Mál 5 2007

Ár 2009, fimmtudaginn 31. desember, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna að Lágmúla 7, Reykjavík. Mættir voru undirritaðir nefndarmenn.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2007:

F og

G

gegn

A, hrl.

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst erindi þann 29. mars 2007 frá F og G, kærendum, þar sem kvartað var yfir vinnubrögðum A, hrl., kærða, við skiptastjórn í dánarbúi. Kærði tjáði sig um erindið í bréfi, dags. 12. júní 2007. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð kærða, en engar athugasemdir bárust frá þeim.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Í erindi sínu til úrskurðarnefndar lögmanna kvarta kærendur yfir því að kærði, sem í lok mars 2006 var skipaður skiptastjóri í dánarbúi E, hafi lítt sinnt hagsmunum búsins. Hin látna hafi arfleitt systkinabörn sín að öllum sínum eignum með erfðaskrá, sem ekki hafi verið mjög flókin. Níu mánuðum eftir skipun kærða í starf skiptastjóra hafi skiptunum enn ekki verið lokið. Kornið sem hafi fyllt mælinn hafi verið ákvörðun kærða um að hafna kauptilboði Félagsbústaða í fasteign búsins. Þess í stað hafi hann selt einkahlutafélagi í sinni eigu fasteignina.

Kærendur kveðast hafa sent kvörtun til héraðsdóms vegna þessa sem hafi leitt til þess að hann hafi neyðst til að segja af sér sem skiptastjóri búsins. Í kjölfarið hafi kærði sent erfingjum bréf þann 21. desember 2006 þar sem fram hafi komið að hann ætlaði sér ekki að taka neina þóknun fyrir störf sín. Þegar kærði hafi afhent nýjum skiptastjóra vörslur búsins hafi hann hins vegar dregið alls 483.216 krónur af fjárvörslureikningum, þ.e. 259.116 krónur vegna vinnu við dánarbú tengdaföður E og 224.100 krónur fyrir reiknaða vinnu ritara síns.

Kærendur telja framkomu kærða vera siðlausa og í andstöðu við bréf hans til erfingjanna, þar sem skýrt hafi verið tekið fram að kærði myndi ekki reikna sér þóknun fyrir störf sín við búskiptin. Kærendur kveðast aldrei hafa vitað um sagða vinnu kærða fyrir hina látnu vegna dánarbús tengdaföður hennar. Tímaskýrsla kærða, sem hann hafi afhent nýjum skiptastjóra, hafi verið fyrsta skjalið er vísaði í þá vinnu. Kærendur telja að kærða hafi verið óheimilt að greiða sér þessar upphæðir og að réttast hefði verið að nýji skiptastjórinn hefði séð um að greiða þau gjöld sem dánarbúinu bæri að greiða. Einnig sé athugunarefni að tímagjald ritara kærða sé mishátt í tímaskýrslum.

Kærendur krefjast þess að kærði endurgreiði erfingjum alls 483.216 krónur auk dráttarvaxta, þar sem engin heimild hafi verið til handa honum að greiða sér þessa upphæð. Til vara að kærði endurgreiði 259.116 krónur auk dráttarvaxta vegna vinnu við dánarbú tengdaföður E eða að hann endurgreiði erfingjum samtals 224.100 krónur auk dráttarvaxta fyrir reiknaða vinnu ritarans.

II.

Kærði kveður reikninga þá, sem erindi kærenda fjallar meðal annars um, skýra sig að mestu leyti sjálfir, sem og bréf sitt til erfingja. Hann telur kvörtun kærenda byggjast á þeirri yfirlýsingu sinni að hann tæki ekki þóknun fyrir afskipti sín af skiptum dánarbúsins, þó þannig að greitt yrði fyrir vinnu ritara síns. Þar sé ekki getið um eldri reikning, sem skrifaður hafi verið á dánarbúið vegna vinnu í lifanda lífi arfláta, annars vegar vegna dánarbússkipta eftir tengdaföður hennar og hins vegar vegna gerðar erfðaskrárinnar sem réttur erfingja, þ. á m. kærenda, byggist á. Kærði telur það þó ekki breyta um rétt til þeirrar reikningsskriftar eða rétt sinn sem skiptastjóra að taka þá greiðslu af eignum búsins, enda samráð verið haft við arfláta um þennan kostnað og kærði réttilega skipaður skiptastjóri við gerð þess reiknings og greiðslu hans af fjárvörslureikningi. Kærði kveður síðari reikninginn hafa verið greiddan í samráði við nýjan skiptastjóra um að kostnað sinn tæki hann af eignum búsins áður en þær færðust yfir til skiptastjórans.

Í greinargerði sinni rekur kærði samskipti sín og störf fyrir hina látnu meðan hún lifði, en það var samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá hennar sem kærði var skipaður skiptastjóri dánarbúsins. Bréferfingjar og gjafþegar voru alls 22 og kveður kærði það hafa verið nokkuð verk að vinna úr málefnum búsins. Hann kveður fasteign dánarbúsins hafa verið setta á söluskrá fasteignasölu í apríl 2006. Sölutregðu hafi gætt á fasteignamarkaði fram til ársloka 2006. Fyrsta tilboðið í eignina hafi verið staðgreiðslutilboð frá Félagsbústöðum, töluvert lægra en ásett verð, þrátt fyrir lækkun þess. Kærði kveðst ekki hafa talið tilboðið ásættanlegt og kveðst hafa reynt að fá hækkun á því.

Kærði kveðst hafa haldið fund með erfingjum nokkru síðar og kynnt þeim tilboðið. Á fundinum hafi ýmsir erfingjanna, líklega flestir, talið rétt að taka tilboðinu og lagt að sér að kanna hvort það stæði enn. Kærði kveðst hafa verið spurður um það á fundinum hvort hann vissi um einhvern nær sér, einhvern aðila, sem hugnast gæti að kaupa íbúðina, enda hefði verðið, sem boðið var, verið lágt að allra mati. Í framhaldi þessa kveðst kærði hafa leitað eftir endurnýjun á tilboði Félagsbústaða og tekist hafi eftir nokkurn tíma að fá það endurnýjað með lítils háttar hækkun. Samhliða, og meðal annars eftir fyrirspurn á fundinum sem engar athugasemdir hafi verið gerðar um, hafi hann kannað það hjá félagi sem hann átti hlut í hvort áhugi kynni að vera fyrir kaupum á íbúðinni. Út úr því hafi komið boð, fyrir milligöngu löggilts fasteignasala, upp á nokkru hærra verð en hið hækkaða boð Félagsbústaða, hvorutveggja miðað við staðgreiðslu.

Kærði kveðst sem skiptastjóri hafa talið eðlilegast að taka hærra tilboðinu að öðru jöfnu. Hann hafi haldið þeim báðum opnum til þess að kynna þau á fundi með erfingjum sem boðaður hafði verið. Þegar hér hafi verið komið sögu hafi nokkrir erfingjar verið farnir að blanda sér í atburðarrásina og bréf hafi komið frá B, lögmanni, sem hafi komið sér í opna skjöldu. Kærði kveðst í framhaldinu hafa sent bréf til héraðsdóms og í fyrirtöku í málinu hafi hann óskað eftir því að vera leystur undan skiptastjórn. Kveðst kærði hafa talið það affarasælast og hafi hann gert erfingjum og gjafþegum grein fyrir því í bréfi til þeirra. Kærði kveður langt vera frá því að hann hefði verið neyddur til þess, eins og fram komi í kvörtun kærenda, eða að efnisleg ástæða hefði verið fyrir afsögn sinni.

Kærði kveðst ekki hafa haft geð í sér til gjaldtöku fyrir vinnu sína, sem hafi verið nokkur, eins og fram komi í bréfi sínu. Hann hafi þó talið rétt að greitt yrði fyrir vinnu ritara síns, en umsýsla og varsla búsins mestan part ársins 2006 hafi tekið allnokkurn tíma, sem og vinna við afhendingu muna til gjafþega.

Kærði kveður það hafa verið verulegt álitamál fyrir sig að taka þá ákvörðun sem hann tók, þó hann teldi hana réttasta. E heitin hafi ætlað sér, kærða, að standa frammi fyrir aðgangshörðum hópi erfingja og gjafþega, meðal annars til þess að tryggja að ekki kæmi upp ósætti milli þeirra.

                                                            Niðurstaða.

I.

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði kærða sem skiptastjóra í dánarbúi E samkvæmt tilmælum í erfðaskrá hennar. Fór um störf kærða sem skiptastjóra dánarbúsins einkum samkvæmt lagaákvæðum í 2. þætti laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Þar er m.a. fjallað um skipun skiptastjóra, hlutverk þeirra, samskipti við erfingja og kröfuhafa, meðferð hagsmuna og skyldna búsins og skiptalok. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er heimilt, meðan á opinberum skiptum stendur, að bera upp skriflega aðfinnslur um störf skiptastjóra fyrir héraðsdómara sem hefur skipað hann, en í 2. mgr. 47. gr. er ákvæði um til hvaða úrræða héraðsdómari getur gripið í slíkum tilvikum. Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laganna á skiptastjóri rétt til þóknunar fyrir störf sín sem greiðist af búinu eða þeim sem ábyrgist greiðslu skiptakostnaðar. Skiptastjóra er heimilt að taka sér greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun meðan á skiptum stendur, enda kynni hann ákvörðun sína um það á skiptafundi.

Í 10. kafla laganna er fjallað um skiptalok, m.a. um það hvernig standa skuli að ráðstöfun eigna búsins sem eru umfram greiðslu á skuldbindingum þess. Samkvæmt 77. gr. laganna er þannig gert ráð fyrir að skiptastjóri geri frumvarp að úthlutun úr búinu og er í ákvæðinu jafnframt tilgreint hvað skuli koma fram í slíku frumvarpi, þ. á m. yfirlit um eignir búsins, yfirlit um kostnað af útför hins látna og kostnað af skiptum, ráðstöfun til erfingja o.s.frv. Erfingjum skal gefinn kostur á að tjá sig um frumvarpið á skiptafundi og gera athugasemdir við efni þess.

Samkvæmt 47., 79. og 122. gr. laganna er það meginregla að aðfinnslum um störf skiptastjóra og ágreiningi um þóknun hans verður skotið til héraðsdóms til úrlausnar. Unnt er að skjóta kvörtunum vegna brota á góðum lögmannsháttum til úrskurðarnefndar lögmanna samkvæmt 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

Skiptastjórar í dánarbúum hafa opinberu hlutverki að gegna í samræmi við ákvæði skiptalaga og mótast samskipti þeirra við erfingja af því hlutverki. Þeir eru ekki ráðnir til verksins af erfingjum og milli þeirra er þannig ekki samningssamband eins og er milli lögmanns og umbjóðanda hans.

II.

Erindi kærenda varðar meðal annars 2 reikninga kærða. Fyrri reikningurinn var vegna þóknunar kærða fyrir vinnu er hann innti af hendi fyrir hina látnu meðan hún lifði. Ekki var því um að ræða þóknun kærða sem skiptastjóra dánarbúsins í því tilviki. Síðari reikningurinn var vegna vinnu ritara kærða að tilteknum þáttum skiptanna á dánarbúinu.

Ekki liggur fyrir að erfingjar, þar með taldir sóknaraðilar, hafi haft uppi athugasemdir við viðtakandi skiptastjóra vegna reikninga kærða við framhald á skiptameðferð búsins, eða að skiptastjórinn, fyrir hönd dánarbúsins, hafi krafið kærða um endurgreiðslu fyrri reikningsins eða lagt fyrir héraðsdóm ágreining vegna síðari reikningsins.

Varnaraðili var skipaður skiptastjóri í dánarbúi E í Héraðsdómi Reykjavíkur. Um stöðu hans og hlutverk, réttindi og skyldur, fór því samkvæmt skiptalögum. Rétthafar í búinu voru erfingjar hinnar látnu, þ. á m. sóknaraðilar. Sóknaraðilar voru samkvæmt framangreindu ekki umbjóðendur varnaraðila og verður ágreiningur milli þeirra um áskilið endurgjald varnaraðila, hvort heldur sem er réttmæti þess eða upphæð, ekki lagður fyrir úrskurðarnefnd á grundvelli 1. mgr. 26. gr. lögmannalaga, heldur leysir héraðsdómur úr slíkum ágreiningi, sé eftir því leitað. Ber því að vísa frá úrskurðarnefndinni þessum þætti í erindi kærenda.

III.

Kærendur kvarta yfir þeirri háttsemi kærða sem fólst í meðferð á sölu íbúðar dánarbúsins, en samkvæmt gögnum málsins gerði einkahlutafélag, sem kærði átti hlut í, kauptilboð í eignina. Skilja má bréf kærða til Héraðsdóms Reykjavíkur svo að tilboðið hafi verið dregið til baka þegar nokkrir erfingjanna gerðu athugasemdir við þessa sölumeðferð.

Úrskurðarnefndin telur brýnt að lögmenn hagi störfum sínum á þann veg að ekki skapist tortryggni um störf þeirra, svo sem vegna vanhæfis, eða vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra, sbr. 11. gr. siðareglnanna. Gildir þetta einnig um lögmenn er sinna skiptastjórn í dánar- og þrotabúum.

Áform kærða um kaup einkahlutafélagsins á íbúð dánarbúsins fólu í sér verulega hættu á hagsmunaárekstri að mati nefndarinnar og voru til þess fallin að rýra traust erfingja á störfum kærða sem skiptastjóra. Í hlutverki sínu sem skiptastjóri búsins var kærði auk þess vanhæfur til þess að taka þátt í ákvörðun um sölu íbúðarinnar til einkahlutafélagsins.

Til að forða slíkri hættu á hagsmunaárekstri og til að eyða tortryggni er kynni ella að skapast í hans garð átti kærði þess kost að óska eftir að skipaður yrði skiptastjóri ad hoc vegna sölu fasteignarinnar eða að láta af störfum sem skiptastjóri. Ekki verður séð að kærði hafi haft frumkvæði að því að nýr skiptastjóri kæmi að málinu, að minnsta kosti ekki fyrr en eftir að Héraðsdómi Reykjavíkur barst kvörtun nokkurra erfingja. Að mati úrskurðarnefndar voru vinnubrögð kærða í þessum þætti búskiptanna aðfinnsluverð, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

                                                 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Þeim þætti í erindi kærenda, F og G, er varðar 2 reikninga kærða, A, hrl., er vísað frá.

Áform kærða um að selja, sem skiptastjóri dánarbús E, einkahlutafélagi sem var að hluta til í hans eigu, íbúð dánarbúsins eru aðfinnsluverð.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA