Mál 17 2017

Ár 2017, 9. nóvember 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2017:

H,

gegn

B hrl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 27. mars 2017 erindi kæranda, H, en í því er kvartað yfir því að kærði, B hæstaréttarlögmaður, með starfsstöð að D, Reykjavík, hafi brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 um lögmenn og siðareglum lögmanna.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kæranda, dags. 31. mars 2017, sem kærði fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að störfum kærða og beitingu viðurlaga samkvæmt 27. gr. laga nr. nr. 77/1998. Var sérstaklega tilgreint í bréfinu að ekki yrði fjallað um kröfur kæranda sem féllu utan við starfsvið nefndarinnar.

Þann sama dag var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar og barst hún þann 10. apríl 2017. Var kæranda send greinargerð hans til athugasemda með bréfi dags. 12. apríl 2017. Hinn 26. apríl 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 2. maí 2017. Svar kærða barst 11. maí 2017 og var það sent til kæranda með bréfi dags. 16. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi vera fyrirsvarsmaður einkahlutafélagsins E sem er eigandi nánar tilgreindrar fasteignar að F með fastanúmerið xxx-xxxx. Kærði annaðist hagsmunagæslu fyrir hönd eiganda annarrar fasteignar að F, þ.e. G vegna fasteignar með fastanúmerið xxx-xxxx, vegna ágreinings um þinglýsingu eignarheimilda á framangreindar fasteignir.

Forsaga málsins er sú að umbjóðandi kærða fékk útgefið afsal vegna fasteignarinnar að F þann 11. nóvember 2015. Var skjalið móttekið til þinglýsingar þann 4. janúar 2016 af hálfu sýslumanns og var það innfært þann sama dag. Áður hafði kaupsamningi vegna eignarinnar verið þinglýst sem heimildarskjali á eignina.

Kærandi hafði áður gert athugasemdir við þinglýsingu heimildarskjala á fasteignina að F við viðkomandi sýslumannsembætti. Var úr þeim athugasemdum leyst með úrskurði embættisins, dags. x. október 2015, sem liggur fyrir nefndinni. Var efni úrskurðarins jafnframt ítrekað í bréfi sýslumannsembættisins til kæranda, dags. 11. janúar 2016.

Í bréfi kæranda til sýslumanns, dags. 3. apríl 2016, var vísað til þess að samkvæmt þinglýsingarvottorði hefði embættið tekið á móti afsali til þinglýsingar vegna fasteignar að F, fnr. xxx-xxxx, þann 4. janúar 2016 og að samkvæmt vottorðinu byggði eignarheimild þinglýsts eiganda, umbjóðanda kærða, á tilgreindu afsali. Gerði kærandi þá kröfu í bréfinu að afsalinu yrði aflýst af eigninni af hálfu viðkomandi sýslumannsembættis og að því yrði ekki þinglýst að nýju sem eignarheimild fyrr en eignaskiptayfirlýsingu hefði verið þinglýst á viðkomandi fjöleignarhús að F. Var krafan sett fram með vísan til ákvæða þinglýsingalaga nr. 39/1978 og laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Með bréfi sýslumanns til umbjóðanda kærða, dags. 4. apríl 2016, var vísað til þess að borist hefði ábending um að möguleg þinglýsingarmistök hefðu átt sér stað við þinglýsingu afsals á fasteignina að F, fnr. xxx-xxxx, þann 4. janúar 2016. Var á það bent í bréfinu að samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 26/1994 mætti ekki þinglýsa eignayfirfærslu varðandi einstaka eignahluta í fjöleignarhúsum nema fyrir lægi þinglýst eignaskiptayfirlýsing en að svo væri ekki vegna fjöleignarhússins að F. Var umbjóðanda kærða veitt tækifæri til að gera athugasemdir eða bæta úr skorti á eignaskiptayfirlýsingu áður en ákvörðun yrði tekin um leiðréttingu þinglýsingar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 39/1978.

Með athugasemdum kærða fyrir hönd umbjóðanda aðilans, dags. 30. júní 2016, sem beint var til sýslumanns, var þess aðallega krafist að þinglýsing afsala á báðum eignarhlutum fasteignarinnar að F stæði óbreytt. Til vara var gerð sú krafa að ákvæði 27. gr. laga nr. 39/1978 um leiðréttingu þinglýsingar yrði talið eiga við um þinglýsingu afsala vegna beggja eignarhluta fasteignarinnar að F þannig að aðilar sætu við sama borð um nauðsyn eignaskiptasamnings. Var því lýst að kröfur umbjóðanda kærða byggðu m.a. á því að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga yrði beitt við meðferð málsins og að meðhöndla yrði afsal kæranda um efri hæð og ris í samræmi við hans eigin málatilbúnað og kröfur. Þá var meðal annars eftirfarandi tekið fram í efni athugasemdanna:

Ekki verður hjá því komist en að benda á að H fyrirsvarsmaður E ehf. á í persónulegum deilum við helstu nágranna sína og hefur m.a. sent kvartanir til Sveitarfélags Y um alls kyns skipulagsmál því hann telur nágranna ekki þekkja lagastafi eins og hann og sama eigi m.a. við um skipulags- og byggingarfulltrúa.

Þessar kvartanir eru því vegna persónulegrar óvildar til nágranna og styðjast ekki við lögmæt sjónarmið og því er ekkert mark takandi á þessum málatilbúnaði E ehf.

Lúta kvörtunarefni kæranda í máli þessu að framangreindum ummælum í athugasemdum þeim sem kærði sendi til sýslumanns í þágu umbjóðanda síns þann 30. júní 2016.

Með úrskurði sýslumanns, dags. x. febrúar 2017, var þinglýsing á framangreindu afsali frá 4. janúar 2016 felld úr gildi og eigendagluggi eignarinnar uppfærður á þann veg að umbjóðandi kærða var skráður sem kaupsamningshafi en fyrri eigandi sem afsalshafi. Var úrskurðarorð svohljóðandi:

            „Skjal nr. xxx-x-xxxxxx/2016 er vísað frá þinglýsingu.

Gerð er leiðrétting á eigendaskráningu á íbúðinni F, íbúð 01-0101, fnr xxx-xxxx, á þann veg að G kt. xxxxxx-xxxx er skráður kaupsamningshafi, en J ehf. kt. xxxxxx-xxxx er skráð afsalshafi.“

Var vakin athygli á því í úrskurðinum að unnt væri að skjóta honum til dómstóla samkvæmt 3. gr. laga nr. 39/1978 innan fjögurra vikna frá móttöku upplýsinga um hann.

Kærði í máli þessu beindi kæru til Héraðsdóms Y fyrir hönd síns umbjóðanda, dags. x. mars 2017, vegna framangreinds úrskurðar sýslumannsembættisins frá x. febrúar 2017. Var gerð sú krafa í kærunni að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi og að umrætt afsal yrði fært að nýju í þinglýsingabækur. Með kærunni fylgdi meðal annars það bréf sem kærði hafði sent fyrir hönd umbjóðanda aðilans til sýslumanns, dags. 30. júní 2016, sem áður er lýst.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum munu gögn framangreinds kærumáls fyrir Héraðsdómi Y hafa verið send til kæranda í máli þessu með tölvubréfi þann 10. mars 2017. Mun ágreiningsmálið hafa verið rekið fyrir Héraðsdómi Y sem héraðsdómsmálið nr. x-x/2017.

II.

Í kvörtun kæranda er því lýst að hún beinist að meintum ærumeiðingum samkvæmt 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í lögmannsstörfum kærða auk þess sem hann hafi viðhaft alvarlegt frávik frá góðum lögmannsháttum samkvæmt nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 77/1998 og siðareglna lögmanna. Gerir kærandi kröfu um að kærði verði beittur þyngstu viðurlögum sem lög og reglur leyfa. Þá er þess jafnframt krafist að kærða verði gert að biðja kæranda opinberlega og skriflega afsökunar vegna hinna meintu ærumeiðinga.

Í kvörtun kæranda er vísað til þess að kæranda hafi borist málsskjöl frá Héraðsdómi Y í málinu nr. x-x/2017 þann 10. mars 2017 en málið varði kæru vegna ákvörðunar þinglýsingarstjóra um að vísa skjali frá þinglýsingu. Hafi E ehf. átt engan þátt í því máli utan þess að gera athugasemd við þinglýsingarstjóra um brot á reglum um þinglýsingar.

Við yfirferð yfir gögn málsins kveðst kærandi hafa séð bréf ritað af kærða, dags. 30. júní 2016, sem hafi innihaldið svívirðilegar ærumeiðingar í garð kæranda. Hafi bréfinu verið beint til nánar tilgreindra lögfræðinga hjá embætti sýslumanns og það síðan lagt fram sem dómsskjal í Héraðsdómi Y í áðurnefndu ágreiningsmáli. Með þeirri framlagningu hafi bréfið orðið að opinberu skjali.

Vísar kærandi til þess að hin svívirðulega ærumeiðing hafi falist í eftirfarandi ummælum í bréfinu:

Ekki verður hjá því komist en að benda á að H fyrirsvarsmaður E ehf. á í persónulegum deilum við helstu nágranna sína og hefur m.a. sent kvartanir til Sveitarfélags Y um alls kyns skipulagsmál því hann telur nágranna ekki þekkja lagastafi eins og hann og sama eigi m.a. við um skipulags- og byggingarfulltrúa.

Þessar kvartanir eru því vegna persónulegrar óvildar til nágranna og styðjast ekki við lögmæt sjónarmið og því er ekkert mark takandi á þessum málatilbúnaði E ehf.

Byggir kærandi á að um sé að ræða svívirðilega ærumeiðingu sem samræmist alls ekki góðum lögmannsháttum svo sem þær séu greindar í siðareglum lögmanna. Kveðst kærandi ekki kannast við persónulega óvild í garð nokkurs manns. Kærandi sé hins vegar löghlýðinn maður sem standi á sínum rétti. Leggur kærandi þunga áherslu á að hann hafi ekki séð framangreint bréf fyrr en þann 10. mars 2017 en þá hafi það verið fyrir augum annarra manna frá 30. júní 2016.

Um frávik frá góðum lögmannsháttum í máli þessu vísar kærandi til 2. gr., 2. mgr. 8. gr. og 34. siðareglna lögmanna sem og til 27. laga nr. 77/1998, sbr. einnig 1. mgr. 14. gr. laganna.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna málatilbúnaðar kærða fyrir nefndinni vísaði aðilinn til þess að hvergi hafi komið fram í umþrættum athugasemdum kærða, dags. 30. júní 2016, að efni þeirra og málatilbúnaður væri ekki kærða sjálfs enda ekki sérstaklega tiltekið að verið væri að túlka afstöðu umbjóðanda aðilans. Samkvæmt því sé ljóst að kærði beri sjálfur og einn sök á hinum meintu ærumeiðingum.

Þá vísaði kærandi til þess að bréf sem hefðu fylgt með greinargerð kærða til úrskurðarnefndar væru uppspuni og heilaköst sem ættu sér enga stoð í raunveruleikanum. Ítrekaði kærandi jafnframt kröfu um að kærði yrði beittur viðeigandi viðurlögum vegna ósæmilegra og svívirðilegra ærumeiðinga í garð kæranda í bréfi, dags. 30. júní 2016. Var vísað til þess að heiður lögmannastéttarinnar væri að veði sem og almennt velsæmi, siðferði og æra kæranda.

III.

Kærði krefst þess í málinu að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að E ehf. og G eigi hvor sinn eignarhluta í fasteigninni að F og að ekki hafi verið gerður eignaskiptasamningur um fasteignina. Hafi G leitað til kærða í júnímánuði 2016 vegna þessa með beiðni um að kærði myndi sjá um mál gegn nágranna sínum, kæranda þessa máls. Hafi málið snúið að því að svara löglærðum fulltrúa í þinglýsingardeild sýslumanns fyrir 1. júlí 2017 vegna kröfu kæranda f.h. E ehf. um að afsali umbjóðanda kærða, sem þinglýst hafði verið á íbúð hans, yrði aflýst þar sem ekki lægi fyrir eignaskiptasamningur eða að finna aðra viðunandi lausn á málinu.

Vísar kærði til þess að umbjóðandi aðilans hafi verið hræddur við kæranda og vísar um það efni til framlagðs bréfs fyrir nefndinni, dags. 4. apríl 2017. Komi þar fram að kærandi sé orðljótur og með ómálefnalegar hótanir í garð umbjóðanda kærða.

Kveðst kærði hafa fyrst haft samband við hinn löglærða fulltrúa viðkomandi sýslumannsembættis, síðan við starfsmenn hjá byggingarfulltrúa, þá við K eignaskiptasérfræðing og fleiri svo að hann gæti áttað sig betur á því hvað stæði í vegi fyrir gerð eignaskiptasamnings sem væri öllum til hagsbóta.

Í kjölfar þess hafi kærði haft símasamband við kæranda og spurt hvort ekki væri unnt að leysa málið með því að nota eignaskiptasamning sem K hefði þegar gert um fasteignina. Er vísað til þess að kærandi hafi ekki haft áhuga á þeirri lausn þar sem hann hafi fyrst viljað fá úrlausn um það hvort farið hefði verið að lögum þegar skráningu neðri hæðar umræddrar fasteignar hefði verið breytt úr verslunar- og þjónustuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Fyrr hefði kærandi ekki áhuga á gerð eignaskiptasamnings.

Þar sem ekki hefði tekist að leysa málið með gerð og þinglýsingu eignaskiptasamnings hafi kærði þurft að skila athugasemdum til sýslumanns sem hann hafi gert með bréfi, dags. 30. júní 2016. Vísar kærði til þess að í stað þess að rekja illindi sem umbjóðandi aðilans sagði stafa frá kæranda hefði kærði eingöngu tekið fram í athugasemdunum að kærandi ætti í persónulegum illindum við nágranna sína og lagði fram hluta af bréflegum samskiptum kæranda við viðkomandi sveitarfélag því til staðfestingar. Hafi kærði ákveðið að tilgreina ekki þær ávirðingar sem umbjóðandi aðilans, faðir hans og fleiri hefðu borið á kæranda.

Í málatilbúnaði kærða er vísað til þess að hann þekki kæranda ekki neitt persónulega og að hann hafi hvorki viljað særa hann né meiða með orðum. Hins vegar hafi umbjóðandi kærða og hans ættmenni borið kæranda mjög illa söguna og hafi kærði reynt að koma því að með eins kurteislegum hætti og unnt hefði verið í tilgreindum athugasemdum til embættis sýslumanns.

Þá vísar kærði til þess að hann hafi eingöngu verið að lýsa skoðunum umbjóðanda síns og vilji ekki vera samsamaður þeim skoðunum. Hins vegar verði að leggja það til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi eigi í nágrannadeilum.

Í viðbótarathugasemdum kærða var vísað til þess að athugasemdir hans til sýslumanns, dags. 30. júní 2016, sem hann sendi fyrir hönd síns umbjóðanda, hafi hvorki verið opinbert bréf né ætlað til opinberrar birtingar eins og kærandi virðist misskilja. Það að segja hið augljósa að aðilar sem sannanlega ættu í ágreiningi stæðu í nágrannadeilum gæti auk þess aldrei við þessar aðstæður talist ærumeiðing eða svívirða miðað við það sem á undan hefði gengið í samskiptum aðila.

Þá bendir kærði á að héraðsdómur hafi fallist á kröfur umbjóðanda kærða í því dómsmáli sem rekið hafði verið. Auk þess hafi umbjóðandi kærða, auk annarra aðila, lýst mjög slæmum samskiptum við kæranda við upphaf málsins. Hafi kærði haft þá vitneskju undir höndum þegar fyrrgreint bréf til viðkomandi sýslumannsembættis var ritað þann 30. júní 2016. Þrátt fyrir það hafi ekkert verið tíundað um þau samskipti í bréfinu heldur hafi einungis verið vísað til nágrannadeilu.

Með vísan til alls framangreinds krefst kærði þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Niðurstaða

                                                                          I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

II.

Samkvæmt 2. gr. siðareglna lögmanna skal lögmaður gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. siðareglnanna ber lögmanni að forðast að samkenna sig skjólstæðingi sínum og hefur kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum, sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn.

Þá er tiltekið í 34. gr. siðareglnanna að lögmaður skuli sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitsemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

Eins og áður greinir lýtur kvörtun kæranda að efni í athugasemdum þeim sem kærði sendi til sýslumanns í þágu umbjóðanda síns þann 30. júní 2016 vegna boðaðrar ákvörðunar sýslumannsembættisins um þinglýsingarleiðréttingu samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 39/1978. Í tilgreindum athugasemdum var meðal annars tiltekið að kærandi hefði átt í persónulegum deilum við helstu nágranna sína og að kvartanir aðilans vegna þinglýstra skjala væru settar fram vegna persónulegrar óvildar hans til nágranna en styddust ekki við lögmæt sjónarmið. Byggir kærandi á að í efni athugasemdanna að þessu leyti hafi falist svívirðileg ærumeiðing sem brjóti gegn góðum lögmannsháttum og siðareglum lögmanna.

Um þetta efni er til þess að líta að kærandi gerði þá kröfu í bréfi til embættis sýslumanns, dags. 3. apríl 2016, að afsali umbjóðanda kærða vegna fasteignarinnar að F yrði aflýst af eigninni og því ekki þinglýst að nýju sem eignarheimild fyrr en eignaskiptayfirlýsingu hefði verið þinglýst á viðkomandi fjöleignarhús. Beindi kærði hinum umþrættu athugasemdum til sýslumanns þann 30. júní 2016 fyrir hönd síns umbjóðanda í kjölfar þess að umbjóðandanum hafði verið veitt tækifæri til að gera athugasemdir eða bæta úr skorti á eignaskiptayfirlýsingu áður en ákvörðun yrði tekin um þinglýsingarleiðréttingu af hálfu sýslumannsembættisins. Samkvæmt því verður að leggja til grundvallar að ágreiningur hafi verið á milli kæranda og umbjóðanda kærða um þinglýsingu eignarheimilda á fasteignina að F.

Í málatilbúnaði kærða fyrir nefndinni hefur aðilinn vísað til þess að í tilgreindum athugasemdum frá 30. júní 2016 hafi hann aðeins verið að lýsa skoðunum umbjóðanda síns og að hann vilji ekki vera samsamaður þeim skoðunum. Með hliðsjón af þeim málatilbúnaði kærða sem og með vísan 2. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna sem áður er lýst, þar sem meðal annars er kveðið á um að lögmaður hafi kröfu til að vera ekki samkenndur þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hann gætir fyrir skjólstæðing sinn, er ekki unnt að leggja til grundvallar að efni hinna umþrættu athugasemda sem kærði sendi til sýslumanns þann 30. júní 2016 fyrir hönd síns skjólstæðings hafi falið í sér persónulegar athugasemdir, skoðanir eða sjónarmið kærða sjálfs í garð kæranda.

Samkvæmt því og með hliðsjón af atvikum öllum og því sem að framan greinir, þ. á m. um fyrirliggjandi ágreining á milli kæranda og umbjóðanda kærða um þinglýsingu eignarheimilda vegna fasteignarinnar að F, er það mat nefndarinnar að kærði hafi ekki brotið gegn ákvæðum siðareglna lögmanna með einstökum ummælum í þeim athugasemdum til sýslumanns sem hér um ræðir. Samkvæmt því verður hvorki talið að kærði hafi  brotið gegn 2. eða 34. gr. siðareglna lögmanna í störfum sínum að þessu leyti né að hann hafi á annan hátt gert á hlut kæranda með háttsemi sinni. Þá fellur það utan við valdsvið nefndarinnar að leggja efnislegt mat á hvort brotið hafi verið gegn 234. og/eða 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með hinum umþrættu ummælum í athugasemdunum frá 30. júní 2016.

Ekki eru efni til að taka til skoðunar kröfu kæranda um að kærða verði gert að biðja kæranda opinberlega og skriflega afsökunar vegna hinna meintu ærumeiðinga og er þeirri kröfu vísað frá nefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, B hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kæranda, H, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Kröfu kæranda um að kærða verði gert að biðja kæranda opinberlega og skriflega afsökunar vegna ærumeiðinga er vísað frá nefndinni.

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson