Mál 31 2023

Mál 31/2023

Ár 2024, miðvikudaginn 10. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. júlí 2023 kvörtun sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila [B] lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns maka sóknaraðila í barnaverndarmáli.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 25. júlí 2023, þar sem fram kom að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 28. ágúst 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 3. október 2023, viðbótargreinargerð varnaraðila þann 26. október s.á. og frek­ari athugasemdir þann 15. nóvember s.á. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagna­fram­­­lagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Varnaraðili var lögmaður fyrrum eiginmanns og barnsföður sóknaraðila í tveimur barna­verndar­málum, annars vegar hjá Barnavernd […] og hins vegar hjá Barna­­vernd […]. Kvörtun lýtur að háttsemi varnaraðila í samskiptum við fulltrúa barna­­verndar um málefni barna sóknaraðila.

Að mati sóknaraðila hefur varnaraðili gengið erinda umbjóðanda síns langt umfram það sem eðlilegt getur talist, eða sæmir háttum lögmanns, og þannig samsamað sig umbjóðanda sínum og gætt hagsmuna hans eins og væru hennar eigin hagsmunir. Þetta birtist að mati sóknar­aðila í orðaskiptum varnaraðila við barnavernd um börn sóknaraðila og ummælum um sóknar­aðila og börn hennar sem sóknaraðili telur ekki samrýmast siðareglum lögmanna. Þá telur sóknaraðili að varnaraðili hafi unnið gegn réttindum barna hennar með því að draga frásagnir þeirra og framburð í Barnahúsi í efa auk þess sem hún hafi hvatt umbjóðanda sinn til að hefja tilefnislausan málarekstur gegn sóknaraðila og bera fram tilhæfulausar ásakanir m.a. hjá lögreglu og villt um fyrir opinberum starfsmönnum, sem hafi hamlað því að börnin gætu sótt þá þjónustu sem þau hafi átt rétt á.

Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna og laga með endur­teknu hegðunarmynstri og háttsemi í málum barna sóknaraðila. Sú háttsemi sem sóknar­aðili tilgreinir sérstaklega í kvörtun er eftirfarandi.

  1. Að hafa í tölvupósti til Barnaverndar […] sem skráður er þann […] kallað tvö eldri börn sóknaraðila „iðjuleysingja“ og viðhaft orðalagið að sóknaraðili væri „…algjörlega óhæf til að fara með umsjá drengsins“.
  2. Að hafa í tölvupósti til Barnaverndar […] þann […] hafa viðhaft ummælin „afsakið orðbragðið en þvílík skita!“ til að leggja áherslu á hneykslan sína á vali barnaverndar á vistunaraðila fyrir yngsta barnið utan heimilis.
  3. Að hafa í sama tölvupósti og í lið 2 staðhæft að sóknaraðili væri ekki andlega heil.
  4. Að hafa í tölvupósti til Barnaverndar […], þann […] viðhaft eftirfarandi ummæli: „Sorry en þið eruð starfi ykkar ekki hæf! Þvílíkt vitleysa og sorglegt að þið skulið ekki sjá í gegnum móður. Frábært hjá ykkur að styðja við að drengurinn fái ekki sína grunnskólamenntun og koðni niður hjá móðir. Á bvn ekki að vernda börn? Styður bvn […] að barni sé rænt af skólalóð? Gott að vita það upp á hvað ég get ráðlagt framtíðarskjólstæðingum mínum.“.
  5. Að hafa í tölvupósti þann […] til Barnaverndar […], haft viðhaft þau ummæli um sóknaraðila að hún sé …„augljóslega ekki heil á geði og til alls líkleg. Ætla starfsmenn BVN að hafa það á samviskunni að hafa fullyrt að drengnum sé ekki hætta búin hjá móður og finna hann svo látinn!“
  6. Að hafa í tölvupósti til barnaverndar þann […] staðhæft að sóknaraðili hafi sýnt af sér refsiverða háttsemi með eftirfarandi ummælum: „dreng er rænt um hábjartan dag. Ræningi fer með hann til móður hans, sem fær dómi samkvæmt aðeins að hitta hann undir eftirliti…“.
  7. Að hafa í tölvupósti, þann […], vísað til sóknaraðila sem „…móður sem fullyrða má að er ekki andlega heilbrigð miðað við gögn málsins“.
  8. Að hafa í tölvupósti til Barnaverndar […] þann […] viðhaft eftirfarandi ummæli um sóknaraðila: „…móðir er ekki heil“.
  9. Að hafa í tölvupósti þann […] viðhaft ummælin: „…sem umbjóðanda mínum er nú orðið ljóst að ekki andlega heil og er beinlínis að eyðileggja æsku barna þeirra“.
  10. Að hafa í tölvupósti þann […] til Barnaverndar […], blandað máli annars umbjóðanda síns við mál sóknaraðila með ummælunum: „Ég ætla að senda þér […] í sérpósti nýlegan úrskurð héraðsdóms […] þar sem móðir stal barni sínu og taldi því trú um að faðir hans hefði lagt hendur á hann“.
  11. Í tölvupósti þann […] til Barnaverndar […] haft uppi eftirfarandi ummæli um ásakanir um ofbeldi barnsföður sóknaraðila gegn syni hans og sóknaraðila séu „…auðvitað algjört kjaftæði“.
  12. Að hafa í tölvupósti þann […] til Barnaverndar […] viðhaft eftirfarandi ummæli: „Það er búið að segja þér þetta frá upphafi! Mamma hans segir ekki við hann ekki segja að þú viljir ekki fara til pabba þíns. Hún er miklu lúmskari en svo og drengurinn veit hvað hann á að segja til að vera hjá henni. Þú getur ekki bara ákveðið að brjóta gegn umbjóðanda mínum og banna umgengni um jólin! Af hverju varstu ekki byrjuð að ræða við hann mun fyrr? Hann á rétt á umgengni við son sinn og þú skalt gjöra svo vel að koma því á tafarlaust. […] er […] ára gamall og ræður ekki hvort hann búi hjá eða hitti pabba sinn. Hvað þá í ljósi sögunnar um sök móður!“.
  13. Að hafa í tölvupósti þann […] til Barnaverndar […] viðhaft eftirfarandi ummæli: „Þá er ekki hlustað á orð sem frá okkur kemur og ekki virðist hægt að koma fyrir ykkur vitinu! Ég mun aldrei gleyma þessum vinnubrögðum“.
  14. Að hafa í tölvupósti frá […] til Barnaverndar […] viðhaft eftirfarandi ummæli: „Enn hafa engar upplýsingar borist! Ég trúi ekki að þið ætlið að sitja hjá og leyfa mömmunni að komast upp með þetta!“.
  15. Að hafa í tölvupósti til Barnaverndar […] þann […] staðhæft að hafa verið tjáð af Barnavernd […] að nefndin myndi „klárlega sækja drenginn“ og færa hann úr umsjá sóknaraðila.
  16. Að hafa í tölvupósti þann […] sakað sóknaraðila um refsiverða háttsemi með eftirfarandi ummælum: „…móðir hefur gerst sek um brot gegn 193. gr. hegningarlaga...“ og „…móðir fyrirskipaði rán á honum um miðjan dag […] síðastliðinn og tók svo umráð hans aftur með ólögmætum og refsiverðum hætti með aðstoð vistunaraðila.“ og „…þér að segja tel ég að móðir hafi nýtt sér aðgerðaleysi lögreglu og barnaverndar og flúið land með börnin“.
  17. Að rengja og draga úr rökstuddum grun um ofbeldi sem yngsta barn sóknaraðila kann að hafa orðið fyrir af hálfu föður síns.
  18. Að hafa í tvígang farið fram á fjárnám hjá sóknaraðila án þess að senda henni reikning eða upplýsa um tilefni fjárkröfunnar. Í annað skiptið hafi krafa um fjárnám verið að tilefnislausu enda hafi átt að greiða umrædda kröfu í ríkissjóð samkvæmt dómi og ríkissjóður því kröfuhafi en ekki varnaraðili.
  19. Að hafa sent tölvupóst á dómara í Héraðsdómi […], þann […], eftir að aðalmeðferð í máli var þegar lokið, og haldið þannig áfram málflutningi sínum í formi tölvupóst­samskipta við dómara eftir að efnislegum málflutningi og framlagningu gagna var lokið og málið hafði verið tekið til úrskurðar.

Sóknaraðili kveðst telja ítrekaða hegðun varnaraðila og tilhæfulausar staðhæfingar sem settar séu fram gegn betri vitund varnaraðila sjálfrar, til þess fallnar að afvegaleiða mál sóknar­­aðila og umbjóðanda varnaraðila. Opinberir aðilar verði að geta treyst því að lögmenn séu faglegir og fullyrði ekki umfram eigin þekkingu og í andstöðu við gögn máls. Framkoma varnar­­aðila er alvarleg að mati sóknaraðila sem telur framgöngu varnaraðila ekki einungis hafa haft verulegar afleiðingar fyrir hagsmuni sína og barna sinna, heldur sé háttsemi varnar­aðila slík að hún sé til þess fallin að kasta rýrð á traust til starfa lögmanna almennt.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi í starfi sínu gert á sinn hlut og barna sinna með háttsemi sem stríði gegn lögum og siðareglum lögmanna, nánar tiltekið ákvæðum 1., 2., 3., 6., 8., 10., 20., 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðarnefnd veiti varnaraðila áminningu eða beiti öðrum viðhlítandi agaviðurlögum vegna háttsemi hennar. Þá krefst sóknar­aðili endurgreiðslu á málagjaldi vegna kvörtunar til nefndarinnar.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði vísað frá en til vara að þeim verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila vegna, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 enda eigi kvörtunin sér enga stoð og varnaraðili hafi varið verðmætum tíma í bera af sér óljósar sakir. Varnaraðili telur að vísa bera kvörtuninni frá eða hafna með öllu þegar af þeirri ástæðu að ekki sé kvartað yfir tilteknu atviki og vandséð sé hvernig hægt sé að taka til varna þegar kvörtun sé borin fram með þessum hætti. Þá telur varnaraðili sóknaraðila ekki vera réttan aðila að máli þar sem kvartað er vegna óviðeigandi orðbragðs varnaraðila við Barna­vernd annars vegar […] og hins vegar […]. Orðum varnar­aðila hafi ekki verið beint að sóknaraðila og því geti ekki talist um brot gegn henni að ræða. Að sama skapi sé það ekki sóknaraðila að kvarta yfir ummælum um aðra en hana sjálfa enda geti slík ummæli ekki talist brot gegn henni.

Að mati varnaraðila skortir mjög á að málavöxtum sé lýst með fullnægjandi hætti og telur hún sóknaraðila draga upp ranga mynd af atvikum. Varnaraðili kveðst hafa gætt hagsmuna barns­föður sóknaraðila. Sóknaraðili og umbjóðandi varnaraðila hafi skilið í […] og síðan þá hafi varnaraðili rekið mál fyrir hönd umbjóðanda síns gegn sóknaraðila vegna barna þeirra í Héraðs­­­dómi […], Héraðsdómi […], Héraðsdómi […], Landsrétti og Hæsta­­rétti. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki viljað fara að niðurstöðum dómstóla og tekið lögin í eigin hendur.

Varnaraðili lýsir atburðarás málsins með þeim hætti að sonur sóknaraðila hafi lögheimili hjá umbjóðanda varnaraðila. Sóknaraðili hafi neitað að afhenda umbjóðanda varnaraðila dreng­inn í kjölfar dóms Landsréttar sem kveðinn var upp […]. Umbjóðandi varnar­aðila hafi krafist þess að drengurinn yrði afhentur honum með aðfarargerð sem stað­fest hafi verið af héraðsdómi og Landsrétti og Hæstiréttur synjað um kæruleyfi. Sóknaraðili hafi verið í felum með drenginn og dóttur aðila og börnin hafi ekki mætt í skóla.

Þann […] hafi farið fram innsetningargerð á […]. Vel hafi gengið með drenginn í umsjá umbjóðanda varnaraðila þar til sóknaraðili hafi látið sækja hann á skólalóð […] og farið með hann í felur. Í kjölfarið hafi barnaverndaryfirvöld hafið leit að drengnum í því skyni að færa hann heim til umbjóðanda varnaraðila en hafi einnig staðið í samninga­viðræðum við sóknaraðila sem hafi sagst gruna að umbjóðandi varnaraðila hafi beitt drenginn ofbeldi. Umbjóðandi varnaraðila hafi samþykkt að drengurinn yrði vistaður annars staðar en hjá móður og skýrsla tekin af honum í Barnahúsi. Við skýrslutöku hafi dreng­urinn sagt frá ofbeldi af hálfu umbjóðanda varnaraðila en frásögnin talin ótrúverðug og sér­fræð­ing­ar í Barna­húsi neitað drengnum um sálfræðimeðferð þar sem vandi hans væri ágreining­ur á milli foreldra.

Í kjölfar skýrslutökunnar hafi félagsmálastjóri […]  fært drenginn til sóknaraðila og því næst hafi verið ákveðið að vista drenginn utan heimilis í 2 mánuði á hlutlausum stað. Barnavernd hafi ekki skilað af sér skriflegum úrskurði fyrr en eftir að umbjóðandi varnaraðila hafði kært munnlegan úrskurð nefndarinnar til héraðsdóms. Félagsmálastjóri […] hafi svarað erindum illa og upplýsingagjöf hafi verið af skornum skammti og umbjóðandi varnaraðila ekki fengið umgengni við drenginn um jól.

Þann […] hafi Héraðsdómur […] fellt úrskurð barnaverndar úr gildi. Sóknar­aðili hafi tekið drenginn úr umráðum barnaverndar en vistunaraðili verið góð vinkona hennar og hafi sóknaraðili í raun verið með drenginn hjá sér allan vistunartímann. Félagsmála­stjóri í […] hafi ekki beitt þeim úrræðum sem henni hafi verið bent á til þess að koma drengnum heim. Héraðsdómur og Landsréttur hafi staðfest heimild umbjóðanda varnaraðila til að fá drenginn afhentan með aðfarargerð og Hæstiréttur synjað um kæruleyfi. Sóknaraðili sé hins vegar í felum með drenginn sem ekki fái nauðsynlega læknisþjónustu á barnaspítala, gangi ekki í skóla og fari ekki í tómstundir og sé lögregla að leita að drengnum að beiðni barnaverndar­yfirvalda.

Varnaraðili bendir á að lögmenn njóti rýmkaðs tjáningarfrelsis og segir allt sem fram komi í þeim óformlegu tölvubréfum hennar til barnaverndar sem sóknaraðili vísi til sé ritað fyrir hönd umbjóð­anda hennar og hans sjónarmiðum þar komið á framfæri. Hún mótmælir því að hafa gengið erinda umbjóð­anda síns umfram það sem eðlilegt geti talist. Þá hafnar hún því alfarið að hún hafi, með því að gæta hagsmuna umbjóðanda síns, brotið gegn börnunum á nokkurn hátt eða sóknaraðila. Hún komi fram fyrir hönd umbjóðanda síns í málinu og gæti hans hagsmuna óháð sínum persónu­legum skoðunum. Varnaraðili hafnar því að hún hafi ráðlagt umbjóðanda sínum að hefja tilefnis­lausan málarekstur eða hafa uppi tilhæfulausar ásakanir hjá lögreglu. Þá hafnar varnaraðili því að ráðgjöf hennar hafi orðið til þess að skerða möguleika barna sóknaraðila á að sækja þá þjónustu sem þau hafi átt rétt á.

Varnaraðili kveðst telja sig hafa sýnt sóknaraðila fulla virðingu og tillitssemi en hún hafi þurft að koma sjónarmiðum umbjóðanda síns að í málinu. Telur varnaraðili fráleitt að hún hafi verið óheiðar­leg eða villandi í upplýsingagjöf sinni til barnaverndaryfirvalda. Hún eigi rétt til þess að vera ekki samkennd sjónarmiðum umbjóðanda síns og þeim hagsmunum sem hún gæti fyrir hann. Í öllum tilvikum hafi verið um sjónarmið og skoðanir umbjóðanda hennar að ræða, sem ekki séu úr lausu lofti gripnar heldur eigi sér stoð í gögnum málsins og hann hafi ítrekað sjálfur komið á framfæri. Þannig byggi umbjóðandi hennar á því að sóknaraðili sé ekki hæf til að annast börn sín, að hún hafi beitt börnin innrætingu, að hún sé andlega veik auk þess sem hann hafi sjálfur hafnað því að hafa nokkru sinni beitt börn sín ofbeldi. Ekki sé um persónulegar skoðanir varnar­aðila að ræða eða sjálfstætt framlag hennar heldur sé hún að koma sjónarmiðum umbjóðanda síns á framfæri. Varnaraðili telur ekki hægt að gera þá kröfu að lögmaður kanni sannleiksgildi rök­semda umbjóðanda síns áður en þeim er komið á framfæri, í þessu tilfelli við barnaverndar­yfirvöld. Sjónarmið umbjóðanda hennar eigi sér stoð í gögnum málsins, þ.m.t. niðurstöðu mats­manns og forsendum dómsúrlausna og ekki síst hegðun sóknaraðila sjálfrar og varnaraðili telur nauðsynlegt að hann fái að koma að sínum sjónarmiðum, áhyggjum af velferð barna sinna og röksemdum í málinu og telur sér sem lögmanni hans skylt að koma þeim á framfæri fyrir hans hönd. Varnaraðili telur að heimila verði lögmanni að halda uppi vörnum sem lúta að málstað umbjóð­anda hans, jafnvel þó það komi gagnaðila illa eða gagnaðila sárni það en allt sem varnaraðili hafi ritað sé í tengslum við hagsmunagæslu hennar fyrir umbjóðandann.

Í sumum tilvikum sé kvartað vegna orðalags varnaraðila í óformlegum tölvupóstum til barna­verndar­yfirvalda þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við verklag og framkvæmd þeirra í málum aðila en gríðarlegir annmarkar hafi verið þar á. Gæða- og eftirlitsstofnun hafi tekið starfshætti í málinu til skoðunar og niðurstaða hennar verið áfellisdómur yfir vinnu­brögðum barnaverndar­yfirvalda. Slík samskipti geti í öllu falli ekki talist brot gegn sóknaraðila.

Varnaraðili hafnar því að hafa ranglega sakað sóknaraðila um refsiverða háttsemi. Það hafi varnaraðili ekki gert persónulega heldur hafi sóknaraðili verið kærð fyrir brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga og Landsréttur komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. […] að sóknar­aðili hafi sýnt af sér ólögmæta og refsiverða háttsemi. Dómurinn hafi verið sendur barnaverndar­yfirvöldum svo þau gætu kynnt sér hann með sjálfstæðum hætti og varnaraðili hafi talið sér skylt að koma þeim upplýsingum á framfæri við barnaverndar­yfirvöld. Sama eigi við um upplýsingar um að sóknaraðili væri farin af landi brott, enda hafi lögregla um tíma talið að svo væri og marg­skorað á hana að sýna fram á að svo væri ekki sem hún hafi kostið að gera ekki. Allt hafi þetta átt fullt erindi inn í málið.

