Mál 12 2017

Ár 2017, 8. september 2017, var haldinn fundur í úrskurðarnefnd lögmanna í húsnæði Lögmannafélags Íslands, Álftamýri 9, Reykjavík.

 

Fyrir var tekið mál nr. 12/2017:

A,

gegn

B hdl.

og kveðinn upp svofelldur

Ú R S KU R Ð U R :

Úrskurðarnefnd lögmanna barst þann 10. febrúar 2017 erindi kæranda, A, til heimilis að C í Grindavík, en í því er kvartað yfir því að kærða, B héraðsdómslögmaður, með starfsstöð að D, Reykjavík, hafi brotið annars vegar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn hvað varðar rétt til endurgjalds eða fjárhæð þess og hins vegar 27. gr. laganna.

 

Kærðu var veitt færi á að skila inn greinargerð vegna kvörtunarinnar með bréfum dags. 15. febrúar og 14. mars 2017 og barst hún þann 21. mars 2017. Var kæranda send greinargerð hennar til athugasemda með bréfi dags. 24. mars 2017. Hinn 6. apríl 2017 bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda og voru þær sendar kærðu þann 10. sama mánaðar. Svar kærðu barst 18. maí 2017 og var það sent kæranda með bréfi dags. 24. sama mánaðar með þeirri athugasemd að nefndin liti svo á að gagnaöflun væri lokið. Engar frekari athugasemdir voru gerðar og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

Málsatvik og málsástæður

I.

Samkvæmt gögnum málsins mun kærandi hafa leitað til kærðu um lögmannsaðstoð í byrjun októbermánaðar 2015. Frá 6. október 2015 liggur fyrir skjal sem aðilar undirrituðu og bar yfirskriftina „Verkbeiðni/umboð". Var þar tiltekið að kærandi færi þess á leit við lögmannsstofu kærðu að honum yrði veitt öll nauðsynleg lögfræðileg þjónusta að mati kærðu við gæslu þeirra hagsmuna sem lýst var í skjalinu. Samkvæmt verklýsingu var kærðu þannig falið að gæta hagsmuna kæranda varðandi forsjá, lögheimili, umgengni og meðlagsgreiðslur vegna barna kæranda. Fólst í verkbeiðninni umboð til kærðu til þess m.a. að annast mætingar fyrir hönd kæranda, krefjast allra nauðsynlegra gagna og upplýsinga sem og að semja um afdrif allra þeirra mála sem tengdust hagsmunagæslunni. Skuldbatt kærandi sig til að greiða lögmannsstofu kærðu fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofunnar á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar á verkinu. Var tiltekið að tímaskýrsla skyldi fylgja reikningum hverju sinni og að gjaldskráin hefði verið kynnt kæranda. Þá var tiltekið að kærandi hefði verið upplýstur um áætlaðan heildarkostnað af verkinu, þ.e. þóknun og útlagðan kostnað.

 

Af gögnum málsins verður ráðið að kærða hafi sinnt lögmannsstörfum fyrir kæranda á grundvelli tilgreinds umboðs frá októbermánuði 2015 til ársbyrjunar 2017. Munu störf kærðu á tímabilinu einkum hafa falist í því að krefjast umgengni fyrir hönd kæranda við börn hans tvö auk þess að annast öll samskipti við embætti sýslumannsins á Suðurlandi bæði á meðan á sáttameðferð og úrskurðarferli stóð. Annaðist kærða meðal annars ritun og framlagningu greinargerðar með kröfu kæranda um umgengni, dags. 10. febrúar 2016, undir rekstri málsins fyrir viðkomandi sýslumannsembætti.

 

Með úrskurði sýslumannsins á Suðurlandi, dags. X. maí 2016, var kveðið á um hvernig umgengni kæranda við börn hans skyldi háttað. Þá var eftirfarandi tiltekið í úrskurðarorði:

 

„Úrskurð þennan má kæra til innanríkisráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans, sbr. 78. gr. a barnalaga nr. 76/2003. Kæra frestar ekki réttaráhrifum úrskurðarins."

 

Með tölvubréfi kæranda til kærðu þann 18. maí 2016 var upplýst um að úrskurðurinn yrði sóttur daginn eftir og að hann yrði strax framsendur til kærðu. Ekki er ágreiningur um að í kjölfar þessa hafi kærða ráðið kæranda frá því að kæra ofangreindan úrskurð til æðra stjórnvalds.

 

Þann 30. júní 2016 sendi kærandi tölvubréf til kærðu þar sem hann kvaðst ekki vilja una úrskurði sýslumanns og óskaði eftir að kærða myndi annast kæru vegna úrskurðarins. Þá setti kærandi fram þær kröfur í tölvubréfinu sem aðilinn óskaði eftir að kæmu fram í kærunni. Samkvæmt málatilbúnaði kærðu fyrir nefndinni er ekki ágreiningur um að kærandi hafi viljað kæra úrskurðinn og að kærða hafi orðið við beiðni hans um aðstoð við kæruna.

 

Með tölvubréfi kæranda til kærðu þann 12. júlí 2016 óskaði kærandi eftir upplýsingum um stöðu kærunnar.

 

Þann 18. júlí 2016 sendi kærða tölvubréf til kæranda þar sem óskað var eftir að kærandi færi yfir úrskurðarorð sýslumanns um fyrirkomulag umgengninnar og léti vita hvaða breytingar hann vildi sjá. Var tiltekið að kröfugerðin yrði tvíþætt, aðallega að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi vegna form- og efnisannmarka til en til vara að honum yrði breytt til samræmis við tillögur kæranda. Þá kvaðst kærða ætla að senda inn kæruna þennan sama dag og óska eftir fresti til að leggja fram greinargerð.

 

Kærandi svaraði tölvubréfi þessu samdægurs með fyrirspurn um hvort kærufrestur hefði ekki runnið út daginn áður, þ.e. þann 17. júlí 2016, þar sem úrskurðurinn hafi verið undirritaður og dagsettur X. maí 2016. Auk þess setti kærandi fram þær kröfur sem hann vildi gera í kærunni.

 

Fyrir úrskurðarnefndinni liggja fyrir kæra til innanríkisráðuneytisins og greinargerð með kæru, dags. 18. júlí 2016, en skjölin voru undirrituð af kærðu fyrir hönd kæranda.

 

Þann X. janúar 2017 kvað innanríkisráðuneytið upp úrskurð í málinu, sem hafði hlotið málsnúmerið X. Var vísað til þess í úrskurðinum að kæra kærðu, fyrir hönd kæranda, vegna úrskurðar sýslumanns, dags. X. maí 2016, hefði borist ráðuneytinu þann 19. júlí 2016. Þá var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 78. gr. barnalaga nr. 76/2003 væri málsaðilum heimilt að kæra úrskurð sýslumanns til ráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans og að samkvæmt því væri ljóst að kærufrestur hefði verið liðinn þegar ráðuneytinu hefði borist kæra í málinu. Með vísan til þess, og þar sem hvorki var talið að 1. né 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga væri fullnægt bæri, með skírskotun til 78. gr. barnalaga og 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa málinu frá ráðuneytinu. Samkvæmt því var kæru kæranda á úrskurði sýslumannsins á Suðurlandi frá X. maí 2016 vísað frá ráðuneytinu.

 

Með tölvubréfi kærðu til kæranda, dags. 17. janúar 2017, var upplýst um að ráðuneytið hefði vísað málinu frá þar sem úrskurðurinn hefði verið sóttur 15. nóvember en kæran borist 17. nóvember. Tiltók kærða að upplýsingar sem hún hefði fengið frá kæranda um móttöku á úrskurðinum hefðu því ekki verið réttar.

 

Kærandi svaraði tölvubréfi kærðu þennan sama dag þar sem hann kvaðst ekki skilja hvað kærða ætti við með að upplýsingar um móttöku á úrskurðinum hefðu ekki verið réttar og vísaði um það efni til tölvubréfasamskipta aðila frá 30. júní og 12. og 18. júlí 2016, sem áður er lýst. Þá kvaðst kærði ekki skilja þær dagsetningar sem kærða hefði vísað til, þ.e. 15. og 17. nóvember. Óskaði kærandi skýringa á þessu í tölvubréfinu.

 

Í tölvubréfi þann 18. janúar 2017 kvaðst kærða vera búin að fara yfir málið og að kærufrestur hefði byrjað að líða þegar kærandi hefði verið kominn með úrskurðinn í hendur.  Samkvæmt fyrri samskiptum aðila hefði kærða gengið út frá að fresturinn hefði byrjað að líða þann 19. maí 2016 og hann því runnið út þann 19. júlí sama ár. Kærandi svaraði tölvubréfi kærðu þann sama dag og taldi að um klúður af hálfu kærðu væri að ræða. Kvaðst hann ætla að leita til Lögmannafélagsins ef ekki semdist um á milli aðila.

 

Aðilar áttu í frekari tölvubréfasamskiptum vegna málsins á tímabilinu frá 19. janúar 2017 til 7. febrúar 2017. Kom þar meðal annars fram hjá kærðu að hún skyldi óska eftir endurupptöku málsins hjá ráðuneytinu. Kvaðst kærandi þá ekki hafa áhuga á þjónustu kærðu lengur. Í kjölfar þess bauðst kærða til að endurgreiða kæranda síðasta reikning sem hafði verið til kominn vegna vinnu við kæru til ráðuneytisins. Sendi kærandi greiðsluupplýsingar til kærðu í framhaldi af því.

 

Af gögnum málsins verður hvorki séð að aðilar hafi átt í frekari samskiptum eftir 7. febrúar 2017 né að kærða hafi sinnt frekari lögmannsstörfum fyrir kæranda eftir uppkvaðningu úrskurðar innanríkisráðuneytisins þann X. janúar 2017.

 

Kærandi kveðst hafa greitt alls 487.915 krónur vegna lögmannsstarfa kærðu, þ. á m. 190.500 krónur vegna reksturs kærumálsins fyrir innanríkisráðuneytinu. Því til staðfestingar liggja fyrir úrskurðarnefndinni kvittanir vegna millifærslna kæranda inn á reikning lögmannsstofu kærðu frá 22. desember 2015 að fjárhæð 154.427 krónur, 19. febrúar 2016 að fjárhæð 142.988 krónur, 3. ágúst 2016 að fjárhæð 65.000 krónur, 1. september 2016 að fjárhæð 63.500 krónur og 28. september 2016 að fjárhæð 62.000 krónur. Ekki verður séð að ágreiningur sé um þetta efni samkvæmt málatilbúnaði kærðu fyrir nefndinni.

 

Kærða hefur hins vegar vísað til þess að hún hafi endurgreitt kæranda kostnað vegna kærumálsins fyrir innanríkisráðuneytinu og hefur hún um það efni vísað til framlagðra kvittana vegna millifærslna inn á reikning kæranda frá 1. febrúar 2017 að fjárhæð 65.000 krónur, 3. mars 2017 að fjárhæð 65.000 krónur, 9. mars 2017 að fjárhæð 60.000 krónur, þ.e. samtals 190.000 krónur. Byggir kærða á að málinu sé að fullu lokið þar sem kostnaður við kæruna hafi verið að fullu endurgreiddur.

 

II.

Kærandi gerir þær kröfur í málinu að kærðu verði gert að sæta áminningu vegna vanrækslu á hagsmunagæslu í þágu kæranda, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og 5. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna, og að kærðu verði gert að endurgreiða allt það endurgjald sem kærandi greiddi kærðu í málinu, alls 487.915 krónur, sbr.  1. mgr. 26. gr. laga nr. 77/1998. Til vara gerir kærandi kröfu um að kærða endurgreiði kæranda allt það endurgjald sem hlaust af málsskoti til innanríkisráðuneytisins, alls 190.500 krónur, að frádregnum 65.000 krónum sem kærða greiddi kæranda þann 1. febrúar 2017. Þá krefst kærandi dráttarvaxta samkvæmt almennum reglum kröfuréttar auk þess sem gerð er krafa um málskostnað.

 

Samkvæmt málatilbúnaði kæranda beinist kvörtun aðilans að vanrækslu kærðu á hagsmunagæslu í þágu kæranda. Vísar kærandi til þess að hann hafi leitað til kærðu um haustið 2015 vegna umgengnisdeilu við barnsmóður sína. Hafi málið verið rekið fyrir sýslumanninum á Suðurlandi sem hafi kveðið upp úrskurð í málinu þann X. maí 2016. Kveðst kærandi hafa falið kærðu að kæra úrskurðinn til innanríkisráðuneytisins en að því hafi ekki verið sinnt fyrr en eftir að lögboðinn frestur var útrunninn.

 

Þá vísar kærandi til þess að ráðuneytið hafi sent kærðu bréf þar sem henni hafi verið veittur kostur á því að tjá sig um ástæður þess að kæra hafi ekki borist innan kærufrests. Því bréfi hafi ekki verið svarað af hálfu kærðu. Úrskurður ráðuneytisins hafi verið kveðinn upp hinn X. janúar 2017 þar sem kærunni hafi verið vísað frá ráðuneytinu. Þegar kærða hafi kynnt kæranda niðurstöðuna hafi kærða látið að því liggja að drátturinn hafi verið kæranda að kenna.

 

Kærandi kveðst hafa átt tölvubréfasamskipti við kærðu eftir að kærufrestur hófst, þ.e. þann 30. júní 2016, þar sem óskað hafi verið eftir því að úrskurði sýslumanns yrði skotið til ráðuneytisins. Hafi kærandi sent kærðu tölvubréf þann 12. júlí 2016 og spurst fyrir um fréttir af kærunni en að því erindi hafi ekki verið svarað af hálfu kærðu. Þá hafi kærða sent kæranda tölvubréf þann 18. júlí 2016 ásamt greinargerð vegna kærunnar. Í kjölfar þessa hafi kærandi spurt kærðu hvort kærufrestur væri ekki liðinn en þeirri fyrirspurn hafi ekki verið svarað af hálfu kærðu.

 

Í andsvörum kæranda við greinargerð kærðu er vísað til þess, varðandi fullyrðingu kærðu um að engin rök hnígi til þess að endurgreiddur verði allur kostnaður kæranda af málinu, að fyrir liggi að öll vinna kærða í þágu kæranda hafi verið unnin fyrir gíg. Með því að senda kæru til innanríkisráðuneytisins of seint hafi kærða svipt kæranda rétti til að bera úrskurð sýslumanns undir æðra stjórnvald. Samkvæmt því eigi kærandi þann einn kost að hefja málsmeðferð frá grunni með tilheyrandi kostnaði.

 

Þá kveðst kærandi furða sig á vangaveltum kærðu um hvenær kærufrestur byrji að líða. Mótmælir kærandi sérstaklega viðleitni kærðu um að fella ábyrgðina á kæranda um að kæran hafi verið lögð fram eftir að kærufresti var lokið. Í úrskurði sýslumanns hafi þannig berum orðum verið sagt að hann mætti kæra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans.

 

III.

Skilja verður málatilbúnað kærðu þannig að hún krefjist þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað í málinu, að teknu tilliti til þess að kærða hafi þegar endurgreitt kæranda kostnað vegna kærumálsins fyrir innanríkisráðuneytinu, sbr. varakröfu kæranda í málinu.

 

Kærða mótmælir því annars vegar að hún hafi brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn enda verði ekki séð hvernig það brot hafi átt sér stað. Hins vegar telur kærða engin rök til þess að endurgreiða allan kostnað sem kærandi hafi haft af umgengnismálinu. Hafi kærða skilað óaðfinnanlegri og vandaðri vinnu eins og gögn málsins beri með sér.

 

Kærða lýsir sig ósammála túlkun lögfræðinga innanríkisráðuneytisins um að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran var móttekin í ráðuneytinu. Þegar kærandi hafi afþakkað endurgjaldslausa vinnu kærðu við kröfu um endurupptöku málsins hafi aðilinn fallist á þær málalyktir að fá kostnað við kæruna endurgreiddan. Lítur kærða svo á að málið sé niður fallið með greiðslu þess kostnaðar að fullu.

 

Kærða vísar til þess að kærandi hafi leitað til lögmannsstofu sinnar vegna umgengnismáls þann 6. október 2015. Hafi starf kærðu falist í að krefjast umgengni kæranda við börn aðilans og sjá um öll samskipti við embætti sýslumannsins á Suðurlandi, bæði í sáttameðferð og í úrskurðarferli. Eftir lok sáttaferlis hafi verið settar fram kröfur kæranda um umgengni og hafi kærða ritað ítarlega greinargerð með kröfugerðinni. Með úrskurði sýslumanns hafi verið gengið að nær öllum kröfum kæranda en þar hafi ráðið mestu um hina reglulegu umgengni. Með því hafi verið fallist á umgengni aðra hverja helgi þann mánuð sem kærandi væri í landi eins og beðið hafi verið um en ekki fallist á að önnur umgengnishelgin myndi ráðast af því hvenær löndun ætti sér stað. Mótmælir kærða því alfarið að kærandi eigi rétt til endurgreiðslu kostnaðar sem kærða hafði af þjónustu við kæranda.

 

Kveðst kærða hafa ráðið kæranda frá því að kæra úrskurðinn þar sem ekki væri um magn hinnar reglulegu umgengni að ræða heldur tímasetningar annarrar helgarinnar. Þá hafi kærða upplýst kærða um að breytileg umgengni færi í bága við þær meginreglur barnaréttar sem sneru að stöðugleika í lífi barna. Þrátt fyrir það hafi kærandi haldið vilja sínum til streitu og hafi kærða orðið við beiðni hans um aðstoð við kæruna.

 

Kærða vísar til þess að hún hafi óskað eftir upplýsingum frá kæranda um það hvenær hann hefði fengið úrskurðinn í hendur enda álit kærðu að fresturinn í 1. mgr. 78. gr. barnalaga nr. 76/2003 geti aldrei byrjað að líða fyrr en sá sem nýta vill rétt sinn geti átt þess kost að kynna sér efnisinnihald þess úrskurðar sem hann vill kæra. Hafi kærða fengið þær upplýsingar 18. maí 2016 frá kæranda að dóttir hans myndi sækja úrskurðinn daginn eftir.

 

Kveðst kærða hafa skilað inn kæru vegna málsins þann 19. júlí 2016 en að málinu hafi verið vísað frá innanríkisráðuneytinu þann X. janúar 2017 þar sem kæran var talin hafa borist of seint.

 

Í kjölfar þess hafi kærða boðist til að krefjast endurupptöku málsins, kæranda að kostnaðarlausu. Að mati kærðu leiðir túlkun ráðuneytisins til þess að borgari geti orðið af rétti sínum til að bera íþyngjandi ákvörðun undir æðra stjórnvald, t.d. í þeim tilvikum þegar ekki hefur tekist að birta fyrir honum. Þegar kærandi hafi afþakkað aðstoð við endurupptöku hafi honum verið boðin endurgreiðsla kostnaðar við kæruna sem hann hafi þegið. Þar sem kostnaðurinn hafi verið endurgreiddur að fullu byggir kærða á að málinu sé nú að fullu lokið.

 

Kærða hafnar því alfarið að hafa brotið gegn 27. gr. laga nr. 77/1998 enda hafi hún unnið af miklum heilindum fyrir kæranda og lagt mikinn metnað í vinnuna sem hafi skilað góðum árangri varðandi umgengnisfyrirkomulagið.

 

 

Niðurstaða

Í máli þessu þarf í fyrsta lagi að taka afstöðu til þess hvort kærða hafi gerst brotleg við lög eða siðareglur lögmanna þannig að rétt þyki að beita agaviðurlögum og í öðru lagi að fjalla um fjárhagslegt uppgjör aðila vegna lögmannsstarfa kærðu.

 

I.

Sá sem telur lögmann hafa í störfum sínum gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna getur sent kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í afgreiðslu á erindi sem berst nefndinni getur hún fundið að vinnubrögðum lögmanns eða veitt honum áminningu, ef um stórfelld eða ítrekuð brot er að ræða, sbr. 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga. Ef sakir eru miklar eða lögmaður hefur ítrekað sætt áminningu getur nefndin í rökstuddu áliti lagt til við ráðherra að réttindi lögmannsins verði felld niður tímabundið eða hann sviptur réttindum.

 

Samkvæmt 18. gr. lögmannalaga ber lögmönnum í hvívetna að rækja af alúð þau störf sem þeim er trúað fyrir og neyta allra lögmætra úrræða til að gæta lögvarinna hagsmuna umbjóðenda sinna. Er slíkt enn fremur áréttað í 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna þar sem tiltekið er að lögmaður skuli leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna í samræmi við þá meginreglu 1. gr. að lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti og leggja svo til allra mála, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

 

Úrskurður sýslumannsins á Suðurlandi, í því umgengnismáli sem kærða rak fyrir kæranda, var kveðinn upp þann X. maí 2016. Í úrskurðarorði var sérstaklega tekið fram að úrskurðinn mætti kæra til innanríkisráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans, sbr. 1. mgr. 78. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 76/2003 er aðilum máls heimilt að kæra úrskurð sýslumanns til ráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans. Um meðferð kærumálsins fer samkvæmt stjórnsýslulögum og ákvæðum laga nr. 76/2003 eftir því sem við getur átt.

 

Eins og greinir í málsatvikalýsingu að framan er ágreiningslaust að kærandi óskaði eftir við kærðu að úrskurður sýslumanns yrði kærður til hins æðra stjórnvalds. Þá liggur jafnframt fyrir að kærða tók að sér hagsmunagæslu fyrir kæranda vegna kærumálsins, þ. á m. að rita kæru og leggja hana inn til innanríkisráðuneytisins.

 

Fyrir liggur að innanríkisráðuneytinu barst tilgreind kæra kærðu, fyrir hönd kæranda, þann 19. júlí 2016. Í úrskurði ráðuneytisins, dags. X. janúar 2017, var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 76/2003 hefði kærufrestur verið liðinn þegar ráðuneytinu barst kæra í málinu. Þá var tiltekið að kærðu hefði verið gefinn kostur á að tjá sig um ástæður þess að kæra hefði ekki borist innan kærufrests með ábyrgðarbréfi ráðuneytisins en að engar skýringar hefðu borist. Var kærunni því vísað frá ráðuneytinu með skírskotun til 78. gr. barnalaga og 28. gr. stjórnsýslulaga.

 

Af fyrirliggjandi samskiptum aðila í kjölfar úrskurðar sýslumanns, dags. X. maí 2016, mátti kærðu vera ljóst að kærandi lagði mikla áherslu á að úrskurðurinn yrði kærður og að slíkt varðaði aðilann miklu. Þrátt fyrir áréttingar kæranda í því efni innan kærufrests var úrskurðurinn ekki kærður fyrr en að fresturinn var liðinn. Um skýringar á því hefur kærða vísað til þess eins fyrir nefndinni að hún sé ósammála túlkun innanríkisráðuneytisins á kærufrestinum þar sem hann geti aldrei byrjað að líða að hennar mati fyrr en við móttöku hins kæranlega úrskurðar.

 

Að áliti nefndarinnar verður að gera þá kröfu til lögmanns að hann þekki reglur um kærufresti, bæði almennar reglur sem og sérreglur eins og þá sem gildir samkvæmt barnalögum nr. 76/2003. Að áliti nefndarinnar er ákvæði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 76/2003 skýrt um upphaf kærufrests auk þess sem sérstaklega var tiltekið í úrskurðarorði sýslumanns að úrskurðinn mætti kæra innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans. Er það álit nefndarinnar að kærðu hafi samkvæmt því borið, óháð eigin skoðun og túlkun á upphafi kærufrestsins, að miða upphaf kærufrestsins við X. maí 2016 í hagsmunagæslu fyrir kæranda vegna kærumálsins. Varðandi skýringar og túlkun kærðu verður jafnframt ekki fram hjá því litið sem greinir í úrskurði innanríkisráðuneytisins um að undir rekstri málsins hafi henni verið gefinn kostur á að tjá sig um ástæður þess að kæra hafi ekki borist innan kærufrests en að engar skýringar hafi borist. Verður kærða að bera hallann af því að hafa ekki veitt skýringar um þetta efni í samræmi við túlkun hennar á upphafi kærufrests í málinu.

 

Er það álit nefndarinnar að vanræksla kærðu að þessu leyti hafi verið í brýnni andstöðu við 18. gr. lögmannalaga og 1. mgr. 8. gr. siðareglna lögmanna sem áður er lýst. Samkvæmt því telur nefndin að það hafi verið aðfinnsluvert af hálfu kærðu að láta kærufrestinn líða án þess að hafast nokkuð að sem og að veita ekki skýringar á ástæðum þess að kæra barst ekki innan kærufrestsins þegar eftir því var leitað hjá kærðu af hálfu innanríkisráðuneytisins, enda ein af grundvallarskyldum lögmanns gagnvart skjólstæðingi jafnan að forðast að valda honum réttarspjöllum, sbr. II. kafla siðareglnanna.

 

Nefndin telur á hinn bóginn að ekki sé tilefni til áminningar vegna þeirrar háttsemi sem hér um ræðir, eins og gerð er krafa um í málatilbúnaði kæranda.

 

II.

Hægt er að skjóta ágreiningi um rétt lögmanns til endurgjalds og fjárhæð þess til úrskurðarnefndar lögmanna, sbr. 26. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. lögmannalaga er lögmanni rétt að áskilja sér hæfilegt endurgjald fyrir störf sín og skal umbjóðanda hans, eftir því sem við verður komið, gert ljóst hvert það gæti orðið í heild sinni. Þar á meðal getur lögmaður áskilið sér hluta af þeirri fjárhæð sem umbjóðandi fær greitt í máli, svo og hærra endurgjald ef mál vinnst en ef það tapast. Loforð um ósanngjarnt endurgjald fyrir starf lögmanns bindur ekki umbjóðanda hans sbr. 2. mgr. 24. greinar.

 

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. siðareglna lögmanna ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir áætluðum verkkostnaði og öðrum málskostnaði eftir föngum, og vekja athygli hans, ef ætla má, að kostnaður verði hár að tiltölu við þá hagsmuni, sem í húfi eru. Ber lögmanni að gera skjólstæðingi grein fyrir á hvaða grundvelli þóknunin er reiknað.

 

Þá segir í 15. gr. siðareglnanna að lögmanni beri að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í hverju máli. Sé þóknun áskilin á grundvelli tímagjalds skulu upplýsingar veittar úr tímaskýrslu ef eftir þeim er leitað.

 

Í fyrirliggjandi verkbeiðni/umboði, dags. 6. október 2015, vegna fyrirhugaðra lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda, skuldbatt kærandi sig til að greiða lögmannsstofu kærðu fyrir umbeðna og veitta þjónustu samkvæmt gjaldskrá stofunnar á hverjum tíma á grundvelli tímaskráningar á verkinu. Var tiltekið að tímaskýrsla skyldi fylgja reikningum hverju sinni og að gjaldskráin hefði verið kynnt kæranda. Þá var tiltekið að kærandi hefði verið upplýstur um áætlaðan heildarkostnað af verkinu, þ.e. þóknun og útlagðan kostnað.

 

Þá liggur fyrir að kærandi greiddi þá reikninga, sem kærða gaf út, án sérstakra athugasemda um tímafjölda, tímagjald eða heildarfjárhæð. Í málatilbúnaði kæranda um þetta efni hefur aðilinn vísað til þess að á grundvelli frávísunarúrskurðar innanríkisráðuneytisins hafi öll vinna kærðu í þágu kæranda verið unnin fyrir gíg. Ef ráðuneytið hefði þannig fjallað efnislega um málið hefði kærða verið vel að öllu endurgjaldi fyrir vinnu sína komin.

 

Með hliðsjón af framangreindu verður að leggja til grundvallar að ágreiningur um endurgjaldið snúist einvörðungu um hvort hæfilegt hafi verið að gera kröfu um hið áskilda endurgjald að teknu tilliti til þeirra atvika sem að framan er lýst.

 

Kærandi greiddi kærðu alls 297.415 krónur vegna meðferðar umgengnismálsins fyrir sýslumanninum á Suðurlandi. Eins og áður er lýst verður að leggja til grundvallar að ekki hafi verið nokkur ágreiningur um áskilið endurgjald vegna lögmannsstarfa kærðu í þágu kæranda á því stigi málsins eða um gæði þeirra starfa. Með hliðsjón af því, sem og með vísan til þess að umgengnismál eru í eðli sínu að jafnaði hvorki einföld né fljótunnin mál enda mikilvægir hagsmunir málsaðila í húfi, er það álit nefndarinnar að áskilið endurgjald kærðu vegna þessa þáttar málsins hafi verið hæfilegt endurgjald í skilningi 24. gr. laga nr. 77/1998. Samkvæmt því er aðalkröfu kæranda, um að kærðu verði gert að endurgreiða kæranda allt það endurgjald sem kærandi greiddi kærðu vegna málsins, hafnað.

 

Kærandi greiddi hins vegar kærðu alls 190.500 krónur vegna meðferðar kærumálsins fyrir innanríkisráðuneytinu. Í málinu hefur kærandi gert þá kröfu til vara að kærða endurgreiði kæranda allt það endurgjald sem hlaust af tilgreindu kærumáli fyrir innanríkisráðuneytinu. Af málatilbúnaði kærðu og þeim gögnum sem liggja fyrir nefndinni verður ráðið að kærða hafi fallist á þá kröfu kæranda og að hún hafi þegar endurgreitt kæranda þann kostnað, sbr. millifærslukvittanir frá 1. febrúar 2017, 3.mars 2017 og 9. mars 2017. Fá þau málalok samrýmst því mati sem nefndin hefur lagt til grundvallar í fyrri úrskurðum sínum varðandi hæfilegt endurgjald, þ.e. í þeim tilvikum þegar nefndin hefur talið sýnt að vinna lögmanns hafi ekki nýst af ástæðum sem hann ber sjálfur ábyrgð á að nokkru eða öllu leyti. Þar sem kærða hefur þegar endurgreitt kæranda samkvæmt endurgreiðslukröfu aðilans að þessu leyti, sbr. varakröfu kæranda, er ekki talin þörf á að kveða á um þau málalok í úrskurði þessum.

 

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat nefndarinnar að hæfilegt endurgjald fyrir lögmannsstörf kærðu í þágu kæranda sé 297.415 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Í þeirri niðurstöðu felst að kærandi hefur þegar innt af hendi greiðslu til kærðu vegna lögmannsstarfa hennar og að kærða hafi endurgreitt kæranda kostnað sem féll til vegna tilgreinds kærumáls fyrir innanríkisráðuneytinu.

 

Ekki eru efni til að verða við kröfu kæranda um dráttarvexti „samkvæmt almennum reglum kröfuréttar" og er þeirri kröfu vísað frá nefndinni.

 

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Sú háttsemi kærðu, B hdl., að láta hjá líða að kæra úrskurð sýslumannsins á Suðurlandi, dags. X. maí 2016, til innanríkisráðuneytisins innan kærufrests og að veita ekki skýringar á ástæðum þess þegar eftir því var leitað hjá kærðu af hálfu innanríkisráðuneytisins er aðfinnsluverð.

 

Hæfilegt endurgjald kærðu, B hdl., vegna starfa hennar í þágu kæranda, A, er 297.415 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

Kröfu kæranda um dráttarvexti „samkvæmt almennum reglum kröfuréttar" er vísað frá nefndinni.

 

 

ÚRSKURÐARNEFND LÖGMANNA

Kristinn Bjarnason hrl., formaður.

Einar Gautur Steingrímsson hrl.

Valborg Þ. Snævarr hrl.

 

Rétt endurrit staðfestir

________________________

Kristinn Bjarnason hrl.