Mál 42 2023

Mál 42/2023

Ár 2024, fimmtudaginn 7. mars, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2023:

A og B

gegn

C lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 12. september 2023 kvörtun D lögmanns f.h.  sóknaraðila, A og B, gegn C lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns sóknaraðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 21. september 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 27. september 2023. Sóknaraðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri viðbótargreinar­gerð og barst hún þann 17. október 2023. Viðbótargreinargerð varnaraðila barst þann 20. október 2023. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.

 

Málsatvik og málsástæður

Sóknaraðilar komu til hingað til lands þann 19. júní 2018 til að vinna á Akureyri. Þau voru ráðin til starfa hjá tveimur félögum sama fyrirsvarsmanns og störfuðu hjá fyrirtækjum í eigu félaganna frá 20. júní til 18. október 2018. Þau gerðu síðar athugasemdir við að fá ekki greidd rétt laun samkvæmt kjarasamningum.

Í október 2018, eftir að hafa gert ítrekaðar tilraunir til að fá greitt fyrir vinnu sína, leituðu sóknaraðilar til stéttarfélags síns, Einingar-Iðju. Lögfræðingur stéttarfélagsins taldi ljóst af frásögn þeirra og gögnum málsins að réttur hefði verið brotinn gegn sóknaraðila í ráðningarsambandi. Ítarlegar tímaskráningar og vinnuskýrslur auk annara gagna lágu fyrir þessu til stuðnings og báru með sér að um töluvert mikla vinnu hafi verið að ræða.

Stéttarfélagið tók saman unna tíma og reiknaði út frá þeim kröfur sóknaraðila um vangoldin laun. Félagið fól varnaraðila innheimtu kröfunnar. Til að byrja með, eða fram á mitt ár 2019 áttu sóknaraðilar aðeins í samskiptum við stéttarfélagið. Eftir það hófu þau að eiga í beinum samskiptum við varnaraðila og eftir atvikum aðra lögmenn á skrifstofu hans.

Varnaraðili fékk málið sent frá stéttarfélaginu þann 13. nóvember 2018. Kröfubréf var sent fyrirsvarsmanni vinnuveitanda sóknaraðila þann 23. nóvember 2018. Varnaraðili ritaði undir bréfið fyrir hönd stéttarfélagsins. Því bréfi var svarað þann 4. desember 2018. Eftir ítrekaðar tilraunir komust sóknaraðilar loks í samband við varnaraðila þann 21. janúar 2020. Næstu daga fóru fram frekari samskipti og þann 24. janúar 2020 ræddu aðilar saman í síma. Í framhaldi sendu sóknaraðilar gögn sem varnaraðili hafði óskað eftir í símtalinu en um hafi verið að ræða sömu gögn og sóknaraðilar höfðu áður sent stéttarfélagi sínu í október 2019 og því telja sóknaraðilar að gera megi ráð fyrir að varnaraðili hafi fengið afrit þessara gagna þegar honum var falið að annast málið, þ.e. í nóvember 2018. Varnaraðili staðfesti móttöku gagnanna og sagðist myndi fara yfir þau. Sóknaraðilar sendu næsta tölvupóst þann 24. febrúar, þar sem þau létu vita að erfitt yrði að ná í þau í þrjár vikur frá 3. mars. Eftir þetta fengu sóknaraðilar engin svör frá varnaraðila fyrr en 21. janúar 2021, tæplega ári síðar.

Í tölvupósti frá 21. janúar 2021 sagðist varnaraðili vonast til að geta stefnt málinu inn í febrúar 2021, rúmlega tveimur árum eftir að kröfubréf var fyrst sent gagnaðila. Sóknaraðilar svöruðu póstinum og sögðust boðin og búin til að aðstoða varnaraðila. Þá óskuðu þau jafnframt eftir símtali til að fara yfir næstu skref málsins.

Eftir þetta heyrðist ekkert frá varnaraðila fram til 8. júní 2021. Þá fengu sóknaraðilar tölvupóst frá öðrum lögmanni á lögmannsstofu varnaraðila sem sagðist vera að vinna í málinu með varnaraðila og að málinu yrði stefnt inn á næstu dögum. Hann bað sóknaraðila um heimilisföng, sem þau veittu honum um hæl. Sóknaraðilar óskuðu aftur eftir símtali um næstu skref í málinu. Því erindi var ekki svarað.

Þann 21. mars 2022 sendu sóknaraðilar bæði varnaraðila og öðrum lögmanni á skrifstofu hans tölvupóst. Þar ítrekuðu þau fyrri ósk sína um símtal og sögðust gjarnan vilja vita hvernig dómsmál sem þessi gengju fyrir sig á Íslandi. Þann 11. apríl svaraði varnaraðili loks póstinum en óskaði eftir því að símtal biði fram yfir páska. Aðilar ræddu loks saman í síma þann 28. apríl 2022.

Í framhaldi af símtali, þann 9. maí 2022, fengu sóknaraðilar tölvupóst þriðja lögmanninum á skrifstofu varnaraðila sem þau höfðu ekki áður verið í samskiptum við. Lögmaðurinn sagðist í tölvupóstinum hafa verið í sambandi við gagnaðila, en að hann væri ekki tilbúinn til að ljúka málinu með sátt. Sóknaraðilar hefðu því engra aðra kosta völ en að fara með málið fyrir dómstóla og sagðist lögmaðurinn að hann myndi hefja vinnu við það strax og láta sóknaraðila vita þegar málið hefði verið þingfest.

Sóknaraðilar svöruðu lögmanninum degi síðar. Í póstinum lögðu þau fyrir hann nokkrar spurningar um stöðu sína og afstöðu gagnaðila til sáttaumleitana. Þá vildu þau fullvissa sig um að lögmenn hefðu undir höndum öll gögn sem þau hefðu sent lögmannsstofunni og stéttarfélaginu. Þessum tölvupósti var ekki svarað. Pósturinn var ítrekaður þann 6. júní 2022 en var ekki svarað.

Eftir að hafa ekkert heyrt frá lögmönnum í rúmlega sex mánuði leituðu sóknaraðilar til fyrrum starfsmanns stéttarfélags síns sem þau höfðu verið í sambandi við þegar málið hafði fyrst hafist. Sóknaraðilar litu svo á að hún væri sú eina sem hefði raunverulega hjálpað þeim og þau gætu treyst. Eftir eftirgrennslan fyrrum starfsmannsins kom í ljós að málin hefðu þegar verið þingfest en sóknaraðilar aldrei verið látin vita. Stefnur voru birtar þann 22. júní 2022, rúmlega þremur og hálfu ári eftir að lögmaður fékk málið til sín. Þann 20. desember 2022 hafði varnaraðili samband við sóknaraðila og upplýsti um að munnlegur málflutningur í málinu skyldi fara fram þann 15. febrúar 2023. Aðalmeðferð málanna frestaðist margoft en þau voru loks flutt og dómtekin þann 24. maí 2023, nær fimm árum eftir að sóknaraðilar leituðu fyrst til stéttarfélags og málið var sent lögmanni haustið 2018.

Dómar voru kveðnir upp í héraðsdómi Norðurlands í málum sóknaraðila nr. […] og […] þann […]. Dómarnir í málum sóknaraðila eru samhljóða. Í niðurstöðuköflum dómanna segir svo:

„Af gögnum málsins verður ekki ráðið að neitt hafi síðan verið aðhafst af hálfu stefnanda fyrr en málið var höfðað með birtingu stefnu 22. júní 2022, rúmlega þremur og hálfu ár síðar. Verður ekki séð að stefndu hafi verið kynntar tímaskráningar og kröfur stefnanda fyrr en þá. Gerir sú töf þeim mun erfiðara að taka til varna en ef málinu hefði verið fram haldið á forsvaranlegum hraða. Þá máttu stefndu með réttu ætla að málið væru úr sögunni þegar lögmanni þeirra bárust engin viðbrögð við bréfi hans 4. desember 2018. Er það álit dómsins að stefnandi hafi því með tómlæti fyrirgert rétti sínum til að hafa uppi ætlaðar kröfur sínar. Þegar af þeirri ástæðu verða stefndu bæði sýknuð af kröfum [stefnanda].“

Þann 18. júlí 2023 fengu sóknaraðilar símtal frá lögmanni á skrifstofu varnaraðila sem þau höfðu ekki áður verið í samskiptum við. Var sóknaraðilum kynnt niðurstaða dómanna og lauslega farið yfir ástæður þess að málin töpuðust. Í tölvupósti til varnaraðila óskuðu sóknaraðilar eftir að fá gögn málsins afhent og samantekt á niðurstöðum dómanna með tölvupósti. Eftir nokkur samskipti fengu sóknaraðilar endurrit dómanna senda þann 3. ágúst 2023, tæpum þremur vikum eftir uppkvaðningu þeirra. Í kjölfarið óskuðu sóknaraðilar eftir skýringum á því hvers vegna málin virðast hafa tapast sökum tómlætis, en þær skýringar hafi ekki fengist veittar.

I.

Sóknaraðilar vekja athygli á því að svo virðist sem öll gögn sem þau létu varnaraðila í té hafi ekki verið lögð fram í málunum, þ.m.t. gögn sem að þeirra mati hefðu stutt kröfur þeirra og staðfest vinnutímaskýrslur.

Sóknaraðilar telja niðurstöðu héraðsdóms í málum þeirra sýna að aðgerðarleysi varnaraðila hafi orðið til þess að mál þeirra fékk ekki efnislega umfjöllun. Í staðinn hafi gagnaðili verið sýknaður á grundvelli tómlætis. Það tómlæti megi í einu og öllu rekja til vinnubragða varnaraðila.

Sóknaraðilar segjast ekki hafa fengið haldbærar skýringar á þeim töfum sem urðu á málarekstrinum; töfum sem að endingu leiddu til þess að héraðsdómur taldi þau hafa fyrirgert rétti sínum til að hafa uppi ætlaðar kröfur. Þau segja varnaraðila hafa beðist afsökunar á umræddum töfum en án nokkurra uppgefinna ástæðna eða útskýringa.

Með hliðsjón af þeirri ríku ábyrgð sem lögmenn beri gagnvart skjólstæðingum sínum telja sóknaraðilar að aðgerðarleysi varnaraðila verði ekki réttlætt með nokkru móti og telja sóknaraðilar að hann hafi ekki brugðist eins skjótt við og vænta mátti. Er það því mat sóknaraðila að framangreind vinnubrögð varnaraðila feli í sér brot gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Sóknaraðilar telja einsýnt af gögnum málsins að þeim hafi í öndverðu borið að fá leiðréttingu launa í samræmi við kjarasamning samkvæmt útreikningum stéttarfélags. Með aðgerðaleysi sínu hafi varnaraðili komið í veg fyrir að málið fengi efnislega umfjöllun fyrir dómstólum, en hefði slík umfjöllun farið fram hefðu sóknaraðilar fengið bætur í samræmi við kröfugerð.

Sóknaraðilar vísa til 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og 2., 12. og 41. gr. siðareglna lögmanna. Þau telja að varnaraðili hafi ekki rækt störf sín af alúð heldur þvert á móti sýnt af sér verulega vanrækslu við rekstur málanna. Sóknaraðilar líta svo á að ekkert geti réttlætt þær tafir sem urðu á rekstri mála þeirra eftir að þau komu á borð varnaraðila. Kröfubréf hafi verið sent gagnaðila í nóvember 2018 og strax í janúar 2019 hefði varnaraðila mátt vera ljóst að ekki myndu nást sættir milli aðila og því engin önnur leið fær en að fara með málin fyrir dómstóla. Engu að síður hafi stefnur ekki verið birtar fyrr en 22. júní 2022, þremur og hálfu ári síðar. Sóknaraðilar benda á að oft hafi liðið mánuðir frá því að sóknaraðilar höfðu samband við varnaraðila og aðra lögmenn lögmannsstofunnar og óskuðu eftir upplýsingum eða símtölum, þar til erindum var svarað. Sérstök athygli er vakin á því að frá 5. febrúar 2020 og fram til 21. janúar 2021, það er í hart nært ár, fengu hafi engin svör eða upplýsingar fengið frá varnaraðila. Verður þetta að mati sóknaraðila að teljast verulega aðfinnsluvert.

Sóknaraðilar telja gögn málsins sýna að þau hafi alla tíð lagt sig fram við að veita stéttarfélaginu og varnaraðila allar þær upplýsingar og gögn sem um hafi verið beðið. Þá hafi þau ítrekað haft frumkvæði að því að grennslast fyrir um gang mála og reyna eftir bestu getu að sjá til þess að málin gleymdust ekki. Beri þau enga ábyrgð á þeim óhæfilega drætti sem varð á rekstri mála þeirra.

Sóknaraðilar telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna handvammar varnaraðila og að hann hafi í störfum sínum brotið gegn lögum og siðareglum lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Er gerð sú krafa að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Þá er gerð krafa um að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni, sbr. 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna og 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

II.

Í greinargerð sinni gerir varnaraðili ekki athugasemdir við framsetningu málsatvikalýsinga af hálfu sóknaraðila. Þó telur hann rétt að komi fram að stefndu í dómsmáli sóknaraðila hafi mótmælt kröfum sóknaraðila og því sé óljóst hvort dómari hefði fallist á þær, hefði málið fengið efnislega umfjöllun. Þá liggi fyrir að dómari sýknaði stefndu með vísan til tómlætis og leit svo á að sá tími sem leið frá því að sóknaraðilar máttu freista þess að sækja rétt sinn og þangað til málin voru höfðuð, hafi verið of langur.

Varnaraðili kveðst hafa tekið við málum sóknaraðila frá stéttarfélaginu Einingu-Iðju sem hafi staðið straum af kostnaði við málin. Varnaraðili kveðst hafa falið samstarfsmönnum sínum á skrifstofu sinni að annað rekstur málanna og því hafi hann ekki sjálfur verið í beinum tengslum við framgang þeirra og vinnslu að öðru leyti. Varnaraðili gerir þó ekki lítið úr því að það hafi verið á hans ábyrgð að fylgjast með og tryggja að málin yrðu rekin áfram og þeim stefnt fyrir dóm þegar útséð var með að sættir myndu nást.

Varnaraðili tekur fram að hann hafi verið í sumarleyfi þegar dómarnir voru kveðnir upp og því hafi annar lögmaður á skrifstofu hans tekið að sér að vera í samskiptum við sóknaraðila í kjölfar uppkvaðningar dómanna. Um leið og varnaraðili hafi komið út leyfi hafi hann haft samband við sóknaraðila, bæði í síma og með tölvupósti auk þess sem hann hafi fundað með þeim á Teams. Hann hafi boðist til þess að áfrýja málunum til Landsréttar sem sóknaraðilar hafi ekki þáð.

Varnaraðili staðfestir að hann hafi þegar beðið sóknaraðila afsökunar á þeirri afgreiðslu sem mál þeirra fengu á skrifstofu hans og tjáð þeim að honum þyki miður að svona hafi farið. Hann hafi ekki getað útskýrt fyrir þeim hvers vegna málin þróuðust með þeim hætti sem úr varð að öðru leyti en að hann hafi sjálfur ekki gætt þess nægjanlega að málin yrðu unnin á eðlilegum hraða. Varnaraðili áréttar að honum þyki þetta miður.

Varnaraðili kveðst ekki ætla að hafa á því miklar skoðanir hvernig nefndin líti á málið eða hvort og þá til hvaða agaviðurlaga verði gripið gagnvart honum. Hann bendir engu að síður á að sóknaraðilar hafi lagt upp með kröfu sem gagnaðili þeirra hafi mótmælt frá upphafi og því sé óljóst hver niðurstaða málsins hefði orðið ef málin hefðu fengið efnislega umfjöllun. Að mati varnaraðila geti sóknaraðilar varla haldið uppi kröfu um tjón sem nemur stefnufjárhæðum í málinu enda hafi þeir fjármunir ekki verið í hendi. Þá bendir varnaraðili á að kröfu í starfsábyrgðartryggingu hans hafi verið hafnað af tryggingafélagi hans á þeim grundvelli að ósannað sé að tafir á rekstri málsins hafi leitt til tjóns fyrir sóknaraðila. Því verði atvik málsins að mati varnaraðila tæpast talin með þeim hætti að réttlæti veitingu áminningar af hálfu nefndarinnar.

Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila um málskostnað og telur ekkert hafa komið fram í málinu sem réttlæti að fallist verði á þá kröfu.

III.

Af hálfu sóknaraðila áréttaði lögmaður þeirra að þeir líti svo á að varnaraðili hafi ekki rækt störf sín af alúð. Hann hafi þvert á móti sýnt af sér verulega vanrækslu við rekstur málanna og með því telja sóknaraðilar að hann hafi komið í veg fyrir að mál þeirra fengju efnislega umfjöllun fyrir dómstólum. Með því hafi verið brotið á rétti sóknaraðila, hvort sem kröfur þeirra hafi verið í hendi eða ekki. Ekki verði að mati sóknaraðila séð að niðurstaða vátryggingafélags varnaraðila vegna kröfu í starfsábyrgðartryggingu hans hafi áhrif á niðurstöðu kvörtunar til nefndarinnar. Með hliðsjón af þeirri ríku ábyrgð sem lögmenn beri gagnvart umbjóðendum sínu verði aðgerðarleysi varnaraðila ekki réttlætt með nokkru móti og komi þar ekki til skoðunar hvort sönnunarreglur skaðabótaréttar séu uppfylltar.

Af hálfu sóknaraðila er ítrekuð sú krafa að varnaraðila verði gert að sæta agaviðurlögum, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Þá er ítrekuð krafa sóknaraðila um málskostnað, sbr. 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar og 3. mgr. 28. gr. laga um lögmenn. Sóknaraðilar séu báðir erlendir ríkisborgarar og búsett erlendis, þau tali ekki íslensku og þekki ekki íslenskt réttarkerfi. Því hafi þau þurft að leita aðstoðar lögmanns til þess að koma erindi þessu á framfæri við nefndina með tilheyrandi kostnaði en vinnustundir lögmannsins vegna reksturs málsins fyrir nefndinni séu sjö talsins.

IV.

Varnaraðili áréttar að hann harmi mjög þá vinnslu sem mál sóknaraðila fengu á skrifstofu hans. Þetta taki bæði hann og samstarfsmenn hans alvarlega og hafi verið rætt hvernig tryggt verði að sambærileg atvik endurtaki sig ekki. Hvað varðar kröfu sóknaraðila um málskostnað bendir varnaraðili á að engin þörf hafi verið á að vísa málinu til úrskurðarnefndar enda hafi hann þegar viðurkennt að framgangur máls sóknaraðila hafi ekki verið sem skyldi þó hann hafi bent á að tjón sóknaraðila vegna þessa geti ekki tekið mið af stefnufjárhæðum í málum þeirra. Alla tíð hafi legið fyrir að ekki sé ágreiningur uppi í málinu og að mati varnaraðila verður ekki séð hvaða hagsmuni sóknaraðilar hafa af því að fá úrlausn fyrir úrskurðarnefndinni, nema þá til þess eins að varnaraðili sitji uppi með agaviðurlög af einhverju tagi. Það sé þó réttur sóknaraðila og varnaraðili geri ekki lítið úr honum en kveðst engu á síður benda á þetta í samhengi við kröfu sóknaraðila um málskostnað.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í 18. gr. laga um lögmenn er kveðið á um að lögmönnum beri í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Í 12. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmanni, sem tekur að sér verkefni, beri að reka það áfram með hæfilegum hraða. Skal hann tilkynna skjólstæðingi sínum ef verkið dregst eða ætla má að það dragist. Lögmanni er heimilt á öllum stigum að segja sig frá verki. Aldrei má þó lögmaður segja sig frá verki, án þess að skjólstæðingur fái svigrúm til að afstýra réttarspjöllum og ráða sér annan lögmann.

Samkvæmt 41. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður án ástæðulauss dráttar svara bréfum og öðrum erindum, er honum berast í lögmannsstarfi hans. Sé ekki unnt að svara bréfi eða öðru erindi innan hæfilegs tíma, ber lögmanni að tilkynna það viðkomandi og að erindinu verði svarað, þegar fært verður.

II.

Erindi sóknaraðila til nefndarinnar er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem sóknaraðilar telja varnaraðila hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Sóknaraðilar telja varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum 2., 12. og 41.. gr. siðareglna lögmanna.

Varnaraðili hefur gengist við þeirri háttsemi sem kvörtun sóknaraðila lýtur að. Ágreiningur er milli aðila um hvort háttsemi varnaraðila hafi leitt til sannanlegs tjóns fyrir sóknaraðila. Mat á því er utan verksviðs úrskurðarnefndar lögmanna.

Að mati nefndarinnar telst sannað að sú háttsemi varnaraðila, að hafa ekki tryggt að mál sóknaraðila yrðu rekin áfram með hæfilegum hraða, leiddi til þess að vinnuveitandi þeirra var sýknaður af kröfum þeirra á grundvelli tómlætis. Urðu sóknaraðilar þannig af möguleikum sínum til þess að fá efnislega niðurstöðu um kröfur sínar um vangoldin laun úr hendi vinnuveitanda síns. Nefndin telur háttsemi varnaraðila fela í sér brot á 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 enda hafi hann ekki rækt störf sín fyrir varnaraðila af alúð. Þá telur nefndin að háttsemi varnaraðila feli í sér brot á 12. gr. siðareglna lögmanna enda hafi mál sóknaraðila dregist úr hófi í meðförum varnaraðila, án þess að sóknaraðilar hafi átt þar nokkra sök. Enn fremur telur nefndin að varnaraðili hafi, með því að svara ekki ítrekuðum fyrirspurnum sóknaraðila um stöðu og framgang mála þeirra, brotið gegn 41. gr. siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar hefur varnaraðili ekki fært fram neinar skýringar eða ástæður fyrir því að hann hafi vanrækt skyldur sínar gagnvart sóknaraðilum með þeim hætti sem hann gerði. Með framangreindum brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, er nefndinni heimilt að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna reksturs máls fyrir henni. Í ljósi atvika og framangreindrar niðurstöðu nefndarinnar telur nefndin rétt að fallast á kröfu sóknaraðila um málskostnað úr hendi varnaraðila vegna reksturs máls fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, C lögmaður, sætir áminningu.

Varnaraðili, C lögmaður, greiði sóknaraðilum A og B, 150.000 krónur í málskostnað fyrir nefndinni.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

 

Rétt endurrit staðfestir


Eva Hrönn Jónsdóttir