Mál 37 2023

Mál 37/2023

Ár 2024, miðvikudaginn 3. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið mál nr. 37/2023:

A lögmaður

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 28. ágúst 2023 kvörtun sóknaraðila, A lögmanns, gegn B lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns gagnaðila umbjóðanda sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 28. ágúst 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Þann 30. ágúst 2023 fór varnaraðili þess á leit við nefndina að hún hlutaðist til um að leita sátta með aðilum málsins og fór fram á að gögn málsins sem væru á öðru tungumáli en íslensku væru þýdd löggiltri þýðingu á íslensku.

Úrskurðarnefnd óskaði eftir því við sóknaraðila að hann útvegaði löggilta þýðingu á þeim gögnum málsins sem við á og barst hún þann 8. nóvember 2023 og var send varnaraðila samdægurs. Var honum jafnframt tjáð að nefndin liti svo á að ekki væru forsendur til sátta­umleitana af hálfu nefndarinnar. Var varnaraðila veittur frestur til 29. nóvember 2023 til þess að skila greinargerð og var sá frestur framlengdur einu sinni til 6. desember 2023. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 7. desember 2023. Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri viðbótargreinargerð en hann taldi ekki ástæðu til að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns og tók varamaður sæti hans í málinu.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili greinir svo frá málsatvikum að til hans hafi leitað […], og falið að gæta hagsmuna sinna vegna óhóflegs endurgjalds sem varnaraðili krafði hana um vegna slysamáls sem hann sinnti fyrir hana.

Sóknaraðili hafi sent kröfubréf í tölvupósti til varnaraðila þann 25. ágúst 2023  kl. 15:29 sem varnaraðili hafi svarað 28 mínútum síðar þar sem hann staðfesti móttöku bréfsins og bað sóknaraðila að senda sér umboð umbjóðanda síns. Fimm mínútum síðar hafi [...], sem tilgreindur sé fulltrúi varnaraðila á heimasíðu lögmannsstofu hans, […], hringt í umbjóðanda sóknaraðila og reynt að semja við hana um lok málsins og hafi hann talað við hana í níu mínútur. Að símtalinu loknu hafi fulltrúinn sent umbjóðanda sóknaraðila skilaboð á samfélagsmiðlinum WhatsApp. Um hafi verið að ræða hljóð­skilaboð á arabísku. Í skilaboðunum megi heyra fulltrúann bjóða umbjóðanda sóknar­aðila greiðslu gegn því að hún segi sóknaraðila upp sem lögmanni sínum og fulltrúinn muni gæta hagsmuna hennar endurgjaldslaust.

Þau vinnubrögð varnaraðila að láta fulltrúa sinn hafa samband við umbjóðanda sóknaraðila telur sóknaraðili fela í sér gróft brot á 26. gr. siðareglna lögmanna. Varnaraðili hafi verið upplýstur um að umbjóðandinn hafði falið sóknaraðila að gæta hagsmuna sinna í málinu gagnvart varnaraðila. Ekki skiptir máli að mati sóknaraðila að varnaraðili sé sjálfur gagnaðili í umræddu máli enda sé ákvæði 26. gr. skýrt um að lögmaður megi ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis. Sömuleiðis telur sóknaraðili að varnaraðili geti ekki skýlt sér á bak við það að hann sjálfur hafi ekki haft samband við umbjóðanda sóknaraðila, heldur fulltrúi hans, enda beri varnaraðili ábyrgð á fulltrúum sínum. Þá sé augljóst að fulltrúinn hafði samband við umbjóðanda sóknaraðila fyrir hönd varnaraðila og að hans skipun.

Þann 28. ágúst 2023 hafði sóknaraðili samband við varnaraðila með tölvupósti og tjáði honum að einungis fimm mínútum eftir að varnaraðili staðfesti móttöku kröfubréfs frá sóknaraðila hafi fulltrúi varnaraðila hringt í umbjóðanda sóknaraðila og reynt að semja um þetta mál. Sóknaraðili tjáði varnaraðila að þetta væru að hans mati óboðleg vinnubrögð og fælu í sér gróft brot á 26. gr. siðareglna lögmanna. Þá tjáði sóknaraðili varnaraðila að vildi hann semja um málið ætti hann að beina ósk um slíkt til sóknaraðila.

Sóknaraðili segir varnaraðila ekki hafa viljað kannast við að fulltrúi sinn hafi haft samband við umbjóðanda varnaraðila þegar það var borið undir hann. Þetta telur sóknaraðili augljósa lygi enda sé auðsýnt að það sé engin tilviljun að fulltrúi varnaraðila hafi hringt í umbjóðanda sóknaraðila einungis fimm mínútum eftir að varnaraðili hafði svarað tölvupósti sóknaraðila. Þá sé ekki að heyra annað í hljóðskilaboðum sem fulltrúinn sendi umbjóðanda sóknaraðila en að fulltrúi varnaraðila sé að reyna að fá umbjóðanda sóknaraðila, til að aðhafast með ólögmætri háttsemi. Slíkt feli í sér brot á fleiri ákvæðum siðareglna lögmanna.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta viðurlögum á grundvelli 43. gr. siðareglna vegna grófs brots á 26. gr. siðareglna lögmanna. Þá tekur sóknaraðili fram að umbjóðandi hans gefi úrskurðarnefnd fullt leyfi til þess að nafngreina varnaraðila í úrskurði sínum telji úrskurðarnefndin tilefni til.

Með kvörtun fylgdi afrit tölvupóstsamskipta aðila sem sóknaraðili vísar til í kvörtun, skjáskot af síma umbjóðanda sóknaraðila, skjáskot af heimasíðu lögmannsstofu varnaraðila og hljóð­skilaboð sem fulltrúi varnaraðila sendi umbjóðanda sóknaraðila.

II.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá en til vara að nefndin úrskurði að varnaraðili hafi hvorki brotið gegn siðareglum lögmanna né lögum um lögmenn í störfum sínum. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.

Varnaraðili mótmælir málavöxtum eins og þeim er lýst í kvörtun sem röngum, ósönnum og villandi, að því leyti sem lýsing sóknaraðila samrýmist ekki málavaxtalýsingu varnaraðila. Að mati varnaraðila er málatilbúnaður sóknaraðila vanreifaður og kvörtunin svo illa fram sett að vandasamt sé að koma vörnum að í málinu. Af kvörtuninni megi þó ráða að sóknaraðili telji að varnaraðili hafi gert á sinn hlut, með því að hafa beint samband við umbjóðanda sóknaraðila, eða einhver annar aðili sem sagður sé vera á vegum varnaraðila.

Varnaraðili segir kvörtun lúta að háttsemi sinni í tengslum við innheimtumál sem sóknaraðili hafi rekið f.h. umbjóðanda sinn gegn varnaraðila. Varnaraðila hafi borist erindi frá sóknaraðila 25. ágúst 2023 þar sem hann krafðist greiðslu úr hendi varnaraðila f.h. umbjóðanda síns. Varnaraðili kveðst hafa svarað erindinu samdægurs. Kröfuna segir varnaraðili tilkomna vegna niðurstöðu úrskurðarnefndar lögmanna í óskyldu máli.

Varnaraðili kveðst hafa tekið að sér hagsmunagæslu fyrir umbjóðanda sóknaraðila vegna þriggja ótengdra mála sem hafi lokið árið 2021 með fullnaðaruppgjöri milli aðila. Varnaraðili kveðst hafa hafnað því að umbjóðandi sóknaraðila ætti nokkrar kröfur á hendur honum og hafi sóknaraðili þá upplýst að hann hygðist stefna varnaraðila f.h. umbjóðanda síns, til innheimtu kröfunnar. Varnaraðili segir að í ljósi þess að umbjóðandi sóknaraðila hafi talið að uppgjöri aðila væri ekki lokið, hafi varnaraðili farið yfir tímaskráningar í málum hennar og orðið þess áskynja að enn væru ógreiddar um 400.000 krónur vegna mála sem varnaraðili hafði sinnt hagsmunagæslu fyrir hana í. Sökum þess hafi umbjóðanda sóknaraðila verið sendur reikningur fyrir því sem út af stóð.

Að mati varnaraðila má ráða af kvörtun að varnaraðili standi einn að baki kvörtuninni, en ekki umbjóðandi hans, enda sé hún í hans nafni. Að mati varnaraðila er ómögulegt að heimfæra meinta háttsemi hans undir 26. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 27. gr. laga um lögmenn, enda hafi varnaraðili beint erindi sínu beint til gagnaðila síns, umbjóðanda sóknaraðila, en ekki sóknaraðila. Þá telur varnaraðili vandséð að úrskurðarnefnd geti látið varnaraðila sæta viðurlögum skv. siðareglum, en hingað til hafi úrskurðarnefnd vísað til laga um lögmenn er hún ákvarðar viðurlög þeim til handa. Þá telur sóknaraðili að það sé ekki á hendi sóknaraðila eða umbjóðanda hans að leyfa birtingu úrskurðar með nöfnum aðila án þess að gætt sé persónuverndarsjónarmiða. Telur varnaraðili framangreint geta leitt til þess að málinu sé vísað frá ex officio.

Frávísunarkröfu sína byggir varnaraðili á því að kvörtun beri með sér að erfitt sé að átta sig á því í hverju hin meinta brotlega háttsemi varnaraðila felist gagnvart sóknaraðila sjálfum. Að mati varnaraðila bindur 1. mgr. 26. gr. siðareglna lögmanna ekki hendur lögmanna þegar þeir eru persónulega orðnir aðili mála. Af því leiðir að sóknaraðila varði ekki sérstaklega um það, þótt varnaraðili hafi samband við umbjóðanda hans með það fyrir augum að reyna að sætta málin. Telji nefndin að varnaraðili hafi gerst sekur um framangreinda háttsemi, sem varnaraðili hafni, hafi hún beinst að umbjóðanda sóknaraðila en ekki sóknaraðila sjálfum. Þá áréttar varnaraðili að kvörtunin sé lögð fram í nafni sóknaraðila persónulega og telur að af þeim sökum beri að vísa málinu frá nefndinni vegna aðildarskorts og úrskurða um málskostnað.

Telji nefndin að kvörtunin sé tæk til efnismeðferðar gerir varnaraðili þá kröfu að nefndin úrskurði að hann hafi hvorki brotið gegn siðareglum lögmanna né lögum um lögmenn í störfum sínu. Fyrir liggi að varnaraðili hafi beint erindi sínu réttilega til umbjóðanda sóknar­aðila, eins og honum sé heimilt að gera, en ekki sóknaraðila sjálfs.

Varnaraðili segir sóknaraðila hafa gert varnaraðila að gagnaðila umbjóðanda sóknaraðila með því að senda honum kröfubréf þann 25. ágúst 2023. Varnaraðili hafi ekki haft samband við umbjóðanda sóknaraðila sem lögmaður heldur sem gagnaðili í máli sem til stóð að stefna fyrir dóm gegn honum. Varnaraðili segir mönnum almennt heimilt að beina erindum sínum að þeim aðila er þeir kjósi, en lögmönnum séu hins vegar sett takmörk á samskipti við gagnaðila umbjóðenda sinna, hafi gagnaðili upplýst lögmann um að þeir njóti aðstoðar lögmanns og að öll frekari samskipti eigi að fara í gegnum lögmanninn.

Varnaraðili bendir á að hvergi í siðareglum eða lögum sé að finna ákvæði sem skerði rétt lögmanna í málum sem beint er að þeim persónulega og því megi gagnálykta á þann veg að engar takmarkanir hvíli á herðum lögmanna, sem eru aðilar í tilteknum málum, að ræða þau mál við gagnaðila sína beint. Það eitt að einstaklingar séu handhafar málflutningsréttinda fyrir dómstólum svipti þá ekki þeim rétti að gæta hagsmuna sinna sjálfir og þá án þess að leita aðstoðar annars lögmanns.

Varðandi meintan þátt [...] segir varnaraðili að hann sé verktaki sem leigi skrifstofurými hjá varnaraðila en til standi að gera hann að fulltrúa hjá varnaraðila, fáist fyrir því samþykki hjá Lögmannafélagi Íslands. Varnaraðili segir [...] hafa að eigin frumkvæði sett sig í samband við gagnaðila varnaraðila, sem jafnframt sé umbjóðandi sóknaraðila, þar sem hann þekki umbjóðandann og hafi sinnt hagsmunagæslu fyrir hana, en ekki sökum þess að hann hafi verið að gæta hagsmuna varnaraðila gagnvart henni. [...] geti af þeim sökum ekki skoðast sem einhvers konar framlenging af varnaraðila.

Að mati varnaraðila er málatilbúnaður sóknaraðila lýsandi fyrir vinnubrögð hans, sem láti persónulega óvild birgja sér sýn í málinu, sem og í öðrum málum sem hann gætir hagsmuna umbjóðanda síns gegn varnaraðila.

III.

Sóknaraðili taldi ekki ástæðu til að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna málsins.

 

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.

Samkvæmt 26. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.

II.

Að mati nefndarinnar er ljóst að erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Á kvörtunareyðublaði kemur fram að kvartað sé vegna háttsemi lög­manns auk þess sem efni kvörtunar er skýrt hvað varðar þá háttsemi sem kvartað er yfir. Að mati nefndarinnar er ljóst að sóknaraðili telur varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, nánar tiltekið 26. gr. siðaregln­anna. Slík kvörtun á lagastoð í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Fyrrnefnt ákvæði 26. gr. siða­reglna lögmanna ákvæði er að finna í kafla IV. kafla reglnanna, sem fjallar um sam­skipti lög­manna innbyrðis. Kvörtun ber með sér að hún stafi frá sóknaraðila sjálfum og á hann að mati nefndar­innar, réttilega aðild að málinu. Í ljósi framangreinds er kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá nefndinni, hafnað.

III.

Gögn málsins sýna að kröfubréf sóknaraðila f.h. umbjóðanda síns var sent varnaraðila kl. 15:29 þann 25. ágúst 2023 og staðfesti hann móttöku þess sama dag kl. 15:56. Í greinargerð varnaraðila kemur fram að hann hafi uppgötvað í kjölfar móttöku kröfubréfsins að hann ætti óinnheimta þóknun gagnvart fyrrum umbjóðanda sínum að fjárhæð u.þ.b. 400.000 krónur. Meðal gagna málsins er skjáskot úr síma umbjóð­anda sóknaraðila sem sýnir að henni barst símtal kl. 16:02 samdægurs, frá [...], sem stóð yfir í 9 mínútur. Einnig liggur fyrir í málinu skjá­upptaka af hljóð- og textaskila­boða­sam­skiptum umbjóðanda sóknar­aðila við [...] á tíma­bilinu 16:34-16:40. Í skila­boðum [...] til umbjóð­anda sóknaraðila segir m.a. „Hann segir að upp­hæðin sé 397.000“. Að mati nefndarinnar telst ljóst að þar sé átt við þá fjárhæð sem varnar­aðili kveðst hafa uppgötvað, í kjölfar móttöku kröfubréfsins, að umbjóðandi sóknaraðila ætti óuppgerða við sig.

Varnaraðili hefur haldið því fram að [...] hafi haft samband við umbjóðanda sóknaraðila að eigin frumkvæði, þar sem hann hafi þekkt hana og sinnt hagsmunagæslu fyrir hana, en ekki sökum þess að hann hafi gætt hagsmuna varnaraðila í máli gagnvart henni. Fyrir liggur að [...] var á þeim tíma sem atvik málsins áttu sér stað, á lista yfir starfsmenn lögmannsstofu varnar­aðila. Þá var hann með netfang með léni lögmannsstofu varnaraðila og símanúmer það sem hann hringdi í umbjóðanda sóknaraðila úr, var skráð á heimasíðu lögmannsstofu varnar­aðila. Þrátt fyrir að [...] hafi ekki fengið staðfestingu Lögmannafélags Íslands um að hann upp­fyllti skilyrði 1.-4. töluliðs 1. mgr. 6. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna, ber varnaraðili engu að síður ábyrgð á störfum [...] sem starfsmanns á skrifstofu sinni.

Að mati nefndarinnar telst sannað að [...] hafi hringt í og í kjölfarið átt í samskiptum við umbjóðanda sóknaraðila með hljóð- og textaskilaboðum þann 25. ágúst 2023. Að sama skapi telst sannað að varnaraðili hafi upplýst [...] um kröfubréfið og uppgötvun varnaraðila um óinnheimta þóknun úr hendi umbjóðanda sóknaraðila og að [...] hafi sett sig í samband við umbjóðanda sóknaraðila með vitneskju varnaraðila. Með hliðsjón af efni skilaboðanna telur nefndin ljóst að tilgangur þess að [...] hafði samband við umbjóðanda sóknaraðila hafi verið sá að reyna að fá hana ofan af því að sækja þann rétt sem hún taldi sig eiga á hendur varnaraðila með því að upplýsa hana um að það myndi leiða til þess að varnaraðili hygðist gera frekari fjárkröfu á hendur henni og því væri ráðlegra fyrir hana að gera samkomulag við varnaraðila. Verða samskiptin ekki skilin með öðrum hætti en að [...] hafi reynt að fá umbjóðanda sóknaraðila til þess að gera samkomulag við varnaraðila án aðkomu sóknaraðila, þrátt fyrir að fyrir lægi að hann gætti hagsmuna hennar í málinu.

Ákvæði 26. gr. siðareglna lögmanna felur í sér afdráttarlaust bann gegn því að lögmaður setji sig í sam­band við aðila um málefni sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema brýn nauðsyn krefji. Með ákvæðinu er reynt að tryggja að aðili verði ekki fyrir réttarspjöllum fái hann ekki notið aðstoðar og ráðgjafar lögmanns síns í máli. Einnig er ákvæðinu ætlað að koma í veg fyrir að lög­maður sýni ekki öðrum lögmanni virðingarleysi með því að hafa beint samband við umbjóð­anda þess lögmanns, án vitneskju hans. Ákvæðið áskilur ekki að umbjóðandi lögmanns eða lögmaður f.h. umbjóðanda síns upplýsi sérstaklega um að samskipti skuli fara fram í gegnum lögmanninn. Ljóst er að varnaraðila var kunnugt um að sóknaraðili gætti hagsmuna umbjóðand­ans og hvíldi engin skylda á varnaraðila eða umbjóðanda hans að tiltaka sérstaklega að samskipti vegna málsins skyldu fara fram í gegnum sóknaraðila frá þeim tíma. Að mati nefndarinnar var engin brýn nauðsyn uppi í málinu sem hefði getað heimilað varnaraðila að hafa samband við umbjóðanda sóknaraðila beint, um málefni sem hann hafði verið upplýstur um að sóknaraðili sinnti fyrir umbjóðandann. Var varnaraðila því óheimilt að hafa samband við umbjóðanda sóknar­aðila, fyrir milligöngu starfsmanns á lögmannsstofu sinni, varðandi kröfu hennar á hendur varnar­aðila. Tók það bann gildi um leið og varnaraðili hafði fengið vitneskju um að umbjóðandinn hefði falið sóknaraðila að gæta hagsmuna sinna gagnvart honum.

Að áliti nefndarinnar hefur varnaraðili gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á 26. siðareglna lögmanna. Með brotinu hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, B lögmanns, um að málinu verði vísað frá nefndinni er hafnað.

Varnaraðili, B lögmaður, sætir áminningu.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helga Melkorka Óttarsdóttir

 

 

Rétt endurrit staðfestir


Eva Hrönn Jónsdóttir