Mál 35 2023
Mál 35/2023
Ár 2024, fimmtudaginn 7. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 35/2023:
A ehf.
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. ágúst 2023 kvörtun C, f.h. A ehf., gegn B lögmanni, vegna ágreinings um endurgjald og háttsemi varnaraðila í störfum hans fyrir sóknaraðila.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 27. október 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 26. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 17. nóvember 2023. Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri viðbótargreinargerð og barst hún þann 11. desember 2023. Viðbótargreinargerð varnaraðila barst þann 4. janúar 2024. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.
Málsatvik og málsástæður
Sóknaraðili kveðst hafa leitað til varnaraðila til innheimtu á kröfu vegna málningarvinnu hans fyrir tiltekið húsfélag. Sóknaraðili segist hafa áframsent til varnaraðila nokkra tölvupósta milli sín og formanns umrædds húsfélags og upplýst varnaraðila um önnur samskipti sín við húsfélagið. Varnaraðili hafi stefnt húsfélaginu fyrir hönd sóknaraðila þann 6. september 2023 en sóknaraðili hafi falið honum innheimtu kröfunnar í lok nóvember 2022. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa sent sér tölvupóst þann 18. mars 2023 þess efnis að hann þyrfti að greiða honum 363.750 krónur. Hann hafi hins vegar engan reikning fengið fyrr en í lok júlí sama ár en þá hafi honum borist tveir reikningar, sá fyrri að fjárhæð 313.720 krónur og sá seinni 377.890 krónur. Þar með hafi kostnaður vegna málsins verið kominn í 741.610 krónur og vinna varnaraðila samkvæmt reikningunum tveimur numið 24 klst.
Sóknaraðili segir varnaraðila ekki hafa svarað tölvupóstum og símtölum nema eftir hentisemi og hafi orðið móðgaður þegar sóknaraðili hafi sett út á reikninga hans. Þá hafi varnaraðili spurt hvort sóknaraðili teldi varnaraðila eiga að vinna frítt fyrir sig og sóknaraðili tjáð honum að hann væri vanur að gera upp við lögmann þegar máli væri lokið.
Sóknaraðili fer fram á að nefndin úrskurði um hæfilega þóknun varnaraðila í málinu en sóknaraðili telur umkrafða þóknun varnaraðila úr hófi enda séu málsgögn í málinu einungis nokkrir tölvupóstar og stefna einföld. Sóknaraðili telur óeðlilegt að vinna í málinu geti numið 24 klst.
II.
Í greinargerð varnaraðila segir hann segir sig og sóknaraðila ekki hafa þekkst þegar sóknaraðili leitaði til hans þann 16. nóvember 2022 með mál sín sem hafi verið tvö og annars vegar snúist um vanda vegna byggingaframkvæmda í Þorlákshöfn og ógreidda reikninga vegna vinnu sóknaraðila fyrir húsfélag í Kópavogi hins vegar.
Varnaraðili kveðst hafa kynnt sóknaraðila gjaldskrá lögmannsstofu sinnar og tjáð sóknaraðila að vinna hans yrði reikningsfærð samkvæmt tímaskýrslum og að hver vinnustund kostnaði 23.000 krónur. Vinnustundir varnaraðila vegna málsins sem varðaði byggingaframkvæmdir í Þorlákshöfn hafi verið þrjár en vinnustundir vegna innheimtumálsins 24,45. Vísar varnaraðili til tímaskýrslu sinnar sem liggur fyrir í gögnum málsins.
Varnaraðili segir innheimtuviðvörun vegna innheimtumálsins hafa verið senda þann 25. nóvember 2022 og vísar til gagna sem liggja fyrir í málinu því til stuðnings. Málið hafi verið talsvert flókið og sóknaraðili hafi sent sér talsvert af gögnum sem hann hafi þurft að vinna með. Þegar aðilar hafi hist þann 2. maí 2023 kveðst varnaraðili hafa verið tilbúinn með uppkast af stefnu en í ljós hafi komið að enn vantaði mikið upp á að sóknaraðili hefði látið varnaraðila hafa öll þau gögn sem málið vörðuðu. Sóknaraðili hafi farið í að safna gögnunum saman svo hægt væri að ljúka stefnugerð og síðustu gögn hafi borist frá sóknaraðila þann 10. maí 2023.
Varnaraðili nefnir að sóknaraðili hafi verið erlendis í einhverja mánuði á því tímabili sem verkið stóð sem hafi tafið verkið eitthvað.
Varnaraðili kveðst hafa óskað eftir greiðslu vegna vinnu og áfallins kostnaðar með bréfi 18. mars 2023 og hafi krafan numið 363.720 krónum. Sóknaraðili hafi innt þá greiðslu af hendi þann 21. apríl 2023 og reikningur afhentur honum á fundi aðila þann 9. maí.
Að sögn varnaraðila lauk vinnu við stefnu þann 28. júní 2023 og hafi stefnan verið gefin út þann dag. Málið hafi verið þingfest þann 6. september 2023. Þann 24. júlí hafi varnaraðili gert sóknaraðila reikning vegna vinnu sinnar að fjárhæð 377.890 krónur. Eftir þingfestingu innheimtumálsins hafi viðræður hafist við lögmann gagnaðila í málinu en þeim lokið án árangurs.
Varnaraðili segir sóknaraðila ekki hafa greitt reikning, dags. 24. júlí 2023, og hafi hann því tilkynnt sóknaraðila þann 11. október að yrði reikningurinn ekki greiddur innan viku myndi varnaraðili segja sig frá frekari vinnu fyrir hann. Greiðsla hafi ekki borist. Þann 18. október 2023 hafi varnaraðili tekið við greinargerð í máli sóknaraðila og degi síðar hafi annar lögmaður haft samband við varnaraðila símleiðis og upplýst um að hann hafi tekið við málarekstri sóknaraðila. Því hafi varnaraðili sent sóknaraðila uppgjörsreikning, dags. 18. október 2023, að fjárhæð 99.820 krónur. Sá reikningur hafi heldur ekki verið greiddur.
Varnaraðili mótmælir kröfum sóknaraðila og telur umkrafða þóknun sína vegna starfa í þágu sóknaraðila hæfilega og að verkið hafi ekki tekið of langan tíma. Þá krefst varnaraðili hæfilegs málskostnaðar úr hendi gagnaðila vegna meðferðar málsins fyrir nefndinni en varnaraðili telur vinnu vegna þessa hæfilega metna 6 klst. sem á tímagjaldi hans, kr. 23.000 auk virðisaukaskatts nemur 171.120 krónum.
III.
Í viðbótargreinargerð sinni gerir sóknaraðili athugasemdir við tímaskráningu varnaraðila vegna máls er varðaði byggingaframkvæmdir í Þorlákshöfn og telur vinnu við það mál ekki hafa numið þremur klukkustundum.
Þá kveðst sóknaraðili ósammála því að innheimtumálið hafi verið flókið. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa móðgast þegar hann hafi sagt honum hvernig væri best að stefna málinu og sagt að sóknaraðili þyrfti ekki að kenna honum hvernig ætti að reka svona mál. Varnaraðili hafi viljað fá alla pósta með samskiptum við formann umrædds húsfélags svo hann gæti sjálfur séð samskiptin og sóknaraðili hafi sent honum þau.
Sóknaraðili hafnar því að dvöl hans erlendis hafi tafið málareksturinn og vísar til framlagðra tölvupósta sem varnaraðili hafi ekki svarað auk þess sem hann hafi ítrekað reynt að ná tali af varnaraðila í síma án árangurs. Þá mótmælir sóknaraðili því að tölvupóstar hans geti hafa farið í ruslpósthólf varnaraðila eins og hann haldi fram því allir póstar fram að því hafi ratað rétta leið.
Sóknaraðili segir varnaraðila hafa kallað sig tvisvar á fund til þess að fara yfir stefnu sem þegar hafi verið búið að fara yfir, sem hann hafi bent varnaraðila á.
Sóknaraðili telur ljóst að varnaraðili eigi í vandræðum með að útskýra skráða tíma samkvæmt tímaskýrslu enda skrái hann þriggja klukkustunda vinnu á símtal sem hafi tekið þrjár mínútur.
IV.
Í viðbótargreinargerð varnaraðila segir hann augljóst af svari sóknaraðila að hann kannist við álitaefni er vörðuðu húsbyggingu á Þorlákshöfn, enda hafi vinna vegna þess máls komið fram á tímaskýrslum varnaraðila og kostnaður vegna þeirrar vinnu sé löngu greiddur. Það mál hafi verið rætt á fundum aðila 16. og 24. nóvember 2022 og unnið í því ásamt innheimtumálinu 17. og 23. sama mánaðar.
Varðandi vinnu sína í innheimtumálinu bendir varnaraðili á að síðasta gagnasending til hans vegna málsins hafi verið 10. maí 2023, síðasti fundur hans með sóknaraðila verið þann 13. maí sama ár og lokafrágangur stefnu þann 28. júní sama ár.
Varnaraðili ítrekaði að öðru leyti þær kröfur sem hann hafði sett fram í greinargerð sinni í málinu.
Niðurstaða
I.
Greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skv. 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Í 18. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.
Í 12. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist. Lögmanni er heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki. Aldrei má þó lögmaður segja sig frá verki, án þess að skjólstæðingur fái svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og ráða sér annan lögmann.
Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.
II.
Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Af hálfu nefndarinnar verður við mat á hæfilegu endurgjaldi varnaraðila fyrir vinnu í þágu sóknaraðila, að líta til þess hvaða vinnu varnaraðili hefur gert grein fyrir í tímaskýrslu og í svörum til nefndarinnar og þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu. Varnaraðili hefur borið því við að innheimtumál sóknaraðila hafi verið talsvert flókið og gögn umfangsmikil. Hvað sem því líður liggur fyrir að varnaraðili fór þá leið að stefna málinu fyrir dóm með einfaldri innheimtustefnu. Slík framsetning máls getur að mati nefndarinnar oft átt rétt á sér, m.a. til þess að draga úr málskostnaði vegna innheimtu. Í máli þessu fæst að mati nefndarinnar ekki séð að sú mikla vinna sem varnaraðili kveðst hafa lagt í undirbúning málsins, hafi skilað sér í stefnu málsins. Þannig benda gögn málsins ekki til þess að varnaraðili hafi kynnt sér þá galla á verki sóknaraðila sem gagnaðili hans bar við að hafi verið á verkinu og leiddi til þess að greiðslu kröfu sóknaraðila var hafnað. Einföld innheimtustefna, eins og sú sem varnaraðili lagði fram í máli sóknaraðila, réttlætir að mati nefndarinnar ekki þann mikla tímafjölda sem varnaraðili skráði í tímaskýrslu og byggir kröfu sína gagnvart sóknaraðila á. Nefndin telur varnaraðila ekki hafa gert grein fyrir þeim fjölda vinnustunda sem skráðar eru í tímaskýrslu eða sýnt fram á að málið hafi réttlætt svo margra klukkustunda vinnu sem tímaskýrsla gefur til kynna og sætir endurgjald hans lækkun. Að mati nefndarinnar var hæfilegur tímafjöldi þeirrar vinnu sem varnaraðili vann fyrir sóknaraðila, 12 klukkustundir. Nefndin telur tímagjald það sem varnaraðili áskildi sér vegna starfa í þágu sóknaraðila, að fjárhæð 23.000 krónur auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi.
Kvörtun lýtur einnig að þeirri háttsemi varnaraðila að hafa ekki svarað öllum erindum sóknaraðila auk þess sem hann hafi ekki rekið mál hans áfram á hæfilegum hraða. Fyrir liggur að sóknaraðili leitaði fyrst til varnaraðila þann 16. nóvember 2022. Gögn málsins sýna að þann 25. nóvember s.á. sendi varnaraðili innheimtuviðvörun vegna kröfu sóknaraðila á hendur gagnaðila hans. Þá sýna gögn málsins að gagnaðili hafnaði kröfu sóknaraðila með tölvupósti þann 3. desember 2022. Samkvæmt tímaskýrslu og gögnum málsins vann varnaraðili ekki aftur í máli sóknaraðila fyrr en 18. mars 2023. Í millitíðinni sendi sóknaraðili fimm tölvupósta til varnaraðila, 18. janúar, 1. febrúar og 9., 11. og 18. mars. Fyrstu fjórum póstunum svaraði varnaraðili ekki. Síðasta póstinum svaraði varnaraðili, baðst afsökunar og sagði pósta sóknaraðila hafa lent í ruslinu hjá sér. Sagði varnaraðili stefnu í málinu tilbúna en samkvæmt tímaskýrslu vann varnaraðili 4,5 klst. við stefnugerð þann sama dag. Í tölvupósti daginn eftir gerði sóknaraðili athugasemd við að ekki væri búið að stefna málinu og minnti á að varnaraðili hefði sagst ætla að drífa í því strax að loknu jólaleyfi. Sóknaraðili kvaðst vera væntanlegur til landsins 29. mars 2023 og óskaði eftir fundi með varnaraðila.
Í gögnum málsins liggja ekki fyrir samskipti aðila aftur fyrr en 21. apríl 2023 þegar sóknaraðili hafði samband við varnaraðila og kvaðst hafa greitt reikning frá honum og óskaði eftir fundi. Með tölvupósti 25. apríl bauð varnaraðili sóknaraðila á fund til sín 2. maí 2023. Sóknaraðili þáði það með tölvupósti samdægurs en spurði hvort þeir gætu ekki hist fyrr. Samkvæmt tímaskýrslu áttu aðilar fund 2., 9. og 13. maí 2023 auk þess sem sóknaraðili sendi varnaraðila gögn er vörðuðu málið með tölvupósti 7. og 10. maí. Í kjölfar fundar aðila 13. maí 2023 sendi varnaraðili sóknaraðila drög að stefnu í tölvupósti og bað hann að lesa yfir. Sóknaraðili svaraði samdægurs og kvaðst lítast vel á stefnuna og óskaði eftir að drifið yrði í að þingfesta málið. Aftur sendi varnaraðili sóknaraðila stefnuna til yfirlestrar 22. maí 2023 og bað sóknaraðila að hitta sig á fundi sem sóknaraðili kvaðst telja óþarft, enda hefði hann engu við stefnuna að bæta. Jafnframt sýna gögn málsins að sóknaraðili hafði samband við varnaraðila 27. júní 2023 og spurðist fyrir um stöðu málsins og samkvæmt tímaskýrslu varnaraðila lauk hann við stefnuna daginn eftir. Sóknaraðili spurðist fyrir um stöðu málsins í júlí og ágúst 2023 en mál hans var ekki þingfest fyrr en 6. september sama ár.
Nefndin telur varnaraðila hafa mátt vera ljóst frá upphafi að sóknaraðila væri mikið í mun að mál hans yrði unnið hratt og bar varnaraðila skylda til þess að upplýsa sóknaraðila að mál hans drægist þegar hann sá fyrir að svo myndi verða. Að mati nefndarinnar er sú háttsemi varnaraðila að svara ekki ítrekuðum erindum sóknaraðila og að reka mál hans ekki áfram með hæfilegum hraða, aðfinnsluverð.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa í þágu sóknaraðila, A ehf., sætir lækkun og telst hæfileg fjárhæð endurgjaldsins vera 342.240 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sú háttsemi varnaraðila, B lögmanns, að svara ekki ítrekuðum erindum fyrirsvarsmanns sóknaraðila, A ehf., og að reka mál hans ekki áfram með hæfilegum hraða, er aðfinnsluverð.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helgi Birgisson
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir