Mál 41 2023

Mál 41/2023

Ár 2024, miðvikudaginn 3. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið mál nr. 41/2023:

A

gegn

B

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 8. september 2023 kvörtun sóknaraðila, A, gegn B fyrrum lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 11. október 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 29. nóvember 2023. Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri viðbótargreinargerð og barst hún nefndinni þann 19. desember 2023. Viðbótargreinargerð varnaraðila barst nefndinni 27. febrúar 2024. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.

Við upphaf málsmeðferðar var tilkynnt um vanhæfi eins nefndarmanns og tók varamaður sæti hans í málinu.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili kveðst þann 21. nóvember 2020, hafa verið á leið heim úr vinnu með strætisvagni en þegar hún hafi verið á leið út úr strætisvagninum hafi hún slasast og fótbrotnað. Sjúkrabíll og lögregla hafi verið kölluð til. Daginn eftir kveðst sóknaraðili hafa farið í aðgerð á fæti og þann 27. nóvember sama ár hafi hún skrifað undir umboð hjá […].

Sóknaraðili hafi verið ein á Íslandi og því farið til heimalands síns Póllands til endurhæfingar en talið hagsmunum sínum vel sinnt hjá […]. Þann 22. september 2022 kveðst sóknaraðili hafa ritað lögmanni sínum tölvupóst þess efnis að hún væri enn í endurhæfingu vegna slyssins og vildi senda […] öll gögn hvað það varðar. Lögmaðurinn hafi ekki svarað tölvupóstinum og því hafi hún ákveðið að leita til annarrar lögmannsstofu til að halda áfram með málið. Í júní 2023 hafi hún fengið synjun um bætur á þeim forsendum að […] hefði ekki tilkynnt slysið til viðkomandi tryggingafélags innan 12 mánaða frá slysdegi. Sóknaraðili segir lögmannsstofuna hafa haft umboð til þess að gæta hagsmuna hennar vegna slyssins en svo hafi komið á daginn að lögmaður hennar hafi ekki unnið í máli hennar né tilkynnt henni að stofan myndi ekki koma fram fyrir hennar hönd. Sóknaraðili kveðst telja vanrækslu lögmannsins á máli hennar koma til vegna þess að hún sé erlendur ríkisborgari.

Sóknaraðili krefst bóta frá lögmanni sínum vegna líkamlegs og andlegs tjóns að fjárhæð 30 milljóna króna. Í kvörtun tilgreinir sóknaraðili nafn þess lögmanns sem kvörtun beinist gegn vera […].

II.

Varnaraðila var, sem þáverandi eiganda og eina lögmanni lögmannsstofunnar […], gefinn kostur á að skila greinargerð vegna kvörtunar sóknaraðila.

Varnaraðili telur kvörtun of seint fram komna til nefndarinnar þar sem sóknaraðila hafi átt að vera kunnugt um þau atvik sem kvörtun byggir á þann 4. janúar 2021. Þá hafi sóknaraðili verið flutt til Póllands án þess að varnaraðili hefði nokkra vitneskju um málið eða upplýsingar um hvernig hann gæti sett sig í samband við sóknaraðila. Sóknaraðili virðist ekki hafa aðhafst nokkuð í málinu fyrr en í september 2022 og hafi þá orðið ljóst að ekki væri verið að vinna í máli hennar.

Varnaraðili áréttar að hann kannist ekki við málið enda sé í kvörtun talað um […] án þess að varnaraðili sé sérstaklega nefndur í kvörtun. Varnaraðili getur sér til um að fyrrum lögmanninn […] sé að ræða. Umboðið í málinu sé vottað af eiginkonu og starfsmanni […], eiganda […] ehf. Þau hafi ekki starfað fyrir varnaraðila og sé varnaraðili ekki nefndur í umboðinu, sem sé bæði óvenjulegt og ekki í samræmi við vinnubrögð sín. Bendi þetta til þess að umboðið hafi ekki verið gert með vitneskju varnaraðila.

Varnaraðili telur tilefni kvörtunar kunna að vera það að hann hafi fyrirhugað, fyrir tilstilli […], að vinna lögfræðileg verkefni fyrir nefndan […], sem sé frá Póllandi en búsettur á Íslandi og með rekstur hér á landi. […] hafi áður unnið lögfræðileg verkefni fyrir […] en talið hann þurfa á lögmannsþjónustu að halda. Viðræður um þetta hafi verið í gangi í september 2020 og félagið […] ehf. stofnað af varnaraðila í október 2020 í þeim tilgangi að reka lögmanns­stofu. Lögmannsstofan hafi átt að hafa tryggar tekjur af verkefnum fyrir […] á vegum félaga tengdum honum. Fljótlega hafi hins vegar komið í ljós að ekki yrði um verkefni og tekjur vegna þeirra að ræða og varnaraðili myndi ekki vinna þau lögmannsstörf sem […] hafi viljað að stofan tæki að sér. Varnaraðili hafi því hætt samstarfinu fljótlega en í byrjun desember hafi orðið ljóst að varnaraðili myndi ekki sinna lögmannsstörfum fyrir […]. […] hafi veitt […] einhverja ráðgjöf eftir það sem varnaraðili kveðst ekki þekkja til og segir ekki hafa verið veitta í sínu nafni.

Varnaraðili kveðst hafa verið fullvissaður um að engin verkefni væru unnin í hans nafni og […] hafi sjálfur hætt að starfa fyrir […] á vormánuðum 2021. Varnaraðili kveðst hafa starfað við barna­verndar­mál og verjendastörf frá sumrinu 2021 til janúar 2022 og lagt inn lögmannsréttindi sín í mars 2022 þegar annar lögmaður tók við félaginu. Varnaraðili kveðst ekki vita til þess að bótamál vegna slysa hafi þá verið í félaginu enda hafi stofan ekki unnið í slíkum málum.

III.

Í viðbótargreinargerð sinni kveðst sóknaraðili ekki þekkja íslensk lög. Hún hafi búið í Póllandi og sinnt endurhæfingu eftir slysið. Það að vera búsett utan Íslands hafi gert henni erfitt fyrir að afla sér upplýsinga um hvar hún gæti leitað réttar síns. Hún hafi ekki áttað sig á því fyrr en við lestur siðareglna lögmanna, hvers vegna aðrir lögmenn hafi ekki viljað taka mál hennar að sér. Henni hafi síðar verið bent á úrskurðarnefnd lögmanna og í kjölfarið beint kvörtun til nefndarinnar.

Sóknaraðili segist ekki hafa vitað hver væri eigandi lögmannsstofunnar […] ehf. og þess vegna hafi nafn varnaraðila ekki verið nefnt í kvörtun. Sóknaraðili telur varnaraðila ábyrgan fyrir sínum starfsmönnum og hafi hann gefið færi á að svíkja fólk eins og hana, s.s. með því að leyfa notkun á bréfsefni sínu til gerð lögmannsumboðs og einnig netfangi með léni lögmannsstofunnar. Varnaraðili eigi að sæta ábyrgð vegna þessa. Varnaraðili segir lögmenn njóta trausts og þess vegna hafi hún ekki séð ástæðu til þess að efast um að lögmaður sem hún hafi leitað til hefði þau réttindi sem hann sagðist hafa og þekkingu til að vinna í máli hennar.  

Varnaraðili segir vinnubrögð […] ehf. ekki hafa hjálpað við bata hennar vegna slyssins heldur hafi þau aukið á kvíða og þunglyndi hjá henni.

Varnaraðili bendir á að siðareglur lögmanna kveði á um að hætti starfsmaður störfum á lögmannsstofu skuli hann afhenda þau mál sem starfsmaðurinn hefur sinnt til yfirmanns síns og því sé það ekki við hana að sakast að varnaraðili hafi ekkert vitað um mál hennar. Sóknaraðili fer fram á að varnaraðili beri, sem eigandi […] ehf., ábyrgð á því tjóni sem sóknaraðili hefur orðið fyrir vegna þessa fyrir að hafa stuðlað að svikum og fyrir að vanrækja hagsmuni hennar sem umbjóðanda lögmannsstofu hans. Sóknaraðili áréttar að hún fari fram á skaðabætur frá […] ehf. og varnaraðila, sem eiganda stofunnar, að fjárhæð 30 milljóna króna.

IV.

Í viðbótargreinargerð sinni kveðst sóknaraðili ekki hafa tilkynnt […] sem fulltrúa á lögmannsstofu sinni og segir […] ekki hafa átt að vinna í slysamálum. Engin slík mál hafi átt að vera á stofunni og […] hafi fullvissað varnaraðila á vormánuðum 2021 að engin slík mál væru í vinnslu. Vegna persónulegra aðstæðna hafi varnaraðili sjálfur ekki verið starfandi sem lögmaður á þessum tíma þó hann hafi verið með virk réttindi.

Varnaraðili kveðst ekki gera sér grein fyrir hvernig hann hefði átt að gera eitthvað í máli sóknaraðila. Hann kveðst harma það tjón sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir og vera miður sín yfir hvernig fór.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.

II.

Kvartað er vegna háttsemi varnaraðila sem eiganda og eina lögmanni lögmannsstofunnar […] ehf. Fyrir liggur umboð á bréfsefni […], undirritað af sóknaraðila, þar sem hún veitir lögmannsstofunni umboð til þess að gæta hagsmuna hennar vegna umferðarslyss. Gögn málsins bera ekki með sér varnaraðili hafi verið í samskiptum við sóknaraðila á neinum tímapunkti og nafn hans kemur ekki fram í umræddu umboði.

Varnaraðili neitar að hafa tekið að sér lögmannsstörf fyrir sóknaraðila og neitar jafnframt að hafa haft vitneskju um að einhver hafi tekið slík störf að sér í nafni lögmannsstofu hans. Í málinu liggja fyrir tölvupóstsamskipti […] lögfræðings, sem notast við netfang með léni lögmanns­stofu varnaraðila, við sóknaraðila og aðra varðandi mál hennar, í nóvember og desember árið 2020. Þar á meðal liggur fyrir tjónstilkynning um slys sóknaraðila til […] frá 30. nóvember 2020. Í gögnum málsins liggja einnig fyrir tölvupóstsamskipti lögmanns hjá […] við […] frá 14. júlí 2023 þar sem félagið hafnar bótaskyldu á þeim grundvelli að slysið hafi ekki verið tilkynnt félaginu innan tilskilins frests.

Að mati nefndarinnar telst upplýst að […] lögfræðingur hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila í nafni lögmannsstofu varnaraðila, […] ehf. Gögn málsins sýna að hann vann í málinu í nóvember og desember 2020 og bera með sér að hann hafi tilkynnt um slys sóknaraðila til annars trygginga­félags en var bótaskylt vegna slyssins. Ekki liggja fyrir gögn um gang málsins eftir desember 2020 fyrr en […], sem sóknaraðili virðist hafa falið að gæta hagsmuna sinna vegna málsins á síðari stigum, móttók höfnun á bótaskyldu vegna slyssins frá […] þann 14. júlí 2023.

Að mati nefndarinnar hafa ekki verið færðar sönnur á að varnaraðili hafi tekið að sér hagsmuna­gæslu fyrir sóknar­aðila. Enn fremur telur nefndin að ekki hafi verið færðar sönnur á að […] lögfræðingur hafi verið starfs­maður varnar­aðila eða að vinna […] fyrir sóknaraðila hafi verið unnin með vitneskju eða samþykki varnaraðila. Verður varnar­aðili ekki talinn hafa gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum.

Krafa um skaðabætur úr hendi lögmanns fellur utan verksviðs nefndarinnar og er kröfu sóknar­aðila um skaðabætur úr hendi varnaraðila vísað frá nefndinni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu sóknaraðila, A, um skaðabætur úr hendi varnaraðila, B, er vísað frá nefndinni.

Varnaraðili, B, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila A, með háttsemi sem felur í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helga Melkorka Óttarsdóttir

 

Rétt endurrit staðfestir


Eva Hrönn Jónsdóttir