Mál 46 2023
Mál 46/2023
Ár 2024, miðvikudaginn 3. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 46/2023:
A og B lögmaður
gegn
C lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 16. október 2023 kvörtun sóknaraðila, [A] og [B] lögmanns, gegn [C] lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns gagnaðila í máli […] sem rekið var í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 19. október 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmanns sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 27. nóvember 2023. Sóknaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri viðbótargreinargerð með bréfi samdægurs og barst viðbótargreinargerð hans 2. febrúar 2024. Viðbótargreinargerð varnaraðila barst 29. febrúar 2024. Ekki kom til frekari gagnaframlagningar í málinu og var það tekið til úrskurðar.
Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns og tók varamaður sæti hans í málinu.
Málsatvik og málsástæður
I.
Sóknaraðilinn [B] lögmaður leggur fram kvörtun þessa f.h. umbjóðanda síns, sóknaraðilans [A] og sín persónulega. Kvörtunin er reist á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Sóknaraðilar lýsa málsatvikum með eftirfarandi hætti.
Sóknaraðilinn [B] kveðst hafa tekið að sér hagsmunagæslu fyrir félagið […] ehf. sem hafi verið stefnt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dómsmálinu […], vegna kröfu félagsins […] ehf. á vangoldinni húsaleigu sem stefnandi taldi ógreidda. Í málinu hafi legið fyrir að leigusamningur aðila hafi liðið undir lok mánaðamótin maí/júní 2021, en umbjóðandi sóknaraðilans hafi haldið áfram að hagnýta húsnæðið t.o.m. 26. júní 2021 og greiða fyrir það leigu á þeim tíma. Mánaðamótin júní/júlí 2021 hafi verktaki á vegum stefnanda í málinu, hafist handa við að rífa þakið ofan af þeim hluta húsnæðisins er umbjóðandi sóknaraðilans var með á leigu, auk þess sem öll klæðning og einangrun hafi verið rifin úr húsnæðinu. Hafi húsnæðið verið með öllu ónothæft til jóla 2021, eða á því tímabili sem umbjóðandi sóknaraðilans var krafinn um húsaleigu. Lögmaður stefnanda hafi verið […] á lögmannsstofunni […].
Við aðalmeðferð málsins hafi komið fram hjá vitninu […], að lögmaður stefnanda, […], hefði hringt í vitnið og reynt að hafa áhrif á framburð þess. Telja sóknaraðilar þetta í fela í sér brot á 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna.
Sóknaraðilar kveða varnaraðila hafa, í tölvupósti sem hann sendi dómara málsins þann 17. október 2022 sakað sig um fölsun sönnunargagns sem lá frammi í málinu sem dómskjal nr. 11. Um hafi verið að ræða skjáskot úr farsíma sóknaraðilans […] af sms samskiptum hans við fyrirsvarsmann umbjóðanda varnaraðila. Af hálfu umbjóðanda varnaraðila hafi annað skjáskot, sem sýndi sömu samskipti, verið lagt fram á dómskjali nr. 26, en þar hafi vantað skilaboðin sem lögð voru fram á dómskjali nr. 11. Varnaraðili hafi ítrekað ásakanir á hendur sóknaraðilum um fölsun sönnunargagna í þinghaldi í málinu þann 19. október 2022.
Að mati sóknaraðila hafði varnaraðili uppi alvarlegar ásakanir gegn þeim sem varða við 162. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sóknaraðilar segja varnaraðila á engum tímapunkti hafa haft samband við sig til að kanna hvort einhver grundvöllur væri fyrir ásökunum hans. Dómari í málinu hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið færðar neinar sönnur fyrir því að skjalið væri falsað, eins og varnaraðili hafi haldið fram, og lagt það til grundvallar niðurstöðu dómsins að umrædd skilaboð, á dómskjali nr. 11, hefðu borist umbjóðanda varnaraðila.
Sóknaraðilar segja einnig augljóst að kröfur stefnanda í málinu hafi verið óforskammaðar og settar fram af óheiðarleika, enda hafi niðurstaða héraðsdóms verið sú að sýkna umbjóðanda sóknaraðilans [B] af kröfum stefnanda.
