Mál 16 2016

Ár 2016, fimmtudaginn 22. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið málið nr. 16/2016:

 

L hdl. og S hdl.

gegn

D hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 6. júlí 2016 erindi kærenda, L hdl. og S hdl. vegna D hrl., þar sem kvartað var yfir brotum kærða gegn siðareglum lögmanna í samskiptum við kærendur, en kærendur komu fram fyrir hönd gagnaðila kærða í ágreiningsmálum sem bæði voru rekin á vettvangi húsfélags og á vettvangi úrskurðarnefndar lögmanna í máli hennar nr. 7/2016, en í því máli kom kærandinn S fram fyrir hönd fyrrum umbjóðanda kærða. Í kærunni kemur fram kærendur telja að viðbrögðum kærða við hagsmunagæslu þeirra fyrir þennan skjólstæðing hafi að ýmsu leyti verið mjög áfátt svo sem síðar verður rakið.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 22. júlí 2016. Kærði skilaði greinargerð vegna málsins þann 8. ágúst 2016.

Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða þann 22. ágúst 2016. Athugasemdir bárust frá kærendum 14. september og voru kynntar kærða  með bréfi 15. september. Athugasemdir kærða vegna bréfsins bárust 7. október og voru kynntar kærendum 20. október um leið og lýst var þeirri afstöðu nefndarinnar að gagnaöflun virtist lokið.

Þann 21. nóvember 2016 bárust nefndinni frekari athugasemdir kærenda við bréf kærða frá 7. október og voru þær kynntar kærða með bréfi 1. desember.

 

Málsatvik og málsástæður.

I.

Kærði vann á árinu 2014 að ýmsum málum fyrir umbjóðanda sinn, Þ, sem tengdust skilnaði hennar við eiginmann sinn og fjárhagslegum deilum varðandi félög sem þau höfðu rekið saman. Einnig kom hann að því að freista þess að kaupa hlut í hesthúsi fyrir hana, en það gekk ekki eftir. Síðar keypti kærði sjálfur hlut í umræddu hesthúsi. Virðast samskipti kærða við þennan umbjóðanda sinn hafa verið með ágætum fram að árslokum 2015, en þá fór kærði til útlanda og dvaldist ytra í nokkrar vikur. Eftir að kærði kom aftur til landsins nálægt áramótum 2016 kastaðist í kekki á milli kærða og umbjóðandans. Virðist það upphaflega hafa verið vegna samstarfsörðugleika í umræddu hesthúsi, en m.a. taldi kærði að umbjóðandinn hefði leigt út hans hlut í húsinu á meðan hann var erlendis og rekið tamningastöð í öllu húsinu. Spruttu af þessu deilur og liggur m.a. fyrir tölvupóstur kærða frá 28. febrúar 2016 til Þ þar sem hann freistar þess að greina deiluefnin, setur fram sín sjónarmið og óskar eftir viðbrögðum hennar.

Umbjóðandinn leitaði til kærenda og óskaði liðsinnis þeirra í deilum sínum við kærða. Nánar tiltekið óskaði hún eftir liðsinni þeirra vegna ágreinings við kærða um uppgjör fyrir unnin lögmannsstörf, en rétt er að taka fram að kærði hafði þá ekki hafið neina innheimtu vegna þeirra og ekki gert henni reikning, þótt þeim hafi eitthvað farið á milli um umfang starfanna. Einnig óskaði hún liðsinnis þeirra vegna samskipta við kærða í umræddu hesthúsi.

Það athugast að hvorugur málsaðila hefur lagt fram heildstæða málsatvikalýsingu vegna þeirra samskipta sem urðu í kjölfarið, en töluvert liggur þó fyrir af gögnum og frásögnum um þau í einstökum atriðum. Verður hér rakið það sem mestu virðist skipta, eftir því sem unnt er að ráða í málsatvikin af fram lögðum gögnum og málatilbúnaði aðila.

Þann 8. apríl 2016 var haldinn fundur í húsfélagi hesthússins á skrifstofu kærenda í Reykjavík. Í fundargerð kemur fram að kærandinn L stýrði fundi, en að kærandinn S var þar mættur f.h. félagsins B ehf., sem er félag í eigum Þ. Virðist hafa verið mætt fyrir aðra eigendur en kærða. Þá kemur fram í fundargerðinni að kærði hafi verið boðaður til fundarins, en ekki mætt.

Í fundargerðinni er bókað ýmislegt um deilur í umræddu hesthúsi, en þar er um að ræða einhliða frásögn, enda enginn mættur á fundinn f.h. kærða. Er m.a. bókað að „Fundarmenn eru sammála um að mikið ónæði sé af D og fólki á hans vegum, þá sérstaklega af Ö, langt umfram það sem telja megi eðlilegt. Sem sé orðið svo mikið að það trufli nýtingu eignarinnar. Í því felist læti og hávaði, slæm umgengni, ógnandi hegðun bæði í garð annarra eigenda, sem og hrossa, tillitsleysi við eigendur og hesta, þannig að dýrunum stafi hætta af.  Auk hótana um líkamlegt ofbeldi í garð annarra eigenda."Á fundinum var bókuð ákvörðun um að tiltekin mannvirki skyldu tekin niður úr sameign hússins og loks bókað að fundurinn tæki ákvörðun á grundvelli 55. gr. laga nr. 26/1994 um að banna kærða dvöl kærða og Ö í húsinu og að honum væri gert skylt að selja eignarhlut sinn. Loks var bókað að lögmannsstofu kæranda væri falið að innheimta kröfur „fundarmanna" á hendur kæranda og Ö vegna kaupa á heyi o.fl.

Kærði sendi út ódagsett fundarboð og boðaði þar til fundar 27. apríl 2016 „vegna atvika 8.04. sl. þar sem upplognar sakir voru settar á bréf í einhverju ráðabruggi Þ og dóttur hennar við lögmennina S hdl og L hdl. ..." Í fundarboði þessu er boðað að á fundinum verði rædd ýmis málefni varðandi húsið og nýtingu þess, s.s. greiðsla sameiginlegs kostnaðar, en einnig um ýmis mál s.s. „hræðsla Þ og dóttur hennar [..] Fara yfir hvort það geti verið að slæm samviska sé að naga þær eða hvort það sé rétt að fá fyrir þær tíma hjá geðlækni eða sálfræðingi til að vinna á þessum kvíða"  Kærandinn L svaraði þessu fundarboði með bréfi 25. apríl, mótmælti því að fundurinn yrði haldinn um þessi fundarefni, boðaði að umbjóðendur sínir myndu ekki mæta til fundarins og litu ekki á hann sem löglegan húsfund í húsfélaginu.

Ljóst er að samskipti sameigenda í umræddu hesthúsi hafa farið algjörlega úr böndum. Kærði í máli þessu kærði umbjóðandann til lögreglu þann 29. mars 2016 fyrir meintar hótanir í garð Ö auk þess sem hún var sökuð um að hafa stolið af eignum kærða í hesthúsinu. Í framhaldi af því hefur komið til átaka í húsinu. Þann 16. ágúst 2016 sendi kærði lögreglu frekari gögn  og kærði þá jafnframt báða kærendur í máli þessu vegna meintrar aðkomu þeirra „að ofbeldi, ógnunum og hótunum um að beita ofbeldi." Taldi kærði að kærendur hefðu staðið að baki atburðarrás þar sem þessi fyrrum umbjóðandi hans hefðu ráðist að Ö og tekið svo viðbrögð hennar upp á myndband. Í framhaldi af þessum atvikum höfðu synir umbjóðandans fyrrverandi samband við kærða að hans sögn og óskaði annar þeirra m.a. eftir því að hitta hann „í dimmu húsasundi", en kærandi kveðst hafa farið ásamt syni sínum „á vettvang" og honum lokið með því að synirnir báðust afsökunar á hótunum sínum. Mál lögreglu vegna þessarar kæru var fellt niður gagnvart kærendum í máli þessu með bréfi lögreglu til þeirra þann  10. nóvember 2016.

Þá stefndu kærendur f.h. umbjóðenda sinna, sameigendum kærða í hesthúsinu, honum í einkamáli og gerðu þær kröfur að honum yrði gert skylt að flytja ásamt öllu því sem honum tilheyrði út úr hesthúsinu í samræmi við ákvörðun fundarins 8. apríl. Er stefnan dagsett 27. júní en miðast við þingfestingu 1. september 2016.

Á meðan á þessu gekk, voru kærendur og kærði í töluverðum samskiptum, m.a. skriflega í bréfum og tölvupóstum. Óhjákvæmilegt er að rekja nokkur efnisatriða í þeim samskiptum.

Þann 18. apríl sendi kærði tölvupóst, að því er virðist á alla lögmenn á lögmannsstofu kærenda og greindi frá því að mjög alvarlegar sakir væru bornar á þá. Væru öll skrifleg gögn þeirra uppspuni og rangindi og virtist það gert vísvitandi með ráðnum hug. Er þar jafnframt fullyrt að ávirðingar (í fundargerðinni frá 8. apríl) væru skáldaðar af kærendum.

Þann 21. apríl 2016 óskaði kærði eftir því í bréfi til kærenda að hann fengi í hendur þau gögn sem lágu fyrir fundinum 8. apríl. Í því bréfi óskaði hann skýringa á því af hverju hefði ekki verið haft samband við hann áður en hann var borinn jafn alvarlegum sökum og fram komu á fundinum. Þá spyr kærði kærendur sérstaklega að því í bréfinu hvort þeir hafi „vísvitandi logið sökum"  í þeim tilgangi að þjónkast ranglega umbjóðendum sínum, þ.e. „Að þið hafið hreinlega skáldað og logið fyrir peninga"

Í öðru bréfi, dags. sama dag, setur hann fyrir hönd Ö fram sömu kröfu um gögn sem lágu fyrir sama fundi og vörðuðu sérstaklega ásakanir á hendur henni á fundinum. Í þessu bréfi kemur m.a. fram að Ö vilji fá svör við því hvort „Ykkur hafi verið borgað fyrir að koma henni og D út úr hesthúsinu fyrir greiðslu og gera það með lygum og lagaklækjum." Jafnframt hvort einhver persónuleg tengsl séu á milli umbjóðenda kærenda og þeirra sjálfra eða „innbyrðis tengsl á milli lögmanna sem rétt er að upplýsa með vanhæfi í huga og skort á staðhæfingu sem vitnis samkvæmt réttarfarslögum ef á það reynir?"

Kærði sendi annað bréf með fyrirspurnum í 7 liðum til kærenda þann 25. maí og sendi þann sama dag tölvuskeyti til kæranda L sem hefst á orðunum „Sæll- frekar virðist þú vera ómerkilegur..." Skeytið fjallar annars einkum um ágreining um spæni í eigu kærða og kröfu hans um að fá þau gögn sem ályktanir húsfundarins 8. apríl byggðust á. Segir m.a. um það efni „EF ENGIN GÖGN ERU MUN ÉG LÁTA YKKUR BERA PERSÓNULEGA ÁBYRGÐ". Þessum sendingum fylgdi kærði svo eftir með bréfi 12. júní. Í þessu síðastnefnda bréfi kemur fram sú afstaða að „ef engin svör berast verður að túlka málið með þeim hætti að viðtakandi lögmenn hafi sjálfir skáldað illsakir á fólk og verður sá óheiðarleiki borinn undir ráðuneyti og fagfélag og áskilinn réttur til að höfða m.a. mál til heimtu bóta, refsingar og ómerkingar ummæla."

Kærði sendi kærandanum S einnig tölvupóst þann 3. júní 2016 og þykir rétt að taka efni hans hér upp að hluta. Upphaf skeytisins er svohljóðandi „Ertu NÚ AÐ TOPPA ÞIG MEÐ ÞVÍ AÐ REYNA AÐ LJÚGA ÞIG ÚTUR ÞVÍ SEM ÞÚ SAGÐIR!!!!!!!!!! SKILUR ÞÚ EKKI AÐ T.D. Ö  ætlar í mál við þig persónulega, --skilur þú það ekki - hélstu að þú getir sagt ósatt sjálfur og bærir enga ábyrgð. Eftir þessi kynni mín af þér ertu að mínu mati algjörlega marklaus persóna, falskur og latur.

Kærði hélt því ítrekað fram í samskiptum sínum við kærðu að hann hefði hitt kærandann L á skrifstofu þeirra kærenda, þegar hann hefði átt von á að hitta S. Hefði hann spurt hvort einhver tengsl væru á milli þeirra S. Þá hefði samkynhneigð „borist í tal" og væri það vegna þess að heyrst hefði á tal Þ og dóttur hennar þar sem þær hefðu kallað kærendur „hommalögfræðinga sem hefðu lofað að ljúga fyrir pening". Hefði L þá sagst vera gagnkynhneigður og á milli þeirra S væru engin tengsl. Kærandinn L kveðst hins vegar hafa neitað með öllu að svara neinum spurningum kærða um þessi efni, enda væru þau honum óviðkomandi, en fyrir liggur að kærendur eru hjón.

Eftir að stofnað var til máls þessa hafa aðilar þess og umbjóðendur þeirra haldið deilum sínum áfram og hafa þær tekið á sig enn fleiri myndir. Hér verða þó ekki rakin frekari atvik en þau sem lágu til grundvallar kvörtuninni.

 

 

II.

Kærendur krefjast þess að kærði verði áminntur og beittur viðurlögum samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.  Telja kærendur að kærði hafi einkum brotið gegn 2. mgr. 8. gr. 25. gr. 27. gr. og 30. gr. siðareglna lögmanna. Nánar tiltekið telja kærendur að brot kærða hafi falist í neðangreindri háttsemi:

  • Að samkenna kærendur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem þeir gæta fyrir skjólstæðing.
  • Hótunum um málsóknir og að gera kærendur persónulega ábyrga.
  • Athugasemdir um kynhneigð og einkalíf kærenda.
  • Ómálefnalega gagnrýni og dónaskap.

Hafi viðbrögð kærða við hagsmunagæslu þeirra fyrir umbjóðendur sína verið lítt sæmandi lögmanni og lögmannsstéttinni.

Kærði hafi samsamað kærendur umbjóðendum sínum þrátt fyrir að þeir hafi ítrekað beðið hann að hætta því. Þá hafi kærði margsinnis hótað þeim málssóknum vegna bréfa sem þeir skrifuðu fyrir hönd umbjóðenda sinna og hótað að gera þá persónulega ábyrga. Tilgreina kærendur ýmis dæmi um það að kærði hafi samsamað þá og umbjóðendur þeirra í textum. Þá benda þeir á að kærði hafi boðað til húsfundar í húsfélagi í eigu kærða og umbjóðenda þeirra. Þeir hafi þó verið boðaðir á fundinn persónulega og áformað að að ræða vinnubrögð og framgöngu þeirra fyrir umbjóðendur sína. Margoft hafi kærandi borið á kærendur persónulega að þeir væru sjálfir að ljúga upp þeim ávirðingum sem þeir hafi f.h. umbjóðenda sinna sett fram. Hafi kærði svarað athugasemdum og beiðnum um að kærði gerði greinarmun á þeim og umbjóðendum þeirra með því að fullyrða að „þú berð ábyrgð á þínum framburðum persónulega en ekki umbjóðandinn". Hafi kærði gengið svo langt að kæra þá til lögreglu fyrir þær staðhæfingar sem þeir hafi sett fram fyrir hönd umbjóðenda sinna. Þá haldi kærði áfram að samkenna kærendur umbjóðendum þeirra í greinargerð sinni til nefndarinnar og gangi svo langt að fullyrða að þeir hafi mætt á húsfund sem aðilar, þegar augljóst sé að þeir voru þar mættir samkvæmt beiðni umbjóðenda sinna. Kærandi S hafi mætt á húsfund fyrir félagið B og greitt þar atkvæði f.h. umbjóðandans í samræmi við óskir umbjóðandans. Kærði L hafi verið starfsmaður fundarins.

Kærði hafi margítrekað hótað kærendum persónulegum afleiðingum ef þeir drægju ekki í land í hagsmunagæslu sína fyrir umbjóðendur sína. Hann hafi krafist þess að þeir greiddu honum persónulega málskostnað í ágreiningsmáli fyrir úrskurðarnefndinni um endurgjald kærða fyrir lögmannsstörf fyrir Þ, sem þá var orðinn umbjóðandi kærenda.

Kærði hafi margsinnis sýnt þeim dónaskap og virðingarleysi, svo sem fram lögð skeyti hans og bréf sýni. Hann hafi komið á skrifstofu þeirra og ausið yfir þá svívirðingum og móðgunum. Kærði hafi einnig ítrekað viðhaft athugasemdir bæði í ræðu og riti  um kynhneigð kærenda, hjónaband þeirra og einkalíf, sem séu ósmekklegar og óviðeigandi og algjörlega óviðkomandi þeim málum sem þeir tóku að sér fyrir umbjóðendur sína. Hann hafi hringt í kæranda L og spurst fyrir um kynhneigð hans og hvort hann ætti kærustu eða kærasta og fleira í sama dúr. Hafi L neitað að svara þessum spurningum og spurt á móti hvað þetta kæmi málinu við. Þessi framkoma kærða hafi svo haldið áfram í máli þessu, sbr. ummæli kærða um hjónaband kærenda í greinargerð sinni.

Kærendur telja að kærði hafi ýmist komið fram í samskiptum við þá sem aðili eða sem lögmaður umbjóðanda síns, Ö. Hann hafi sjálfur ekki gert neinn greinarmun á þessu tvennu og hljóti í öllu falli að bera ábyrgð á framkomu sinni sem lögmaður í samskiptum við þá. Þá þurfi kærði að gæta að heiðri lögmannsstéttarinnar í allri framgöngu sinni.

 

 

III.

Kærði krefst þess að vera sýknaður af öllum ávirðingum og kærendur verði úrskurðaðir til að greiða honum málskostnað með álagi, sbr. 3. mgr. 28. gr. laga um lögmenn, sbr. til hliðsjónar ákvæði 131. gr. laga um meðferð einkamála.

Kærði rekur í málatilbúnaði sínum hvernig þær deilur horfa við honum sem mál þetta er sprottið af. Hann hafi komist að því við komu til landsins nálægt áramótum 2015/2016 að Þ, umbjóðandi hans til skamms tíma og sameigandi hans að hesthúsinu hafði ásamt dóttur sinni leigt húsið út til tamningafólks, þ.á.m. hans hluta. Hafi þær svarað athugasemdum hans vegna þessa með yfirgangi. Þá hafi þær ekki greitt það sem þeim bar vegna hússins og gengið í eigur hans þar. Honum hafi blöskrað þetta og m.a. sagt upp viðskiptasambandi sínu við Þ um lögmannsstörf hans.

Þegar málið rataði á borð kærenda hafi viðbrögð þeirra ekkert tillit tekið til þessara staðreynda málsins. Kærðu hafi kvartað til úrskurðarnefndar LMFÍ undan áskilinni þóknun hans vegna starfa fyrir Þ, þrátt fyrir að hann hafi hvorki verið búinn að gera henni reikning né að áskilja sér neina ákveðna fjárhæð. Skömmu síðar hafi kærandinn S handsalað samkomulag við kærða um að hann myndi fá greitt fyrir vinnu sína, án þess að nefna að hann væri búinn að senda erindið til úrskurðarnefndar. Þar hafi verið bornar ýmsar rangar sakir á kærða um efni sem kærandinn mátti vita betur um.

Kærði telur að kærendur hafi jafnframt, eftir að þeir tóku við málinu borið hann ranglega sökum um dýraníð og lélegt skepnuhald í hans einkalífi. Þeir hafi talið við hæfi að upplýsa um samband hans við unnustu sína, þótt hann sé nýlega fráskilinn, um leið og þeir telji sjálfir að þeir beri enga ábyrgð hvor á öðrum og hjónaband þeirra sé þeirra einkalíf. Allt sem frá þeim hafi komið í málinu sé í ósamræmi við fyrirliggjandi gögn þess. Þeir hafi haldið húsfund í hesthúsinu á eigin skrifstofu og eingöngum með umbjóðendum sínum, sem hafi verið brotlegir en skáldað aðra frásögn. Þeir hafi ekki mætt á neina aðra fundi og ekki svarað í síma og einungis einstaka bréfi.  Kærði fullyrðir að kærandinn L hafi gengist við því í vitna viðurvist að hafa skáldað upp frásagnir á húsfundinum.  Kærendur hafi svo stefnt sér og krafist útburðar á honum úr eigin húsi með vísan til þessara upplognu frásagna á fundinum, án þess að láta svo lítið að gera sér viðvart fyrirfram. Kærendur hafi þrátt fyrir þessar stórfelldu árásir hafa skorast undan því að hitta kærða til að ræða málin og aldrei fengist til að svara neinu um þær ávirðingar sem samþykktar voru á húsfundinum sem haldinn var á skrifstofu þeirra. Kærði sakar kærendur jafnframt um að haf sent „öskrandi 2 syni Þ á undirritaðan sem varð að hitta þá á laugardagskveldi, að þeirra beiðni í dimmu húsasundi, en gat samið um afskekkt bílaplan við Knarrarvog." Viðbrögð kærenda þegar þeim var sagt frá þessu hafi verið þau að bjóða kærða 50% af greiddu kaupverði fyrir eignarhlut hans í húsinu.

Þannig hafi kærendur reynt að eyðileggja fyrir kærða, bæði í starfi og einkalífi. Telur kærði ásakanir í sinn garð um dónaskap harla léttvægar í þessu samhengi. Telur hann jafnframt að kærendur séu „ómerkilegustu menn sem ég hef á ævinni kynnst". Metnaður hans standi til þess að orð standi og að virðing skuli borin fyrir sannleikanum.

Kærði telur kærandann S ranglega koma fram fyrir hönd húsfélagsins. Þá hafi kærendur sjálfir samkennt sig umbjóðendum sínum með því að hafa í frammi rangar staðhæfingar fyrir þeirra hönd. Segir kærði m.a. um þetta atriði í greinargerð sinni „..skilja kærendur ekki að þegar þeir mæta sem aðili - Sv/B ehf. þá er S orðinn aðilinn B ehf og ber eftir atvikum persónulega ábyrgð á orðum sínum. Þarna er hann ekki lögmaður að vinna fyrir umbjóðanda, hann er orðinn umbjóðandinn og samþykkti rangar sakargiftir."

 

 

Niðurstaða.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga, nr. 77/1998. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

Í 1. gr.  siðareglna lögmanna kemur fram að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Í 2. mgr. 8. gr. reglnanna kemur fram að lögmanni ber að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.

Í IV. kafla siðareglnanna er fjallað um samskipti lögmanna innbyrðis.

Þar er áréttað í 25. gr. að lögmenn skulu hafa góða samvinnu sín á milli og sýna hver öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu.

Í 27. gr. reglnanna segir að lögmaður megi einungis hafa uppi gagnrýni á störf annars lögmanns á málefnalegum grundvelli, og skuli forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það, sem málefnið gefur ástæðu til.

Þá segir í 30. gr. siðareglnanna að lögmaður megi ekki hóta lögmanni gagnaðila kæru eða lögsókn í því skyni að fá hann til að aðhafast eitthvað eða láta eitthvað ógert í máli gagnaðila.

Þegar kærendur sendu kærða fundarboð og síðar fundargerð, var það gert vegna stöðu hans sem eiganda í umræddu húsi. Hann var því gagnaðili umbjóðenda þeirra í þeirri deilu sem upp var komin. Kærði ákvað að gæta sjálfur hagsmuna sinna í deilunni og brást við með því að senda svör og erindi, sem ýmist voru send úr netfangi lögmannsstofu hans eða á bréfsefni hennar. Í öllum þessum sendingum auðkenndi kærði sig sérstaklega sem hæstaréttarlögmann. Þá áréttaði kærði í þessum samskiptum að hann væri lögmaður og tók auk þess að sér að gæta hagsmuna Ö í deilunum. Hluti af deilunum sem uppi voru sneri að uppgjöri fyrir lögmannsstörf kærða. Með hliðsjón af öllu þessu verður að fallast á það með kærendum að kærði hafi komið fram sem lögmaður í þessum deilum og verið bundinn af siðareglunum í þeim störfum sínum.

Þrátt fyrir þetta verður ekki með öllu litið fram hjá því við úrlausn málsins og mat á framgöngu kærða að í þeim deilumálum sem hér eru til umfjöllunar var sótt mjög hart að kærða persónulega og unnustu hans. Þannig virðist nefndinni út af fyrir sig skiljanlegt að kærða hafi mislíkað að kærandinn S skyldi ekki freista þess að ræða við hann áður en hann stofnaði f.h. umbjóðandans til ágreiningsmáls um þóknun sem ekki hafði verið reikningsfærð. Kærði og unnusta hans voru borin þungum sökum. Þess var síðan freistað að nýta meirihlutaafl atkvæða í húsfélagi til að knýja hann til að selja eign sína, með vísan til þessara ásakana.Þessi framganga var enn harkalegri þegar litið er til tölvuskeytis kærða frá febrúarmánuði þar sem hann freistaði þess að greina ágreiningsefni og bera klæði á vopnin. Ekkert af þessu afsakar þó það orðfæri sem kærði beitti í viðbrögðum sínum.

Á hinn bóginn hefur kærða ekki tekist að útskýra af hverju hann tók frá upphafi þann pól í hæðina að kenna kærendum um þessar aðfarir. Ekkert er fram komið um annað en að þeir hafi tekið að sér hagsmunagæslu fyrir gagnaðila kærða í deilumáli og hagað framgöngu sinni í því í samræmi við óskir umbjóðenda sinna. Ef umbjóðendurnir töldu framgöngu kærða og fólks á hans vegum í hesthúsinu óásættanlega, var það í þeirra valdi að fylgja þeirri sannfæringu sinni eftir með því að óska eftir því við kærðu að þeir tækju að sér að boða til húsfundar, stýra fundi, mæta fyrir hönd einstakra eigenda og halda þessari afstöðu þar fram með bókunum. Kærði hlýtur að koma að sjónarmiðum sínum í dómsmáli því sem nú hefur verið höfðað til að knýja hann til sölu eignarhlutans og byggir á þessari afstöðu gagnaðilanna.

Sú afstaða kærða að hann getið litið á kærendur og umbjóðendur þeirra sem eitt og hið sama kemur ítrekað fram í samskiptum hans við kærendur og í málflutningi hans fyrir nefndinni.  Er þetta í brýnni andstöðu við fyrrnefnt ákvæði 8. gr. siðareglna lögmanna og meginsjónarmið um sjálfstæði lögmanna. Þegar þessi afstaða birtist í ummælum á borð við þau sem að ofan eru rakin í þá veru að þegar lögmenn mæti á fund f.h. aðila, þá séu þeir þar með orðnir aðilinn, er um að ræða  grundvallarmisskilning á stöðu og hlutverki lögmanna.

Að ofan eru rakin fjölmörg ummæli sem kærði lét frá sér fara í samskiptum sínum við kærendur. Er margt í því sem þar kemur fram rakinn dónaskapur, sem ekki fær samræmst ákvæðum IV. kafla siðareglna um samskipti lögmanna innbyrðis og er lögmannastéttinni ekki sæmandi. Þá telur nefndin að jafnvel þótt kærði haldi því fram að sér hafi borist til eyrna frá öðrum einstaklingum tiltekin ósæmileg ummæli, verði hann að gæta að lágmarksmannasiðum við framsetningu þeirra. Það er þannig algjörlega óboðlegt að lögmaður beri á borð slík óstaðfest  ummæli á borð við þau sem rakin eru í málavaxtalýsingu. Fær sú framganga með engu móti samrýmst ofangreindu ákvæði 2. gr., 25. gr. og 27. gr. siðareglna lögmanna. Áréttar nefndin að margt af því sem kærði lét frá sér er ólíkt nokkru því sem áður hefur verið fjallað um varðandi samskipti lögmanna eða tíðkast á þeim vettvangi.

Að ofan er rakið að nefndin telur að ekki sé unnt að fallast á þær málsástæður kærða að kærendur beri ábyrgð á þeirri aðför sem gerð hefur verið að honum. Í því ljósi verður þá einnig að telja að hótanir kærða um að draga kærendur persónulega til ábyrgðar, séu í andstöðu við 30. gr. siðareglnanna.

Í málatilbúnaði aðila er fjallað nokkuð um frekari deilur þeirra og umbjóðenda þeirra, eftir að stofnað var til máls þessa. Kvörtun kærenda afmarkar grundvöll máls þessa. Hún er skýrlega fram sett og takmörkuð við tiltekin umkvörtunarefni. Telur nefndin óhjákvæmilegt að takmarka sakarefnið í úrskuði þessum við það sem þar er fjallað um. Verður því ekkert fjallað hér um þau samskipti aðila sem síðar komu til.

Brot kærða gegn siðareglum lögmanna eru stórfelld. Hann hefur ekki áður sætt áminningu nefndarinnar. Þá þykir verða að hafa nokkra hliðsjón af því, svo sem að ofan greinir að í deilum þeim sem hér er fjallað um var sótt hart að honum persónulega. Í því ljósi verður látið við það sitja að veita honum áminningu fyrir brot sín.

Rétt þykir að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, D hrl. sætir áminningu vegna brota gegn 2. gr., 2. mgr. 8. gr., 25. gr. 27. gr. 30. gr. siðareglna lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Valborg Þ. Snævarr hrl., formaður

Kristinn Bjarnason hrl.

 

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson

 

Sératkvæði

Einars Gauts Steingrímssonar hrl.

Ég er sammála meirihlutanum um þá niðurstöðu að kærði sæti áminningu og um forsendur að öðru leyti en því sem á eftir greinir.

Sótt var á kærða sem fasteignareiganda og þess krafist að hann seldi eignarhluta sinn í fasteign vegna eigin hegðunar og enn frekar vegna hegðunar unnustu hans. Þeir málavextir eru umdeildir milli aðilanna. Í 27. gr. l. nr. 77/1998 takmarkast lögsaga nefndarinnar við störf lögmanna. Þegar málsýfingar eru hafðar uppi gagnvart einstaklingi er hann aðili hvernig sem á málið er litið. Gæti hann hagsmuna sinna sjálfur fellur sú hagsmunagæsla ekki undir lögmannsstörf. Það breytist ekki þótt hann sé með virk lögmannsréttindi og heldur ekki þótt hann skreyti sig með þeim og noti bréfsefni skrifstofu sinnar og annað slíkt. Þessari aðstöðu verður ekki jafnað til þess að lögmaður sé fyrirsvarsmaður lögaðila og kýs að koma fram sem lögmaður enda væri þar um tvær persónur að lögum að ræða. Verði lögmaður sem fer með eigin mál ekki talinn hafa aðilastöðu myndi hann vera undir ýmsum ákvæðum siðareglna s.s. 26. gr. Það yrði örðugt í framkvæmt í samskiptum fasteignareigenda innbyrðis. Lögmaður sem stæði persónulega í forsjárdeilum og umgengnisdeilum þyrfti þá að taka tillit til þessa ákvæðis í samskiptum við hitt foreldrið sem þá gætu orðið afar óþjál. Menn eru ekki bæði aðilar og lögmenn. Sterkari rök hníga að því að ætla mönnum aðilastöðu þegar á þá er sótt útaf málefnum sem ekki tengjast lögmannsstörfum þeirra. Allur kafli IV greinar siðareglna miðar við tvo aðila, lögmann og skjólstæðing og reistur á forsendum slíks fyrirkomulags. Á hinn bóginn verða störf lögmanna ekki túlkuð svo þröngt að Úrskurðarnefnd lögmanna geti ekki áminnt þá sem hafa virk lögmannsréttindi fyrir að gæta ekki að heiðri stéttarinnar í skilningi 2. gr. siðareglna þegar þeir auðkenna sig með starfsréttindunum í ræðu, riti eða öðrum athöfunum. Er mönnum í lófa lagið að geta þeirra ekki sérstaklega þegar svo ber undir. Er enda um að ræða löggildingu til starfa þar sem saman fara réttindi og skyldur enda starfsheitið bundið við þá löggildingu. Með vísan til röksemda meiri hluta nefndarmanna verður að telja að hegðun kærða í hagsmunagæslu fyrir sjálfan sig fari gegn 2. gr. siðareglnanna enda var hann óspar á að minna á lögmannsréttindi sín og starfsheiti í orðum sínum og gjörðum. Að auki kom kærði fram sem lögmaður f.h. unnustu sinnar og var þar í lögmannsstarfi í skilningi 27. gr. l. nr. 77/1998. Sömuleiðis tengist málið deilum um þóknun lögmannsins gagnvart fyrrum umbjóðanda hans og er að því leyti í beinum tengslum við störf hans sem lögmanns.

 

Fallist er á það með kærða að hann hafði boðið uppá að leita sátta áður en brugðið var á það ráð að halda fund í húsfélaginu. Þann sáttavilja ítrekaði hann og vildi fá fundinn færðan til að geta sótt hann en hann var ákveðin kl. 9 að morgni á skrifstofu kærenda. Fundargerð þess fundar lýsir áformum um að þvinga fram sölu á eignarhlut kærða í fasteign sinni og alvarlegum lýsingum á meintri hegðan kærða en sérstaklega unnustu hans. Var honum misboðið þótt ósannað sé að fullyrðingar í fundargerð séu annað og meira en lýsingar umbjóðenda kærenda sem þeir  hafi gefið lögmönnum sínum. Ekkert af þessu getur þó réttlætt orð kærða. Því síður að draga einkalíf lögmanna (kærenda) inn í deiluna sem verður að teljast óviðeigandi og ósmekklegt.

 

Þegar allt þetta er virt er fallist á þá niðurstöðu meirihluta nefndarinnar að kærði sæti áminningu.