Mál 5 2022
Mál 5/2022
Ár 2022, fimmtudaginn 13. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna.
Fyrir var tekið mál nr. 5/2022:
A lögmaður
gegn
B lögmanni
og kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 4. febrúar 2022 erindi sóknaraðila, A lögmanns, þar sem kvartað er yfir því að varnaraðili, B lögmaður, hafi í störfum sínum brotið gegn 8., 25. og 27. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.
Varnaraðila var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfi dags. 8. febrúar 2022 og barst hún þann 16. næsta mánaðar. Var sóknaraðila send greinargerð hennar til athugasemda með bréfi dags. 17. mars 2022. Viðbótarathugasemdir sóknaraðila vegna málsins bárust til nefndarinnar þann 11. maí 2022 en viðbótarathugasemdir varnaraðila þann 20. júní 2022. Ekki kom til frekari athugasemda eða gagnaframlagningar af hálfu aðila og var málið því tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Málsatvik og málsástæður
Af málsgögnum og málatilbúnaði aðila verður ráðið að á árinu 2018 hafi sóknaraðili tekið að sér verjendastörf í þágu sakbornings vegna kæra sem 11 konur höfðu lagt fram á hendur honum vegna ætlaðra kynferðisbrota. Liggur jafnframt fyrir að varnaraðili var réttargæslumaður hluta þeirra kvenna, sem brotaþola, á rannsóknarstigi málsins.
Fyrir liggur að regluleg umfjöllun var um málið í fjölmiðlum frá upphafi rannsóknar þess en varnaraðili hefur lagt fyrir nefndina sérstakt yfirlit um það efni sem tekur til tímabilsins frá […] til [...]. Í frétt sem birtist hinn fyrstgreinda dag á vefmiðlinum visir.is, undir yfirskriftinni „Þykir alvarlegt að maðurinn sé enn að störfum“, var haft eftir sóknaraðila að hann vísaði ásökunum á bug fyrir hönd skjólstæðings síns og að um hópmálsókn gegn honum væri að ræða. Þá var eftirfarandi tekið orðrétt upp eftir sóknaraðila í fréttinni:
„Þessi fyrirhugaða hópmálsókn sem svo má kalla hana á rætur sínar að rekja til auglýsingar á fésbókarsíðu að undirlagi lögmanns þessara aðila þar sem konur voru hvattar til að segja frá óviðurkvæmilegri framkomu skjólstæðings míns. Þetta er að mínu viti dæmigerð tilraun til aftöku á Alþingi götunnar án dóms og laga. Og því miður er andrúmsloftið þannig þessa dagana að þrátt fyrir mögulega sýknun fyrir dómstólunum nær böðull umræðunnar að vinna verkin sín löngu áður en dómstólarnir úrskurða um sekt eða sýknu. Og maður spyr sig að því hvort þá sé tilganginum ef til vill náð.“
Í frétt sem birt var um málið á vefmiðli DV þann 27. október 2018, undir yfirskriftinni „Yfir 20 konur saka C um kynferðisbrot – Vinsæll hjá fræga fólkinu og neitar sök“, var meðal annars rætt bæði við sóknaraðila og varnaraðila sem verjanda og réttargæslumann á rannsóknarstigi málsins. Var þar meðal annars eftirfarandi tekið beint upp eftir sóknaraðila:
„Þetta er um margt sérstakt mál og auðvitað ber þar hæst að bakgrunnur þess virðist í raun auglýsing að undirlagi lögmanns kvennanna eftir hugsanlegum skjólstæðingum og um leið viðskiptavinum. Þar er sem sagt verið að safna liði til höfuðs einum tilteknum einstaklingi. Í öðru lagi eru engar staðfestingar komnar fyrir því að 17 konur hafi svarað auglýsingu lögmannsins enda þótt hann hafi kosið að upplýsa um þann fjölda í fjölmiðlum. Sjálfum er mér kunnugt um þrjár konur sem telja að á sér hafi verið brotið eða að minnsta kosti upplifað óþægt andrúmsloft og um leið tilfinningu í meðhöndluninni.“
Í fréttinni hafnaði varnaraðili því að hún væri að safna liði gegn skjólstæðingi sóknaraðila, kvað það fráleitt og að orð sóknaraðila dæmdu sig sjálf.
Fyrir liggur að sambærileg umfjöllun birtist í frétt á vefmiðli Fréttablaðsins þann 7. mars 2019 en þar voru á ný tekin orðrétt upp þau ummæli sem sóknaraðili hafði viðhaft í fyrrgreindum fréttaflutningi frá 18. október 2018, þar á meðal um ætlaða aðkomu varnaraðila að þeim kærum sem þá höfðu verið lagðar fram.
Af málsgögnum verður ráðið að þann […] hafi verið gefin út ákæra á hendur skjólstæðingi sóknaraðila vegna ætlaðra kynferðisbrota gagnvart fjórum konum á árunum [...]. Var sakamálið þingfest í Héraðsdómi […] þann […] sem málið nr. […] en þá mun hafa risið ágreiningur um hæfi varnaraðila til að vera réttargæslumaður brotaþola þar sem sóknaraðili, sem verjandi, boðaði að skjólstæðingur hans myndi leiða varnaraðila sem vitni við aðalmeðferð málsins. Á þeim grundvelli synjaði héraðsdómur um skipun varnaraðila sem réttargæslumanns og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði Landsréttar […]. Með þeim úrskurði mun aðkomu varnaraðila að réttargæslu í málinu hafa lokið.
Vefmiðlar DV, Fréttablaðsins og Stundarinnar gerðu fyrrgreinda niðurstöðu héraðsdóms að umfjöllunarefni í fréttum sem birtar voru dagana 9. og 10. júlí 2020. Var þar meðal annars haft eftir sóknaraðila að hann teldi vísbendingar um að varnaraðili hefði sjálf staðið að baki auglýsingum eftir skjólstæðingum í fyrirhugaða hópmálsókn gegn ákærða í málinu, en það hafi verið gert undir dulnefni á samfélagsmiðlum.
Fyrir liggur að varnaraðili gaf skýrslu sem vitni við aðalmeðferð fyrrgreinds sakamáls. Dómur var kveðinn upp í málinu þann […] þar sem skjólstæðingur sóknaraðila var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum og honum gert að sæta fangelsisvist. Var sérstaklega tiltekið í forsendum dómsins að ekkert væri komið fram í málinu um samskipti varnaraðila og nánar tilgreinds brotaþola sem gætu hafa gefið brotaþolanum tilefni til að vilja klekkja á ákærða í málinu og bera ljúgvitni gegn honum. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Landsréttar […] í máli nr. […].
Með ákæru sem gefin var út þann […] var annað sakamál höfðað á hendur skjólstæðingi sóknaraðila vegna ætlaðs kynferðisbrots á árinu […]. Var það mál rekið fyrir Héraðsdómi [...] sem sakamálið nr. […] Fyrir liggur að sóknaraðili fór fram á að varnaraðili gæfi vitnaskýrslu í því máli sem hún og gerði. Þá liggur fyrir að sú skýrslugjöf og aðalmeðferð málsins að öðru leyti var gerð að umfjöllunarefni fjölmiðla dagana 13. og 14. janúar 2022.
Í frétt sem birt var hin síðargreinda dag á vefmiðli Fréttablaðsins undir yfirskriftinni „Neitar að hafa lýst eftir brotaþolum undir dulnefni“ var því lýst að varnaraðili hefði neitað því við skýrslugjöf í málinu að hún hafi reynt að hafa áhrif á framburð brotaþola í máli gegn skjólstæðingi sóknaraðila. Þá var málflutningsræða sóknaraðila við aðalmeðferð málsins gerð að umfjöllunarefni í fréttinni og því lýst að þar hafi meðal annars komið fram að hann teldi varnaraðila hafa viljandi reynt að ná í sem flesta brotaþola og reynt að þjálfa þá.
Dómur var kveðinn upp í málinu nr. […] þann [...] þar sem skjólstæðingur sóknaraðila var sakfelldur fyrir nauðgun. Í forsendum dómsins var meðal annars eftirfarandi tiltekið um ætlaða aðkomu varnaraðila að aðdraganda málsins:
„Dómurinn dregur ekki í efa að Me too byltinging hafi orðið til þess að margar íslenskar konur hafi ígrundað stöðu sína gagnvart karlmönnum og þær leitt hugann að því hvort þær hafi sætt kynferðislegri áreitni eða kynferðisofbeldi sem þær hafi ekkert gert í þegar það hafi átt sér stað. Hins vegar er ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að viðkomandi réttargæslumaður hafi með einhverjum hætti haft áhrif á það að brotaþoli lagði fram kæru í málinu og borið með þeim hætti sem hún gerði hjá lögreglu. Þá verður ekki séð að frásögn brotaþola sé lituð af upplifun annarra kvenna sem kvörtuðu undan ákærða og/eða lögðu fram kæru á hendur honum. Hins vegar virðist m.a. sú staðreynd að fjallað var opinberlega um hugsanleg brot ákærða hafa gefið brotaþola þann styrk, sem hana áður skorti, til að leggja fram kæru á hendur honum.“
Fyrir liggur að varnaraðili birti umfjöllun um fyrrgreindan málarekstur á Facebook síðu sinni þann […]. Lýtur kvörtun í máli þessu að þeirri umfjöllun varnaraðila sem gerð var að fréttaefni þennan sama dag á vefmiðli Fréttablaðsins undir yfirskriftinni „Ásakanir [A] um brotaþolaútgerð skotnar niður á tveimur dómstigum.“ Í hinni umþrættu umfjöllun varnaraðila var meðal annars eftirfarandi tiltekið:
„Jæja, þá er enn einn dómstóllinn búinn að taka fyrir ásakanir [A] í minn garð og komast að þeirri niðurstöðu að ekkert sé hæft í þeim. Sjá meðfylgjandi skjáskot af niðurstöðu Héraðsdóms […]. - Frá árinu 2018 hefur [A] haldið því fram opinberlega og inni í hinum ýmsu dómssölum að ég hafi gerst sek um refsiverðan verknað. Að einn morguninn hafi ég vaknað og ákveðið að nú skyldi ég koma saklausum manni í fangelsi. Manni sem ég í þokkabót þekkti ekki neitt! - Samkvæmt málatilbúnaði [A] byrjaði þetta ráðabrugg mitt árið 2015 og frá þeim tíma hafi ég farið í virka „brotaþolaútgerð“ og „smölun“ og fengið þar hátt í fjörtíu konur til þess að ranglega ásaka/kæra saklausan mann fyrir nauðgun, sjá m.a. fréttir í kommentum hér að neðan. - Frávarp (e. projection) er virkilega áhugavert fyrirbæri og ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort það hafi verið að verki í þessu máli. Svo virðist sem [A] hafi ítrekað tjáð sig um það hversu „illa“ skjólstæðingur hans „lætur að stjórn“ í skýrslutökum fyrir dómi, sem og hversu feginn hann hafi verið þegar hann féllst á að tjá sig ekki í síðasta nauðgunarmálinu. - Til stuðnings þessum ásökunum gegn mér hefur [A] haft...ekkert! En hefur þó ekki þreyst á að leggja fram hin ýmsu (oft eldgömul) viðtöl við mig. Þessi viðtöl hefur hann sagt eiga fela í sér vísbendingar um að ég hafi óeðlileg áhrif á vitnisburð þeirra brotaþola sem til mín leita. - Í fyrri fjórum málunum, komust bæði héraðsdómur og Landsréttur að því að þessar ásakanir hans í minn garð ættu ekki við rök að styðjast. Skjólstæðingur hans var dæmdur fyrir ítrekaðar nauðganir. Enginn þeirra dómara sem að þessum fjórum málum komu hafa tekið undir málatilbúnað [A] hvað þetta varðar. Þvert á móti var honum hafnað sem tilhæfulausum enda engin gögn sem styðja hann með nokkrum hætti. - Í fimmta málinu vissi [A] því að þessu hafði öllu þegar verið hafnað og það af æðri dómstól (Landsrétti). Hann vissi að ekkert væri til í þessu og að hann hafði ekkert í höndunum nema eigin kenningar byggðar á sandi. Hann vissi einnig að útilokað væri að fallist yrði á þetta af héraðsdómi í fimmta málinu. Það stoppaði hann samt ekki í að halda áfram ærumeiðandi ásökunum í minn garð. - Til að bæta gráu ofan á svart þá ákvað [A] að óska eftir því að ég yrði kölluð til sem vitni TVEIMUR DÖGUM fyrir aðalmeðferðina! [A] vissi af aðalmeðferðinni margar vikur ef ekki mánuði fram í tímann, en hann beið fram á síðasta dag til að fá mig til að bera vitni. Miðað við það að ég virtist vera miðpunkturinn í vörn hans í málinu - og því nauðsynlegt að hans mati að ég gæfi skýrslu - þá sé ég ekki hvers vegna hann gat ekki sýnt mér þá lágmarkskurteisi, að hlutast til um að ég yrði boðuð sem vitni á sama tíma og önnur vitni í málinu. - Ég gat ekki orðið við þessari kvaðningu, enda, eins og flestir lögmenn vita, er dagskráin okkar oft ákveðin mánuði fram í tímann. Það að breyta henni með stuttum fyrirvara er ýmist ómögulegt eða kallar á keðjuverkandi óhagræðingu fjölda aðila. Þessu til viðbótar þá má auðvitað benda á það að ég hafði þegar gefið ítarlega skýrslu í hinum fjórum málunum. Sú skýrslutaka hafði ekki hjálpað verjandanum í þeim málum, ekki frekar en í því fimmta.- Þegar ég sagðist upptekin og ófær um að mæta, akkúrat á þessum tilgefna tíma, þá var látið að því liggja að ég hefði ekki viljað bera vitni. [A] gerði að því er virðist æsing úr því í dómssalnum. Talaði þar um að ég hafi verið að reyna að komast hjá vitnaskyldu, þvílík og önnur eins vitleysa! - [A] getur reynt að fela sig bak við skjólstæðing sinn en það er ekki skjólstæðingur hans sem stjórnar hegðun hans inni í dómssalnum eða í viðtölum. Fyrir utan það að skjólstæðingur hans hefur meira verið í því að skrifa um það opinberlega hvað ég sé kynóð og annað slíkt.“
Svo sem fyrr greinir beindi sóknaraðili kvörtun í máli þessu til nefndarinnar þann 4. febrúar 2022.
Sóknaraðili krefst þess fyrir nefndinni að varnaraðila verði veitt áminning fyrir háttsemi sína, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Þá kom fram í viðbótarathugasemdum sóknaraðila til nefndarinnar krafa um málskostnað úr hendi varnaraðila.
Sóknaraðilil vísar til þess að kvörtun í málinu sé beint að ætluðu broti varnaraðila gegn 8., 25. og 27. gr. siðareglna lögmanna, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998.
Um kvörtunina vísar sóknaraðili til þess að þann 1. febrúar 2022 hafi birst frétt á vefmiðli Fréttablaðsins undir yfirskriftinni „Ásakanir [A] um brotaþolaútgerð skotnar niður á tveimur dómstigum.“ Hafi þar verið vísað til yfirlýsingar varnaraðila sem hún hafi birt sama dag um verjendastörf sóknaraðila í málum sem verið hafi til meðferðar hjá dómstólum.
Vísað er til þess að í yfirlýsingu varnaraðila hafi hún meðal annars kallað inntak verjendastarfa sóknaraðila „ásakanir [A]“ og „málatilbúnað [A]“ auk þess sem hún hafi lagt sóknaraðila orð sem aldrei hafi verið sögð. Byggir sóknaraðili á að með yfirlýsingu sinni hafi varnaraðili brotið gegn 8. gr. siðareglna lögmanna og þeirri meginreglu sem þar megi finna um góða lögmannshætti.
Á það er bent að í tilgreindri frétt hafi verið tiltekið að varnaraðili héldi því fram að bæði héraðsdómur og Landsréttur hafi „vísað á bug ásökunum [A] lögmanns“ sem fram hafi komið í dómsal. Hafi þannig eftirfarandi verið tekið beint upp í fréttina úr yfirlýsingu varnaraðila: „Jæja, þá er enn einn dómstóllinn búinn að taka fyrir ásakanir [A] í minn garð og komast að þeirri niðurstöðu að ekkert sé hæft í þeim“. Vísar sóknaraðili til þess að lögmaður megi einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli og að forðast skuli að valda honum álitsspjöllum umfram það sem málefnið gefi ástæðu til, sbr. 27. gr. siðareglnanna.
Sóknaraðili byggir á að gögn í viðkomandi málum og vitnisburðir hafi staðfest aðkomu varnaraðila að smölun á skjólstæðingum, meðal annars uppástungu hennar um auglýsingu eftir brotaþolum undir fölsku nafni og móttöku hennar á mögulegum kærendum. Vísar sóknaraðili um það til tilgreindrar vitnaskýrslu um að varnaraðili hafi hvatt viðkomandi vitni til að búa til „nafnlausan Facebook account“ til að „byggja upp eitthvað mál“. Í framhaldi af því hafi verið leitað að fólki í skjóli nafnleyndar á netinu. Bendir sóknaraðili á að dómstigin tvö hafi ekki talið að slíkt hefði þýðingu varðandi sekt eða sýknu skjólstæðinsg síns. Á því annars vegar og hinu hins vegar, að þau hafi ekki talið neitt hæft í málflutningi sóknaraðila fyrir dómi, sé mikill munur.
Sóknaraðili vísar til þess að lögmönnum sé skylt að taka að sér verjendastörf þar sem þeim beri að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í hvívetna og draga fram allt það sem komið getur þeim til varnar í dómsmáli sem höfðað hefur verið. Það þýði þó ekki að vörnin byggi endilega á skoðunum lögmanna, heldur grundvallist málflutningur þeirra á gögnum málsins. Byggir sóknaraðili á að eðlilegt sé að tekist sé á um mál sem rekin séu fyrir dómstólum, en að siðareglur lögmanna eigi hins vegar að tryggja skilning lögmanna á milli um að málareksturinn sé ekki persónugerður og samtvinnaður lögmanni utan dómsalar. Séu ummæli varnaraðila eins og „[A] getur reynt að fela sig bak við skjólstæðing sinn en það er ekki skjólstæðingur hans sem stjórnar hegðun hans inni í dómsalnum eða viðtölum“ ómálefnaleg og til þess fallin að kasta rýrð á störf sóknaraðila sem verjenda í viðkomandi máli. Lýsir sóknaraðili því að hans verjendastörf byggi langt í frá á hans eigin persónulegu skoðunum enda sé skýrt kveðið á um í 8. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli sinna slíkum störfum „án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana“ o.s.frv.
Sóknaraðili byggir ennfremur á að framganga varnaraðila að þessu leyti hafi verið þvert á innihald 25. gr. siðareglnanna. Þá er vísað til þess að eðlilegt sé að lögmenn leiti til Lögmannafélags Íslands vegna ágreinings sem kann að koma upp þeirra á milli en birti ekki opinberar yfirlýsingar um aðra lögmenn er byggi á upphrópunum og rangfærslum.
Í viðbótarathugasemdum sóknaraðila er á það bent að þau ummæli sem varnaraðili vísi til séu ekki sóknaraðila heldur þvert á móti tilvitnanir málsaðila. Reyni varnaraðili þannig enn á ný að eigna sóknaraðila orð skjólstæðings hans. Ítrekar sóknaraðili einnig að þær greinar sem varnaraðili vísi til innihaldi flestar tilvísanir um að „[A] [...] vísar ásökununum á bug“. Sé það einmitt það sem sóknaraðili hafi gert í verjendastörfum, þ.e. að verjast og vísa á bug ásökunum sem beint hafi verið að skjólstæðingnum í opinberri umræðu. Snúist verjendastörf um slíkt svo sem áskilið sé í 8. gr. siðareglna lögmanna.
Sóknaraðili bendir á að varnaraðili taki undir þau sjónarmið sem hann hafi lýst í kvörtun, sbr. m.a. tilvísun um að „[m]ögulega voru einhverjar vangaveltur ræddar“. Bendir sóknaraðili á að hvort þær hafi verið ræddar „í hálfkæringi“ eða varnaraðili aðeins komið að slíkri umræðu „lauslega“ breyti því ekki að það styðji frásögn vitna um aðkomu varnaraðila að slíkri háttsemi. Sé framburður vitna um að varnaraðili hafi hvatt til, eða staðið fyrir því, að stofnaður yrði hópur á Facebook undir nafnleynd til að hvetja til þess að tiltekinn einstaklingur yrði kærður með slíkum ólíkindum að óhjákvæmilegt hafi verið fyrir verjanda að taka slíkt til gagnrýninnar umfjöllunar.
Sóknaraðili bendir á að dómari hafi fallist á að varnaraðili gæfi skýrslu sem vitni fyrir dómi, enda sé það hlutverk dómara að stjórna réttarhaldi. Sé því fráleitt af hálfu varnaraðila að gera það tortryggilegt að hún hafi verið kölluð til sem vitni í sakamáli, enda dómari talið fullt tilefni til slíks. Hafi sjónarmið varnaraðila um að „[t]ilgangurinn með mínum vitnisburði var því enginn“ lítið vægi gagnvart ákvörðun dómara.
Sóknaraðili ítrekar að þau ummæli sem kvartað sé yfir hafi birst á vef Fréttablaðsins. Kveðst sóknaraðili hafa séð sig knúinn til að gera athugasemdir við rangmæli varnaraðila á sama vettvangi. Bendir sóknaraðili á að hann hafi aldrei átt frumkvæði að fjölmiðlaumfjöllun heldur hafi frumkvæðið ávallt komið frá varnaraðila. Sé því skýrt að sóknaraðili hafi aldrei gert annað en að verjast þeim ásökunum sem settar hafi verið fram opinberlega, eins og honum hafi verið skylt sem verjanda.
Sóknaraðili byggir á að málatilbúnaður varnaraðila um að hin umþrættu ummæli hafi ekki verið til opinberrar birtingar standist enga skoðun. Séu það heldur ekki haldbær rök að varnaraðili hafi sett þau fram „í eigin nafni en ekki í starfi mínu sem lögmaður“. Er vísað til þess að aðdróttanir varnaraðila í garð sóknaraðila hafi verið settar þannig fram að til opinberrar birtingar hafi komið í víðlesnum fjölmiðli. Hafi varnaraðili í fréttinni verið titluð réttargæslumaður. Sé það fráleitur málatilbúnaður varnaraðila að telja að réttur hennar hafi staðið til að tjá sig með þeim hætti sem gert var.
Sóknaraðili hafnar því að skilyrði séu fyrir málatilbúnaði varnaraðila sem byggi á orðhefnd. Bendir sóknaraðili í því skyni á að tilefni þeirrar umþrættu greinar sem birst hafi í Fréttablaðinu og fjallað hafi verið um verjendastörf sóknaraðila með ótilhlýðilegum hætti hafi ekki verið varnarviðbrögð við einhverju sem verið hafi til umfjöllunar heldur fyrst og fremst aðför að æru og heiðri sóknaraðila. Verði ekki við slíkt unað.
Sóknaraðili kveðst að endingu hafa kappkostað við að hafa í heiðri í störfum sínum þá grundvallarreglu sem mælt sé fyrir um í 8. gr. siðareglna lögmanna. Er vísað til þess að þótt almenningur geri þar ekki alltaf greinarmun sé mikilvægt að lögmenn hafi regluna ávallt að leiðarljósi enda séu siðareglur lögmanna settar þeim til aðhalds.
III.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kvörtun sóknaraðila verði vísað frá nefndinni en til vara að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.
Varnaraðili vísar til þess að frá árinu 2018 hafi sóknaraðili ítrekað viðhaft opinberlega meiðandi ummæli í sinn garð. Hafi þau ummæli haft persónuleg áhrif á varnaraðila sem og störf hennar. Af þeim sökum hafi varnaraðili ekki séð sér annað fært en að svara fyrir þau á sama vettvangi og fyrir sömu lesendum og sóknaraðili hafi dregið inn í málið, þ.e. almenningi. Hafi varnaraðili tjáð sig á eigin Facebook síðu þar sem ætlunin hafi verið að útskýra málið fyrir vinum og kunningjum.
Varnaraðili kveðst fyrst hafa haft aðkomu að undirliggjandi máli á árinu […] en það ár hafi kona orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu skjólstæðings sóknaraðila og hann síðar verið dæmdur sekur fyrir bæði í héraðsdómi og fyrir Landsrétti. Hafi varnaraðili átt í samskiptum við brotaþola það ár en hún ekki treyst sér í kæruferli á þeim tíma en tekið fram að hún myndi endurskoða ákvörðun sína ef fleiri konur myndu stíga fram.
Varnaraðili vísar til þess að næsta aðkoma hennar að málinu hafi verið á árinu 2018 en þá hafi þrjár konur leitað til hennar vegna meintra kynferðisbrota sama sakbornings. Hafi kærur í framhaldinu verið lagðar fram og málið í kjölfar þess ratað til fjölmiðla enda fréttnæmt að fjöldi kvenna hafi kært fagaðila fyrir brot framin í meðferð. Lýsir varnaraðili því að hún hafi iðulega aðeins svarað til um fjölda þeirra kvenna sem til hennar hefðu leitað en sóknaraðili hafi hins vegar farið beint að beina sjónum að persónu varnaraðila vegna ætlaðra ólögmætra réttargæslustarfa. Kveðst varnaraðili hafa kosið að ýmist svara ekki þeim aðfinnslum sóknaraðila eða vísa þeim til föðurhúsanna án frekari orðaskipta enda fráleitt að rökræða á opinberum vettvangi um ætluð brot hennar við lög og/eða reglur.
Vísað er til þess að eftir að fréttaflutningar hófust hafi sprenging orðið í fjölda brotaþola sem leitað hafi til varnaraðila. Lýsir varnaraðili því að þau samskipti hafi rúmast að öllu leyti innan eðlilegra starfa réttargæslumanns. Þannig hafi varnaraðili hitt brotaþola á fundum fyrir skýrslutöku, mætt með þeim í hana, átt í samskiptum við lögreglu vegna gagna, ritað bótakröfur og upplýst skjólstæðinga um stöðu mála.
Á það er bent að málflutningur sóknaraðila um störf varnaraðila hafi ekkert minnkað við það að brotaþolum hafi fjölgað og þar með gögnum sem staðfestu að málin næðu lengra aftur í tímann en til ársins […]. Hafi viðkomandi sakborningur enda verið sakfelldur fyrir brot sem átt hafi sér stað löngu áður en afskipti varnaraðila af málunum hófust. Er á því byggt að það eitt og sér útiloki það að málin séu komin til vegna annarlegra starfshátta varnaraðila. Þá hafi engu breytt fyrir umræðu sóknaraðila að ýmsir fagaðilar hafi stigið fram og staðhæft að þeir hefðu einnig vitað af meintum brotum sakbornings fyrir þennan tíma.
Varnaraðili vísar til þess að þrátt fyrir þessa vitneskju hafi sóknaraðili séð ástæðu til að minnast á hana persónulega í nánast hverju einasta viðtali um málið síðustu fjögur árin. Hafi þar alltaf verið um sömu ásakanirnar að ræða þrátt fyrir nýjar upplýsingar, gögn og sakfellisdóma skjólstæðings hans. Vísar varnaraðili um þetta efni sérstaklega til samantekar um opinberan málflutning sóknaraðila sem séu hátt í tuttugu talsins.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi sjaldan eða aldrei tekið fram að um skoðanir skjólstæðings hans væru að ræða eða sett fram annan fyrirvara um slíkt efni. Þvert á móti hafi skjólstæðingurinn ekki tekið undir ummæli sóknaraðila um þetta efni og lýst því ítrekað hvaðan hann teldi málin upprunnin án þess að nefna nafn varnaraðila á nafn í því samhengi.
Komist nefndin að því að skjólstæðingur sóknaraðila hafi raunverulega búið yfir þessum skoðunum byggir varnaraðili á að engin ástæða hafi verið fyrir sóknaraðila að hlaupa með þær í fjölmiðla og ræða þær eins og hverja aðra staðreynd, án nokkurs fyrirvara eða vísun í það að þetta væru orð skjólstæðingsins. Bendir varnaraðili á að fólk treysti og trúi lögmönnum til þess að fara varlega með mál og til að hlaupa ekki að staðhæfingum nema að vel ígrunduðu máli. Aftur á móti geri fólk ráð fyrir að sakborningar beiti fyrir sér ýmsum vörnum. Sé því mikilvægt að lögmenn geri skýran greinarmun á því hvað séu þeirra eigin skoðanir og hvað séu skoðanir skjólstæðinga þeirra. Á því hafi orðið misbrestur hjá sóknaraðila sem hafi staðhæft ítrekað ranglega um málsgögn.
Varnaraðili vísar til þess að aðkomu hennar sem réttargæslumanns hafi lokið á árinu 2020. Þannig hafi sóknaraðili farið fram á fyrir hönd skjólstæðings síns í júlímánuði það ár að varnaraðili yrði sett á vitnalista og að synja bæri af þeim sökum um skipun hennar sem réttargæslumanns brotaþola. Kveðst varnaraðili hafa þurft að hlusta á meiðandi og vanvirðandi ræðu sóknaraðila vegna þeirrar kröfugerðar. Þá hafi dómari samþykkt þá kröfu en með því hafi aðkomu varnaraðila að málunum sem lögmaður lokið.
Varnaraðili lýsir því að hún hafi gefið skýrslu í Héraðsdómi […] þann […] og að þar með hafi aðkomu hennar að þessum málum endanlega lokið. Hafi sóknaraðili þá enn átt eftir að halda ræðu við aðalmeðferðir mála í héraði og í Landsrétti sem hafi að stórum hluta lotið að persónu og ætluðu illu innræti varnaraðila. Hafi varnaraðili mátt þola slíkt þrátt fyrir að hvorki málsgögn né framburður skjólstæðings sóknaraðila hefðu gefið tilefni til slíkrar orðræðu.
Vísað er til þess að skjólstæðingur sóknaraðila hafi verið sakfelldur fyrir nauðganir gegn öllum fjórum brotaþolum málsins. Bendir varnaraðili á að í forsendum héraðsdóms, sem Landsréttur hafi staðfest, hafi sérstaklega verið tekið fram að ekkert væri komið fram í málinu um samskipti hennar við tilgreindan brotaþola sem gæti hafa gefið brotaþolanum tilefni til að vilja klekkja á skjólstæðingi sóknaraðila með fölskum sakargiftum.
Varnaraðili vísar til þess að þrátt fyrir þetta hafi sóknaraðili haldið uppteknum hætti í nýju nauðgunarmáli gegn skjólstæðingi hans. Hafi sóknaraðili þannig farið fram á að varnaraðili yrði boðuð sem vitni við fyrirhugaða aðalmeðferð þess máls með tveggja sólarhringa fyrirvara. Varnaraðili hafi hins vegar ekki haft tök á að mæta til skýrslugjafar með svo skömmum fyrirvara. Lýsir varnaraðili því að í kjölfar þess, þ.e. þann […], hafi Fréttablaðið birt frétt þar sem staðhæft hafi verið að hún hefði reynt að komast undan vitnaskyldu og að sóknaraðili hafi tekið því illa. Þá hafi eftirfarandi verið tiltekið í fréttinni, sem síðar hafi þó verið breytt eftir birtingu varnaraðila á hinum umkvörtuðu ummælum: „Í samtali við Fréttablaðið sagði [A] vísbendingar um að lögmaðurinn hafi sjálfur staðið að baki auglýsingar eftir skjólstæðingum í fyrirhugaða hópmálsókn gegn ákærða, undir dulnefni, á samfélagsmiðlum.“
Varnaraðili bendir á að í hinu síðara sakamáli hafi skýrsla hennar í fyrra sakamáli verið á meðal málsgagna. Jafnframt því hafi spurningar sóknaraðila til varnaraðila í hinu síðara sakamáli varðað sömu atriði og komið hafi fram í fyrra sakamáli. Hafi því enginn tilgangur verið með framburði varnaraðila í hinu síðara máli. Vísar varnaraðili jafnframt til fréttar sem birst hafi um skýrslutöku hennar í málinu þann […] en þar hafi einnig verið að finna umfjöllun um ræðu sem sóknaraðili hafi haldið við aðalmeðferð málsins. Hafi þar komið fram af hálfu sóknaraðila að varnaraðili hefði verið „í brotaþolaútgerð“ og að hann teldi að varnaraðili hefði viljandi reynt að ná í sem flesta brotaþola og þjálfað þá.
Varnaraðili vísar til þess að á tilgreindum tímapunkti hafi enginn lögfræðilegur tilgangur verið með þessari vörn af hálfu sóknaraðila. Hafi þannig þegar verið búið að dæma skjólstæðing hans fyrir nauðganir sem átt höfðu sér stað langt fyrir tilkomu varnaraðila að málunum og gögn lögð fram um það efni. Þá hafi dómstólar á tveimur stigum verið búnir að fjalla um þetta efni.
Varnaraðili bendir á að héraðsdómur hafi sakfellt skjólstæðing sóknaraðila fyrir nauðgun gegn þessari fimmtu konu. Hafi komið fram í forsendum dómsins að ekkert í málinu benti til þess að varnaraðili hefði með einhverjum hætti haft áhrif á það að brotaþoli hefði lagt fram kæru í málinu og borið með þeim hætti sem hún hafi gert hjá lögreglu. Þá yrði ekki séð að frásögn brotaþola hefði verið lituð af upplifun annarra kvenna sem kvartað hefðu undan ákærða og/eða lagt fram kæru á hendur honum.
Varnaraðili vísar til þess að eftir fjögur ár af ítrekuðum rógburði hafi hún séð sig nauðbeygða til að svara fyrir þær ásakanir sem sóknaraðili hafi viðhaft. Hafi hún gert það með hinum umkvörtuðu ummælum á Facebook síðu sinni. Í kjölfar þess hafi sóknaraðili skrifað heila grein um varnaraðila sem birst hafi í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni „Ljótt skrök“ þar sem sama rógburði hafi verið haldið fram á ný þrátt fyrir nýjan dóm héraðsdóms þar sem ásakanir í garð varnaraðila hafi verið hraktar.
Varðandi aðalkröfu um frávísun málsins vísar varnaraðili til þess að hún hafi enga tengingu haft við málin er hún birti hin umkvörtuðu ummæli á Facebook síðu sinni þann […]. Kveðst varnaraðili þar hafa tjáð sig í eigin nafni en ekki í starfi sem lögmaður, sbr. til hliðsjónar úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna frá 24. nóvember 2021 í máli nr. 24/2021.
Um varakröfu sína vísar varnaraðili til þess að hún hafi meðal annars á grundvelli 2. mgr. 5. gr. siðareglna lögmanna, tjáningarfrelsis, sannleiksreglu og orðhefndar átt rétt á að tjá sig með þeim hætti sem hún gerði þar sem orðstír hennar hafi þá þegar orðið fyrir skaða auk þess sem æra og starfsheiður hennar hafi verið undir. Hafi varnaraðili því verið nauðbeygð til að leiðrétta þær ásakanir sem sóknaraðili hafi viðhaft í hennar garð.
Varnaraðili byggir á að sóknaraðili hafi sjálfur gerst sekur um öll þau brot sem hann vísi til í kvörtun, auk fjölda annarra. Sé það umhugsunarefni fyrir lögmannastéttina og heiður hennar að lögmaður telji það eðlilega málsvörn fyrir skjólstæðing í sakamáli að sverta annan lögmann sem hafi unnið það eitt sér til óhelgis að gæta hagsmuna þolenda kynferðisofbeldis. Hafi sóknaraðili með háttsemi sinni grafið undan trausti fólks, ekki síst brotaþola, til kerfisins og þar á meðal til stéttar lögmanna.
Ítrekar varnaraðili að endingu að málatilbúnaður sóknaraðila sé uppfullur af rangfærslum og órökstuddum staðhæfingum.
Niðurstaða
Svo sem fyrr er rakið hefur sóknaraðili krafist þess fyrir nefndinni að varnaraðila verði veitt áminning á grundvelli 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn vegna efnis umfjöllunar sem birt var á Facebook síðu hennar þann […] og gert var að fréttaefni þann sama dag á vefmiðli Fréttablaðsins. Varnaraðili hefur hins vegar aðallega krafist þess að kvörtun sóknaraðila verði vísað frá nefndinni. Er sú kröfugerð varnaraðila á því reist að hún hafi enga tengingu haft við undirliggjandi mál í […] jafnframt því sem hún hafi tjáð sig persónulega á eigin vefmiðli en ekki í starfi sem lögmaður.
Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 77/1998 er meðal annars tiltekið að úrskurðarnefnd lögmanna hafi lögsögu yfir lögmönnum sem starfa hér á landi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 1. gr. laganna. Í V. kafla laganna er mælt fyrir um ágreining vegna starfa lögmanna. Vegna sakarefnis máls þessa þá er valdsvið nefndarinnar afmarkað í 1. mgr. 27. gr. laganna þar sem fram kemur að sá sem telji lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna. Þá er tiltekið í 2. mgr. 27. gr. laganna að í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni geti hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við sýslumann að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.
Í samræmi við framangreindar heimildir þarf í fyrstu vegna sakarefnis málsins að taka afstöðu til þess hvort varnaraðili hafi viðhaft hina umþrættu háttsemi í starfi sínu sem lögmaður í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Er þá til þess að líta að samkvæmt 3. mgr. 10. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skal nefndin vísa máli frá ef réttarágreiningur í því fellur ekki undir valdsvið hennar.
Svo sem rakið er í málsatvikalýsingu að framan annaðist varnaraðili, sem lögmaður, réttargæslustörf í þágu brotaþola vegna mála sem voru til rannsóknar gagnvart skjólstæðingi sóknaraðila frá árinu 2018. Liggur fyrir að varnaraðili sinnti þeim störfum allt til júlímánaðar 2020 er synjað var um skipan hennar sem réttargæslumanns fyrir Héraðsdómi […] við meðferð málsins nr. […], sbr. einnig úrskurð Landsréttar um það efni frá […] þess mánaðar.
Í málsatvikalýsingu að framan er einnig gerð grein fyrir þeirri ítrekuðu gagnrýni og ásökunum sem birtust í opinberri umfjöllun vegna réttargæslustarfa varnaraðila allt frá októbermánuði 2018. Hélt sóknaraðili uppi þeim sömu athugasemdum í garð varnaraðila sem vörnum í þágu skjólstæðings síns við meðferð málanna nr. […] og […] fyrir Héraðsdómi […], sbr. einnig landsréttarmálið nr. […]. Þá liggur fyrir að varnaraðili birti hina umþrættu umfjöllun í kjölfar dóms í fyrrgreindu sakamáli nr. […] sem kveðinn var upp þann […].
Vegna frávísunarkröfunnar er til þess að líta að þótt varnaraðili hafi látið af réttargæslustörfum í undirliggjandi máli í júlímánuði 2020 og hún hafi birt hina umþrætta umfjöllun á persónulegri vefsíðu sinni þann […] þá laut umfjöllunin að andsvörum hennar og sjónarmiðum vegna þeirra ásakana sem að henni höfðu beinst vegna starfa sem réttargæslumanns, þ.e. bæði í fréttaskrifum sem og í málsvörn fyrir dómstólum. Samkvæmt því og með hliðsjón af efni umfjöllunarinnar að öðru leyti verður að leggja til grundvallar að mati nefndarinnar að hún hafi verið sett fram í beinum tengslum við þau störf sem varnaraðili hafði annast sem lögmaður og þeim ásökunum sem hún sætti vegna þeirra. Með vísan til þess verður að telja að varnaraðili hafi viðhaft hina umþrættu háttsemi í störfum sínum sem lögmaður í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Þegar af þeirri ástæðu og með hliðsjón af valdheimildum nefndarinnar, eins og þær eru afmarkaðar í V. kafla sömu laga, eru því ekki skilyrði til að vísa málinu frá nefndinni á grundvelli 3. mgr. 10. gr. fyrrgreindra málsmeðferðarreglna.
- I
Í málsatvikalýsingu að framan er gerð grein fyrir þeim skrifum sem varnaraðili birti á Facebook síðu sinni þann […] og varð að umfjöllunarefni í frétt sem birt var á vefmiðli Fréttablaðsins þann sama dag. Er kvörtun sóknaraðila í máli þessu á því reist að með þeim skrifum hafi varnaraðili gert á hans hlut með háttsemi sem strítt hafi gegn 8., 25. og 27. gr. siðareglna lögmanna. Hafi varnaraðili þannig með óréttmætum hætti samsamað sóknaraðila þeim hagsmunum og sjónarmiðum sem hann hafi gætt fyrir skjólstæðing sinn við verjendastörf, þar á meðal með tilvísun um „ásakanir [A]“ og „málatilbúnað [A]“ sem og með eftirfarandi ummælum:
„Jæja, þá er enn einn dómstóllinn búinn að taka fyrir ásakanir [A] í minn garð og komast að þeirri niðurstöðu að ekkert sé hæft í þeim“.“
„„[A] getur reynt að fela sig bak við skjólstæðing sinn en það er ekki skjólstæðingur hans sem stjórnar hegðun hans inni í dómsalnum eða viðtölum.“
Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna, sem er að finna í II. kafla þeirra þar sem mælt er fyrir um skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum, ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hann hefur kröfu til þess að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.
Í IV. kafla siðareglnanna er mælt fyrir um samskipti lögmanna innbyrðis. Er þar tiltekið í 1. mgr. 25. gr. að lögmenn skuli hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu. Skulu lögmenn sýna hver öðrum þá tillitssemi, sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðings, sbr. 2. mgr. 25. gr. siðareglnanna. Þá má lögmaður einungis hafa uppi gagnrýni á störfum annars lögmanns á málefnalegum grundvelli og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það sem málefnið gefur ástæðu til, sbr. 27. gr. siðareglnanna.
Svo sem fyrr er rakið lutu hin umþrættu skrif varnaraðila að andsvörum hennar og sjónarmiðum vegna þeirra ásakana sem að henni höfðu beinst vegna starfa sem réttargæslumanns í þágu brotaþola í viðkvæmu kynferðisbrotamáli. Lutu þær ásakanir, sem fyrst komu fram í fréttaflutningi í […] og hafðar voru orðréttar upp eftir sóknaraðila líkt og í málsatvikalýsingu greinir, að því að rót sakamálarannsóknar sem þá var hafin gagnvart skjólstæðingi sóknaraðila mætti rekja til auglýsingar sem birst hefði á samfélagsmiðli að undirlagi varnaraðila þar sem konur hefðu verið hvattar til að segja frá óviðurkvæmilegri framkomu skjólstæðingsins. Með þeirri háttsemi hafi varnaraðili auglýst eftir hugsanlegum skjólstæðingum og um leið viðskiptavinum.
Við meðferð málsins nr. […] fyrir Héraðsdómi […] hélt sóknaraðili uppi þessum sömu sjónarmiðum sem málsvörn í þágu skjólstæðings síns. Í forsendum dóms héraðsdóms í málinu, sem kveðinn var upp þann […], var hins vegar vísað til þess að ekkert væri komið fram í málinu um að samskipti varnaraðila við tilgreindan brotaþola hafi gefið brotaþolanum eða öðrum vitnum tilefni til að vilja klekkja á skjólstæðingi sóknaraðila með fölskum sakargiftum.
Þrátt fyrir þá niðurstöðu, sbr. einnig dóm Landsréttar [...] í máli nr. […], var þessum sömu vörnum haldið uppi í síðara sakamáli gegn skjólstæðingi sóknaraðila, sbr. héraðsdómsmálið nr. […]. Í fréttaumfjöllun um aðalmeðferð þess máls, sem háð var í heyranda hljóði í [...], var þannig vísað til þess að í málflutningsræðu sóknaraðila hefði komið fram að hann teldi varnaraðila hafa viljandi reynt að ná í sem flesta brotaþola og reynt að þjálfa þá. Í forsendum í dómi héraðsdóms, sem kveðinn var upp þann [...], var hins vegar með sambærilegum hætti og áður tiltekið að ekkert hefði komið fram í málinu sem benti til þess að varnaraðili hefði með einhverjum hætti haft áhrif á það að kæra hefði verið lögð fram eða að brotaþoli hefði borið með þeim hætti sem hún hefði gert hjá lögreglu.
Mikilvægt er, að mati nefndarinnar, að lögmenn gæti þess í störfum sínum að greina eins og kostur er á milli eigin sjónarmiða og sjónarmiða og hagsmuna skjólstæðinga þeirra, svo sem skylt er að gera samkvæmt 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna. Að mati nefndarinnar getur orðaval og framsetning þeirra, hvort heldur sem litið er til skrifa lögmanna eða samskipta þeirra við fjölmiðla vegna undirliggjandi mála, skipt máli í þessu sambandi.
Líkt og hér hefur verið rakið tók sóknaraðili þátt í opinberri umræðu í gegnum fréttaflutning við rannsókn og síðari saksókn á hendur skjólstæðingi hans en þar beindi hann einkum spjótum að þeim lögmannsstörfum sem varnaraðili hafði sinnt sem réttargæslumaður í þágu brotaþola. Að áliti nefndarinnar verður ekki hjá því komist að skoða hin umþrættu ummæli varnaraðila í því ljósi sem og með hliðsjón af aðdraganda birtingar þeirra þann […]. Með hliðsjón af því verður ekki talið að mati nefndarinnar að varnaraðili hafi gengið lengra í skrifum sínum gagnvart sóknaraðila en málefnið gaf tilefni til. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að varnaraðili hafi gert á hlut sóknaraðila með háttsemi sem strítt hafi gegn 2. mgr. 8. gr., 25. eða 27. gr. siðareglna lögmanna. Er kröfu sóknaraðila, um að varnaraðila verði gert að sæta áminningu, því hafnað.
Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu varnaraðila, B lögmanns, um að kvörtun sóknaraðila, A lögmanns, verði vísað frá nefndinni, er hafnað.
Varnaraðili, B lögmaður, hefur í störfum sínum ekki gert á hlut sóknaraðila, A lögmanns, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.
Málskostnaður fellur niður.
ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA
Valborg Þ. Snævarr, formaður
Einar Gautur Steingrímsson
Kristinn Bjarnason
Rétt endurrit staðfestir
________________________
Sölvi Davíðsson