Þá hafi varnaraðili reynt að leiðbeina félagsmálastjóra […] sem augljóslega hafi ekki valdið málinu, með því að benda henni á dóma­fordæmi þess efnis að varnaraðili hafi talið ljóst að enginn dómstóll myndi fallast á vistun drengsins utan heimilis. Jafnframt hafi varnar­aðili reynt að opna augu félagsmála­stjórans fyrir því að innræting sem sonur sóknaraðila yrði fyrir myndi hafa áhrif á afstöðu hans til umgengni við umbjóðanda varnaraðila. Varnaraðili segir ekkert í samskipt­um sínum við barnaverndar­yfirvöld fela í sér brot gegn siðareglum lög­manna og ekki komi sóknar­aðila við hvernig varnaraðili eða umbjóðandi hennar kjósi að orða tölvu­pósta til yfirvalda.

Varnaraðili bendir á að lögmenn sendi gagnaðila ekki reikning fyrir dæmdum málskostnaði. Þá hafi tölvupóstur sem sendur var eftir aðalmeðferð málsins fyrir dómi verið ætlaður barnaverndar­yfirvöldum og ekki getað haft nein áhrif á dóminn á þeim tímapunkti. Slík samskipti feli enda ekki í sér brot á siðareglum lögmanna.

III.

Sóknaraðili hafnar því að vísa eigi málinu frá þar sem efni kvörtunar sé ekki nægilega skýrt. Telur hún tölusett svör varnaraðila í greinargerð benda til þess að efni kvörtunar sé fyllilega skýrt.

Sóknaraðili telur orðnotkun varnaraðila í greinargerð til nefndarinnar vera lýsandi fyrir viðhorf hennar og fjandsemi í garð sóknaraðila og barna hennar. Sóknaraðili bendir á að hvergi hafi varn­ar­aðili tekið fram að þungar og tilhæfulausar ásakanir sem bornar hafi verið fram við stjórnvöld hafi verið settar fram fyrir hönd umbjóðanda hennar. Augljóst sé að um eigin skoðanir varnaraðila sé að ræða og ítrekar sóknaraðili að varnaraðili hafi samkennt sig umbjóðanda sínum óhóflega. Sóknar­aðili vísar til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 25/2022 til hliðsjónar hvað þetta varðar.

Að mati sóknaraðila ber varnaraðili ábyrgð á þeim staðhæfingum sem hún setur fram. Jafnvel þó talið verði að henni hafi ekki borið að kanna sannleiksgildi fullyrðinga umbjóðanda síns, hafi henni borið skylda til að taka fram að um væri að ræða skoðanir umbjóðandans en ekki staðreyndir. Stað­­hæfing­arnar séu bornar fram eins og þær séu frá varnaraðila sjálfri komnar. Þá séu ummæli varnaraðila skrifuð af slíkum ofsa að ekki verði annað skilið en að um hennar eigin skoðanir sé að ræða. Þrátt fyrir að varnaraðili beri fyrir sig að ummæli hennar séu skoðanir umbjóðanda hennar, en ekki hennar persónulegu skoðanir, reyni hún ítrekað að færa rök fyrir því að staðhæfingar sem hún setji fram eigi í raun rétt á sér.

Sóknaraðili mótmælir málavaxatalýsingu varnaraðila og lýsingum hennar á högum barna sóknar­aðila í hennar umsjá sem röngum. Sóknaraðili segir varnaraðila reyna að afvegaleiða málið með umfjöllun sinni í greinargerð til nefndarinnar og kveðst telja dómsniðurstöður í málefnum barna hennar óviðkomandi kvörtun til nefndarinnar vegna háttsemi varnaraðila. Hvað sem því líður sé rétt að halda því til haga að sóknaraðila hafi verið dæmd full forsjá beggja barna.

Sóknaraðili leggur fram tölvupóst félagsmálastjóra […] til lögreglu þar sem hún hafi lýst ófaglegum samskiptum varnaraðila við sig. Jafnframt leggur sóknaraðili fram tölvupóst­sam­skipti varnaraðila sem að hennar mati sýna að varnaraðili hafi ítrekað lýst eigin skoðunum í málunum.

Að mati sóknaraðila er ámælisvert að lögmaður taki sér það hlutverk að leiðbeina starfsmanni barnaverndar með þeim hætti sem varnaraðili hafi gert. Hið sama eigi við um þau vinnubrögð varnar­aðila að krefjast þess að barnavernd taki ákvörðun um inntak umgengni sem sóknaraðili telur hafa verið utan valdsviðs varnaraðila gagnvart barninu. Þá tekur sóknaraðili ljóst að þegar starfs­maður barnaverndar hafi ekki hlýtt skipunum varnaraðila hafi hún lýst þeirri persónulegu skoðun sinni að færa ætti málið til starfsmanna barnaverndar í öðru sveitarfélagi. Þá sé það ekki hlutverk lög­manns að koma upplýsingum um meintan óljósan grun lögreglu um að sóknaraðili hafi farið af landi brott, til barnaverndar. Allt þetta sýni að varnaraðili hafi ríkar persónulegar skoðanir á málinu.

Sóknaraðili gerir athugasemd við að varnaraðili rengi frásögn barns af ofbeldi með þeim hætti sem hún gerði. Einnig sé ljóst að varnaraðili hafi ítrekað sakað sóknaraðila um refsiverða hátt­semi. Sóknaraðili kveðst telja að varnaraðili hafi farið langt út fyrir sýnar skyldur sem lögmaður í að gæta hagsmuna umbjóðanda síns. Það sé ekki hlutverk varnaraðila að uppnefna börn sóknar­aðila, saka sóknaraðila um refsiverða háttsemi, kalla frásögn barns af ofbeldi „algjört kjaftæði“, hóta barnavernd því að ráðleggja öðrum umbjóðendum sínum að fremja barnsrán, senda ofsafengna tölvupósta og heimta umgengni við föður sem sætir lögreglurannsókn.

IV.

Varnaraðili kveðst hafa gætt hagsmuna fyrrum eiginmanns sóknaraðila frá upphafi og geti vel skilið að sóknaraðila líki hvorki við sig né sín störf. Hún segir fullyrðingar um fjandsemi sína í garð sóknaraðila og barna hennar alrangar. Varnaraðili kveðst ekkert hafa gert á hlut sóknar­aðila, ekki komið fram með persónulegar ásakanir gegn henni eða sýnt henni dónaskap. Þvert á móti hafi hún komið fram við sóknaraðila af fullri virðingu bæði í riti og framkomu.

Það sem fram komi í samskiptum við barnavernd eða dómstóla um að óttast sé um hag drengs­ins, að sóknaraðili sé ekki andlega heil og drengurinn beri skaða af háttsemi sóknar­aðila sé ekki eigin upplifun varnaraðila. Ekki frekar en að lögmaður sóknaraðila hafi verið að lýsa eigin skoðun þegar hann segi umbjóðanda varnaraðila hafa lagt hendur á sóknaraðila og börnin sem og beitt þau andlegu ofbeldi. Þeir aðilar sem varnaraðili hafi verið í samskiptum við hafi ekki verið í neinum vafa um þetta. Þó varnaraðili komi fram af virðingu við sóknaraðila sé nauðsynlegt að hún geti komið sjónarmiðum umbjóðanda síns að. Hún hafi sjálf engu efnislega bætt við sem ekki hafði þegar komið fram af hálfu umbjóðanda síns.

Varnaraðili lagði fram úrskurð umdæmisráðs sem varnaraðili telur staðfesta þá fullyrðingu umbjóð­anda síns að þroski og velferð drengsins sé í hættu í umsjá sóknaraðila sem og að ekki sé um innistæðulausar fullyrðingar að ræða í samskiptum við barnavernd þar sem bent var á að umbjóð­andi varnaraðila teldi börnin í hættu vegna andlegrar vanheilsu sóknaraðila.

 

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.

Samkvæmt 18. gr. laga um lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Í 1. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til að efla rétt og hrinda órétti. Þá er kveðið á um í 2. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmanna­stéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórn­­mála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanað­komandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.

Samkvæmt 22. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu.

Í 34. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

II.

Varnaraðili fór fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að kvörtun væri óskýr auk þess sem sóknaraðili geti ekki beint kvörtun til nefndarinnar vegna samskipta varnaraðila við þriðja aðila og vegna ummæla hennar um aðra en sóknaraðila. Að mati nefndarinnar er kvörtun nægilega skýr um þá háttsemi sem kvartað er yfir. Í V. kafla siðareglna lögmanna er fjallað um skyldur lögmanns við gagnaðila og gat sóknaraðili sem slíkur beint kvörtun til nefndar­innar á grundvelli 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, taldi hún varnaraðila hafa gert á hlut sinn með háttsemi sem stríddi gegn lögum eða siða­reglum lögmanna.

III.

Kvörtun í máli þessu lýtur að því að varnaraðili hafi í störfum sínum brotið gegn ákvæðum siða­reglna lögmanna með ummælum í tölvupóstum til barnaverndaryfirvalda. Sóknaraðili byggir á því að ummæli varnaraðila hafi verið sett fram af heift og fjandsemi í garð sinn og barna sinna. Þá hafi varnaraðili haft óeðlileg afskipti af meðferð mála barna sóknaraðila hjá barnaverndaryfir­völdum, villt um um fyrir opinberum starfsmönnum og þannig unnið gegn hagsmunum barnanna sem hafi hamlað því að þau gætu sótt þá þjónustu sem þau ættu rétt á. Sóknaraðili telur varnar­aðila hafa hvatt umbjóðanda sinn til tilefnislauss málareksturs gegn sér og til að bera fram til­hæfu­­lausar ásakanir, m.a. hjá lögreglu, auk þess sem varnaraðili hafi sakað sig um refsiverða hátt­semi. Telur hún varnaraðila ekki hafa sýnt sér og börnum sínum þá virðingu og tillitssemi sem henni bar og hafi hún viðhaft háttsemi sem sé í andstöðu ákvæði lögmannalaga og siðareglna lögmanna.

Við rækslu starfa sinna koma lögmenn jafnan fram fyrir hönd sinna umbjóðenda í hagsmuna­gæslu og halda fram þeim sjónarmiðum og úrræðum sem best eru til þess fallin að gæta lögvar­inna hagsmuna þeirra, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Við slíka hagsmuna­gæslu þurfa lög­­menn eftir sem áður að gæta ákvæða siðareglna lögmanna og starfa innan þeirra marka sem þar eru sett, þar á meðal þeirra skyldna gagnvart gagnaðilum sem mælt er fyrir um í V. kafla siða­reglna lögmanna. Þarf háttsemi lögmanna gagnvart gagn­aðilum því að sam­ræmast ákvæðum siða­reglnanna, þótt fyrir liggi að þeir komi fram fyrir hönd umbjóðenda í samskiptum eða annarri hagsmunagæslu gagnvart gagnaðila.

Að mati nefndarinnar var það að benda starfsmanni barnaverndar á dóma­fordæmi, til stuðnings málstað umbjóðanda síns, hluti af eðlilegri hagsmunagæslu varnaraðila fyrir hans hönd. Að sama skapi mátti varnaraðili benda á annmarka á málsmeð­ferð hjá barna­verndar­yfir­völdum sem hún taldi í ljósi sérfræðiþekkingar sinnar að væru fyrir hendi. Þá verða tölvu­póst­samskipti við starfs­menn barnaverndar, þar sem gerðar eru athuga­semdir við starfs­hætti yfir­valda, að mati nefndar­innar ekki taldir fela í sér að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn. Á þetta við um þau ummæli varnaraðila sem vísað er til sem nr. 2, 4, 10 og 12-15 í málavaxtalýsingu hér að framan.

Sóknaraðili kvartar vegna þeirrar háttsemi varnaraðila að hafa farið fram á fjárnám hjá sér vegna dæmds málskostnaðar án þess að hafa sent sóknaraðila reikning eða upplýsingar um kröfuna. Lögmanni ber ekki að senda gagnaðila reikning vegna dæmds málskostnaðar og mátti sóknar­aðila vera ljóst um tilurð kröfunnar sem um ræddi.

Hvað varðar þá háttsemi varnaraðila að rengja frásögn sonar sóknaraðila af ofbeldi telur nefndin það eðlilegan þátt í hagsmunagæslu lögmanns f.h. umbjóðanda síns sem neitar slíkum ásök­unum. Verður að ætla lögmanni rúmt frelsi til þess að koma á framfæri sjónar­miðum umbjóðanda síns sem vill bera af sér slíkar sakir, sbr. tilvitnuð ummæli varnaraðila nr. 11 í málavaxta­lýsingu. Það sama á við um staðhæfingar um refsiverða háttsemi sem umbjóð­andi lögmanns heldur fram að gagnaðili hafi gerst sekur um, sbr. tilvitnuð ummæli varnaraðila nr. 16 í málavaxtalýsingu, og málsatvik sem ljóst má vera að byggi á gögnum máls, sbr. tilvitnuð ummæli varnaraðila nr. 6 og 12 í málavaxtalýsingu.

Að mati nefndarinnar hafa ekki verið færðar sönnur á að varnaraðili hafi í störfum sínum fyrir umbjóðanda sinn gefið opin­berum starfsmönnum rangar upplýsingar, unnið gegn hagsmunum barna sóknar­aðila og hvatt umbjóðanda sinn til tilefnislauss málareksturs og til að bera fram tilhæfulausar ásakanir gegn sóknaraðila.

Ummæli varnaraðila sem kvartað er yfir skiptast í stórum dráttum í tvennt þar sem annars vegar er um að ræða ummæli varnaraðila um barnaverndaryfirvöld og störf þeirra og hins vegar ummæli um sóknaraðila. Hvað fyrrnefndu ummælin varðar vísast til umfjöllunar hér að framan. Á þeim tíma sem ummæli varnaraðila um sóknaraðila voru viðhöfð liggur fyrir að uppi var ólög­mætt ástand í málefnum barns sóknaraðila og umbjóðanda varnaraðila, í trássi við niður­stöðu Lands­réttar, auk þess sem barnavernd hafði viðhaft ámælis­verða stjórnsýslu. Við þær aðstæður verður að ætla lögmanni rúmt málfrelsi og svigrúm til þess að koma á lögmætu ástandi, barninu til verndar. Verða ummæli varnaraðila og orðalag að skoðast í þessu samhengi.

Þrátt fyrir rýmkað málfrelsi lögmanns til þess að koma á framfæri sjónarmiðum umbjóðanda síns ber lögmanni að gæta ákvæða siðareglna lög­manna og þeirra skyldna sem hann ber gagnvart gagn­aðila um að sýna honum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og tillitssemi sem samrýmanleg er hags­munum umbjóð­anda hans. Mátti varnaraðili þannig fjalla um hæfi sóknaraðila til þess að sjá um barn sitt og umbjóðanda varnaraðila og benda á þá hættu sem umbjóðandi hennar taldi stafa að barninu í umsjá sóknaraðila, sbr. tilvitnuð ummæli varnaraðila nr. 1 og 9 í málsatvika­lýsingu. Hvað síðar­nefndu ummælin varðar, auk ummæla sem vísað er til í málsatvikalýsingu nr. 16, verða þau að skoðast í því samhengi sem þau eru sett fram sem var í þeim tilgangi að knýja yfirvöld til aðgerða vegna þess ólögmæta ástands sem uppi var og umbjóðandi varnaraðila taldi óviðunandi. 

Þrátt fyrir að varnaraðili hafi mátt ganga langt í umfjöllun um persónu sóknaraðila, í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru, gekk hún að mati nefndarinnar lengra en henni var heimilt, með gífuryrðum um andlega heilsu sóknaraðila. Nefndin telur það ekki hafa verið í verkahring varnar­aðila að leggja mat á andlega heilsu varnaraðila auk þess sem ummæli varnaraðila eiga sér ekki stoð í þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir nefndina. Að mati nefndarinnar var sú háttsemi varnaraðila að hafa í frammi ummæli um sóknaraðila, sem vísað er til sem nr. 3, 5 og 7-8 í málsatvikalýsingu úrskurðarins, ekki í samræmi við skyldu lögmanns skv. 34. gr. siðareglna lögmanna. Nefndin telur varnaraðila ekki hafa sýnt sóknaraðila þá virðingu og tillitssemi sem henni bar með ummælunum og með þeim hætti hafi hún gert á hlut sóknaraðila, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Er háttsemi varnaraðila að mati nefndarinnar aðfinnsluverð.

Samkvæmt 103. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 tekur dómari mál til dóms að loknum málflutningi. Í 22. gr. siðareglna lögmanna, er kveðið á um að lögmaður skuli kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu. Að mati nefndarinnar er sú háttsemi lögmanns að senda dómara í máli tölvupóst, eftir að mál hefur verið dómtekið eða tekið til efnisúrskurðar, þar sem frekari málsástæður eru bornar fram og flutningi málsins framhaldið af hálfu umbjóðanda lögmanns, ekki í samræmi við fyrrnefnt ákvæði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og ákvæði 22. gr. siðareglna lögmanna. Að áliti nefndar­innar hefur varnaraðili gert á hlut sóknaraðila með fyrrgreindri háttsemi, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Sú háttsemi varnaraðila að senda dómara í máli sóknaraðila tölvupóst þann […], með því efni sem þar kom fram og nánar er lýst í úrskurðinum, er aðfinnsluverð.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, [B] lögmanns, um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað.

Sú háttsemi varnaraðila, [B] lögmanns, sem hún sýndi af sér með eftir­farandi ummæl­um sínum um sóknaraðila, [A], í tölvupóstsamskiptum við barna­verndar­­yfirvöld:

„…móðir er ekki andlega heil…“,

Konan er augljóslega ekki heil á geði og er til alls líkleg. Ætla starfsmenn BVN að hafa það á samviskunni að hafa fullyrt að drengnum sé ekki hætta búin hjá móður og finna hans svo látinn!“,

„…móður sem fullyrða má að er ekki andlega heilbrigð miðað við gögn málsins“,

„…móðir er ekki heil“,

er aðfinnsluverð.

Sú háttsemi varnaraðila, [B] lögmanns, að senda dómara í máli sóknaraðila, [A], tölvu­póst þann […], með því efni sem þar kom fram og nánar er lýst í úrskurði þessum, er aðfinnsluverð.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir