Mál 8 2014

Ár 2014, föstudaginn 10. október, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands að Álftamýri 9, Reykjavík.

Fyrir var tekið málið nr. 8/2014:

A og

B

gegn

R hrl.

 og kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 20. mars 2014 erindi kærenda, A og B, þar sem kvartað var yfir störfum kærða, R hrl., í tengslum við kæru umbjóðenda kærða til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis.

Óskað var eftir greinargerð frá kærða um erindið þann 27. mars 2014. Greinargerð kærða barst þann 10. apríl 2014. Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um greinargerðina þann 22. apríl 2014. Athugasemdir bárust þann 23. maí 2014. Kærða var gefinn kostur á að koma á framfæri lokaathugasemdum sínum þann 28. maí 2014. Með bréfi, mótteknu þann 5. júní 2014 upplýsti kærði að hann sæi ekki ástæðu til að gera frekari athugasemdir vegna málsins.

Málsatvik og málsástæður.

I.

Umbjóðendur kærða telja sig vera réttkjörna stjórn í flokkinum T. Í ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 5. desember 2013, var lagt til grundvallar að aðrir fimm menn, þar af báðir kærendur í máli þessu, auk tveggja af umbjóðendum kærða, mynduðu hina réttkjörnu stjórn og hefðu gert það frá og með fundi sem talinn er hafa verið haldinn 31. mars 2013. Með ákvörðuninni samþykkti ríkisskattstjóri að tilkynning sem send var embættinu 7. júní 2013 framangreinds efnis væri réttmæt.

Umbjóðendur kærða kærðu ákvörðun ríkisskattstjóra til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins. C lögfræðingur á lögmannsstofu kærða ritaði undir kæru til ráðuneytisins, dags. 2. janúar 2014, fyrir hans hönd. Kærendur kvarta yfir tilteknu orðalagi greinargerðarinnar, eins og nánar verður vikið að í umfjöllun um málatilbúnað þeirra hér að neðan.

II.

Kærendur krefjast þess að kærði verði látinn sæta viðurlögum í samræmi við 1. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, þ.e. að nefndin leggi til í rökstuddu áliti til við ráðherra að réttindi kærða verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum. Til vara er þess krafist í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 að úrskurðarnefnd lögmanna veiti kærða áminningu og/eða eftir atvikum fallist á að þau ummæli sem um ræðir í máli þessu verði metin aðfinnsluverð. Auk þess er farið fram á að kærði greiði kærendum málskostnað að skaðlausu í máli þessu.

Kærendur telja ummæli sem finna megi í bréfi, dags. 2. janúar 2014, undirritað af C f.h. kærða mjög alvarleg þar sem leiddar séu líkur að því að sú stjórn T sem embætti fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra hafi staðfest skráningu á, muni flytja fjármuni úr flokknum yfir í einkahlutafélagið E. Jafnframt sé staðhæft í bréfinu að nú þegar hafi verið gerðar ráðstafanir til að flytja fjármuni úr flokknum þar sem flokkinum T hafi borist „tilhæfulaus" reikningur að fjárhæð kr. 250.000 frá E.

Kærendur benda á að ummælin sem um ræði séu: „Kærendur fara fram á að ráðuneytið neyti heimildar sinnar í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan mál þetta er til meðferðar hjá ráðuneytinu. Jafnframt er farið fram á að ákveðið verði svo fljótt sem verða má hvort sú krafa skuli tekin til greina. Er sú krafa á því byggð að mikil hætta sé á því að hin ólögmæta stjórn geri ráðstafanir til að flytja fjármuni úr flokknum yfir í E ehf., sem er félag í eigu A, núverandi skráðs stjórnarformanns, ásamt því að B er þar stjórnarformaður og starfar sem útvarpsmaður. E hefur um langt skeið átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Í desember 2013 bárust fregnir af því að tap E á árunum 2011 og 2012 næmi u.þ.b. 10 milljón krónum samantalið. Þá kom einnig fram að eigið fé félagsins væri neikvætt um 12,5 milljónir króna (fskj 9 og 10). Þar að auki tapaði félagið nýlega dómsmáli fyrir Hæstarétti þar sem því var gert að greiða fyrrum starfsmanni sínum u.þ.b. 750.000 kr. í vangoldin laun ásamt dráttarvöxtum, auk 530.000 kr. í málskostnað.", „Nú þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að flytja fjármuni úr flokknum. Fyrir stuttu barst T tilhæfulaus reikningur sem hljóðar upp á 250.000 kr. frá E, dags. 7. júní 2013, „vegna kosninga apríl 2013" (fskj.8). Um er að ræða reikning fyrir auglýsingar sem E ákvað upp á sitt einsdæmi að setja í loftið í aðdraganda alþingiskosninga 2013 án samráðs við stjórn flokksins. Stjórn flokksins bað um og samþykkti á sínum tíma að greiða fyrir auglýsingu á útvarpsstöðinni E að upphæð 12.550 m/vsk og var hún greidd fyrirfram. Þar fyrir utan hefur stjórn flokksins aldrei óskað eftir eða samþykkt að greiða fyrir auglýsingar á E.", „Af reikningum verður ráðið að um sé að ræða fyrsta reikning af fimm. Alls óvíst er hver grundvöllur eða fjárhæð hinna fjögurra reikninganna er. Telja kærendur fullvíst að með hinum tilhæfulausu reikningum sé ætlunin að komast yfir fjármuni þá sem fyrirhugað er að flokkurinn fái úthlutað í byrjun árs 2014, sbr. 3. gr. laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Þar segir að árlega skuli úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hltið [svo] hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Flokkurinn T fékk [...]% atkvæða í alþingiskosningunum 2013 og því ljóst a [svo] flokkurinn á rétt á úthlutun úr ríkissjóði. Hætt er við því að fjármagn fari til spillis og óafturkræft tjón verði neyti ráðuneytið ekki heimildar sinnar í 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga til að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar meðan mál þetta er til meðferðar hjá ráðuneytinu." (feitletrun kærenda).

Kærendur hafna því alfarið að sá reikningur sem gefinn hafi verið út þann 7. júní 2013 frá E til T vegna auglýsinga í aðdraganda alþingiskosninga 2013 hafi verið tilhæfulaus, enda komi ekkert fram í bréfinu sem sannreyni það. Sá reikningur sem að um ræði hafi sannanlega verið gefinn út vegna upplesturs á auglýsingum á E fyrir T með fullri heimild frá réttkjörinni stjórn E, sem fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hafi samþykkt skráningu á. Flokkurinn T hafi ákveðið að flokkurinn yrði auglýstur hjá útvarpsstöðinni og séu þær greiðslur sem um ræði vegna aðkeyptrar þjónustu hjá E

Kærendur vísa því alfarið á bug sem röngu og grófum aðdróttunum í þeirra garð að þau hafi verið að draga sér fjármuni með því að gefa út tilhæfulausa reikninga. Ljóst sé að um alvarlegar ásakanir sé að ræða, enda séu ummælin orðuð á þann hátt að kærendur hafi framið refsiverðan verknað í formi auðgunarbrots sem varðað geti allt að sex ára fangelsi.

Kærendur byggja á því að það að leiða að því líkum að þar sem E hafi verið rekin með tapi líkt og raunin sé með fjölda annarra félaga í dag, og það að vísa til þess að félagið hafi nýlega tapað dómsmáli skuli eiga að vera röksemd fyrir því og staðfesting á að kærendur hafi eða muni fremja refsiverðan verknað í formi auðgunarbrots, sé málflutningur sem sé með ólíkindum og ekki sæmandi starfandi lögmanni eða fulltrúa hans. Útvarpsstöðin hafi staðið af sér óhróður, hindranir og erfiðleika í rekstri síðustu ár, en aldrei hafi félagið orðið uppvíst að refsiverðri háttsemi. Það sé því með ólíkindum að lesa þann málflutning í umræddu bréfi þar sem staðhæft sé að kærendur hafi eða muni fremja refsiverðan verknað þegar engar beinar sannanir hafi verið lagðar fram um slíkt. Kærendur telja þannig brot kærða mjög gróft og alvarlegt.

Kærendur vísa til 1. mgr. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn máli sínu til stuðnings. Jafnframt vísa þau til 1. gr. og 34. gr. siðareglna lögmanna.

III.

Kærði vísar því allsendis á bug að hafa brotið gegn 1. mgr. 14. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 1. og 34. gr. siðareglna lögmanna. Varðandi vísan kærenda til 14. gr. lögmannalaga þá hafi það ákvæði ekki að geyma efnislegar viðmiðanir um framferði lögmanna heldur heimildir úrskurðarnefndar til viðurlaga gegn lögmanni. Kveðst kærði því ekki sjá hvernig hann hafi getað brotið gegn því ákvæði per se.

Kærði hafnar því alfarið að hafa brotið gegn 1. og 34. gr. siðareglnanna. Ljóst sé að kæra til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis sé hluti af harðvítugum átökum á vettvangi E. Lögmannstofan F gæti þar hagsmuna tiltekins hóps manna og byggi málatilbúnað í kærumálinu á staðhæfingum þessara manna um atvik sem þeir segist hafa upplifað af eigin raun og styðjist við framlögð gögn með kærunni. Meðal þeirra staðhæfinga séu þær sem kvartað sé yfir.

Kærði bendir á að kæran byggi á atvikum eins og þau horfi við kærendum og sé það ekki á færi kærða sem lögmanns, eða C sem lögfræðings, að ritskoða þær staðhæfingar eða upplifanir umbjóðenda F. Lögmannstofan F beri að gæta hagsmuna þessara umbjóðenda stofunnar í hvívetna eins og lögmannalög og siðareglur bjóði enda afmarkast tillitssemi við gagnaðila skjólstæðinga lögmanns af því að hann verði að aðhafast þannig að samrýmanlegt sé hagsmunum skjólstæðinga hans, sbr. 34. gr. siðareglnanna in fine. Hefði kærði vikist undan því að gæta  hagsmuna skjólstæðinga sinna í hvívetna í málinu hefði mátt undan því kvarta, og þá ekki af kærendum, heldur skjólstæðingunum. Þá fyrst teldist kærði brotlegur við 1. gr. siðareglnanna og önnur ákvæði þeirra, s.s. 8. gr.

Kærði vísar til þess að það verði svo þar til bærra yfirvalda, í fyrstu atrennu ráðuneytisins, og síðar eftir atvikum dómstóla að undangenginni lögbundinni málsmeðferð, þar á meðal frekari rannsókn, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og eftir atvikum sönnunarfærslu á grundvelli ákvæða í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála að úrskurða um réttmæti þeirra staðhæfinga sem færðar hafi verið fram af hálfu skjólstæðinga F í málinu, hvort þær hafi einhverja þýðingu fyrir úrlausn málsins og þá hvaða.

Kærði vísar kvörtuninni algerlega á bug enda myndi áfellisúrskurður yfir honum eða F í þessu máli leiða til þess að lögmenn gætu ekki unnið vinnu sína sem skyldi og teflt fram ýtrustu sjónarmiðum af ótta við áfelli af hálfu úrskurðarnefndar. Væri störfum lögmanna þá svo þröngt stakkur skorinn að ekki verði við unað.

Kærði krefst málskostnaðar úr hendi kærenda að mati úrskurðarnefndar á grundvelli 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga, sbr. 3. mgr. 15. gr. málsmeðferðarreglna nefndarinnar, vegna tilhæfulausrar kvörtunar af þeirra hálfu en hafa verði í huga við úrlausn um það atriði að annar kærenda, B, sé héraðsdómslögmaður.

IV.

Kærendur komu á framfæri athugasemdum sínum við greinargerð kærða.

Kærendur hafna alfarið röksemdum kærða þess efnis að þau ummæli sem um ræðir í máli þessu séu í fullu samræmi við góða lögmannshætti og 1. og 34. gr. siðareglna lögmanna. Þegar litið sé til meginreglu 1. gr. siðareglna lögmanna og samspils hennar og 8. gr. siðareglnanna, liggi ljóst fyrir að lögmönnum beri ávallt að stíga varlega til jarðar þegar staðhæfingum umbjóðenda lögmanns sé haldið fram og haga ummælum sínum bæði í ræðu og riti þannig að það samræmist góðum lögmannsháttum og siðareglum lögmanna. Ummæli lögmanna verði þannig að samrýmast þeim grundvallarsjónarmiðum sem fram komi í 1. gr. siðareglnanna, þ.e. að lögmaður skuli einungis svo til allra mála leggja sem hann viti sannast eftir lögum eða sinni samvisku.

Kærendur vísa til þess að þegar skoðun eða ummæli umbjóðanda í garð gagnaðila geti falið í sér refsikennd viðurlög og litlar sem engar sannanir séu fyrir slíkum ávirðingum beri lögmanni að gæta sérstaklega að því að haga orðum sínum með þeim hætti að það samrýmist góðum lögmannsháttum og siðareglum lögmanna. Lögmenn geti því ekki í samræmi við meginreglu 1. gr. siðareglna lögmanna skýlt sér á bak við umbjóðendur sína þegar alvarlegar ásakanir séu hafðar uppi gegn gagnaðilum umbjóðenda þeirra og þá sérstaklega þegar litlar sem engar sannanir séu til staðar sem styðji slík ummæli og því síður feli ummælin í sér grófar aðdróttanir um refsikennda háttsemi gagnaðila eða tilraun til slíkrar háttsemi.

Kærendur benda á að þau séu m.a. sökuð um að hafa dregið sér fjármuni úr flokknum og tilraun til þess að komast yfir fjármuni flokksins. Það liggi fyrir að um mjög alvarlegar ásakanir sé að ræða, enda séu þau sökuð um auðgunarbrot eða tilraun til þess. Engin kæra hafi verið lögð fram og engar sannanir séu fyrir umræddum staðhæfingum. Það liggi fyrir að kærða hafi borið í samræmi við 1. og 34. gr. siðareglna lögmanna að gæta sérstaklega að ummælum sínum í garð kærenda og það þrátt fyrir að skoðanir umbjóðenda kærða á málinu og málavöxtum þess væru mögulega þær sem kærði vilji vera að láta. Vísa kærendur í þessu sambandi til máls úrskurðarnefndarinnar nr. 24/2013.

Kærendur benda á að þegar litið sé til orða nefndarinnar í framangreindum úrskurði liggi fyrir að þrátt fyrir þá skyldu lögmanna að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna í hvívetna séu lögmönnum ávallt sett ákveðin mörk út frá því hvað teljist eðlileg hagsmunagæsla hverju sinni. Þar sem fyrir liggi í máli þessu að þau ummæli sem um ræði séu verulega alvarleg liggi fyrir að kærða hafi borið að haga ummælum sínum á annan hátt í garð kærenda.

Kærendur benda einnig á að svo virðist sem ritháttur kærða í garð kærenda sé ekki einsdæmi. Þegar litið sé til bréfs, dags. 5. september 2013, frá kærða til ríkisskattstjóra vegna sama máls megi sjá hvernig kærði persónugeri annan kæranda í málinu. Kærendur telja rétt að vísa til umrædds bréfs þrátt fyrir að bein ummæli í því bréfi séu ekki til skoðunar fyrir nefndinni, enda megi glöggt sjá á því bréfi hvernig kærði hafi hagað ummælum sínum á köflum í garð kærenda í máli þessu. Hið gagnstæða megi aftur á móti sjá í bréfi fulltrúa kærða til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins í bréfi, dags. 24. mars 2014. Í bréfinu sé farið á yfirvegaðan hátt yfir málið án þess að vera með ærumeiðandi aðdróttanir og ummæli í garð kærenda líkt og gert hafi verið í því bréfi sem sú kvörtun sem hér um ræði lúti að sem og í bréfi kærða, dags. 5. september 2013.

Kærendur telja að umrætt bréf, dags. 24. mars 2014, sé dæmi um það að þrátt fyrir harðvítug átök milli aðila líkt og eigi sér stað innan flokksins T, geti lögfræðingar og lögmenn hagað ummælum sínum um gagnaðila á sómasamlegan hátt og sýnt gagnaðilum sínum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu, sbr. áskilnað 34. gr. siðareglna lögmanna.

Niðurstaða.

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 28. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum, sbr. 1. mgr. 14. gr. lögmannalaga.

Samkvæmt 1. gr. siðareglna lögmanna, ber lögmanni að efla rétt og hrinda órétti. Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Samkvæmt 34. gr. siðareglnanna skal lögmaður sýna gagnaðilum skjólstæðinga sinna fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu og þá tillitssemi sem samrýmanleg er hagsmunum skjólstæðinganna.

II.

Við mat á því hvort kærði gerðist brotlegur við siðareglurnar verður að hafa í huga að lögmenn koma jafnan fram fyrir hönd umbjóðenda sinna, en ekki í eigin nafni. Þegar lögmenn staðhæfa um málsatvik og önnur atriði sem varða mál sem þeir reka fyrir dómstólum eða yfirvöldum, verður að líta svo á að þar sé yfirleitt um að ræða eigin upplýsingagjöf umbjóðandans í gegn um lögmanninn, en ekki upplýsingar sem lögmaðurinn veitir um málsatvik og staðreyndir að undangenginni eigin, sjálfstæðri athugun á málefninu.  Var í þeirri kæru sem kvartað er yfir, tekið skýrt fram að kröfur og röksemdir væru sett fram fyrir hönd kærenda og hverjir þeir væru.

Skylda lögmanns til að sýna gagnaðila fulla virðingu og tillitssemi girðir að sjálfsögðu ekki fyrir að lögmaður aðstoði umbjóðanda sinn í málum þar sem hann vill bera sakir á gagnaðila. Kemur þessi skylda ekki í veg fyrir að lögmenn aðstoði umbjóðendur sína, t.d. við að kæra menn til lögreglu fyrir háttsemi sem umbjóðendurnir bera öðrum á brýn og telja refsiverða. Sama gildir um önnur úrræði sem umbjóðendur lögmanna kunna að telja rétt að grípa til vegna sambærilegra atvika.

Það gildir þannig sú meginregla um störf lögmanna að þeir hafa mjög rúmar heimildir til að halda fram þeim málstað sem umbjóðendur þeirra telja sig eiga. Á þetta fyllilega við, jafnvel þótt sá málstaður byggi á því að umbjóðandinn telji aðra hafa gert á sinn hlut með saknæmum hætti og það jafnvel þótt lögmaðurinn hljóti að telja málstaðinn umdeilanlegan.

Það er rétt sem kærendur byggja á, að svigrúm lögmanna takmarkast þrátt fyrir þetta við að lögmenn eiga ekki að aðhafast það í störfum sínum sem þeim má ljóst vera að er ólögmætt. Það er líka rétt hjá kærendum að nefndin hefur í fyrri úrskurðum sínum bent á að þegar umbjóðandi lögmanns óskar fulltingis hans við að bera aðra menn sökum, hvort sem er fyrir yfirvöldum eða dómstólum getur því komið til þess að þær ásakanir verði svo fjarstæðukenndar að lögmaðurinn getur ekki að ósekju ljáð því fulltingi sitt að setja þær fram.

Það er hins vegar alls ekki unnt að byggja niðurstöðu þessa máls á þeirri forsendu að kærði hafi sett fram ásakanir kærðu fyrir þeirra hönd gegn betri vitund. Skjöl málsins bera með sér að fyrir hendi var raunverulegur ágreiningur um hvaða stjórn gæti með réttu komið fram fyrir hönd T og að umbjóðendur kærða töldu sig hafa raunhæfar ástæður til að ætla að kærendur í þessu máli tækju ranglega við greiðslum fyrir hönd flokksins og ráðstöfuðu þeim. Jafnvel þótt vera kunni að þetta sé alröng ályktun hjá umbjóðendunum fæst ekki séð að kærði hafi með réttu átt að neita þeim um fulltingi sitt við málatilbúnað gagnvart ráðuneytinu eða öðrum.Er ekkert fram komið sem bendir til þess að kærði hafi sett kæruna fram gegn betri vitund.

Verður, með hliðsjón af öllu ofangreindu að hafna því að gera athugasemdir við störf kærða eða beita hann viðurlögum. Nefndin telur ekki efni til þess að kæranda verði gert að greiða kærða málskostnað þótt hann hafi neytt lögvarins réttar síns til að fá skorið úr um það sakarefni hvort kærði hafi gert á hans hlut með ólögmætum hætti eða í trássi við siðareglur lögmanna.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, R hrl., hefur í störfum sínum ekki gert á hlut kærenda, A og B, með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason, hrl., formaður

Einar Gautur Steingrímsson, hrl.

Valborg Þ. Snævarr, hrl.

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Haukur Guðmundsson