Mál 33 2023

Mál 33/2023

Ár 2024, mánudaginn 27. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið málið:

33/2023

A ehf.

gegn

B lögmanni

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 16. ágúst 2023 kvörtun sóknaraðila C f.h. A ehf.,  gegn B lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem fyrrum lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila greinargerð vegna erindisins með bréfi samdægurs þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst þann 1. september 2023 og var hún send sóknaraðila samdægurs með fresti til 22. september s.á. til þess að skila viðbótargreinargerð. Fresturinn var framlengdur einu sinni til 29. september 2023. Með bréfi dags., 7. nóvember 2023, var sóknaraðila veittur lokafrestur til gagnaframlagningar til og með 22. nóvember 2023. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst þann 24. nóvember 2023 og var send varnaraðila samdægurs. Viðbótargreinargerð varnaraðila barst þann 28. nóvember 2023. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar og var málið tekið til úrskurðar.

 

Málsatvik og málsástæður

C er eigandi sóknaraðila og beinir erindi þessu til nefndarinnar fyrir hönd félagsins. A ehf. hét áður [...] ehf., hér eftir [...] ehf., og var stofnað af [...], afa C. [...] átti félagið til ársins 1999 en það ár eignuðust börn hans fjögur, [...], [...], [...] og [...], móðir C, félagið og átti hvert um sig 25% eignarhlut í því. Systkinin sátu jafnframt öll í stjórn félagsins en [...] sá um daglegan rekstur þess.

[...] ehf. var á tímabili eitt stærsta fjárfestingafélag landsins og að sögn sóknaraðila nam eigið fé félagsins vel á annan tug milljarða króna í árslok 2006. Stærstu eignir félagsins voru geymdar í dótturfélögunum [...] og [...] ehf. þar sem [...] var framkvæmdastjóri og einn prókúruhafi og svo dótturdótturfélögunum [...] ehf. og [...] ehf. og var [...] einnig eini prókúruhafi þeirra félaga. Stærsta eign [...] ehf. var 47% hlutur félagsins í [...] hf., hér eftir [...], og var [...] stjórnarformaður félagsins í umboði stjórnar [...] ehf. [...] var einn stærsti hluthafi í [...] sem á þessum tíma var stærsti einstaki hluthafi í [...] hf., hér eftir [...], sem og einn stærsti hluthafi í [...].

Þann 8. janúar 2008 tók [...] yfir stjórnun [...] og undirritaði [...] yfirtökusamninginn f.h. [...]. Síðar sama ár var nafni [...] ehf. breytt í A ehf. og þann 13. ágúst 2008 afsöluðu hluthafarnir fjórir allri hlutafjáreign sinni í A ehf. til [...]. Umsamið verð fyrir hlut hvers þeirra var ein króna. C keypti A ehf. af [...] ehf. á haustmánuðum árið 2016.

Varnaraðili veitti [...] ehf. lögmannsþjónustu í einstaka verkefnum frá stofnun félagsins. Hann gætti hagsmuna félagsins og hluthafa þess í tengslum við yfirtöku [...] á félaginu á árinu 2008. Störfum hans félagið lauk þann 13. ágúst en vinnu fyrir hluthafana í september sama ár. Varnaraðili var lögmaður hluthafanna [...], [...] og [...] fram í nóvember árið 2014. Eftir það sinnti hann lögmannsþjónustu fyrir [...] fram að andláti hans og frá þeim tíma hefur hann gætt hagsmuna ekkju hans, [...]. 

I.

Frá kaupum C á sóknaraðila kveðst hann hafa unnið að skoðun og greiningu á fjármálum og rekstri félagsins á árunum 2004-2008. Hefur hann beint fjölda fyrirspurna til varnaraðila, sem fyrrum lögmanns sóknaraðila, um upplýsingar og gögn um málefni félagsins á þessum tíma.

Kvörtun lýtur í fyrsta lagi að því að varnaraðili hafi ekki svarað efnislega erindi lögmanns sóknaraðila, dags. 24. mars 2023. Í bréfinu var varnaraðili beðinn um að upplýsa um við hverja innan [...] samstæðunnar hann var í samskiptum í aðdraganda ritunar bréfs sem hann ritaði f.h. [...] ehf. til [...] þann 7. maí 2008 og óskað eftir afriti af þeim samskiptum. Þá var varnaraðili beðinn um að framsenda lögmanni sóknaraðila öll þau samskipti sem hann átti við þáverandi stjórnarmenn [...] ehf., eða eftir atvikum fulltrúa þeirra, [...] ehf. og endurskoðanda félagsins, hvað varðar fundargerðir hluthafafunda [...] ehf., dags. 3. og 5. júlí 2007. Að lokum var varnaraðili spurður um reikning, dags. 22. október 2008. Varnaraðili hafi svarað erindinu samdægurs og tjáð lögmanni sóknaraðila að hann væri í fríi. Ekki hafi komið til þess að varnaraðili svaraði erindinu efnislega.

Í öðru lagi er kvartað vegna þeirrar háttsemi varnaraðila að hafa ekki afhent gögn sem óskað var eftir með bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 4. apríl 2023. Var óskað eftir gögnum vegna millifærslu [...], lögmannsstofu varnaraðila, 7.931.918 kr. inn á reikning [...] ehf. þann 7. júlí 2009. Varnaraðili svaraði erindinu með tölvupósti þann 14. apríl 2023 þar sem hann sagðist eftir bestu getu hafa svarað fyrirspurnum sóknaraðila og lögmanni hans, bæði beint og í skýrslutökum fyrir dómi, og sagði lögmanni sóknaraðila að búast ekki við frekari svörum frá sér við erindinu.

Í þriðja lagi varðar kvörtun þá háttsemi varnaraðila að afhenda ekki gögn sem lögmaður sóknaraðila óskaði eftir með bréfi, dags. 12. maí 2023. Var varnaraðili beðinn um skýringar og gögn vegna nokkurra millifærslna af reikningum [...] inn á reikninga [...] lögmannsstofu annars vegar og [...] ehf. hins vegar, í október og nóvember árið 2006. Áður hafði varnaraðili svaraði erindi lögmanns sóknaraðila er varðaði sama efni þann 4. maí sl. og sent afrit fjögurra reikninga frá [...] lögmannsstofu frá árinu 2006 útgefinna á [...] ehf. vegna hlutdeildar í sameiginlegum kostnaði, launakostnaðar og húsaleigu. Sóknaraðili féllst ekki á þær skýringar þar sem félagið hafi ekki rekið skrifstofu, og óskaði í kjölfarið eftir frekari gögnum hvað þetta varðaði, með bréfi, dags. 12. maí 2023, sem varnaraðili svaraði ekki.

Kvartað er yfir þeirri háttsemi varnaraðila að hafa ekki svarað fyrrgreindum bréfum lögmanns sóknaraðila efnislega. Að mati sóknaraðila hafi bréfin að geyma málefnalegar spurningar sem tengist lögvörðum hagsmunum félagsins í tengslum við þau dómsmál sem það rekur nú í Landsrétti auk rannsókna núverandi eiganda félagsins vegna gruns um fjársvik og/eða fjárdrátt fyrrum fyrirsvarsmanns félagsins. Upplýsingar sem óskað var eftir frá varnaraðila séu mikilvægar í þeirri viðleitni sóknaraðila að leiða fram sannleikann um málefni félagsins. Sóknaraðili kveðst óska eftir aðstoð úrskurðarnefndar lögmanna við að upplýsa um þau mál enda liggi að baki verulegir lögvarðir hagsmunir sóknaraðila og engar málefnalegar ástæður séu fyrir varnaraðila að neita að afhenda umbeðin gögn.

II.

Í greinargerð sinni gerir varnaraðili athugasemd við reifun á rannsóknum á fjármálum sóknaraðila. Hann segir ekki um að ræða annað en innanhússathuganir núverandi eiganda félagsins enda viti varnaraðili ekki til þess að nokkur sem gæti kallast rannsóknar­aðili hafi komið að þeim rannsóknum sem sóknaraðili vísar til.

Varnaraðili bendir á að í umræddu bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 24. mars 2023, sé spurt um atvik frá árinu 2008. Sami lögmaður hafi áður kvatt varnaraðila fyrir dóm til skýrslugjafar um sömu efni þar sem varnaraðili hafi svarað spurningum eftir bestu getu. Í sama bréfi hafi lögmaður sóknaraðila spurt um fundargerðir þáverandi stjórnar A ehf. í júlí 2007. Í kvörtun komi fram að varnaraðili hafi verið spurður um sömu atriði í Héraðsdómi Reykjaness 8. júní 2022. Varnaraðili telur ljóst að erindi sóknaraðila falli utan verksviðs úrskurðar­nefndar lögmanna og kveðst ekki muna verða við áskorun sóknaraðila um afhendingu gagna.

Varnaraðili segir lögmann sóknaraðila hafa með bréfi, dags. 4. apríl 2023, krafið hann um gögn vegna greiðslu sem átti sér stað 7. júlí 2009 frá [...] lögmannsstofu til sóknaraðila. Varnaraðili áréttar fyrri ábendingar til sóknaraðila um að rétt sé að beina fyrirspurnum um gögn félagsins til þess sem seldi félagið til núverandi eiganda þess. Varnaraðili fær ekki séð að sóknaraðili eigi kröfu til þess að hann fari í gagnaleit í bókhaldsgögnum 13-14 ár aftur í tímann og telur sér óskylt að standa í slíku. Varnaraðili áréttar að hann hafi umbeðin gögn ekki handbær og að úrskurðarnefnd geti ekki tekið erindi sóknaraðila til neins konar meðferðar.

Með bréfi, dags. 12. maí 2023, hafi varnaraðili enn verið krafinn um gagnavinnslu í þágu rannsókna sóknaraðila o.fl. Í þeim tilvikum sem fyrirspurnum félagsins sé svarað sé augljóst að sóknaraðila líki ekki svörin og nýjar beiðnir um gögn sendar.

Varnaraðili kveður rangt að A ehf. hafi ekki rekið skrifstofu. Félagið hafi átt eignarhlut í fasteigninni að [...] og borið samsvarandi hluta af rekstrarkostnaði þar. Félagið hafi átt heila hæð í húsinu til ársins 2005 en eftir það minni hluta og hafi starfsstöð fyrirtækisins verið þar, þótt skráð heimilisfang kunni að hafa verið annars staðar. Varnaraðili áréttar að sóknaraðili hafi engar rannsóknarheimildir gagnvart sér þó hann hafi starfað fyrir félagið á árum áður en hann hafi ekki unnið fyrir félagið síðan í ágúst 2008. Þá kveðst varnaraðili ekki hafa þau gögn sem sóknaraðili fer fram á afhendingu á né fái hann ekki séð á hvaða grundvelli væri hægt að knýja sig til að reyna að grafa umrædd gögn upp. Þá telur varnaraðili útilokað að úrskurðarnefnd geti veitt einhverja aðstoð eins og sóknaraðili fer fram á.

Varnaraðili telur kvörtun ekki falla undir 27. gr. laga um lögmenn enda sé lagagreinin hvergi nefnd í erindinu eða því haldið fram að varnaraðili hafi brotið gegn siðareglum lögmanna. Varnaraðili telur augljóst að efni kærunnar falli utan hlutverks úrskurðarnefndar skv. 3. gr. málsmeðferðarreglna hennar. Jafnframt sé ljóst að kvörtunarefnin séu um ráðstafanir sem áttu sér stað fyrir fjölda ára og aldrei var nokkur ágreiningur um fyrr en 10-12 árum síðar eins og gögn málsins beri með sér. Þá leggur varnaraðili áherslu á að úrskurðarnefnd geti að hans áliti aldrei orðið vettvangur úrlausnar um skyldu til afhendingar gagna. Þá bendir varnaraðili á að hann hafi tjáð sóknaraðila að félagið ætti engin gögn í sínum vörslum í tölvupósti í desember 2017. Sóknaraðili sé óánægður með þau svör og beri nú, tæpum sex árum síðar, erindi þetta undir nefndina. Varnaraðili telur að vísa beri kvörtun frá í heild sinni á grundvelli framangreinds en til vara krefst hann þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

III.

Í viðbótargreinargerð sinni áréttar sóknaraðili að kvörtun byggi á nýjum gögnum sem hann hafi fengið afhent frá embætti héraðssaksóknara. Auk þess hafi ekki komið í ljós fyrr en í skýrslutöku yfir varnaraðila í héraðsdómi Reykjavíkur í máli [...], þann 7. desember 2022 að varnaraðili hafi á sama tíma og hann sinnti lögmannsþjónustu fyrir [...] ehf. í tengslum við yfirtöku [...] á félaginu, einnig sinnt lögmanns­þjónustu fyrir [...] persónulega vegna samninga við [...] um persónulegar skuldir hans. Þar hafi varnaraðili borið um að hann hafi setið einhverja fundi með [...] í [...] vegna [...] ehf. en hann hafi aldrei verið í mikilli vinnu fyrir það félag. Auk þess hafi [...] leitað svolítið til hans með þau mál sem honum tengdust. Áður hafi varnaraðili neitað því að einhverjir hagsmuna­árekstrar hefðu verið fyrir hendi í skýrslutöku 8. september 2021 í vitnamáli nr. [...]. Þá sé rangt að varnaraðili hafi svarað spurningum um umrædd gögn fyrir dómi eins og varnaraðili haldi fram.

Að mati sóknaraðila leiðir framangreint til þess að hann hafi enga ástæðu haft til þess að spyrjast fyrir um umrædd gögn fyrr en eftir skýrslutöku af varnaraðila 7. desember 2022. Því hafi kvörtun verið send áður en ársfrestur skv. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, rann út. Sóknaraðili fullyrðir að umrædd gögn sem óskað var eftir frá varnaraðila séu til í tölvukerfum [...] lögmannsstofu og því sé varnaraðila í lófa lagið að afhenda þau.

Sóknaraðili telur að neitun varnaraðila um afhendingu umræddra gagna valda sér réttarspjöllum enda tengist þau með beinum hætti rannsóknum félagsins og sönnunar­færslu fyrir dómstólum. Þá háttsemi varnaraðila telur sóknaraðili fela í sér brot á 1., 2. og 16. gr. siðareglna lögmanna.

IV.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila áréttaði hann að ekkert af þeim gögnum sem sóknaraðili hefði lagt fram til nefndarinnar gætu talist ný gögn og vísaði að öðru leyti til greinargerðar sinnar til nefndarinnar.

 

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í þeim tilfellum sem atvik áttu sér stað áður en breyting sem gerð var á siðareglum lögmanna þann 26. janúar 2023 tók gildi, vísast hér eftir til ákvæða eins og þau komu fyrir í þágildandi siðareglum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Þá skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 2. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til þess að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í 16. gr. þágildandi siðareglna lögmanna var fjallað um haldsrétt lögmanns. Sagði þar að lögmanni væri rétt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum, er hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert lögmanni full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi. Haldsréttur lögmanns samkvæmt framangreindu gilti þó ekki, ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt. Sama gildir ef lögmaður segir sig frá verki án réttmætrar ástæðu eða ef umboð hans er afturkallað af réttmætri ástæðu, svo sem vegna óeðlilegs dráttar á rekstri máls eða af sambærilegum ástæðum.

II.

i.

Kvörtun þessi lýtur að því að varnaraðili hafi ekki orðið við beiðnum lögmanns sóknaraðila í bréfum, dags. 23. mars 2023, 4. apríl og 12. maí 2023, um svör við spurningum og afhendingu tiltekinna gagna. Fellur kvörtun, sem barst þann 16. ágúst 2023, innan þess frests sem kveðið er á um í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Að mati nefndarinnar skiptir í þessu sambandi ekki máli þótt varnaraðili hafi áður verið krafinn afhendingar á sömu gögnum. Er ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila að þessu leyti.

Að mati nefndarinnar er kvörtun nægilega skýr hvað þau umkvörtunarefni varðar sem þar eru sett fram. Þannig telur nefndin ljóst að kvartað sé yfir þeirri háttsemi varnaraðila að hafa ekki svarað fyrirspurnum sóknaraðila og afhent gögn eins og óskað var eftir í áðurnefndum bréfum lögmanns félagsins. Jafnframt telur hún ljóst að sóknaraðili telji varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttseminni. Liggur því fyrir að mati nefndarinnar að kvörtun sé reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í viðbótargreinargerð sóknaraðila kemur fram að sóknaraðili telji varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1., 2. og 16. gr. siðareglna lögmanna með umræddri háttsemi. Í málsmeðferðarreglum úrskurðar­­nefndar er ekki kveðið á um skyldu sóknaraðila til þess að vísa til viðeigandi ákvæða laga eða siðareglna lögmanna í erindi til nefndarinnar. Í 22. gr. málsmeðferðar­reglna nefndarinnar segir að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gildi um erindrekstur fyrir nefndinni að öðru leyti en því sem reglurnar kveða á um. Að mati nefndarinnar er erindi sóknaraðila nægilega skýrt til þess að nefndin geti tekið það til efnismeðferðar og er kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá nefndinni hafnað.

ii.

Í bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 24. mars 2023, var varnaraðili beðinn um upplýsingar og gögn varðandi þrennt í málefnum sóknaraðila og beinist kvörtun að tveimur af þeim þremur atriðum. Varnaraðili sendi lögmanni sóknaraðila tölvupóst þann 27. mars 2023 þar sem hann tjáði honum að hann væri í fríi út mánuðinn og ef hann sæi á annað borð ástæðu til þess að svara bréfi lögmannsins yrði það ekki fyrir 30. mars 2023 eins og farið var fram á í bréfinu. Ekki kom til þess að varnaraðili svaraði bréfinu efnislega.

Í bréfinu var varnaraðili annars vegar spurður um við hvern innan [...] samstæðunnar hann var í sambandi þegar hann framsendi svarbréf í nafni félagsins til [...] lögmanns þann 7. maí 2008, sem þá var að vinna fyrir hönd [...] hf., og hvaða stjórnarmenn sóknaraðila hafi fengið afrit af svarbréfinu. Jafnframt var óskað eftir afriti af samskiptum varnaraðila við umrædda stjórnarmenn. Í málinu liggja fyrir tveir tölvupóstar frá [...], þáverandi fyrirsvarsmanni sóknaraðila, til annarra hluthafa í [...] ehf. vegna þeirra atvika sem spurt er um í fyrrnefndu bréfi lögmanns sóknaraðila. Sá fyrri er frá 17. apríl 2008 og var hann sendur öllum þáverandi hluthöfum auk varnaraðila. Umræddur tölvupóstur barst nefndinni með greinargerð varnaraðila í máli nefndarinnar nr. 16/2023 þann 11. apríl 2023 sem send var sóknaraðila 17. apríl 2023. Sá síðari er frá 8. maí 2008 en þar áframsendi fyrirsvarsmaðurinn tölvupóst varnaraðila til hans frá deginum áður, til allra þáverandi hluthafa. Sá tölvupóstur barst nefndinni með viðbótargreinargerð sóknaraðila sjálfs í sama máli nefndarinnar þann 24. nóvember 2023. Auk þessa liggur fyrir í gögnum málsins að varnaraðili var spurður um þessi atvik í skýrslutöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. september 2021 og í Héraðsdómi Reykjaness 7. júní 2022. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að sóknaraðili hafi haft þær upplýsingar sem spurt var um áður en kvörtun þessari var beint til nefndarinnar. Bréf sóknaraðila sem kvörtun lýtur að er dagsett 23. mars 2023 en síðari tölvupósturinn barst nefndinni eins og áður segir með greinargerð varnaraðila í máli 16/2023 þann 11. apríl 2023 sem send var sóknaraðila 17. apríl sama ár. Að mati nefndarinnar fólst í því fullnægjandi svar varnaraðila við erindi sóknaraðila hvað þetta atriði varðar og telst varnaraðili ekki hafa brotið gegn siðareglum lögmanna eða lögum að þessu leyti.

iii.

Í bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 24. mars 2023, var varnaraðili hins vegar beðinn um að framsenda lögmanni sóknaraðila öll þau samskipti sem hann átti við stjórnarmenn sóknaraðila og eftir atvikum fulltrúa þeirra, [...] og [...] þáverandi endurskoðanda félagsins, er vörðuðu fundargerðir, dags. 3. og 5. júlí 2007. Fyrir liggur að varnaraðili var spurður um umræddar fundargerðir í skýrslutöku fyrir dómi 7. júní 2022.

Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti núverandi eiganda sóknaraðila og móður hans, fyrrum hluthafa og stjórnarmanns félagsins, við varnaraðila í desember árið 2017. Í tölvupósti 6. desember það ár óskaði eigandi sóknaraðila eftir fundi með varnaraðila þar sem hann vantaði upplýsingar um tiltekin atriði í málefnum félagsins, frá þeim tíma sem varnaraðili gætti hagsmuna þess. Varnaraðili hafnaði beiðninni á þeim forsendum að hann myndi, með því að eiga slíkan fund, brjóta skyldur gagnvart umbjóðanda sínum en hann hafði á þessum tíma tekið að sér hagsmunagæslu fyrir gagnaðila sóknaraðila í dómsmáli sem varðaði atvik á þeim tíma sem varnaraðili var lögmaður félagsins.

Með tölvupósti 8. desember 2017 óskaði eigandi sóknaraðila eftir gögnum frá varnaraðila, þ.m.t. öllum tölvupóstum, skjölum, fundargerðum o.fl., sem varnaraðili kynni að hafa um málefni félagsins frá október 2007 til október 2008, en á þeim tíma gætti varnaraðili hagsmuna félagsins og hluthafa þess. Eigandi sóknaraðila ítrekaði beiðnina með tölvupósti 11. desember sama ár og áréttaði að einungis væri beðið um afrit af samskiptum varnaraðila við fjármálastofnanir og stjórnarmenn félagsins, sem snertu hagsmuni þess og störf varnaraðila í þágu sóknaraðila á umræddu tímabili, en ekki persónuleg gögn eða samskipti.

Með tölvupósti samdægurs svaraði varnaraðili á þann veg að hann teldi sig enga upplýsingaskyldu hafa gagnvart þeim sem hafi farið með stjórn eða eignarhald á sóknaraðila frá þeim tíma sem hagsmunagæslu hans fyrir félagið lauk á árinu 2008. Síðari eigendur gætu eingöngu snúið sér til þeirra sem seldu þeim félagið með slíkar beiðnir. Þá kvaðst varnaraðili ekki sjá ástæðu til að láta af hendi vinnugögn sín varðandi störf sín fyrir félagið og sagði félagið engin gögn eiga í sínum vörslum.

Í tölvupósti síðar sama dag spurði eigandi sóknaraðila hvort varnaraðili liti svo á að gögn sem hann hefði skömmu áður sent þáverandi lögmanni sóknaraðila, þar með talið afrit af samskiptum varnaraðila sem lögmanns félagsins við starfsmenn [...], væru vinnugögn varnaraðila og þar með ekki eign félagsins. Varnaraðili svaraði eiganda sóknaraðila um hæl og sagði það réttan skilning. Daginn eftir tilkynnti varnaraðili eiganda sóknaraðila að hann myndi ekki taka við frekari tölvupóstum frá honum og hefur við það staðið.

[...], móðir eiganda sóknaraðila, fyrrum hluthafi og stjórnarmaður félagsins, sendi varnaraðila tölvupóst daginn eftir, 12. desember 2017, þar sem hún spurði hvort hún hefði, sem fyrrverandi stjórnarmaður og hluthafi í félaginu, engan rétt til þess að fá gögn félagsins frá fyrrum lögmanni þess. Varnaraðili svaraði fyrirspurn hennar samdægurs á þann veg að hann væri búinn að svara því áður, að félagið ætti engin gögn hjá honum.

Þann 13. desember sendi [...], eiginmaður [...], sem var um árabil í samskiptum við varnaraðila sem umboðsmaður hennar í málefnum félagsins, tölvupóst á varnaraðila þar sem hann spurðist fyrir um tiltekin atriði í málefnum sóknaraðila á árunum 2007 og 2008. Varnaraðili svaraði erindinu með tölvupósti ásamt viðhengjum daginn eftir. Viðhengin voru í fyrsta lagi afrit tveggja tölvupósta [...] til varnaraðila í október og nóvember 2008. Í öðru lagi afrit af samningi þáverandi hluthafa [...] ehf. við [...], í þriðja lagi afriti af samkomulagi þáverandi hluthafa við [...] ehf. og í fjórða lagi veðskjal um hlutabréf í [...]. Jafnframt tók varnaraðili fram að hann myndi ekki svara frekari orðsendingum frá [...] eða syni hans, núverandi eiganda sóknar­aðila, um þessi málefni.

Eins og fram hefur komið tjáði varnaraðili núverandi eiganda sóknaraðila í desember 2017 að sóknaraðili ætti engin gögn í sínum vörslum. Í samskiptum aðila á þeim tíma kom jafnframt fram að varnaraðili teldi sér óskylt að afhenda sóknaraðila gögn sem varnaraðili áliti vinnugögn. Enn fremur kom fram að varnaraðili liti svo á að afrit af samskiptum hans, sem hann átti sem lögmaður sóknaraðila, við þriðju aðila, væru vinnugögn sem honum væri óskylt að afhenda sóknaraðila. Málsgögn bera með sér að varnaraðili hafi skömmu áður afhent þáverandi lögmanni sóknaraðila gögn, að því er virðist, umfram það sem hann taldi sér skylt.

Í úrskurði í máli 36/2022, sem kveðinn er upp samhliða úrskurði þessum, finnur nefndin að þeirri háttsemi varnaraðila að leggja fram gögn sem hann var bundinn þagnar- og trúnaðarskyldu um gagnvart sóknaraðilum málsins, sem lögmaður gagnaðila í dómsmáli. Sóknaraðili í því máli sem hér er til meðferðar er annar sóknaraðila í fyrrnefndu máli. Um var að ræða tvo tölvupósta frá [...] til varnaraðila, annars vegar frá árinu 2008 og hins vegar frá árinu 2011. Í málinu var enn fremur talið sannað að varnaraðili hefði afhent þriðja aðila gögn í þremur tilvikum, þar með talið tvo tölvupósta frá [...] og fann nefndin að afhendingu varnaraðila á öðrum tölvupóstinum.

Í ljósi alls framangreinds telst að mati nefndarinnar sannað að varnaraðili hafi undir höndum gögn sem hann komst yfir sem þáverandi lögmaður sóknaraðila, sem hann telur vera vinnugögn sem sér sé óskylt að afhenda bæði núverandi eiganda félagsins og móður hans, sem var stjórnarmaður og hluthafi í félaginu á þeim tíma sem varnaraðili gætti hagsmuna félagsins. Þá telur nefndin enn fremur sannað að hluti þeirra gagna sem varnaraðili hafi undir höndum séu afrit af samskiptum hans við þáverandi hluthafa og stjórnarmenn í félaginu og eftir atvikum umboðsmenn þeirra, auk samskipta við þriðju aðila. Þá telst sannað, í ljósi niðurstöðu nefndarinnar í máli 36/2022, að hluta þeirra gagna hafi varnaraðili lagt fram fyrir dómi fyrir hönd gagnaðila sóknaraðila, núverandi umbjóðanda síns, í þeim tilgangi að styrkja málatilbúnað hans, á kostnað sóknaraðila, fyrrum umbjóðanda síns og enn fremur að hann hafi afhent þriðja aðila gögn sem hann var bundinn trúnaði um gagnvart sóknaraðila, sem lögð voru fram í dómi af öðrum lögmanni f.h. sama umbjóðanda, í sama tilgangi.

Að mati nefndarinnar geta einungis þau gögn sem stafa frá lögmanni sjálfum og ætluð eru til einkanota hans í störfum sínum, talist vinnugögn, sem honum er óskylt að afhenda umbjóðanda sínum. Þau gögn sem voru til umfjöllunar í máli nefndarinnar nr. 36/2022, sem og þau gögn sem varnaraðili var krafinn um í bréfi 24. mars 2023, telur nefndin ekki geta talist vera vinnugögn í eigu varnaraðila, sem honum sé af þeirri ástæðu óskylt að afhenda sóknaraðila sem fyrrum umbjóðanda sínum. Varnaraðili hefur ekki byggt á því að gögnunum sé haldið eftir á grundvelli haldsréttar skv. 1. mgr. 16. gr. siðareglna lögmanna, enda liggur fyrir að allir reikningar vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila og þáverandi hluthafa félagsins hafi verið greiddir án athugasemda skömmu eftir útgáfu þeirra.

Í greinargerð sinni til nefndarinnar bar varnaraðili því við að lögmaður sóknaraðila hafi kvatt hann fyrir dóm til skýrslugjafar um tengd atvik þar sem hann hafi svarað spurningum eftir bestu getu. Jafnframt vísaði hann til samskipta við núverandi eiganda sóknaraðila í desember 2017 þar sem fram hafi komið að félagið ætti engin gögn í vörslum varnaraðila. Varnaraðili hefur ekki neitað að hafa þau gögn undir höndum sem óskað var afhendingar á með bréfi lögmanns sóknaraðila 24. mars 2023.

Að mati nefndarinnar leysir það að varnaraðili hafi verið kvaddur fyrir dóm til þess að svara spurningum um tiltekin atriði er varða hagsmunagæslu hans fyrir sóknaraðila, hann ekki undan skyldu til þess að afhenda sóknaraðila gögn sem varða félagið og urðu til á þeim tíma sem varnaraðili gætti hagsmuna þess. Ekki er byggt á því af hálfu varnaraðila að umbeðin gögn séu ekki til eða að þau séu honum ekki aðgengileg og verður í ljósi málatilbúnaðar hans fyrir nefndinni, að líta svo á að varnaraðili hafi umrædd gögn undir höndum, en telji sér óskylt að afhenda þau sóknaraðila.

Í ljósi alls framangreinds telur nefndin að sú háttsemi varnaraðila að sinna ekki beiðni sóknaraðila, sem sett var fram í bréfi lögmanns félagsins 24. mars 2023, um að fá afhent afrit af þeim samskiptum sem varnaraðili átti sem þáverandi lögmaður sóknaraðila, við þáverandi stjórnarmenn sóknaraðila og eftir atvikum fulltrúa þeirra, [...] og þáverandi endurskoðanda félagsins, [...], er vörðuðu fundar­gerðir, dags. 3. og 5. júlí 2007, hafi ekki verið í samræmi við siðareglur lögmanna og þær skyldur sem hvíldu á varnaraðila sem fyrrum lögmanni sóknaraðila. Sú háttsemi varnaraðila að sinna ekki beiðni sóknaraðila að þessu leyti, er að mati nefndarinnar, aðfinnsluverð.

iv.

Með bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 4. apríl 2023 var varnaraðili spurður um millifærslu fjármuna af reikningi lögmannsstofu varnaraðila inn á reikning [...] ehf. þann 7. júlí 2009. Varnaraðili svaraði bréfi lögmannsins með tölvupósti 14. apríl 2023 þar sem hann sagði gögn á bakvið reikning, sem einnig var spurt um í bréfinu, ekki vera lengur til. Varnaraðili svaraði ekki erindinu að því er varðar umrædda millifærslu en í greinargerð til nefndarinnar kveður hann ekki telja sér skylt að ráðast í leit í bókhaldsgögnum lögmannsstofu sinnar svo langt aftur í tímann, auk þess sem réttast sé að núverandi eigandi sóknaraðila beini fyrirspurnum um gögn félagsins til þess sem seldi honum félagið. Gögn málsins varpa ekki ljósi á að umrædd millifærsla hafi átt sér stað eða hvort og þá með hvaða hætti hún varðar lögmannsstörf varnaraðila í þágu sóknaraðila. Að mati nefndarinnar braut varnaraðili ekki gegn siðareglum lögmanna eða lögum með því að afhenda ekki upplýsingar eða gögn sem varða umrædda millifærslu, enda er ósannað hvort hún hafi átt sér stað og með hvaða hætti hún varðar lögmannsstörf varnaraðila.

Í bréfinu var hins vegar óskað eftir afritum allra reikninga sem lögmannsstofa varnaraðila gaf út vegna starfa sinna fyrir sóknaraðila á árunum 2007 til 2009. Sóknaraðili fer þannig fram á afhendingu 14-16 ára gamalla gagna úr bókhaldi lögmannsstofu varnaraðila. Að mati nefndarinnar verður varnaraðili ekki krafinn um bókhaldsgögn sín svo langt aftur í tímann og var honum óskylt að verða við umræddri beiðni sóknaraðila. Fól synjun varnaraðila um afhendingu á umræddum gögnum því ekki í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum.

 

v.

Með bréfi, dags. 12. maí 2023, óskaði lögmaður sóknaraðila eftir afritum af þeim samningum sem [...] ehf. gerði við lögmannsstofu varnaraðila um hlutdeild félagsins í kostnaði af rekstri skrifstofu að [...], afriti af útgefnum reikningum á [...] ehf. af hálfu lögmannsstofu varnaraðila og samnefnds fasteignafélags á árunum 2007 til 2009 og afriti af kaupsamningi um hluta fasteignarinnar að [...]. Varnaraðili kveðst ekki hafa umrædd gögn undir höndum og telur engar forsendur til þess að hann verði knúinn til þess að grafa þau upp. Að mati nefndarinnar varða umbeðin gögn ekki lögmannsstörf varnaraðila í þágu sóknaraðila og telst hann ekki hafa brotið gegn siðareglum lögmanna eða lögum með því að verða ekki við beiðni sóknaraðila um afhendingu þeirra.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, B lögmanns, um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað.

Sú háttsemi varnaraðila, B lögmanns, að afhenda sóknaraðila, A ehf., ekki afrit samskipta sem hann átti við þáverandi stjórnarmenn sóknaraðila og eftir atvikum fulltrúa þeirra, [...] og þáverandi endurskoðanda félagsins, [...], er vörðuðu fundargerðir, dags. 3. og 5. júlí 2007, sem óskað var eftir með bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 24. mars 2024, er aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir


Eva Hrönn Jónsdóttir