Mál 38 2023

Mál 38/2023

Ár 2024, fimmtudaginn 27. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið mál nr. 38/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 2. september 2023 kvörtun sóknaraðila, A, gegn B lögmanni, vegna háttsemi varnar­aðila sem lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 11. október 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna ágreinings um endurgjald við lögmann sbr. 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 31. október 2023. Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri viðbótargreinargerð en ekki kom til þess að hún væri lögð fram og var málið því tekið til úrskurðar.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili kveðst hafa haft samband við þáverandi lögmannsstofu varnaraðila, […], tveimur árum áður en kvörtun var lögð fram. Sóknaraðili segir sér hafa verið lofað að mál hans yrði klárað innan fjögurra vikna, hann hafi greitt kr. 1.050.000 fyrir þjónustuna en hún hafi ekki verið veitt. Sóknaraðili kveðst ekki ná sambandi við neina lögfræðinga á stofunni og fer því fram á að fá greidda þóknun endurgreidda að fullu.

Sóknaraðili leggur fram handskrifað skjal sem hefur yfirskrift á ensku „confirmation of payment“. Þar kemur fram að þóknun fyrir lögmannsþjónustu sé í heild ein milljón króna og að mótteknar hafi verið kr. 350.000 í peningum. Virðisaukaskattur sé innifalinn. Á skjalinu er að finna stimpil varnaraðila, en undirritun við hlið stimpilsins er ekki varnaraðila heldur er þar ritað nafnið […]. Í kvörtun kemur fram að kvörtun beinist gegn varnaraðila og […]. Umræddur […] hefur ekki fengið útgefin málflutningsréttindi hér á landi. Að auki er skjalið undirritað af sóknaraðila með nafni og kennitölu hans. Umrætt skjal er dagsett 15. febrúar 2021.

Tilgreind sem fylgiskjöl með kvörtun eru þrjár kvittanir vegna millifærslna. Þau skjöl fylgdu ekki með kvörtun í málinu og hafa ekki borist frá sóknaraðila þó eftir þeim hafi verið óskað.

II.

Í greinargerð sinni hafnar varnaraðili kvörtun með öllu og þeim ásökunum sem þar koma fram sem röngum. Varnaraðili segir sóknaraðila virðast hafa leitað til […] sem hafi á tímabili vísað einhverjum samlöndum sínum á lögmannsstofuna […]. Varnaraðili hafi á þeim tíma verið eigandi þeirrar stofu ásamt öðrum lögmanni.

Varnaraðili kveðst aldrei hafa verið í sambandi við sóknaraðila málsins né í sambandi við […] varðandi mál sóknaraðila. Varnaraðili kveðst aldrei hafa hitt sóknaraðila né fengið umboð frá honum í tengslum við eitthvað mál. Varnaraðili hafi því aldrei verið falið að vinna í skattamálum sóknaraðila og hafi hann leitað til lögmannsstofu varnaraðila, hljóti hann að hafa falið öðrum lögmanni umboð til að vinna þá vinnu.

Varnaraðili kveðst hafa hætt með rekstur lögmannsstofunnar […] í lok árs 2021 og reki í dag lögmannsstofuna […].

Varnaraðili kveðst aldrei hafa séð skjal sem sóknaraðili lagði fram og ber yfirskriftina „confirmation of payment“, né hafi hann móttekið þá greiðslu sem þar komi fram eða vitað til þess að lögmannsstofan hafi móttekið þessa greiðslu. Varnaraðili kveðst ekki þekkja hvaða rithönd sé á skjalinu en segir skjalið virðast vera eitthvað sem tengist ekki lögmannsstofunni og alveg ljóst að það tengist sér ekki.

Á skjalinu sé hins vegar að finna stimpil með nafni og kennitölu varnaraðila, sem móttakanda og vitnis. Þetta skjal og uppsetning á því telur varnaraðili með ólíkindum og virðist honum sem einhver hafi tekið ófrjálsri hendi stimpil sem var á skrifstofu hans og notað, enda sé undirritun hans ekki að finna á skjalinu til staðfestingar. Þessi notkun stimpilsins hafi því verið óheimil og í raun marklaus og hafi enga lagalega þýðingu.

Varnaraðili hafnar því að millifærslur sem sóknaraðili vísar til hafi farið til lögmannsstofunnar og kveðst liggja fyrir að þær hafi ekki farið til sín.

Varnaraðili hafnar kvörtun og þeim ásökunum sem þar koma fram og fer fram á að málinu verði vísað frá hvað sig varðar þar sem ljóst megi vera að hann hafi aldrei verið í samskiptum við sóknaraðila málsins. Fallist nefndin ekki á frávísun málsins fer varnaraðili fram á að kröfum sóknaraðila verði hafnað þar sem engin rök eða rökstuðning sé að finna í málinu um aðild varnaraðila að málefni kvörtunarinnar.

 

Niðurstaða

I.

Í 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að greini lögmann á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðar­nefnd lögmanna. Nefndin vísar frá sér ágreiningsmáli um endurgjald ef lengri tími en eitt ár er liðinn frá því að kostur var á að koma því á framfæri.

II.

Varnaraðili fer fram á að máli þessu verði vísað frá þar sem hann hafi aldrei verið í samskiptum við sóknaraðila og eigi því ekki aðild að málinu. Að mati nefndarinnar ber að líta til þess að kvörtun í málinu lýtur að ágreiningi um endurgjald lögmanns og heyrir slíkur ágreiningur undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 26. gr. lafa nr. 77/1998 um lögmenn. Fellur umkvörtunarefni sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem lögmanni, því undir valdsvið nefndar­innar. Kröfu varnaraðila um frávísun málsins er hafnað og verður það tekið til efnisúrlausnar. Í ljósi þess að […] er ekki og hefur aldrei verið lögmaður verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá nefndinni hvað hann varðar.

Sóknaraðili fer fram á að þóknun sem hann kveðst hafa greitt til lögmannsstofu varnaraðila verði endurgreidd þar sem hann hafi ekki fengið þá þjónustu sem honum hafi verið lofað. Kvörtun er beint að varnaraðila annars vegar og […] hins vegar, sem varnaraðili segir hafa vísað samlöndum sínum á lögmannsstofu sem hann rak í félagi við annan lögmann á þeim tíma sem kvörtun tekur til.

Varnaraðili neitar að hafa tekið að sér lögmannsstörf fyrir sóknaraðila og að hafa móttekið greiðslur fyrir slík störf úr hans hendi. Í ljósi eindreginnar neitunar varnaraðila og þess að gögn málsins eru ekki til þess fallin að varpa nánara ljósi á atvik málsins, er að mati nefndarinnar ósannað að varnaraðili hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila. Að sama skapi sýna gögn málsins ekki fram á að sú vinna sem […] virðist hafa tekið að sér fyrir sóknaraðila, hafi verið unnin með vitneskju eða samþykki varnaraðila eða að greiðslur fyrir þá vinnu hafi farið til varnaraðila eða lögmannsstofu hans. Varnaraðili neitar að þekkja til skjals sem liggur fyrir í málinu, og neitar að hafa sjálfur stimplað skjalið með stimpli sínum og kveðst telja að annar einstaklingur hafi gert það án hans vitneskju eða samþykkis. Gögn málsins varpa ekki ljósi á hvort og þá til hvaða aðila sóknaraðili greiddi þá fjárhæð sem hann fer fram á endurgreiðslu á. Er að mati nefndarinnar ósannað að sóknaraðili hafi greitt varnaraðila þá fjármuni sem hann krefur hann endurgreiðslu á og er kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu fjármunanna úr hendi varnaraðila því hafnað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu sóknaraðila, A, um endurgreiðslu úr hendi varnaraðila, B lögmanns, er hafnað.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

Rétt endurrit staðfestir


Eva Hrönn Jónsdóttir