Mál 30 2023
Mál 30/2023
Ár 2024, fimmtudaginn 7. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 30/2023:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 7. júlí 2023 kvörtun sóknaraðila, A, gegn B lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns fyrrum eiginkonu sóknaraðila.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dag. 7. júlí 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 20. júlí 2023. Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri viðbótargreinargerð en hún barst ekki innan gefins frests. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.
Málsatvik og málsástæður
Sóknaraðili og fyrrum eiginkona hans, umbjóðandi varnaraðila, gengu í hjónaband 18. apríl 2018. Þau slitu samvistum 5. júní 2022 og með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 8. mars 2023 var bú þeirra tekið til opinberra skipta þar sem ekki náðist samkomulag um fjárskipti. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur þann 12. mars 2023 í máli […] var umbjóðanda varnaraðila veittur skilnaður að borði og sæng við sóknaraðila. Sóknaraðili var dæmdur til þess að greiða umbjóðanda varnaraðila 417.216 krónur í málskostnað.
I.
Sóknaraðili segir varnaraðila hafa gætt hagsmuna fyrrverandi eiginkonu sinnar í skilnaðarmáli hennar gegn sóknaraðila. Sóknaraðili kveður varnaraðila í ítrekuðum tölvupóstum og símtölum hafa beitt sig óeðlilegum þvingunum og hótunum. Þá hafi varnaraðili sýnt honum lítilsvirðingu á fundum og hótað sóknaraðila að ef hann gengi ekki að kröfum umbjóðanda hans gæti það leitt til þess að sóknaraðili gæti misst dvalarleyfi sitt, ríkisborgararétt og aðgang að bankareikningi sínum. Síðar hafi sóknaraðila orðið ljóst að hótanir varnaraðila hafi ekki átt við rök að styðjast.
Sóknaraðili kveðst hafa viljað leysa málið í sátt en segir varnaraðila hafið farið yfir mörk sín með framkomu sinni gagnvart sér. Þá telur sóknaraðili að varnaraðili hefði átt að leiðbeina sér um að leita sér lögmannsaðstoðar vegna stöðu sinnar þegar farið var fram á opinber skipti yfir eignum sóknaraðila og fyrrum eiginkonu hans. Það hafi varnaraðili ekki gert. Varnaraðili hafi beitt sóknaraðila hótunum með reglulegu millibili þess efnis um að hann muni gera fjárnám í eignum sóknaraðila fyrir málskostnaði vegna skilnaðar sem veittur var með dómi. Sóknaraðili telur málskostnaðinn eiga að vera hluta kostnaðar vegna opinberra skipta sem varnaraðili hafi óskað eftir fyrir hönd fyrrum eiginkonu sóknaraðila.
Sóknaraðili telur varnaraðila hafa farið yfir öll mörk í hegðun sinni gagnvart sér og telur sér ekki stætt á öðru en að leggja fram kvörtun vegna framkomu hans. Sóknaraðili segir háttsemi varnaraðila gefa til kynna fordóma varnaraðila í hans garð á grundvelli kynþáttar og slíkt eigi ekki að líðast af hálfu lögmanns.
Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brotið gegn sér með háttsemi sem felur í sér brot á siðareglum lögmanna. Sóknaraðili telur háttsemi varnaraðila í málinu ekki hafa verið faglega enda hafi hann beitt sóknaraðila ótilhlýðilegum þvingunum og hótunum í málinu. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brugðist skyldum sínum skv. 5. kafla siðareglna lögmanna. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði áminntur fyrir framkomu sína gagnvart sér.
II.
Varnaraðili kveður umbjóðanda sinn, fyrrum eiginkonu sóknaraðila, hafa lagt fram beiðni um skilnað að borði og sæng hjá sýslumanni þann 7. desember 2022 en hvorki sýslumanni né umbjóðanda hans hafi tekist að ná tali af sóknaraðila og því hafi farið svo að málinu hafi verið vísað frá sýslumanni. Varnaraðili segist hafa hringt í sóknaraðila þann 9. janúar 2023 og útskýrt fyrir honum að ef hann léti málið sig ekki varða væri nauðsynlegt að leita til dómstóla og óska eftir skilnaði að borði og sæng og fara fram á opinber skipti vegna fjárskipta aðila. Hvort tveggja myndi leiða til umtalsverðs kostnaðar og því væri nauðsynlegt fyrir sóknaraðila að útvega sér lögmann. Í kjölfarið hafi varnaraðili sent sóknaraðila skilaboð þar sem hann hafi verið hvattur til þess að hafa samband við varnaraðila varðandi næstu skref. Sóknaraðili hafi ekki orðið við því.
Eftir að dómur féll sem veitti umbjóðanda varnaraðila lögskilnað við sóknaraðila segist varnaraðili hafa haft samband við sóknaraðila til innheimtu dæmds málskostnaðar. Í von um að sóknaraðili léti sig málið varða kveðst varnaraðili hafa upplýst sóknaraðila um að árangurslaust fjárnám gæti haft neikvæð áhrif á umsókn hans um íslenskan ríkisborgararétt eða áframhaldandi dvalarleyfi. Sóknaraðili hafi ekki svarað erindinu og hafi honum því verið send greiðsluáskorun með stefnuvotti þann 17. apríl 2023.
Í máli vegna opinberra skipta hafi hvorki dómara né skiptastjóra tekist að ná tali af sóknaraðila. Sóknaraðili hafi hins vegar sett sig í samband við varnaraðila í síma þann 23. maí 2023 og óskað eftir fundi til þess að ræða fjárskipti sín og umbjóðanda varnaraðila. Fljótt hafi komið í ljós á fundinum að lítill grundvöllur hafi verið til sátta og kveðst varnaraðili hafa ítrekað ráðleggingar til sóknaraðila um að hann útvegaði sér lögmann. Þá hafi hann upplýst sóknaraðila um að dæmdur málskostnaður væri aðfararhæf krafa sem sóknaraðili þyrfti að greiða og tengdist ekki fjárskiptum hans og fyrrum eiginkonu hans. Varnaraðili segir fimm skiptafundi hafa verið haldna áður en sóknaraðili hafi loks útvegað sér lögmann sem hafi mætt fyrir hans hönd á skiptafund þann 23. júní 2023.
Varnaraðili mótmælir málavaxtalýsingu sóknaraðila að því leyti sem hún er í andstöðu við lýsingu hans sjálfs. Þá vísar varnaraðili ásökunum um hótanir alfarið á bug. Varnaraðili vísar til 1. mgr. 9. gr. laga um ríkisborgararétt nr. 100/1052 þar sem skýrt komi fram að eitt skilyrða fyrir veitingu ríkisborgararéttar sé að ekki hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá einstaklingi á undanliðnum þremur árum. Þetta hafi hann bent sóknaraðila á þar sem umbjóðandi hans hafi vitað til þess að sóknaraðili hygðist sækja um íslenskan ríkisborgararétt og hún hafi viljað að sóknaraðili væri upplýstur um mögulegar afleiðingar þess að greiða ekki dæmdan málskostnað.
Varnaraðili kveður samskipti sín við sóknaraðila hafa takmarkast við einn fund, tvö símtöl og þrjá tölvupósta. Því sé rangt það sem sóknaraðili haldi fram um að varnaraðili hafi sent honum ítrekaða tölvupósta. Þá sé einnig rangt að varnaraðili hafi hótað sóknaraðila því að hann gæti misst aðgang að bankareikningi sínum.
Varnaraðili fer fram á frávísun málsins á grundvelli þess að það sé augljóslega ekki á rökum reist, sbr. 8. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila á grundvelli 3. mgr. 15. gr. sömu reglna.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.
Samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sýna gagnaðilum umbjóðanda sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum umbjóðendanna.
Í 35. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður megi ekki til framdráttur málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum en það telst m.a. ótilhlýðilegt samkvæmt ákvæðinu að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli sem óviðkomandi er máli skjólstæðings, að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli er valdið getur gagnaðila hneykslisspjöllum og loks að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku.
Samkvæmt 36. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður jafnan fyrir lögsókn kynna gagnaðila framkomnar kröfur skjólstæðings síns og gefa kost á að ljúka máli með samkomulagi. Þetta gildir þó ekki, ef lögsókn má ekki bíða vegna yfirvofandi réttarspjalla eða annars tjóns á hagsmunum skjólstæðings, eða ef atvikum að öðru leyti hagar svo til að rétt sé og nauðsynlegt að hefja lögsókn án tafar.
Í 37. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmanni, sem kemur fram fyrir hönd skjólstæðings síns í máli við gagnaðila, sem gætir hagsmuna sinna sjálfur, sé eftir atvikum rétt að benda gagnaðila á að leita sér lögmannsaðstoðar, ef gagnaðila er augljós þörf á því.
II.
Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut og með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum V. kafla siðareglna.
Framlögð gögn sýna að varnaraðili sendi sóknaraðila tölvupóst þann 12. apríl 2023 þar sem hann krafði varnaraðila um greiðslu málskostnaðar í samræmi við dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli […]. Í tölvupóstinum kom fram að umbjóðandi varnaraðila væri reiðubúin til þess að gera samkomulag um fjárhagsleg málefni hennar og sóknaraðila. Hvatti varnaraðili sóknaraðila til þess að vera í sambandi við sig vegna þessa, annars myndi hann fara fram á að fjárnám verði gert í eignum sóknaraðila. Yrði krafan ekki greidd gæti það leitt til árangurslauss fjárnáms og hugsanlega gjaldþrots sem gæti haft neikvæð áhrif á möguleika sóknaraðila til þess að fá dvalarleyfi og ríkisborgararétt.
Með tölvupósti 5 dögum síðar, eða þann 17. apríl 2023, sendi varnaraðili sóknaraðila greiðsluáskorun og tjáði honum að væri krafan ógreidd og ekki hefði verið samið um hana innan 15 daga, yrði farið fram á fjárnám í eignum sóknaraðila.
Í málinu liggur fyrir yfirlýsing umbjóðanda varnaraðila þess efnis að hún hafi orðið vitni að símtali varnaraðila við sóknaraðila þann 9. janúar 2023 þar sem varnaraðili hafi bent sóknaraðila á að skynsamlegast væri fyrir hann að fá sér lögmann. Einnig staðfestir umbjóðandi varnaraðila að hann hafi ekki hótað sóknaraðila með neinum hætti.
Að mati nefndarinnar bera gögn málsins ekki með sér annað en að varnaraðili hafi gætt ákvæða siðareglna lögmanna í samskiptum sínum við sóknaraðila. Gögnin bera ekki með sér að varnaraðili hafi beitt sóknaraðila hótunum eða ótilhlýðilegri þvingun í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna. Ábending varnaraðila til sóknaraðila um að árangurslaust fjárnám gæti skaðað möguleika sóknaraðila á því að fá veittan ríkisborgararétt getur að mati nefndarinnar ekki talist fela í sér ótilhlýðilega þvingun í skilningi ákvæðisins. Þá bera gögn málsins ekki með sér annað en að varnaraðili hafi sýnt sóknaraðila þá tillitssemi og virðingu sem honum bar skv. 34. gr. siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar benda gögn málsins ennfremur til þess að varnaraðili hafi leiðbeint sóknaraðila um að leita sér lögmannsaðstoðar í samræmi við ákvæði 37. gr. siðareglna lögmanna.
Í ljósi alls framangreinds telur nefndin ósannað að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, B lögmaður lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, A, í störfum sínum, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir