Mál 47 2023

Mál 47/2023

Ár 2024, föstudaginn 28. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 13. nóvember 2023 kvörtun sóknaraðila, A, gegn varnaraðila, B lögmanni, vegna ágreinings um endurgjald og háttsemi lögmanns.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 14. nóvem­ber 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Viðauki við kvörtun barst frá sóknaraðila þann 20. nóvember 2023 og var hún send varnaraðila samdægurs og frestur til þess að skila greinargerð vegna málsins framlengdur. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 24. nóvember 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst nefnd­inni ásamt gögnum þann 28. desember 2023 og viðbótargreinargerð varnaraðila þann 31. janúar 2024. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnafram­lagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns og tók varamaður sæti hans í málinu.

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili leitaði til varnaraðila þann 23. ágúst 2023 í tengslum við ágreiningsmál vegna skipta á dánarbúi. Sóknaraðili kveðst hafa leitað til varnaraðila sem lögmanns með sérhæfingu í málsmeðferð vegna frávísunar í einkamálum. Þetta hafi hún byggt á því að varnaraðili hafi ritað ritgerð til meistaragráðu í lögfræði um efnið árið 2016.

Samkvæmt tímaskýrslu varnaraðila vann hann samtals 7,42 klst. í málinu frá þeim degi til 31. ágúst 2023 og gaf varnaraðili út reikning þann 5. september 2023 að fjárhæð 302.570 kr. Aðilar gerðu samkomulag um greiðsludreifingu kröfunnar sem hljóðaði svo að sóknaraðili skyldi greiða varnaraðila 50.000 kr. á mánuði þar til krafan væri að fullu greidd. Sóknaraðili greiddi tvær innborganir í samræmi við samkomulag aðila í október og nóvember 2023, samtals að fjárhæð 100.000 kr.

Sóknaraðili fer fram á að úrskurðarnefnd endurskoði og felli niður fyrrnefndan reikning og byggir krafan á því annars vegar að í fyrirsögn í tímaskýrslu varnaraðila standi „Enginn verkþáttur“ og hins vegar að í skráningu í tímaskýrslu þann 31. október segi „ítrekað að ég ber ekki ábyrgð á þessari vinnu“.

Sóknaraðili leitaði að nýju til varnaraðila í tengslum við sama mál þann 6. október 2023. Voru aðilar í tölvupóstsamskiptum frá þeim degi til 13. október 2023 þegar varnaraðili synjaði frekari lögmannsþjónustu þar sem sóknaraðili neitaði að skrifa undir umboð til varnaraðila þar sem hún taldi einstaka atriði í umboðinu óþörf, óviðkomandi og óviðunandi.

Þann 30. október 2023 gaf varnaraðili út reikning að fjárhæð 125.788 kr. vegna vinnu á tímabilinu 10. til 13. október sem sóknaraðili mótmælti daginn eftir. Frá þeim degi og til 9. nóvember 2023 sendi sóknaraðili varnaraðila nokkra tölvupósta með kröfu um niðurfellingu reikningsins sem varnaraðili hafnaði með tölvupósti þann 9. nóvember 2023. Sóknaraðili kveðst ekki hafa pantað eða samþykkt þá vinnu varnaraðila sem reikningurinn byggir á heldur hafi hún leitað til varnaraðila með fyrirspurn um kostnað fyrir lögmannsþjónustu.

Sóknaraðili krefst þess að tveir reikningar varnaraðila, dags. 5. september og 30. október 2023, verði felldur niður. Þá krefst sóknaraðili endurgreiðslu að fjárhæð 100.000 kr. úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili segir aðila hafa verið í miklum tölvupóstsamskiptum frá 6. til 13. október 2023 en sóknaraðili hafi sent varnaraðila 26 tölvupósta á því tímabili auk þess sem aðilar áttu um hálftíma símafund þann 11. október.

Þann 10. október 2023 hafi sóknaraðili óskað eftir því að varnaraðili tæki að sér „almennt sjálfstætt einkamál í Héraðsdómi Reykjavíkur“. Daginn eftir hafi sóknaraðili sent fyrrum lögmanni sínum tölvupóst þess efnis að varnaraðili væri tekinn við málinu. Þann 12. október hafi sóknaraðili sent varnaraðila sex fundargerðir af skiptafundum í umræddu dánarbúi. Morguninn eftir hafi varnaraðili upplýst sóknaraðila um að hann hafi lesið yfir fundargerðirnar og hann þyrfti að fá öll skjöl sem liggi fyrir í dánarbúinu.

Þann 13. október 2023 hafi varnaraðili ítrekað við sóknaraðila að hann þyrfti umboð hennar til þess að afla nauðsynlegra gagna en sóknaraðili hafi upplýst að hún vildi afla gagnanna sjálf. Í kjölfarið hafi varnaraðili upplýst sóknaraðila um að hann myndi ekki vinna meira í málinu þar til umboðið hefði verið undirritað.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi leitað til hans að eigin frumkvæði og óskað eftir aðstoð og allur tími sem hafi farið í samskipti við sóknaraðila hefði annars farið í önnur greidd verkefni. Því sé ótækt að halda því fram að vinna hans eigi að vera endurgjaldslaus.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili segist hafa leitað til hans með fyrirspurn um kostnað við lögmannsþjónustu. Sóknaraðila hafi verið kunnugt um tímagjald varnaraðila enda hafi komið fram í tölvupósti hennar til varnaraðila þann 25. ágúst 2023 að hún vissi að tímagjald hans væri 32.900 kr. auk virðisaukaskatts. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi greitt 100.000 kr. inn á eldri reikning vegna sama máls sem útgefinn var þann 5. september 2023.

Varnaraðili hafnar viðauka við kvörtun sem barst nefndinni þann 20. nóvember 2023 og varðar endurgjald hans vegna vinnu á tímabilinu 23. til 31. ágúst 2023. Varnaraðili telur kröfu sem þar hafi verið setta fram kunna að sæta frávísun frá nefndinni enda sé um sjálfstætt sakarefni að ræða.

Varnaraðili gerir þá kröfu að úrskurðarnefnd úrskurði að þóknun sín vegna starfa í þágu sóknaraðila feli í sér hæfilegt endurgjald.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt framlögðum máls­kostnaðar­­­reikn­ingi með vísan til 3. mgr. 28. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Um sé að ræða tilhæfulausa kvörtun sem íþyngi bæði varnaraðila og nefndinni. Sóknaraðili hafi aðeins verið krafin um hluta af þeim tíma sem fór í samskipti og yfirlestur gagna. Komi því til álita að nefndin ákveði sóknaraðila greiðslu kostnaðar sem hlýst af störfum nefndarinnar, sbr. 4. mgr. 28. gr. fyrrnefndra laga.

III.

Í viðbótargreinargerð sóknaraðila kveðst hún hafa ætlað að ráða varnaraðila í vinnu en hætt við eftir að hann hafi farið fram á að hún undirritaði umboð sem hún taldi of víðtækt í ljósi málavaxta. Sóknaraðili byggir á því að vinna varnaraðila hafi verið unnin án umboðs, án pöntunar og án samþykkis hennar og hún hafi aldrei beðið um hana.

Þá ítrekar sóknaraðili mótmæli við umboði því sem varnaraðili hafi farið fram á að hún undirritaði vegna málsins. Þá gerir sóknaraðili athugasemdir við að varnaraðili hafi staðið í bréfaskriftum við dómara málsins án samþykkis hennar. Einnig lýsti sóknaraðili því að hún teldi vinnu varnaraðila hafa verið tilgangslausa og tilhæfulausa.

Sóknaraðili ítrekar að samskipti hennar og varnaraðila í október 2023 hafi einungis falið í sér fyrirspurn um lögmannsþjónustu en ekki verið skuldbindandi.

IV.

Varnaraðili kveðst upphaflega hafa neitað að taka að sér vinnu fyrir sóknaraðila en hún hafi ítrekað leitað til hans eftir aðstoð vegna dánarbússkipta. Hafi varnaraðili því upplýst sóknaraðila sérstaklega um það í upphafi að ef hann tæki málið að sér þá yrði hann að taka málið í heild að sér og hún yrði að treysta því að hann hefði hennar hagsmuni að leiðarljósi. Þessu hafi sóknaraðili lofað en fljótlega eftir að vinnan hófst hafi sóknaraðili farið að beita varnaraðila örstjórnun og viljað vinna einstök ágreiningsmál í handleiðslu. Sem dæmi hafi sóknaraðili sjálf viljað leggja fram öll gögn í tengslum við dánarbússkiptin, án þess að hafa öll gögn málsins eða nokkurt skipulag á þeim gögnum sem hún hafði. Varnaraðili hafi ítrekað að hann yrði að fá umboð frá henni svo hægt væri að afla allra gagna frá skiptastjóra sem væri nauðsynlegt svo hann gæti ráðið henni heilt. Þá hafi hann tjáð henni að frekari vinna yrði ekki innt af hendi fyrr en undirritað umboð lægi fyrir. Það hafi sóknaraðili ekki fallist á og hafi hún sent sér tölvupóst þann 13. október 2023 og þakkað fyrir samstarfið.

Varnaraðili kveðst hafa þann háttinn á að senda reikninga í lok hvers mánaðar og þess vegna hafi ekki átt að koma sóknaraðila á óvart að reikningur hafi verið gefinn út 17 dögum eftir að störfum hans fyrir hana lauk.

Varnaraðili segir skýrt að sóknaraðili hafi beðið um þjónustu af hans hálfu dagana 10.-13. október 2023, bæði í tölvupósti og í símtölum. Fyrir þá vinnu beri sóknaraðila að greiða. Varnaraðili vísar til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 og ákvæða laga um þjónustukaup nr. 42/2000 og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 auk meginreglna samninga- og kröfuréttar.

Varnaraðili kveðst líta svo á að krafa sóknaraðila sem fram kom í viðauka sem barst nefndinni 20. nóvember 2023, sé of seint fram komin og ekki hluti af máli þessu. Óháð því hafi verið beðið um þá vinnu sem um ræðir og byggi hún á fjölmörgum símtölum frá sóknaraðila til varnaraðila, tölvupóstsamskiptum og yfirlestri gagna. Varnaraðili segir sóknaraðila hafa sent fjölmörg gögn og greinargerð á 29 blaðsíðum. Hann hafi boðist til að útbúa greinargerð í málinu en látið sóknaraðila vita að varnir í málinu væru takmarkaðar og ólíklegar til árangurs. Þá hafi sóknaraðili óskað eftir yfirlestri og ráðleggingum um hvernig mætti bæta greinargerð sem taldi 29 blaðsíður, þ.e. vinnu í handleiðslu. Varnaraðili hafi aðeins getað gefið henni sitt mat á því sem sóknaraðili hefði þegar gert og kveðst hafa upplýst sóknaraðila að engin leið væri að vinna þetta með því móti og að varnaraðili gæti ekki tekið ábyrgð á þessum málatilbúnaði sóknaraðila. Varnaraðili segir samskipti við sóknaraðila hafa einkennst af tortryggni og sóknaraðili hafi farið fram á handleiðslu lögmanns um lítilsverð atriði á sama tíma og hún hafi skautað fram hjá aðalatriðum.

Varnaraðili bendir á að reikningur sem gefinn var út þann 5. september 2023 hafi verið samþykktur á þeim tíma og inn á hann greiddar tvær greiðslur í samræmi við samkomulag aðila. Sóknaraðili hafi ekki rift því samkomulagi enda yrði slíkri riftun hafnað. Sóknaraðili gæti þá sótt rétt sinn fyrir héraðsdómi kysi hún svo. Varnaraðili telur í ljósi framangreinds að vísa eigi frá þessum hluta málsins.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.

Í 1. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um rétt lögmanns til þess að áskilja sér hæfilega þóknun fyrir störf sín. Við mat á því hvað telst hæfileg þóknun er m.a. heimilt að líta til umfangs og eðlis máls, undirliggjandi hagsmuna, þýðingar fyrir skjólstæðing, árangurs, þess tíma sem krafist er að varið sé í mál af hálfu lögmannsins, sérhæfingar hans og þeirrar ábyrgðar sem starfanum fylgir. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar skal lögmaður upplýsa skjólstæðing sinn um á hvaða grundvelli þóknun er reiknuð.

Samkvæmt 15. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

II.

Varnaraðili hafnar því að viðauki við kvörtun sem barst nefndinni þann 20. nóvember 2023 komist að í málinu og telur kröfur sem þar eru settar fram of seint fram komnar og að þeim beri að vísa frá nefndinni. Viðaukinn barst áður en greinargerð varnaraðila var send nefndinni og var varnaraðila veittur viðbótarfrestur í samræmi við ákvæði 4. mgr. 9. gr. málsmeðferðar­reglna nefndarinnar til þess að skila greinargerð í málinu. Greinargerð varnar­aðila barst nefndinni þann 24. nóvember 2023 en hann kaus að svara viðauka við kvörtun ekki efnis­lega fyrr en í viðbótargreinargerð sinni þann 31. janúar 2024. Að mati nefndarinnar er rétt að viðauki við kvörtun skoðist sem hluti málsins enda barst hann áður en greinargerð varnar­aðila barst nefndinni og var varnaraðila veittur aukinn frestur til þess að skila greinargerð í málinu, í tilefni af tilkomu viðaukans. Kröfu varnaraðila um frávísun þess hluta málsins er því hafnað.

III.

Að mati nefndarinnar er tímagjald varnaraðila að fjárhæð 32.900 kr. auk virðisaukaskatts ekki úr hófi enda liggur fyrir að sóknaraðili vissi og samþykkti fjárhæð tímagjaldsins. Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa varnaraðila um greiðslu vegna 7,42 vinnustunda í máli sóknaraðila á tímabilinu 23. til 31. ágúst 2023 hófleg og má ætla að vinnan hafi í raun verið mun meiri en varnaraðili krefst greiðslu vegna. Að sama skapi telur nefndin tímaskráningu varnar­aðila vegna 3,08 klst. vinnu á tímabilinu 10. til 13. október 2023 síst úr hófi í ljósi gagna málsins. Áskilin þóknun varnaraðila felur að mati nefndarinnar í sér hæfilegt endurgjald í samræmi við 24. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Varnaraðili gerði sóknaraðila fullnægjandi grein fyrir því á hvaða grundvelli þóknun hans var reiknuð í samræmi við 3. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna og afhenti henni tíma­skýrslur að baki reikningum í samræmi við ákvæði 15. gr. siðareglnanna.

Með hliðsjón af gögnum málsins telur nefndin liggja fyrir að sóknaraðili hafi falið varnaraðila að gæta hagsmuna sinna vegna ágreinings í tengslum við slit á dánarbúi í tvígang. Fyrst á tímabilinu 23. til 31. ágúst 2023 og aftur á tímabilinu 10.-13. október 2023. Ljóst er að sóknaraðili óskaði eftir og samþykkti bæði þá vinnu sem varnaraðili innti af hendi fyrir hana á fyrra tímabilinu, og þá þóknun sem hann áskildi sér vegna þeirrar vinnu, með samkomulagi aðila um greiðsludreifingu kröfu sem byggði á reikningi, dags. 5. september 2023. Texti á tímaskýrslu sem sóknaraðili vísar til hefur að mati nefndarinnar enga þýðingu hvað þetta varðar og á hann sér augljósar skýringar í gögnum málsins.

Að mati nefndarinnar bera gögn málsins með sér að sóknaraðili hafi að sama skapi óskað eftir og samþykkt vinnu varnaraðila á seinna tímabilinu auk þess sem henni var ljóst að varnaraðili væri að vinna í málinu og í hverju sú vinna fælist. Að mati nefndarinnar gat sóknaraðili ekki gert ráð fyrir öðru en að hún þyrfti að greiða varnaraðila fyrir þá þjónustu. Eins og áður segir var sóknaraðila kunnugt um tímagjald varnaraðila áður en hún leitaði til hans í seinna skiptið. Synjun sóknaraðila um undirritun umboðs sem varnaraðili lagði fyrir hana, sem að mati nefndarinnar er að öllu leyti í samræmi við það sem við má búast í sambærilegum málum, firrir hana ekki skyldu til þess að greiða varnaraðila fyrir þá þjónustu sem hann hafði veitt henni fram að þeim tíma.

Með hliðsjón af gögnum málsins er ekki fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi sýnt af sér neina þá háttsemi gagnvart henni sem getur talist fela í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á annað en að varnaraðili hafi gætt hagsmuna sóknaraðila af einurð í samræmi við 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi bent sóknaraðila á annmarka á máli hennar og ráðlagt henni um hvernig hann teldi best að undirbyggja málið. Málsgögn bera hins vegar með sér að sóknaraðili hafi ekki farið að ráðum varnaraðila og viljað vinna málið að mestu sjálf í trássi við hans ráðleggingar. Fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili hafi mælt eindregið gegn því og tjáð sóknaraðila að hann gæti ekki tekið nokkra ábyrgð á þeim vinnubrögðum sem sóknaraðili vildi viðhafa í málinu. Þá tjáði varnaraðili sóknaraðila að hann gæti ekki tekið málið að sér nema með því skilyrði að hún samþykkti að hann ynni málið að öllu leyti, hún tæki ráðleggingum hans og treysti því að hann ráðlegði henni heilt og reyndi að leysa mál hennar á sem farsælastan hátt. Þetta ítrekaði varnaraðili þegar sóknaraðili leitaði til hans að nýju rúmum mánuði síðar með sama mál. Þegar ljóst varð að sóknaraðili hugðist ekki verða við þessu og neitaði að skrifa undir umboð til varnaraðila vegna málsins batt hann enda á þjónustu sína í þágu sóknaraðila eins og honum var heimilt skv. 2. mgr. 12. gr. siðareglna lögmanna.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, B lögmanns, um frávísun hluta málsins frá nefndinni er hafnað.

Áskilið endurgjald varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila, A, felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, B lögmaður hefur ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Grímur Sigurðsson

Helgi Birgisson

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir