Mál 48 2023

Mál 48/2023

Ár 2024, fimmtudaginn 27. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið mál nr. 48/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 20. nóvember 2023 kvörtun sóknaraðila A, gegn varnaraðila, B, vegna ágreinings um endurgjald lögmannsins og háttsemi hans.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 27. nóvember 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 26. og 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 20. desember 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótargreinargerð sóknar­aðila barst nefndinni ásamt gögnum þann 12. febrúar 2024. Varnaraðili sá ekki tilefni til þess að koma á framfæri frekari athugasemdum og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

 

Málsatvik og málsástæður

Samkvæmt gögnum málsins leitaði sóknaraðili til varnaraðila þann 23. nóvember 2023 um hagsmunagæslu vegna tjóns á bifreið í eigu félags hennar […] ehf. Gögn málsins sýna að varnaraðili var í samskiptum við sóknaraðila og tryggingafélagið Sjóvá vegna þessa frá þeim tíma fram í lok janúar 2023. Þann 27. janúar 2023 sendi varnaraðili sóknaraðila reikning vegna fjögurra klukkustunda vinnu í málinu, samtals að fjárhæð 121.520 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Reikningurinn var á eindaga þann 5. febrúar 2023 og sendi varnaraðili sóknaraðila tölvupóst degi síðar og upplýsti hana um að reikningurinn væri í vanskilum.

Í tölvupóstsamskiptum aðila frá þessum tíma kemur fram að sóknaraðili sé erlendis og óskaði hún eftir fresti til 15. febrúar 2023 til þess að greiða reikninginn sem varnaraðili samþykkti. Þann dag óskaði sóknaraðili eftir tveggja daga greiðslufresti til viðbótar, eða til 17. febrúar 2023. Þann 16. febrúar 2023 sendi sóknaraðili tölvupóst á framkvæmdastjóra FÍB, lögfræðing félagsins og varnaraðila þar sem hún tjáði óánægju sína með þjónustu varnaraðila. Byggði óánægjan að hluta á því að varnaraðili hefði tengsl við lögfræðing tryggingafélagsins Sjóvá en einnig á því að varnaraðili hafi ekki tjáð henni að hún þyrfti að greiða 120.000 kr. fyrir fram vegna málsins.

Sama dag tjáði varnaraðili sóknaraðila að hann liti svo á að fyrrnefndur tölvupóstur fæli í sér uppsögn á hans þjónustu og hann myndi ekki vinna fyrir hana frekar í málinu. Benti hann á að ekki væri farið fram á fyrirframgreiðslu heldur væri útgefinn reikningur vegna þeirrar vinnu sem hann hefði þá þegar unnið í málinu. Í framhaldi voru aðilar í tölvupóstsamskiptum þar sem sóknaraðili óskaði eftir framlengdum greiðslufresti á reikningnum til 27. febrúar 2023 sem varnaraðili féllst á og tjáði sóknaraðila að hann myndi senda út kröfubréf í málinu þegar greiðsla hefði borist. Þann 28. febrúar 2023 sendi varnaraðili sóknaraðila tölvupóst þess efnis að reikningurinn væri enn ógreiddur og greiddi sóknaraðili reikninginn samdægurs.

Í gögnum málsins liggur fyrir kröfubréf sem varnaraðili sendi f.h. sóknaraðila, dags. 6. mars 2023. Í framhaldi hafði sóknaraðili samband við varnaraðila vegna misritunar bílnúmers í kröfubréfinu. Varnaraðili tjáði henni að hann teldi það ekki skipta máli þar sem öll gögn sem fylgdu með bréfinu bæru með sér rétt bílnúmer og hvaða mál væri um að ræða.

Þann 4. maí s.á. voru aðilar í tölvupóstsamskiptum þar sem varnaraðili tjáði sóknaraðila að engin viðbrögð hafi borist við bréfinu og hún þurfi að taka ákvörðun um framhaldið. Hann muni ekki aðstoða hana frekar eins og hann hafi þegar tilkynnt henni um. Þann 6. maí 2023 afturkallaði sóknaraðili umboð sitt til varnaraðila og fór fram á að fá afhent gögn málsins. Varnaraðili varð við því og sótti sóknaraðili gögnin á skrifstofu hans þann 11. maí 2023 og lauk þar með samskiptum aðila.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi ekki verið óháður í máli hennar og því hafi hún þurft að leita til annars lögmanns með tilheyrandi kostnaði. Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila kom fram að hana minnti að varnaraðili hafi tjáð henni að hann hafi verið með lögfræðingi tryggingafélagsins í námi. Sóknaraðili segir varnaraðila hafa haft í frammi hótanir ef hún greiddi ekki reikning dags. 27. janúar 2023 og segist sóknaraðili hafa upplifað andlegt ofbeldi varnaraðila í sinn garð vegna þessa. Sóknaraðili segir varnaraðila ekki hafa unnið mál hennar vel og vísar þess að varnaraðili hafi ritað rangt bílnúmer í kröfubréfi í máli hennar. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að endurgreiða henni þóknun sem hún greiddi samkvæmt reikningi, dags. 27. janúar 2023.

II.

Varnaraðili neitar að hafa hótað sóknaraðila með nokkrum hætti og vísar því á bug að það að hann hafi upplýst sóknaraðila um að ógreiddur reikningur yrði sendur í innheimtu geti talist hótanir. Jafnframt hafnar varnaraðili ásökunum um að sóknaraðili hafi orðið fyrir andlegu ofbeldi af hans hálfu. Varnaraðili bendir á að öll samskipti aðila frá 7. febrúar 2023 hafi farið fram í tölvupósti og vísar til fyrirliggjandi gagna sem sýni með tæmandi hætti öll samskipti aðila frá þeim tíma.

Þá hafnar varnaraðili því að hafa ekki verið óháður í störfum sínum. Það sé rangt að hann eigi félaga sem starfi sem lögfræðingur hjá Sjóvá en jafnvel ef svo væri gerði það ekki það að verkum að varnaraðili hefði ekki getað verið óháður í störfum sínum fyrir sóknaraðila. Varnaraðili kveðst fyrst hafa verið upplýstur um óánægju sóknaraðila þann 16. febrúar 2023 í tölvupósti sem sóknaraðili sendi starfsmönnum FÍB.

Varnaraðili neitar að hafa farið fram á fyrirframgreiðslu úr hendi sóknaraðila vegna málsins og bendir á að útgefinn reikningur hans í málinu hafi verið vegna vinnu sem þegar hafði verið unnin og vísar til gagna málsins því til stuðnings.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili færi engin rök fyrir því að umkrafin þóknun varnaraðila sé með einhverju móti óeðlileg, enda sé hún það ekki. Þóknunin sé í raun í engu samræmi við þá vinnu sem varnaraðili hafi lagt í málið en raunverulegur fjöldi vinnustunda sé um 12 klukkustundir. Varnaraðili hafi átt fleiri en einn fund með sóknaraðila, farið yfir gögn málsins sem hafi talið tæplega 100 síður, gert drög að kröfubréfi og sent það út. Þá hafi tölvupóstar vegna málsins numið tugum eins og gögn málsins beri með sér og símtöl verið á annan tug.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað auk þess sem hann krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að fjárhæð 150.000 kr. auk virðisaukaskatts.

 

Niðurstaða

I.

Ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess getur annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Í kvörtun kemur fram að kvörtun lúti bæði að ágreiningi aðila um endurgjald og vegna háttsemi varnaraðila.

II.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi ekki unnið vel í máli hennar. Þá hafi hann haft tengsl við lögfræðing hjá tryggingafélagi sem sóknaraðili átti í ágreiningi við og því ekki verið óháður í störfum sínum fyrir hana. Sóknaraðili fer fram á endurgreiðslu þeirrar þóknunar sem hún greiddi varnaraðila fyrir störf sín.

Að mati nefndarinnar er tímagjald varnaraðila að fjárhæð 24.500 kr. auk virðisaukaskatts ekki úr hófi. Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa varnaraðila um greiðslu vegna fjögurra vinnustunda í máli sóknaraðila á tímabilinu 23. nóvember 2023 til 27. janúar 2024 hófleg og má ætla að vinnan hafi í raun verið mun meiri en varnaraðili krefst greiðslu vegna. Að sama skapi sýna gögn málsins að varnaraðili varði nokkrum fjölda vinnustunda í mál sóknaraðila á tímabilinu frá 27. janúar 2024 og þar til samskiptum aðila lauk endanlega um miðjan maí 2024, einkum vegna dráttar sóknaraðila á að greiða útgefinn reikning vegna vinnu varnaraðila, án þess að hann hafi krafist greiðslu vegna þeirrar vinnu, eins og honum hefði verið heimilt.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og málsgögnum að öðru leyti er það niðurstaða nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilið endurgjald vegna starfa varnaraðila í þágu sóknaraðila. Felur sú niðurstaða í sér að sú þóknun sem varnaraðili áskildi sér vegna starfa sinna fyrir sóknaraðila, samtals að fjárhæð 121.520 kr., feli í sér hæfilegt endurgjald.

Með hliðsjón af gögnum málsins er ekki fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi sýnt af sér neina þá háttsemi gagnvart henni sem getur talist fela í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum. Þannig bera gögn málsins ekki með sér að varnaraðili hafi hótað sóknaraðila með neinum hætti eða að öðru leyti sýnt af sér ósæmilega háttsemi í samskiptum við hana. Þvert á móti bera gögn málsins með sér að varnaraðili hafi sýnt sóknaraðila fulla biðlund og þolinmæði þegar tafir urðu á að hún greiddi reikning vegna þeirrar vinnu sem hann hafði innt af hendi fyrir hana. Misritun bílnúmers í kröfubréfi er að mati nefndarinnar ekki til þess fallin að draga úr rétti varnaraðila til endurgjalds úr hendi sóknaraðila, enda bar efni bréfsins og meðfylgjandi skjöl augljóslega með sér við hvaða bifreið var átt og um hvað málið snerist. Fullyrðingar sóknaraðila um tengsl varnaraðila við lögfræðing hjá tryggingafélagi því sem sóknaraðili átti í ágreiningi við eru með öllu ósannaðar. Slík tengsl sem sóknaraðili lýsir væru enda ekki til þess fallin ein og sér að draga í efa getu lögmanns til þess að gæta hagsmuna umbjóðanda síns af einurð. Varnaraðili hefur ekki gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á siðareglum lögmanna eða lögum.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun varnaraðila, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu sóknaraðila A, að fjárhæð 121.520 kr., felur í sér hæfilegt endurgjald.

Varnaraðili, B, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Málkostnaður fellur niður.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

 

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir