Mál 34 2023

Mál 34/2023

Ár 2024, föstudaginn 28. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið mál nr. 34/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 17. ágúst 2023, kvörtun sóknaraðila, A, gegn varnaraðila, B lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 30. ágúst 2023, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila ásamt fylgiskjölum barst samdægurs og krafðist varnaraðili frávísunar málsins frá nefndinni og kvaðst ekki myndi skila frekari gögnum í málinu. Nefndin tók kröfu varnaraðila um frávísun málsins fyrir á fundi 10. október 2023 og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til þess að vísa málinu frá og að málið yrði tekið til efnismeðferðar. Með bréfi, dags. 11. október 2023 var varnaraðila tilkynnt um þá niðurstöðu og var honum gefinn frestur til 1. nóvember 2023 til þess að skila greinargerð í málinu. Með tölvupósti samdægurs kvaðst varnaraðili þegar hafa svarað nefndinni hvað málið varðaði, hann myndi ekki skila frekari gögnum eða svörum, að allar nauðsynlegar upplýsingar lægu þegar fyrir í málinu og vísaði til erindis síns og fylgiskjala sem send voru nefndinni 30. ágúst 2023. Sóknaraðila var veittur frestur til þess að koma að frekari gögnum eða athugasemdum í málinu en ekki kom til frekari gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt kvörtun á málið rætur að rekja til samkomulags aðila um aflýsingu fjárnáms á eign sóknaraðila frá árinu 2021. Sóknaraðili beindi kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna vegna háttsemi varnaraðila í september árið 2021 sem fékk málsnúmerið 22/2021. Sóknaraðili segir varnaraðila í kjölfarið hafa boðist til þess að afturkalla fjárnám í eign sóknaraðila gegn því að kvörtun til úrskurðarnefndar yrði afturkölluð. Sóknaraðili hafi fallist á það og afturkallað kvörtun sína og dregið þá ályktun að málinu væri lokið. Tveimur árum síðar hafi sóknaraðili og sambýliskona hans sótt um greiðslumat í banka og þá orðið ljóst að umrætt fjárnám hvíldi enn á eigninni. Sóknaraðili hafi sett sig í samband við varnaraðila sem hafi farið fram á að sóknaraðili sendi honum gögn, á eigin kostnað. Sóknaraðili hafi haft samband við annan lögmann, Umboðs­mann skuldara og sýslumann og fengið staðfest að varnaraðili bæri ábyrgð á því að útvega umrædd gögn. Sóknaraðili telur vinnubrögð varnaraðila ófagmannleg og ekki lögmanni sæmandi og ljóst að varnaraðili hafi ekki staðið við sinn hlut samkomulagsins sem aðilar hafi gert með sér á árinu 2021, þegar sóknaraðili afturkallaði fyrri kvörtun sína til nefndarinnar vegna háttsemi varnaraðila.

Í málinu gerir sóknaraðili þá kröfu að annars vegar að aflýsing fjárnámsins verði afgreidd og hins vegar að varnaraðili „hafi á sér staðfesta kvörtun sem ekki verði tekin af skrá“.

Varnaraðili kveðst hafa sent inn beiðni til sýslumanns um að fjárnámi í eign sóknaraðila yrði aflýst strax eftir að aðilar hafi gert með sér samkomulag þess efnis. Sýslumaður hafi hins vegar ekki aflýst fjárnáminu, án þess að skýringar liggi fyrir því. Varnaraðili hafi talið málinu lokið.

Varnaraðili kveðst hafa verið í sumarfríi þegar sóknaraðili hafði samband við hann að nýju með tölvupósti 31. júlí 2023 og hafi sóknaraðili fengið svarpóst þess efnis að beina erindi sínu til annarra starfsmanna lögmannsstofunnar á meðan varnaraðili væri í fríi. Það hafi hann ákveðið að gera ekki. Þegar varnaraðili hafi snúið aftur til vinnu hafi hann farið í að aflýsa fjárnáminu.

Varnaraðili vísar til fylgiskjala, þar með talið bréfs, dags. 5. apríl 2022, um afturköllun fjárnámsins sem hann sendi til embættis sýslumannsins á höfuðborgar­svæðinu. Þá liggur fyrir tölvupóstur frá 18. ágúst 2023 þar sem varnaraðili spurðist fyrir um hvers vegna fjárnáminu hefði ekki verið aflýst í kjölfar bréfs hans þess efnis. Í svari lögfræðings hjá sýslumanni til varnaraðila sama dag var varnaraðili upplýstur um að ekki væri nóg að senda inn erindi um afturköllun fjárnáms heldur þyrfti að leggja skjalið inn til þinglýsingar, sem ekki væri sjáanlegt að hefði verið gert áður.

Einnig liggja fyrir tölvupóstsamskipti varnaraðila við lögmann sóknaraðila frá 18. ágúst 2023 þar sem lögmaður sóknaraðila áframsendi upplýsingar frá sýslumanni um hvernig bæri að standa að afléttingu fjárnámsins. Í svari varnaraðila, sem sent var lög­manni sóknaraðila og lögfræðingi hjá sýslumanni, kemur fram að bréf um afturköllun fjár­námsins hafi verið póstlagt á sínum tíma og það yrði gert að nýju samdægurs. Gögn málsins sýna að þinglýsingargjald vegna aflýsingar fjárnámsins var greitt 22. ágúst 2023 og fjárnáminu loks aflýst þann 30. ágúst 2023.

Varnaraðili kveðst telja sóknaraðila misnota nefndina með erindi sínu og vísar til rannsóknar­reglu stjórnsýsluréttar og þeirrar skyldu sem á nefndinni hvílir um að afla frekari gagna, sem ætti að vera auðsótt mál að fá frá sóknaraðila.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.

Sóknaraðili gerir sem fyrr segir kröfu um að fjárnámi á eign hans verði aflýst. Slík krafa fellur utan valdsviðs úrskurðarnefndar lögmanna og verður af þeim sökum ekki hjá því komist að vísa henni frá nefndinni.

Hins vegar gerir varnaraðili kröfu um að varnaraðili hafi á sér staðfesta kvörtun sem ekki verði tekin af skrá. Á kvörtunareyðublaði kemur fram að kvörtun lúti að háttsemi lögmanns auk þess sem í texta kvörtunar kemur fram að sóknaraðili telji vinnubrögð varnaraðila hafa verið ófagmannleg og ekki lögfræðingi sæmandi. Verður kvörtun ekki skilin með öðrum hætti en að sóknaraðili fari fram á að nefndin taki afstöðu til þess hvort varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

Kvörtun sóknaraðila lýtur að þeirri háttsemi varnaraðila að hafa ekki staðið við gert samkomulag aðila frá árinu 2021, þess efnis að sóknaraðili afturkallaði kvörtun vegna háttsemi varnaraðila til nefndarinnar gegn því að varnaraðili aflýsti fjárnámi sem hann hafði gert í fasteign sóknaraðila.

Í málinu liggur fyrir bréf varnaraðila til sýslumanns um afturköllun fjárnámsins, dags. 5. apríl 2022. Varnaraðili ber því við að hann hafi gengið út frá því að fjárnáminu yrði aflýst í kjölfarið. Í kjölfar þess að sóknaraðili setti sig í samband við varnaraðila í júlí 2023 hafi komið í ljóst að fjárnáminu hafi ekki verið aflýst, þar sem skjal þess efnis hefði ekki verið fært inn til þinglýsingar. Upplýsti lögfræðingur hjá sýslumanni varnaraðila um að ekki væri fullnægjandi að senda erindi um aflýsingu fjárnáms heldur þyrfti að færa skjal þess efnis til þinglýsingar, sem ekki hefði verið gert á sínum tíma.

Að mati nefndarinnar telst sannað að varnaraðili aflétti ekki fjárnámi á eign sóknaraðila í kjölfar samkomulags aðila þess efnis. Virðist varnaraðili hafa talið að fullnægjandi væri að senda erindi þess efnis til sýslumanns en ekki vitað að leggja þyrfti skjalið inn til þinglýsingar og greiða þing­lýsingar­gjald. Gögn málsins sýna að varnaraðili lagði skjalið inn til þinglýsingar fjórum dögum eftir að hann fékk leiðbeiningar þar að lútandi um frá starfsmönnum embættis sýslumanns.

Þrátt fyrir að varnaraðila hafi orðið það á að óska eftir aflýsingu fjárnámsins með ófullnægjandi hætti, telur nefndin, í ljósi þess að hann greip strax til viðeigandi aðgerða þegar honum varð þetta ljóst, ekki tilefni til þess að beita viðurlögum.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu sóknaraðila, A, um að fjárnám verði afturkallað, er vísað frá nefndinni.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Grímur Sigurðsson

Helga Melkorka Óttarsdóttir

 

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir