Mál 40 2023

Mál 40/2023

Ár 2024, mánudaginn 27. maí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið málið:

A

gegn

B lögmanni

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. september 2023 kvörtun C f.h. A, gegn B lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem fyrrum lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila greinargerð vegna erindisins með bréfi samdægurs þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Frestur var veittur til 29. september 2023. Greinargerð varnaraðila var móttekin 18. september 2023 og send sóknaraðila 20. september s.á. og frestur til að skila viðbótargreinargerð veittur til 11. október s.á. Sá frestur var framlengdur einu sinni til 23. október 2023. Með bréfi dags., 7. nóvember 2023, var sóknaraðila veittur lokafrestur til gagnaframlagningar til og með 22. nóvember 2023. Viðbótargreinargerð barst 24. nóvember 2023 og var send varnaraðila samdægurs og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Viðbótar­athugasemdir varnaraðila bárust þann 28. nóvember 2023. Ekki kom til frekari gagna­framlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.

 

Málsatvik og málsástæður

Sóknaraðili er fyrrum hluthafi og stjórnarmaður í félaginu [...] ehf., hér eftir [...] ehf., sem stofnað var af föður sóknaraðila. Faðir hennar átti félagið til ársins 1999 en það ár eignuðust sóknaraðili og systkini hennar þrjú, [...], [...] og [...] félagið og átti hvert um sig 25% eignarhlut í því. Systkinin sátu jafnframt öll í stjórn félagsins en [...] sá um daglegan rekstur þess. 

[...] ehf. var á tímabili eitt stærsta fjárfestingafélag landsins og að sögn sóknaraðila nam eigið fé félagsins vel á annan tug milljarða króna í árslok 2006. Stærstu eignir félagsins voru geymdar í dótturfélögunum […] og […] ehf. þar sem [...] var framkvæmdastjóri og einn prókúruhafi og svo dótturdóttur­­­­félögunum […] ehf. og […] ehf. og var [...] einnig eini prókúruhafi þeirra félaga. Stærsta eign [...] ehf. var 47% hlutur félagsins í [...] fjárfestingafélagi hf., hér eftir [...], og var [...] stjórnarformaður félagsins í umboði stjórnar [...] ehf. [...] var einn stærsti hluthafi í […] sem á þessum tíma var stærsti einstaki hluthafi í [...]  hf., hér eftir [...], sem og einn stærsti hluthafi í […].

Þann 8. janúar 2008 tók [...] yfir stjórnun [...] og undirritaði [...] yfirtökusamninginn f.h. [...]. Síðar sama ár var nafni [...] ehf. breytt í [...] ehf. og þann 13. ágúst 2008 afsöluðu hluthafarnir fjórir allri hlutafjáreign sinni í [...] ehf. til [...]. Umsamið verð fyrir hlut hvers þeirra var ein króna. [...], sonur sóknaraðila, keypti [...] ehf. af [...]  ehf. á haustmánuðum árið 2016.

Varnaraðili veitti [...] ehf. lögmannsþjónustu í einstaka verkefnum frá stofnun félagsins. Hann gætti hagsmuna félagsins og hluthafa þess í tengslum við yfirtöku [...] á félaginu á árinu 2008. Störfum hans félagið lauk þann 13. ágúst en vinnu fyrir hluthafana í september sama ár. Varnaraðili var lögmaður hluthafanna [...], [...] og sóknaraðilans A fram í nóvember árið 2014. Eftir það sinnti hann lögmanns­þjónustu fyrir [...] fram að andláti hans og frá þeim tíma hefur hann gætt hagsmuna ekkju hans, […]. 

I.

Varnaraðili gætti hagsmuna [...] ehf. og hluthafa þess varðandi málefni félagsins á árinu 2008 og gerði sóknaraðila og systkinum hennar persónulega, reikning þann 22. október 2008 að fjárhæð kr. 8.964.000 vegna lögmanns­þjónustu á tímabilinu febrúar til september 2008. Reikningurinn var greiddur af þeim öllum án athugasemda. Sóknaraðili segist ekki hafa vitað á árinu 2008 að varnaraðili hafi á sama tíma og hann sinnti lögmannsþjónustu fyrir [...] ehf., í tengslum við yfirtöku [...] á félaginu, einnig sinnt lögmanns­þjónustu fyrir [...], bróður sóknaraðila, vegna samninga við [...] um persónulegar skuldir hans. Þetta hafi að mati sóknaraðila fyrst fengist staðfest í skýrslutöku yfir varnaraðila í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. […], þann 7. desember 2022.

Þá segir sóknaraðili svo virðast að varnaraðili hafi í nokkrum tilvikum ritað starfsmönnum [...]  í nafni allra stjórnarmanna [...] ehf. án þess að allir stjórnarmenn hafi verið upplýstir um efni samskiptanna.

Af þessu tilefni sendi eiginmaður sóknaraðila fyrirspurn til varnaraðila f.h. hennar, dags. 24. ágúst 2023 þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um samskipti varnaraðila við stjórnar­menn [...] ehf. um málefni félagsins á árinu 2008 auk upplýsinga um áðurnefndan reikning sem varnaraðili gerði sóknaraðila og systkinum hennar vegna lögmannsþjónustu á því ári. Sóknaraðili segir fyrirspurnina hafa verið senda vegna nýrra gagna og upplýsinga sem sér hafi borist á áðurliðnum níu mánuðum. Varnaraðili svaraði erindinu ekki og segist sóknaraðili því beina kvörtun þessari til úrskurðarnefndar enda telji hann sig hafa skýlausan rétt á að fá þessar upplýsingar frá varnaraðila, fyrrum lögmanni sínum.

Sóknaraðili telur þá háttsemi varnaraðila að svara ekki erindi hans fela í sér brot gegn ákvæðum 1., 2., 10., 11., 15. og 16. gr. siðareglna lögmanna.

 

II.

Í greinargerð sinni segir varnaraðili að umræddur reikningur sem fjallað sé um í kvörtun hafi verið greiddur af öllum viðkomandi einstaklingum á sínum tíma án athugasemda. Greiðendurnir hafi vitað vel hvað hann hafi unnið fyrir þau og hver niðurstaða þeirrar vinnu hafi verið. Engar fyrirspurnir eða athugasemdir hafi verið gerðar við efni reikningsins fyrr en rúmum níu árum eftir að hann var greiddur og þeim þá svarað með málefnalegum hætti. Varnaraðili telur enga lögmæta hagsmuni geta tengst umræddum reikningi nú. Þegar varnaraðili hafi fyrst verið spurður um gögn að baki reikningnum kveðst hann hafa svarað því strax að slík gögn væru ekki lengur til. Reikninginn væri hægt að prenta út úr rafrænu bókhaldskerfi en gögnin að baki honum væru ekki vistuð þar.

Varnaraðili vísar til skýrslutöku yfir sér sem fram fór í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. september 2021 í vitnamáli nr. […], þar sem hann segist hafa verið þráspurður um umræddan reikning. Skýrslutakan hafi farið fram tveimur árum áður en sóknaraðili beindi kvörtun í máli þessu til úrskurðarnefndar.

Varnaraðili hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna í samskiptum við þáverandi starfsmenn [...] f.h. [...] ehf. Enginn þáverandi stjórnarmanna í [...] ehf. hafi nokkurn tíma gert athugasemdir af þessu tagi þó þeim hafi öllum verið kunnugt um að varnaraðili gætti hagsmuna þeirra á þessum tíma. Allir stjórnarmenn hafi tekið beinan þátt í endanlegri samningsgerð við [...]. Þar að auki sé um að ræða 15 ára gömul atvik sem af þeirri ástæðu geti varla átt að koma til skoðunar fyrir úrskurðarnefnd nú.

Varnaraðili fer fram á frávísun kvörtunarinnar þar sem efni hennar falli utan hlutverks úrskurðarnefndar skv. 3. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar. Til vara krefst hann þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað.

III.

Í viðbótarathugasemdum sínum segir sóknaraðili sér ekki hafa orðið ljóst fyrr en eftir framburð varnaraðila í héraðsdómi 7. desember 2022, að hann hafi blekkt sóknaraðila um það sem raunverulega hafi átt sér stað í málefnum [...] ehf. á árinu 2008

Sóknaraðili segir varnaraðila hafa neitað að veita upplýsingar um þá vinnu sem sé að baki reikningnum frá 22. október 2008 og engin tímaskýrsla hafi fengist afhent. Sóknaraðili hafi á þessum tíma treyst varnaraðila og því greitt reikninginn. Sóknaraðila hafi enda verið hulið á þessum tíma að varnaraðili hefði verið að vinna samtímis fyrir [...] ehf. og [...] persónulega, m.a. í tengslum við samninga hans við [...] vegna sinna persónu­­legu fjármála.

Ástæða þess að sóknaraðili hafi ekki gert athugasemdir við skrif varnaraðila til starfs­manna [...] f.h. stjórnar [...] ehf. á sínum tíma sé sú að sóknaraðili hafi ekki vitað af efni þeirra á þeim tíma. Varnaraðili hafi ekki verið í sambandi við sóknaraðila eða eigin­mann hennar áður en hann sendi umrætt bréf, og heldur ekki systur sóknaraðila, enda sýni gögn að varnaraðili hafi ekki haft netföng systranna. Að mati sóknaraðila skiptir sú staðreynd að hún ásamt systrum sínum hafi undirritað samning um yfirtöku [...] á [...] ehf. þann 13. ágúst 2008 ekki máli í þessu sambandi enda hafi þeim verið talin trú um að hagsmunum þeirra væri best borgið með þessari ráðstöfun því með henni myndi krafa [...] á hendur hluthöfum [...] ehf. falla niður. Síðar hafi komið í ljóst að [...] hafi enga kröfu átt á hendur hluthöfum [...] ehf.

Sóknaraðili segir liggja fyrir að varnaraðili hafi verið í samskiptum við [...] um öll helstu málefni [...] ehf. á árinu 2008 og svo skammtað sóknaraðila og eiginmanni hennar og systrum þær upplýsingar sem hann vildi að þau hefðu.

IV.

Í viðbótarathugasemdum varnaraðila áréttaði hann að ekkert af þeim gögnum sem sóknaraðili hefði lagt fram til nefndarinnar gætu talist ný gögn og vísaði að öðru leyti til greinargerðar sinnar til nefndarinnar.

Niðurstaða

I.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn segir að sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í þeim tilfellum sem atvik áttu sér stað áður en breyting sem gerð var á siðareglum lögmanna þann 26. janúar 2023 tók gildi, vísast hér eftir til ákvæða eins og þau komu fyrir í þágildandi siðareglum.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Þá skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Í 2. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til þess að gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í 3. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmaður skuli upplýsa skjólstæðing sinn um á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.

Í 11. gr. þágildandi siðareglna lögmanna var að finna ákvæði um hagsmunaárekstra. Var þar kveðið á um að lögmaður mætti ekki fara með hagsmuni tveggja eða fleiri skjólstæðinga í sama máli, þegar hagsmunir þeirra væru andstæðir eða veruleg hætta er á slíku. Ákvæðið hindraði þó ekki að lögmaður leitaði sátta með deiluaðilum, með samþykki beggja. Jafnframt var kveðið á um að lögmaður skyldi varast að taka að sér nýjan skjólstæðing, ef hagsmunir hans og þeirra skjólstæðinga lögmannsins, sem fyrir voru, fengju ekki samrýmst eða hætta gæti verið á slíku. Sama gilti um lögmenn sem hafa samstarf um rekstur (í rekstri) lögmannsstofa eða reka lögmannsstofu í félagi.

Í 15. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

Í 16. gr. þágildandi siðareglna lögmanna var fjallað um haldsrétt lögmanns. Sagði þar að lögmanni væri rétt að halda í sínum vörslum skjölum og öðrum gögnum, er hann hefur móttekið í tengslum við mál skjólstæðings síns, uns skjólstæðingur hefur gert lögmanni full skil á útlögðum kostnaði og þóknun samfara því máli samkvæmt útgefnum reikningi. Haldsréttur lögmanns samkvæmt framangreindu gilti þó ekki, ef hald gagna veldur skjólstæðingi réttarspjöllum, sem ella verður ekki afstýrt. Sama gildir ef lögmaður segir sig frá verki án réttmætrar ástæðu eða ef umboð hans er afturkallað af réttmætri ástæðu, svo sem vegna óeðlilegs dráttar á rekstri máls eða af sambærilegum ástæðum.

II.

Kvörtun þessi er reist á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Kvartað er vegna þeirrar háttsemi varnaraðila að hafa ekki svarað erindi sem eiginmaður sóknaraðila sendi honum, fyrir hennar hönd, dags. 24. ágúst 2023. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 1., 2., 10., 11., 15. og 16. gr. siðareglna lögmanna.

Fram kemur að kvörtuninni sé beint til nefndarinnar þar sem sóknaraðili telji sig eiga skýlausan rétt á að fá þær upplýsingar sem þar var óskað eftir. Þær spurningar sem sóknaraðili beindi til varnaraðila í umræddu erindi varða atvik á árinu 2008 og háttsemi sem hún telur varnaraðila hafa viðhaft á þeim tíma, sem þáverandi lögmaður [...] ehf. og hluthafa félagsins. Sóknaraðili telur umbeðnar upplýsingar geta varpað ljósi á atvik og um leið hugsanlega háttsemi varnaraðila, á þeim tíma. Af málatilbúnaði sóknaraðila má ráða að hún álíti varnaraðila hafa brotið gegn fyrrnefndum ákvæðum siðareglna lögmanna í störfum sínum fyrir hana á árinu 2008, sem hún telur svör varnaraðila við spurningum sem sett voru fram í bréfi, dags. 24. ágúst 2023, geta varpað ljósi á, án þess að kvartað sé vegna þeirrar háttsemi sérstaklega.

Að mati úrskurðarnefndar gat sóknaraðili beint kvörtun, sem varðar þá háttsemi lögmanns að svara ekki erindi sóknaraðila frá 24. ágúst 2023, sem sóknaraðili telur í ósamræmi við siðareglur lögmanna, til nefndarinnar á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn. Nefndin álítur kvörtunina tæka til efnismeðferðar og telur ekki forsendur til þess að vísa málinu frá eins og varnaraðili krefst. Kvörtun vegna fyrrgreindrar háttsemi, sem barst nefndinni þann 8. september 2023, er innan þess frests sem kveðið er á um í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá nefndinni er því hafnað.

Í bréfinu óskaði sóknaraðili annars vegar eftir skýringum á reikningi, dags. 22. október 2008, og hins vegar upplýsingum um samskipti varnaraðila við stjórnarmenn [...] ehf. á árinu 2008. Í bréfinu var ekki farið fram á afhendingu gagna úr hendi varnaraðila.

Reikningur sem sóknaraðili óskaði skýringa á í bréfinu var sem fyrr segir gefinn út þann 22. október 2008. Fyrir liggur að sóknaraðili, líkt og aðrir hluthafar og stjórnarmenn í [...] ehf., greiddu reikninginn athugasemdalaust skömmu eftir útgáfu hans. Gögn málsins bera með sér að sóknaraðili hafi beint fyrirspurn um umræddan reikning til varnaraðila 11. desember 2017 og óskað eftir tímaskýrslum að baki reikningnum sem varnaraðili tjáði henni samdægurs að væru ekki varðveittar lengur. Eiginmaður hennar sendi varnaraðila fyrirspurn um grundvöll reikningsins með tölvupósti 13. desember sama ár, sem varnaraðili svaraði degi síðar. Þá sýna gögn málsins að varnaraðili svaraði þeim spurningum sem að honum var beint varðandi umræddan reikning og grundvöll hans í vitnamáli nr. […], sem sóknaraðili höfðaði gegn honum o.fl., þann 8. september 2021. Nefndin telur engar nýjar upplýsingar, sem máli skipta hvað úrlausnarefni nefndarinnar varðar, hafa komið fram í skýrslu varnaraðila í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. desember 2022 í máli nr. […], né í öðrum gögnum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.

Í erindi sóknaraðila, sem kvörtun þessi byggir á, var einnig farið fram á að hann veitti upplýsingar um nánar tilgreind atvik á árinu 2008 eins og að framan er rakið. Fyrir liggur í gögnum málsins að varnaraðili svaraði þeim spurningum sem að honum var beint um þessi sömu atvik í skýrslutöku við aðalmeðferð máls nr. […] í Héraðsdómi Reykjaness þann 7. júní 2022. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að ný gögn hafi komið fram varðandi umrædd atvik, sem máli skipta hvað úrlausnarefni nefndarinnar varðar að þessu leyti.

Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans, án ástæðulauss dráttar. Bréf sóknaraðila til varnaraðila er dagsett 24. ágúst 2023 en kvörtun þessi barst nefndinni þann 8. september sama ár. Erindi varnaraðila varðaði 15 ára gömul atvik, sem varnaraðili hafði áður svarað spurningum sóknaraðila um, í tölvupóstum árið 2017 og fyrir dómi á árunum 2021 og 2022. Að mati nefndarinnar var erindið ekki svo brýnt að varnaraðila hafi borið skylda til að svara erindinu innan þess skamma tíma sem leið frá því að það var sent og þar til kvörtun var beint til úrskurðarnefndar. Hefur þá verið horft til þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu og sóknaraðili segir hafa verið tilefni ritunar erindisins. Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili, með þeim svörum sem borist hafa undir rekstri málsins fyrir hefndinni, svarað erindi sóknaraðila í samræmi við skyldu sem á honum hvíldi samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, B lögmanns, um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað.

Varnaraðili, B lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, A, í störfum sínum, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir