningu, undirbúningi eða nokkru öðru er varðar samning um yfirtöku […] á […] né hafi hann hugmynd um hverjir áttu hlut þar að máli. Þá áréttar varnaraðili að […] ehf. hafi aldrei verið umbjóðandi sinn, nema hvað varðar undirritun margnefnds umboðs og hugsanlega samningu þess. Varnaraðili kveðst ekki muna hvort […] ehf. hafi verið rukkað vegna þeirrar vinnu. Að lokum kveðst varnaraðili ekki vita hvort hægt sé að kalla fram reikninga frá því tímabili sem sóknaraðilar óska eftir en efast um að það sé hægt án aðstoðar sérfræðinga. Væri það hægt kveðst varnaraðili ekki sjá nokkra ástæðu til þess að […] lögmannsstofa leggi í fyrirhöfn og kostnað við að kalla fram gögn sem geti aldrei haft nokkra þýðingu í málatilbúnaði sóknaraðila.

Þá ítrekar varnaraðili kröfu um frávísun kvörtunarinnar og til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

V.

Í síðari viðbótargreinargerð sinni segjast sóknaraðilar ósammála flestu sem í athugasemdum varnaraðila kemur fram og telja hann svara spurningum þeirra ýmist gegn betri vitund, með útúrsnúningum eða alls ekki. Sóknaraðilar ítrekuðu fyrri áskoranir sínar til varnaraðila og fóru fram á að úrskurðarnefnd gerði varnaraðila skylt að svara áskorunum þeirra efnislega.

VI.

Varnaraðili kveðst í síðari viðbótarathugasemdum sínum hafa svarað efnislega öllum ásökunum á hendur honum og vísar til þeirra svara. Hann ítrekar kröfu um frávísun kvörtunarinnar en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

 

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Þá skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 2. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til þess að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 20. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

Í 21. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmaður megi ekki stuðla að því, að sönnunargögnum sé spillt eða leynt, en óskylt er honum og óheimilt, gegn banni skjólstæðings, að láta dómstólum í té gögn og upplýsingar, sem skjólstæðingi eru til sakfellis. Lögmanni er jafnframt óheimilt að leggja fram í dómi sáttatillögur gagnaðila, lagðar fram utan réttar, nema með samþykki hans.

Samkvæmt 25. gr. siðareglna lögmanna skulu lögmenn hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Þeir skulu sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.

II.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1., 2., 21. og 25. gr. siðareglna lögmanna.

Að mati úrskurðarnefndar er kvörtun þessi, sem varðar háttsemi varnaraðila sem sóknaraðili telur í ósamræmi við siðareglur lögmanna, tæk til efnislegrar umfjöllunar fyrir nefndinni og telur hún ekki forsendur til þess að vísa málinu frá eins og varnaraðili krefst. Þá fellur kvörtun, sem barst nefndinni þann 6. júní 2023, innan þess frests sem kveðið er á um í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Kröfu varnaraðila um frávísun málsins er hafnað.

Kvörtunin lýtur í fyrsta lagi að þeirri háttsemi varnaraðila að gefa rangan framburð við skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjaness í máli […] þann 7. júní 2022. Svör varnaraðila í umræddri skýrslutöku eru þau sömu og hann hafði áður gefið í vitnamáli nr. […] þann 8. september 2021 í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í öðru lagi lýtur kvörtun að því að varnaraðili hafi svarað bréfum sóknaraðila og lögmanns þeirra ranglega og neitað að svara frekari spurningum um lögfræðiráðgjöf hans til […] varðandi samning við […] um yfirtöku á […].

Varnaraðili hefur ætíð fullyrt að störf hans fyrir […] ehf. hafi takmarkast við það að semja umboðsskjal þann 9. janúar 2008, vegna yfirtöku […] á […], og taka á móti sóknaraðilanum B og systrum hennar við undirritun skjalsins sama dag. Að mati nefndarinnar bera gögn málsins ekki með sér að lögmannsþjónusta varnaraðila í þágu […] ehf., í tengslum við yfirtöku […] á […], hafi verið önnur og meiri en varnaraðili hefur haldið fram. Að mati nefndarinnar hefur ekkert verið lagt fram í málinu sem sýnir fram á að framburður varnaraðila umrætt sinn, sem hann hefur ítrekað í svörum sínum til sóknaraðila, lögmanns þeirra og í greinargerðum sínum til nefndarinnar, hafi verið ósannur.

Í þriðja lagi er kvartað vegna þeirrar háttsemi varnaraðila að veita ekki tilgreindar upplýsingar og afhenda gögn sem sóknaraðilar telja hann hafa aðgang að varðandi málefni […] ehf. Eins og að framan er rakið bera gögn málsins með sér að störf varnaraðila fyrir […] ehf. hafi takmarkast við það að semja umboðsskjal þann 9. janúar 2008, vegna yfirtöku […] á […], og taka á móti sóknaraðilanum B og systrum hennar við undirritun skjalsins sama dag. Þá hefur varnaraðili neitað að hafa nokkrar frekari upplýsingar eða gögn undir höndum sem varða málefni sóknaraðila.

Eins og fram hefur komið var fyrrum meðeigandi á lögmannsstofu varnaraðila lögmaður sóknaraðila um árabil. Varnaraðili verður ekki krafinn um gögn umbjóðenda annars lögmanns sem starfar á sömu lögmannsstofu. Gildir einu þó varnar­aðila hafi verið falið að annast einstaka þætti í hagsmunagæslu þess lögmanns fyrir umbjóðanda sinn.

Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að varnaraðili hafi aðgang að þeim gögnum sem sóknaraðilar hafa krafist afhendingar á eða frekari upplýsingar um málefni sóknaraðila en hann hefur þegar veitt.

Í ljósi framangreinds er niðurstaða nefndarinnar sú að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, C lögmanns, um frávísun málsins frá nefndinni, er hafnað.

Varnaraðili, C lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila A ehf. og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir