Mál 50 2023

Mál 50/2023

Ár 2024, þriðjudaginn 9. júlí, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2023:

A

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 21. desember 2023 kvörtun [C], f.h. sóknaraðila, [A], gegn varnaraðila, [B] lögmanni, vegna samskipta varnaraðila við dómara við dóm­stólinn og háttsemi hans fyrir dómi, sem verjandi eins sakbornings í máli […] og tengdum málum.

Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins með bréfi, dags. 11. janúar 2024, þar sem tekið var fram að litið væri svo á að um væri að ræða kvörtun sem reist væri á 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Var varnaraðila veittur frestur til 1. febrúar 2024 til þess að skila umsögn um erindið. Með tölvupósti 22. janúar 2024 fór varnaraðili fram á að nefndin tæki aðild málsins til skoðunar áður en til þess kæmi að hann kæmi að efnisvörnum í málinu. Var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar og varnaraðila í kjölfarið sent bréf þann 12. mars 2024 þess efnis að nefndin óskaði eftir greinargerð hans vegna erindisins og honum veittur nýr frestur til þess að koma henni á framfæri. Greinargerð varnaraðila barst nefndinni þann 11. apríl 2024 ásamt fylgi­­skjölum. Viðbótar­greinargerð sóknaraðila barst nefndinni þann 7. júní 2024 og viðbótar­greinar­gerð varnaraðila þann 4. júlí sl. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna. 

Við upphaf málsmeðferðar var upplýst um vanhæfi eins nefndarmanns og tók varamaður sæti hans í málinu.

Málsatvik og málsástæður

I.

Kvörtun þessari er beint til úrskurðarnefndar lögmanna vegna tiltekinna samskipta varnaraðila við ákveðinn dómara við dómstólinn og háttsemi varnaraðila fyrir dómi sem verjandi eins sakbornings í máli […] og tengdum málum. Kvörtunin er reist á 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og þess krafist að úrskurðarnefnd beiti viðeigandi viðurlögum skv. 2. mgr. sömu greinar. Kvörtunin lýtur að þremur aðgreindum tilvikum.

i.

Í fyrsta lagi er kvartað undan háttsemi varnaraðila í garð dómara í máli […] í kjölfar dómsuppsögu í málinu. Dómur var kveðinn upp þann […]. Með dóminum var skjólstæðingur varnaraðila dæmdur í […] ára fangelsi og til greiðslu 2/3 hluta málsvarnarlauna varnar­aðila, sem ákveðin voru […] kr. og aksturskostnaðar, […] kr., auk skaðabóta og annars sakar­kostnaðar.

Skömmu eftir dómsuppsögu sendi varnaraðili eftirfarandi tölvupóst til dómara málsins:

„Ágæti dómari,

Það er margt sem ég skil ekki fyllilega í ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun. Ég geri mér grein fyrir því að þessu verður ekki breytt úr þessu af þér, en allt að einu átta ég mig að sama skapi á þeim mistökum að hafa ekki látið bóka um það, að gerð væri sérstök krafa um að dæmd málsvarnarlaun tækju mið af framlögðu tímayfirliti eða væri ella rökstudd ítarlega. Hefði talið eðlilegt að dómurinn sýndi verjendum og tíma þeirra þá kurteisi, að athuga hvort ekki stæði til að skila inn nákvæmri tímaskýrslu, teldu þeir tilefni til.

Af þeim tíma sem varið var í málið, fæ ég 43,7% þeirra greidda. Restin er þá væntanlega hugsuð sem einhvers konar þegnskylduvinna fyrir ríkið?

Nú er það svo, að ég rek litla lögmannsstofu sem er vinnustaður sex einstaklinga. Þau má sjá á heimasíðunni […]. Af þessu tilefni þarf ég að ákveða hvert þeirra ég á að reka fyrir jólin.

Áttu kost á því að benda mér á þann starfsmann, sem best er til þess fallinn?

Virðingarfyllst,

Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að skeytasending af þessu tagi til dómara eftir uppsögu dóms, sé fáheyrð og engin önnur dæmi um slíka framkomu af hálfu lögmanns frá seinni tímum í það minnsta. Hljóti að koma til skoðunar hvort þessi sending sé í andstöðu við góða lögmanns­hætti og almenna kurteisi, sem og hvort hún feli í sér brot á siðareglum lögmanna. Er í því sambandi bent á 2. og 19. gr. siðareglna lögmanna.

Auk þess ætti varnaraðila að vera ljóst að öll samskipti við dómara, svo ekki sé talað um kýtur af ofangreindu tagi, eftir að dómur er kveðinn upp, séu með öllu þýðingarlaus enda sé úrlausn dóms bindandi fyrir dómara og hafi af hans hálfu verið rökstudd til hlítar í dómsforsendum.

ii.

Í öðru lagi lýtur kvörtunin að háttsemi lögmannsins í tengslum við úrlausn um kröfu lögreglunnar um gæsluvarðhald yfir skjólstæðingi hans í kjölfar dómsins. Laugardaginn 25. nóvember 2023 hafi varnaraðili verið boðaður til þinghalds í máli […], sem átti að fara fram á mánudegi vegna kröfu um að skjólstæðingur hans sætti áfram gæsluvarðhaldi á meðan á áfrýjunarfresti stæði og eftir atvikum á meðan málið væri til meðferðar hjá æðri dómi, en þó ekki lengur en til nánar greinds dags.

Síðar sama dag hafi varnaraðili sent dómstjóra [, sem jafnframt var vakthafandi dómari umræddan dag, eftirfarandi skeyti:

Ágæti dómari,

Í ljósi þess að dómarinn í […] taldi sér vera stætt á því að greiða aðeins 43% þeirra tíma sem lagt var í málið, þarf að liggja fyrir fyrir fyrirtökuna, að dómurinn telur störf verjanda í þessum hluta málsins ekki vera ólaunaða þegnskylduvinnu, eins og í […] (sem líklega er brot þess ágæta dómara á c-lið, 3. mgr. 6. gr. MSE, en það plagg er sjálfsagt bara eitthvað upp á punt.)

En þar sem málinu er lokið í héraði og óvíst með framhaldið, þarf úrskurða þarf um málskostnað.

Er hægt að upplýsa um það fyrir þinghaldið, hvort það standi til að úrskurða um málskostnað, verði gerð krafa um það?

Sé um launuð störf verjanda að ræða skal þess getið að ég er í skýrslutöku a þessum sama tíma. Ef það mælist ekki illa fyrir þa myndi […] lögm. mæta fyrir mig. Dómfelldi myndi ekki mæta og í málinu liggur fyrir umboð þess efnis, sem heimilar okkur að mæta og mótmæla ekki kröfunni.

Kv. […]

Dómari hafi litið svo á, með vísan til skeytisins, að varnaraðili hefði umboð skjólstæðings síns til að sinna áfram verjendastörfum fyrir hann og jafnframt að hann myndi senda annan lögmann í sinn stað til þinghaldsins þar sem kröfu ákæruvaldsins yrði ekki mótmælt. Af ástæðum sem öllum ættu að vera augljósar hafi skeytinu hins vegar ekki verið svarað utan réttar. Efni þess hafi enda falið í sér aðdróttanir á hendur tilteknum dómara, en dylgjað hafi verið að því að hann hafi af skeytingarleysi brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu. Þá hafi vakthafandi dómari verið krafinn skriflegra svara fyrir fram um mögulega niðurstöðu úrskurðar, hvað varðar þóknun til handa lögmanninum. Að auki hafi verið um einhvers konar málflutning að ræða varðandi þann hluta í dómsniðurstöðu sakamálsins sem laut að þóknun til varnaraðila, sem vitaskuld væri ekki til umfjöllunar í gæsluvarðhaldsmáli skjólstæðings hans.

Hvorki varnaraðili sjálfur né annar í hans stað hafi mætt á boðuðum tíma í framangreint þinghald og engin tilkynning um forföll borist dóminum. Þinghaldið hafi því hafist á viðbrögðum við fjarveru varnaraðila. Gerðar hafi verið ráðstafanir til að fá skjólstæðing hans sjálfan fyrir dóm í gegnum fjarfundarbúnað, kanna hvort hann óskaði eftir verjanda, kalla til lögmann sem gæti sinnt því hlutverki og fresta þinghaldi á meðan hann ræddi við nýjan verjanda. Rúmlega 50 mínútum eftir upphaf þinghaldsins hafi varnaraðili komið í dyragætt dómsalarins og krafið dómara enn um svör við því hvernig færi um þóknun hans í væntanlegum úrskurði dómsins.

Hafi varnaraðili verðinn beðinn um að ákveða hvort hann mætti til þinghaldsins eða ekki og beðinn um að fá sér sæti og hafa sig ekki frekar í frammi fyrr en tilefni gæfist til, kysi hann að mæta. Varnaraðili hafi látið af frekari truflunum á þinghaldi og verið skipaður verjandi að ósk skjólstæðings hans, sem þá hafi þegar verið mættur fyrir dóm í gegnum fjarfundarbúnað en vikið úr þinghaldinu þegar varnaraðili mætti til þess.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að framangreind háttsemi varnaraðila feli í sér óvirðingu og tillitsleysi gagnvart dómstólnum og dómara málsins, truflun og tafir á starfsemi dómstólsins, auk þess sem erfitt sé að sjá að framkoma hans hafi samrýmst því hlutverki varnaraðila að setja eigin hagsmuni til hliðar og gæta hagsmuna skjólstæðings síns í hvívetna. Hljóti að koma til skoðunar hvort háttsemi varnaraðila fari í bága við starfsskyldur hans og sé andstæð 2., 19. og 22. gr. siðareglna lögmanna.

iii.

Í þriðja lagi snýr kvörtunin að eftirfarandi tölvupósti sem varnaraðili sendi þann 23. nóvember 2023 á 26 aðra lögmenn, sem einnig gegndu verjendastörfum í máli […] með fyrirsögninni: „Hýrudráttur í […]“:

Ágætu kollegar,

Ég er líklega ekki einn um að finnast við hafa verið hýrudregnir af […] í gær. Langar því að kanna hvort að menn – og kona! – séu til í að skrifa sameiginlegt bréf til dómstjóra í […], með afriti á dómstólasýsluna, dómarafélagið og LMFÍ, þar sem ákvörðuninni er harðlega mótmælt og því lýst yfir að undirritaðir lögmenn muni framvegis ekki flytja sakamál hjá […]?

Er þetta eitthvað sem þið væruð til í að skoða?

Í kjölfarið væri gott að ráða ráðum sínum með framhaldið.

Bestu,

[…]

Eftir því sem næst verði komist hafi aðrir lögmenn ekki tekið undir ofangreinda tillögu varnaraðila um aðgerðir gegn dómara málsins. Ekki verði dregin önnur ályktun af tölvu­póstinum og öðrum skeytum varnaraðila sem kvörtun þessi lýtur að, en að illsakir hans í garð dómarans helgist af því að honum hafi mislíkað sú niðurstaða áðurnefnds dóms sem laut að þóknun til hans sjálfs.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að sá samblástur sem varnaraðili hafi leitast við að efna til og fá kollega sína til að taka þátt í, feli í sér alvarlega atlögu gegn tilteknum dómara og vegi í raun að grunnstoðum dómskerfisins. Háttsemi varnaraðila verði vart skilið öðruvísi en svo að hann hafi ásetning til að hindra eðlilega starfsemi dómstólsins, rægja viðkomandi dómara og gera tilraun til að koma honum frá störfum eða fresta þess, með eins konar útilokun, að þvinga það fram til framtíðar að dómarar hagi dómsniðurstöðum þannig að varnaraðila líki en hafi ella verra af. Gagnvart viðkomandi dómara virðist varnaraðili reyna að koma því til leiðar að dómaranum verði ókleift að sinna starfsskyldum sínum í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess að hafa áhrif á þá grunnreglu að aðila sé ekki tækt að hindra störf dómara með því að troða illsakir við hann, þannig að dómari teljist vanhæfur í málum þar sem hann sjálfur sinnir störfum verjanda eða eftir atvikum er sakborningur eða aðili máls.

Ekki þurfi að hafa mörg orð um það hve mjög háttsemi af þessu tagi sé til þess fallin að trufla og veikja starfsemi dómskerfisins. Hljóti að koma til skoðunar hvort hún stríði gegn áðurnefndum ákvæðum siðareglna lögmanna, starfsskyldum lögmanna skv. 18. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og tilvitnaðri grunnreglu stjórnarskrárinnar. Svo sem kunnugt sé séu lögmenn opinberir sýslunar­­menn, sbr. 3. mgr. 1. gr. lögmannalaga, og beri sem slíkir sérstakar skyldur til að standa vörð um réttarkerfið í heild sinni. Gera verði sérstakar og ríkar kröfur til lögmanna um að þeir sinni störfum sínum af heiðarleika og heilindum og gæti að því að framganga þeirra í sérhverju máli hefur ekki einungis þá þýðingu að standa vörð um hagsmuni umbjóðenda þeirra, eða eftir atvikum þeirra sjálfra, að því marki sem það á við, heldur lögmannastéttarinnar allrar og í raun réttarkerfisins í heild.

i.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði vísað frá en til vara að úrskurðað verði að varnaraðili hafi ekki gert á hlut sóknaraðila í málinu, með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í samræmi við framlagða tíma­skýrslu. Varnaraðili mótmælir málavöxtum eins og þeim er lýst í kvörtun sóknaraðila að því leyti sem hún samrýmist ekki málavaxtalýsingu varnaraðila.

Aðalkröfu sína um frávísun málsins frá nefndinni byggir varnaraðili á því að [A]  geti ekki átt aðild til sóknar í málinu, með þeim hætti sem það sé lagt fyrir nefndina. Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar, sem og ákvæði 27. gr. lögmannalaga, sé gerð sú krafa að sá sem beri fram kvörtun vegna háttsemi lögmanns, hafi lögvarða hagsmuni af niðurstöðu stjórnsýslumálsins. Varnaraðili vísar til tölvupóstsamskipta sinna við dómstjóra [A] þar sem hann telur að fram hafi komið að dómstjórinn telji sig enga hagsmuni hafa af málinu. Varnaraðili vísar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 30/2019 til hliðsjónar.

Enn fremur vísar varnaraðili til þess að í ákvæði 31. gr. laga nr. 50/2016, sem fjallar um hlutverk dómstjóra við héraðsdómstól, sé ekki að finna umfjöllun þess efnis að dómstjóra sé falið að koma fram út á við í einstökum stjórnsýslumálum. Þvert á móti sé þeim verkefnum komið fyrir hjá dómstólasýslunni, sem falið sé að annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna eins og greini í 5. gr. sömu laga.

Að mati varnaraðila er ekki hægt að horfa fram hjá skýru orðalagi Hæstaréttar í fyrrnefndum dómi um mat á því hver sé bær til þess að koma að kvörtun hjá úrskurðarnefnd lögmanna. Ljóst sé að [A] og dómstjóri dómstólsins, hafi engar þær heimildir að lögum til þess að kvarta til úrskurðarnefndar lögmanna, vegna háttsemi varnaraðila gagnvart tilteknum einstaklingum, sem hjá dómstólnum starfi.

Varnaraðili vísar til orðalags ákvæðis 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Hann telur að lögpersóna, eins og sóknaraðili, geti ekki „talið“ að varnaraðili hafi gert nokkuð „á sinn hlut“, enda hafi þau samskipti sem kvartað er undan í fyrsta og öðrum lið kvörtunarinnar, ekki beinst að dómstólnum sem slíkum heldur einstökum dómurum. Einstakir dómarar geti vissulega talið að varnaraðili hafi gert á sinn hlut og borið fram kvörtun vegna þess í eigin nafni. Kvörtun þessi sé hins vegar sett fram í nafni dómstólsins sem leiði til þess að hún sé ótæk til efnislegrar úrlausnar hjá nefndinni og vísa beri henni frá. Jafnframt eigi orðið „einhver“ við ótiltekinn einstakling en ekki lögaðila og því geti sóknaraðili ekki átt aðild að máli fyrir úrskurðarnefndinni.

Jafnframt vísar varnaraðili til þess að sá dómari sem samskipti í fyrsta lið kvörtunarinnar beindust að, hafi sérstaklega getið þess í úrskurði sínum í máli nr.  […] , að hún hefði ekki komið að samningu kvörtunarinnar að neinu leyti og ætti ekki aðild að máli þessu fyrir nefndinni. Varnaraðili bendir á að dómarar séu sjálfstæðir í störfum sínum og lúti ekki boðvaldi annarra.

Ljóst sé að tölvupóstur sem varð tilefni að þriðja lið kvörtunarinnar hafi ekki verið sendur [A]  eða nokkrum starfsmanni þeirrar stofnunar. Vangaveltur varnaraðila þar hafi verið settar fram í spurningarformi og pósturinn feli ekki í sér neina ákvörðun um aðgerðir af nokkru tagi. Varnaraðili vísar til 65. og 73. gr. stjórnarskrárinnar og sambærilegra ákvæða í mannréttindasáttmála Evrópu sem lögmenn séu jafnt og aðrir varðir af.

Varnaraðili bendir á að dómstjóri [A] sé jafnsettur öðrum dómurum við dómstólinn og telur það eitt að dómstjórinn hafi litið á samskipti varnaraðila við annan dómara eða lögmenn sem eitthvað sem hlyti að koma til skoðunar, ekki duga til þess að úrskurðarnefndin geti látið erindið til sín taka.

Varnaraðili byggir á því að málið hafi ekki stofnast með réttum hætti þar sem málagjald hafi ekki verið greitt samtímis því að kvörtun var beint til nefndarinnar. Beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Fallist nefndin ekki á að vísa málinu frá í heild sinni krefst varnaraðili þess að einstökum liðum kvörtunarinnar verði vísað frá með vísan til framangreinds.

ii.

Hvað fyrsta lið kvörtunarinnar varðar bendir varnaraðili á að ákvörðun dómara í máli […] um málsvarnarlaun hafi verið mjög umdeild og fjölmargir lögmenn kvartað undan henni til Lögmanna­félags Íslands. Varnaraðila hafi verið ákvörðuð málsvarnarlaun að fjárhæð […] kr. sem hafi verið 43,7% af kröfu hans þess efnis. Sama hafi verið uppi á teningnum hjá öðrum lögmönnum sem störfuðu að málinu. Óánægja lögmanna hafi orðið til þess að Lögmannafélagið hafi ákveðið að afla frekari gagna í málinu svo greina mætti ákvarðaðar þóknanir og mögulega í framhaldinu krefjast upplýsinga frá lögreglu, ríkissaksóknara og [A] um hversu marga tíma embættin hefðu skráð á þetta einstaka mál.

Þrátt fyrir þetta fellst varnaraðili á að umræddur tölvupóstur hafi verið óheppilegur og sér lítill sómi af sendingu hans til dómarans. Varnaraðili kveðst hafa óskað ítrekað eftir fundi með dómstjóra í kjölfar þess að kvörtun var beint til nefndarinnar í þeim tilgangi að ræða málið og biðjast afsökunar en þeim beiðnum hafi verið hafnað.

Þó varnaraðili fallist á að umræddur tölvupóstur hafi ekki verið honum til framdráttar telur hann engu að síður að tölvupósturinn hafi ekki falið í sér brot gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Varnaraðili hafi fundið að ákvörðun dómarans um málsvarnarlaun með afar beinskeyttum hætti og á kjarnyrtri íslensku. Þrátt fyrir að hann hefði mátt vanda orðaval sitt betur telur varnaraðili efni póstsins ekki hafa verið í ósamræmi við 2. og 19. gr. siðareglna lögmanna eins og haldið sé fram af hálfu sóknaraðila. Að mati varnaraðila felur það að hýrudraga lögmenn sem taka að sér saka­mál, bæði ítrekað og markvisst, í sér alvarlega aðför að rétti sakborninga til réttlátrar máls­með­ferðar sem varinn sé með 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og c-lið 3. mgr. 6. gr. mann­réttinda­­­sáttmála Evrópu. Ekki þurfi að spyrja að leikslokum hvernig fari fyrir réttindum sakaðra manna ef lögmenn fái ekki greitt fyrir störf sín við sakamál. Að endingu myndi það leiða til þess að færri gætu ráðist til þeirra verkefna, einhverjir kynnu að verja ekki þeim tíma í málin sem þau sannan­lega þyrftu, sem að endingu kynni að leiða til þess að það fjaraði undan réttarríkinu.

Dómarar verði að þola það að störf þeirra séu gagnrýnd og að hagsmunaaðilar kunni að bregðast illa við þegar úrlausnir dómara hafi bein áhrif á afkomu þeirra og lífskjör. Þrátt fyrir að halda megi því fram að réttur farvegur fyrir gagnrýni lögmanna á úrlausnir dómara sé áfrýjun til æðri dómstóls, en ekki skeytasendingar af því tagi sem kvörtun lýtur að, sé staðan sú að niðurstaða í sakamáli sé stundum með þeim hætti að, þrátt fyrir að málsvarnarlaun verjanda séu fráleit þegar horft sé til vinnuframlags hans, sé óverjandi fyrir lögmanninn að mæla með því við sakborning að dóminum sé áfrýjað til æðri réttar.

Varnaraðili vísar jafnframt til meginreglna um tjáningu um og gagnrýni á opinberar persónur en dómarar teljist opinberar persónur, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 103/2014. Af því leiði að mörk heimilaðar gagnrýni á þeirra störf sé rýmri en ella, auk þess sem ljóst sé, stöðu varnaraðila vegna, að honum beri víðtækari vernd en ella, þegar störf dómara eru gagnrýnd. Að sama skapi þurfi dómarar, stöðu sinnar vegna, að þola harkalegri gagnrýni á störf sín en alla jafna eigi við um aðrar starfsstéttir.

iii.

Hvað annan lið kvörtunar áhrærir bendir varnaraðili á að þegar umrædd boðun í þinghald í máli […] hafi borist, hafi hann engu hlutverki gengt að lögum gagnvart fyrrum skjólstæðingi sínum. Hann hafi sent umræddan tölvupóst til vakthafandi dómara í þeim tilgangi að upplýsa um að ekki væri áhugi fyrir því að taka að sér starfann, ef hugmyndin væri sú að greiða ekki nema 43,7% af tímagjaldi því sem dómstólasýslan ákvarði fyrir verjendastörf. Engin svör hafi borist við erindinu þótt fullt tilefni hafi verið til, þó ekki hefði verið til annars en að svara því hvort gerðar væru athugasemdir við að annar lögmaður mætti til þinghaldsins í stað varnaraðila.

Að mati varnaraðila fólst einnig í erindinu að boðuð væru forföll og er staðhæfingum af hálfu sóknar­aðila um annað, mótmælt. Þá mótmælir varnaraðili því að hann hafi, við mætingu í þing­haldið, krafið dómara um svör við því hvernig færi um þóknun hans í væntanlegum úrskurði dómsins og með einhverjum hætti staðið fyrir truflunum á þinghaldinu. Þá telur verjandi dómara hafa fært ósannindi inn í þingbók málsins þess efnis að um hafi verið að ræða skýringarlaus forföll skipaðs verjanda og að skipaður verjandi hafi verið löglega boðaður til þinghaldsins. Varnaraðili bendir á að hann hafi ekki verið skipaður verjandi í málinu fyrr en í þinghaldinu en fyrri störfum fyrir sama skjólstæðing hafi lokið með dómi í máli […], sem kveðinn hafi verið upp fimm dögum áður en umrætt þinghald fór fram. Af því tilefni hafi varnaraðili látið bóka mótmæli við bókun dómarans og vísar til þingbókar sem liggur fyrir í málinu.

Varnaraðili hafnar því alfarið að hafa með nokkrum hætti brotið gegn ákvæðum laga eða reglna hvað varðar umrædd atvik og telur umfjöllun um þau í kvörtun vera ranga og villandi. Þvert á móti hafi dómari málsins farið freklega á svið við vönduð dómarastörf og hafi varnaraðili af því tilefni sent kvörtun til nefndar um dómarastörf.

iv.

Varnaraðili bendir á að tölvupóstur sem þriðji liður kvörtunar lýtur að hafi verið sendur til afmarkaðs hóps lögmanna en eins og pósturinn beri með sér hafi honum ekki verið ætlað að koma fyrir augu [A]. Þar hafi varnaraðili velt upp hvaða möguleikar kynnu að vera í stöðunni, í kjölfar þess að hann og kollegar hans, hafi verið hýrudregnir í máli […]. Ljóst sé af samskiptunum að um trúnaðarmál hafi verið að ræða og vangaveltur eins lögmanns til annarra lögmanna sem hafi verið í sambærilegri stöðu. Pósturinn hafi ekki á nokkurn hátt verið hugsaður sem erindi sem beina skyldi til dómstólsins eða þess dómara sem um var rætt. Þrátt fyrir það virðist einhver hafa áframsent póstinn til varadómstjóra [A] sem hafi áframsent hann til dómstjóra dómstólsins.

Varnaraðili segir hvorki varadómstjóra né dómstjóra [A] hafa upplýst sig um að þeim hafi borist pósturinn, sem þeir hafi síðan dreift og nýtt sér sem efni í kvörtun þessa, sem sé í andstöðu við 4. mgr. 88. gr. laga nr. 70/2022 um fjarskipti. Hefur hann beint kvörtun vegna þessa til nefndar um dómarastörf.

Varnaraðili áréttar að hann sé frjáls skoðana sinna og heimilt að færa þær í skrifað mál og hafnar því að vangaveltur hans sem þarna hafi verið settar fram geti talist fela í sér alvarlega atlögu gegn tilteknum dómara eða að vegið hafi verið að grunnstoðum dómskerfisins, eins og haldið sé fram af hálfu sóknaraðila. Um sé að ræða einkasamskipti varnaraðila við aðra lögmenn sem sóknaraðili hafi komist yfir með ólögmætum hætti. Kvörtun sem byggir á slíku feli í sér alvarlega atlögu að hugsana- og tjáningarfrelsi varnaraðila.

Auk þess telur varnaraðili að pósturinn innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar eða persónu­upplýsingar í skilningi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þar komi fram persónulegar upplýsingar um kjör varnaraðila sem lögmanns sem séu í eðli sínu efnalegar upplýsingar auk þess sem efni tölvupóstsins kunni að gefa til kynna stjórnmálaskoðanir hans. Þá er að mati varnaraðila ljóst að afstaða hans til ákvarðana einstakra dómara hljóti að teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga á jafn smáum markaði fyrir fáa starfandi lögmenn og Ísland sé. Í öllu falli hafi dómstjóri og varadómstjóri dómstólsins notfært sér með ólögmætum hætti innihald tölvu­póstsins, sem þeim hafi verið sendur fyrir tilviljun, mistök eða án þess að þau hefðu sérstaka heimild til þess að móttaka hann. Telur varnaraðili að með þessu hafi verið gróflega brotið á persónuréttindum sínum í þeim tilgangi að reyna að tryggja að varnaraðili myndi framvegis hugsa sig tvisvar um áður en honum dytti í hug að tjá hug sinn til starfa dómstólsins og þeirra sem starfa þar. Varnaraðili hefur af þessu tilefni kært dómstjóra og varadómstjóra dómstólsins til Fjarskiptastofu og Persónuverndar.

Varnaraðili áréttar að hugleiðingar hans til lokaðs hóps kollega sinna geti aldrei nokkurn tímann orðið grundvöllum þess að beita skuli hann agaviðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um lög­menn, siðareglna lögmanna eða nokkrum öðrum lögum eða reglum sem um störf lögmanna gilda.

Loks krefst varnaraðili málskostnaðar í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.

III.

Í viðbótargreinargerð kemur fram af hálfu sóknaraðila að dómstjóri geti í nafni embættis síns beint kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna ef hann telur lögmann hafa brotið gegn starfsskyldum sínum við málarekstur við dómstólinn. Það felist í almennu hlutverki dómstjóra, sem stýri dómstólnum, beri ábyrgð á starfsemi hans og komi fram út á við í þágu dómstólsins, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Samkvæmt nefndu ákvæði fylgist dómstjóri með störfum dómara og gætir að aga gagnvart þeim að því leyti sem það kemur ekki í hlut annarra aðila. Með sama hætti sé óhætt að álykta að dómstjóri gæti aga gagnvart lögmönnum þegar tilefni sé til, enda ekki öðrum aðilum til að dreifa sem geti haft það hlutverk með höndum í tilvikum eins og þeim sem kvörtunin lúti að. Af þessum ástæðum sé ekki tilefni til að vísa kvörtuninni frá nefndinni. Jafnframt er bent á að eitt þeirra atvika sem kvörtun lýtur að snúi að háttsemi varnaraðila í máli sem dómstjóri var dómari í.

Hvað varðar annan lið kvörtunarinnar sé óumdeilt að varnaraðili hafi sent umræddan tölvupóst, krafist svara um það fyrir fram hvort honum yrði úrskurðuð þóknun, setti hann fram kröfu þess efnis. Þá ætti ekki að vera umdeilt að varnaraðili mætti ekki þegar boðað þinghald hófst kl. 11:30 þann 27. nóvember sl. heldur kl. 12:20. Það sé nefndarinnar að meta hvort lýst háttsemi sam­ræmist starfsskyldum varnaraðila. Með hliðsjón af efni skeytisins hafi dómstjóri, sem jafnframt var dómari í málinu, ekki talið viðeigandi að svara því, en hafi litið svo á, að svo miklu leyti sem unnt hafi verið að skilja efni þess, að annar nafngreindur lögmaður myndi mæta í stað varnaraðila við fyrirtöku málsins. Af hálfu sóknaraðila er vakin athygli á því að krafa varnaraðila um að þóknun yrði ákveðin í þessari fyrirtöku eigi sér ekki lagastoð og hafi verið hafnað bæði í héraði og í Lands­rétti á grundvelli 1. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 237. gr. sömu laga.

Af hálfu sóknaraðila er tekið fram að fyrir liggi frumálit Fjarskiptastofu vegna kæru varnaraðila á hendur dómstjóra og varadómstjóra [A]. Þar sé niðurstaðan sú að varnar­aðili eigi ekki aðild að kvörtun af þessu tagi. Er vísað til þess að ákvæði 4. mgr. 88. gr. fjarskiptalaga nr. 70/2022, eigi við um tilvik þar sem einn aðili sendir öðrum aðila tölvupóst fyrir mistök. Sá sem geri slík mistök geti kvartað undan því þegar móttakandi bregst ekki við í samræmi við lagaskyldu. Í því máli sem hér er til umfjöllunar hafi það ekki verið varnaraðili sem sendi tölvupóst á dóm­stólinn fyrir mistök og reyndar hafi tölvupósturinn ekki verið sendur fyrir mistök heldur með vilja sendandans. Þá er tekið fram að dómstjóra sé ekki kunnugt um tilvist og afdrif annarra kvartana varnaraðila vegna starfa dómstjóra eða varadómstjóra, umfram það sem komi fram í greinargerð varnaraðila til nefndarinnar og fylgiskjölum.

Kröfu varnaraðila um málskostnað er mótmælt.

IV.

Í viðbótargreinargerð sinni mótmælti varnaraðili því að dómstjóri gæti, m.v.t. 4. mgr. 31. gr. laga um dómstóla, kvartað undan lögmönnum í nafni embættis síns. Útilokað sé að fallast á sjónarmið sóknar­aðila þess efnis að með lögjöfnun frá nefndu ákvæði megi álykta svo að dómstjóri gæti aga gagn­­vart lögmönnum þegar tilefni sé til. Dómstjórum sé ekki falið það hlutverk sérstaklega að lögum.

Varnaraðili ítrekar það sem fram kom í greinargerð varðandi þinghald í máli […] og þau ósannindi sem hann kveður hafa verið færð til bókar í þingbók málsins af dómstjóranum. Varnar­aðili vísar til úrskurðar Landsréttar í máli […] sem hann leggur fram til hliðsjónar.

Varnaraðili leggur fram og vísar til athugasemda sinna til Fjarskiptastofu vegna frumálits stofnuna­r­innar í kvörtunarmálum hans til stofnunarinnar og áréttar að endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir í málunum.

Varnaraðili ítrekar gerðar kröfur.

Niðurstaða

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á slíkri kvörtun getur nefndin fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rök­studdu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga um lögmenn eru lögmenn opinberir sýslunarmenn og njóta réttinda og bera skyldur samkvæmt því.

Samkvæmt 18. gr. laga um lögmenn ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna.

Í 2. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmaður skuli gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður sýna dómstólum fulla tillitssemi og virðingu í ræðu, riti og framkomu. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal lögmaður eftir sem áður gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra.

Í 22. gr. siðareglna lögmanna segir að lögmaður skuli kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu.

II.

Varnaraðili fer fram á frávísun málsins frá nefndinni í heild eða að hluta. Krafan byggir á því að sóknaraðili geti ekki talist eiga lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins. Þá falli það utan starfssviðs dómstjóra að beina erindi sem þessu til nefndarinnar f.h. dómstólsins og dómstjóri geti ekki beint kvörtun til nefndar­innar vegna háttsemi lögmanns gagnvart öðrum dómara við sama dómstól. Enn fremur sé ekki fyrir hendi skýr lagaheimild til handa dómstólnum eða dóm­stjóra að beina kvörtun til nefndarinnar vegna háttsemi lögmanns gagnvart einstökum dómurum við dómstólinn. Varnaraðili heldur því enn fremur fram að orðalag ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn komi í veg fyrir að lögaðili geti átt aðild að máli fyrir nefndinni. Loks er byggt á því að sú hátt­semi sem kvartað sé yfir í þriðja lið kvörtunarinnar hafi ekki beinst að dómstóln­um eða dómurum við hann. Þá byggir varnaraðili á því að málið hafi ekki stofnast með réttum hætti þar sem málagjald hafi ekki verið greitt samtímis því að kvörtuninni var beint til nefndarinnar.

[A] er persóna að lögum og getur sem slík átt réttindi og borið skyldur. Ljóst er að samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar geta lögaðilar átt aðild að stjórnsýslumálum. Í breytinga­­tillögu allsherjarnefndar Alþingis, sem tekin var upp í frumvarp sem varð að lögum nr. 77/1998 um lögmenn, segir um 27. gr. laganna að í frumvarpinu hafi upphaflega aðeins verið gert ráð fyrir að umbjóðandi lögmanns hefði kvörtunarrétt til úrskurðarnefndar lögmanna. Eðlilegt þætti að víkka heimildina út, þannig að um greiða kæruleið væri að ræða. Því væri lagt til að ef einhver telji að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum, geti hann lagt kvörtun fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og sé það í samræmi við gildandi rétt. Að mati úrskurðarnefndar er engum vafa undirorpið að hver sá sem telur lögmann hafa gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, geti beint kvörtun vegna þeirrar háttsemi til nefndarinnar. Á þetta jafnt við einstaklinga og lögaðila. Ekki er fallist á með varnaraðila að orðalag ákvæðisins leiði til þess að einungis einstaklingar geti verið sóknar­aðilar að málum fyrir nefndinni. Þá er ekki gerð krafa um að sérstök lagaskylda til þess að beina erindi til nefndarinnar sé fyrir hendi. Ekki er fallist á með varnaraðila að dómur Hæstaréttar í máli nr. 30/2019, leiði til þess að þess verði krafist í tilfelli sóknaraðila máls þessa.

Samkvæmt 4. mgr. 31. gr. laga um dómstóla nr. 50/2016 kemur dómstjóri fram út á við í þágu dómstólsins og er í fyrirsvari um sérstök málefni hans. Samkvæmt lögskýringargögnum eru störf dómstjóra ekki tæmandi talin í ákvæðinu. Að mati nefndarinnar fellur það, að vera í fyrirsvari fyrir dómstólinn, í máli sem rekið er fyrir nefndinni, innan starfssviðs dómstjóra eins og það er afmarkað í lögum.

Um frávísunarkröfu varnaraðila er til þess að líta að kvörtun í málinu lýtur að ætluðum brotum hans gegn 2., 19. og 22. gr. siðareglna lögmanna. Fyrstnefndu greinina er að finna í I. kafla regln­anna sem fjallar um góða lögmannshætti almennt. Tvær síðarnefndu greinarnar, 19. og 22. gr., er að finna í III. kafla reglnanna sem fjalla um samskipti lögmanna og dómstóla. Ljóst er að meðal þeirra hagsmuna sem eru verndar­andlag ákvæða þess kafla eru hagsmunir réttarkerfisins sem slíks, og þar með dómstólanna sjálfra. Að mati nefnda­rinnar hafa dómstólar, þ.m.t. sóknar­aðili máls þessa, beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni af því að lögmenn fylgi þeim reglum sem um störf þeirra gilda.

Samkvæmt framansögðu fellur umkvörtunarefni sóknaraðila, sem dómstóls, á hendur varnar­aðila, sem lögmanni, undir valdsvið nefndarinnar eins og það er afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, siðareglum lögmanna og reglum um meðferð mála fyrir nefndinni. Álitaefni um hvort varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna, er atriði sem taka verður afstöðu til við efnisúrlausn málsins, en getur ekki varðað frávísun málsins frá nefndinni.

Fyrir liggur að málagjald til nefndarinnar hefur verið greitt. Kröfum varnaraðila um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað og verður það tekið til efnis­úrlausnar.

III.

i.

Fyrsti liður kvörtunar lýtur að þeirri háttsemi varnaraðila að senda dómara við [A] tölvupóst þann 22. nóvember 2023, með því efni sem þar kom fram, eins og nánar greinir í málsatvikalýsingu. Að mati nefndarinnar er ekki við hæfi að lögmaður sendi dómara þýðingar­lausan póst af þessu tagi, eftir dómsuppsögu í máli, þar sem full tillitssemi og virðing er ekki viðhöfð. Að áliti nefndar­innar felur fyrrgreind háttsemi varnaraðila í sér að hann hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á 1. mgr. 19. siðareglna lögmanna og er háttsemin aðfinnsluverð.

ii.

Annar liður kvörtunar lýtur annars vegar að þeirri háttsemi varnaraðila að senda dómara við [A] tölvupóst, þann 25. nóvember 2023, með því efni sem þar kemur fram, eins og nánar greinir í málsatvikalýsingu. Að mati nefndarinnar er tölvupóstur af þessu tagi til dómara, þar sem farið er fram á að niðurstaða í óuppkveðnum úrskurði verði kunngerð honum fyrir fram, auk þess sem annar dómari er brigsl­aður um brot á mannréttindasáttmála Evrópu, ekki í samræmi við þá skyldu sem á varnaraðila hvílir um að sýna dómstólum fulla tillitssemi og virðingu í ræðu, riti og framkomu, sbr. 1. mgr. 19. gr. siðareglna lögmanna.

Hins vegar lítur annar liður kvörtunar að þeirri háttsemi varnaraðila að mæta ekki á boðuðum tíma til þinghalds þann 27. nóvember 2023 og boða ekki forföll, eins og nánar greinir í máls­atvika­lýsingu. Í áðurnefndum tölvupósti frá 25. nóvember s.á. upplýsti varnaraðili dóminn um að skjól­stæðingur hans hefði veitt honum umboð til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu. Sam­kvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 er lögmanni skylt að taka við skipun eða til­nefn­ingu sem verjandi eða réttargæslumaður í sakamáli, enda fullnægi hann til þess hæfisskil­yrðum og hafi ekki ósamrýmanlegra hagsmuna að gæta vegna sjálfs sín, vensla­manna sinna eða annars umbjóðanda síns.

Boðað var til umrædds þinghalds með lögmætum hætti. Varnaraðili ber því við að hafa boðað forföll í áðurnefndum tölvupósti til dómara, 25. nóvember 2023. Í bókun sem varnaraðili lét gera í þingbók málsins kemur fram að dómara og ákæruvaldi hafi verið sendur tölvupóstur um „möguleg forföll“. Tölvupóstur sá sem varnaraðili vísar til, fól að áliti nefndarinnar ekki í sér að varnaraðili hafi boðað forföll í þinghaldinu og mátti dómari reikna með því, í ljósi alls framangreinds, að varnaraðili mætti til þinghaldsins á boðuðum tíma.

Sú háttsemi varnaraðila að mæta ekki á boðuðum tíma, til löglega boðaðs þinghalds, og boða ekki forföll, var að mati nefndarinnar til þess fallin að trufla og tefja störf dómsins og setja málið, sem varðaði mikla hags­muni, í uppnám. Fyrir liggur að varnaraðili mætti til þinghaldsins 50 mínútum eftir boðaðan tíma. Fólst í því óvirðing og hirðuleysi gagnvart þeim hagsmunum sem í húfi voru í málinu, tíma og störfum dómstólsins og saksóknara og um leið gegn réttarkerfinu, sem bar skylda til þess að gæta réttar þess sem krafa um gæsluvarðhald beindist gegn. Liggur fyrir í málinu að um­tals­verður tími hafi farið í ráðstafanir til þess að tryggja þann rétt, með því að fá aðila sjálfan fyrir dóm í gegnum fjarfundarbúnað og kalla til annan lögmann sem gæti tekið að sér hlutverk verjanda.

Háttsemi varnaraðila fól að mati nefndarinnar í sér brot á skyldu hans til þess að rækja af alúð þau störf sem honum var trúað fyrir, og neyta allra lögmætra úrræða til þess að gæta lögvarinna hags­muna skjólstæðings síns. Auk þess telur nefndin að í háttseminni hafi falist brot varnaraðila á skyldu hans til þess að gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hags­muna eða hagsmuna annarra. Enn fremur fólst í háttseminni brot á skyldu varnaraðila til þess að sýna dóm­stólnum tillitssemi og virðingu í ræðu, riti og framkomu og til þess að kappkosta að vanda mála­tilbúnað sinn fyrir dómstólnum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu. Þeir miklu hagsmunir sem í húfi voru í málinu auka að mati nefndarinnar á alvarleika brota varnaraðila gagnvart sóknaraðila.

Að áliti nefndarinnar hefur varnaraðili gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot gegn 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 og 1. og 2. mgr. 19. gr. og 22. gr. siðareglna lögmanna. Með fyrrgreindum brotum hefur varnaraðili sýnt af sér háttsemi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

iv.

Í þriðja lagi lýtur kvörtun að þeirri háttsemi varnaraðila að senda 26 lögmönnum tölvupóst þann 23. nóvember 2023, með því efni sem þar kom fram, eins og nánar greinir í málsatvikalýsingu.

Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 eru lögmenn opinberir sýslunarmenn og bera sem slíkir sérstakar skyldur til að standa vörð um réttarkerfið í heild sinni. Samkvæmt 18. gr. lögmanna­laga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Þá ber lög­mönn­um skylda til þess að efla rétt og hrinda órétti skv. 1. gr. siðareglna lögmanna og skulu þeir gæta heiðurs lögmanna­stéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum, skv. 2. gr. reglnanna. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að sýna dómstólum fulla tillitssemi og virðingu í ræði, riti og framkomu.

Nefndin telur efni tölvupóstsins fela í sér að varnaraðili hafi gert tilraun til þess að hindra eðlilega starfsemi dómstólsins og koma í veg fyrir að dómari sá sem um var rætt, gæti sinnt starfsskyldum sínum í samræmi við 1. málslið 1. mgr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, með því að beita útilokun á þann hátt sem varnaraðili orðar í tölvupóstinum. Að mati nefndarinnar ber að skoða efni tölvupóstsins í samhengi við tilefni þess að hann var sendur, en fyrir liggur að tilefnið var óánægja varnaraðila með ákvörðun umrædds dómara um málsvarnarlaun sér til handa. Að mati nefndarinnar gerði varnaraðili tilraun til þess að efna til samblásturs við aðra lögmenn, utan laga og réttar, um að grípa til þeirra aðgerða sem hann orðar í tölvupóstinum og láta þannig þann dómara, sem tók ákvörðunina í krafti embættis síns, og þar með dómstólinn og dóms­kerfið allt, gjalda fyrir óánægju varnaraðila með niðurstöðuna hvað málsvarnarlaun sín varðaði, með þeim aðgerðum sem þar var lýst. Nefndin telur háttsemi varnaraðila, að senda umræddan tölvupóst, með því efni sem þar kemur fram, fela í sér tilraun til þess að hafa áhrif á störf dómara við dómstólinn, gera alvar­lega atlögu að þeim dómara sem um var rætt auk þess að trufla og veikja starfsemi dóm­stólsins og þar með dómskerfisins. Vó varnaraðili með háttsemi sinni að grunnstoðum dóms­kerfisins.

Að áliti nefndarinnar hefur varnaraðili gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem felur í sér brot á skyldum sem á honum hvíla sem opinberum sýslunarmanni, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga um lögmenn auk brota á 18. gr. laga um lögmenn nr. 77/2998 og 1., 2. og 1. mgr. 19. gr. siðareglna lögmanna. Með fyrrgreindum brotum hefur varnar­aðili sýnt af sér hátt­semi sem telja verður ámælisverða. Verður því ekki hjá því komist að veita varnaraðila áminningu skv. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu varnaraðila, [B] lögmanns um frávísun málsins frá nefndinni er hafnað.

Sú háttsemi varnaraðila, [B] lögmanns, að senda dómara við [A] tölvupóst, þann 22. nóvember 2023, með því efni sem þar kemur fram og nánar er lýst í úrskurði þessum, er aðfinnslu­verð.

Varnaraðili, [B] lögmaður, sætir áminningu vegna þeirrar háttsemi að senda dómara við [A] tölvupóst, þann 25. nóvember 2023, með því efni sem þar kemur fram og nánar er lýst í úrskurði þessum, og þeirrar háttsemi að mæta ekki í löglega boðað þinghald í máli […] þann 27. nóvember 2023.

Varnaraðili, [B] lögmaður, sætir áminningu vegna þeirrar háttsemi að senda 26 lögmönnum tölvupóst, þann 23. nóvember 2023, með því efni sem þar kemur fram og nánar er lýst í úrskurði þessum.

Málskostnaður fellur niður.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson, formaður

Valborg Þ. Snævarr

Helga Melkorka Óttarsdóttir

Rétt endurrit staðfestir

Eva Hrönn Jónsdóttir