Mál 7 2023
Mál 7/2023
Ár 2023, þriðjudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 7/2023:
A
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 14. mars 2023 kvörtun sóknaraðila, A, gegn varnaraðila, B lögmanni, vegna starfa hans í tengslum við lögskilnað og forsjárdeilur sóknaraðila við fyrrverandi maka sinn.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 28. mars 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 17. mars 2023 2023 ásamt myndbandsupptöku. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila bárust nefndinni 4. apríl 2023 ásamt annarri kvörtun gagnvart varnaraðila vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Varnaraðili fór fram á frávísun síðari kvörtunarinnar. Málin voru tekin til umræðu á fundi nefndarinnar þann 26. apríl 2023 þar sem ákveðið var að sameina þau. Varnaraðili skilaði viðbótarathugasemdum til nefndarinnar þann 16. maí 2023. Sóknaraðila var gefinn kostur á að skila inn viðbótarathugasemdum vegna síðari kvörtunarinnar en þær bárust ekki þrátt fyrir ítrekanir. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
I.
Málsatvik eru þau að sóknaraðili stóð í skilnaði við maka sinn undir lok árs 2022. Varnaraðili gætti hagsmuna makans. Þann 25. nóvember 2022 fór fram fundur á skrifstofu varnaraðila vegna skilnaðarsamnings. Á þeim fundi undirritaði sóknaraðili umboð til handa varnaraðila og jafnframt skilnaðarsamning. Síðar á sama fundi reif sóknaraðili sitt eintak samningsins. Fór að lokum svo að varnaraðili og starfsmenn hans vísuðu sóknaraðila út úr skrifstofum varnaraðila með afli, en aðila greinir á um nákvæm atvik í aðdraganda fundarins, á fundinum og fram að því þegar sóknaraðila var ýtt út af skrifstofunni.
Samkvæmt endurriti úr hjónaskilnaðarbók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu síðan 8. desember 2022 mætti varnaraðili á fund sýslumanns er mál sóknaraðila og makans var tekið fyrir og lagði fram beiðni um skilnað fyrir hönd maka sóknaraðila. Í endurritinu er því lýst að varnaraðili hafi kvaðst mættur fyrir hönd bæði sóknaraðila og maka hans, en að borist hafi tölvupóstur frá sóknaraðila þann 28. nóvember 2022 til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem sóknaraðili hafi afturkallað umboð sitt til varnaraðila. Þá kemur fram í endurritinu að sóknaraðili hafi lagt fram skilnaðarsamninginn dags. 25. nóvember 2022 og að varnaraðili staðfesti samninginn fyrir hönd fyrrverandi eiginkonu sóknaraðila. Í endurritinu er haft eftir varnaraðila að sóknaraðili hafi við undirritun skilnaðarsamningsins á skrifstofu varnaraðila ráðist á maka sinn og því verið handtekinn og fjarlægður af lögreglu. Í athugasemdum til nefndarinnar hefur varnaraðili lýst því sem svo að sóknaraðili hafi ráðist að maka sínum, sem hafi verið tilefni þess að honum var komið út af skrifstofunni.
Í kjölfarið stefndi varnaraðili sóknaraðila fyrir dómstóla fyrir hönd maka sóknaraðila og var málið höfðað þann 8. desember 2022 og þingfest 13. desember sama árs. Sóknaraðili gerir verulegar athugasemdir við háttsemi varnaraðila í sinn garð í aðdraganda fundarins þann 25. nóvember 2022 og í kjölfar hans, þ.m.t. að varnaraðili hafi mætt til sýslumanns og lagt fram skilnaðarsamninginn í nafni sóknaraðila í ljósi þess sem á undan hafði gengið og telur sóknaraðili varnaraðila hafa verið ljóst að umboð hans hafi verið afturkallað strax 25. nóvember 2022 og sóknaraðili hætt við skilnaðarsamninginn. Varnaraðili hafnar lýsingum og kvörtunum sóknaraðila. Undir rekstri málsins fyrir nefndinni lagði varnaraðili fram tilkynningu heimilislæknis sonar sóknaraðila til barnaverndar, þar sem lýst er áliti læknisins á ástandi barnsins og grun hans um hugsanlega kynferðislega háttsemi sóknaraðila í garð barnsins. Varð sú gagnaframlagning til þess að sóknaraðili lagði fram aðra kvörtun til nefndarinnar þar sem kvartað var sérstaklega undan þeirri framlagningu sem sóknaraðili telur brjóta gegn friðhelgi einkalífs síns, gegn trúnaðarskyldum varnaraðila í sinn garð, o.fl. Kveður sóknaraðili tilkynninguna vera ranga auk þess sem framlagning hennar fyrir nefndinni hafi verið til þess eins fallin að sverta mannorð hans og ímynd enda hafi hún ekkert erindi átt undir nefndina vegna þess sem kvartað var undan. Varnaraðili hefur mótmælt því og borið því við að tilkynningin sé nauðsynleg til að upplýsa um þau málsatvik sem leiddu til kvörtunarinnar og atvik henni tengdri.
Skilja verður kvörtun sóknaraðila sem svo að hann krefjist þess að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum samkvæmt 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa boðað sig á fund á skrifstofu varnaraðila meðan hann gætti hagsmuna maka síns. Því kveðst sóknaraðili hafa neitað að verða við en varnaraðili þá hótað að láta annars lögreglu sækja sóknaraðila og færa hann til fundarins. Lýsir sóknaraðili fundinum sem svo að þegar hann hafi mætt á fundinn hafi varnaraðili verið þar ásamt maka sóknaraðila og túlk, tilbúinn með samning á íslensku sem tók til fjárskipta milli hjónanna, forsjár barns þeirra, umgengni og meðlags. Kveður varnaraðili sóknaraðila hafa látið sig undirrita samninginn og umboð varnaraðila til handa. Þannig hafi varnaraðili verið orðinn lögmaður bæði sóknaraðila og makans í tengslum við skilnaðinn. Kveðst varnaraðila hafa snúist hugur eftir undirritun samningsins á meðan hann var enn á skrifstofu varnaraðila og beðið hann um að rífa frumritið af samningnum, auk þess sem hann hafi afturkallað umboð sitt til varnaraðila. Að sögn sóknaraðila hafi varnaraðili neitað að rífa frumritið, reiðst og hent honum út af skrifstofu hans með valdi. Í framhaldinu hafi varnaraðili lagt samninginn fram til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu án þess að láta þess getið að sóknaraðili væri mótfallinn efni samningsins og hefði afturkallað umboðið til varnaraðila. Að sögn sóknaraðila lét varnaraðili þau orð falla að þar sem sóknaraðili væri múslimi væri útilokað fyrir hann að vinna mál gegn makanum fyrir dómi þar sem konan myndi alltaf fá forsjá.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi ekki gætt að heiðri lögmannsstéttarinnar með hegðun og framgöngu í sinn garð sbr. 2. gr. siðareglna lögmanna. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi látið hagsmuni barnsmóður sinnar hafa áhrif á þá ráðgjöf sem varnaraðili veitti honum í andstöðu við 3. gr. siðareglna lögmanna. Þá telur sóknaraðili varnaraðila ekki hafa gætt hagsmuna sinna af einurð sbr. 8. gr. siðareglna lögmanna.
Byggir sóknaraðili á að varnaraðila hafi ekki verið heimilt að gæta bæði hagsmuna hans og barnsmóður hans í forsjárdeilum og skilnaðarmáli þeirra fyrir sýslumanni, enda hafi hagsmunir þeirra rekist á í málinu og sé sú háttsemi varnaraðila í andstöðu við 11. gr. siðareglna lögmanna. Auk þess telur sóknaraðili að varnaraðili ekki hafa sýnt sér tilhlýðilega virðingu og framkomu eftir að hann afturkallaði umboð sitt til hans.
Þá byggir sóknaraðili á því að sú háttsemi varnaraðila að leggja fram til sýslumanns samning sem sóknaraðili hafði beðið hann um að rífa meðan hann sinnti enn hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila, samrýmist ekki góðum lögmannsháttum. Ennfremur byggir sóknaraðili á að varnaraðili hafi mætt fyrir sýslumanni í nafni sóknaraðila, eftir að sóknaraðili hafði afturkallað umboð til hans þann 8. desember 2022 og að sú háttsemi hafi ekki samrýmst góðum lögmannsháttum. Bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi þann sama dag höfðað mál á hendur honum í nafni barnsmóðurinnar, en málið var þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur fimm dögum síðar.
Telur sóknaraðili framgöngu og háttsemi varnaraðila varða við sviptingu lögmannsréttinda eða hið minnsta að varnaraðili verði veitt áminning.
III.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila á hendur honum verði hafnað. Þá gerir varnaraðili kröfu um málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Mótmælir varnaraðili málavöxtum eins og þeir koma fram í kvörtun til nefndarinnar sem röngum, ósönnuðum og villandi.
Lýsir varnaraðili málsatvikum sem svo að þann 25. nóvember 2022 hafi sóknaraðili og maki hans mætt á fund á skrifstofu varnaraðila til að ræða hjónaskilnað þeirra, auk forsjár og umgengni við barn þeirra. Á fundinum hafi sóknaraðili falið varnaraðila að gæta hagsmuna hans og falið honum heimild til þess að ganga frá lögskilnaði á fundi hjá sýslumanni, sem boðaður hafði verið þann 8. desember 2022. Fundurinn hafi gengið erfiðlega þar sem bæði maki sóknaraðila og barn hafi verið hrædd við sóknaraðila. Kveðst varnaraðili hafa ákveðið að aðskilja þau meðan reynt yrði að ná samkomulagi þeirra á milli og að lokum hafi náðst samkomulag um skilnaðarkjör sem bæði sóknaraðili og maki hans hafi undirritað. Að sögn varnaraðila missti sóknaraðili stjórn á skapi sínu í framhaldi þess og réðist að maka sínum og barni með hótunum, svívirðingum og ofbeldi og reif í sundur afrit af þeim pappírum sem honum höfðu verið fengnir. Kveðst varnaraðili hafa þurft að bera sóknaraðila út af skrifstofunni og láta lögreglu hirða hann. Að sögn varnaraðila kærði maki sóknaraðila ofbeldið og hótanirnar til lögreglu auk þess sem heimilislæknir barnsins hafi kært grun um kynferðisofbeldi gegn barninu af hendi sóknaraðila til lögreglu. Þessu til stuðnings lagði varnaraðili fram til nefndarinnar tilkynningu læknis til barnaverndar þar sem fjallað er m.a. um mat læknis á líðan barns, lýsingum sem hann hefur eftir barninu til stuðnings því að faðir hafi snert það á óviðeigandi hátt o.fl. Að mati varnaraðila setur þetta ótta maka sóknaraðila og barnsins við hann á fundinum í ákveðið samhengi.
Kveðst varnaraðili síðan ekkert hafa frétt af sóknaraðila fyrr en hann mætti í tíma til sýslumannsins þann 8. desember 2022 til að ganga frá lögskilnaði sóknaraðila og makans samkvæmt þeim umboðum sem honum höfðu verið falin. Þar hafi fulltrúi sýslumanns upplýst varnaraðila um bréf sóknaraðila þess efnis að umboð til hans væri afturkallað. Vegna þess hafi málinu verið frestað af sýslumanni til fyrirtöku með sóknaraðila. Í framhaldinu hafi málið farið fyrir dómstóla.
Fjallar varnaraðili um kvörtun sóknaraðila lið fyrir lið og áréttar höfnun sína til þeirra lýsinga sem þar koma fram og þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Þó kveður varnaraðili það vera að hluta til rétt að hann hafi hent sóknaraðila út af skrifstofu sinni með valdi, en hið rétta líkt og framar greinir sé að sóknaraðili hafi verið borinn út af skrifstofu varnaraðila af varnaraðila og öðrum starfsmönnum stofunnar, eftir að hann reyndi að ráðast að maka sínum og barni. Kveður varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki verið beittur meira afli en til þurfti til þess að koma honum út af skrifstofunni og koma í veg fyrir að hann beitti fjölskylduna sína ofbeldi. Þessu til stuðnings lagði varnaraðili fram myndskeið úr öryggismyndavél fyrir utan skrifstofuna þar sem sjá má sóknaraðila ýtt af skrifstofunni er hann streist á móti. Þá áréttar varnaraðili að hann hafi enga hugmynd haft um að sóknaraðili væri mótfallinn efni skilnaðarsamningsins þegar hann lagði hann fram til sýslumanns þann 8. desember 2022 né að umboð hans hafi verið afturkallað, fyrr en á fundinum hjá sýslumanni.
Áréttar varnaraðili að hann hafi með engum hætti gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá áréttar varnaraðili kröfu sína um málskostnað fyrir nefndinni og styður hana tímaskýrslu og útlögðum kostnaði.
IV.
Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar fer hann lið fyrir lið yfir margt af því sem varnaraðili hafði fjallað um og andmælir. Áréttar sóknaraðili að hann hafi undirritað umboðið til handa varnaraðila. Jafnframt áréttar sóknaraðili að hann hafi rifið þá pappíra sem hann fékk afrit af á fundinum og beðið varnaraðila að rífa frumritið af samningnum. Þá mótmælir sóknaraðili því að varnaraðila hafi ekki verið ljóst að hann hafi afturkallað umboð sitt til hans strax á fundinum. Vísar sóknaraðili því til stuðnings til stefnunnar sem varnaraðili ritaði fyrir hönd maka sóknaraðila vegna skilnaðarins, þar sem fram kemur að sóknaraðili hafi rifið í sundur pappíra sem honum voru fengnir. Bendir sóknaraðili á að á meðal þeirra pappíra hafi verið umboðið sem hann veitti varnaraðila og því hafi varnaraðila mátt vera ljóst að hann hefði ekki umboð til þess að koma fram fyrir sína hönd eftir að umboðið hafði verið rifið. Þá vísar sóknaraðili til framangreindrar stefnu til nánari stuðnings málatilbúnaði sínum og til endurritsins úr sifjamálabók Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til stuðnings því að varnaraðili hafi lagt fram samninginn á fundi sýslumanns, án þess að láta þess getið að sóknaraðili væri mótfallinn efni samningsins og hefði afturkallað umboð hans.
Áréttar sóknaraðili að öðru leyti upphaflega kvörtun til nefndarinnar og kröfur sem þar voru framsettar.
Þá fjallar sóknaraðili sérstaklega um gagnaframlagningu varnaraðila til nefndarinnar, einkum tilkynningar frá heimilislækni sonar sóknaraðilar til barnaverndar, um grun um kynferðisofbeldi af hálfu sóknaraðila gagnvart syninum. Kveðst sóknaraðili hafa neitað þessu ásökunum auk þess sem sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi haldið því fram að heimilislæknirinn hafi kært sig til lögreglu, þegar glöggt megi sjá af fylgiskjalinu að það sé tilkynning til barnaverndar.
Gerir sóknaraðili alvarlegar athugasemdir við framlagningu tilkynningarinnar. Byggir sóknaraðili á að þar sé um að ræða mjög viðkvæmar persónulegar upplýsingar sem séu kvörtun málsins óviðkomandi. Þess utan séu umræddar ásakanir rangar og ósannaðar. Telur sóknaraðili varnaraðila hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs síns og lagt fram skjalið í þeim eina tilgangi að sverta persónu sína og mannorð. Telur sóknaraðili framlagninguna til úrskurðarnefndar lögmanna af hálfu varnaraðila og þess lögmanns sem ritaði greinargerðina fyrir hans hönd til nefndarinnar, fela í sér brot gegn almennum hegningarlögum. Þá telur sóknaraðili varnaraðila og lögmanninn sem ritaði greinargerðina hans til nefndarinnar í málinu hafa gerst brotlega við lögmannalög nr. 77/1998, einkum 22. gr. um þagnarskyldu. Jafnframt telur sóknaraðili þá hafa gerst brotlega gegn 17., 34. og 35. gr. siðareglna lögmanna.
Loks telur sóknaraðili miðlun umrædds skjals hafa falið í sér miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga sinna og sú miðlun verið í andstöðu við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
Samhliða viðbótarathugasemdum til nefndarinnar skilaði sóknaraðili annarri kvörtun til nefndarinnar vegna ofangreindrar framlagningar af hálfu varnaraðila á tilkynningu heimilislæknisins til barnaverndar vegna sóknaraðila. Kvörtunin styðst sömu sjónarmiðum og rökum og ofar greinir. Bendir sóknaraðili á að varnaraðili fól öðrum lögmanni að svara fyrri kvörtuninni til nefndarinnar og koma fram fyrir sína hönd vegna málsins og því beinist kvörtunin gagnvart varnaraðila. Gerir sóknaraðili þá kröfu að varnaraðila verði gert að sæta viðeigandi agaviðurlögum skv. 27. gr. laga nr. 77/1998 auk þess sem hann gerir kröfu um málskostnað með vísan til tímaskýrslu lögmanns síns sem lögð er fram til nefndarinnar.
V.
Í viðbótarathugasemdum varnaraðila til nefndarinnar áréttar hann kröfur sínar til nefndarinnar og fyrri mótmæli við málatilbúnað sóknaraðila. Þá gerir varnaraðili alvarlegar athugasemdir við þær meintu sannanir sem sóknaraðili vísar til en varnaraðili telur þær í engu sanna málatilbúnað sóknaraðila.
Áréttar varnaraðili að hann hafi aldrei látið sóknaraðila undirrita umboð sér til handa og mótmælir hinu gagnstæða sem röngu og ósönnuðu. Með sama hætti mótmælir varnaraðili því aftur að hafa vitað eða átt vita að sóknaraðili hefði hætt við samninginn eða afturkallað umboðið á þeim tíma sem sóknaraðili heldur fram, enda hafi sóknaraðili að sögn varnaraðila, aldrei haft samband við sig til að afturkalla umboðið eða að láta vita að hann væri hættur við samninginn.
Vísar varnaraðili til meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga fyrir alla samningsaðila. Vísar varnaraðili til þess að sú háttsemi annars samningsaðila að eiga við sitt eintak samningsins breyti engu um gildi viðkomandi samnings. Byggir varnaraðili á því að hafi sóknaraðili ætlað að hætta við samninginn hafi honum borið að fara eftir almennum reglum sem gilda um samninga svo sem með yfirlýsingu um riftun samkomulagsins en það hafi sóknaraðili ekki gert. Með sama hætti hafi sóknaraðili aldrei upplýst varnaraðila um afturköllun umboðsins svo sem með því að senda tölvupóst á varnaraðila líkt og sóknaraðili gerði til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Óháð því vísar varnaraðili til þess að ekkert hafi verið gert á grundvelli umboðsins enda hafi fulltrúi sýslumanns upplýst varnaraðila um að sóknaraðili hafi afturkallað umboðið við fyrirtöku málsins hjá embættinu. Í kjölfarið hafi varnaraðili stefnt sóknaraðila fyrir hönd makans.
Varðandi viðbótarkvörtun sóknaraðila vísar varnaraðili til þess að til stimpinga hafi komið þegar sonur sóknaraðila neitaði að vera í nálægð við sóknaraðila, þegar aðilar hittust á skrifstofu varnaraðila til þess að ganga frá skilnaðarsamkomulagi. Kveður varnaraðili það hafa gerst eftir að sóknaraðili hótaði bæði maka sínum og syni alvarlegu líkamlegu ofbeldi í votta viðurvist. Í framhaldi þess kveður varnaraðili sóknaraðila hafa ruðst inn á skrifstofu varnaraðila þar sem sonur hans og maki voru, hugsanlega í þeim tilgangi að gera alvöru úr hótunum sínum.
Telur varnaraðili umrætt atvik og þá atburði sem leiddu til þessarar atburðarásar, hafa átt erindi við úrskurðarnefndina, enda sett öll atvik málsins í ákveðið samhengi. Byggir varnaraðili á því að yrði lögmönnum meinað að leggja fram allar upplýsingar um þau atvik sem kvartað er undan til nefndarinnar, gætu þeir illa varið sig. Vísar varnaraðili í því samhengi sérstaklega til c-liðar 17. gr. siðareglna lögmanna, sem varðar undanþágu frá þagnarskyldu í ágreiningsmáli milli lögmanns og skjólstæðings, m.a. fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Þá vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi ekki verið skjólstæðingur hans lengur en til 25. nóvember 2022 eða 8. desember 2022, eftir því hvort miða skuli við þá dagsetningu sem sóknaraðili missti stjórn á skapi sínu á skrifstofu hans eða þann dag sem fyrirtakan fór fram hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Bendir varnaraðili á að þær upplýsingar sem sóknaraðili haldi fram að hafi falið í sér brot á trúnaðarskyldum varnaraðila gagnvart honum, hafi fyrst komið til vitneskju varnaraðila í mars þessa árs, vegna annarra starfa varnaraðila, þannig að ómögulegt sé að varnaraðili hafi brotið trúnað gagnvart sóknaraðila, sem var ekki skjólstæðingur hans á þeim tíma.
Þá hafnar varnaraðili því hafa gerst brotlegur við 34. gr. siðareglna lögmanna. Telur varnaraðili sig hafa sýnt sóknaraðila að fullu þá virðingu sem hann hafi áunnið sér í samskiptum sínum við varnaraðila og starfsmenn hans, en jafnframt í samskiptum og með háttsemi sinni gagnvart skjólstæðingi varnaraðila og barni þeirra, sem leiddi til þess að kalla varð til lögreglu sem tók skýrslur af starfsmönnum varnaraðila vegna atviksins.
Þá hafnar varnaraðili því að hafa gerst brotlegur við 2. mgr. 35. gr. siðareglna lögmanna einnig. Vísar varnaraðili til þess að engin gögn liggi fyrir í málinu sem renni stoðum undir það að hann hafi beitt eða hótað að beita sóknaraðila ótilhlýðilegum þvingunum eða að uppljóstra um atferli sem valdið gæti honum hneykslisspjöllum. Kveður varnaraðili hafa talið rétt að úrskurðarnefndin fengi allar nauðsynlegar upplýsingar um það atvik sem varð til þess að mál þetta fór af stað. Hafi slíkt leitt til hneykslisspjalla fyrir sóknaraðila fyrir nefndinni þá sé orsök spjallanna hegðun sóknaraðila og möguleg lögbrot, ekki hátterni eða hegðan varnaraðila.
Mótmælir varnaraðili öllum fullyrðingum sóknaraðila um meint brot á hinum ýmsu lögum sem röngum, órökstuddum og ósönnuðum.
Bendir varnaraðili á að sóknaraðili hóf sjálfur mál þetta og verður hann því að þola allar staðreyndir málsins, ekki aðeins þær sem upphefji hans málstað. Bendir varnaraðili á að nefndin verði að hafa allar forsendur og staðreyndir til að geta úrskurðað um málið, ekki einungis þær upplýsingar sem sóknaraðila þóknast best.
Telur varnaraðili kvartanir sóknaraðila fela í sér tilraun til að beita sig þvingunum til að hætta afskiptum af málum honum tengdum. Telur varnaraðili varhugavert að eiga veita sér aðfinnslur eða áminningar í slíkri aðstöðu enda myndi af því leiða fordæmi sem hefði afdrifarík áhrif á störf lögmanna.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður ekki aðstoða eða fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli ef hagsmunir þeirra rekast á, eða fara með hagsmuni skjólstæðings ef hagsmunir skjólstæðingsins rekast á við hagsmuni lögmannsins, nema ákvæði 5. mgr. eigi við. Hið sama gildir ef veruleg hætta er á hagsmunaárekstrum.
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður jafnframt varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir eru, fá ekki samrýmst eða hætta getur verið á slíku.
Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður ekki fara með hagsmuni skjólstæðings þannig að fari í bága við trúnaðarskyldu hans gagnvart fyrrverandi skjólstæðingi.
Samkvæmt 4. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni á hverjum tíma skylt að leggja mat á hættu á hagsmunaárekstrum.
Samkvæmt 5. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni heimilt að aðstoða eða fara með hagsmuni skjólstæðinga þrátt fyrir hagsmunaárekstra eða mögulega hagsmunaárekstra í skilningi 1. mgr. ef:
(a) skjólstæðingarnir hafa gefið upplýst samþykki sitt; og
(b) gerðar eru tilhlýðilegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að brotið sé gegn trúnaðarskyldu lögmannsins; og
(c) hagsmunaárekstrar eða mögulegir hagsmunaárekstrar komi ekki í veg fyrir að lögmaðurinn gæti hagsmuna skjólstæðinganna af einurð.
Ákvæði þessarar málsgreinar eiga ekki við um hagsmunagæslu í tengslum við rekstur ágreiningsmála fyrir dómstólum, gerðardómi, stjórnvöldum, úrskurðarnefnd lögmanna eða öðrum úrskurðaraðilum.
Samkvæmt 6. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án tafar gera ráðstafanir til úrbóta ef upp koma hagsmunaárekstrar í störfum lögmanns eða skilyrði 5. mgr. eru ekki lengur fyrir hendi, eftir atvikum með því að láta af viðkomandi störfum fyrir þá skjólstæðinga sem í hlut eiga.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. siðareglna lögmanna er lögmaður bundinn þagnarskyldu gagnvart skjólstæðingi sínum vegna starfa sinna. Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. gildir þagnarskyldan ótímabundið. Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. eru allar upplýsingar um skjólstæðing eða málefni hans sem lögmaður tekur við eða verður áskynja í starfi eru háðar þagnarskyldu óháð því hvaðan upplýsingarnar eru komnar.
Samkvæmt c-lið 5. mgr. 17. gr. siðareglna lögmanna er lögmanni heimilt að miðla upplýsingum sem ella væru háðar þagnarskyldu í ágreiningsmálum milli lögmanns og skjólstæðings enda séu upplýsingarnar nauðsynlegar málarekstrinum. Með málarekstri er hér átt við ágreiningsmál sem rekin eru fyrir dómstólum, gerðardómi, stjórnvöldum, úrskurðarnefnd lögmanna eða öðrum úrskurðaraðilum.
Samkvæmt 34. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.
II.
Eins og fram kemur í umfjöllun um málsatvik og málsástæður að framan, lýtur kvörtun í málinu annars vegar að háttsemi varnaraðila í tengslum við fyrrnefndan skilnaðarsamning, einkum þá hvort varnaraðila hafi verið óheimilt að leggja skilnaðarsamningin fram hjá sýslumanni þann 8. desember 2022 í ljósi atvika allra frá fundinum þann 25. nóvember 2022 og hvort varnaraðili hafi mátt halda því fram að hann væri mættur í umboði sóknaraðila á fund sýslumanns til að staðfesta samninginn af hans hálfu. Hins vegar þeirri háttsemi varnaraðila að leggja fram til nefndarinnar ásamt greinargerð sinni vegna fyrri kvörtunar sóknaraðila, tilkynningu heimilislæknis sonar sóknaraðila til barnaverndar um hugsanlegt kynferðisbrot sóknaraðila gegn barninu.
Af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila má ráða að varnaraðili hafi tekið að sér að semja sameiginlega skilnaðarsamning fyrir sóknaraðila og varnaraðila. Ljóst er að maki sóknaraðila hafði fyrst leitað til varnaraðila. Mættu báðir aðilar á fund varnaraðila þar sem undirritaður var skilnaðarsamningur og sóknaraðili ku hafa undirritað umboð til handa varnaraðila til að geta lagt skilnaðarsamninginn fram til sýslumanns fyrir hans hönd og staðfest. Slíkt undirritað umboð hefur ekki verið lagt fyrir nefndina en virðist óumdeilt milli aðila að slíku hafi verið til að skipta. Var því varnaraðili á tíma bæði með umboð sóknaraðila og maka hans. Eins og atvikum öllum var háttað telur nefndin að varnaraðila hafi mátt vera ljóst að hætta væri á hagsmunaárekstrum. Við slíkar aðstæður má lögmaður ekki taka að sér skjólstæðing nema þá ef skjólstæðingarnir hafa gefið upplýst samþykki sitt, og gerðar eru tilhlýðilegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að brotið sé gegn trúnaðarskyldu lögmannsins og hagsmunaárekstrar eða mögulegir hagsmunaárekstrar komi ekki í veg fyrir að lögmaðurinn gæti hagsmuna skjólstæðinganna af einurð, sbr. 1. og 5. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna. Af gögnum málsins og málatilbúnaði aðila verður ekki séð að varnaraðili hafi upplýst sóknaraðila um hættuna á hagsmunaárekstri þegar hann fékk umboðið.
Aðila greinir á um atvik þann 25. nóvember 2022 og 8. desember 2022, svo sem um hvort sóknaraðili hafi afturkallað umboðið til varnaraðila strax á fundinum þann 25. nóvember eða ekki. Fyrir liggur þó að varnaraðili sendi Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu tölvupóst þann 28. nóvember 2022 þar sem tilkynnt var um að umboð varnaraðila væri afturkallað. Að mati nefndarinnar verður að telja að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að senda varnaraðila sambærilega tilkynningu eða með öðrum hætti til að tryggja það að honum væri kunnugt um afturköllun umboðsins. Þrátt fyrir að ósannað sé að sóknaraðili hafi afturkallað umboð sitt til varnaraðila með formlegum hætti fyrr en með bréfi sínu til sýslumanns, telur nefndin að varnaraðila hafi mátt vera ljóst strax þegar fundi aðilanna lauk þann 25. nóvember 2022 að kominn væri upp slík hætta á hagsmunaárekstrum milli tveggja skjólstæðinga varnaraðila, bæði sóknaraðila og maka hans, að ómögulegt var fyrir hann að sinna hagsmunagæslu fyrir þá báða. Vísast meðal annars til þess sem ágreiningslaust er í málinu, að sóknaraðili hafi rifið þá pappíra sem sóknaraðila voru fengnir á fundinum hjá varnaraðila, þeirra á meðal skilnaðarsamninginn og honum verið vísað á dyr með valdi af hálfu varnaraðila og starfsmanna hans. En varnaraðili hefur borið því við að ástæða þess að sóknaraðila hafi verið vísað á dyr hafi verið sú að sóknaraðili reyndi að ráðast að maka sínum, sem er skjólstæðingur varnaraðila og barni þeirra.
Samkvæmt 6. mgr. 11. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni sem tekið hefur að sér hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga sem hætta er á að eigi hagsmuni sem skarist, að gera án tafar ráðstafanir til úrbóta ef upp koma hagsmunaárekstrar í störfum lögmanns eða skilyrði 5. mgr. eru ekki lengur fyrir hendi. Eftir atvikum með því að láta af viðkomandi störfum fyrir þá skjólstæðinga sem í hlut eiga. Telur nefndin eins og atvikum öllum var háttað hafi varnaraðili með réttu átt að efast um umboð sitt til að starfa áfram að málinu fyrir sóknaraðila. Að mati nefndarinnar bar varnaraðila að hætta tafarlaust störfum fyrir annað hvort sóknaraðila eða maka hans eða gera aðrar ráðstafanir til úrbóta ef nokkrar voru tiltækar til að leysa úr bersýnilegum hagsmunaárekstri aðilanna. Þá hefði varnaraðila að lágmarki borið að gera fulltrúa sýslumanns grein fyrir þeirri hættu á að sóknaraðili vildi ekki una skilnaðarsamningnum þegar hann mætti til fundar sýslumanns, hygðist hann enn fara með hagsmunagæslu fyrir báða aðila líkt og gögn málsins sýna að til hafi staðið af hans hálfu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi gert neinar ráðstafanir til að gæta hagsmuna sóknaraðila vegna hættu á hagsmunaárekstri, né gengið úr skugga um að hann væri ennþá samþykkur þeirri ráðstöfun að leggja samninginn fram til Sýslumanns til samþykktar. Sú háttsemi varnaraðila að ætla að leggja fram og staðfesta skilnaðarsamninginn fyrir sýslumanni fyrir hönd sóknaraðila eins og atvikum var háttað, fór að mati nefndarinnar í andstöðu við bannreglu siðareglna lögmanna gegn því að lögmaður taki að sér hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga í sama máli sem eiga skarandi hagsmuni, eða eftir atvikum skyldum hans til að gera viðeigandi úrbætur eftir að honum varð sá hagsmunaárekstur ljós. Telst sú háttsemi varnaraðila ekki samrýmast góðum lögmannsháttum sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Síðari kvörtun sóknaraðila lýtur að framlagningu áðurnefndrar tilkynningar heimilislæknis til barnaverndar til nefndarinnar, en sú tilkynning er tilkomin löngu eftir að varnaraðila var kunnugt um að hagsmunagæslu hans fyrir sóknaraðila væri lokið. Að mati nefndarinnar var enginn sýnilegur tilgangur með framlagningunni í málinu. Skjalið var ekki til þess fallið að upplýsa nánar um efni kvörtunarinnar sem snéri að hugsanlegum hagsmunaárekstri í störfum varnaraðila og heimildar til að mæta fyrir hans hönd og leggja fram áðurnefndan skilnaðarsamning til samþykktar hjá sýslumanni. Sú háttsemi varnaraðila að leggja tilkynninguna, sem inniheldur viðkvæmar persónuupplýsingar barns og sóknaraðila sjálfs, fram í málinu, án tilefnis eða nauðsynjar, samrýmist að mati nefndarinnar ekki þeirri tillitssemi sem lögmönnum ber að sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna í skilningi 34. gr. siðareglna lögmanna. Telst sú háttsemi varnaraðila ekki samrýmast góðum lögmannsháttum sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Að framanvirtu er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Með þeim brotum sem að ofan er lýst hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
Að öðru leyti en framan greinir telur nefndin ósannað að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með annarri háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Báðir aðilar gerðu kröfu um málskostnað vegna reksturs þessa máls fyrir nefndinni sbr. 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn sbr. einnig 3. mgr. 15. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Eftir úrslitum þessa máls verður fallist á að rétt sé að dæma sóknaraðila málskostnað úr hendi varnaraðila að fjárhæð 201.500 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, B lögmaður, sætir áminningu.
Varnaraðili, B lögmaður, greiði sóknaraðila, A, fjárhæð 201.500 kr. í málskostnað.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Kristinn Bjarnason, formaður
Einar Gautur Steingrímsson
Valborg Þ. Snævarr
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Arnar Vilhjálmur Arnarsson