Að mati sóknaraðila var það athæfi varnaraðila að eyða út hluta samskipta, leggja svo samskiptin fram fyrir dóm, saka gagnaðila um fölsun og hóta að kæra hann til lögreglu, verulega bíræfið, ósvífið og óheiðarlegt. Með því hafi varnaraðili reynt að gera þau gögn sem stöfuðu frá gagnaðila og lögmanni hans tortryggileg. Sóknaraðilar byggja á því að ásakanirnar hafi verið hafðar uppi gegn betri vitund, í dómsmáli, í því skyni að hafa áhrif á úrslit dómsmálsins, en slíkt varði refsingu allt að tveimur árum. Að mati sóknaraðila voru ásakanir varnaraðila því afar alvarlegar. Þá telja þeir allt málið hafa borið með sér að vera hvorki í þeim anda að lögmenn hefðu sýnt hvor öðrum tilhlýðilega virðingu né eðlileg samskipti eins og þau ættu að vera milli kollega í lögmannastéttinni. Gerð hafi verið krafa fyrir dóminum að varnaraðili yrði ávíttur, en dómari málsins hafi beðið lögmenn um að útkljá sín mál fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.
Sóknaraðilinn [B] segir að bæði fyrir og eftir aðalmeðferð málsins hafi komið hótanir frá varnaraðila þess efnis að til stæði að kæra hann og löglærðan fulltrúa hans til Fjarskiptastofu, LMFÍ og eftir atvikum lögreglu. Varnaraðili hafi í tölvupósti 1. nóvember 2022 boðið sættir í málinu og óskað eftir tillögu að sátt. Sóknaraðilinn hafi boðið afsökunarbeiðni en því erindi ekki verið svarað. Að mati sóknaraðilans er ljóst að sóst hafi verið eftir peningagreiðslu, gegn því að mál gegn honum yrðu afturkölluð. Telur sóknaraðilinn þetta á mörkum þess að vera fjárkúgun.
Á því er byggt að varnaraðili hafi með fyrrgreindri framgöngu og háttsemi sinni brotið gegn 1. gr., 20. gr., 1. mgr. 21. gr., 30. gr. og 35. gr. siðareglna lögmanna.
Þá er á því byggt að […], lögmaður, sé fulltrúi varnaraðila og starfi á hans ábyrgð. Aðkoma hans og hans þáttur, að því er ofan greinir, sé að því sögðu á ábyrgð varnaraðila.
Sóknaraðilar telja umrædd brot varnaraðila afar alvarleg og fara fram á að varnaraðili verði sviptur lögmannsréttindum, sbr. 14. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, en til vara að hann sæti áminningu, sbr. 2. mgr. 27. gr. sömu laga.
II.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd lögmanna. Til vara krefst varnaraðili þess að úrskurðarnefnd lögmanna úrskurði að varnaraðili hafi hvorki brotið gegn siðareglum lögmanna né lögum um lögmenn í störfum sínum. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi beggja sóknaraðila, in solidum.
Varnaraðili mótmælir málavaxtalýsingu sóknaraðila sem röngum, ósönnum og villandi, að því leyti sem lýsing þeirra samrýmist ekki málavaxtalýsingu varnaraðila. Að mati varnaraðila er málatilbúnaður sóknaraðila vanreifaður að vandasamt sé að koma að vörnum í málinu. Ljóst er að mati varnaraðila að meint háttsemi hans sé ekki heimfærð réttilega undir þau ákvæði siðareglna, er honum er gefið að sök að hafa farið á svig við. Hljóti því að koma til álita hjá úrskurðarnefndinni að vísa málinu frá ex officio.
Varnaraðili lýsir málsatvikum á þann veg að […] lögmaður, sem starfi með varnaraðila, hafi tekið að sér innheimtu á ógreiddri húsaleigu, sem félagið […] ehf. hafi talið og telji sig eiga kröfu um úr hendi […] ehf., umbjóðanda sóknaraðilans [B].
Kvörtunin lúti að meintri háttsemi varnaraðila. Af málatilbúnaði sóknaraðila megi álykta, að meint háttsemi varnaraðila hafi átt sér stað við málsmeðferð ofangreinds einkamáls. Rétt sé af þessu tilefni að vekja athygli úrskurðarnefndarinnar á því, að málið hafi verið rekið á milli tveggja einkahlutafélaga. Aðkoma varnaraðila hafi verið sama og engin, utan þess að hafa mætt í eina fyrirtöku vegna málsins, með […] lögmanni. Sú mæting hafi komið til eftir að fulltrúi sóknaraðilans [B] hafði sent […] hljóðupptöku símtals, sem gerð hafi verið með leynilegum hætti af umræddum fulltrúa, auk endurrits símtalsins, sem sóknaraðili [B] hugðist leggja fram sem sönnunargagn í málinu, þvert á skýr fyrirmæli siðareglna lögmanna, sem og hann hafi gert.
Þar sem […] starfi hjá varnaraðila, hafi hann borið erindið undir varnaraðila, sem þá hafi gripið til viðeigandi ráðstafana í samráði við […], með því að upplýsa dómara málsins um upp komna stöðu. Í framhaldinu hafi dómari boðað til þinghalds í málinu. Við yfirferð gagna hafi komið í ljós ósamræmi á milli skilaboða sem umbjóðandi sóknaraðilans [B] hafði lagt fram, og þeirra sem forsvarsmaður stefnanda í málinu hafði tekið afrit af. Dómari málsins hafi enn fremur verið upplýstur um þann þátt af varnaraðila, með eftirfarandi hætti:
„Svo virðist sem samskipti á dskj. 11, sem lagt var fram að stefnda, hafi verið falsað“.
Í þinghaldinu hafi sóknaraðilinn [B] lagt fram hina ólögmætu hljóðupptöku ásamt uppritun, gegn hörðum mótmælum varnaraðila. Við sama tækifæri hafi varnaraðili lagt fram skjáskot af þeim samskiptum eins og þau birtust á símtæki forsvarsmanns stefnanda.
Þrátt fyrir mótmæli varnaraðila og […] lögmanns, hafi gögnin verið færð inn í málið og dómari lagt til að athugasemdir við háttsemi lögmanna málsins yrðu útkljáðar á vettvangi úrskurðarnefndar lögmanna. Það hafi svo síðar verið gert af hálfu umbjóðanda […], […], sem hafi verið hljóðritaður, með kæru til Fjarskiptastofu á hendur löglærðs fulltrúa sóknaraðilans [B] og honum sjálfum, sem og úrskurðarnefnd lögmanna. Niðurstaða þess hafi verið sú að fulltrúinn hafi verið talinn hafa farið á svig við fjarskiptalög með ákvörðun Fjarskiptastofu í máli nr. 5/2023 auk þess sem sóknaraðilinn [B] hafi verið áminntur með úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 31/2022.
Varnaraðili segir kvörtun byggða á þeim rökum að hann hafi sýnt af sér háttsemi, við málsmeðferð ofangreinds einkamáls tveggja einkahlutafélaga, sem sóknaraðilar hafi ekki átt persónulega aðild að. Þá hafi sóknaraðilinn [A] ekki verið í fyrirsvari fyrir stefnda í umræddu dómsmáli á þeim tíma sem umkvörtuð háttsemi átti sér stað. Enn fremur hafi sóknaraðilinn [A] ekki lagt fram nein gögn í téðu dómsmáli, heldur félagið […] ehf. Af því leiðir að mati sóknaraðila að meintar ásakanir varnaraðila hafi ekki getað beinst að honum, hafi þær yfir höfuð átt sér stað. Að sama skapi skorti sóknaraðilann [B] aðild til að kvarta til úrskurðarnefndar vegna meintrar háttsemi varnaraðila í tengslum við dómsmálið.
Að mati varnaraðila beindist umkvörtuð háttsemi, verði talið að varnaraðili hafi gerst sekur um hana, að félaginu […] ehf., ekki sóknaraðilum málsins. Telur hann því að vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd lögmanna vegna aðildarskorts, og úrskurða um málskostnað sbr. 3. mgr. 28. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.
Telji úrskurðarnefndin þrátt fyrir framangreint, að kvörtun sóknaraðila sé tæk til efnismeðferðar, gerir varnaraðili þá kröfu að nefndin úrskurði að hann hafi hvorki brotið gegn siðareglum lögmanna né lögum um lögmenn í störfum sínum.
Varnaraðili vísar alfarið á bug þeim þætti kvörtunar sem varðar […] lögmann og snýr að meintu broti gegn 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna. […] starfi hjá varnaraðila og beri einn ábyrgð á sínum störfum gagnvart úrskurðarnefnd lögmanna. Auk þess hafi verið fjallað um þennan þátt í skýrslutöku í téðu dómsmáli en dómara málsins hafi ekki þótt neitt athugavert við það að lögmaðurinn hefði haft samband við vitnið.
Hvað varði meint brot varnaraðila gegn 1. og 20 gr. siðareglna lögmanna bendir varnaraðili á að málavextir í málinu hafi verið umdeildir. Ljóst sé að aðilar málsins, sem er nú til meðferðar fyrir Landsrétti, séu ekki sammála um atvik og málavexti. Varnaraðili hafnar því að kröfur stefnanda í málinu hafi verið óforskammaðar eða settar fram af óheiðarleika.
Hvað varði meint brot varnaraðila gegn 1. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna, liggi fyrir að varnaraðili hafi einungis lagt fram þau gögn sem umbjóðandi hans hafði falið honum að leggja fram. Um hafi verið að ræða skjáskot af samskiptum milli forsvarsmanns umbjóðanda varnaraðila og sóknaraðilans [A], eins og þau blöstu við honum. Varnaraðili hafi sett sig samband við dómara málsins og upplýst hann um hvernig ástatt var, og velt því upp að framlagt skjal af hálfu umbjóðanda sóknaraðila virtist falsað. Það hafi svo komið í hlut dómara að ákvarða um gildi þeirra skjala sem lögð voru fram fyrir dóminn.
Hvað varði meint brot varnaraðila gegn 30. og 35. gr. siðareglna lögmanna, hafi varnaraðili upplýst sóknaraðilann [B] um að umbjóðandi sinn hefði falið honum að ráðast í lögmætar aðgerðir gegn sóknaraðilanum [B], og fulltrúa hans, vegna háttsemi þeirra í ofangreindu dómsmáli, við fyrirtöku málsins 19. október 2022, er sóknaraðilinn lagði fram ólögmæta hljóðritun og endurrit þess fram fyrir dóm. Að mati varnaraðila hafa lögmenn heimild til þess að beita gagnvart gagnaðila sínum, í þessu tilviki sóknaraðilann [B] og fulltrúa hans, öllum þeim lögmæltu aðgerðum, sem í boði eru hverju sinni. Þær aðgerðir kunni vissulega að leiða til hneykslisspjalla fyrir sóknaraðilann [B], en gerist það, þá sé orsök spjallanna hegðun hans og möguleg lögbrot. Það að varnaraðili hafi upplýst sóknaraðilann [B], hvers væri að vænta legði hann téða hljóðritun fram og endurrit hennar, felur að mati varnaraðila ekki í sér hótun af hans hálfu.
Varnaraðili segir lögmenn eiga eftir fremsta megni að leita sátta við gagnaðila umbjóðanda sinna, en það hafi hann gert f.h. umbjóðanda síns vegna téðrar hljóðritunar, með tölvupósti til sóknaraðilans [B] þann 1. nóvember 2022. Í erindinu hafi sóknaraðilinn verið upplýstur um vilja umbjóðanda til að reyna að ná sátt, en hann hafi hugsað sér að fá einhverjar fjárbætur vegna þessa. Sóknaraðilinn hafi verið inntur eftir tillögum að sátt, en ekkert svar borist við erindinu, a.m.k. ekki með þeim hætti að hægt væri að ljúka málunum með sátt. Því hafi stjórnsýslumál gagnvart honum og fulltrúa hans haldið áfram. Líkt og fram komi í ákvörðun Fjarskiptastofu þá sé það í höndum umbjóðanda varnaraðila að kæra sóknaraðilann [B] og fulltrúa hans til lögreglu, ekki Fjarskiptastofu. Í ljósi þessa alls hafi varnaraðili lagt það til við umbjóðanda sinn, að lögð yrði fram kæra til lögreglu í málinu.
Að mati varnaraðila á mál þetta ekkert erindi við úrskurðarnefnd lögmanna. Sóknaraðilar hafi ekki átt aðild að því dómsmáli, þar sem hin meinta háttsemi hafi átt sér stað. Um hafi verið að ræða ágreining milli tveggja einkahlutafélaga, hvar sóknaraðilinn [B] var lögmaður félagsins sem var til varna, en hann hafi enga aðra aðkomu eða aðild átt að því máli, hvað þá sóknaraðilinn [A].
Að lokum telur varnaraðili að kvörtun sóknaraðilans [B] feli í sér tilraun til þess að beita […] lögmann þvingunum, svo hann hætti afskiptum af málum honum tengdum, m.a. dómsmáli sem umbjóðandi varnaraðila hafi höfðað á hendur sóknaraðilanum, og þingfest hafi verið 26. október 2023, sem […] reki. Léti varnaraðili háttalag sóknaraðilans stýra störfum sínum, væri ljóst að það myndi fela í sér brot á siðareglum, og þá gagnvart umbjóðanda varnaraðila. Beiti úrskurðarnefndin sér í málinu, með þeim hætti sem krafa er gerð um, muni það hafa afdrifarík áhrif á störf allra lögmanna, enda geta þá allir sem ekki séu sáttir við hagsmunagæslu lögmanna einfaldlega sent inn kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna og með því lagt stein í götu þeirra sem sinni störfum sínum vandlega.
Varnaraðili telur umrætt dómsmál hafa verið kveikjuna að kvörtun þessari til nefndarinnar og telur í ljósi þess rétt að tekið verði tillit til kröfu hans um málskostnað úr hendi sóknaraðila enda hafi sýnilega til málsins stofnað að tilefnislausu.
III.
Í viðbótargreinargerð sinni vísa sóknaraðilar til greinargerðar sinnar en benda á þrjú atriði í greinargerð varnaraðila sem ekki standist skoðun.
Í fyrsta lagi vísi varnaraðili til dóms héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2022 í máli nr. […] og fullyrði að aðkoma varnaraðila hafi verið sama og engin, utan þess að hafa mætt í eina fyrirtöku vegna málsins, með […] lögmanni. Þessa fullyrðingu segir sóknaraðili setta fram gegn betri vitund bæði varnaraðila sjálfs sem og lögmanns hans, en hið rétta sé að þeir báðir hafi jafnframt verið viðstaddir aðalmeðferð málsins, en varnaraðili hafi tekið sér þar sæti við hlið […] lögmanns, óskikkjuklæddur og viðhaft úr sæti sínu ýmis framíköll og háttsemi sem teljast verði óviðeigandi. Væntanlega hafi vakið fyrir varnaraðila að sýna fulltrúa sínum, „hvernig ætti að gera þetta“. Sóknaraðilar vekja athygli á að upptökur úr aðalmeðferð málsins í héraðsdómi, sem spilaðar hafi verið við aðalmeðferð málsins í Landsrétti, 18. janúar sl., staðfesti þetta. Sóknaraðilar benda á að Landsréttur hafi staðfest sýknudóm héraðsdóms með dómi uppkveðnum 26. janúar sl., mál nr. […].
Í öðru lagi haldi varnaraðili því fram að þessi kvörtun sóknaraðila feli í sér tilraun til þess að beita fulltrúa varnaraðila þvingunum. Þessu mótmæla sóknaraðilar harðlega sem röngu og vísa til stefnu og greinargerðar í umræddu dómsmáli, sem sýni að málið hafi verið höfðað að þarflausu og að því er virðist gegn betri vitund, í því skyni að beita sóknaraðilann [B] þvingunum. Þennan grun segja sóknaraðilar hafa fengist staðfestan þegar varnaraðili hafi boðið sóknaraðilanum [B] sættir í öllum þessum málum, sem feli í sér að varnaraðili „skuldajafni“, sem sé orðalag sem varnaraðili hafi sjálfur notað, málskostnað þeim er umbjóðandi hans, […] ehf., hafi verið dæmdur til að greiða skv. dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. […] og dómi Landsréttar nr. […], gegn því að málið gegn sóknaraðilanum [B], sem hefur fengið númerið […], verði fellt niður. Innifalið í því tilboði hafi verið sú krafa að sóknaraðilinn drægi mál þetta hjá úrskurðarnefnd lögmanna til baka. Sóknaraðilar benda á að skilyrði skuldajöfnunar séu augljóslega ekki til staðar, en varnaraðili falli í þá gryfju að samsama sig sínum skjólstæðingi og samsami sóknaraðilann [B] jafnframt sínum eigin. Á þeirri vegferð virðist varnaraðili og […] lögmaður, sem jafnframt sé starfsmaður og fulltrúi varnaraðila, nota skjólstæðinga sína sem staðgengla í einhvers konar hefndarstríði gegn sóknaraðilanum. Að mati sóknaraðila er ljóst að varnaraðili og lögmannsstofa hans beiti sóknaraðilann [B] þvingunum, með tilefnislausum kröfum og persónulegum málshöfðunum, í því skyni að þvinga fram útkomu sem henti varnaraðila og hans persónulegu hagsmunum sem sé þvert á 35. gr. siðareglna lögmanna.
Í þriðja lagi mótmæla sóknaraðilar málskostnaðarkröfu varnaraðila og hafna henni með öllu en til vara gera þeir þá kröfu að hún sæti verulegri lækkun. Að mati sóknaraðila er skráður tímafjöldi lögmanns varnaraðila vegna málsins verulega úr hófi og í engum takti við umfang málsins. Að öðru leyti ítreka sóknaraðilar fyrri kröfur.
IV.
Varnaraðili áréttaði í viðbótargreinargerð sinni að þær aðgerðir sem hann og […] lögmaður hafi ráðist í gagnvart sóknaraðilum séu lögmætar og lögmenn hafi fulla heimild til þess að beita gagnaðila sína öllum þeim lögmætu aðgerðum sem í boði séu hverju sinni. Þá hafnar varnaraðili alfarið aðdróttunum sem á hann hafi verið bornar í viðbótargreinargerð sóknaraðila. Loks ítrekar varnaraðili þær málsástæður og kröfur sem komu fram í greinargerð hans.
Niðurstaða
I.
Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.
Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.
Í 20. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um að lögmaður megi má aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.
Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki stuðla að því, að sönnunargögnum sé spillt eða leynt, en óskylt er honum og óheimilt, gegn banni skjólstæðings, að láta dómstólum í té gögn og upplýsingar, sem skjólstæðingi eru til sakfellis.
Í 3. mgr. 21. gr. siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni er heimilt að hafa samband við vitni í máli til að kanna hvað það getur borið um atvik og, ef því er að skipta, til að gera því kleift að búa sig undir vitnaleiðslu. Sé um að ræða vitni, sem eru í sérstökum tengslum við gagnaðila, er lögmanninum skylt að tilkynna lögmanni gagnaðila áður en haft er samband ef þess er nokkur kostur en ella jafn skjótt og kostur er. Hafi lögmaður samband við vitni ber honum að gæta viðeigandi tillitssemi og forðast að hafa áhrif á framburð vitnisins.
Ákvæði 30. gr. siðareglna lögmanna kveður á um að lögmaður megi ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila.
Samkvæmt 35. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki til framdráttar málum skjólstæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótilhlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjólstæðings, að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslisspjöllum, að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku.
II.
Varnaraðili telur að vísa eigin kvörtuninni frá nefndinni í ljósi þess umrætt dómsmál hafi verið á milli tveggja einkahlutafélaga og hvorugur sóknaraðili átt aðild að dómsmálinu og því geti þeir ekki átt aðild að kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna vegna meintrar háttsemi varnaraðila í tengslum við dómsmálið. Í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 segir að telji einhver að lögmaður hafi gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, geti viðkomandi lagt fram kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Af því leiðir að þó svo háttsemi sem kvartað er yfir hafi verið viðhöfð í tengslum við dómsmál sem lögmaður rekur fyrir umbjóðanda sinn, kemur það ekki í veg fyrir að annar aðili, sem telur á sér brotið með háttseminni, geti kvartað vegna hennar til nefndarinnar. Er af þeim sökum ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila af þeirri ástæðu að sóknaraðila skorti aðild í málinu.
III.
Kvörtun beinist annars vegar að háttsemi varnaraðila sjálfs og hins vegar háttsemi […] lögmanns, sem starfar hjá varnaraðila og nýtur undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 á grundvelli 2. tl. 2. mgr. 12. gr., sbr. 3 .mgr. 11. gr. sömu laga. Lögmaður sem starfar hjá öðrum lögmanni á grundvelli slíkrar undanþágu er undanþeginn þeim skyldum að hafa opna skrifstofu, vörslufjárreikning í banka og starfsábyrgðartryggingu, enda ber vinnuveitandi hans ábyrgð á fjárvörslu lögmanns sem hann ræður til starfa hjá sér, svo og fébótaábyrgð á störfum hans að öðru leyti. Lögmaður sem starfar á grundvelli undanþágu frá skyldum skv. 1. mgr. 12. gr. ber sjálfur ábyrgð á störfum sínum að öðru leyti. Ber því að beina kvörtun til nefndarinnar vegna starfa hans að honum sjálfum.
Umkvörtunarefni sem fram koma í viðbótargreinargerð falla utan sakarefnis þessa máls.
Gögn málsins bera með sér að aðkoma varnaraðila að umræddu dómsmáli hafi verið sú að senda tölvupóst til dómara málsins þar sem því var komið á framfæri að dómskjal nr. 11, sem umbjóðandi sóknaraðila hafði lagt fram í málinu, virtist falsað. Þá mætti varnaraðili við þinghald í málinu þann 19. október 2022 þar sem stefnandi í málinu lagði fram dómskjal nr. 26, sem varnaraðili og […] lögmaður kváðust telja að gæfi rétta mynd af samskiptum málsaðila sem áður höfðu verið lögð fram á dómskjali nr. 11. Fyrir liggur að aðila málsins greindi á um málsatvik, þ. á m. um þau samskipti sem komu fram á fyrrnefndum dómskjölum. Það kom í hlut dómara málsins að taka afstöðu til sönnunargildis framlagðra gagna og taldi dómurinn ósannað að umrætt dómskjal væri falsað. Að mati nefndarinnar leiðir það þó ekki til þess að umbjóðandi varnaraðila, eða varnaraðili sjálfur, hafi lagt fram falsað skjal á dómskjali nr. 26. Telur nefndin ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi, gegn betri vitund, haft uppi tilhæfulausar ásakanir á hendur sóknaraðilum í því skyni að hafa áhrif á úrslit dómsmálsins.
Að mati nefndarinnar felur tölvupóstur varnaraðila til sóknaraðilans [B] 1. nóvember 2022, ekki í sér háttsemi sem getur talist í andstöðu við siðareglur lögmanna. Eins og varnaraðili hefur bent á var um að ræða hagsmuni umbjóðanda hans, sem var sóknaraðili í máli nefndarinnar nr. 31/2022 og kvartandi í máli Fjarskiptastofu sem leiddi til ákvörðunar nr. 5/2023. Var varnaraðila frjálst að leita sátta milli umbjóðanda síns og sóknaraðilans [B] með þeim hætti sem umræddur tölvupóstur ber með sér. Að sama skapi var varnaraðila heimilt að tjá sóknaraðilanum [B] að umbjóðandi hans hygðist leggja fram kvartanir, kæru til lögreglu og höfða gegn honum dómsmál vegna þeirrar háttsemi sem var til umfjöllunar í fyrrnefndu máli nefndarinnar og ákvörðun Fjarskiptastofu. Er ekki fallist á með sóknaraðilum að varnaraðili hafi gerst brotlegur við siðareglur lögmanna eða lög að þessu leyti.
Í ljósi framangreinds er það niðurstaða nefndarinnar að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað.
Varnaraðili, [C] lögmaður, hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, [A] og [B] lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Einar Gautur Steingrímsson, formaður
Valborg Þ. Snævarr
Helga Melkorka Óttarsdóttir
Rétt endurrit staðfestir
Eva Hrönn Jónsdóttir