Mál 3 2023

Mál 3/2023

Ár 2024, mánudaginn 27. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekin málið:

3/2023

A og B

gegn

C lögmanni

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 30. janúar 2023 kvörtun A, f.h. hans sjálfs og eiginkonu hans, B, vegna háttsemi varnaraðila sem fyrrum lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 31. janúar 2023, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst 20. febrúar 2023 og var send sóknaraðila samdægurs til athugasemda. Viðbótargreinar­gerð sóknaraðila barst 21. mars 2023 og var send varnaraðila daginn eftir með fresti til þess að skila athugasemdum til 12. apríl 2023. Athugasemdir varnaraðila bárust þann 3. apríl 2023. Sóknaraðilar sendu viðbótargögn 13. apríl 2023 sem voru send varnaraðila sem ekki sá ástæðu til þess að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar og var málið tekið til úrskurðar.

 

Málsatvik og málsástæður

Sóknaraðilinn B er fyrrum hluthafi og stjórnarmaður í félaginu […] ehf., hér eftir […] ehf., sem stofnað var af föður sóknaraðilans. Faðir hennar átti félagið til ársins 1999 en það ár eignuðust sóknaraðilinn og systkini hennar þrjú, […], […] og […] félagið, og átti hvert um sig 25% eignarhlut í því. Systkinin sátu jafnframt öll í stjórn félagsins en […] sá um daglegan rekstur þess.

Varnaraðili veitti […] ehf. lögmannsþjónustu í einstaka verkefnum frá stofnun félagsins. Hann gætti hagsmuna félagsins og hluthafa þess í tengslum við yfirtöku […] á félaginu á árinu 2008. Störfum hans fyrir félagið lauk þann 13. ágúst en vinnu fyrir hluthafana í september sama ár. Varnaraðili var lögmaður hluthafanna […], […] og sóknar­aðilans B fram í nóvember árið 2014. Eftir það sinnti hann lögmanns­þjónustu fyrir […] fram að andláti hans og frá þeim tíma hefur hann gætt hagsmuna ekkju hans, […]. Árið 2014 úrskurðaði ríkisskattstjóri um endurákvörðun opinberra gjalda sóknaraðilans B gjaldárið 2007. Ákvörðunin fór fram í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra á skattskilum sóknaraðilans vegna tekjuársins 2006 sem lauk með skýrslu embættisins 18. október 2013. Rannsóknin laut að úthlutun fjármuna úr […] ehf. til sóknaraðilans á árinu 2006. Með úrskurðinum hækkaði ríkis­skattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn sóknar­aðilans og stofn til fjármagns­tekju­skatts, vegna gjaldársins 2007 og bætti við 25% álagi við hækkanir skattstofna. Sóknar­aðilar kærðu úrskurð ríkisskattstjóra og gætti varnaraðili hagsmuna þeirra við meðferð málsins hjá skattyfirvöldum. Þann 26. október 2015, með úrskurði nr. […], staðfesti yfirskattanefnd úrskurð ríkisskattstjóra að öðru leyti en hvað varðar álag á hækkun skattstofna vegna hinna kærðu breytinga gjaldárið 2007.

I

Kvartað er vegna framlagningar varnaraðila á ónafnhreinsuðum úrskurði yfirskattanefndar í máli sóknaraðila og eiginkonu hans nr. […], f.h. umbjóðanda síns, stefndu […], eiginkonu […] heitins, bróður sóknaraðilans B, í máli […], þann 31. janúar 2022. Sóknaraðilar telja að um sé að ræða skjal sem varnaraðili hafi komist yfir sem lögmaður þeirra í umræddu skatt­rannsóknar­máli, sem hann hefði ekki haft aðgang að nema fyrir þær sakir að hann gætti hagsmuna þeirra í umræddu máli. Sóknaraðilar vísa til svars yfirskattanefndar, sem liggur fyrir í málinu, þess efnis að ónafnhreinsaðir úrskurðir séu sendir kæranda og umboðsmanni hans, ef hann er til staðar og einnig því stjórnvaldi sem tók hina kærðu ákvörðun. Engir úrskurðir séu sendir ónafn­hreinsaðir nema með umboði kæranda. Af þessu telja sóknaraðilar ljóst að eini aðilinn sem gæti hafa afhent […] umræddan úrskurð yfirskattanefndar, þar sem full nöfn sóknaraðila og eiginkonu hans koma fram, og lagður var fram í fyrrgreindu dómsmáli, sé varnaraðili, þáverandi lögmaður hjónanna.

Sóknaraðilar telja framangreinda háttsemi varnaraðila fela í sér brot á 1., 2., 3., 6., 8. og 17. gr. siðareglna lögmanna.

II.

Varnaraðili segir málsókn […] ehf. gegn […] í máli […] varða atvik í janúar 2005. Á þeim tíma hafi sóknaraðilinn B átt sæti í stjórn […] ehf. ásamt þremur systkinum sínum. Eiginmaður hennar, sóknaraðilinn A, hafi verið prókúruhafi í félaginu. Dómsmál sem […] ehf. reki fyrir dómstólum gegn […] séu tvö, þ.e. mál sem var héraðsdómsmál nr. […] sem nú sé til meðferðar fyrir Landsrétti sem mál nr. […] og málið nr. […], sem Héraðsdómur Reykjavíkur hafi dæmt í þann 2. febrúar 2023.

Varnaraðili kveðst hafa unnið fáein minni háttar verkefni fyrir […] ehf. fram til ársins 2008 en hann hafi annast skjalagerð í tengslum við stofnun félagsins og verið persónulega kunnugur stjórnarmönnunum […] og B. Frá árinu 2008 kveðst varnaraðili hafa unnið ýmis verkefni fyrir systkinin fjögur sem áður hafi verið stjórnarmenn í […] ehf., þ.m.t. tengd skattrannsókn vegna arðgreiðslna út úr félaginu á árunum 2006 og 2007.

Síðustu verkefnum varnaraðila fyrir sóknaraðilann […] og systur hennar […] og […] segir varnaraðili hafa lokið í nóvember 2014. Eftir það hafi hann unnið verkefni fyrir […] og þeim ekki lokið að fullu fyrir andlát hans 31. október 2015. Eftir andlát […] hafi ekkja hans, […], fengið leyfi til setu í óskiptu búi og varnaraðili lokið áður ákveðnum verkefnum […] fyrir hana árið 2016. Eftir það segir varnaraðili […] hafa leitað til sín með ýmis verkefni sem síðustu 4-5 ár hafi snúið að málflutningi í málum sem […] ehf. hafi höfðað gegn henni.

Varnaraðili lítur svo á að um sé að ræða kvörtun vegna lögmannsstarfa hans fyrir […]. Kvörtunin komi ekki frá umbjóðanda hans heldur þriðja aðila. Hvað varðar efni kvörtunar bendir varnaraðili á að einungis hafi verði lagður fram hluti úrskurðarins, sem sé í heild sinni 13 blaðsíður. Vísar varnaraðili í endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 2022 þar sem fram kemur að lagðar séu fram fyrstu 5 blaðsíður úrskurðarins. Varnaraðili vekur athygli á því að hvorki lögmaður […] ehf. né nokkur annar hafi gert athugasemdir við framlagningu skjalsins á neinum tímapunkti. Þá sé heldur ekki vikið að því í forsendum héraðsdóms í málinu. Varnaraðili bendir einnig á að úrskurðurinn hafi verið lagður fram í fullri lengd þann 5. mars 2021 í héraðsdómsmálinu […] sem […] ehf. höfðaði gegn […] o.fl., án þess að við það hafi verið gerð athugasemd. Þannig hafi […]  og hver annar sem málið varðaði getað haft aðgang að þessu dómskjali frá því að það var lagt fram í héraðsdómi 5. mars 2021.

Varnaraðili mótmælir því að framlagning skjalsins á dómþingi 31. janúar 2022 hafi verið í bága við siðareglur lögmanna.

III.

Sóknaraðilar mótmæla því að kvörtun beinist að lögmannsstörfum varnaraðila fyrir […]. Sóknaraðilar séu fyrrum umbjóðendur varnaraðila og kvörtunin lúti að gagnaframlagningu hans á trúnaðarskjölum sem hann hafi komist yfir í störfum sínum sem lögmaður þeirra.

Þá telja sóknaraðilar að framlagning varnaraðila á úrskurði yfirskattanefndar fyrir úrskurðarnefnd geti falið í sér sjálfstætt brot á siðareglum lögmanna enda sé um að ræða trúnaðargögn sem hann komst yfir sem lögmaður sóknaraðila á árunum 2013-2014.

Varðandi þá fullyrðingu varnaraðila að framlagningu úrskurðarins hafi ekki verið mótmælt á neinum tímapunkti í dómsmáli […] ehf. gegn umbjóðanda varnaraðila, benda sóknaraðilar á að lögmaður […] ehf. hafi verið að gæta hagsmuna félagsins í málinu og því hafi sóknaraðilar ákveðið að beina athugasemdum sínum vegna framlagn­ingar­innar til úrskurðarnefndar með þeirri kvörtun sem hér um ræðir sem að þeirra mati sé réttur vettvangur til þess.

Þá telja sóknaraðilar það að varnaraðili hafi áður brotið trúnað við þau með framlagningu sama skjals fyrir dómi í öðru dómsmáli, engu breyta um það að framlagning hans á skjalinu þann 31. janúar 2022 feli í sér brot á siðareglum lögmanna.

 

IV.

Varnaraðili taldi ekki ástæðu til þess að útlista frekar athugasemdir sínar og vísaði til greinargerðar sinnar í málinu.

V.

Sóknaraðilar árétta að þeir telji blasa við að varnaraðili hafi lagt fram trúnaðargögn þeirra, án þeirra vitneskju og samþykkis, til hagsbóta fyrir núverandi umbjóðanda sinn, í máli fyrrverandi umbjóðanda síns gegn henni.

VI.

Varnaraðili sá ekki ástæðu til að koma á framfæri athugasemdum við seinni viðbótar­greinar­gerð sóknaraðila.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í þeim tilfellum sem atvik áttu sér stað áður en breyting sem gerð var á siðareglum lögmanna þann 26. janúar 2023 tók gildi, vísast hér eftir til ákvæða eins og þau komu fyrir í þágildandi siðareglum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Þá skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 2. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til þess að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 3. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar. Þá skal lögmaður ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns.

Samkvæmt 6. gr. siðareglna lögmanna skal upplýsingum, sem lögmaður fær í starfi, haldið frá óviðkomandi, þótt lögboðin þagnarskylda banni ekki. Þá reglu skal lögmaður brýna fyrir starfsfólki sínu. Ekki má lögmaður nota sér upplýsingar, sem honum hefur verið trúað fyrir í starfi, til hagsbóta fyrir gagnaðila.

  1. gr. siðareglna lögmanna kveður á um að lögmaður skuli gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Þá ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn. Lögmaður skal ekki taka að sér verkefni, sem hann veit eða má vita að hann er ekki fær um að sinna af kunnáttu og fagmennsku, nema verkið sé unnið í samstarfi við hæfan lögmann á viðkomandi sviði.
  2. gr. þágildandi siðareglna lögmanna var kveðið á um trúnaðarskyldu lögmanns gagnvart skjólstæðingi sínum. Samkvæmt greininni skyldi lögmaður aldrei án endanlegs dómsúrskurðar, sem beint er að honum sjálfum, eða skýlauss lagaboðs, láta óviðkomandi aðilum í té gögn og upplýsingar, sem lögmaður hefur fengið í starfi um skjólstæðing sinn eða fyrrverandi skjólstæðing. Sama gilti um fulltrúa lögmanns og annað starfslið svo og félaga lögmanns að lögmannsskrifstofu og starfslið hans. Loks var kveðið á um að trúnaðarskyldan héldist þótt verki væri lokið.

II.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðilar telja varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1., 2., 3., 6., 8. og 17. gr. siðareglna lögmanna.

Kvartað er vegna framlagningar varnaraðila á úrskurði yfirskattanefndar í máli sóknaraðila og eiginkonu hans nr. […], f.h. umbjóðanda síns, […] í máli […], þann 31. janúar 2022. Kvörtun beinist að varnaraðila sem fyrrum lögmanni sóknaraðila en sóknaraðilar telja að með framlagningu úrskurðarins hafi varnaraðili gert á hlut þeirra með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Varnaraðili segir kvörtun varða störf sín sem lögmann […] en komi ekki frá umbjóðanda hans heldur þriðja aðila. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 er heimild til þess að kvarta til nefndarinnar ekki einskorðuð við umbjóðanda lögmanns. Af því leiðir að þó sú háttsemi sem kvartað er yfir hafi átt sér stað í tengslum við störf lögmanns fyrir umbjóðanda sinn, kemur það ekki í veg fyrir að annar aðili, sem telur á sér brotið með háttseminni, geti kvartað vegna hennar til nefndarinnar.

Fyrir liggur í málinu að úrskurður yfirskattanefndar í máli sóknaraðila var lagður fram að hluta umrætt sinn en hafði áður verið lagður fram í heild sinni í öðru máli […] ehf. gegn umbjóðanda varnaraðila, þann 5. mars 2021. Að mati nefndarinnar verður í ljósi þessa að gera ráð fyrir því að umbjóðandi varnaraðila hafi haft úrskurðinn undir höndum, að minnsta kosti frá þeim tíma sem hann var lagður fram í fyrra skiptið, og hefði getað afhent hann hverjum þeim lögmanni sem hefði tekið að sér hagsmunagæslu fyrir hana í síðara málinu, og sá lögmaður lagt hann fram í því máli. Að mati nefndarinnar fól framlagning úrskurðarins þann 31. janúar 2022, því ekki í sér brot gegn siðareglum lögmanna eða lögum af hálfu varnaraðila.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili hafi í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, C lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 


Eva Hrönn Jónsdóttir