Mál 49 2023

Mál 49/2023

Ár 2024, fimmtudaginn 27. júní, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 5. desember 2023 kvörtun C lögmanns f.h. sóknaraðila A, gegn varnaraðila, B lögmanni, vegna háttsemi varnaraðila sem lögmanns gagn­aðila sóknar­aðila.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi dags. 6. desember 2023 þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun vegna háttsemi lögmannsins og honum veittur frestur til 27. desember s.á. til þess að skila greinargerð til nefndarinnar. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 19. desem­ber 2023. Viðbótargreinargerð sóknaraðila barst þann 22. janúar 2024. Varnaraðili sá ekki tilefni til þess að koma að frekari athugasemdum. Ekki kom til frekari athuga­semda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grund­velli fyrirliggjandi gagna. 

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Sóknaraðili og umbjóðandi varnaraðila voru í sambúð þar til í september 2023. Sóknaraðili segir sambúðina hafa einkennst af miklu andlegu ofbeldi af hálfu umbjóðanda varnaraðila í garð sóknaraðila. Í kjölfar sambúðarslitanna flutti umbjóðandi varnaraðila út af heimilinu og sömdu aðilar sín á milli um umgengni barna sinna tveggja á meðan gengið væri frá fjárskiptum og samkomulagi um umgengni við börnin. Sóknaraðili segir fyrrum sambúðarmaka sinn hafa leitað til varnaraðila um að gæta hagsmuna hans vegna sambúðarslitanna. Þann 24. september 2023 hafi varnaraðili sent sóknaraðila tölvupóst með tillögu að samkomulagi um sambúðarslit.

Í tölvupóstinum, sem liggur fyrir í málinu, er lagt til að verðmæti sameiginlegrar fasteignar aðila verði skipt jafnt á milli aðila, að frádregnu láni frá móður sóknaraðila og kostnaði vegna þinglýsingar. Í öðru lagi að forsjá barnanna verði sameiginleg og lögheimili hjá umbjóðanda varnaraðila. Í þriðja lagi að umgengni sóknaraðila við börnin hefjist eftir að sóknaraðili hafi lokið vímuefnameðferð en verði að því loknu samkvæmt fyrirkomulagi sem er nánar útlistað í bréfinu að því gefnu að sóknaraðili haldi bindindi sitt. Jafnframt segir í tölvupóstinum:

„Umbjóðandi minn vonast til þess að þessi tillaga geti orðið grundvöllur að sátt ykkar á milli. Ef ekki sér umbjóðandi minn ekki annan kost en þann að óska eftir breytingu á forsjá barnanna hjá sýslumanni þar sem hann mun fara fram á fulla forsjá. Það þarf vart að taka það fram að umbjóðandi minn er þá nauðbeygður til að leggja fram þau gögn sem hann hefur undir höndum varðandi vímuefnavanda þinn, svo sem hljóðupptökur, útprentanir af heilsuveru og frá apótekum. Þá sér umbjóðandi minn ekki annan kost en þann til að tryggja öryggi barnanna en að tilkynna málið til barnaverndarþjónustu Reykjavíkur og einnig á vinnustað þinn, enda ljóst að ekki er verjandi að þú umgangist börnin né annist um sjúklinga á vinnustað þínum í núverandi ástandi.“

Sóknaraðila var veittur fjögurra daga frestur til að svara erindinu, eða til 28. september 2023.

Sóknaraðili leitaði til lögmanns í kjölfar móttöku fyrrgreinds tölvupósts og var erindi varnaraðila svarað með tölvupósti lögmanns sóknaraðila þann 27. september 2023. Var kröfum umbjóðanda varnaraðila hafnað og staðhæfingum í tölvupósti varnaraðila mótmælt sem ósönnum.

Sóknaraðili segir kvörtun beinast að starfsháttum varnaraðila og þeim hótunum sem hann hafi sett fram í fyrrgreindum tölvupósti og kveðst telja aukaatriði hvort staðhæfingar varnaraðila hafi átt við rök að styðjast eða ekki enda eigi hótanir lögmanns til gagnaðila aldrei rétt á sér.

Í kjölfar svars lögmanns sóknaraðila til varnaraðila segir sóknaraðili umbjóðanda varnaraðila hafa látið hótanirnar verða að veruleika og tilkynnt sóknaraðila til Barnaverndar í byrjun október og til eftirlitsaðila vinnuveitanda sóknaraðila, Landlæknis, síðar í sama mánuði en sóknaraðili er læknir og starfar sem slík á […]. Vegna þessa hafi farið fram rannsókn bæði hjá Barnavernd […] og Landlækni gagnvart sóknaraðila.

Að mati sóknaraðila er tölvupóstur sem varnaraðili sendi henni þann 24. september 2023, ekki í samræmi við góða lögmannssiði og ekki til þess fallinn að gæta heiðurs lögmanna­stéttarinnar. Í tölvupóstinum sé að finna hótanir auk þess sem fjárskiptum í kjölfar sambúðarslita eru sett í samhengi við tilkynningu til barnaverndar með þeim hætti að hóta því að ef ekki verði fallist á kröfur umbjóðanda varnaraðila tengdar fjárskiptum muni hann tilkynna sóknaraðila til Barnaverndar. Sóknaraðili bendir á að lagaskylda hvíli á þeim sem telji barn búa við óviðunandi aðstæður. Þá hafi tölvupósturinn verið sendur á sunnudegi og henni gefnir fjórir dagar til þess að svara póstinum, annars muni umbjóðandi varnaraðila grípa til þeirra aðgerða sem raktar voru að framan. Í tölvupóstinum sé einnig að finna hótanir um að senda hljóðupptökur sem umbjóðandi varnaraðila kveðst hafa tekið upp á heimili aðila, en slíkt feli í sér skýrt brot á friðhelgi einkalífs sóknaraðila.

Sóknaraðili segir varnaraðila hafa vakið upp ótta hjá henni og komið henni í uppnám og verið síst til þess fallinn að finna lausn fyrir umbjóðanda hans. Þvert á móti hafi hann valdið enn meira fjaðrafoki en fyrir var á milli aðila.

Sóknaraðili telur markmið varnaraðila með tölvupóstinum hafi verið að fá sóknaraðila til þess að samþykkja kröfur sem hafi verið í engu samræmi við stöðu málsins. Þannig hafi honum ekki verið annt um öryggi barna aðila eða þeirra sjúklinga sem sóknaraðili annast, eins og haldið hafi verið fram, heldur markmiðið einfaldlega verið að ná fram kröfum umbjóðanda hans með hótunum og vekja ótta hjá sóknaraðila.

Kvörtun er byggð á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og vísar sóknaraðili að öðru leyti til ákvæða laganna, einkum 18. gr., og siðareglna lögmanna, einkum 1. mgr. 1. gr., 2., 34. og 35. gr. reglnanna. Sóknaraðili gerir kröfu um að varnaraðili verði áminntur vegna háttseminnar en til vara að viðurlögum verði beitt að mati nefndarinnar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar á grundvelli 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðar­nefndar lögmanna.

Varnaraðili mótmælir því að hafa brotið gegn ákvæðum laga um lögmenn nr. 77/1998 eða siðareglum lögmanna með því að senda umræddan tölvupóst.

Varnaraðili vísar til 18. gr. laga um lögmenn og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Varnaraðili bendir á að tölvupósturinn hafi verið settur fram í nafni umbjóðanda síns en ekki í hans nafni. Tölvupósturinn hafi verið ritaður að beiðni umbjóðandans og með hans samþykki í kjölfar fundar sem varnaraðili átti með honum þann 24. september 2023. Þar hafi umbjóðandinn greint varnaraðila frá vímuefnavanda sóknaraðila og tjáð varnaraðila að hann hygðist senda erindi til barnaverndar og á vinnustað sóknaraðila ef ekki næðist sátt í málinu varðandi forsjá og umgengni við börn aðila.

Varnaraðili segir umbjóðanda sinn hafa sýnt sér hljóð- og myndbandsupptökur sem og útprentanir af heilsuveru sem hafi stutt fullyrðingar umbjóðandans um vímuefnavanda sóknaraðila. Síðar hafi komið í ljós að ásakanirnar virðist ekki hafa verið úr lausu lofti gripnar enda hafi Landlæknir fellt niður starfsleyfi sóknaraðila í kjölfar ábendingar umbjóðanda varnaraðila og sóknaraðili starfi ekki lengur sem sérfræðilæknir á […]. Varnaraðili segir umbjóðanda sinn hafa tjáð sér að þetta sé í annað sinn sem starfsleyfi sóknaraðila hafi verið fellt niður vegna gruns um vímuefnaneyslu hennar.

Varnaraðili kveðst telja að í tölvupóstinum finnist engin gífuryrði. Þvert á móti hafi hann lagt það til málanna sem umbjóðandi hans tjáði honum að væri rétt og studdi með sýnilegum sönnunargögnum. Því hafi varnaraðili fjarri því gengið lengra en umbjóðandi hans hefði sjálfur gert. Vísar varnaraðili til úrskurða nefndarinnar í málum 16/2020 og 7/2022 til hliðsjónar.

Að mati varnaraðila mátti sóknaraðila vera ljóst að tölvupóstur varnaraðila fól í sér framlengingu af óskum og afstöðu umbjóðanda hans til málsins. Játa verði lögmanni svigrúm, innan þeirra marka sem siðareglur lögmanna setja, til að tjá skoðanir og sjónarmið umbjóðanda síns. Að mati varnaraðila er framangreint augljóst í málinu þar sem þess hafi verið gætt vandlega að greina á milli þeirra ummæla sem varnaraðili lét falla í nafni umbjóðanda síns annars vegar og í eigin nafni hins vegar. Tölvupósturinn hafi einfaldlega endurspeglað afstöðu umbjóðandans og alvarleika málsins í hans augum.

III.

Í viðbótargreinargerð sinni kveður sóknaraðili rangt að hún hafi verið nokkurn tímann verið svipt starfsleyfi sínu sem læknir vegna vímuefnavanda. Sóknaraðili hafi einu sinni fyrir nokkrum árum lagt sjálf inn lækningaleyfi sitt og verið í veikindaleyfi á þeim tíma sem viðbótar­greinargerðin var rituð en stefndi á að hefja störf að nýju í byrjun febrúar 2024. Sóknaraðili segist taka þetta sérstaklega fram til þess að leiðrétta rangfærslur í greinargerð varnaraðila þó hún telji þetta efni kvörtunarinnar óviðkomandi.

Sóknaraðili bendir á að lögmenn sinni ákveðnu hlutverki stöðu sinnar vegna sem sérfræðingar og þeim séu settar ákveðnar takmarkanir í lögum um lögmenn og siðareglum lögmanna. Í þeim takmörkunum felist m.a. að lögmaður skuli sýna gagnaðilum umbjóðenda sinna þá tillitssemi sem er samrýmanleg hagsmunum umbjóðenda sinna, sbr. 34. gr. siðareglna lögmanna. Að mati sóknaraðila virti varnaraðili þessa reglu að vettugi auk fleiri ákvæða lögmannalaga og siðareglna lögmanna og telur hún varnaraðila ekki hafa sýnt sér þá virðingu sem honum bar.

Að mati sóknaraðila gekk varnaraðili lengra í að koma sjónarmiðum umbjóðanda síns á framfæri en eðlilegt getur talist, enda hafi hann beitt hótunum sem hafi verið til þess fallnar að vekja ótta hjá sóknaraðila. Sóknaraðili telur varnaraðila hafa gengið lengra en það svigrúm sem lögmönnum er veitt til að koma á framfæri sjónarmiðum og afstöðu umbjóðenda sinna, leyfir, og bendir til úrskurða nefndarinnar í málum 3/2020 og 26/2022 til hliðsjónar.

Varðandi þá fullyrðingu varnaraðila að hann hafi ekki gengið lengra en umbjóðandi hans hefði sjálfur gert bendir sóknaraðili á að umbjóðandi varnaraðila er ekki bundinn af lögum um lögmenn og siðareglum lögmanna og því sé óeðlilegt að bera saman háttsemi lögmanns við hvað umbjóðandi hans hefði sjálfur gert í sömu aðstæðum. Hlutverk lögmanna sé að koma málefnalegum sjónarmiðum umbjóðenda sinna á framfæri til gagnaðila og koma í veg fyrir orðaskipti á milli aðila sem eigi í erfiðum samskiptum sín á milli. Því sé ekki óeðlilegt að lögmaður dragi úr þeim ásökunum sem umbjóðandi hans hafi frammi á hendur gagnaðila, og komi sjónarmiðum hans á framfæri með málefna­legum hætti í samskiptum við gagnaðila.

Sóknaraðili telur atvik þessa máls vera mun alvarlegri en þau sem uppi voru í máli 16/2020 sem varnaraðili vísar til en í máli 7/2022 hafi nefndin fundið að háttsemi lögmannsins. Að mati sóknaraðila eru málsatvik í málunum tveimur frábrugðin þeim sem uppi eru í máli þessu, enda um mun alvarlegri hótanir og ásakanir að ræða sem hafi verið til þess fallnar að valda sóknaraðila hneykslisspjöllum í skilningi 2. tl. 1. mgr. 35. gr. siðareglna lögmanna, sem hefðu getað leitt til þess að hún missti atvinnu sína auk þess sem efast var um hæfni hennar sem móður. Að mati sóknaraðila er ekki rétt að fyrrnefnd mál séu höfð til hliðsjónar við úrskurð nefndarinnar í máli þessu.

IV.

Varnaraðili taldi ekki ástæðu til þess að koma á framfæri frekari athugasemdum í málinu.

 

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 18. gr. laga um lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Í 1. mgr. 1. gr. siðareglna lögmanna er kveðið á um skyldu lögmanns til að efla rétt og hrinda órétti. Þá er kveðið á um í 2. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmanna­stéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 8. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanað­komandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.

Í 34. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjól­­stæðing­­anna.

Samkvæmt 35. gr. siðareglna lögmanna má lögmaður ekki til framdráttar málum skjól­stæðings síns beita gagnaðila ótilhlýðilegum þvingunum, en það telst meðal annars ótil­hlýðilegt að kæra eða hóta gagnaðila kæru um atferli, sem óviðkomandi er máli skjól­stæðings, að ljóstra upp eða hóta gagnaðila uppljóstrun um atferli, er getur valdið gagnaðila hneykslis­spjöllum og að leita án sérstaks tilefnis til óviðkomandi venslamanna gagnaðila með mál skjólstæðings síns eða hóta gagnaðila slíku. 

II.

Kvörtun í máli þessu lýtur að því að varnaraðili hafi í störfum sínum brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna með ummælum í tölvupósti sínum til sóknaraðila þann 24. september 2023. Sóknaraðili byggir á því að ummæli varnaraðila í tölvupóstinum hafi verið til þess fallin að vekja hjá henni ótta og valda hneykslisspjöllum auk þess sem í þeim hafi falist ótilhlýðileg þvingun. Telur hún varnaraðila ekki hafa sýnt sér þá virðingu og tillitssemi sem honum bar og hafi hann viðhaft háttsemi sem sé í andstöðu ákvæði lögmannalaga og siðareglna lögmanna.

Varnaraðili byggir á því að honum hafi borið að neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðanda síns, sbr. 18. gr. laga um lögmenn. Í tölvupóstinum hafi hann komið sjónarmiðum umbjóðanda síns á framfæri en ekki sínum eigin og telur efni tölvupóstsins hafa verið innan þess svigrúms sem ætla verði lögmönnum í því skyni. Varnar­aðili kveðst hafa gætt þess að greina á milli þeirra ummæla sem hann lét falla í nafni umbjóðanda síns annars vegar og í eigin nafni hins vegar og hafi einungis lagt það til málanna sem umbjóðandi hans hafi tjáð honum að væri rétt og stutt sönnunargögnum og ekki gengið lengra en umbjóðandi hans hefði sjálfur gert.

II.

Við rækslu starfa sinna koma lögmenn jafnan fram fyrir hönd sinna umbjóðenda í hagsmunagæslu og halda fram þeim sjónarmiðum og úrræðum sem best eru til þess fallin að gæta lögvarinna hagsmuna þeirra, sbr. 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Við slíka hagsmunagæslu þurfa lögmenn eftir sem áður að gæta ákvæða siðareglna lögmanna og starfa innan þeirra marka sem þar eru sett, þar á meðal þeirra skyldna gagnvart gagnaðilum sem mælt er fyrir um í V. kafla siðareglna lögmanna. Þarf háttsemi lögmanna gagnvart gagnaðilum því að samræmast ákvæðum siðareglnanna, þótt fyrir liggi að þeir komi fram fyrir hönd umbjóðenda í samskiptum eða annarri hagsmunagæslu gagnvart gagnaðila.

Yfirlýstur tilgangur tölvupósts varnaraðila til sóknaraðila frá 24. september 2023 var sá að freista þess að komast hjá tímafrekum og kostnaðar­sömum aðgerðum hjá sýslumanni og eftir atvikum fyrir dómstólum, vegna sambúðar­slita sóknaraðila og umbjóðanda varnaraðila. Í því skyni voru lagðar fram þrjár tillögur varðandi fjárskipti aðilanna og umgengni við börn þeirra.

Þær ásakanir sem bornar voru á sóknaraðila í umræddum tölvupósti varnaraðila til hennar voru verulega alvarlegar. Niðurlag bréfsins verður ekki skilið öðruvísi en svo að fallist sóknaraðili ekki á þær tillögur sem þar eru settar fram, sem grundvöll að sátt á milli aðila, muni umbjóðandi varnaraðila grípa til þeirra aðgerða að tilkynna barnavernd og vinnustað sóknaraðila um vímuefnavanda sem umbjóðandi varnaraðila fullyrðir að sóknaraðili glími við. Var sóknaraðila gefinn fjögurra daga frestur til þess að fallast á tillögurnar, ella myndi umbjóðandi varnaraðila grípa til fyrrnefndra aðgerða. Verður erindið ekki skilið öðruvísi en svo að fallist sóknaraðili á tillögurnar verði ekki af áðurnefndum aðgerðum.

Að teknu tilliti til hagsmuna umbjóðanda varnaraðila, alvarleika þeirra ásakana sem settar voru fram í garð sóknaraðila, yfirlýsts tilgangs erindisins og þess skamma frests sem sóknaraðila var veittur til svars, er það mat nefndarinnar að varnaraðili hafi ekki sýnt sóknaraðila þá virðingu og tillitssemi sem honum bar skv. 34. gr. siðareglna lögmanna í erindi sínu til sóknaraðila. Að mati nefndarinnar kröfðust hagsmunir umbjóðanda varnaraðila þess ekki að varnaraðili bæri sig að með þeim hætti sem hann gerði, né fæst séð að efni bréfsins í heild sinni og sá skammi frestur sem sóknaraðila var gefinn til þess að svara því, hafi verið til þess fallið að erindið uppfyllti yfirlýstan tilgang sinn.

Að mati nefndarinnar er ljóst að ummæli í niðurlagi bréfsins voru sett fram í þeim tilgangi að þvinga sóknaraðila til þess að samþykkja tillögur varnaraðila f.h. umbjóðanda síns um fyrirkomulag fjárskipta og umgengni við börn aðila. Var því þannig hótað að tilkynna sóknaraðila til barnaverndar og senda tilkynningu á vinnustað hennar vegna meints vímuefna­vanda, sem í ljósi framsetningar varnaraðila í erindinu sjálfu, væri óviðkomandi samkomulagi aðila um fjárskipti og umgengni við börn sín, svo fremi sem sóknaraðili féllist á tillögur umbjóðanda varnaraðila í þeim efnum. Auk þess mátti varnaraðila vera ljóst að sóknaraðili gæti orðið fyrir hneykslisspjöllum vegna þessa þar sem ásakanir voru uppi um hæfni hennar til þess að sjá um börn sín og til þess að gegna starfi sínu sem læknir. Er því ljóst að málið varðaði mikla hagsmuni fyrir sóknaraðila. Að mati nefndarinnar skiptir einnig máli í þessu sambandi að varnaraðili, sem lögmaður, hafi beint slíku erindi að sóknaraðila persónu­lega, sem sé ólöglærð og hafi, á þeim tíma sem erindið var sent, ekki notið aðstoðar lögmanns. Að mati nefndarinnar fólst í ummælunum ótilhlýðileg þvingun í skilningi 35. gr. siðareglna lögmanna.

Að áliti nefndarinnar hefur varnaraðili gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á siðareglum lögmanna. Með þeim brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Eftir úrslitum málsins verður fallist á kröfu sóknaraðila um málskostnað úr hendi varnaraðila, sbr. 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar. Telst hann hæfilega ákveðinn að fjárhæð 150.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, B lögmaður, sætir áminningu.

Varnaraðili, B lögmaður, greiði sóknaraðila A 150.000 kr. í málskostnað.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helgi Birgisson

 

 

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir