Mál 32 2023
Mál 32/2023
Ár 2024, fimmtudaginn 7. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 32/2023:
A lögmaður
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. ágúst 2023 kvörtun sóknaraðila, A lögmanni, gegn B lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns gagnaðila umbjóðanda sóknaraðila.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 9. ágúst 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 15. ágúst 2023. Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri viðbótargreinargerð og barst hún þann 11. september 2023. Viðbótargreinargerð varnaraðila barst þann 14. september 2023. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.
Málsatvik og málsástæður
Kvörtun þessari var beint til nefndarinnar í kjölfar úrskurðar hennar í máli 35/2022 þar sem umbjóðandi varnaraðila, í því máli sem nú er til umfjöllunar, kvartaði vegna háttsemi fulltrúa sóknaraðila við gagnaöflun um persónuleg fjármál umbjóðandans í tengslum við ágreining hennar og fyrrum eiginmanns hennar um fjárskipti. Með úrskurði í fyrrgreindu máli, dags. 14. júní 2023, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að háttsemi fulltrúa sóknaraðila, sem sóknaraðili bæri ábyrgð á, að óska eftir upplýsingum um persónuleg fjárhagsmál umbjóðenda varnaraðila, án vitundar eða samþykkis hennar, væri aðfinnsluverð.
I.
Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.
Sóknaraðili kveðst hafa sent umbjóðanda varnaraðila kröfubréf þann 24. maí 2022 þar sem óskað var eftir samningum um kröfu umbjóðanda hans gegn henni og lögð áhersla á að leysa málið með samkomulagi. Varnaraðili hafi hafnað kröfunni og sáttaumleitan fyrir hönd umbjóðanda síns með bréfi, dags. 8. júlí 2022.
Eftir að fulltrúi sóknaraðila hafði aflað tiltekinna upplýsinga kveðst sóknaraðili hafa sent varnaraðila annað bréf hinn 20. júlí 2022 og krafist greiðslu í samræmi við upplýsingarnar. Varnaraðili hafi staðfest móttöku bréfsins sama dag. Þrátt fyrir að umbjóðandi sóknaraðila hafi verið tilbúinn að slá verulega af kröfum sínum hafi varnaraðili ekki svarað þessu bréfi sóknaraðila. Þess í stað hafi fulltrúa sóknaraðila borist tölvupóstur frá varnaraðila þann 2. ágúst 2022 þar sem fullyrt hafi verið að fulltrúinn hefði aflað gagna í andstöðu við lög fullmeðvitaður um mögulegar afleiðingar. Orðalagið hafi komið fulltrúanum í opna skjöldu og var að sögn sóknaraðila til þess fallið að valda fulltrúanum álitsspjöllum. Sóknaraðili kveður fulltrúa sinn hafa svarað varnaraðila samdægurs þess efnis að erindinu yrði svarað síðar sökum sumarleyfa. Að loknu sumarleyfi sínu hafi fulltrúinn fylgt erindinu eftir með tölvupósti til varnaraðila þar sem hann hafi skýrt athæfi sitt og beðist afsökunar á framferði sínu auk þess sem hann hafi fullvissað varnaraðila um að gögnunum hefði verið fargað. Þessum pósti hafi varnaraðili ekki svarað og hafi fulltrúinn talið að afsökunarbeiðnin hafi verið tekin til greina.
Sóknaraðili segist hafa innt varnaraðila eftir því þann 18. október 2022 hvort hann gæti tekið á móti stefnu fyrir umbjóðanda sinn og samþykkt varnarþing í Reykjavík. Þessum pósti hafi varnaraðili ekki svarað þó full ástæða hafi verið til og sú ráðstöfun hefði verið hagkvæmari fyrir umbjóðendur þeirra þar sem báðir lögmenn séu með starfsstöð í Reykjavík. Eftir að mál umbjóðanda sóknaraðila hafi verið þingfest í héraðsdómi Suðurlands hafi varnaraðili beint kvörtun í máli nr. 35/2022 til nefndarinnar þar sem vísað var til þess að fulltrúi sóknaraðila hafi aflað gagna með saknæmum og ólögmætum hætti. Undir rekstri málsins fyrir nefndinni hafi sóknaraðili vakið athygli á framferði og svarleysi varnaraðila en sá málatilbúnaður ekki fengið efnislega umfjöllun.
Kvartað er yfir háttsemi varnaraðila í fjórum liðum. Í fyrsta lagi vegna þess að hafa ekki svarað bréfi sóknaraðila frá [24]. júlí 2022, þrátt fyrir móttöku þess sama dag, þar sem umbjóðandi sóknaraðila hafi m.a. verið tilbúinn að falla frá kröfu sinni að hluta til þess að ná samkomulagi við umbjóðanda varnaraðila. Í öðru lagi vegna þess að hafa ekki svarað tölvupósti fulltrúa sóknaraðila frá 16. ágúst 2022 þar sem skýringar voru veittar á gagnaöflun hans, afsökunar beðist og tilkynnt um förgun gagna. Í þriðja lagi vegna þess að hafa ekki svarað skýrri ósk sóknaraðila frá 18. október 2022 um að taka á móti stefnu og samþykkja varnarþing í Reykjavík með tilheyrandi hagræðingu fyrir lögmenn og skjólstæðinga. Og í fjórða lagi vegna þess að hafa fullyrt að fulltrúi sóknaraðila hafi gegn betri vitund brotið lög með saknæmum og ólögmætum hætti. Að mati sóknaraðila voru þau stóryrði langt umfram tilefni og í engu samræmi við kæruefni og niðurstöðu nefndarinnar í máli 35/2022.
Sóknaraðili byggir á því að framferði varnaraðila feli í sér óvirðingu og sé lítt til eftirbreytni um góða lögmannshætti og góð samskipti á milli lögmanna. Sóknaraðili vísar til 41. gr. siðareglna lögmanna sem kveður á um að lögmaður skuli án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum sem honum berast í lögmannsstarfi. Hafi ekki verið unnt að svara erindum sóknaraðila hafi varnaraðila borið að tilkynna það sérstaklega og að þeim yrði svarað síðar. Það hafi hann ekki gert.
Þá telur sóknaraðili að sú háttsemi varnaraðila að alhæfa um lögbrot fulltrúa sóknaraðila hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 25. gr. siðareglna lögmanna um þá virðingu sem lögmönnum er skylt að viðhafa sín á milli. Orð varnaraðila um að fulltrúi sóknaraðila hafi „sannanlega gegn betri vitund“ sótt gögn með „saknæmum og ólögmætum hætti“ voru að mati sóknaraðila í engu samræmi við efni og niðurstöðu í máli nefndarinnar nr. 35/2022.
Sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á hlut sinn með háttsemi sem stríði bæði gegn lögum nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna. Vinnubrögð af þessu tagi hljóti að teljast aðfinnsluverð og ekki í samræmi við góða lögmannshætti en skv. 44. gr. siðareglna lögmanna skuli ekki skoða siðareglurnar sem tæmandi taldar um góða lögmannshætti.
Sóknaraðili gerir þá kröfu að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum að mati nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila í samræmi við málsmeðferðarreglur nefndarinnar.
Sóknaraðili gerir kröfu um að tveir nefndarmenn víki sæti vegna vanhæfis í málinu.
II.
Varnaraðili mótmælir málsatvikalýsingu sóknaraðila og segir fjölda rangfærslna þar að finna. Þá mótmælir varnaraðili því að hafa látið falla tiltekin orð og setningar sem sóknaraðili heldur fram og bendir á að skýrar tilvísanir hvað þetta varðar séu takmarkaðar í kvörtun sóknaraðila og hann verði að bera hallann af því.
Varnaraðili vísar til þess að niðurstaða í máli nefndarinnar nr. 35/2022 sé skýr um að háttsemi fulltrúa varnaraðila við gagnaöflun í máli sóknaraðila hafi verið aðfinnsluverð. Varnaraðili hafi verið lögmaður sóknaraðila í málinu og hafi orðið ljóst við meðferð málsins fyrir nefndinni að sóknaraðili hafi ítrekað virt að vettugi 3. mgr. 8 gr. siðareglna lögmanna um að lögmaður skuli ekki samkenna sig skjólstæðingi sínum og jafnframt skýlausan rétt lögmanns til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.
Að mati varnaraðila hefur sóknaraðili nú persónugert deiluna enn frekar og telur varnaraðili kvörtunarefnið fráleitt. Þá telur varnaraðili það enga tilviljun að sóknaraðili hafi fyrst nú, um ári eftir að umkvörtuð háttsemi átti sér stað, og eftir að úrskurður nefndarinnar í máli 35/2022 lá fyrir, séð ástæðu til þess að beina kvörtun til nefndarinnar.
Á sömu nótum sé svo haldið áfram í því máli sem nú er til umfjöllunar, deilan persónugerð enn frekar og kvörtunarefnið á þeim nótum að það sé hrein óvirðing við tíma þeirra sem að málinu koma og þurfa að verja kröftum sínum í umfjöllunarefnið. Tilgangurinn sé augljós og beri að skoða kvörtunina í því samhengi.
Í fyrsta lagi lýtur kvörtun að því að varnaraðili hafi ekki svarað bréfi sóknaraðila, dags. 24. júlí 2022. Varnaraðili bendir á að ekki sé um neitt bréf að ræða frá sóknaraðila, dags. 24. júlí 2022 og ekkert bréf dagsett þann dag hafi fylgt gögnum málsins. Sé þarna um misritun að ræða og átt við bréf, dags. 20. júlí 2022, liggi fyrir að varnaraðili hafi staðfest móttöku bréfsins samdægurs. Að mati varnaraðila hvíldi engin frekari skylda á honum til svörunar bréfsins, hvorki að svara því efnislega eða ítarlega. Varnaraðili kveður umbjóðanda sinn einfaldlega ekki hafa talið ástæðu til að fjalla frekar um efni bréfsins eða svara því efnislega og því hafi svarið takmarkast við staðfestingu á móttöku erindisins.
Varnaraðili segir engu breyta þó fulltrúi sóknaraðila hafi skorað á umbjóðanda varnaraðila að verða við kröfum umbjóðanda síns eða semja um greiðslu. Umbjóðandi varnaraðila hafi átt skýran rétt til þess að kjósa að svara áskorun umbjóðanda sóknaraðila ekki efnislega, verða ekki við kröfum hans og semja ekki um greiðslu enda hafi verið um að ræða kröfur sem umbjóðandi sóknaraðila taldi sér ekki skylt að greiða. Í slíkum tilvikum sé ekki hægt að ætlast til þess að lögmaður svari efnislega erindi sem umbjóðandi hans telur ekki ástæðu til að svara, með tilheyrandi kostnaði fyrir umbjóðandann.
Varnaraðili bendir enn fremur á að á þessum tímapunkti hafi umbjóðanda hans orðið ljóst að fulltrúi sóknaraðila hafi aflað þeirra gagna sem hann hafði krafið umbjóðanda varnaraðila um, með þeim hætti sem fjallað var um í kvörtun í máli 35/2022. Það hafi styrkt þá afstöðu umbjóðanda varnaraðila að standa ekki í frekari bréfaskriftum við sóknaraðila og fulltrúa hans.
Í öðru lagi lýtur kvörtun að því að varnaraðili hafi ekki svarað tölvupósti fulltrúa sóknaraðila hinn 16. ágúst 2022 þar sem skýringar voru veittar, beðist var afsökunar og tilkynnt um förgun gagna. Varnaraðili segir það sama hafa átt við um þetta bréf og hið fyrra, hann hafi staðfest móttöku bréfsins en ekki séð ástæðu til þess að svara því efnislega. Ekkert í tölvupóstinum hafi kallað á efnisleg svör af hans hálfu enda engra spurninga spurt eða viðbragða óskað af hans hálfu. Þá bendir varnaraðili á að í niðurlagi tölvupóstsins komi fram að fulltrúinn yrði erlendis næstu daga og aðilar geti rætt framhaldið nánar eftir heimkomu hans. Hafi því verið enn minna tilefni fyrir varnaraðila að svara póstinum efnislega á þessum tímapunkti.
Í þriðja lagi lýtur kvörtun að því að svara ekki skýrri ósk kæranda hinn 18. október 2022 um að taka á móti stefnu og samþykkja varnarþing í Reykjavík með tilheyrandi hagræðingu fyrir lögmenn og skjólstæðinga. Varnaraðili neitar að hafa móttekið nefndan tölvupóst og kveðst ekki hafa fundið hann í tölvupóstforriti sínu þrátt fyrir ítarlega leit. Þetta hafi áður komið fram í máli 35/2022. Þá bendir varnaraðili á að einfalt og fljótlegt hefði verið að prófa að senda póstinn aftur, í ljósi þess að sóknaraðili taldi erindi hans svo brýnt. Hefðu það að mati varnaraðila verið góðir lögmannshættir og eðlileg samskipti á milli lögmanna. Varnaraðili fer fram á frávísun þessa hluta kvörtunar með vísan til 2. mgr. 10. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar.
Í fjórða lagi er kvartað vegna þess að varnaraðili hafi fullyrt að fulltrúi sóknaraðila hafi gegn betri vitund brotið lög með saknæmum og ólögmætum hætti. Sóknaraðili telji þessi stóryrði hafa verið langt umfram tilefni og í engu samræmi við kæruefni og niðurstöðu í máli nr. 35/2022. Varnaraðili gefur sér að vísað sé til tölvupósts varnaraðila til fulltrúa sóknaraðila frá 2. ágúst 2022, þó sóknaraðili tilgreini það ekki í kvörtun. Umræddum tölvupósti svaraði fulltrúi sóknaraðila sama dag og sagðist vera í sumarfríi en myndi svara í vikunni á eftir. Varnaraðili hafi svarað þeim tölvupósti samdægurs með skilaboðunum „Takk takk“.
Varnaraðili bendir á varðandi meint stóryrði af sinni hálfu að hvergi sé að finna í tölvupósti varnaraðila þau orð sem sóknaraðili vísar til um lögbrot fulltrúa hans. Eigi sóknaraðili við umræðu sem átti sér stað á öðrum vettvangi telur varnaraðili að sóknaraðili þurfi að bera hallann af því að gera ekki betur grein fyrir því við upphaf málsins hvaða samskipta kvörtunarefni tekur til og á hverju er byggt hvað þennan lið kvörtunar varðar.
Þá vísar varnaraðili til niðurstöðu úrskurðarnefndar í máli nr. 35/2022 þar sem staðfest hafi verið að sá gjörningur sem fulltrúi sóknaraðila meðvitað framkvæmdi með blekkjandi hætti, tveimur virkum dögum eftir að vera hafnað um sömu persónulegu fjárhagsupplýsingar umbjóðanda varnaraðila, hafi verið aðfinnsluverður.
Hafnar varnaraðili því að þau orð sem sóknaraðili vísar til, og varnaraðili notaði mögulega, eða ekki, um blekkjandi og vísvitandi háttsemi fulltrúans, við öflun persónulegra fjárhagsupplýsinga umbjóðanda varnaraðila, hafi falið í sér minnstu óvirðingu í garð þess fulltrúa sem háttsemina framkvæmdi. Háttsemin dæmi sig sjálf.
Varnaraðili lagði fram skjal sem sýnir tölvupóstsamskipti aðila þann 22. júlí 2023 og staðfesti að varnaraðili hafi ávallt svarað erindum sóknaraðila samdægurs eða næsta virka dag á eftir ef tölvupóstur barst um helgi.
Varnaraðili telur að sú háttsemi að svara erindum sóknaraðila ekki með ítarlegum hætti geti ekki talist fela í sér að hann hafi gert á hlut sóknaraðila, eins og áskilið sé í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Þá myndi það, að lögmaður svari ekki erindum annars lögmanns, f.h. umbjóðanda síns, að mati varnaraðila, frekar fela í sér að gert væri á hlut umbjóðanda lögmannsins fremur en lögmannsins sjálfs, enda sé það umbjóðandinn sem eigi rétt á svari.
Varnaraðili áréttar að hann líti svo á að sóknaraðili sé mögulega að samkenna sig umbjóðanda sínum og móðgast með einhverjum hætti fyrir hans hönd, og telji varnaraðila þar með hafa gert á sinn hlut. Vísar varnaraðili um þetta til 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað auk þess sem hann krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila á grundvelli 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar, enda sé kvörtun með öllu tilhæfulaus.
III.
Í viðbótargreinargerð sinni til nefndarinnar mótmælir sóknaraðili því að hafa samkennt varnaraðila og umbjóðanda hans í máli nefndarinnar nr. 35/2022 og gerir athugasemdir við málatilbúnað varnaraðila í greinargerð hans. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 2. gr., 3. mgr. 8. gr. og 25. gr. siðareglna lögmanna í greinargerð sinni.
Sóknaraðili áréttar að svarleysi varnaraðila við erindum sóknaraðila feli í sér brot á 41. gr. siðareglna lögmanna. Í því sambandi telur sóknaraðili að innihald þeirra erinda sem lögmönnum berast hafi ekki mikla þýðingu í þessu sambandi. Ákvæði 41. gr. siðareglna lögmanna verði ekki skýrt með eins þröngum hætti og varnaraðili byggi á heldur feli ákvæðið í sér að lögmönnum sé skylt að svara erindum án ástæðulauss dráttar alveg óháð efni þeirra. Efni erindanna verði að meta með hliðsjón af atvikum hverju sinni. Að mati sóknaraðila er ljóst að bæði bréf, dags. 20. júlí 2022, og tölvupóstur frá 18. október 2022, hafi verið þess eðlis að fullt tilefni hafi verið til að svara þeim efnislega. Að mati varnaraðila hefði sóknaraðili getað svarað erindunum með einföldum tölvupósti og ítrekað fyrri afstöðu umbjóðanda síns. Þannig hefði afstaða hennar legið skýrt fyrir. Ekki hafi verið gerð krafa um ítarlegt svar eins og varnaraðili byggi á.
Sóknaraðili bendir á að umræddum erindum hafi verið beint til varnaraðila vegna hagsmunagæslu hans fyrir skjólstæðing sinn og þar með vegna lögmannsstarfa hans eins og áskilið sé í 41. gr. siðareglna lögmanna. Að mati sóknaraðila fer fjarri að hægt sé að leggja staðfestingu varnaraðila á móttöku bréfsins að jöfnu við efnislegt svar við erindinu. Í móttöku erindis felist ekki efnisleg afstaða eða svar við því sem móttaka sé staðfest á. Sóknaraðili áréttar að 41. gr. siðareglna lögmanna hvíli á lögmönnum en ekki umbjóðendum þeirra og því sé umfjöllun varnaraðila í greinargerð um að umbjóðanda hans hafi verið óskylt að svara erindum sóknaraðila efnislega, málinu óviðkomandi.
Sóknaraðili telur gagnaöflun fulltrúa síns engin áhrif hafa haft á afstöðu umbjóðanda varnaraðila til bréfaskrifta við sig, enda hafi ekki verið kvartað yfir háttsemi fulltrúans fyrr en örfáum dögum eftir birtingu stefnu í máli umbjóðanda sóknaraðila gegn umbjóðanda varnaraðila.
Sóknaraðili telur skýringar varnaraðila varðandi tölvupóst frá 18. október 2022 ótrúverðugar og með ólíkindablæ enda fjarstæðukennt að tölvupóstsendingin hafi misfarist hjá sóknaraðila. Sóknaraðili bendir á að rafræn gögn og þá sérstaklega tölvupóstar geti verið afar mikilvæg sönnunargögn um samskipti mana á milli enda oft notuð í tengslum við sönnunarfærslu fyrir dómi. Því sé rétt að leggja til grundvallar að tölvupóstsamskiptin hafi átt sér stað nema marktækar vísbendingar komi fram um að sending hafi misfarist. Pósturinn beri skýr merki um að hafa verið sendur og þannig borist varnaraðila og sé næg sönnun þess að svo hafi verið. Því hafi varnaraðila borið að svara póstinum.
Sóknaraðili vísar til málsástæðukafla varnaraðila í úrskurði nefndarinnar í máli 35/2022 varðandi þau orð sem varnaraðili hafi látið falla um gagnaöflun umbjóðanda sóknaraðila og kvartað er yfir. Að mati sóknaraðila voru orðin ofmælt í ljósi niðurstöðu nefndarinnar og sjónarmiðum að baki henni.
Sóknaraðili vísar til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 6/2006, 30/2020, 25/2021 og 42/2021 og telur ljóst að varnaraðili hafi brotið gegn góðum lögmannsháttum með því að svara ekki erindum sóknaraðila. Að öðru leyti ítrekaði sóknaraðili fyrri sjónarmið sín og kröfugerð og mótmælti kröfu varnaraðila um málskostnað fyrir nefndinni.
IV.
Í viðbótargreinargerð sinni kvaðst varnaraðili á þeirri skoðun að úrskurðir nefndarinnar, sem sóknaraðili vísaði til í viðbótargreinargerð sinni, hefðu ekki þýðingu í málinu þar sem atvik væru ósambærileg. Varnaraðili taldi að öðru leyti ekki tilefni til frekari athugasemda og vísaði til framkominnar greinargerðar sinnar.
Niðurstaða
I.
Af hálfu sóknaraðila var farið fram á að tveir nefndarmenn vikju sæti vegna vanhæfis. Í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um það hvenær starfsmaður eða nefndarmaður teljist vanhæfur til meðferðar máls. Í máli þessu hafa nefndarmenn upplýst að þær vanhæfisástæður sem taldar eru upp í 1.-5. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, séu ekki fyrir hendi. Í 6. tl. 1. mgr. 3. gr. laganna er að finna matskennda hæfisreglu sem felur í sér grunnreglu um sérstakt hæfi. Í lögskýringargögnum með lögunum er kveðið á um að til að starfsmaður eða nefndarmaður teljist vanhæfur á grundvelli hinnar matskenndu hæfisreglu verði hann að hafa einstaklega hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem ágóða, tap eða óhagræði. Þar koma einnig til skoðunar hagsmunir venslamanna og annarra þeirra sem eru í svo nánum tengslum við starfsmanninn að almennt verði að telja hættu á að þau geti haft áhrif á hann. Þá verði eðli og vægi hagsmunanna að vera þess háttar að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðun málsins. Þá getur mjög náin vinátta eða fjandskapur við aðila máls valdið vanhæfi. Með vináttu sem valdi vanhæfi nægir ekki að aðeins sé um að ræða kunningsskap eða að fyrir hendi séu þær aðstæður, t.d. á fámennum stöðum, að „allir þekki alla“, heldur verður vináttan að vera náin. Svo óvinátta valdi vanhæfi verður að vera um að ræða einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt verða taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni starfsmanns. Ekki nægir að aðili máls álíti starfsmann eða nefndarmann sér fjandsamlegan. Að mati nefndarinnar eru ekki uppi neinar ástæður í máli þessu sem gefa ástæðu til þess að draga óhlutdrægni þeirra nefndarmanna sem um málið fjalla, með réttu í efa, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hefur sóknaraðili ekki bent á atvik, aðstæður eða ástæður sem geta verið til þess fallnar að efast megi um hæfi einstakra nefndarmanna. Kröfu sóknaraðila um að nefndarmenn sem um málið fjalla víki sæti vegna vanhæfis, er því hafnað.
II.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.
Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.
Í 25. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmenn skuli hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Skulu þeir sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings.
Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.
Í 44. gr. siðareglna lögmanna segir að siðareglur lögmanna megi ekki skoða sem tæmandi taldar um góða lögmannshætti.
III.
Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 25. og 41. gr. siðareglna lögmanna og góðum lögmannsháttum.
Kvartað er vegna þeirrar háttsemi varnaraðila að svara ekki efnislega tölvupósti fulltrúa sóknaraðila, dags. 20. júlí 2022, og að svara ekki tölvupóstum sama fulltrúa dags. 16. ágúst 2022 og 18. október 2022. Þá er kvartað yfir fullyrðingu varnaraðila um að fulltrúi sóknaraðila hafi sannanlega gegn betri vitund sótt gögn með saknæmum og ólögmætum hætti.
i.
Með bréfi, dags. 8. júlí 2022, hafnaði varnaraðili, f.h. umbjóðanda síns, kröfum umbjóðanda sóknaraðila, sem settar höfðu verið fram í bréfi 24. maí s.á. Fyrir liggur að varnaraðili staðfesti móttöku erindis fulltrúa sóknaraðila, dags. 20. júlí s.á. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa verið skylt að svara erindinu efnislega og að staðfesting á móttöku erindisins dugi ekki til sem svar í skilningi ákvæðis 41. gr. siðareglna lögmanna.
Í erindi sóknaraðila var f.h. umbjóðanda hans skorað á umbjóðanda varnaraðila að ganga þá þegar til samninga um greiðslu, en yrði það ekki gert innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins, mætti hún fastlega búast við því að kröfunni yrði fylgt eftir með málssókn, með þeim kostnaði sem slíku fylgdi.
Í ljósi þessa mátti sóknaraðili, að mati nefndarinnar, líta svo á eftir 10 daga frá dagsetningu bréfsins, að umbjóðandi varnaraðila ætlaði ekki að fallast á tillögur umbjóðanda sóknaraðila sem þar voru settar fram, enda hafði varnaraðili lýst því hvaða afleiðingar það hefði í för með sér yrði bréfinu ekki svarað innan þess tíma. Bréfið er dagsett þann 20. júlí 2022 og var 10 daga frestur til svars runninn út þann 31. sama mánaðar. Að þeim tíma loknum mátti báðum aðilum vera ljóst í hvaða farveg málið væri komið og ekkert því til fyrirstöðu fyrir umbjóðanda sóknaraðila að stefna umbjóðanda varnaraðila til greiðslu kröfunnar. Að mati nefndarinnar var ársfrestur skv. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 því byrjaður að líða þann 8. ágúst 2022 og var hann því liðinn þegar kvörtun barst nefndinni þann 8. ágúst 2023. Verður því ekki hjá því komist að vísa þessum hluta kvörtunarinnar frá nefndinni.
ii.
Varnaraðili ber því við að hafa ekki móttekið erindi frá fulltrúa sóknaraðila þann 18. október 2022. Atvik málsins, þ.m.t. fyrri og síðari samskipti aðila auk þess sem ætla má að bæði varnaraðili sjálfur og umbjóðandi hans hefðu haft hagræði af því sem lagt var til í umræddu erindi, styðja að mati nefndarinnar þá fullyrðingu. Gegn eindreginni neitun varnaraðila í svörum til nefndarinnar í því máli sem nú er til meðferðar, sem og í máli 35/2022, verður að mati nefndarinnar að ganga út frá því að varnaraðila hafi ekki borist umrætt erindi og telur nefndin ósannað að svo hafi verið. Nefndin tekur undir með varnaraðila að sóknaraðila hefði verið í lófa lagið að ítreka erindið þegar ekki barst svar við því, sem gögn málsins bera ekki með sér að hann hafi gert. Í ljósi þess að ósannað er, að mati nefndarinnar, að umrætt erindi hafi borist varnaraðila, verður ekki talið að varnaraðili hafi vanrækt að svara erindinu þannig að í geti falist brot gegn ákvæði 41. gr. eða öðrum ákvæðum siðareglna lögmanna eða laga.
iii.
Í þriðja lagi er kvartað vegna þeirrar háttsemi varnaraðila að hafa fullyrt að fulltrúi sóknaraðila hafi „sannanlega gegn betri vitund“ sótt gögn með „saknæmum og ólögmætum hætti“, sem sóknaraðili telur ofmælt í ljósi forsendna og niðurstöðu í fyrra máli aðila fyrir nefndinni. Í kvörtun eru framangreind tvenn ummæli höfð eftir varnaraðila í gæsalöppum án þess að vísað sé til þess hvar þau hafi verið sett fram. Í gögnum þess máls sem nú er til meðferðar fyrir nefndinni er ekki að finna nein ummæli sem að mati nefndarinnar geta verið þau sem kvartað er yfir. Í viðbótargreinargerð sóknaraðila vísar hann til málsástæðukafla í úrskurði nefndarinnar í máli 35/2022 hvað þetta varðar. Virðist sóknaraðili þannig byggja kvörtun á málsástæðum varnaraðila, f.h. umbjóðanda síns, í kvörtun til nefndarinnar vegna háttsemi fulltrúa sóknaraðila í máli 35/2022, en tilvitnuð ummæli finnast þó ekki þar í þeirri framsetningu sem sóknaraðili heldur fram. Hvað sem því líður, telur nefndin ljóst að ætla verði lögmönnum þónokkuð svigrúm og rýmkað málfrelsi til þess að setja fram málsástæður f.h. umbjóðenda sinna í kvörtun til nefndarinnar, enda sé nefndinni ætlað að fjalla um kvartanir þeirra sem telja lögmann hafa gert á hlut sinn með háttsemi sem felur í sér brot á lögum eða siðareglum lögmanna. Í ljósi rýmkaðs málfrelsis lögmanna auk þess að nefndin telur óljóst hvar, hvenær og við hvaða tilefni ummæli þau sem kvartað er yfir voru viðhöfð, verður því að mati nefndarinnar ekki talið að varnaraðili hafi brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna eða laga hvað þennan lið kvörtunar varðar.
iv.
Tölvupóstur fulltrúa sóknaraðila, dags. 16. ágúst 2022, var svar við tölvupósti varnaraðila til fulltrúans, dags. 2. ágúst 2022 þar sem hann var spurður um gagnaöflun þá sem nefndin taldi fela í sér aðfinnsluverða háttsemi af hans hálfu í máli 35/2022. Í svari fulltrúans gaf hann skýringar á gagnaöfluninni, baðst afsökunar og tjáði varnaraðila að umræddum gögnum hefði verið eytt. Í niðurlagi tölvupóstsins kemur fram að fulltrúinn verði erlendis frá 18.-25. ágúst en hægt sé að ræða framhaldið nánar eftir þann tíma. Ágreiningslaust er af hálfu aðila að ekki kom til þess að fulltrúi sóknaraðila hefði samband við varnaraðila eftir heimkomu sína til þess að ræða framhald málsins. Varnaraðili telur ekkert í umræddu erindi fulltrúa sóknaraðila hafa kallað á svör af hans hálfu enda engra spurninga spurt eða viðbragða óskað af hans hálfu. Varnaraðili telur niðurlag tölvupóstsins fela í sér að enn minna tilefni hafi verið fyrir hann að svara póstinum efnislega á þessum tímapunkti þar sem fulltrúinn hafi verið á leið erlendis.
Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Í orðalagi ákvæðisins felst að það eru erindi bréfanna sem krefjast svars, fremur en bréfin sjálf. Af því leiðir að mat á því hvort lögmaður hafi gert á hlut einhvers með því að svara ekki bréfi frá honum, felst í því að kanna hvort í bréfinu hafi verið sett fram erindi sem er þess eðlis að það krefjist þess að því sé svarað.
Eins og fram hefur komið var umræddur tölvupóstur svar fulltrúa sóknaraðila við erindi varnaraðila sem sent var tveimur vikum áður. Í svarinu kom fulltrúinn tilteknum upplýsingum á framfæri við varnaraðila, svaraði spurningum sem varnaraðili hafði fyrir hann lagt og baðst afsökunar á framferði sínu. Ekkert í bréfinu bendir að mati nefndarinnar til þess að fulltrúi sóknaraðila hafi farið fram á, búist við eða ætlast til þess að erindinu yrði svarað með einhverjum hætti. Þá er efni bréfsins að mati nefndarinnar ekki þess eðlis að það kalli á að því verði svarað sérstaklega. Í ljósi framangreinds verður að mati nefndarinnar ekki talið að varnaraðili hafi gerst brotlegur við ákvæði siðareglna lögmanna eða laga að þessu leyti.
v.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kvörtun vegna þeirrar háttsemi, B lögmanns, að svara ekki tölvupósti fulltrúa sóknaraðila til hans, dags. 20. júlí 2022, er vísað frá nefndinni.
Varnaraðili, B lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, A lögmanns, í störfum sínum, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir