Mál 12 2018

20. júní 2018, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2018:

A ehf.,

gegn

B lögmanni

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 3. apríl 2018 erindi kæranda, A ehf. en í því er vísað til ágreinings kæranda við kærða, B lögmann, um rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Með bréfi úrskurðarnefndar til kærða, dags. 4. apríl 2018, sem kærandi fékk afrit af, var upplýst um að litið væri svo á að erindi kæranda sneri að ágreiningi um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmanns eða fjárhæð þess samkvæmt 26. gr. laga nr. 77/1998. Með bréfinu var kærða veitt færi á að skila inn greinargerð vegna erindisins.

Greinargerð kærða barst þann 18. apríl 2018 og var hún send til kæranda til athugasemda með bréfi þann 23. sama mánaðar. Hinn 7. maí 2018 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar til kærða þann 8. sama mánaðar. Þann 24. maí 2018 bárust úrskurðarnefnd viðbótarathugasemdir og frekari gögn frá kærða og var tilkynning þess efnis, ásamt tilgreindum gögnum, send til kæranda með bréfi dags. 25. sama mánaðar auk þess sem upplýst var um að nefndin lyti svo á að gagnaöflun væri lokið. Ekki bárust frekari athugasemdir eða gögn frá málsaðilum og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins og atvikalýsingu aðila mun C, fyrirsvarsmaður kæranda, hafa tilkynnt til firmaskrár þann x. apríl 1980 að hann hygðist stofna fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð, þ.e. einkafirmað A. Mun viðkomandi firma hafa gefið út tvö skuldabréf í erlendum myntum til nánar tilgreinds sparisjóðs í nóvembermánuði 2005. Munu viðkomandi viðskiptabréf og skuldir þar að baki hafa verið tryggðar með tryggingabréfum sem þinglýst var á fasteignir í eigu D og E, þ.e. eiginkonu og sonar Pálma.

Fyrir liggur að þann x. janúar 2015 höfðaði H ehf. tvö dómsmál vegna hinna veðsettu eigna, þ.e. annars vegar mál á hendur D og hins vegar mál á hendur D. Voru þau mál þingfest í Héraðsdómi Y og rekin þar sem héraðsdómsmálin nr. E-xx/2015 og E-xx/2015. Var þess krafist í málunum að stefndu yrði gert að þola að fjárnám yrði gert í fasteignum þeirra fyrir skuld A við stefnanda samkvæmt nánar tilgreindum skuldabréfum, samtals að fjárhæð 98.941.250 krónur auk dráttarvaxta.

Ágreiningslaust er að fyrirsvarsmaður kæranda leitaði til kærða vegna tilgreindra málshöfðana með beiðni um að hann tæki til varna í málunum. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að kærði hafi áður sinnt lögmannsþjónustu í þágu fyrirsvarsmanns kæranda og hins eldra einkafirma sem áður greinir. Þá greinir aðila ekki á um að samkomulag hafi orðið um að kærandi myndi halda stefndu í málunum skaðlausum af öllum kostnaði vegna reksturs málanna fyrir dómi, þ. á m. vegna lögmannsþóknunar kærða, enda hafi sú lánafyrirgreiðsla sem málin hafi lotið að verið fengin í þágu atvinnurekstrar C, eiganda og fyrirsvarsmanns kæranda.

Eins og áður greinir tók kærði til varna í málunum fyrir héraðsdómi fyrir hönd stefndu en samkvæmt beiðni og á kostnað kæranda. Í greinargerðum stefndu, sem kærði undirritaði og lagði fram á dómþingi Héraðsdóms Y þann x. mars 2015, var þess aðallega krafist að málunum yrði vísað frá dómi en til vara að stefndu yrðu sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Voru tilgreindar greinargerðir kærða fyrir hönd stefndu allítarlegar og töldu hvor um sig alls 17 blaðsíður.

Með úrskurðum Héraðsdóms Y í málunum, uppkveðnum x. júní 2015, var kröfu stefndu um frávísun hafnað.

Krafa stefndu um sýknu í málunum var reist á ýmsum málsástæðum, þ. á m. aðildarskorti, fyrningu og ógildingarreglum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Með dómum Héraðsdóms Y, uppkveðnum x. desember 2015, var fallist á kröfur stefnanda á hendur stefndu og hinum síðarnefndu gert að greiða 250.000 krónur í málskostnað í hvoru tilviki. Bendir kærandi á að stefndu hafi auk greinargerðar lagt fram alls fjögur skjöl í málunum tveimur í héraði og að engar skýrslur hafi verið teknar af aðilum eða vitnum við aðalmeðferð málanna þann x. nóvember 2015.

Þann 29. desember 2015 sendi kærði tölvubréf til fyrirsvarsmanns kæranda með yfirskriftinni „Lögmannskostnaður“ en þar var því meðal annars lýst að áfallnar vinnustundir vegna dómsmála væru 96,75 klukkustundir. Tiltók kærði að hann hefði lagt mikla vinnu í dómsmálin auk þess sem allar mögulegar varnir hefðu verið hafðar uppi. Var því lýst að kærða þætti sjálfum að mikill kostnaður hefði fallið til vegna þeirrar vinnu og að hann væri reiðubúinn að sýna fulla sanngirni og tillitssemi við ákvörðun þóknunar.

Eftir uppkvaðningu dóma Héraðsdóms Y í málum nr. E-xx/2015 og E-xx/2015 mun kærði hafa höfðað vitnamál fyrir héraðsdómi fyrir hönd stefndu og fóru fimm skýrslutökur fram á þeim grundvelli dagana 2. og 13. júní 2016. Jafnframt liggur fyrir í málsgögnum að kærði leitaði álits annars tilgreinds lögmanns fyrir hönd kæranda og stefndu eftir að dómar héraðsdóms höfðu fallið vegna sakarefnis málanna.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærða hafa verið falið að áfrýja tilgreindum dómum héraðsdóms til Hæstaréttar og voru áfrýjunarstefnur gefnar út af því tilefni þann x. maí 2016. Voru málin þar rekin sem hæstaréttarmálin nr. xxx/2016 og xxx/2016. Ágreiningslaust er að ráðist var í umfangsmikla gagnaöflun vegna reksturs málanna fyrir Hæstarétti en málsgögn viðkomandi mála bera þess jafnframt skýr merki. Var þess aðallega krafist af hálfu áfrýjenda, sem skjólstæðinga kærða, að málunum yrði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinir áfrýjuðu dómar yrðu ómerktir og málunum vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar efnisdóma að nýja en til þrautavara að áfrýjendur yrðu sýknaðir af öllum kröfum í málinu. Voru varnir skjólstæðinga kærða nánar útlistaðar í greinargerðum þeirra til Hæstaréttar en hvor þeirra taldi alls 11 blaðsíður.

Þann 30. nóvember 2016 sendi kærði tvö tölvubréf til fyrirsvarsmanns kæranda. Annars vegar var þar upplýst að málin yrðu flutt í Hæstarétti þann x. janúar 2017. Hins vegar laut tölvubréf kærða að áföllnum vinnustundum vegna lögmannsþjónustu í tengslum við málareksturinn. Um það efni var tiltekið að efni tölvubréfs frá 29. desember 2015 væri óbreytt. Þá væri sú samantekt sem finna mætti í tölvubréfinu og tímagjald í samræmi við „taxta“ kærða en að aðilar skyldu síðan ræða um nánari útfærslu. Ljóst væri þó að vinna í málunum og útlagður kostnaður væri hvort tveggja „mjög mikið.“ Var tiltekið að útlagður kostnaður væri að fjárhæð 803.793 krónur, að vinnustundir á árinu 2016 væru alls 150,25 klukkustundir og tímagjald samkvæmt „taxta“ 24.500 krónur auk virðisaukaskatts. Þá væru ferðir/akstur að fjárhæð 48.000 krónur auk virðisaukaskatts. Lýsti kærði því að þetta væru „miklar tölur“ og að eftir stæði frá fyrra ári 676.507 krónur auk virðisaukaskatts. Kvað kærði ágætt ef aðilar gætu rætt málið í framhaldinu.

Kærði sendi á ný tölvubréf til fyrirsvarsmanns kæranda þann 6. desember 2016 þar sem vísað var til samtals aðila frá deginum áður. Með tölvubréfinu fylgdu áður útgefnir reikningar á hendur kæranda vegna lögmannsstarfa kærða nr. 1953, 1955, 1982 og 1992 og tiltekið að þeir hefðu allir verið gefnir út vegna dómsmálanna að öðru leyti en því að inni í þeim væri einnig 10 klukkustunda vinna vegna annarra mála. Var jafnframt tiltekið að vinnustundir að dómsmálunum fram til 31. mars 2015 hefðu verið samtals 56,25 klukkustundir og vinnustundir því til viðbótar fram til 31. desember 2015 alls 40,5 klukkustundir. Þá kvaðst kærði gera ráð fyrir að verja um það bil 40 klukkustundum í undirbúning og málflutning fyrir Hæstarétti en vísaði að öðru leyti til tölvubréfsins frá 30. nóvember 2016 um þetta efni. Tiltók kærði að hann vonaðist til að þetta myndi svara fyrirspurnum fyrirsvarsmannsins og óskaði eftir að hann yrði látinn vita ef svo væri ekki.

Með dómum Hæstaréttar x. febrúar 2017 í tilgreindum málum nr. xxx/2016 og xxx/2016 voru áfrýjendur, sem skjólstæðingar kærða, sýknaðir af kröfum stefnda í málunum á grundvelli fyrningar og stefnda gert að greiða þeim 1.000.000 krónur í málskostnað í hvoru tilviki. Fyrir liggur að kærði innheimti hinn dæmda málskostnað fyrir hönd viðkomandi málsaðila.

Fulltrúi kæranda sendi kærða tölvubréf þann 14. febrúar 2017 þar sem óskað var eftir samantekt kærða á lögfræðikostnaði í hvoru máli fyrir sig. Þá var jafnframt óskað eftir að í þeirri samantekt yrðu tilteknar þær greiðslur sem greiddar hefðu verið vegna málanna af hálfu kæranda. Kærði svaraði tilgreindri fyrirspurn næsta dag, 15. febrúar 2017, þar sem tekið var fram að málin hefðu verið rekin samhliða og varðað samkynja ágreining og því væri kærða ómögulegt að sundurliða lögfræðikostnaðinn á hvort mál fyrir sig. Kvaðst kærði telja rétt að líta svo á að kostnaðurinn skiptist að jöfnu á hvort mál fyrir sig væri á annað borð talin þörf á skiptingu hans á milli málanna. Þá vísaði kærði til þess tölvubréfs sem hann hafði sent til fyrirsvarsmanns kæranda þann 6. desember 2016.

Kærði sendi fyrirsvarsmanni kæranda nánari sundurliðun á áföllnum vinnustundum og kostnaði vegna lögmannsstarfa í tölvubréfi þann 21. apríl 2017. Fulltrúi kæranda svarði því tölvubréfi þann 28. júní 2017 og óskaði eftir ítarlegri upplýsingum og sundurliðun á vinnu vegna 150,25 vinnustunda á árinu 2016. Kærði sendi fulltrúa kæranda umbeðna tímaskýrslu í tölvubréfi þann 17. júlí 2017 en auk þess var tiltekið að vinnustundum hefði verið ofaukið um 4,5 klukkustundir og að það hefði verið leiðrétt. Fulltrúi kæranda óskaði á ný eftir tímaskýrslu kærða, þ.e. vegna tilgreindra 142,75 klukkustunda, í tölvubréfi þann 26. júlí 2017 auk þess sem óskað var eftir fylgögnum vegna útlagðs kostnaðar samkvæmt reikningi nr. 23. Í svari kærða, dags. 8. ágúst 2017, kvaðst aðilinn ekki átta sig á tilgreindum tímafjölda en tiltók að aðrir tímar en þegar hefðu verið sendir væru alls 162,75 klukkustundir og fylgdi tímaskýrsla vegna þeirra með tölvubréfinu. Þá sendi kærði til fulltrúa kæranda fyrri tölvubréfasamskipti vegna hins útlagða kostnaðar og kvaðst jafnframt reiðubúinn að hitta hann til að gera nánari grein fyrir því sem eftir væri leitað.

Samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði aðila mun kærði hafa gefið út sjö reikninga á hendur kæranda vegna lögmannsstarfa í tengslum við þau dómsmál sem áður er lýst.

Í fyrsta lagi var gefinn út reikningur nr. 1953 þann 31. mars 2015 af firmanu F að fjárhæð 1.000.000 krónur. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðilegrar aðstoðar og að hann tæki til vinnu vegna lögmannsþjónustu að fjárhæð 953.376 krónur með virðisaukaskatti, aksturs að fjárhæð 8.680 krónur með virðisaukaskatti og útlagðs kostnaðar vegna mætingar lögmanns að fjárhæð 37.944 krónur. Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi hafa greitt reikninginn samdægurs.

Í öðru lagi var gefinn út reikningur nr. 1955 þann 21. apríl 2015 af sama firma og áður er lýst að fjárhæð 500.000 krónur. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðilegrar aðstoðar og að hann tæki til vinnu vegna lögmannsþjónustu að tilgreindri fjárhæð með virðisaukaskatti. Var reikningurinn greiddur þennan sama dag af hálfu kæranda.

Í þriðja lagi var gefinn út reikningur nr. 1982 af hálfu sama aðila þann 29. desember 2015 að fjárhæð 1.000.000 krónur. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðilegrar aðstoðar og að hann tæki til innborgunar inn á vinnu lögmanns að fjárhæð 965.370 krónur með virðisaukaskatti, aksturs að fjárhæð 30.380 krónur með virðisaukaskatti og útlagðs kostnaðar vegna endurrits úrskurða að fjárhæð 4.250 krónur. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi greitt viðkomandi reikning samdægurs.

Í fjórða lagi var gefinn út reikningur nr. 1992 þann 29. febrúar 2016 af sama aðila og áður greinir að fjárhæð 1.000.000 krónur. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðilegrar aðstoðar og að hann tæki til innborgunar inn á vinnu lögmanns að tilgreindri fjárhæð með virðisaukaskatti. Kærandi mun hafa greitt reikninginn þann 5. apríl 2016.

Í fimmta lagi var gefinn út reikningur nr. 23 þann 16. desember 2016 af G ehf. að fjárhæð 1.000.000 krónur. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki annars vegar til málflutningslauna að fjárhæð 158.231 krónur án virðisaukaskatts og hins vegar til útlagðs kostnaðar að fjárhæð 803.794 krónur. Af fylgigögnum með reikningnum verður ráðið að hinn útlagði kostnaður hafi lotið að reikningi vegna aðkeyptrar lögmannsþjónustu í tengslum við áfrýjun þeirra héraðsdómsmála sem áður greinir, útgáfu áfrýjunarstefna fyrir Hæstarétti auk annarra kostnaðarliða í tengslum við áfrýjun og gagnaöflun viðkomandi hæstaréttarmála. Kærandi hafði áður innt greiðslu af hendi vegna reikningsins inn á reikning í eigu lögmannsstofu kærða, þ.e. nánar tiltekið með millifærslu þann 12. desember 2016.

Í sjötta lagi var gefinn út reikningur nr. 75 þann 29. desember 2017 af hálfu G ehf. að fjárhæð 2.000.000 krónur. Var tiltekið á reikningnum að hann tæki til málflutningslauna og lögfræðilegrar aðstoðar að tilgreindri fjárhæð með virðisaukaskatti og að um væri að ræða innborgun á lögmannsþóknun samkvæmt áðursendum vinnuskýrslum og tölvubréfi dags. 29. desember 2017. Eins og áður greinir mun kærði hafa innheimt dæmdan málskostnað samkvæmt hæstaréttarmálunum nr. xxx/2016 og xxx/2016 að heildarfjárhæð 2.000.000 krónur og mun sú fjárhæð hafa verið nýtt til greiðslu tilgreinds reiknings kærða nr. 75.

Að endingu var gefinn út reikningur nr. 84 þann 9. febrúar 2018 af hálfu áðurgreinds einkahlutafélags í eigu kærða að fjárhæð 2.500.000 krónur. Var tiltekið að um væri að ræða reikning vegna málflutningslauna og fleira. Þá var eftirfarandi skýringu að finna á reikningnum:

Lögfræðileg aðstoð skv. áðursendum vinnuskýrslum og tölvubréfi 29.12.2017. Ógreiddar eftirstöðvar eru kr. 3.785.082 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Þetta er lokareikningur, en gefinn er afsláttur, án skyldu, sem nemur mismun á þeirri fjárhæð og reikningi þessum.“

Ágreiningur í málinu lýtur að tilgreindum reikningi nr. 84, útgefnum af lögmannsstofu kærða á hendur kæranda. Fyrir nefndinni liggja tölvubréfasamskipti aðila frá 11. september 2017, 29. desember 2017 og 29. janúar 2018 um fjárhagslegt uppgjör á milli aðila og ólíka sýn þeirra á það efni. Aðilum tókst ekki að jafna ágreining sín í milli um rétt kærða til endurgjalds fyrir lögmannsstörf í þágu kæranda og/eða fjárhæð þess. Var málinu af þeim sökum beint til úrskurðarnefndar lögmanna af hálfu kæranda á grundvelli 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Undir rekstri málsins hafa verið lögð fram ýmis önnur gögn fyrir úrskuðarnefnd lögmanna en hér hafa verið reifuð, þ. á m. málsgögn hæstaréttarmálanna nr. xxx/2016 og xxx/2016, tímaskýrslur kærða, gjaldskrá lögmannsstofu kærða, útprentanir úr fyrirtækjaskrá og önnur opinber gögn er varða málsaðila, innheimtubréf, tilvísunargögn til Hæstaréttar, reikningsyfirlit yfir viðskiptareikning kæranda og forvera hans hjá kærða frá janúar 2007 til og með ársloka 2016 auk reikninga og annarra gagna. Þykir ekki efni til að gera sérstaka grein fyrir efni tilgreindra skjala umfram það sem greinir hér að framan.

II.

Kærandi krefst þess að staðfest verði að G ehf. eigi ekki rétt til greiðslu úr hendi kæranda samkvæmt reikningi nr. 84, dags. 9. febrúar 2018, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Í erindi kæranda er vísað til þess að ágreiningur í málinu lúti að gjaldtöku kærða vegna reksturs tveggja mála fyrir dómi á tveimur dómstigum. Nánar tiltekið er annars vegar um að ræða ágreining um endurgjald vegna lögmannsstarfa kærða í tengslum við hæstaréttarmálið nr. xxx/2016, E gegn H ehf., sbr. einnig héraðsdómsmálið nr. E-xx/2015. Hins vegar er um að ræða ágreining um endurgjald vegna lögmannsstarfa kærða í tengslum við hæstaréttarmálið nr. xxx/2016, D gegn H ehf., sbr. héraðsdómsmálið nr. E-xx/2015. Dómar Hæstaréttar í tilgreindum málið voru uppkveðnir þann x. febrúar 2017 en dómar Héraðsdóms Y þann 21. desember 2015.

Í málatilbúnaði kæranda fyrir nefndinni er að finna ítarlega lýsingu á málsatvikum, þ. á m. um aðdraganda þeirra málshöfðana sem áður greinir, meðferð málanna fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, dómum Héraðsdóms Y og Hæstaréttar sem og lögmannsstörfum kærða. Er meðal annars vísað til þess að sú lánafyrirgreiðsla sem hafi verið tilefni málaferlanna hafi verið fengin í þágu atvinnurekstrar C, eiganda og fyrirsvarsmanns kæranda, og hafi því orðið samkomulag á milli málsaðila og varnaraðila í tilgreindum málum að kærandi myndi halda hinum síðastgreindu skaðlausum af öllum kostnaði vegna reksturs málanna. Hafi kærði, ýmist í eigin nafni eða félaga í hans eigu, gefið út reikninga á hendur kæranda vegna lögmannsstarfa sinna við rekstur málanna. Vísar kærandi til þess að aðild hans að málinu fyrir úrskurðarnefnd lögmanna skýrist af því að allir reikningar vegna lögmannsstarfa kærða hafi verið gefnir út á hendur honum og kærandi greitt þá alla nema þann síðasta, reikning nr. 84, sem ágreiningur er um.

Varðandi málsatvik vísast að öðru leyti en hér er rakið til kafla I. að framan.

Kærandi bendir á að kærði hafi áskilið sér og fengið greidda þóknun fyrir rekstur málanna að fjárhæð 4.528.288 krónur. Kærandi hafi hins vegar hafnað hinum síðasta reikningi kærða að fjárhæð 2.500.000 krónur. Byggir kærandi á að ljóst sé, meðal annars með vísan til málskostnaðarákvarðana Hæstaréttar, að greiðslur þær sem kærði hafi þegar fengið séu ríflegar og nægi vel til þess að kærði teljist hafa þegið hæfilegt endurgjald fyrir vinnu sína í umræddum málum.

Kærandi kveðst hafna tímaskrá kærða sem rangri og villandi. Er á það bent að tímaskrá kærða spanni tímabilið frá október 2014 til febrúar 2017 sem tiltaki alls 306 klukkustundir vegna málanna tveggja. Slíkt jafngildi því að kærði hafi ekki unnið neitt annað í tæplega tvo mánuði á tímabilinu. Þar af hafi farið 55 klukkustundir í að útbúa málsögn fyrir Hæstarétti og 46 klukkustundir í að undirbúa málflutning í Hæstarétti og flytja málin. Um sé að ræða meira en heila vinnuviku. Kveður kærandi það fráleitt að svo mikill tími hafi farið í málareksturinn. Í öllu falli sé ljóst að um mjög óeðlilega langan tíma sé að ræða sem ekki hafi verið þörf á að verja í vinnu vegna málanna. Bendir kærandi á að málin séu samhljóða og að þau hafi verið flutt saman, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Þá sé um tiltölulega einföld mál að ræða. Upphaflega hafi engar skýrslur verið teknar í héraði og málin studd fáum gögnum. Gögnum hafi verið bætt við í Hæstarétti en þar hafi aðallega verið um að ræða opinber gögn, lánareglur o.fl. þess háttar. Eiginleg sönnunarfærsla hafi því verið sáralítil þar sem málin hafi snúist um og ráðist af túlkun lagareglna.

Kærandi bendir jafnframt á að samkvæmt tímaskýrslu hafi kærði samtals varið 50 klukkustundum í samtöl, símtöl og ritun tölvubréfa til skjólstæðings síns og annarra. Sé þar ríflega önnur vinnuvika.

Þá vekur kærandi athygli á að samkvæmt tímaskýrslu kærða og verðskrá aðilans nemi heildarkostnaður af rekstri málanna tæplega 10.000.000 króna, með virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði.

Með vísan til þessa ítrekar kærandi kröfu sína um að viðurkennt verði að kærði eigi ekki rétt til frekari þóknunar úr hans hendi vegna lögmannsstarfa. Samkvæmt því eigi kærði ekki rétt til þóknunar samkvæmt reikningi G ehf. nr. 84, dags. 9. febrúar 2018, að fjárhæð 2.500.000 krónur með virðisaukaskatti.

Í viðbótarathugasemdum kæranda vegna greinargerðar og málatilbúnaðar kærða fyrir nefndinni er vísað til þess að aldrei hafi verið gerður samningur um vinnu kærða. Kærði hafi vissulega verið beðinn um að reka málin fyrir dómi en að aldrei hafi verið samið um á hvaða kjörum vinna kærða yrði unnin. Þá hafi kæranda aldrei verið kynnt nein gjaldskrá kærða auk þess sem hún hafi hvergi verið aðgengileg almenningi, hvorki á netinu né á öðrum stað. Kveðst kærandi ekki hafa séð fyrr þá gjaldskrá sem kærði hafi nú lagt fyrir nefndina. Þá sé gjaldskráin gefin út af öðrum lögaðila en þeim sem gaf út hinn umþrætta reikning sem málið varðar.

Kærandi bendir á að kærði hafi aldrei að eigin frumkvæði lagt fram neinar tímaskýrslur um vinnu sína. Kærandi hafi loks kallað eftir sundurliðaðri tímaskýrslu hinn 14. febrúar 2017. Fyrri tímaskýrsla hafi hins vegar ekki borist fyrr en 17. júlí 2017 og hin síðari 8. ágúst 2017. Byggir kærandi á að þá fyrst hafi fyrirsvarsmenn félagsins getað gert sér grein fyrir hversu óheyrilegum fjölda tíma kærði hafi sagst hafa varið í málareksturinn. Hafi þá strax orðið ljóst að nefndar tímaskýrslur og gjaldtaka gæti á engan hátt samræmst umfangi málanna.

Mótmælir kærandi því sem röngu að fyrirsvarsmaður kæranda og eða annar á vegum aðilans hafi lagt blessun sína á tímaskýrslurnar. Er vísað til þess að fyrirsvarsmönnum kæranda hafi þvert á móti ofboðið kröfugerð kærða og því hafi verið óskað eftir tímaskrá og sundurliðun á kostnaði úr hendi kærða.

Kærandi vísar til þess að athugasemdir kærða vegna tíma sem tilgreindir hafi verið í tímaskýrslu í tengslum við lögmannsstörf við mál gagnvart Tollstjóra annars vegar og Arion banka hf. hins vegar séu á misskilningi byggðar. Viðkomandi tímar hafi þannig verið dregnir frá samantekt kæranda í kvörtun til nefndarinnar og hafi þóknun kærða því ekki verið ofreiknuð í henni.

III.

Kærði krefst þess fyrir nefndinni að kröfum kæranda verði hafnað og að kæranda verði þess í stað gert að greiða G ehf. 2.500.000 krónur auk dráttarvaxta frá x. febrúar 2018 til greiðsludags. Þá krefst kærði málskostnaðar úr hendi kæranda.

Kærði vísar til þess að öll hans samskipti um að taka til varna í dómsmálunum hafi verið við C vegna kæranda. Viðkomandi aðili sé stjórnarmaður kæranda, framkvæmdastjóri og prókúruhafi en E varastjórnarmaður. Eins og greini í tímaskýrslu hafi athugun og undirbúningur ákvörðunartöku um áfrýjun dóma héraðsdóms staðið allt frá byrjun janúarmánaðar 2016 og hafi kærði meðal annars fundað með fyrirsvarsmönnum kæranda um það efni þann 22. febrúar 2016. Í þeim undirbúningi hafi verið ákveðið að afla álits annars tilgreinds lögmanns um hvort og hvaða möguleikar væru á að hnekkja dómum héraðsdóms og ná fram sýknu í málunum. Að fengnu hinu síðastgreinda áliti hafi fyrirsvarsmaður kæranda tekið ákvörðun um og falið kærða að áfrýja dómum héraðsdóms til Hæstaréttar þó svo að álitið hefði ekki verið uppörvandi um slíkan árangur af áfrýjunum.

Kærði kveður að fyrirsvarsmaður kæranda hafi látið einskis ófreistað við málatilbúnaðinn og sönnunarfærslu fyrir Hæstarétti sem að gagni mætti koma til stuðnings kröfum um sýknu í málinu. Hafi engin áhætta verið tekin í þeim efnum og frekari sönnunargögn því verið færð fram fyrir öðrum málsástæðum en sýknukröfu á grundvelli fyrningar. Í því skyni hafi verið ráðist í víðtæka, umfangsmikla og tímafreka gagnaöflun, þ. á m. um að lántaki hefði ekki verið gjaldfær þegar lánin hefðu verið veitt. Vísar kærði til þess að málsgögn og tímaskýrslur hans beri þess skýr merki sem og málatilbúnaðurinn að öðru leyti.

Kærði bendir á að gríðarlegir hagsmunir hafi verið í húfi, þ.e. bæði fyrir kæranda sem og fyrir málsaðila í tilgreindum málum. Hafi því verið til mikilla hagsmuna að vinna með því að fá héraðsdómum hnekkt í Hæstarétti. Ekki hafi þó ríkt bjartsýni um árangur sem þó hafi orðið með fullnaðarsigri í dómsmálunum fyrir Hæstarétti.

Kærði byggir á að fyrirsvarsmanni kæranda hafi verið vel kunnugt um lögmannsstörf kærða vegna reksturs málanna og tímaskýrslur þar að baki. Hafi engar athugasemdir þar að lútandi verið gerðar af hálfu fyrirsvarsmannsins. Á fundi á haustmánuðum 2017 hafi fyrirsvarsmaður kæranda lýst því við kærða að hann gerði engar athugasemdir við tímaskýrslur aðilans enda hefði verið beðið um alla þá vinnu vegna hagsmunagæslu í dómsmálunum. Vísar kærði til þess að á fundi þann 29. ágúst 2017 hafi hann boðið fulltrúa kæranda að ljúka málinu með greiðslu þóknunar að fjárhæð 2.500.000 krónur með virðisaukaskatti auk þess sem tekið hafi verið fram að ef greiðsla kæmi þá þegar væri unnt að ljúka málinu á 2.000.000 krónur.

Í málatilbúnaði kærða er því hafnað að málskostnaðarákvarðanir Hæstaréttar hafi einhverja þýðingu fyrir úrlausn ágreiningsmálsins. Vísar kærði því til stuðnings til þess að samningur um vinnu kærða og þóknun fyrir hana hafi verið við kæranda sem beri greiðsluskyldu og breyti málskostnaðarákvarðanir Hæstaréttar engu um þá skyldi viðkomandi skjólstæðings. Kveður kærði að í hinni umbeðnu vinnu kæranda hafi verið umsamið að þóknun skyldi greidd samkvæmt tímagjaldi og í samræmi við tímaskýrslur. Sé sú þóknun samkvæmt reikningum kærða og veittum afslætti sem hinn umþrætti reikningur nr. 84 beri með sér í alla staði hæfileg og sanngjörn, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Vísar kærði um það efni meðal annars til umfangs dómsmálanna, þeirra miklu hagsmuna sem húfi hafi verið og ábyrgðar kærða sem lögmanns, þ.m.t. fjárhagslegrar, að gæta í hvívetna hagsmuna skjólstæðingsins og þeirra aðila sem málin hafi varðað. Hafi kærandi ekki sýnt fram á hið gagnstæða sem aðilinn beri sönnunarbyrði um vilji hann hnekkja umræddum reikningi.

Kærði kveðst vísa því á bug að tímaskýrsla hans sé röng eða villandi. Bendir aðilinn á að tímaskýrsla hans sé ítarleg, skilmerkileg, rétt og upplýsandi um þá veittu vinnu eins og gögn málsins beri með sér. Einnig sé það fyrst nú sem kærandi vísi til þessa atriðis. Þá hafi kærði upplýst í tölvubréfi til fyrirsvarsmanns kæranda þann 6. desember 2016 að áætlað væri að verja um það bil 40 klukkustundum í undirbúning og málflutning fyrir Hæstarétti auk þess sem fleiri upplýsingar um vinnu kærða hefðu verið veittar í tölvubréfi til fyrirsvarsmannsins þann 30. nóvember 2016. Hafi engar athugasemdir verið gerðar um þetta efni af hálfu fyrirsvarsmanna kæranda fyrr en eftir að vinnu kærða að dómsmálunum hefði verið lokið.

Í málatilbúnaði kærða er því hafnað að málin hafi verið einföld. Er vísað til þess að allir sem að málunum hafi komið hafi talið þau vandasömu og viðfangsmikil í því skyni að gæta til hins ýtrasta hinna miklu hagsmuna kæranda og málsaðila. Að sama skapi hafi það lagt mikla ábyrgð á herðar kærða sem lögmanns. Hafi kærða verið falin gæsla þeirra hagsmuna og kveður aðilinn sig hafa rækt þá lögmannsskyldu sína að gæta þeirra í hvívetna og í samræmi við 18. gr. laga nr. 77/1998. Þá sé sú staðhæfing að eiginleg sönnunarfærsla af hálfu kærða hafi verið sáralítil ómerkileg, ósönn, höfð gegn betri vitund, meiðandi og móðgandi. Þannig hafi hvorki verið unnt fyrirfram né af héraðsdómi og allt fram að dómum Hæstaréttar að líta svo á að málin myndu einvörðungu snúast um og ráðast af túlkun lagareglna líkt og kærandi vísi til. Vísar kærði til þess að ákveðið hafi verið af kæranda að treysta því ekki og hafi kærða þess í stað verið falið að leggja í þá vinnu og sönnunarfærslu sem gögn málsins beri með sér.

Kærði byggir á að kæranda beri að greiða að fullu eftirstöðvar þóknunar vegna þeirrar vinnu sem um ræði, þ.e. samkvæmt reikningi nr. 84, dags. 9. febrúar 2018. Er vísað til þess að reikningurinn beri með sér verulegan afslátt af rétt reiknaðri þóknun eða sem nemi 42 klukkustundum. Bendir kærði á að í kröfugerð kæranda sé fólgið því til viðbótar að kærða beri ekki réttur til greiðslu vegna lögmannsstarfa sem nemi 82 vinnustundum. Hafnar kærði því að það sé sanngjarnt og eðlilegt að vinna í alls 124 klukkustundir séu kæranda gjaldfrjálsar líkt og aðilinn byggi á. Geti heildarkostnaður að meðtöldum útlögðum kostnaði og virðisaukaskatti engu breytt auk þess sem samtala kæranda um skráningu 50 klukkustunda vegna símtala og tölvubréfa sé algjörlega órökstudd og ósundurliðuð. Þá hafi kærandi hvorki hnekkt tímaskýrslu að því leyti né heldur mótmælt henni sem rangri.

Í viðbótarathugasemdum kærða er vísað til þess að gögn málsins beri skýrt með sér að gerður hafi verið samningur á milli aðila um hagsmunagæslu og rekstur kærða vegna viðkomandi dómsmála. Þá liggi ljóst fyrir að reikningar skyldu gerðir á kæranda enda hafi aðilinn greitt útgefna reikninga að undanskildum þeim reikningi sem málið varði. Samið hafi verið um að greitt yrði fyrir vinnu kærða samkvæmt tímagjald líkt og lagt hafi verið til grundvallar í lögskiptum aðila.

Kærði vísar til þess að fyrirsvarsmanni kæranda hafi ætíð verið ljóst hvert tímagjald kærða væri eins og fyrirliggjandi reikningar í málinu beri með sér. Breyti engu í því tilliti hvort fyrirsvarsmaður kæranda hafi séð gjaldskrá kærða auk þess fyrirsvarsmaðurinn hafi aldrei óskað eftir henni. Fyrir liggi að aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við áskilið tímagjald af hálfu kæranda.

Varðandi fyrirliggjandi tímaskýrslur vísar kærði til þess að hann hafi ætíð átt góð samskipti við fyrirsvarsmann kæranda. Fullt traust hafi ríkt á milli aðila og öll lögmannsstörf kærða í þágu kæranda verið ánægjuleg og árangursrík. Þá beri reikningar sem liggi fyrir í gögnum málsins með sér tímagjald og tímafjölda en í öllum tilvikum sé tímafjöldi samkvæmt tímaskýrslum. Kveður kærði að fyrirsvarsmaður kæranda hafi upplýst að reikningar þyrftu ekki að vera margorðir, þ.e. hvorki um þá vinnu sem kærði hefði innt af hendi né heldur þyrftu tímaskýrslur að fylgja þeim. Aldrei hafi verið gerðar minnstu athugasemdir eða fyrirspurnir um útgefna reikninga fyrr en nýr aðili hefði tekið við samskiptum fyrir hönd kæranda. Þá sé það rangt eins og gögn málsins beri með sér að kærandi hafi fyrst getað gert sér grein fyrir vinnutímafjölda kærða að fengnum tímaskrám 17. júlí 2017 og 8. ágúst sama ár. Auk þess vísar kærði þeirri staðhæfingu kæranda á bug sem rangri og ósannaðri um að vinnutímafjöld kærða og samsvarandi þóknun geti „engan vegin samræmst umfangi þessara mála.“

Niðurstaða

                                                                          I.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans, sbr. 2. mgr. 24. greinar.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

II.

Ágreiningslaust er að fyrirsvarsmaður kæranda leitaði til kærða vegna mála sem H ehf. höfðaði á hendur D og E þann x. janúar 2015, sem nánar greinir í málsatvikalýsingu að framan, en fyrir liggur að kærði hafði áður sinnt ýmsum lögmannsstörfum fyrir hönd fyrirsvarsmannsins og í þágu lögaðila honum tengdum, þ. á m. kæranda. Þá greinir aðila ekki á um að í upphafi málarekstursins hafi komist á samkomulag á milli aðila um að kærandi myndi halda stefndu í málunum skaðlausum af öllum kostnaði vegna reksturs málanna, þ. á m. vegna lögmannskostnaðar kærða, en sú lánafyrirgreiðsla sem málin lutu að munu hafa verið fengin í þágu atvinnurekstrar eiganda og fyrirsvarsmanns kæranda auk þess sem stefndu í málunum voru tengd fyrirsvarsmanninum fjölskylduböndum.

Samkvæmt framangreindu tók kærði til varna í málunum, sem rekin voru fyrir Héraðsdómi Y sem málin nr. E-xx/2015 og E-xx/2015, fyrir hönd stefndu en samkvæmt beiðni og á kostnað kæranda. Ekki verður annað ráðið af framlögðum gögnum fyrir nefndinni, þ. á m. fyrirliggjandi greinargerðum sem kærði ritaði og lagði fram í héraði fyrir hönd stefndu, en að sakarefni málanna hafi varðað mikla fjárhagslega hagsmuni hlutaðeigandi og að varnir hafi tekið mið af þeirri staðreynd. Undir rekstri málanna í héraði var kröfum um frávísun þeirra hafnað með úrskurðum héraðsdóms að gengnum munnlegum málflutningi þar að lútandi. Með dómum Héraðsdóms Y, uppkveðnum x. desember 2015, var fallist á dómkröfur stefnanda á hendur stefndu.

Á árinu 2015, undir rekstri og í kjölfar dóma í framangreindum héraðsdómsmálum, voru gefnir út þrír reikningar á hendur kæranda vegna lögmannsstarfa kærða. Var þar um að ræða reikninga nr. 1953, dags. 31. mars 2015 að fjárhæð 1.000.000 krónur, nr. 1955, dags. 21. apríl 2015 að fjárhæð 500.000 krónur og nr. 1982, dags. 29. desember 2015 að fjárhæð 1.000.000 krónur. Tilgreindir reikningar voru í öllum tilvikum greiddir samdægurs af hálfu kæranda án athugasemda.

Í tölvubréfi kærða til fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 29. desember 2015, var upplýst að áfallnar vinustundir kærða vegna dómsmála væru 96,75 klukkustundir.

Ágreiningslaust er að kærða var falið að áfrýja tilgreindum dómum héraðsdóms til Hæstaréttar og voru áfrýjunarstefnur gefnar út af því tilefni þann x. maí 2016. Þá liggur jafnframt fyrir samkvæmt framlögðum gögnum fyrir nefndinni og málatilbúnaði aðila að ráðist var í umfangsmikla gagnaöflun á milli dómstiga auk þess sem vitnamál var höfðað fyrir héraðsdómi og álits annars tilgreinds lögmanns aflað vegna sakarefnisins.

Lögmannsstofa kærða gaf út reikning nr. 1992 þann 29. febrúar 2016 á hendur kæranda að fjárhæð 1.000.000 krónur. Var tiltekið á reikningnum að um væri að ræða reikning vegna lögfræðilegrar aðstoðar og að hann tæki til innborgunar inn á vinnu lögmanns að tilgreindri fjárhæð með virðisaukaskatti. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi greitt reikninginn þann 5. apríl 2016 án athugasemda.

Í tölvubréfi kærða til fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 30. nóvember 2016, var gerð grein fyrir áföllnum vinnustundum kærða vegna lögmannsþjónustu í tengslum við rekstur dómsmálanna. Var meðal annars vísað um það efni til fyrra tölvubréfs frá 29. desember 2015, að útlagður kostnaður væri að fjárhæð 803.793 krónur, að vinnustundir á árinu 2016 væru alls 150,25 klukkustundir og tímagjald kærða samkvæmt „taxta“ 24.500 krónur auk virðisaukaskatts. Þá væru ferðir/akstur að fjárhæð 48.000 krónur auk virðisaukaskatts. Lýsti kærði því að þetta væru „miklar tölur“ og að eftir stæði frá fyrra ári 676.507 krónur auk virðisaukaskatts.

Kærði sendi fyrirsvarsmanni kæranda nánari upplýsingar um áfallnar vinnustundir í tölvubréfi þann 6. desember 2016 en með tölvubréfinu fylgdu áður útgefnir reikningar vegna lögmannsstarfa kærða í tengslum við rekstur dómsmálanna. Var tiltekið að vinnustundir vegna málanna fram til 31. mars 2015 hefðu verið samtals 56,25 klukkustundir og vinnustundir því til viðbótar fram til 31. desember 2015 alls 40,5 klukkustundir. Þá kvaðst kærði gera ráð fyrir að verja um það bil 40 klukkustundum í undirbúning og málflutning fyrir Hæstarétti en vísaði að öðru leyti til tölvubréfsins frá 30. nóvember 2016 um þetta efni. Tiltók kærði að hann vonaðist til að þetta myndi svara fyrirspurnum fyrirsvarsmannsins og óskaði eftir að hann yrði látinn vita ef svo væri ekki.

Í kjölfar þessa var gefinn út reikningur nr. 23 af lögmannsstofu kærða, þ.e. nánar tiltekið þann 16. desember 2016 að fjárhæð 1.000.000 krónur. Laut sá reikningur einkum að útlögðum kostnaði vegna áfrýjunar málanna, þ. á m. vegna álits annars lögmanns á sakarefninu sem hafði verið aflað, en samkvæmt sundurliðun reikningsins tók hann annars til málflutningslauna að fjárhæð 158.231 krónur án virðisaukaskatts og hins vegar til útlagðs kostnaðar að fjárhæð 803.794 krónur. Kærandi hafði áður innt greiðslu af hendi vegna reikningsins inn á reikning í eigu lögmannsstofu kærða, þ.e. nánar tiltekið með millifærslu þann 12. desember 2016, og reikningurinn því greiddur athugasemdalaust.

Með dómum Hæstaréttar x. febrúar 2017 í málum nr. xxx/2016 og xxx/2016 voru áfrýjendur, sem skjólstæðingar kærða, sýknaðir af kröfum stefnda í málunum á grundvelli fyrningar og var stefnda gert að greiða þeim 1.000.000 krónur í málskostnað í hvoru tilviki. Fyrir liggur að kærði innheimti hinn dæmda málskostnað fyrir hönd viðkomandi málsaðila. Gekk hinn dæmdi og innheimti málskostnaður upp í reikning lögmannsstofu kærða nr. 75 sem gefinn var út á hendur kæranda þann 29. desember 2017 að fjárhæð 2.000.000 krónur.

Fyrir nefndinni liggja tölvubréfasamskipti málsaðila frá 14. febrúar 2017 til 29. janúar 2018 sem lutu meðal annars að fjárhagslegu uppgjöri vegna lögmannsstarfa kærða. Í þeim tölvubréfasamskiptum sendi kærði meðal annars tímaskýrslur sínar vegna málanna til kæranda samkvæmt beiðni hins síðarnefnda.

Ágreiningur í málinu lýtur hins vegar að reikningi nr. 84 sem gefinn var út á hendur kæranda af lögmannsstofu kærða þann 9. febrúar 2018 að fjárhæð 2.500.000 krónur með virðisaukaskatti. Á reikningnum var tiltekið að hann tæki til málflutningslauna og fleira en jafnframt var svohljóðandi skýringu að finna á reikningnum:

 „Lögfræðileg aðstoð skv. áðursendum vinnuskýrslum og tölvubréfi 29.12.2017. Ógreiddar eftirstöðvar eru kr. 3.785.082 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Þetta er lokareikningur, en gefinn er afsláttur, án skyldu, sem nemur mismun á þeirri fjárhæð og reikningi þessum.“

Í málatilbúnaði kæranda er á því byggt, meðal annars með vísan til dæmds málskostnaðar fyrir Hæstarétti, að greiðslur þær sem kærði hafi þegar fengið séu ríflegar og nægi vel til þess að kærði teljist hafa þegið hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf sín í tengslum við rekstur þeirra dómsmála sem um ræði. Samkvæmt því eigi kærði ekki rétt til frekari þóknunar úr hendi kæranda samkvæmt reikningi nr. 84, dags. 9. febrúar 2018 að fjárhæð kr. 2.500.000 með virðisaukaskatti. Vísar kærandi einkum til þess að hann hafni tímaskýrslu kærða sem rangri og villandi. Þannig taki tímaskýrsla kærða til tímabilsins frá október 2014 til febrúar 2017 og að alls séu færðar 306 vinnustundir á málin tvö. Jafngildi slíkt að kærði hafi ekki unnið neitt annað í tæplega tvo mánuði á tímabilinu. Þá hafi farið 55 klukkustundir í að útbúa málsgögn fyrir Hæstarétti, 46 klukkustundir í undirbúning og málflutning fyrir Hæstarétti og 50 klukkustundir í samtöl, símtöl og ritun tölvubréfa. Byggir kærandi á að fráleitt sé að svo mikill tími hafi farið í málareksturinn, þar sem um samhljóða mál hafi verið að ræða sem hafi verið rekin og flutt saman, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Þá hafi málin verið fremur einföld, upphaflega hafi engar skýrslur verið teknar í héraði og málin studd fáum gögnum. Samkvæmt því hafi sönnunarfærsla verið sáralítil þar sem málin hafi snúist um og ráðist af túlkun lagareglna.

Um þetta efni er þess að gæta að undir rekstri málanna í héraði og fyrir Hæstarétti, þ.e. á tímabilinu frá 31. mars 2015 til og með 16. desember 2016, voru gefnir út fimm reikningar vegna lögmannsstarfa kærða að þessu leyti og voru þeir í öllum tilvikum greiddir athugasemdalaust af hálfu kæranda. Í flestum tilvikum tóku reikningarnir til þóknunar vegna lögmannsstarfa kærða við rekstur dómsmálanna en meginhluti reiknings nr. 23, dags. 16. desember 2016, laut hins vegar að útlögðum kostnaði vegna málanna að fjárhæð 803.794 krónur eins og ágreiningslaust er á milli aðila. Auk hinna útgefnu reikninga upplýsti kærði undir rekstri málanna, þ. á m. með tölvubréfum til fyrirsvarsmanns kæranda dags. 29. desember 2015, 30. nóvember 2016 og 6. desember sama ár, um áfallnar vinnustundir og kostnað þar að lútandi, áskilið tímagjald vegna starfans og um áætlaðan tíma vegna undirbúnings og málflutnings fyrir Hæstarétti. Um hið síðastgreinda efni lýsti kærði því í tölvubréfi til fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 6. desember 2016, að hann gerði ráð fyrir að verja um það bil 40 klukkustundum í verkefnið.

Af gögnum málsins verður hvorki ráðið að kærandi hafi gert nokkrar athugasemdir við fjölda hinna áföllnu vinnustunda sem kærði upplýsti kæranda um undir rekstri málanna fyrir dómstólum né áætlun kærða um fjölda vinnustunda vegna undirbúnings og málflutnings fyrir Hæstarétti sem áður greinir. Þvert á móti liggur fyrir að kærandi óskaði eftir aðkomu kærða að áfrýjun dóma Héraðsdóms Y til Hæstaréttar og að kærði myndi annast rekstur málanna á hinu æðra dómstigi. Var sú beiðni sett fram eftir að kærði hafði upplýst í tölvubréfi til fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 29. desember 2015, að áfallnar vinnustundir vegna dómsmála í héraði væru 96,75 klukkustundir. Að sama skapi gerði hvorki kærandi né aðilar að viðkomandi dómsmálum athugasemd við að dæmdum málskostnaði yrði ráðstafað til greiðslu reiknings kærða nr. 75, dags. 29. desember 2017, að fjárhæð 2.000.000 krónur.

Þótt fallast megi á með kæranda að miklum tímafjölda hafi verið varið í rekstur dómsmálanna af hálfu kærða samkvæmt tímaskýrslum aðilans, þ. á m. vegna aðkomu kærða að málsgögnum til Hæstaréttar en færslur þess efnis greinir í tímaskýrslu aðilans frá maí- til júlímánaðar 2016, verður ekki fram hjá því litið að lagt var í umfangsmikla gagnaöflun á milli dómstiga svo sem málsgögn fyrir Hæstarétti bera með sér. Jafnframt verður að líta til þess að málin vörðuðu hlutaðeigandi miklu hvað fjárhagslega hagsmuni varðar og voru varnir þær sem kærði tefldi fram fyrir hönd skjólstæðinga sinna því til samræmis. Þá liggur fyrir að aflað var álits annars tilgreinds sérfræðings á milli dómstiga vegna sakarefnis málanna auk þess sem vitni voru þá kvödd fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat nefndarinnar að hvorki sé unnt að leggja til grundvallar að málin hafi í eðli sínu verið einföld né að sönnunarfærsla hafi verið sáralítil líkt og kærandi byggir á fyrir nefndinni.

Af gögnum málsins verður ráðið, sbr. einkum tölvubréf kærða til fyrirsvarsmanns kæranda 29. desember 2015, að ekki hafi staðið til að innheimt yrði full þóknun úr hendi kæranda vegna lögmannsstarfa kærða ef málin myndu tapast. Fyrir liggur hins vegar að skjólstæðingar kærða voru sýknaðir af kröfum gagnaðila með dómum Hæstaréttar x. febrúar 2017 í málum nr. xxx/2016 og xxx/2016 og unnu með því málin í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Við mat á hæfilegu endurgjaldi kærða í málinu vegna lögmannsstarfa hans í þágu og á kostnað kæranda verður að mati nefndarinnar að líta til framangreindra þátta, þ.e. greiðslu fyrri reikninga, upplýsinga sem kærði veitti undir rekstri dómsmálanna um áfallnar vinnustundir og tímagjald, eðlis og umfangs málanna, undirliggjandi hagsmuna og samskipta aðila að öðru leyti, þ. á m. um hvernig fjárhagslegu uppgjöri yrði háttað eftir endanlegri niðurstöðu málanna. Þá verður jafnframt að líta til þess að við hina umþrættu reikningagerð, þ.e. samkvæmt reikningi nr. 84 dags. 9. febrúar 2018 að fjárhæð 2.500.000 krónur með virðisaukaskatti, sló kærði umtalsvert af vinnu sinni samkvæmt tímaskýrslu eins og sérstaklega er tiltekið á reikningnum sjálfum. Verður jafnframt að líta til þess að kærandi óskaði eftir áframhaldandi störfum kærða eftir uppkvaðningu dóma héraðsdóms, þ.e. eftir að aðilinn hafði móttekið upplýsingar um áfallnar vinnustundir kærða á árinu 2015 vegna reksturs málanna í héraði.

Að mati nefndarinnar var tímagjald kærða, að fjárhæð 24.500 krónur auk virðisaukaskatts, ekki úr hófi. Jafnframt verður að leggja til grundvallar að tímafjöldi samkvæmt tímaskýrslum kærða hafi ekki verið umfram það sem kærandi hafi mátt vænta miðað við fyrirliggjandi samskipti undir rekstri dómsmálanna sem kærða var falið að annast og engar athugasemdir voru gerðar við af hálfu kæranda. Þá ber að mati nefndarinnar að líta svo á að uppgjör fyrri reikninga hafi ekki verið ósanngjarnt í skilningi 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 og er kærandi því við það bundinn. Samkvæmt því verði að einskorða ágreining um rétt til endurgjalds í málinu eða fjárhæð þess við reikning kærða nr. 84 og þau lögmannsstörf aðilans sem sá reikningur tók til.

Með hliðsjón af öllu framangreindu, gögnum málsins, undirliggjandi hagsmunum og að teknu tilliti til þess að kærði veitti kæranda umtalsverðan afslátt samkvæmt hinum umþrætta reikningi er það mat nefndarinnar að ekki séu efni til að lækka áskilda þóknun kærða vegna starfa aðilans í þágu kæranda. Samkvæmt því er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærða í þágu kæranda samkvæmt reikningi nr. 84, dags. 9. febrúar 2018, sé að fjárhæð 2.500.000 krónur með virðisaukaskatti. Þessi niðurstaða felur í sér að sú þóknun sem kærði áskildi sér samkvæmt reikningi nr. 84 vegna starfa í þágu kæranda var hæfileg. Samkvæmt því er ekki efni til að fallast á kröfu kæranda um að áskilið endurgjald kærða verði fellt niður eða að það sæti lækkun.

III.

Áður er rakið efni 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 þar sem fram kemur að ef lögmann greinir á við umbjóðanda sinn um rétt til endurgjalds fyrir störf sín eða fjárhæð þess geti annar þeirra eða þeir báðir lagt málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna.

Samkvæmt 1. tl. 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefndar lögmanna er hlutverk nefndarinnar að fjalla um ágreining milli lögmanns og umbjóðanda hans um þóknun lögmannsins, þ.e. rétt hans til endurgjalds fyrir störf sín og um fjárhæð endurgjaldsins, enda sé ágreiningnum skotið til nefndarinnar af öðrum hvorum málsaðila eða báðum.

Auk kröfu kærða um að kröfum kæranda verði hafnað fyrir nefndinni hefur aðilinn krafist þess í greinargerð sinni að kæranda verði gert að greiða útistandandi kröfu að fjárhæð 2.500.000 krónur með virðisaukaskatti auk dráttarvaxta frá 9. febrúar 2018 til greiðsludags.

Ágreiningi í máli þessu var skotið til nefndarinnar með erindi kæranda sem móttekið var þann 3. apríl 2018. Í stað þess að beina þeirri fjárkröfu sem að ofan greinir til nefndarinnar með sjálfstæðu erindi eins og heimilt hefði verið á grundvelli 26. gr. laga nr. 77/1998 og 3. gr. málsmeðferðarreglnanna kaus kærði að hafa hana uppi í greinargerð með andsvörum og umsögn aðilans vegna erindis kæranda til nefndarinnar. Fyrir slíkum málatilbúnaði er ekki heimild. Með vísan til þessa verður ekki hjá því komist að vísa kröfu kærða að þessu leyti frá nefndinni, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna 28. júní 2017 í máli nr. 31/2016.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Áskilin þóknun kærða, B lögmanns, vegna starfa hans í þágu kæranda, A ehf., felur í sér hæfilegt endurgjald.

Kröfu kærða um að kæranda verði gert að greiða kærða 2.500.000 krónur auk dráttarvaxta frá 9. febrúar 2018 til greiðsludags, er vísað frá nefndinni.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður, formaður.

Kristinn Bjarnason lögmaður

Valborg Þ. Snævarr lögmaður

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir

 

 

________________________

Sölvi Davíðsson